Fimmtudagur 23.05.2013 - 12:45 - Lokað fyrir ummæli

Nagað bílsæti og slanga í munn

Undanfarið – sérstaklega um helgar – hafa leitað á mig spurningar um tilgang fréttatíma, og fréttamat. Hvað er fréttnæmt, hver ákveður það og hvers vegna?

Oftast gerist þetta þegar ég er ein með barni í bíl. Börn hafa oft lítið um það að segja hvert þau fara og hvers vegna, eru bara bundin í sinn stól og mega láta sér lynda það útsýni sem rennur framhjá gluggunum. Þau verða líka (oft) að gera sér að góðu það útvarpsefni sem foreldri velur. Hluti af því er gjarnan fréttalestur.

Fréttalestur: rödd sem rekur – oft í smáatriðum – frásagnir af fólki sem springur í loft upp í verslunarferð, kremst í hrundu húsi, brennur inni, er numið á brott. Oftast er það sem fyrir fólk kemur neikvætt, alltof sjaldan þykir fréttnæmt að einhver hafi fengið góða hugmynd eða bara fengið að gera eitthvað skemmtilegt. Það eru háar kröfur til góðra frétta – þær þurfa að vera mjög góðar – til að þær rati í opinberan lestur. Slæmar fréttir virðast ekki þurfa að vera merkilegar.

Eru þetta kannski grýlusögur nútímans? Það var barn í dalnum sem datt oní gat. Vingur slyngur vara þína fingur?

Ég brá við skjótt um daginn og lækkaði í útvarpinu á meðan þulurinn lýsti því hvernig maður var bundinn í stól, slanga sett upp í hann og vatni hellt um hana þar til honum lá við köfnun (Guantanamo?). Mér fannst alveg óþarfi að 5 ára guttinn væri að hlusta á þessa sögu. Hækkaði aftur fljótlega, en þá voru óvart börn að springa í loft upp, lækkaði aftur. Hækkaði svo á ný og þá var verið að nema stúlku á brott. Stráksi vildi vita af hverju ég hefði slökkt. „Æ, þetta eru bara svo ljótar sögur fyrir þig að hlusta á. –  „Já, en það er engin mynd og ekkert blóð sem ég sé svo það er allt í lagi“, sagði hann. Ég var ósammála, sagði að hann væri nú með svo frjótt ímyndunarafl að hann sæi þetta allt fyrir sér, svo það breytti í raun ekki miklu hvort myndin væri með eða ekki.Hann keypti þau rök.

Nú verða þuldar hörmungar

Kannski ættu þulirnir ekki að segjast lesa fréttir, heldur vara sérstaklega við í upphafi lestrar, t.d. með orðunum: „Útvarp Reykjavík, nú verða þuldar hörmungar.“ Þá gæti fólk bara valið að slökkva. Eða hafa sér innslög, svona eins og íþróttir eða veður. Eða láta sér nægja að segja: til átaka kom í Langtíburtistan þar sem andstæðar fylkingar stríða nú um stundir. Nánari lýsingar á voðaverkum er að finna á vef Ríkisútvarpsins.

Ég viðurkenni alveg þann tilgang frétta að upplýsa fólk um gang heimsmálanna. Það er gott að vita ýmislegt, en að sama skapi er gott að heyra jákvæðar fregnir. Passa aðeins upp á jafnvægið. Svo er kannski óþarfi að vera mjög grafískur í hörmungalýsingum. „Notað var nælonsnæri til að binda manninn“ – þarf ég að vita það? Gætum við ekki nýtt tímann sem myndi losna við að sleppa grafískum lýsingum á voðaverkum í að fjalla málefnalega um landsins gagn og nauðsynjar?

Stundum er jú gúrka, frá fáu að segja. Þá fyndist mér alveg í lagi að menn segðu bara eins og er: það er ekkert sérstakt í fréttum, haldið þið bara áfram að vera frábær og við látum ykkur vita þegar eitthvað gerist.

Þeir gætu jafnvel bara farið með gamanmál, frekar en að lesa oft á dag, eins og gerðist einhverja helgina um daginn: „Drukkinn maður var handtekinn á Selfossi í nótt. Meðal þess sem hann gerði, eftir að hann var tekinn upp í bílinn hjá Lögreglunni, var að naga áklæðið á bílsætinu svo á því sá.“

Þarf ég að vita þetta?

Flokkar: Dægurmál

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Guðlaug Kristjánsdóttir
Bæjarfulltrúi í Hafnarfirði
RSS straumur: RSS straumur