Ísland er eyland, heimkynni fámennrar þjóðar. Fámennrar, en um leið fróðleiksfúsrar og metnaðargjarnrar þjóðar, góðu heilli.
Svo lengi sem elstu menn muna höfum við Íslendingar sótt okkur menntun og þekkingu út fyrir landsteinana. Það háttalag er ekki einvörðungu eðlilegt, heldur beinlínis nauðsynlegt jafn fámennu samfélagi. Okkur ber öllum að þakka þeim sem freista gæfunnar við nám og störf handan hafs og draga þannig björg í okkar sameiginlega þjóðarbú.
Nú hefur formaður fjárlaganefndar Alþingis viðrað þá (að vísu einka-) skoðun að kannski væri rétt að refsa fólki fjárhagslega sem ekki skilar sér heim til Íslands að loknu námi erlendis.
Allir eiga vitaskuld rétt á sinni skoðun, en þegar formaður fjárlaganefndar er annars vegar er alltaf ákveðin hætta á því að skoðun verði að tillögu sem síðar verði jafnvel að framkvæmd.
Haldið ykkur heima
Námslán og endurgreiðsla þeirra eru ytra samhengi skoðunar formanns fjárlaganefndar um refsiaðgerðir. Námsmenn sem taka lán hjá LÍN verði semsagt látnir gjalda sérstaklega fyrir það að sækja ekki bara menntun, heldur líka starfsreynslu, út fyrir landsteinana.
Ekki hefur að mínu viti verið útlistað hversu lengi fólk þyrfti að dvelja erlendis að námi loknu til að lenda í refsiaðgerðum. Síst vildi ég eiga sæti í þeim hópi sem falið yrði að draga rautt strik í það gráa svæði sem aðskilur lok náms og upphaf starfs, hvað þá þegar horft er til margra ólíkra landa.
Fjárfesting í menntun – hvað borgar sig?
Námslán eru bara hluti þeirrar fjárfestingar sem snýr að menntun þjóðarinnar. Það geta vart talist fagleg vinnubrögð að taka upp „latningar“-kerfi til náms, af þeirri tegund sem útlandaálag á námslánaendurgreiðslur yrði. Enda mjög varhugavert að reyna að stuðla að því að allt sé kennt í heimahögum hjá þjóð sem ekki nær hálfri milljón að fjölda. Sumt er ekki bara gott, heldur líka nauðsynlegt, að sækja yfir bæjarlækinn.
Varúð, útlönd
Vilji stjórnvöld hvetja fólk til að hverfa heim til starfa að námi loknu væri þeim nær að setja upp hvatakerfi í þeim tilgangi. Slíkt þekkist víða erlendis, í ýmsum útfærslum.
Að bregðast við varnaðarorðum um hættu á atgervisflótta frá landi sem býr við ósamkeppnishæfan vinnumarkað vegna gjaldeyrishafta og einangrandi aðstæðna með því að hóta fólki refsingum – er auðvitað fullkomlega fráleitt. Ekki síst í ljósi fjölda ályktana og ábendinga um að efling nýsköpunar og þekkingar – með tilheyrandi tengslum við umheiminn – sé lykillinn að aukinni farsæld Íslands til framtíðar, forsenda fyrir árangursríkri framþróun.
Hvernig væri að laga frekar þjóðarbúskapinn, opna hagkerfið og efla vinnumarkað fyrir háskólamenntaða? Það væri þó eitthvað ofan á brauð.