Kæru Hafnfirðingar, góðir gestir – gleðilega hátíð!
Það er hjarta í Hafnarfirði. Það sjáum við glöggt á degi sem þessum, 17. júní, þegar lífið streymir um götur bæjarins í allri sinni fjölbreytni og litadýrð. Hér er gaman að vera og gott að vera til.
Þakka ykkur öllum fyrir að lífga upp á bæinn, við skulum njóta þess að vera saman á þjóðhátíðardaginn, sem og aðra daga.
Skrúðgangan hófst á óhefðbundnum stað í dag með því að bæjarbúum var boðið í afmæli til Hraunbúanna í skátaheimilið sem fagnar 20 ára afmæli í dag. Takk fyrir boðið kæru skátar og til hamingju með daginn! Megi Hraunbyrgi blómstra áfram með því góða starfi sem þar fer fram.
Síungur bær
Hafnarfjörður fagnar sjálfur kaupstaðarafmæli í júní og á næsta ári verða árin orðin hundrað og tíu. Það ár verða líka hundrað ár liðin frá því Ísland hlaut fullveldi og mun því bæði bærinn og landið allt hafa ástæðu til að fagna.
Bærinn okkar er í senn gamall og ungur. Miðbærinn á sér langa sögu, hér byggðust húsin upp í kringum líf og starf með höfnina og sjóinn sem útgangspunkt. Þessi saga heldur áfram, enn kvikna hér hugmyndir og verða að veruleika, enn veðjar ungt fólk á þennan stað til að stofna fyrirtæki sem styrkja bæjarmyndina og glæða miðbæinn lífi.
Starfsemin í dag er önnur en hún var fyrir hundrað árum, en nú sem þá er hún í takt við samtímann, öflug, skapandi og í fremstu röð.
Við þurfum ekki að ganga langt út frá þessum miðpunkti, Thorsplaninu, til að upplifa þetta mannlíf, þessa sköpun og þennan kjark. Gleymum því ekki að við íbúarnir erum lífið í bænum, það er í okkar höndum að styðja og styrkja þetta dýrmæta frumkvæði sem gerir bæinn okkar svo einstakan.
Heilsueflandi Hafnarfjörður
Hafnarfjörður er heilsueflandi samfélag og hefur gert samkomulag við Landlæknisembættið um að setja heilsu í forgang í allri stefnumótun og starfi. Fyrstu verkefnin sem fara af stað undir merkjum þessa samkomulags snúa að yngstu og elstu íbúum bæjarins. Heilsa og vellíðan barna, hvort sem er líkamleg, andleg eða félagsleg, er þar annars vegar og hins vegar heilsuefling eldri borgara.
Skólarnir eru í brennidepli hvað börnin okkar varðar, sem og hið fjölbreytta og öfluga frístundastarf sem bærinn státar af. Við Hafnfirðingar höfum styrkan grunn til að byggja á, sem veitir heilsueflingu byr frá fyrsta degi og gefur fyrirheit um góðan árangur.
Heilsuefling eldri borgara er gríðarlega mikilvægt og verðmætt verkefni. Fjárfesting í heilsu borgar sig margfalt, enda er ómetanlegt að búa við góða heilsu og virkni ævina á enda. Í Hafnarfirði er öflugt félagsstarf í elstu aldurshópunum. Því stýrir fólk sem tekur frumkvæði og hefur metnað fyrir því að gera sífellt betur. Ég hlakka mjög til að sjá heilsueflingarverkefnið fara af stað, en það mun byggja á markvissri þjálfun sem miðar að því að viðhalda og efla líkamlegt jafnt sem andlegt atgervi. Ég veit að eldri borgarar í Hafnarfirði munu taka þátt af krafti og njóta afrakstursins ríkulega.
Hafnfirðingar eignast St. Jósefsspítala
Þessa dagana er langþráður draumur að verða að veruleika. Við Hafnfirðingar erum að fá St. Jósefsspítala í okkar hendur og getum nú loksins sett kraft í það verkefni að glæða hann lífi á ný. Það er heilsuefling fyrir bæjarsálina að þetta fallega hús fái aftur sitt fyrra útlit og reisn og fylli okkur stolti á ný í stað sársauka þegar við göngum þar hjá. Þetta hús og það starf sem þar fór fram á ríkan stað í hjarta bæjarbúa og við höfum öll þörf fyrir að sjá það lifna á ný.
Hvert hlutverk hússins verður mun framtíðin leiða í ljós. Það munum við bæjarbúar ákveða í sameiningu og hvet ég ykkur öll til að koma ykkar hugmyndum á framfæri við starfshópinn sem fá mun það spennandi verkefni að gera tillögur um framtíðarnotkun. Til hamingju Hafnfirðingar!
Vaxandi bær
Hafnarfjörður er að fyllast krafti og sækja í sig veðrið á ný. Bærinn er að vaxa. Nútíð og framtíð fylgja ný tækifæri sem okkur ber að grípa. Markaðsstofa Hafnarfjarðar, nýr samstarfsvettvangur stjórnsýslu, íbúa og atvinnulífs, fagnaði nýlega sínu fyrsta starfsári. Á þessum stutta tíma hefur Markaðsstofan sannað sig sem tengslavettvangur sem eflir samheldni í vaxandi flóru fyrirtækja í bænum. Saman getum við svo margt!
Lifandi söfn
Mig langar að hvetja ykkur sérstaklega til að heimsækja söfnin okkar í dag, sem og aðra daga. Byggðasafnið opnaði nýverið sýningu um skólastarfið í bænum og Hafnarborg er síkvik með sínar fjölbreyttu sýningar. Í dag, 17. júní, hýsir Hafnarborg gestasýningu frá Annríki, þjóðbúningum og skarti, þar sem sjá má þjóðbúninga frá ýmsum tímum.
Reyndar er bærinn allur sýningarsalur á 17. júní þegar þjóðbúningar eru annars vegar. Á þessum degi fyllist Hafnarfjörður nefnilega af gangandi myndastyttum íklæddum dýrmætu handverki hins íslenska búningaarfs. Þetta er fallegur siður, megi hann dafna áfram.
Verum við sjálf!
Lífið er sjaldan litríkara en á 17. júní. Í dag hittast gamlir vinir, skólafélagar og ættingjar á förnum vegi og njóta þess að vera til. Börnin finna eitthvað spennandi að sjá og gera á hverju götuhorni og öllum er okkur boðið heim til Austurgötubúa, sem að þessu sinni sýna náungakærleik í verki með söfnun fyrir nágranna sína sem nýlega misstu húsið sitt.
Hjartað slær í Hafnarfirði og hjartað er hlýtt og kærleiksríkt. Leggjum áfram rækt hvert við annað, eflum heilsu bæjarlífsins, verum virk og tökum þátt!
Þorum umfram allt að vera við sjálf, fjölbreytileikinn er verðmæti út af fyrir sig. Öll erum við einstök þótt öll séum við eins inn við beinið.
Hjartað slær í Hafnarfirði, framtíðin er björt!
Njótið dagsins, kæru Hafnfirðingar, gleðilega þjóðhátið!