Laugardagur 31.8.2013 - 08:30 - FB ummæli ()

AGS og niðurskurður velferðar

Ég hef almennt verið ánægður með starf Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) hér á landi í kreppunni. Þeir voru að mörgu leyti með skynsamlega nálgun á hin gríðarlegu vandamál sem við var að glíma eftir hrun.

Þeir lögðu ekki til stórkostlegan niðurskurð í velferðarmálum, eins og margir óttuðust.

Umfjöllun þeirra um vandann við afnám gjaldeyrishaftanna í nýjustu skýrslu sjóðsins er líka skynsamleg.

En í sömu skýrslu reifa AGS-menn mat á möguleikum til niðurskurðar í heilbrigðis- og menntamálum sem fer illa afvega. Það kemur raunar á óvart.

Þegar menn skoða niðurstöður þeirra um að hægt sé að lækka útgjöld til menntamála (forskóla, grunnskóla og framhaldsskóla) um nálægt 50 milljarða á ári án þess að tapa gæðum og árangri hljóta menn að hrökkva við. Núverandi útgjöld til þeirra skólastiga sem eiga að skila sparnaðinum eru um 75 milljarðar og því ættu allar viðvörunarbjöllur að hringja við svona boðskap.

Forsætisráðherra og heilbrigðisráðherra hafa enda báðir hafnað tillögum AGS.

Menn geta ekki lækkað útgjöld um fjórðung til helmings frá því sem nú er án þess að það komi alvarlega niður á gæðum, hvorki í menntun né heilbrigðisþjónustu.

Stytting námstíma til stúdentsprófs um 1 til 2 ár getur vel verið skynsamleg og álitlegur sparnaðarkostur, en hún skilar engum slíkum happafeng sem AGS nefnir. Fjarri lagi.

Lenging kennslutíma og fækkun kennara á lægri skólastigum gengur ekki nema verulega aukið álag á kennara verði bætt með umtalsverðum kauphækkunum (sem éta upp sparnaðinn að hluta).

Sama er uppi teningnum varðandi tillögur AGS um lækkun heilbrigðisútgjalda. Upptaka tilvísunarkerfis og aukin samkeppni í útboðum lyfjakaupa gætu sparað umtalsverða fjármuni, en ekkert í líkingu við hugmyndir AGS.

Ein tillaga þeirra til sparnaðar er sú að nota í minni mæli stofnanavistun fyrir aldraða og öryrkja og auka heimahjúkrun og umönnun. Það hefur þegar verið gert í ríkum mæli og er Ísland nú með eitt hæsta stig heimahjúkrunar og umönnunarþjónustu á Vesturlöndum. Þar er því lítinn sparnað til viðbótar að hafa.

Að skera niður ca. 50 milljarða í heilbrigðiskerfinu (42% niðurskurður) í viðbót við það sem þegar er orðið í kreppunni, af heildarútgjöldum uppá um 120 milljarða, er fráleitt að geti gerst nema gæðum verið stórlega fórnað.

 

Hvernig fá AGS-menn svona fráleitar niðurstöður?

Jú, þegar aðferðafræði AGS við þetta mat er skoðuð kemur í ljós að þeir gefa sér verulega umdeilanlegar forsendur, t.d. um gæðaviðmið. Þannig setja lönd eins og Mexíkó, Malta, Kýpur og Ísrael gæðaviðmiðið fyrir heilbrigðisþjónustuna.

Að sama skapi setja fátækari ríki en Ísland gæðaviðmið fyrir menntamálin á grunni námsárangurs í PISA könnunum. Í slíkum löndum getur náðst þokkalegur meðalárangur í einkunum, en það getur t.d. byggst á því að matið nái ekki til allra í árganginum (sem hækkar meðaleinkunnina óeðlilega fyrir árganginn).

Ísland fer ekki niður á gæðastig þessara landa öðru vísi en að lækka verulega gæðastig núverandi heilbrigðisþjónustu, sem þegar hefur verið skorin inn að beini. Sama gildir um menntamál, þó spara megi með styttingu námstíma til stúdentsprófs. Háskólastigið á Íslandi er hins vegar vel undir meðaltali OECD-ríkja í kostnaði, en nær þokkalegum árangri.

Heildarútgjöld Íslands til heilbrigðismála voru árið 2009 um 9,6% af landsframleiðslu, þegar meðaltal OECD-ríkja var 9,5%. Að setja Íslandi markmið fyrir heilbrigðisútgjöld sem væri langt fyrir neðan meðaltal OECD (eins og AGS gerir) væri afleitt. Það er vegna þess að hagsældarstig landsins er vel fyrir ofan meðaltal OECD-ríkja.

Ísland getur hagrætt (t.d. með upptöku alvöru tilvísunarkerfis og notkun ódýrari lyfja og miðlægs gagnagrunns fyrir heilbrigðiskerfið), en við hljótum að vera áfram fyrir ofan meðallag OECD-ríkja í heilbrigðisútgjöldum, nema við ætlum að sætta okkur við verulega lélegt heilbrigðiskerfi.

Það verður engin þjóðarsátt um slíka afturför.

Hins vegar má draga ályktun af ýmsu sem fram kemur í skýrslu AGS um að hægt eigi að vera að aftra aukningu heilbrigðisútgjalda í framtíðinni vegna öldrunar íslensku þjóðarinnar. Það er vegna þess, að hluti af núverandi óhagræði kerfisins byggir á fámenni og dreifbýli í landinu. Víða á landinu er þannig geta til að þjóna fleirum án umtalsverðrar aukningar á húsakynnum, búnaði og mannafla.

Sömu rök gilda um menntakerfið með tilliti til fólksfjölgunar. Stór hluti af miklum kostnaði við lægri skólastigin er fámenni og dreifbýli á landsbyggðinni. Þar þarf fólksfjölgun ekki að leiða til mikillar aukningar á kostnaði í framtíðinni.

Hins vegar er Landsspítalinn augljóslega kominn á tíma.

Það er loks athyglisvert að AGS er ekki að leggja til lækkun lífeyrisgreiðslna né tilfærslna til heimila, heldur einkum að leita hagræðingar í velferðarþjónustunni.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 29.8.2013 - 08:25 - FB ummæli ()

Flugvöllinn á landfyllingu í Skerjafirði

Það hefur færst nokkur hiti í flugvallarmálið undanfarið, með undirskriftarsöfnun sem vill festa flugvöllinn í Vatnsmýri til framtíðar.

Mikill stuðningur við áframhaldandi veru flugvallarins í Vatnsmýri er þó til marks um mikilvægi nálægðar flugvallarins við miðborgina.

Þess vegna kemur ekki til greina að flytja millilandaflugið til Keflavíkur. Völlurinn þarf að vera nær. Hólmsheiði kemur til greina, en hefur samt flugtæknilega galla, sem takmarka notkunargildið.

Þá er það kosturinn sem sameinar markmið allra: Flytja flugvöllinn á uppfyllingar í Skerjafirðinum. Það er kostur sem var kannaður í undirbúningi flugvallarkosningarinnar 2001 og sem sérfræðingahópur stjórnvalda fjallaði einnig um árið 2007. Hann er alvöru möguleiki.

Screen shot 2013-08-29 at 8.07.13 AM

Flugvöll á Lönguskerjum má þróa í áföngum. Fyrst færi ein braut yfir á fallegar uppfyllingar í Skerjafirði, eins og á myndinni – og svo restin síðar.

Einnig mætti nota framkvæmdina til að tengja miðborgarsvæðið við Kópavog og/eða Álftanes. Það myndi bæta virkni höfuðborgarsvæðisins. Flugvöllur er því mjög áhugaverður kostur á þessum stað.

Væri þetta ekki of dýrt?

Þetta kostar en verðmæti byggingalandsins sem losnar er hins vegar mun meira. Þetta væri því arðbær framkvæmd.

Er þetta ekki of mikil framkvæmd fyrir okkur eymingjana?

Ef menn skoða uppfyllingarnar sem hafa verið gerðar á Grandagarði sjá þeir að uppfyllingar undir flugvöll í Skerjafirði eru engin risaframkvæmd.

Setjum framtíðarstefnu flugvallarmálsins á  Skerjafjörð og þá fá allir þá lausn sem þeir vilja.

Flugvöllurinn verður áfram við hjarta borgarinnar og glæsilegt nýtt land fæst til að byggja nýja hágæða miðborgarbyggð í Vatnsmýri.

 

Síðasti pistill: Hvernig ójöfnuður skaðar samfélagið

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 28.8.2013 - 13:16 - FB ummæli ()

Hvernig ójöfnuður skaðar samfélagið

Hér er mjög skýr og athyglisverður fyrirlestur frá lýðheilsufræðingnum Richard Wilkinson um meinsemdir ójafnaðarins. Wilkinson og Kate Pickett hafa skrifað tvær áhrifamiklar bækur og fjölda fræðigreina um efnið, sem vakið hafa mikla athygli um allan heim.

Hér sýnir Wilkinson hvernig félagsleg vandamál og verri virkni samfélagsins eru nátengd ójöfnuði í tekjuskiptingunni.

Í ójafnari samfélögum er heilsufar almennings verra, velferð barna minni, afbrot meiri, stærri hluti þjóðarinnar í fangelsi, menntastig almennings lægra, stress meira og lífsgæði fjöldans almennt lakari.

Norrænu velferðarsamfélögin koma vel út  úr öllum slíkum samanburði á lífsgæðum milli þjóða, enda lífskjaraskiptingin með jafnara móti þar.

Félagslegur hreyfanleiki er líka meiri í jafnari samfélögum, þar er auðveldara að vinna sig upp í samfélaginu.

Hér er fyrirlestur Wilkinsons, sem tekur aðeins um 15 mínútur.

 

Hér er svo mögnuð grein eftir Nóbelsverðlaunahafann í hagfræði, Joseph Stiglitz, um ójöfnuðinn í Bandaríkjunum, sem hann skrifar í New York Times dag. Tilefnið er að 50 ár eru nú liðin frá flutningi hinnar áhrifamiklu ræðu Martins Luther King, “I have a Dream” í Washington.

Stiglitz finnst lítt hafa miðað í að bæta bandaríska samfélagið á þessum tíma. Raunar hafi orðið afturför á sumum sviðum, ekki síst vegna aukins ójafnaðar eftir 1980, þegar frjálshyggjan var leidd til öndvegis. Staða svartra og spönskumælandi innflytjenda versnaði svo umtalsvert til viðbótar í kreppunni frá 2008.

 

Síðasti pistill: Sífellt fleiri neita sér um læknisþjónustu

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 27.8.2013 - 09:02 - FB ummæli ()

Sífellt fleiri neita sér um læknisþjónustu

Mikið hefur verið rætt um versnandi gæði heilbrigðisþjónustunnar á síðustu misserum.

Málsmetandi læknar hafa beinlínis sent út neyðarkall og varað við að þróunin geti farið að koma fram í verra heilsufari þjóðarinnar.

Hér eru nýjar tölur frá Hagstofu ESB (Eurostat) og Hagstofu Íslands um hve stór hluti þjóðarinnar hefur þurft að neita sér um læknisaðstoð, fyrir tímabilið 2004 til 2011.

Þeir sem þurftu að neita sér um læknisþjónustu á árinu 2011 voru nærri fjórum sinnum fleiri en á árinu 2006. Alls voru það um 3,8% þjóðarinnar sem neituðu sér um læknisþjónustu 2011.

Ástæðurnar sem viðkomandi gefa upp eru oftast að það sé of dýrt, en einnig að sækja þurfi þjónustuna um of langan veg eða að biðtími sé of langur.

Þurft að neita sér um læknisþjonustu

Í ESB-löndum batnaði aðgengið að læknisþjónustu hins vegar í aðdraganda kreppunnar. Þannig fækkaði þeim sem neituðu sér um læknisþjónustu í aðildarríkjunum að meðaltali úr 5% niður í 3,4% árið 2011.

Á árinu 2011 var Ísland í fyrsta sinn yfir meðaltali ESB-ríkja hvað þetta varðar (3,8% á móti 3,4%).

Viðbúið er að þessi vandi hafi aukist á árinu 2012.

Helsta ástæða vandans er langvarandi þröngur fjárhagur almennings.

Fólk með lágar tekjur neitar sér oftast um læknisþjónustu. Nærri 7% lágtekjufólks neituðu sér um læknisþjónustu árið 2011 á móti 3,8% þjóðarinnar.

Einnig er líklegt að fjölgun íslenskra lækna og hjúkrunarfólks sem stunda hlutastörf í Skandinavíu hafi lengt biðtíma og þar með skert aðgengi að heilbrigðisþjónustunni hér á landi.

Staða heilbrigðismálanna er augljóslega versnandi.

 

Síðasti pistill: Árangur Íslands í hagvexti og horfur til 2014

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 25.8.2013 - 22:03 - FB ummæli ()

Árangur Íslands í hagvexti og horfur til 2014

Menn hafa fárast talsvert yfir ónógum hagvexti á Íslandi og lélegum horfum fyrir árið í ár og það næsta. Margir fara mikinn og telja útlitið afar slæmt.

Slíkt tal eru miklar ýkjur. Árangur Íslands eftir 2010 (botni kreppunnar eftir hrun var náð á árinu 2010) er afar góður og horfur eru nú ágætar – miðað við aðrar þjóðir.

Hins vegar er heimurinn í kreppu og hagvöxtur í alþjóðahagkerfinu, a.m.k. á Vesturlöndum, afar lítill þessi árin, í sögulegu samhengi. Ísland líður fyrir það – eins og aðrar þjóðir.

Hér á eftir birti ég samanburðartölur um hagvöxt í vestrænum löndum fyrir árin 2011 og 2012 og horfur (spár) fyrir 2013 og 2014. Gögnin eru frá Eurostat. Árangur Íslands er alveg ágætur.

Ísland var með tíunda mesta hagvöxtinn af 37 löndum bæði 2011 og 2012. Árið 2011 voru Svíþjóð og Þýskaland einu hagsældarríkin sem höfðu meiri hagvöxt en Ísland. Hin átta ríkin sem voru með meiri hagvöxt voru mun fátækari lönd, eins og Tyrkland, Eistrasaltslöndin, Pólland, Montenegro og Slóvakía.

Árið 2012 voru Noregur, Bandaríkin og Japan einu hagsældarríkin sem höfðu meiri hagvöxt en Ísland. Hin sjö voru mun fátækari lönd, sem eiga almennt auðveldara með að ná meiri hagvexti á uppsveiflunni.

Horfurnar fyrir Ísland á þessu ári (2013) eru ágætar þó okkur þyki hagvaxtarspátölurnar ekki háar (1,8%). Gert er ráð fyrir að Ísland muni vera með áttunda mesta hagvöxtinn á þessu ári og fimmta mesta hagvöxtinn á næsta ári (2014). Það eru góðar horfur í slæmu árferði.

Árangurinn á uppsveiflunni er því allgóður og horfurnar með betra móti miðað við aðrar vestrænar þjóðir. Hér eru svo myndirnar með tölunum fyrir hvert og eitt þessara ára, frá 2011 til 2014.

Menn eiga ekki að tala árangur og horfur Íslands niður, eins og sumir hafa gert.

Hagvöxtur 2011

 

Hagvöxtur 2012

 

Hagvaxtarhorfur 2013

 

Hagvaxtarhorfur 2014

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 25.8.2013 - 09:16 - FB ummæli ()

Rás 2 er mikilvæg fyrir menninguna

Eitt af því sem gjarnan kemur upp þegar hægri menn ráðast á RÚV er að selja megi Rás 2. Einkastöðvar séu alveg jafn færar um að sinna hlutverki hennar, segja þeir.

Þetta er eins rangt og nokkuð getur verið.

Hvers vegna?

Jú, Rás 2 hefur þá sérstöðu að sinna íslenskri dægurtónlist sérstaklega. Hún hefur verið mikilvægur bakhjarl hinnar sérstaklega gróskumiklu íslensku pop tónlistar. Hún hefur líka lagt sig eftir því að flytja tónleika, halda eigin tónleika og kynna hér á landi framsækna nýja tónlist.

Slíkt kynningarstarf á nýrri og framsækinni tónlist fær ekki alltaf mestu hlustun, heldur mikilvæga hlustun. Framlag Rásar 2 er mikilvægt fóður fyrir nýsköpunarfólk í tónlist.

Einkareknu útvarpsstöðvarnar sinna slíku í mun minna mæli eða ekki. Þær eru heldur ekki líklegar til að gera meira af því þó Rás 2 myndi hverfa af markaðinum. Ég hlusta mikið á einkastöðvarnar, en myndi seint segja að þær séu mikilvægar fyrir nýsköpun á Íslandi.

Hvers vegna?

Einkastöðvarnar eru reknar fyrir auglýsingatekjur eingöngu og eru háðar auglýsendum. Þær þurfa að leita sem flestra hlustenda fyrir alla þætti og spila þær því allar mismunandi útgáfur af vinsælustu lögunum hverju sinni (eða vinsæl ofspiluð lög frá fyrri tíð). Tyggjó-popp er þeirra ær og kýr. Annað gengur lítt á einkareknum útvarpsstöðvum, eins og hér tíðkast.

Þannig að þegar sterílu peningakarlarnir í Sjálfstæðisflokknum og aðrir fullyrða að leggja megi Rás 2 niður  eða selja, þá eru þeir að grafa undan hinum frjósama nýsköpunarjarðvegi sem fóstrar skapandi íslenska poptónlist. Þá tónlist sem hefur náð góðum árangri erlendis.

Rás 2 er nefnilega mikilvæg fyrir menninguna.

Þar með er hún líka mikilvæg fyrir ferðaþjónustuna. Til dæmis dregur Airwaves hátíðin að sér fjölda erlendra ferðamanna og unga íslenska tónlistarfólkið sem vekur athygli erlendis fyrir frumlega sköpun sína vekur athygli og áhuga á Íslandi.

Þeir sem ráðast á Rás 2 horfa framhjá þessu.

DSC_2166 b2

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 23.8.2013 - 17:25 - FB ummæli ()

Valhöll: Frá vúdú-hagfræði til niðurskurðar

Fyrir kosningar töluðu Sjálfstæðismenn fyrst og fremst um skattalækkanir og sögðu að þær myndu auka tekjur ríkissjóðs! Það var sagt með tilvísun til vúdú-hagfræði Laffers, sem Hannes Hólmsteinn kynnti fyrir flokksbræðrum sínum.

Ekkert var talað um niðurskurð í aðdraganda kosninganna í vor.

Nú þegar Sjálfstæðisflokkurinn er kominn til valda í fjármálaráðuneytinu þá breytist tóninn heldur betur. Vúdú-hagfræðin er lögð til hliðar. Skattalækkanir til ríka fólksins, eins og vúdú-menn boða, auka ekki tekjur ríkissjóðs heldur minnkar þær.

Þetta er í senn staðfesting á því, að vúdú-hagfræðin var bara notuð til að blekkja kjósendur – og að markmiðið var alltaf að fara niðurskurðarleiðina í stórum stíl. Það var bara ekki til vinsælda fallið fyrir Sjálfstæðismenn að opinbera þau áform fyrir kosningar.

Ég sagði í rúmlega ársgömlum pistli að svona yrði þetta (sjá hér og hér). Það gengur nú eftir.

Bjarni Benediktsson hefur nú sótt einn róttækasta frjálshyggjumann landsins, Ragnar Árnaon prófessor í fiskihagfræði, og sett hann yfir ráðgjafahóp í ráðuneytinu um opinber fjármál. Allir hinir meðlimirnir eru líka frjálshyggjufólk! Það þætti sérstakt í grannríkjunum.

Nú skal skera.

Ragnar Árnason sagði á fundi hjá Samtökum atvinnulífsins í janúar 2010, að við Íslendingar hefðum ekki efni á að reka velferðarkerfi af svipuðum gæðum og er á hinum Norðurlöndunum.

“Velferðarkerfið er að drepa okkur”, sagði Ragnar Árnason og bætti við, “við verðum að skera það niður”.

Samt er velferðarkerfið hér minna en í Skandinavíu og hefur lengi verið!

En að skera niður á krepputímum dýpkar kreppuna, eins og Evrópa hefur nú loks lært. Uppgangstímar eru heppilegri fyrir mikinn niðurskurð opinberra útgjalda. Svo kennir hagfræði John Meynard Keynes og hagfræði Nóbelsverðlaunahafans Paul Krugmans, svo nokkrir séu nefndir.

Það er því mikilvægt að Framsóknarflokkurinn veiti viðnám og verji velferðarkerfið. Velferð heimilanna er jú mál Framsóknar.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 22.8.2013 - 21:56 - FB ummæli ()

Launalöggan fór með staðlausa stafi

Fyrir tveimur vikum eða svo varð allt sjóðandi vitlaust í fjölmiðlum vegna smá leiðréttingar sem Kjararáð gerði á kjörum nokkurra forstjóra í ríkisstofnunum.

Allir helstu talsmenn “launalöggunnar” fóru á flug og sögðu þjóðarhag stefnt í voða, því þetta myndi hleypa kjarakröfum almennings af stað. Fólk myndi fá þá firru í kollinn að launin gætu hækkað eitthvað lítillega í næstu kjarasamningum (í nóvember)!

Hin margreynda launalögga Styrmir Gunnarsson fór mikinn á Evrópuvaktinni, en sú vakt varar í senn dyggilega við ESB-aðild og kauphækkunum til almennings. Ritstjórar Moggans, talsmenn Samtaka atvinnulífsins og fleiri gæslumenn þjóðarhags hömruðu járnið duglega.

Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins og núverandi bankamaður, sagði meira að segja að ríkisstjórnin yrði að kalla saman aukaþing í hvelli og afnema hina lítilfjörlegu hækkun Kjararáðs. Ella stefndi þjóðarbúskapurinn í voða!

Í kjölfarið kom svo Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og sagði brýnt að „kæla hagkerfið“, til að drepa allar hugmyndir almennings um að kaupið gæti hækkað.

Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ kom þá fram og benti á að Kjararáð væri með leiðréttingum sínum einfaldlega að fara að lögum – og fylgja að hluta á eftir forstjórum í einkageiranum, sem hefðu tekið forystuna í launahækkunum.

Í dag birti svo fjármálaráðuneytið tölur um launaþróunina. Niðurstaðan er þessi: “Laun forstjóra félaga í eigu ríkisins eru svipuð nú og þau voru árið 2010. Á sama tíma hafa laun stjórnenda á almennum vinnumarkaði hækkað um 20%”.

Talsmenn launalöggunnar fóru sem sagt með staðlausa stafi. Það voru hæst launuðu forstjórarnir í einkageira og stjórnendur fjármálageirans sem höfðu farið langt framúr stjórum í opinbera geiranum.

Nú er spurning hvort launalöggurnar í Sjálfstæðisflokknum og samtökum atvinnurekenda fari fram og heimti að forstjórar einkageirans og fjármálamennirnir lækki laun sín.

Það væri þá nýtt!

 

Yfirstéttin slapp undan þjóðarsáttinni

Þjóðarsáttin frá 1990 átti að fela í sér að laun allra í samfélaginu fylgdu hóflegu mynstri – svipaðar hækkanir yrðu hjá öllum, með miklu verðlagsaðhaldi samhliða, til að hemja verðbólguna.

Síðan fundu atvinnurekendur og fjármálamenn þó út að þeir gætu í auknum mæli tekið laun sín sem fjármagnstekjur, utan ramma launakerfisins. Davíð Oddsson lækkaði svo skattinn á fjármagnstekjur stórlega.

Þar með var komin ný leið fyrir yfirstéttina til að sleppa undan þjóðarsáttinni og auka tekjur sínar margfalt umfram alla aðra – í formi fjármagnstekna með miklum skattfríðindum. Þar með jókst ójöfnuðurinn gríðarlega (sjá hér).

Þjóðarsáttin varð á endanum bara launaaðhald fyrir launafólkið.

Það góða fólk var síðan svo vinsamlegt að greiða tjónið sem hlaust af hruninu, sem græðgi yfirstéttarinnar leiddi af sér.

Vonandi verður næsta þjóðarsátt ekki með sama sniði…

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 21.8.2013 - 23:18 - FB ummæli ()

Ofstækið á hægri væng stjórnmálanna

Ég hef áður bent á það að hægri menn eru villtustu róttæklingar nútímans. Ekki vinstri menn, eins og var á löngu liðnum áratugum.

Róttæklingarnir eru nú í Sjálfstæðisflokknum, sem áður var frekar hófstilltur íhaldsflokkur.

Fyrir hvað standa róttæklingarnir?

Þeir standa fyrir allt það sem setti Ísland á hausinn:

  • Oftrú á markaðshyggju frjálshyggjunnar
  • Afskiptaleysisstefnu og vúdú-hagfræði
  • Hatur á ríkisvaldi
  • Einkavæðingu (auðlinda, RÚV, heilbrigðisþjónustu, skóla o.fl.)
  • Auðmannadekur
  • Skattalækkanir fyrir yfirstéttina
  • Niðurrif velferðarríkis
  • Láglaunastefnu fyrir almenning

Með slíkri stefnu til framtíðar væri Ísland fært nær bandarísku þjóðfélagsgerðinni, sem myndi einkum hagnast ríkasta fólkinu – en væri verra fyrir nær alla aðra.

Frjálshyggjuróttæklingarnir vilja frekar sjá RÚV í eigu auðmanna (til dæmis stærstu útvegsmanna), sem gætu þá beitt því í þágu eigin hagsmuna og Sjálfstæðisflokksins (eins og Mogginn er nú rekinn).

Almenningi kemur ekkert við hvernig slíkur fjölmiðill í einkaeigu er né fyrir hverju hann beitir sér. Jafnvel þó hann beiti sér gegn lýðræði og með auðræði.

Það er ekki hægt að krefja slíkan fjölmiðil um hlutleysi og uppbyggilegt menningarstarf, eins og við ætlumst til af RÚV.

Hægri róttæklingarnir segja að þannig muni fjölmiðlunin í landinu batna!

Þeir eiga við að hún verði þá öll á vegum hlutdrægra hægri sinnaðra auðmanna!

 

Síðasti pistill: ESB málið – hagsmunum Íslands fórnað?

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 19.8.2013 - 22:39 - FB ummæli ()

ESB málið – hagsmunum Íslands fórnað?

Evrópusambandslöndin eru okkar helstu samherjar og viðskiptavinir. Þangað eigum við mest að sækja.

Engin þjóð þrýfst í einangrun í hnattvæddum heimi nútímans.

Meirihluti ríkisstjórnarflokkanna er andvígur aðild Íslands að ESB. Það ber að virða.

Þó eru ekki allir flokksmenn þeirra andvígir ESB. Né samtök atvinnulífsins og ASÍ. Einnig stór hluti stjórnarandstöðunnar. Viðvarandi meirihluti kjósenda hefur lýst vilja í skoðanakönnunum til að klára aðildarviðræður síðust fjögur árin – óháð afstöðu til aðildar. Kanski stjórnvöld ættu að virða allt þetta?

En ég get ekki varist þeirri hugsun að leiðtogar okkar haldi nú illa á hagsmunagæslu Íslands til framtíðar. Hvers vegna?

Við eigum svo margt til Evrópu að sækja og höfum notið velvildar þar, meðal annars í gegnum aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu. Það hefur verið okkur gríðarlega mikilvægt á sviði viðskipta, menningar, vísinda og rannsókna, auk margra fleiri sviða.

Við höfum notið velvildar í Evrópusambandsríkjunum til þessa, jafnvel þó fjárglæfrar íslenskra braskara og bankamanna hafi valdið miklu tjóni þar, t.d. í Þýskalandi og fleiri löndum.

 

Eru Íslendingar að loka á mikilvæg tækifæri í Evrópu?

Við erum með ónýtan gjaldmiðil og annar af tveimur vitrænum valkostum okkar varðandi framtíðarskipan þeirra mála er upptaka Evru, að mati Seðlabanka Íslands, eftir viðamikla úttekt á málinu (sjá hér).

Nú vilja leiðtogar okkar loka á alla möguleika á þeirri leið, án þess að kanna til hlítar hvað fælist í henni. Það hefði verið gert með því að klára aðildarviðræðurnar – án nokkurra skuldbindinga um aðild.

En stjórnvöld vilja ekki aðeins fresta viðræðum, heldur stöðva þær varanlega og loka þar með öllum möguleikum á aðild og upptöku Evru á næsta áratug eða lengur.

Það þýðir að við verðum fangar gengisfellingar-krónunnar til langrar framtíðar. Gjaldmiðils sem Seðlabankinn segir að magni vanda okkar, bæði á uppsveiflu og í kreppu. Kanski verðum við líka fangar varanlegra gjaldeyrishafta.

Við verðum þá fangar gjaldmiðils sem tryggir að íslensk heimili borga helmingi meira fyrir húsnæði sitt en þjóðirnar í Evru-löndunum. Og umtalsvert meira fyrir ýmsar neysluvörur. Þetta eru stórmál.

ESB þróast síðan áfram. Fljótlega siglir sambandið út úr fjármálakreppunni og þá verður umhverfið í Evrópu allt álitlegra.

ESB er nú að vinna að miklum fríverslunarsamningi við Bandaríkin. Það gæti verið mjög mikilvægt fyrir okkur að fá aðild að þeim samningi. Hann er þó einungis fyrir aðildarríki (sjá hér).

En leiðtogar okkar mæta ESB með yfirlæti og hroka litla einfeldningsins. Halda menn að það leiði til þess að ESB leggi lykkju á leið sína til að leyfa Íslandi að njóta ábata af fríverslunarsamningi ESB við Bandaríkin? Varla.

Eða á öðrum sviðum?

Ég óttast að viðvaningsleg framganga, hroki sjálfhverfrar smáþjóðar og yfirlýstur fjandskapur hérlendra áhrifamanna í garð Evrópusambandsins verði okkur ekki til framdráttar.

Ég óttast að ýmsar mikilvægar dyr muni lokast Íslendingum á næstu árum.

Er ekki skynsamlegri stefna að hámarka möguleika okkar og tækifæri? Halda sem flestum dyrum opnum?

 

Síðasti pistill: ESB viðræður: Eru Íslendingar fífl?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 18.8.2013 - 13:26 - FB ummæli ()

ESB viðræður: Eru Íslendingar fífl?

Rök sem notuð hafa verið hér á Íslandi gegn ESB-aðild – og nú fyrir því að stöðva viðræðurnar – eru mörg hver einstaklega ómerkileg.

En það er auðvelt að koma slíkum rökum áfram ef hægt er að tengja þau við þjóðerniskennd.

Dæmi um þetta eru hinar síendurteknu rangfærslur um að ESB muni taka yfir náttúruauðlindir Íslands, ef við gerumst meðlimir í Evrópusambandinu.

Í morgun sagði utanríkisráðherra að ekki væri hægt að skoða í pakkann, með aðildarviðræðum. Ekki hægt, sagði hann!

Það hafa Norðmenn þó gert tvisvar sinnum.

Auðvitað er hægt að skoða í pakkann (fá niðurstöðu í aðildarviðræður og taka svo afstöðu til þeirra). Það er meira að segja mjög skynsamlegt að gera í stóru máli. Skýra valkosti okkar til framtíðar.

Í stjórnsýslufræðum er þetta kallað að byggja stefnumótun á staðreyndum („evidence based policy-making“).

Hvers vegna getur ráðherra þá sagt að slíkt sé ekki hægt?

Það hlýtur að vera vegna þess að nógu margir Íslendingar séu fífl, láti bjóða sér hvaða bull sem er.

Það er sjálfsagt að virða andstöðu ráðherrans og ríkisstjórnarinnar gegn aðild Íslands að ESB, en mættum við biðja um málefnalegri og vitrænni umræðu?

 

Síðasti pistill:  AGS og gjaldeyrishöftin

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 17.8.2013 - 11:56 - FB ummæli ()

AGS og gjaldeyrishöftin

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn lagði til gjaldeyrishöft eftir hrun til að aftra því að krónan félli meira en orðið var. Hvers vegna var það gert?

Jú, það var til að aftra því að kjaraskerðing heimilanna og hækkun erlendra skulda (í krónutölu) yrði enn verri en þó varð. Ísland hafði þegar sett Evrópumet í kaupmáttarrýrnun krónunnar þegar höftin voru sett á.

Gjaldeyrishöftin voru ekki síst til að verja heimilin fyrir enn stærri áföllum en hér urðu. Það er einhvers virði!

Nú vilja menn hins vegar afnema höftin sem fyrst. Talsmenn fjármálaafla og atvinnulífs fara þar fremstir og stjórnmálamenn á hægri væng, einkum í Sjálfstæðisflokki. Þeir segja það nauðsynlegt til að greiða fyrir aukinni fjárfestingu í atvinnulífinu og auka hagvöxt.

En eru það mikilvæg rök?

Það held ég ekki. Ísland hefur almennt ekki stólað á atvinnulífsfjárfestingu erlendis frá nema til orkufreka iðnaðarins, sem hefur verið gerð á sérkjörum. Þar fyrir utan er enginn skortur á fjárfestingarfé hér innanlands. Lífeyrissjóðir og bankar eru bakkafullir af fé sem skortir fjárfestingarverkefni.

Auk þess binda höftin ekki nýtt fjárfestingarfé sem kemur erlendisfrá, heldur fé sem var hér þegar við hrun.

Það er hins vegar tvennt sem sem heldur aftur af fjárfestingu í hagvextinum:

  • Hátt skuldastig fyrirtækja og ríkisins, sem leyfir ekki frekari skuldsetningu
  • Of lélegur kaupmáttur almennings, sem þýðir of lítil eftirspurn eftir vörum og þjónustu atvinnulífsins

En hvers vegna er þá lögð svo mikil áhersla á afnám gjaldeyrishaftanna, ef það þarf ekki til að auka fjárfestingu í hagvexti?

 

Hverjir vilja helst afnám gjaldeyrishaftanna?

Svar við því má finna í sérathugun AGS sem birt er með nýjustu skýrslu sjóðsins um Ísland (hér).

Sjóðurinn leggur mat á hversu miklar eignir íslensks efnafólks muni vilja leita úr landi við afnám gjaldeyrishafta. Það eru verulegir fjármunir –  hundruð milljarða.

Þar liggur kanski helsta ástæðan fyrir miklum þrýstingi á afnám gjaldeyrishaftanna? Ríkir og áhrifamiklir Íslendingar vilja koma fé sínu úr landi.

Hin megin ástæðan er þrýstingur frá stjórnendum lífeyrissjóðanna, sem vilja geta fjárfest erlendis líka. Slíkt verður þó að bíða þess að þjóðin hafi nægan gjaldeyri, auk þess sem varast verður að fórna með því kaupmætti sjóðfélaga (vinnandi almennings) með öðru hruni krónunnar, sem gæti fylgt of hröðu afnámi gjaldeyrishaftanna.

 

AGS-leiðin: hægfara og skilyrt afnám haftanna

AGS-menn eru greinilega meðvitaðir um hættuna á öðru hruni krónunnar og vara við því. Þess vegna leggja sérfræðingar sjóðsins til að afnámið verði tekið í skilyrtum skrefum, með “hraðahindrunum” (takmörkunum) á hverjum tíma, svo hægt verði að grípa inní til að verja krónuna. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir heimilin.

AGS nefnir að afnám gjaldeyrishaftanna geti tekið allt að átta árum með slíkum hraðahindrunum, þegar hliðsjón er höfð af umfangi fjárins sem leita mun úr landi.

Þetta finnst sumum alltof langur tími.

Hins vegar er rétt að hafa í huga að gjaldeyrishöftin eru ekki alvarleg hindrun á neitt, nema frelsi efnafólks til að flytja fé í stórum stíl úr landi. Raunar hamla þau einnig frelsi til lántöku einkaaðila erlendis, en það er gott – því óhófleg slík lántaka setti þjóðarbúið á hausinn.

Gjaldeyrishöft aftra almennt ekki hagvexti né öðrum framförum. Hægt er að flytja inn flest allt sem almenningur og atvinnulífið þarfnast, þrátt fyrir höftin.

Þess vegna er óhætt að taka tíma til að létta þeim af í traustum skrefum og forða þannig kollsteypu krónunnar og heimilanna.

Munum það, að Íslendingar urðu ein af ríkustu þjóðum heims í skjóli gjaldeyrishafta. Þau voru hér við lýði til ársins 1995, en þá vorum við löngu komin í hóp hagsælustu þjóða Vesturlanda (sjá hér).

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 16.8.2013 - 12:47 - FB ummæli ()

Feilskot Davíðs Oddssonar

Það er leiðinlegt að sjá hversu lágt ritstjóri Morgunblaðsins leggst í heiftúðugum árásum sínum á fréttastofu RÚV.

Herferð Davíðs Oddssonar gegn Ríkisútvarpinu virðist vera hluti að pólitísku plotti sem snýst um að leggja RÚV af eða koma því í meiri mæli undir pólitíska stjórn róttækra Sjálfstæðismanna.

Fréttamenn RÚV eru án raka sagðir bæði vinstri sinnaðir og miklir fygjendur ESB-aðildar – líka hinir fjölmörgu Sjálfstæðismenn sem þar starfa.

Hugsunin er einnig sú, að hræða stjórnendur og einstaka fréttamenn til hlýðni og sjálfsritskoðunar, í þágu þeirrar hlutdrægni og hagsmunagæslu sem tíðkast í Hádegismóum Morgunblaðsins.

Öllu er tjaldað til í herferðinni og er sumt svo ótrúverðugt að menn rekur í rogastans.

Þannig fáraðist ritstjóri Morgunblaðsins í vikunni til dæmis yfir því að RÚV hefði talað um IPS-styrki við stjórnsýslufræðing sem Davíð taldi of hallan undir ESB-aðild – og var það nefnt til vitnis um viðvarandi áróðursherferð RÚV fyrir ESB-aðild.

En þá brá svo við að umrætt viðtal hafði verið á annarri sjónvarpsstöð, sem almennt er ekki sökuð um hlutdrægni!

Þetta minnir mig á skrif Davíðs í Staksteinum um fyrirlestur sem ég flutti á ráðstefnu í Háskóla Íslands 30. apríl 2010. Fór hann mikinn um það sem ég átti að hafa sagt og ekki sagt í viðkomandi fyrirlestri og gagnrýndi ákaft (sjá hér og hér).

Gallinn var sá, að umrædd skrif Davíðs birtust í Staksteinum að morgni þess dags sem fyrirlesturinn var fluttur! Hann skrifaði þau sem sagt daginn áður en fyrirlesturinn var fluttur!

Skrifin voru að vonum í engu samræmi við fyrirlesturinn. Það skipti ritstjórann augljóslega engu máli, enda markmiðið það eitt að vega að mannorði mínu.

Þetta sér maður æ oftar í skrifum Davíðs.

Heift og áróður ráða för, en staðreyndir skipta ekki máli.

 

 

Síðati pistill: Brást kapítalisminn?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 15.8.2013 - 00:11 - FB ummæli ()

Brást kapítalisminn?

Hér að neðan má sjá nýlegt myndband frá Institute for New Economic Thinking í Bretlandi, með afar athyglisverðri umræðu um kapítalisma nútímans og fjármálakreppuna.

Þekktur þáttastjórnandi á Al Jazeera ræðir við Adair Turner, fyrrverandi formann breska Fjármálaeftirlitsins (FSA) um kreppuna, orsakir hennar, afleiðingar og nauðsynleg viðbrögð. Fleiri málsmetandi aðilar taka þátt í umræðunni.

Turner segir kapítalismann ekki hafa brugðist sem slíkan, heldur hafi ríkjandi viðhorf síðustu áratuga leitt hann afvega. Þar vísar hann til aukinna áhrifa frjálshyggju á fjármálamarkaði, sem ágerðist frá áttunda áratugnum. Hverfa þarf frá þeim viðhorfum með meira afgerandi hætti en gert hefur verið, segir Adair Turner.

Turner sakar eftirlitsaðila (þar með talið FSA sem hann stýrði) og seðlabanka um að hafa leyft breytta skipan fjármálamarkaða sem gerði bönkum kleift að skuldsetja sig meira en áður – langt úr hófi fram. Á Íslandi keyrði slík þróun lengra afvega en annars staðar, með hrikalegum afleiðingum hrunsins.

Hann telur einnig að regluverkið um fjármálakerfið hafi verið of flókið og ómarkvisst, auk þess að sjá ekki nægilega vel við nýjungum og undanbrögðum markaðsaðila.

Turner segir eigið fé og bindiskyldu fjármálastofnana hafa verið ófullnægjandi. Bönkum hafi verið leyft að skuldsetja langt umfram það sem þeir gátu staðið undir. Auka þurfi í framhaldinu kröfur um eigið fé og handbært reiðufé, því bankar þurfi meiri styrkleika til að taka á sveiflum og áföllum. Efla og bæta þarf fjármálaeftirlitið.

Athyglisverð ábending hjá Adair Turner er sú, að aukinn ójöfnuður í Bandaríkjunum hafi átt þátt í að gera kreppuna alvarlegri og dýpri en ella hefði orðið. Það liggur í því, að tekjur milli og lægri stétta jukust afar lítið eða ekkert frá um 1980, en í staðinn var fólki í þeim stéttum boðið að skuldsetja sig meira en áður, til að halda uppi lífsstandardinum (“let them eat kredit”!), m.a. með undirmálslánum.

Þá leggst hann gegn niðurskurðarleiðinni („austerity policies“) sem beitt er í allt of miklum mæli í Evrópu og mælir í staðinn með hressilegum örvunaraðferðum í anda John Maynard Keynes, líkt og Nóbelsverðlaunahafinn Paul Krugman hefur gert. Segir hann m.a. að peningaprentun seðlabanka til að fjármagna aukin útgjöld ríkisins sé viðeigandi í ríkjandi kreppuaðstæðum (“helicopter money”).

Með slíkum rökum mætti réttlæta stofnun sjóðs í Seðlabanka Íslands til að létta af heimilunum húsnæðisskuldum, uns tekst að leysa snjóhengjuvandann með samningum við erlenda kröfuhafa, samkvæmt hugmyndum Framsóknar. Það kæmi hagvextinum á góðan skrið. Þetta mættu stjórnvöld hafa í huga.

Adair Turner er einn af virtustu áhrifamönnum Vesturlanda á sviði fjármála. Það er því afar fróðlegt að heyra mat hans á orsökum og afleiðingum kreppunnar – sem og hugmyndir hans um leiðir út úr kreppunni.

Hann segir okkur hvernig megi koma kapítalismanum í lag, eftir feigðarflan frjálshyggjunnar.

Þessi umfjöllun á meira erindi við Íslendinga en flestar aðrar þjóðir.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 13.8.2013 - 09:53 - FB ummæli ()

Björn Bjarnason ber sig illa

Ég benti í gær á hinn mikla tvískinnung sem liðsmenn Davíðs Oddssonar á Evrópuvaktinni hafa gagnvart fé frá Evrópusambandinu annars vegar og frá herstöðinni sem Bandaríkjamenn héldu í Keflavík í meira en hálfa öld.

Ég benti á að svokallaðir IPA styrkir til stjórnsýsluumbóta sem ESB veitir ríkjum sem sækja um aðild eru smápeningar samanborið við það mikla fé sem streymdi frá Bandaríkjamönnum til Íslands.

Það er auðvitað tvískinnungur og hræsni þegar stuðningsmenn vestrænnar samvinnu og viðamikils hermangs fara offari, af annarlegum ástæðum, yfir þessum framfarastyrkjum frá ESB.

Björn Bjarnason ber sig illa undan pistli mínum og segir mig í senn fákunnandi og ósvífinn að fjalla um þetta. Segir að hann og Styrmir Gunnarsson hafi alltaf verið andvígir Aronskunni, sem var það sjónarmið innan Sjálfstæðisflokksins að taka ætti sérstakt gjald af Bandaríkjunum fyrir veru hersins hér á landi.

Slíkt gjald var hugsað til viðbótar við hið mikla fé sem rann með öðrum hætti inn í landið og nam nokkrum prósentustigum af landsframleiðslu lengst af. Birni Bjarnasyni og félögum er því engin málsvörn í því að hafa verið andvígir Aronskunni.

Egill Helgason lýsti ágætlega hvernig þessum málum var háttað í gömlum pistli frá 2008, þar sem hann bendir á að Aronskan hafi þótt ófín, enda ljóst að Bandaríkjamönnum þótti nóg um hvernig Íslendingar blönduðu saman landvörnum, vestrænu samstarfi og fégræðgi, bæði í þágu ríkissjóðs og raunar miklu heldur í þágu einkavina ráðandi stjórnmálaafla.

Egill sagði: “Mörkin voru dregin við það eitt að heimta beinlínis gjald af Bandaríkjamönnum vegna herstöðvarinnar. Það var kallað Aronska og þótti ófínt. Að öðru leyti var ekkert að því hafa varnarliðið að féþúfu – það var starfsemi sem Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn skiptu bróðurlega á milli sín.”

Þetta vita allir. Líka Björn Bjarnason.

Það er því bæði tvískinnungur og hræsni þegar Björn Bjarnason, Styrmir Gunnarsson, Davíð Oddsson og félagar fárast yfir IPA styrkjunum.

 

Síðasti pistill: Hræsni og tvískinnungun á Evrópuvaktinni

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar