Sunnudagur 28.4.2013 - 11:29 - FB ummæli ()

Úrslitin: Stór sveifla frá vinstri til miðju

Þegar úrslit kosninganna eru skoðuð með því að skipta flokkunum í hægri – miðju – vinstri fylkingar kemur undirliggjandi breyting kosninganna skýrlega fram.

Þetta er stór sveifla frá vinstri til miðjunnar, en ekki til hægri.

Í síðustu kosningum (2009) varð mjög mikil sveifla frá hægri (Sjálfstæðisflokki og Frjálslynda flokknum) til vinstri. Sjálfstæðisflokkurinn fékk þá minnsta fylgið sem hann hefur fengið á lýðveldistímanum (23,7%). Hann bætir einungis litlu við sig nú.

Samanlagt fylgi miðjuflokka er nú nærri tvöfalt að stærð miðað við það sem var 1999 og 2003 (gráu súlurnar á myndinni). Miðjan er nú í sögulegu hámarki.

Myndin sýnir þróun fylgisins milli hægri, miðju og vinstri fylkinga frá og með kosningunum 1999, er meginþættir núverandi flokkaskipanar komu fram.

Sveiflan frá vinstri

Vinstri sveiflan 2009 var sögulega stór og kom sterkust fram hjá VG og Borgarahreyfingunni, auk þess sem Samfylkingin fékk ágæta kosningu þá.

Í kosningunum núna fellur fylgi vinstri vængsins samanlagt úr hátt í 60% niður í um 40%, en skiptist á miklu fleiri flokka en síðast. Samanlagt fylgið á vinstri vængnum er þó enn stórt í sögulegu samhengi.

Hægrið er enn í sögulegu lágmarki (útkoma Sjálfstæðisflokksins nú er sú næst versta frá stofnun lýðveldisins, verri en eftir klofninginn í flokknum árið 1987 er Albert Guðmundsson stofnaði Borgaraflokkinn).

Kosningarnar nú eru því augljóslega stór sigur miðjunnar, sem er mikið nýmæli í íslenskri stjórnmálasögu seinni áratuga.

 

—————————————————-

Skipting flokka á hægri – miðju – vinstri ás:

Hægri (Sjálfstæðisflokkur, Hægri grænir, K-listi)

Miðja (Framsókn, Dögun, Flokkur heimilanna, Landsbyggðarflokkur)

Vinstri (VG, Samfylking, Björt framtíð, Píratar, Regnboginn, Alþýðufylkingin, Lýðræðisvaktin)

Við flokkunina er höfð hliðsjón af flæði fylgis milli flokka skv. nýjustu könnunum, þ.e. hvaðan þeir fá mest af fylginu. Helsta álitamálið sem gæti breytt útkomunni á myndinni er hvort telja beri Bjarta framtíð og Pírata til vinstri eða að hluta á miðjuna (sem mætti réttlæta, þó þessir flokkar taki mest frá Samfylkingu og VG). Ef það væri gert yrði útkoma miðjunnar nú enn betri en myndin sýnir.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 28.4.2013 - 02:06 - FB ummæli ()

Stórsigur Framsóknar – mikið tap stjórnarflokka

Framsókn er afgerandi sigurvegari kosninganna. Eykur fylgi sitt langmest.

Sjálfstæðisflokkur eykur fylgi sitt frá síðustu kosningum, en þó einungis lítillega umfram það sem var 2009, en það var versta útkoma Sjálfstæðisflokksins frá stofnun lýðveldisins.

Útkoma Sjálfstæðisflokks nú er næstversta útkoma þeirra á lýðveldistímanum.

Stjórnarflokkarnir tapa miklu, sérstaklega Samfylkingin. Þeir gjalda í senn kreppunnar sem hefur rýrt kjör heimilanna og mikils klofnings á vinstri væng stjórnmálanna. Nýju framboðin taka mest frá stjórnarflokkunum, ekki síst Björt framtíð frá Samfylkingunni en Píratar taka líka frá VG.

En stjórnarflokkarnir tapa líka til Framsóknar sem bauð heimilunum það sem þau vildu, myndarlega skuldalækkun.

Kosningabarátta VG var sýnu betri en hjá Samfylkingunni og nýtur VG þess í betri útkomu en Samfylkingin.

Í ljósi þess að VG voru með óvenjumikið fylgi 2009 og í samhengi við fylgi flokksins frá upphafi þá vinnur VG góðan varnarsigur nú. Samfylkingin fékk ekki óvenjugóða kosningu 2009 og er tap hennar núna því mikið.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 27.4.2013 - 22:10 - FB ummæli ()

Buddupólitíkin 2013

Eitt megineinkenni kosninganna í ár er að þær snúast um budduna.

Kjósendur spyrja um framboðin, hvert og eitt: “Hversu mikið mun þessi flokkur borga mér? Hvað græði ég á þessum flokki?”

Þetta snýst um hagsmuni, peninga.

Hugsjónapólitík á ekki upp á pallborðið.

Bestu fulltrúar hugsjónastjórnmála eru Húmanistarnir og Lýðræðisvaktin.

Húmanistar eru að bjóða fram í fjórða sinn og mælast með 0,1% í síðustu könnun. Þetta er aðdáunarvert fólk (Júlíus Valdimarsson, Methúsalem Þórisson o.fl.) með góðar hugsjónir – en almenningur spyr “hvað græði ég á þeim”?

Þeir borga engum neitt – og fá þvi ekkert fylgi.

Lýðræðisvaktin stendur einkum fyrir nýja stjórnarskrá. Almenningur spyr: “Hvað ætlið þið að lækka skuldir okkar mikið?”

Þeir segja: “Við lofum engu” – og fá lágmarksfylgi!

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 26.4.2013 - 12:49 - FB ummæli ()

Laun erfiðisins eru vanþakklæti

Ríkisstjórnin tók við versta búi lýðveldistímans vorið 2009. Þjóðarbúið rambaði á barmi gjaldþrots, fjármálakerfið var hrunið, krónan hafði fallið um 50%, Seðlabankinn var gjaldþrota, kjaraskerðing var þegar orðin gríðarleg, skuldabyrði þyngdist verulega og atvinnuleysi var orðið meira en áður hefur þekkst á Íslandi.

Þetta var fordæmalaus staða.

 

Góður árangur stjórnarflokkanna vekur athygli erlendis

Samfylkingu og VG tókst að snúa þróuninni við og endurreisa Ísland eftir hrunið. Hér eru nokkrar stiklur af árangurslistanum:

  • Ríkisfjármálin fóru úr meira en 200 milljarða halla í nær jöfnuð.
  • Traust á Íslandi erlendis var endurreist, með aðstoð AGS – sem hælir árangrinum í hástert.
  • Skuldir heimilanna hafa lækkað um nærri 300 milljarða (vegna úrræða stjórnvalda og gengislánadóma).
  • Útgjöld til vaxtabóta voru þrefölduð. Vaxtabætur greiða nú þriðjung vaxtakostnaðar heimila v. húsnæðislána.
  • Barnabætur voru hækkaðar um 30% í ár
  • Alvöru auðlindagjald lagt á sjávarútveg, sem notið hefur gríðarlegs hagnaðar, m.a. vegna gengisfellingarinnar sem rústaði kaupmætti heimila
  • Skattbyrði 60% heimila var lækkuð um tugi milljarða, en hækkuð hjá þeim 40% heimila sem hæstu tekjurnar höfðu.
  • Byrðar kreppunnar lögðust með meiri þunga á hærri tekjuhópa en þá lægri, öfugt við það sem algengast er í öðrum kreppulöndum
  • Hagvöxtur hefur verið meiri en í flestum vestrænum löndum frá og með 2011
  • Atvinnuleysi tókst að hemja og lækka mun betur en í öðrum kreppulöndum
  • Brottflutningur Íslendinga varð minni en spáð var og hefur hann nú snúist við
  • Jöfnuður tekna var stóraukinn eftir fordæmalausa aukningu ójafnaðar frá 1995 til 2007

Fleiri árangursþætti mætti nefna (sjá t.d. hér og hér og hér)

 

Loforð B og D lista eru veigaminni en árangur ríkisstjórnarinnar

Þegar menn rýna í það sem gert var síðustu fjögur árin þá blasir við að stærstu loforð kosningabaráttunnar nú eru minni en það sem áorkaðist á stjórnartímanum – þrátt fyrir allt.

Heildarupphæð skuldaafskrifta var nærri 300 milljarðar (Framsókn býður nú best með 240 milljarða afskriftir til viðbótar). Sjálfstæðisflokkur ætlar bara að bjóða skuldalækkun sem nemur 16-17 milljörðum á ári (66-68 milljörðum á kjörtímabilinu).

Sjálfstæðisflokkur býður skattalækkanir sem nýtast hærri tekjuhópum mest og stefna fjárhag ríkisins í mikinn halla strax – með auknum þrýstingi á niðurskurð í velferðarmálum. Velferðarútgjöld vinstri stjórnarinnar urðu hins vegar hærri árið 2011 en nokkru sinni fyrr í sögunni, vegna aukinna tekjutilfærslna til heimila og þrátt fyrir niðurskurð í heilsu og menntun.

Skuldaafskriftaloforð B og D lista munu nýtast hærri tekjuhópum mest, ef þau verða framkvæmd eins og þau eru fram sett.

Þetta eru sem sagt minni kjarabætur sem B og D listarnir bjóða nú en milli og lægri tekjuhópar fengu á síðustu fjórum árum.

Hátekjufólk mun hins vegar fá meira á næsta kjörtímabili ef loforð B og D lista yrðu efnd með þessum hætti, sérstaklega loforð Sjálfstæðisflokksins sem munu auka ójöfnuð á ný.

 

Ríkisstjórnin nýtur ekki sannmælis

Samt stefnir í mikið tap stjórnarflokkanna, ekki síst Samfylkingarinnar. Það er ósanngjarnt á alla mælikvarða og útlendingar undrast þetta margir.

Helsta ástæða óánægju þjóðarinnar er sú, að flestir hafa yfir miklu að kvarta eftir svo stórt hrun og þá miklu kjaraskerðingu sem hér varð. Það er staðreynd jafnvel þó tekist hafi að aftra mun stærri búsifjum sem í stefndi.

Kaupmátturinn er enn allt of lágur. Við aðila vinnumarkaðarins og krónuna er einkum að sakast í þeim efnum.

En fólkið kennir ríkisstjórninni um það.

Ríkisstjórnin lofaði einnig mjög miklu og ekki tókst að koma því öllu í höfn. Það virkar ekki vel, jafnvel þó þetta sé athafnamesta ríkisstjórn lýðveldistímans. Stjórn sem að auki fækkaði starfsmönnum í opinberri stjórnsýslu um 20%.

Ef kosningarnar fara sem horfir má vissulega segja að laun erfiðisins síðustu fjögur árin séu vanþakklæti.

Ég hygg þó að dómur sögunnar verði stjórn Jóhönnu og Steingríms mjög hagstæður. Hann kemur síðar, en endist sennilega lengur en útkoma kosninganna á morgun.

 

Síðasti pistill: Svona var frjálshyggjan í framkvæmd

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 25.4.2013 - 08:04 - FB ummæli ()

Svona var frjálshyggjan í framkvæmd

Stundum er sagt að meira sé að marka hvað fólk gerir en hvað það segir.

Það virðist eiga við um frjálshyggjumenn í meiri mæli en marga aðra.

Frjálshyggjumenn boða frelsi til handa fjárfestum og atvinnurekendum. Þeir kalla þetta frelsi fjármálamanna “atvinnufrelsi” og segja það gott fyrir farsæld þjóða. Vilja engin ríkisafskipti né velferðarríki.

Aðrir taka eftir því að þar sem hugmyndir frjálshyggjumanna eru framkvæmdar þar græða auðmenn og braskarar mest, en almenningur nýtur lítilla kjarabóta. Reynslan frá Bandaríkjunum á síðustu 30 árum sýnir þetta vel og einnig reynslan hér á Íslandi fram að hruni.

Enn aðrir taka eftir því að margir frjálshyggjumenn í Sjálfstæðisflokknum voru virkir þátttakendur í braski og skuldasöfnun hrunáranna. Þeir voru að reyna að maka krókinn í hinum “frjálsu aðstæðum” sem Sjálfstæðisflokkurinn skapaði þeim.

Birgir Þór Runólfsson, náinn samstarfsmaður Hannesar Hólmsteins og mikill talsmaður frjálshyggju og “atvinnufrelsis”, virðist vera dæmi um þetta.

Birgir Þór bloggar ákaft um nytsemd “atvinnufrelsis” fyrir fjárfesta og atvinnurekendur á Eyjunni. Hann hefur meðal annars endurunnið og birt fjöldan allan af gömlum áróðursgreinum Hannesar Hólmsteins, stundum nær orðrétt og meira að segja með sömu línuritunum og Hannes lét teikna fyrir sig!

BÞR

Boðskapur Birgis Þórs er í þágu óhefts kapítalisma þar sem afskiptaleysisstefna stjórnvalda og niðurrif velferðarríkisins eru leiðarljós. Slíkt fyrirkomulag skapar fjárfestum og bröskurum hámarks frelsi og lægsta skatta.

Það var einmitt frelsi braskara til að leita sér skjótfengins gróða með lánsfé sem stefndi Íslandi í gríðarlega skuldasöfnun og áhættu – sem svo leiddi til hrunsins.

Birgir Þór er ekki bara ákafur talsmaður slíks frelsis, heldur var hann sjálfur stórtækur þátttakandi í spákaupmennsku með lánsfé á árunum fyrir hrun. Það lánsfé fékk hann að mestu frá SpKef, að því er fram hefur komið í fjölmiðlum. Birgir Þór var í stjórn SpKef þegar hrunið varð.

Samkvæmt nýlegri frétt í DV skuldaði hann og félög honum tengd meira en hálfan milljarð, sem notaður var m.a. til kaupa á bréfum í sparisjóðnum sjálfum. Þessi skuld verður afskrifuð vegna ófullnægjandi veða (sjá hér).

Birgir Þór hefur ekki hirt um að véfengja né gera athugasemdir við þessi skrif DV um málið. Svarið sem DV fékk var: „Okkur ber engin skylda til að tala um þetta“.

Eftir því hefur verið tekið að margir frjálshyggjumenn í Sjálfstæðisflokknum voru á svipaðan og jafnvel stórtækari hátt þátttakendur í braski með lánsfé, sjálfum sér til hagsbóta. Núverandi framkvæmdastjóri flokksins var einn af þeim og teljast skuldir hans við SpKef meira en þrír milljarðar (þ.e. þrjú þúsund milljónir!), að því er DV upplýsir. Þær skuldir Valhallar-stjórans verða væntanlega afskrifaðar.

Formaður Sjálfstæðisflokksins Bjarni Benediktsson og fyrrv. varaformaður voru einnig virkir þátttakendur í braski með fjölskyldum sínum, þar sem gríðarlegt lánsfé kom við sögu. Mörg fleiri dæmi mætti nefna.

Þannig er frjálshyggjan í framkvæmd.

Hugmyndafræðingar frjálshyggjunnar segjast vera að vinna að almannahag – en eru bara sjálfir að maka krókinn.

Svo segja þeir að “ósýnilega höndin” sjái til þess að eigin gróðasókn þeirra verði samfélaginu til hagsbóta. Það jafngildir því að segja, að almenningur hafi haft hag af braski auðmanna, útrásarvíkinga og af hruninu sjálfu!

En frjálshyggjan er bæði fræðilega röng og siðferðilega hættuleg.

Samt er hún enn kjarninn í stefnu Sjálfstæðisflokksins. Það er synd að gott fólk í Sjálfstæðisflokknum hafi ekki getað hreinsað flokkinn af þessari óværu.

Þess vegna snúast kosningarnar meðal annars um það, hvort þjóðin vilji aftur fá frjálshyggjuna í framkvæmd.

 

Síðasti pistill: Vinstri stjórnin gerði meira en Sjálfstæðisflokkur lofar nú

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 24.4.2013 - 11:00 - FB ummæli ()

Vill formaður Samfylkingar nýja hrunstjórn?

Ég er undrandi á sumu sem kemur frá formanni Samfylkingarinnar þessa dagana.

Sérstaklega hversu neikvæður hann er gagnvart þeirri leið Framsóknar að setja heimilin í algeran forgang og freista þess að nýta hluta snjóhengjunnar svokölluðu til skuldalækkunar heimila (sjá hér).

Þessi áhersla Framsóknar er í ágætu samræmi við norrænu velferðaráhersluna um að verja heimilin gegn neikvæðum áhrifum hrunsins. Það var ágætlega gert af vinstri stjórninni, en heimilin telja augljóslega að ekki hafi verið gengið nógu langt (sjá hér). Gott fylgi Framsóknar er því til sönnunar.

Því er rökrétt fyrir stjórnarflokkana að ganga lengra fram í þágu heimilanna ef svigrúm til þess skapast. Þannig tala VG-menn og reyndar sumir Samfylkingarmenn, en formaður Samfylkingar virðist hafa meiri áhyggjur af erlendu vogunarsjóðunum. Það er ágætt að vera ábyrgur – en þetta er óviðeigandi afstaða.

Hann hefur einnig sagt að leið Framsóknar feli í sér að færa fé frá fátækum til ríkra heimila. Það er misskilningur. Ekkert væri fært frá fátækum heldur frá erlendum auðmönnum (með samningum) og ég tel fullvíst að Framsókn væri til viðræðu um að setja t.d. þak á skuldalækkun til tekjuhæstu heimila í samningum um stjórnarsamstarf. Á það mætti a.m.k. láta reyna.

Einskis á að láta ófreistað til að ná auknu svigrúmi fyrir almenning. Málsmetandi fjármálamenn hafa staðfest að slíkir möguleikar leynast í snjóhengjunni og þeir snúast ekki um eignaupptöku heldur um eðlilega samninga og beitingu skattheimtu.

Vonandi er formaður Samfylkingar ekki með neinar grillur um að hann sé að fara að leiða flokk sinn í stjórn með Sjálfstæðisflokki. Það væri endurreist “hrunstjórn”, eins og sú sem rekin var frá völdum af byltingarfólki búsahalda í byrjun árs 2009. Raunar tel ég víst að stór hluti Samfylkingarfólks myndi alls ekki sætta sig við samstarf við Sjálfstæðisflokk við núverandi aðstæður, enda ríkir óheft frjálshyggjan þar enn.

Samstarf Samfylkingar við Framsókn í nýrri miðjustjórn er augljóslega miklu vænlegri leið.

Til að gera slíkt mögulegt þurfa menn að vera lausnamiðaðir og byggja brýr, eins og Össur Skarphéðinsson og fleiri hafa reyndar gert. Það er líka vænlegri leið til að forðast samstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks.

Landið þarf að fá starfhæfa stjórn sem setur heimilin í forgang. Stjórnmálamenn þurfa að vera sveigjanlegir í kröfum og samskiptum til að það sé mögulegt.

Ég hef raunar ekki trú á að formaður Samfylkingarinnar sé í neinni alvöru að stefna á stjórn með Sjálfstæðisflokki. En sumt af því sem hann segir gæti bent til þess – og það er óheppilegt.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 23.4.2013 - 19:53 - FB ummæli ()

Vinstri stjórnin gerði meira en Sjálfstæðismenn lofa nú.

Þegar maður les listann yfir loforð Sjálfstæðismanna um skattalækkanir virðist stefna í miklar og dýrar skattalækkanir, komist þeir til valda. Ég mat þær lauslega á meira en 100 milljarða á ári, án þess að það væri tæmandi.

Bjarni Ben. sagði hins vegar um daginn á beinni línu DV að kostnaðurinn af skattalækkunum Sjálfstæðisflokksins yrði einungis um 17 milljarðar á ári. Það er ótrúlega lítið – og raunar lítilfjörlegt miðað við loforðin.

Kanski var Bjarni þó bara að meina að sá hluti sem rynni til heimila til skuldalækkunar séu einungis þessir 17 milljarðar á ári. Hitt fari til auðmanna (afnám auðlegðarskatts og hátekjuskatts), fyrirtækja, fjárfesta o.s.frv. Það síðarnefnda er jú mesta áhugamál Sjálfstæðismanna.

Gleymum því í bili að Sjálfstæðismenn segja, með skírskotun til vúdú-hagfræðinnar, að þetta verði allt sama ókeypis!

 

Loforð XD: Einungis 17 milljarðar á ári í skuldalækkun til heimila

En ef úrræði Sjálfstæðismanna sem eiga að létta skuldabyrði heimila nema einungis um 17 milljörðum á ári (eins og segir líka í Fréttabréfi XD í dag) þá er ljóst að vinstri stjórnin hefur gert mun meira fyrir skuldug heimili en Sjálfstæðisflokkurinn lofar nú. Mun meira.

Vinstri stjórnin hækkaði persónuafslátt mikið, vaxtabætur mjög mikið og nú í ár hækkaði hún barnabætur um 30%. Allt létti þetta skattbyrði lægri og milli tekjuhópa miklu meira en Sjálfstæðisflokkur lofar fyrir næsta kjörtímabil.

Síðan lækkuðu 110% leiðin og sérstöku skuldaúrræðin, auk gengislánadómanna, heildarskuldir heimilanna um meira en 200 milljarða frá 2010 til 2012 (á þremur árum).

Sjálfstæðismenn lofa hins vegar að lækka skuldir heimilanna aðeins um 68 milljarða á næstu 4 árum (4×17). Stærsti hluti lækkunar Sjálfstæðismanna fer að auki til hátekjuheimila.

Loforð Sjálfstæðismanna eru þannig léttvæg í samanburði við það sem vinstri stjórnin gerði fyrir heimilin (mest fyrir milli og lægri tekjuhópana).

Er það ekki athyglisvert?

 

Síðasti pistill: Ný vúdú-brella Sjálfstæðismanna

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 23.4.2013 - 08:46 - FB ummæli ()

Ný vúdú-brella Sjálfstæðismanna

Eins og menn vita þá hefur Sjálfstæðisflokkurinn beitt vúdú-hagfræði frjálshyggjunnar í gríð og erg í kosningabaráttunni. Þeir hafa sagt að hægt sé að lækka skatta mikið en samt muni skatttekjur ríkissjóðs aukast mikið.

Boðskapurinn er sem sagt sá, að maður geti étið kökuna að hálfu – en samt verði hún áfram í fullri stærð eftir átið!

Hviss, bang, boom…! Galdur.

Í morgun barst mér fréttabréf frá Sjálfstæðisflokknum (XD Fréttir). Þar er kynnt ný vúdú-brella. Þar segja Sjálfstæðismenn að skuldalækkunartillögur þeirra séu betri en tillögur Framsóknar.

Bingó!

Sagt er í bláu súluriti að tillögur Sjálfstæðisflokks muni lækka skuldir heimila sem eru með 20 m.kr. óverðtryggð lán um 4-5 milljónum meira en tillögur Framsóknar geri og verðtryggð lán um nærri milljón krónum meira.

Tillögur Framsóknar eiga að kosta 240 milljarða, en tillögur Sjálfstæðismanna segja þeir sjálfir að kosti samtals 85 milljarða á fimm árum (17 milljarða kostnaður á ári).

Sjálfstæðismenn segjast sem sagt geta lækkað skuldir heimilanna mun meira en Framsóknarmenn – en kostnaðurinn af leið þeirra verði samt einungis um þriðjungur af kostnaði við leið Framsóknar!

Hér er vúdú-hagfræðin aftur á ferð. Peningar verða til úr engu – og renna til heimilanna.

Nú er hádegisverður frjálshyggjunnar allt í einu orðinn ókeypis. Og kvöldverðurinn líka!

Að auki ætla Sjálfstæðismenn að rústa séreigna lífeyrissparnaðarkerfinu alveg og reifa þeir einnig að leyfa fólki að taka 5 milljónir út úr lífeyrissjóðunum til að greiða niður skuldir heimila.

Áður fyrr stóð Sjálfstæðisflokkurinn vörð um lífeyrissjóðina. Hvað skyldu aðilar vinnumarkaðarins segja um þessar tillögur?

Ég er hræddur um að Milton Friedman myndi snúa sér við í gröfinni ef hann vissi hversu langt lærisveinar hans á Íslandi eru komnir út af sporinu!

 

Síðasti pistill: Miðjustjórn Framsóknar?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 22.4.2013 - 13:46 - FB ummæli ()

Miðjustjórn Framsóknar?

Ef fram fer sem horfir verður Framsóknarflokkurinn í lykilstöðu við stjórnarmyndun að kosningum loknum. Margir spyrja því hvort Framsókn vilji frekar mynda ríkisstjórn til hægri eða vinstri?

 

Hægri eða vinstri stjórn í kortunum?

Sjálfstæðimenn reyna að fæla fylgi frá Framsókn með því að segja fólki að Framsókn vilji helst mynda vinstri stjórn.

Vinstri menn telja hins vegar einsýnt að hjúskapur Sjálfstæðisflokks og Framsóknar frá tíma Davíðs og Halldórs verði endurnýjaður, með frjálshyggju Hannesar Hólmsteins og félaga að leiðarljósi.

Niðurstöður kosninganna ráða auðvitað mestu um endanlega möguleika á samstarfi flokka. Ef Framsókn nær því að verða stærsti flokkurinn, eða svipaður að stærð og Sjálfstæðisflokkurinn, opnast möguleikar sem ekki hafa verið uppi í afar langan tíma.

 

Nýir möguleikar opnast

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefur lagt áherslu á að Framsókn sé miðjuflokkur. Það er áherslubreyting frá tíma Halldórs Ásgrímssonar, sem límdi sig upp að Sjálfstæðisflokknum á sama tíma og sá flokkur var sem mest á kafi í róttækri frjálshyggjupólitík.

Samfylkingin virtist á síðustu árum vera búin að taka yfir stöðu Framsóknar sem leiðandi flokkur á miðju íslenskra stjórnmála. Nú er það allt breytt – ef fer sem horfir.

Því hefur opnast möguleiki fyrir Framsókn á að endurheimta lykilstöðu sína sem stór miðjuflokkur.

Í hægri stjórn með Sjálfstæðisflokki færi Framsókn að umtalsverðu leyti aftur í far Halldórs Ásgrímssonar, sem færði flokkinn til hægri. Það tímabil leiddi ekki til farsældar fyrir þjóðina.

 

Miðjustjórn – nýr áhugaverður kostur?

Framsókn gæti myndað stjórn með Samfylkingu og VG. Vegna stærðaryfirburða Framsóknar nú væri það ekki vinstri stjórn í þeim anda sem stjórn Jóhönnu og Steingríms var, heldur vinstri-miðjustjórn, eða hófleg félagshyggjustjórn með áherslu á hagsmuni heimilanna.

Hins vegar á Framsókn líka þann möguleika að setja á legg hreinni miðjustjórn, með Samfylkingu einni (ef fylgið skyldi duga til þess) eða með Samfylkingu og Bjartri framtíð.

Það væri nýr kostur í íslenskum stjórnmálum.

Framsókn gæti vegna stærðar sinnar hugsanlega fengið jafn marga ráðherra í slíkri þriggja flokka miðjustjórn og þeir fengju í tveggja flokka stjórn með Sjálfstæðisflokki. Sjálfstæðisflokkurinn er reyndar svo illa klofinn að varla er hægt að tal um tveggja flokka stjórn með honum!

Ef farsæl stjórnarmyndur á að takast þurfa auðvitað allir aðilar að slaka á sínum ítrustu kröfum og fara millivegi. Það gæti t.d. átt við um endanlegar útfærslur leiða í skuldamálum heimila, breytingar á verðtryggingu og framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðildarviðræðna við ESB.

Ef Framsókn ætlar að vera alvöru miðjuflokkur, en ekki frjálshyggjuhækja fyrir Sjálfstæðisflokkinn, þarf hún að tryggja stöðu sína á miðjunni til frambúðar.

Miðjustjórn Framsóknar gæti því verið athyglisverður möguleiki.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 21.4.2013 - 11:20 - FB ummæli ()

Áhrif nýju flokkanna á fjórflokkinn

Eitt af einkennum kosninganna núna er hinn mikli fjöldi nýrra framboða, sem flest fá mjög lítið fylgi.

Nýju flokkarnir taka fyrst og fremst fylgi frá stjórnarflokkunum. Tap Sjálfstæðisflokks og Framsóknar til nýju framboðanna er lítið, eða um 8% af fyrra fylgi á móti 24-32% hjá stjórnarflokkunum.

 

Tap stjórnarflokkanna

VG tapar meiri til nýju flokkanna en Samfylkingin. Könnun Fréttablaðsins (birt 19. apríl) bendir til að um 32-33% þeirra sem kusu VG síðast dreifist nú á nýju flokkana, mest á Bjarta framtíð (14%) og Pírata. (12%) Um fimmtungur að auki fer á Framsókn.

Um 24-25% þeirra sem kusu Samfylkingu 2009 segjast nú styðja nýju flokkana, þar af eru rúm 7% sem styðja Bjarta framtíð. Um 17% af þessum 24-25% dreifast á smáflokkana sem ekki virðast ná manni inn á þing, og detta þau atkvæði því dauð og verða áhrifalaus. Tæpur fimmtungur til viðbótar fer á Framsókn.

Sjálfstæðisflokkur tapar á hinn bóginn aðeins 7-8% af fyrra fylgi til nýju flokkanna og Framsókn um 8-9%.

Stjórnarflokkarnir eru þannig að tapa langmest á nýju framboðunum. Meiru en þeir tapa til Framsóknar.

Meirihluti þeirra atkvæða sem smáflokkarnir fá mun detta niður dauð og áhrifalaus, þ.e. skila ekki þingmönnum. Það ætti að vera umhugsunarefni fyrir þá kjósendur – og fyrir þá sem skipuleggja kosningabaráttu stjórnarflokkanna.

 

Áhrif á stjórnarmyndun

Stór hlutur smáflokka sem ekki ná manni inn á þing eykur hlutfallslega fjölda þingmanna stærri flokkanna, mest hjá stærstu flokkunum. Það styrkir sem sagt hlut fjórflokksins, þó markmið margra nýju framboðanns sé að grafa undan honum!

Ef smáflokkarnir halda sínu og um 10% atkvæða detta niður dauð, hefur það hins vegar áhrif á möguleika til stjórnarmyndunar, því einungis mun þurfa rúmlega 40% atkvæða til að ná meirihluta þingmanna.

Ef gert er ráð fyrir sömu þróun á fylginu til kjördags og var á síðustu tveimur vikum gætu Sfl., Sf. og VG bætt við sig.

Möguleikar á tveggja flokka stjórn gætu þá verið þrír: XD+XB; XB+XS og XD+XS.

Spurning er þó hvort hugtakið “tveggja flokka stjórn” hafi sömu merkingu og áður. Þannig er Sjálfstæðisflokkurinn illa klofinn um málefni (eins og VG var á núverandi kjörtímabili) og með tvo formenn – einn í Valhöll og annan í Hádegismóum.

Tveggja flokka stjórn með Sjálfstæðisflokki er því í reynd þriggja flokka stjórn!

 

 

Síðasti pistill: Tap Samfylkingar og VG til Framsóknar

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 20.4.2013 - 13:50 - FB ummæli ()

Tap Samfylkingar og VG til Framsóknar

Það er alltaf álitamál hvernig haga skuli kosningabaráttu. Áherslumál og yfirbragð kynningarstarfsins skipta máli.

Mér sýnist að stjórnarflokkunum báðum hafi yfirsést að þeir hafa hvor um sig tapað nærri einum af hverjum fimm sem kusu þá 2009 yfir til Framsóknar, skv. nýjustu könnunum (sbr. Fréttablaðið í gær). Stærsti straumurinn er þangað. Smáflokkarnir taka þó líka umtalsvert.

Einn af hverjum fimm fer til Framsóknar.

Ljóst má vera að þeir sem um ræðir vilja taka hinu ágæta tilboði Framsóknar um viðamikla skuldaniðurfellingu til heimila, í boði erlendra kröfuhafa.

Þó það hafi verið mikilvæg og að mörgu leyti árangursrík stefna stjórnarflokkanna að létta skuldabyrðum af heimilum með lægri og milli tekjur þá vill fólk enn meiri stuðning.

Greinilegt er að um fimmtungur af fyrra fylgi stjórnarflokkanna er á þeirri skoðun og telur stjórnarflokkana ekki sýna nógu mikla ákveðni í að halda áfram þessari velferðarstefnu þeirra í þágu heimilanna.

Í því samhengi finnst mér það vera misráðið í kosningabaráttu Samfylkingar og VG að leggja ekki meiri áherslu á vilja sinn til að leita allra leiða til að styðja heimilin enn frekar.

Í staðinn ráðast sumir talsmenn, einkum úr röðum Samfylkingarinnar, á Framsókn með óþarfa gífuryrðum og úrtölum. Vissulega er óvissa um hversu fær leið Framsóknar er, en hana má reyna, m.a. í bland við skattaleiðina sem Össur Skarphéðinsson hefur reifað í þessu samhengi.

Í gær kvartaði varaformaður Framsóknar yfir því að aðrir flokkar hafi ekki tekið undir þessi áform Framsóknar um að leita leiða til frekari úrbóta í skuldamálunum. Hann sagði það skipta öllu um með hverjum Framsókn vilji vinna eftir kosningar og útilokaði ekkert (ólíkt því sem sagt er í fyrirsögn fréttarinnar).

Er ekki sóknarfæri fyrir stjórnarflokkana einmitt í því falið að taka betur undir með Framsókn, eða kynna kröftugri eigin vilja til að leita frekari skuldaúrræða?

Með því auka stjórnarflokkarnir möguleika á að endurheimta eitthvað af fyrra fylgi sínu og auka í leiðinni möguleika á að Framsókn vilji starfa með þeim í nýrri stjórn. Svo semja menn um útfærslur þegar á hólminn er komið (t.d. flata eða hallandi niðurfellingu o.s.frv.).

Það er varla góð strategía hjá stjórnarflokkunum að stuðla sérstaklega að samstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks – eða hvað?

 

 

Síðasti pistill: Atvinnuleysi – Írland og Ísland samanborin

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 20.4.2013 - 11:14 - FB ummæli ()

Atvinnuleysi – Ísland og Írland samanborin

Ríkisstjórnin hefur náð ótrúlega góðum árangri á sumum sviðum endurreisnarinnar.

Dæmi um það er baráttan gegn atvinnuleysinu.

Á myndinni hér að neðan má sjá hvernig atvinnueysið þróaðist á Íslandi í samanburði við Írland, sem lenti illa í fjármálakreppunni eins og Ísland.

Atvinnuleysi-Ira-og-Íslendinga-2008-13

Atvinnuleysið á Íslandi varð aldrei nærri jafn mikið og á Írlandi, þó hrunið hér hafi verið heldur stærra en írska hrunið.

Írar fóru hæst í 15% og hefur þeim enn ekki tekist að komast niður fyrir 14%. Horfurnar þar eru ekki góðar fyrir þetta ár.

Hér fór atvinnuleysið hæst í 8%, skv. mánaðarlegri mælingu Eurostat (með árstíðaleiðréttingu), og hefur það lækkað jafnt og þétt frá ársbyrjun 2011. Nú í febrúar 2013 var atvinnuleysið á Íslandi komið niður í tæp 5% og í mars enn neðar.

Örvunaraðgerðir og ýmis átaksverkefni hafa skilað miklum árangri hér. Liðsstyrkur, nýjasta átakið, skilar væntanlega enn betri árangri á næstu mánuðum.

Þetta er auðvitað mikill árangur hjá stjórnvöldum. Þau eiga að njóta sannmælis fyrir það.

 

 

Síðasti pistill: Farsæld Sjálfstæðismanna

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 19.4.2013 - 16:28 - FB ummæli ()

Farsæld Sjálfstæðismanna

Bjarni Benediktsson var í viðtali í Fréttatímanum í dag. Segir þar sitthvað upplýsandi, fólki til viðvörunar.

Bjarni Benediktsson segir: „Ef okkur tekst að nýta þá erfiðu atburði sem hér gerðust til þess að gera góða stefnu enn betri þá er þetta ekki bara sami flokkurinn. Þetta er betri flokkur en hann var.“

Ég spyr: Var þetta þá góð stefna Sjálfstæðisflokksins fram að hruni?
Eigum við sem sagt vona á meiru af sömu „góðu stefnunni“: ójöfnuði, vafningum og skuldsetta braskinu sem setti þjóðina á hausinn? En núna kanski með hóflegum hraðahindrunum?

Bjarni segir einnig Davíð Oddsson hafa verið „…farsælasta forsætisráðherra seinni tíma“.

Davíð Oddsson stýrði Íslandi inn í stærsta bóluhagkerfi sögunnar og stærsta og dýrasta hrun sögunnar! Gerði svo Seðlabankann gjaldþrota.

Hvernig getur það talist vera farsæld?

Í gær var Bjarni á beinni línu hjá DV. Þar sagði hann að það væri ekki forgangsmál að hækka persónuafsláttinn, heldur að lækka skattprósentuna.

Það þýðir að tekjuskattslækkunin sem Sjálfstæðisflokkurinn boðar er fyrst og fremst fyrir hátekjufólk.

Svo var Bjarni einnig að lýsa miklum áhyggjum sínum af skertum tekjum hátekjufólks, sem fyrir hrun höfðu hækkað tekjur sínar margfalt á við meðaltekjufólk. Margfalt!

Farsæld Sjálfstæðisflokksins virðist samkvæmt þessu fyrst og fremst vera fyrir braskara og hátekjufólk.

 

Síðasti pistill: NÝSKÖPUNARMAÐUR Í FRAMSÓKN

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 19.4.2013 - 11:03 - FB ummæli ()

Nýsköpunarmaður í Framsókn

Frosti Sigurjónsson er einn athyglisverðasti nýi frambjóðandin í kosningunum. Hann er í fyrsta sæti hjá Framsókn í Reykjavík norður.

Frosti hefur átt athyglisverðan feril í nýsköpun. Hann hefur verið virkur í upplýsingatæknifyrirtækjum ýmsum og meðal annars stofnaði hann ferðaleitarvefinn DOHOP, sem er frábær vefur fyrir þá sem bóka sjálfir sín flug og hótel. Þar fá menn ódýrustu flugin og góð hóteltilboð.

Frosti var virkur í baráttunni gegn Icesave og hefur nú lagt áherslu á skuldaniðurfellingu til heimilanna, sem er eitt af höfuðmálum Framsóknar í þessum kosningum. Hann er greinilega mjög leitandi maður og talar fyrir róttækum umbótum á fjármálakerfinu.

Það er mikill fengur að því að fá slíkan nýsköpunarmann inn í stjórnmálin á Ísland. Hann væri t.d. góður kostur í stól ráðherra atvinnu- og nýsköpunarmála.

Svo er Frosti liðtækur á gítar. Það gefur marga punkta í minni einkunnabók!

 

 

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 18.4.2013 - 08:31 - FB ummæli ()

Ójöfnuður og ríkidæmi fyrir hrun

Hægri menn gera jafnan lítið úr aukningu ójafnaðar á Íslandi á áratugnum fram að hruni. Eins og frjálshyggjumenn í Bandaríkjunum eru þeir almennt ekki andvígir ójöfnuði, enda stuðlar stefna þeirra iðulega að auknu ríkidæmi hátekjufólks, bæði með auknu frelsi á fjármálamarkaði og skattaívilnunum til hátekju- og stóreignafólks.

Það er eitt að megineinkennum frjálshyggjutímans á Íslandi frá 1995 til 2007 að ójöfnuður jókst stig af stigi, með ört vaxandi hraða eftir aldamótin. Ríkidæmi hátekjuhópanna varð fordæmalaust í íslenskri samfélagsþróun. Ríkidæmið var sérstaklega nátengt fjármagnstekjum, sem koma mest í hlut hátekjuhópa og báru umtalsvert lægri skatta en tekjur vinnandi fólks.

 

Ójafnaðarþróunin

Hér eru fjórar myndir sem sýna þróun ójafnaðarins og ríkidæmisins á Íslandi, bæði fyrir og eftir hrun. Þær koma úr rannsóknarverkum sem við Arnaldur Sölvi Kristjánsson hagfræðingur höfum unnið á síðustu misserum (sjá ítarlega umfjöllun hér).

Fyrsta myndin sýnir Gini-ójafnaðarstuðulinn, annars vegar fyrir allar skattskyldar tekjur (svörtu súlurnar) og hins vegar þegar söluhagnaði fjármagnstekna er sleppt. Því hærri sem Gini stuðullinn er þeim mun meiri er ójöfnuðurinn.

Slide1

Mynd 1: Þróun tekjuójafnaðar frá 1993 til 2010. Ráðstöfunartekjur fjölskyldna eftir skatta og bætur, með og án söluhagnaðarhlutar fjármagnstekna.

 

Þarna má sjá hvernig aukning ójafnaðarins er nær samfelld frá 1996 til 2007, með vaxandi hraða þó. Hámarki náði ójöfnuðurinn árið 2007 en lækkaði svo eftir hrun. Árið 2010 var tekjuójöfnuðurinn almennt orðinn svipaður og verið hafði rétt fyrir aldamótin 2000.

Gráu súlurnar eru án söluhagnaðarhluta fjármagnstekna (sem er sama tekjumæling og Hagstofan notar í úrtakskönnunum sínum). Söluhagnaður var mjög vaxandi í bóluhagkerfinu upp úr aldamótum, en hann er einkum afrakstur brasks og spákaupmennsku á fjármálamarkaði og hlutabréfamarkaði, sem er algengast í allra tekjuhæstu hópunum. Þegar þeim er sleppt mælist tekjuskiptingin ekki eins ójöfn, enda tekjur hátekjuhópa þá vantaldar. Þróunin er samt svipuð.

Munur svörtu og gráu súlnanna sýnir áhrif bóluhagkerfisins á ójöfnuð tekjuskiptingarinnar. Svörtu súlurnar gefa réttustu myndina af ójöfnuðinum, því þar eru allar skattskyldar tekjur meðtaldar (að frátöldu því fé sem rann í erlend skattaskjól, sem var umtalsvert).

Þessi aukning ójafnaðar er meiri en sést hefur í öðrum vestrænum löndum á síðustu 60 árum eða svo. Á hinum Norðurlöndunum jókst ójöfnuður tekna meira en í OECD-ríkjunum að meðaltali frá um 1995 til 2005. Ísland fylgdi þeirri þróun í fyrstu en með meiri hraða frá lokum tíunda áratugarins. Ísland fór framúr hinum norrænu þjóðunum í ójafnaðarþróun á árinu 2001 ef miðað er við allar skattskyldar tekjur en 2005 ef sleppt er helmingi fjármagnstekna (eins og er gert í könnunum Hagstofunnar) (sjá hér og hér).

Bóluhagkerfið var veisla hátekjuhópanna á Íslandi. Tekjuhlutdeild ríkasta eins prósents íbúanna fór úr um 4% af heildartekjum heimilanna í rúm 19% frá 1996 til 2007.

 

Ríkidæmið á Íslandi fyrir hrun

Næsta mynd sýnir prósentuaukningu ráðstöfunartekna fjölskyldna í ólíkum tekjuhópum á tímabilinu öllu frá 1995 til 2007, aðskilið fyrir þá allra ríkustu, efstu tíu prósentin, miðtekjufólk (þá sem eru í miðjum tekjustiganum) og fyrir lágtekjufólk. Það gefur gagnsærri mynd af aukningu ójafnaðarins en Gini-stuðullinn.

Slide2

Mynd 2: Raunaukning kaumáttar ráðstöfunartekna (fast verðlag) frá 1995 til 2007, eftir ólíkum tekjuhópum: hátekjufólk, miðtekjufólk og lágtekjufólk.

 

Hér verður aukning ójafnaðarins áþreifanlegri. Hún kom fram í því að ráðstöfunartekjur tekjuhæsta eins prósents fjölskyldna á Íslandi jukust um alls 1048 % (eitt þúsund fjörutíu og átta prósent) á tímabilinu öllu á meðan ráðstöfunartekjur miðtekjufólks jukust um 79% alls. Aukning tekna lágtekjufólks var hins vegar aðeins um 64% á sama tíma.

Aukning tekna ríkasta eins prósentsins var um sextán sinnum meiri en hjá lágtekjufólkinu. Ekki tvöföld, ekki þreföld, ekki tíföld – heldur sextánföld.

Þegar menn segja að tekjur allra hafi aukist eitthvað á tímabilinu þá er það rétt, en tekjur hátekjufólksins jukust margfalt á við tekjur hinna sem voru neðar í tekjustiganum. Allra tekjulægsta fólkið sat eftir.

 

Rauntekjur á mánuði

Á næstu mynd má svo sjá hvernig raunverulegar mánaðartekjur fjölskyldna í þessum ólíku tekjuhópum þróuðust frá 1993 til 2010.

Þar sjást yfirburðir tekjuhæsta eins prósentsins enn skýrar. Tekjuaukningin þar var svo miklu meiri en hjá lægri tekjuhópunum að varla má greina neina breytingu hjá miðtekjuhópnum á myndinni (neðsta línan), munur breytinganna er svo mikill.

Slide3

Mynd 3: Heildartekjur fjölskyldna í ólíkum tekjuhópum á mánuði, frá 1993 til 2010. Fast verðlag ársins 2010.

 

Mynd 3 sýnir þannig þann mikla mun sem varð milli tekjuhópa, með því að hátekjufólk hækkaði langt umfram alla aðra. Þetta var fordæmalaus gróðatími fyrir hátekju- og stóreignafólk á Íslandi, raunar alveg frá um 1998 er nýi fjármagnstekjuskatturinn var innleiddur og þegar áhrifa af auknu frelsi og veltu á hlutabréfamarkaði fór að gæta með vaxandi þunga.

Bóluhagkerfið var þannig gríðarlega ábatasamur tími fyrir hátekjufólk. Það er auðvitað meginástæðan fyrir því að það gekk jafn langt og raun bar vitni. Ekki einungis naut hátekjufólkið fordæmalausrar tekjuaukningar, heldur bættu stjórnvöld í og veittum þeim einnig skattfríðindi á sama tíma, sem voru einstaklega mikil miðað við OECD-ríkin. Skattbyrði lágtekjufólks jókst hins vegar á sama tíma.

Þrátt fyrir að tekjuskiptingin hafi snúist aftur í átt til þess sem var fyrir mestu þensluárin, þá hefur ekki öll aukning ójafnaðarins sem varð eftir 1995 gengið til baka á árinu 2010. Rauntekjur ríkustu hópanna voru á árinu 2010 svipaðar og verið hafði árið 2000.

Þó má ætla að ójöfnuðurinn á Íslandi sé nú kominn á svipað ról og á hinum Norðurlöndunum á árinu 2012.

 

Tekjuhlutdeild ríkasta eins prósentsins: Ísland og BNA samanborin

Að lokum sýni ég hér mynd af tekjuhlutdeild þeirra allra ríkustu á Íslandi í samanburði við Bandaríkin. Miðað er við allar skattskyldar tekjur fyrir skatt. Línurnar sýna hlutdeild ríkasta eins prósentsins af heildartekjum fjölskyldna í hvoru landi.

Slide3

Mynd 4: Tekjur ríkasta eins prósentsins sem hlutfall heildartekna heimilanna. Allar skattskyldar tekjur fyrir skatt.

 

Hér má sjá að aukning tekna ríkasta eins prósentsins á Íslandi var mun örari en sambærilegs hóps í Bandaríkjunum. Þar hafði aukning ójafnaðarins hafist um 1980 og tengdist það frjálshyggjustefnu Reagan-stjórnarinnar. Sambærilegra áhrifa gætti í Bretlandi á Thatcher-tímanum. Hér byrjaði sambærileg þróun seinna, en fór fram með mun meiri hraða.

 

Einstök þróun

Saga ójafnaðarþróunarinnar á Íslandi frá 1995 til 2007 er þannig einstök, rétt eins og bóluhagkerfið íslenska sem gat af sér hrunið.

Aukning ójafnaðar var nátengd bóluhagkerfinu og stjórnarstefnu ríkisstjórna þessa tíma. Bóluhagkerfið, afskiptaleysis- og skattastefnan sem hér ríkti skapaði skilyrði fyrir hátekjufólk til að braska með lánsfé sér til mikils ábata. Það var nýtt til hins ýtrasta, mun meira en sést hefur í öðrum vestrænum samfélögum.

Afleiðingin varð verulega mikil aukning ójafnaðar og fordæmalaust ríkidæmi þeirra ríku á Íslandi.

Umskiptin til meiri jafnaðar eftir hrun urðu bæði vegna hruns bóluhagkerfisins (fjármagnstekjur ríka fólksins lækkuðu verulega) og vegna aukinna jöfnunaráhrifa stjórnarstefnunnar.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar