Laugardagur 2.3.2013 - 13:37 - FB ummæli ()

Fátækt – tvær ólíkar mælingar

Hægt er að mæla fátækt á marga vegu. Enda er fátækt margbrotið fyrirbæri sem kemur fram með ólíkum hætti í mismunandi aðstæðum. Sjá nánar um það í athyglisverðri nýrri skýrslu um fátækt (hér).

Ólíkar mælingar gefa hins vegar ólíkar niðurstöður um umfang fátæktar í samfélaginu. Þess vegna er alltaf best að meta fátækt út frá sem flestum viðmiðum og nota mismunandi mælikvarða samhliða.

Hér að neðan sýni ég tvær algengar mælingar á fátæktarþrengingum sem mikið eru notaðar nú á dögum: afstæð fátækt annars vegar (stærð hópa undir fátæktarmörkum, sem eru oftast skilgreind sem 50% eða 60% miðtekna) og hins vegar eigin mat fólks á fjárhagsþrengingum sínum. Þessar mælingar segja ólíka sögu um þróun fátæktar eftir hrunið á Íslandi.

 

Afstæð fátækt 2003 til 2010

Mynd 1 sýnir þróun afstæðrar fátæktar, þ.e. hlutfall einstaklinga sem teljast hafa minni ráðstöfunartekjur en nemur 60% af miðtekjum (tölurnar koma frá Hagstofu Íslands).

Mynd 1: Hlutfall einstaklinga sem eru undir afstæðum fátæktarmörkum (60% af miðtekjum).

Súlurnar sýna hver stór hluti einstaklinga er undir þeim fátæktarmörkum sem ESB notar mest. Hér má sjá að hópurinn var á bilinu 9,6% til 10,2% á árunum frá 2003 til 2008.

Síðan fækkaði einstaklingum undir fátæktarmörkum úr 10,2% og niður í 9,2% frá 2008 til 2010, er við vorum á botni kreppunnar. Mest var lækkunin hjá ellilífeyrisþegum, en um 18% þeirra voru undir þessum fátæktarmörkum árið 2007 en hafði fækkað í 4,6% árið 2010. Mikil hækkun á lágmarksframfærslutryggingu almannatrygginga í byrjun árs 2009 skilaði því (sjá nánar hér).

Þessi mæling segir sem sagt, að úr (afstæðri) fátækt hafi dregið eftir hrunið, þegar út í kreppuna var komið. Er það mjög trúverðug lýsing á þróun fátæktar, í skilningi fjárhagsafkomu heimila? Nei, enda versnuðu kjör allra með hinni miklu kaupmáttarrýrnun sem varð vegna hruns krónunnar á árinu 2008-9, aukins atvinnuleysis og mikillar skuldabyrði.

Það sem mælingin á afstæðri fátækt segir hins vegar er að kjör þeirra fátækari rýrnuðu hlutfallslega minna en hjá miðtekjufólki. Miðtekjurnar lækkuðu meira en lægri tekjurnar. Lágtekjufólki var að hluta hlíft við kjararýrnuninni, umfram hærri tekjuhópa. Hún varð þó umtalsverð.

 

Fjárhagsþrengingar heimila

Tölur um afstæða fátækt segja einungis hvernig lágtekjufólk stendur miðað við miðtekjufólk og því getur það gefið takmarkaða (og jafnvel villandi) mynd af raunverulegri afkomu lágtekjufólks. Þá er að grípa til annarra mælinga sem segja þá sögu betur, þ.e. hvernig afkomu var háttað. Ein slík er mat á erfiðleikum við að láta enda ná saman í rekstri heimilisins, sem Hagstofan kannar líka.

Mynd 2 sýnir hlutfall heimila sem segja “mjög erfitt að ná endum saman”, frá 2004 til 2011.

Mynd 2: Mat á fjárhagsþrengingum heimila (% sem segja mjög erfitt að ná endum saman), 2004 til 2011. (Tölurnar eru frá Hagstofu Íslands)

Hér kemur fram mynd sem er án efa meira í samræmi við upplifanir fólks á afleiðingum kreppunnar. Hlutfall heimila sem segja mjög erfitt að ná endum saman í rekstri sínum fór úr 5,6% árið 2007 og upp í 13,7% árið 2010, er botni kreppunnar var náð. Hópurinn sem var í erfiðum fjárhagsþrengingum meira en tvöfaldaðist að stærð, en minnkaði svo lítillega aftur árið 2011 í 13,3% – og væntanlega hefur hann minnkað áfram eftir það.

Athyglisvert er einnig að árið 2004, í miðju góðærinu, voru um 9,7% heimila sem sögðu mjög erfitt að ná endum saman. Samanborið við það er staðan eftir  hrun ekki svo miklu verri en verið hafði 2004, eða rúm 13% á móti tæpum 10%, ekki síst þegar umfang hrunsins og kreppunnar (t.d. atvinnuleysis) er haft til hliðsjónar. Það bendir til að mótvægisaðgerðir stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins hafi náð að milda áhrif kreppunar á lægri tekjuhópana.

 

Niðurstaða

Ólíkar mælingar á fátækt draga fram ólíkar myndir af þróuninni, enda vísa þær til ólíkra þátta fátæktarreynslunnar. Skoða þarf sem flesta mælikvarða til að fá raunsæa heildstæða mynd. Sjá nánar umfjöllun um aðferðafræði fátæktarrannsókna í nýrri bók, Þróun velferðarinnar 1988 til 2008, í ritstjórn Guðnýjar Bjarkar Eydal og Stefáns Ólafssonar.

Þrátt fyrir að tekist hafi að hlífa lágtekjufólki að hluta við afleiðingum hrunsins á lífskjörin þá jukust afkomuerfiðleikar heimilanna umtalsvert á árunum 2009 og 2010. Fjöldi heimila sem átti mjög erfitt með að láta enda ná saman meira en tvöfaldaðist til 2010, en hefur aftur dregist lítillega saman á síðustu tveimur árum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 28.2.2013 - 22:08 - FB ummæli ()

Styrmir boðar hreinsanir

Sjálfstæðismenn eru nú orðnir vissir um að þeir nái meirihluta með Framsókn í kosningunum í vor. Valdafíkn og hroki þeirra eykst að sama skapi með degi hverjum.

Dæmi um það er að finna í pistli sem Styrmir Gunnarsson skrifar í dag, en hann er  fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins og sérstakur aðgerðastjóri Sjálfstæðisflokksins til margar áratuga.

Styrmir boðar að miklar hreinsanir séu í vændum í opinberu stjórnsýslunni og hjá RÚV, komist Sjálfstæðismenn til valda. Hér er bein ívitnun í skrif Styrmis:

“Í stjórnarandstöðuflokkunum finna menn að langri eyðimerkurgöngu þeirra er að ljúka og þar fara menn að velta því fyrir sér hverja í embættismannakerfinu eigi að setja út í kuldann og hverjum eigi að umbuna. Og þar fara menn að velta fyrir sér hvers konar breytingum þurfi að koma fram á RÚV til þess að skapa meira jafnvæg í umfjöllun þess fjölmiðils.” (undirstrikanir mínar)

Hverjum á að umbuna og hverjum að refsa í ráðuneytum og opinberum stofnunum er spurningin sem nú gengur manna í millum í Valhöll.

Hjá RÚV þarf að breyta áherslum í fjölmiðlun “til að skapa meira jafnvægi í umfjöllun”, segja þeir.

Þetta er mjög óvenjulegt og opinskátt. Ég minnist þess ekki að menn hafi talað svona áður á Íslandi. Sjálfstæði og fagmennska í stjórnsýslunni og hjá RÚV eru einskis metin í Valhöll.

Sjálfstæðismenn ætla greinilega að setja eigin pólitíska kommissara inn á RÚV, til að stýra fréttaumfjöllun í eigin þágu.

Það á sem sagt að beinstýra þessu öllu úr Valhöll, ef Sjálfstæðisflokkurinn kemst til valda.

Þöggun og pólitísk handstýring er aftur komin á dagskrá. Bláa höndin virðist ætla að vera athafnasöm – ef færi gefst!

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 28.2.2013 - 00:07 - FB ummæli ()

Áhugaverður hægri maður

David Brooks, pistlahöfundur á New York Times, er uppáhalds hægri maðurinn minn. Það er hægt að vera honum sammála um sumt. Þó styður hann Repúblikana, þann skelfilega flokk, – svona upp að vissu marki.

Pistlar hans sýna almennt mikinn skilning á samfélaginu í Bandaríkjunum og eru oft mjög athyglisverðir.

Það sem einkennir Brooks er víðsýni, raunsæi og einlægur vilji til að bæta samfélagið. Hann er ekki bara að hugsa um að bæta hag þeirra ríku, eins og ráðandi öfl í Repúblikanaflokknum gera þessi misserin. Honum leist til dæmis ekkert allt of vel á Mitt Romney sem forsetaframbjóðanda og gagnrýndi málflutning hans.

Brooks hefur áhyggjur af auknum ójöfnuði í bandarísku samfélagi. Hann óttast einnig þann mikla klofning sem fylgir ójöfnuðinum og vaxandi pólitískri sundrungu. Hann er lausnamiðaður og vill fjárfesta í framtíðar velferð bandarískra barna (sjá t.d. hér).

Hann segir stærð ríkisvaldsins ekki vera vandamálið – heldur gæði þess sem ríkið aðhefst. Hann vill betra ríkisvald sem nær betri árangri, endurdreifa útgjöldunum svo þau hitti betur í mark. Hann hatar ekki rikisvaldið og lýræðið eins og frjálshyggjumenn gjarnan gera, heldur vill hann beita því á skynsaman hátt til að bæta mannlífið í samfélaginu.

David Brooks sér því ekki skynsemina í linnulausu þrátefli milli Repúblikana og Demokrata um fjárlög ríkisins. Hann vill skattleggja ríka fólkið meira og skerða bætur til þeirra til að bæta stöðu og tækifæri fátækra barna, efla menntun, vísindi og tækni og efla samgöngumannvirki og starfstækifæri fyrir ungt fólk.

Hann vill hagvöxt með meira réttlæti og sanngirni. Hann er augljóslega í minnihluta í Repúblikanaflokknum. Heldur sig þó samt til hægri. Raunar talar hann stundum eins og hófsamur en skynsamur miðjumaður.

Eftir frjálshyggjubyltinguna sem ágerðist uppúr 1980 má segja að svona hægri menn séu orðnir sjaldgæfari, bæði í Bandaríkjunum og víðar á Vesturlöndum. Frjálshyggjubyltingunni fylgir öðru fremur draumur um að veikja ríkisvaldið og velferðarríkið, lækka skatta á ríka fólkið og að færa fjármálaöflunum meira frelsi til að braska og græða – jafnvel á kostnað samfélagsins.

Á Íslandi er Sjálfstæðisflokkurinn fulltrúi hinna hörðu frjálshyggjuviðhorfa sem sæma harðlínunni í Repúblikanaflokknum.

Ég held þó að hér séu enn til Sjálfstæðismenn sem hugsa í anda David Brooks. Sjálfstæðismenn af gamla skólanum. Þeir eru hins vegar í minnihluta, því miður.

Braskarar frjálshyggjunnar og óheftrar auðhyggju ráða ferðinni í nýja Sjálfstæðisflokknum – flokki ríka fólksins.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 26.2.2013 - 20:46 - FB ummæli ()

Jeffrey Sachs – Bylting frjálshyggjunnar í USA

Jeffrey Sachs, heimsþekktur hagfræðiprófessor við Columbia háskóla í New York og ráðgjafi Sameinuðu þjóðanna í þróunarmálum, skrifaði nýlega athyglisverða grein um áhrif frjálshyggju á efnahag og þjóðfélag í Bandaríkjunum.

Hann gefur frjálshyggjunni falleinkunn og segir hana hafa stórskaða samfélagið.

Bylting frjálshyggjunnar hófst með stjórnartíma Ronald Reagans upp úr 1980. Reagan sagði að ríkisstjórnir hefðu ekki lausnir á vandamálum Bandaríkjanna. “Ríkið er vandamálið”, voru hin fleygu orð hans!

Í staðinn boðaði Reagan frjálshyggjubyltingu og afskiptaleysisstefnu (free market revolution) með skattalækkunum, einkum til hinna efnameiri í samfélaginu. Hann vildi einnig skera niður opinbera þjónustu og almannatryggingar, minnka velferðarríkið og efla markaðinn.

Jeffrey Sachs segir Reagan hafa sett í gang herferð sem í reynd rýrði kjör fátækra (lægstu laun lækkuðu; bætur lækkuðu; heimilislausum tók að fjölga stórlega), en einnig herferð gegn umhverfisvernd, vísindum og tækni. Í reynd grófu aðgerðir Reagan-stjórnarinnar einnig undan millistéttinni.

Sachs segir aðgerðir Reagan-stjórnarinnar einkum hafa falist í fjórum þáttum:

  • Skattalækkunum fyrir þá ríku
  • Niðurskurði opinberra útgjalda til menntunar, samgöngumannvirkja, orkuöflunar, umhverfisverndar og starfsþjálfunar fyrir ungmenni
  • Mikilli aukning hernaðarútgjalda
  • Afreglun efnahagslífsins (aukið frelsi á fjármálamarkaði) og aukin einkavæðing á grunnþjónustu hins opinbera

Allt þetta leiddi til þess að tekju- og eignaskiptingin varð mun ójafnari en áður hafði verið og grunngerð samfélagsins veiktist. Bilið milli ríkra og fátækra jókst stórum og millistéttin dróst saman.

Ameríski draumurinn varð sífellt innantómari og tækifæri til að hefja sig upp úr fátækt rýrnuðu. Eina leiðin til að halda kaupmætti fyrir venjulegar fjölskyldur í millistétt var sú, að auka vinnu og safna skuldum.

Sachs veltir einnig fyrir sér hvort komið sé að lokum frjálshyggjutilraunarinnar í Bandaríkjunum, sem staðið hefur nú í um 30 ár. Hann bendir á niðurstöðu sagnfræðingsins kunna, Arthur Schlesinger yngri, um að í seinni tíma sögu Bandaríkjanna hafi skipst á u.þ.b. 30 ára tímabil þar sem einkahagsmunir þeirra ríku og hagsmunir almennings hafi verið ríkjandi á víxl.

Frjálshyggjunni fylgja áherslur er hagnast einkum þeim ríku, eins og verið hefur síðustu 30 árin. Áratugirnir þrír frá lokum seinni heimsstyrjaldar voru hins vegar mun hagsælli fyrir almenning en yfirstéttina (sjá hér).

Sachs veltir fyrir sér hvort Obama forseti sé að hallast að stefnubreytingu frá frjálshyggjuáherslunum sem ríkt hafa frá tíma Reagans og bindur nokkrar vonir við það. Hann varar þó við því, að talsmenn frjálshyggju eru þeir sem hafa mestu völdin í samfélaginu, þ.e. peningaöflin, yfirstéttin og stórfyrirtækin.

Ísland fékk sína frjálshyggjubyltingu fyrir tilstilli Eimreiðarhópsins í Sjálfstæðisflokknum, sem gætti með vaxandi þunga í stjórnartíð Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar, frá um 1995 til 2007. Frjálshyggjunni á Íslandi fylgdu mörg sambærileg einkenni og fram komu í Bandaríkjunum.

Að mörgu leyti var gengið lengra hér í átt frjálshyggjuáhrifa en í Bandaríkjunum og urðu afleiðingarnar hrikalegri, bæði hvað snertir skuldasöfnun, spákaupmennsku í bóluhagkerfinu, aukinn ójöfnuð tekna og eigna og hið hrikalega fjármálahrun, með mestu kjaraskerðingu almennings á lýðveldistímanum.

Í Bandaríkjunum eru málsmetandi menn, eins og Jeffrey Sachs, að sjá hversu óheillavænleg áhrif frjálshyggjan hefur haft á síðustu áratugum. En á Íslandi herðir Sjálfstæðisflokkurinn róðurinn á frjálshyggjumiðin.

Það er sennilega vegna þess að peningaöflin ráða ferðinni í Sjálfstæðisflokknum.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 26.2.2013 - 09:05 - FB ummæli ()

Stjórnarskráin – athyglisverð umfjöllun

Tom Ginsburg, prófessor við Chicago háskóla og sérfræðingur í stjórnarskrármálum, flutti fyrirlestur í síðustu viku á vegum Eddu-Öndvegisseturs við Háskóla Íslands.

Ginsburg hefur rannsakað stjórnarskrár og breytingar þeirra í fjölmörgum löndum. Hann var einnig í Silfri Egils á sunnudag og hafði margt athyglisvert og jákvætt að segja um nýju stjórnarskrárdrögin.

Ginsburg kvað ekki upp úr um það að breytingin væri sérstaklega róttæk, en sagði sumar breytingarnar vera mjög nýstálegar og að í drögunum væru stór skref stigin í átt til aukins lýðræðis, með greiðari áhrifum almennings.

Hann benti þó á að þröskuldur fyrir kröfu almennings um þjóðaratkvæðagreiðslu væri heldur lágur, miðað við fámenni þjóðarinnar. Það virðist því skynsamlegt að hækka þröskuldinn, t.d. úr um 10% kjósenda í átt til 15%, svo dæmi sé tekið.

Þá sagði hann að hinu sérstaka forsetaræði sem hér hefur tíðkast, þar sem forseti og þing deila völdum að hluta, væri haldið í nýju drögunum en þingræðið eflt á kostnað framkvæmdavalds ríkisstjórna. Hann sá ekki ástæðu til að taka undir athugasendir Feneyjanefndarinnar við þá skipan.

Þá hældi hann nýjum ákvæðum um mannréttindi og sagði það skoðun sína að stjórnarskrár ættu að breytast í takti við samfélagið sjálft. Sú stjórnarskrá sem sett var til bráðabirgða við lýðveldisstofnunina hefur lifað ansi lengi.

Sjálfur hef ég verið mjög áhugasamur um nýju stjórnarskrána. Sérstaklega myndi ég leggja áherslu á nýja ákvæðið um þjóðareign náttúruauðlinda og um aukna möguleika almennings á að kalla eftir þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ef stjórnarandstaðan nær að skemma fyrir afgreiðslu nýju stjórnarskrárinnar, í þeirri tímaþröng sem við blasir, þá finnst mér að sjálfsagt sé að afgreiða einungis mikilvægar greinar að þessu sinni, t.d. um náttúruauðlindirnar og þjóðaratkvæði.

Það yrði lítið unnið með því að keyra stjórnarskrána í heild í gegn með mjög mikilli andstöðu, til þess eins að láta næstu ríkisstjórn fella hana úr gildi á ný. Betra væri að sleppa umdeildustu ákvæðunum að sinni, ef meiri samstaða næðist með því.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 25.2.2013 - 09:50 - FB ummæli ()

Sérstaða VG í íslenskum stjórnmálum

Að sumu leyti má segja að lítill munur sé á stefnu eða sjónarmiðum miðjuflokkanna á Íslandi: Bjartrar framtíðar, Dögunar, Framsóknarflokks, Hægri grænna, Lýðræðisvaktar og Samfylkingar. Auðvitað er afstaða til einstakra mála ólík, t.d. ESB aðildar, en á heildina litið ber frekar lítið í milli.

Við sem erum á miðjunni í pólitíska litrófinu eigum ansi marga valkosti, en spurning er hvort kröftunum sé ekki dreift um of með smáflokkaframboðum, sem sum hver eru á veikum grunni?

Yst í pólitíska litrófinu, bæði á vinstri og hægri væng, eru hins vegar meiri frávik. VG og Sjálfstæðisflokkurinn skera sig úr. VG er hinn skýrasti vinstri flokkur á Íslandi en Sjálfstæðisflokkurinn er fulltrúi róttækrar hægri frjálshyggju, í bland við þjóðernislega íhaldssemi og sérhagsmunagæslu fyrir yfirstéttina.

Sérstaða VG liggur ekki aðeins í því að vera lengst til vinstri, heldur eru ríkar áherslur þeirra á umhverfisverndarmál, græna hagkerfið og jafnrétti kynjanna afar mikilvægar og sérstakar.

VG-menn voru líka þeir einu á Alþingi sem vöruðu alvarlega við efnahagsstefnunni og fjármálaþennslunni á árum bóluhagkerfisins, þegar frjálshyggja,  græðgi og skuldasöfnun keyrðu úr hófi.

Betra hefði verið ef ráðum VG-fólks hefði verið fylgt á þeim óheillaárum.

Staða VG í könnunum hefur verið erfið undanfarið. Það er viðbúið að stjórnarflokkar sem sitja í gegnum erfiða kreppu láti á sjá í vinsældarmælingum, því margir hafa undan miklu að kvarta á krepputímum. Þeir beina óánægju sinni gjarnan að sitjandi ríkisstjórn, þó orsök vandans liggi annars staðar.

Þannig voru það t.d. fjármálabraskarar og atvinnurekendur sem settu Ísland á hliðina með geigvænlegri skuldasöfnun fyrir hrun – en almenningur kennir ríkisstjórninni sem tók við hrundu búi um hvernig allt er. Það er ósanngjarnt, en því miður algengt.

Sundrung í eigin röðum varð VG einnig dýrkeypt. Of margir VG-liðar féllu fyrir því áróðursbragði Sjálfstæðismanna að kalla aðildarviðræðurnar „aðlögunarviðræður“. Það var út í hött. Ekkert var rangt við þá leið að kanna hvað aðild gæti falið i sér og leyfa þjóðinni að taka afstöðu til niðurstöðunnar – um leið og VG-fólk gat verið andvígt aðild, jafnvel þó góðir kostir væru í boði.

Þeir sem taka að sér að stjórna eftir fjármálahrun og almennt í djúpri kreppu sjá gjarnan vinsældir sína gufa upp á nokkrum mánuðum eða misserum. Þetta höfum við ítrekað séð í kreppuhrjáðum Evrópulöndum undanfarið.

Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon hafa ekki farið varhluta af slíkri þróun. Þau mælast með lítinn stuðning í könnunum, þó almennt séu þau talin hafa staðið sig afar vel. Bæði hverfa nú úr forystusveit sinna flokka. Það býður upp á endurnýjun, sem skapar flokkum þeirra betri tækifæri í kosningunum.

Athyglisvert er að Bjarni Benediktsson er þó með minni stuðning og traust í nýjustu könnun en bæði Jóhanna og Steingrímur! Hann situr þó áfram – en augljóslega sem afar veikur leiðtogi í sínum flokki.

Katrín Jakobsdóttir mun án efa styrkja stöðu VG í komandi kosningum, enda er hún sérstaklega geðþekk manneskja og álitlegur stjórnmálamaður. Góður hugur og eining virðist hafa ríkt á landsfundi VG um helgina, þrátt fyrir að Evrópumálin séu VG erfið.

Það má því búast við að staða VG geti vænkast í aðdraganda kosninganna.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 23.2.2013 - 13:03 - FB ummæli ()

Sjálfstæðisflokkur – Flokkur ríka fólksins

“Hvers konar flokkur er Sjálfstæðisflokkurinn”, spyr Styrmir Gunnarsson í nýlegri bók sinni, Sjálfstæðisflokkurinn – Átök og uppgjör? (sjá bls. 268 og áfram)

Við getum bætt við og spurt frekar, er Sjálfstæðisflokkurinn íhaldsflokkur, frjálslyndur flokkur, frjálshyggjuflokkur hins óhefta kapítalisma (í anda Répúblikana í USA), hagsmunaflokkur yfirstéttarinnar eða flokkur allra stétta? Hvað vegur mest í einkennum flokksins?

 

Gamli Sjálfstæðisflokkurinn

Styrmir vísar til skilgreiningar Birgis Kjarans á flokknum frá árinu 1959, þar sem lögð er áhersla á þjóðernislegar rætur hans. Birgir Kjaran átti sjálfur fortíð í nasistaflokknum, Þjóðernissinnaflokki Íslands, sem var aflagður í byrjun seinni heimsstyrjaldar.

Birgir bendir í grein sinni á að Sjálfstæðisflokkurinn var stofnaður 1929 við samruna Íhaldsflokksins og Frjálslynda flokksins. Þess vegna er oft sagt að Sjálfstæðisflokkurinn aðhyllist íhaldsstefnu í bland við frjálslyndisstefnu.

Á sjöunda og áttunda áratugnum var stundum sagt að menn í Sjálfstæðisflokki væru mest hægri menn, en þar mætti einnig finna miðjumenn smitaða af “kratisma”. Styrmir leggur sjálfur áherslu á að flokkurinn hafi verið hægri flokkur og spyr hvort hægt sé að komast lengra til hægri en Birgir Kjaran gerði, en hann var í metum í flokknum á sínum tíma. Samstarfsflokkar í ríkisstjórnum héldu hins vegar oft aftur af hægri stefnu flokksins.

Þetta er myndin af gamla Sjálfstæðisflokknum, þjóðernislega sinnuðum hægri flokki, með ívafi við miðjustefnu. Í rómantískum lýsingum á þeim gamla flokki var gjarnan sagt að hann væri flokkur allra landsmanna og kjörorðið “stétt-með-stétt” átti að vísa til þess.

Flokkurinn átti ekki bara að vera fyrir forstjóra frystihússins heldur líka fyrir fiskverkakonuna, segir Styrmir. Hvaða máli skipti það þótt forstjórinn hafi kanski átt meiri peninga, spyr hann einnig?

Þetta var auðvitað ímyndin – en í veruleikanum réðu atvinnurekendur oftast ferðinni, eins og Styrmir lýsir raunar vel í öðrum hlutum bókar sinnar.

 

Nýi Sjálfstæðisflokkurinn

Síðan kom frjálshyggjubyltingin, sem Eimreiðarhópurinn gekkst fyrir frá um 1979, “…með Hannes Hólmstein Gissurarson fremstan í flokki sem eins konar talsmann og Kjartan Gunnarsson að tjaldabaki sem virkan áhrifamann…” (bls. 269).

Þá breyttist allt. Styrmir lýsir umskiptunum þegar frjálshyggjan fór af hugmyndastiginu yfir á framkvæmdastigið svona:

“…frá vori 1991 og þar til í ársbyrjun 2009, eða á nær tveimur áratugum, tókst hinni nýju kynslóð í Sjálfstæðisflokknum, sem tekið hafði við keflinu úr hendi Geirs Hallgrímssonar, að koma fram öllum meginmarkmiðum leiftursóknarinnar, sem kynnt var fyrir þingkosningarnar 1979, þrátt fyrir að misstíga sig í byrjun.

Frjálsræði var aukið á öllum sviðum atvinnulífs og efnahagslífs og í viðskiptum við aðrar þjóðir. Viðamikilli einkavæðingu var hrint í framkvæmd og með hvoru tveggja voru margvíslegir kraftar leystir úr læðingi, sem að lokum reyndist bæði hafa verið til góðs og ills” (bls. 255).

Eftir frjálshyggjubyltinguna varð Sjálfstæðisflokkurinn ekki samur og áður. Hugmyndafræði íhaldsstefnu leystist upp og hvarf að miklu leyti en í staðinn kom peningahyggja og róttæk markaðshyggja frjálshyggjunnar, með afskiptaleysisstefnu og vúdú-hagfræði Laffers í öndvegi. Hvergi á Norðurlöndum hefur þessi vafasama speki Laffers náð jafn mikilli festu og í Sjálfstæðisflokknum.

Einnig varð hagsmunabarátta fyrir atvinnurekendur og fjármálamenn harðari en áður. Hún kom meðal annars fram í ofurfrelsi og afskiptaleysi eftirlitsaðila á fjármálamarkaði, fríðindum fyrir fjárfesta, skattalækkunum á fyrirtæki, hátekjufólk og stóreignafólk um leið og skattbyrði lágtekjufólks og jafnvel millistéttarinnar var aukin. Barnabætur og vaxtabætur til ungra fjölskyldna voru rýrðar ár frá ári eftir 1995 og bætur almannatrygginga drógust afturúr launum.

Sjálfstæðisflokkurinn gerðist í auknum mæli flokkur yfirstéttarinnar, flokkur ríka fólksins, og hirti minna um milli og lægri stéttir samfélagsins en áður hafði verið.

Þjónkun við þessi hagsmunaöfl yfirstéttarinnar hafði að vísu alltaf verið nátengd Sjálfstæðisflokknum, en nú keyrði hún um þverbak um leið og hagsmunum fiskvinnslukonunnar, lífeyrisþega og ungra barnafjölskyldna var fórnað. Styrmir segir eftirfarandi um þessi hagsmunatengsl:

“Í annan stað er ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn er veikur fyrir áhrifum sérhagsmunahópa. Á landsvísu á þetta augljóslega við um útgerðarmenn og fiskverkendur, um viðskiptalífið almennt, svo og um fjármálafyrirtækin um nokkurra ára skeið eftir einkavæðingu bankanna” (bls. 263).

Svo segir hann nánar um það sem misfórst í frjálshyggjubyltingunni og sem hann segir flokkinn ekki hafa gert upp við á viðunandi hátt:

“Það sem hins vegar fór úr böndunum við þessa frelsisvæðingu athafnalífsins á Íslandi var að það voru ekki settar upp nægilega sterkar girðingar til þess að hinir nýfrjálsu ungu athafnamenn æddu ekki út um allt eins og þegar kúnum er sleppt út á vorin og þær ráða ekki við gleði sína. Það er auðvelt að sjá eftirá en ekki endilega fyrirsjáanlegt…” (bls. 261).

Síðan nefnir Styrmir einnig aukin áhrif peningamanna á flokkinn, meðal annars í prófkjörum, og spyr: “Hvernig stóð á því að Sjálfstæðisflokkurinn skar ekki upp herör gegn þeirri ósvinnu? Varla er það eða var skoðun flokksins að sjálfsagt væri að kaupa úrslit kosninga með nokkrum tugum milljóna”?

Þegar horft er til eignarhalds á Morgunblaðinu og stjórnmálaafskipta þess, auk áhrifa samtaka atvinnurekenda, verður þó varla annað sagt en að þessi áhrif peningaafla í flokksstarfi Sjálfstæðisflokksins hafi aukist frekar en minnkað á síðustu árum.

Þegar horft er til stefnu og málflutnings talsmanna Sjálfstæðisflokksins í gegnum hrunið örlar heldur hvergi á neinni endurskoðun frjálshyggjustefnunnar sem steyptu þjóðinni fyrir fjármálabjörg. Frjálshyggja hins óhefta markaðar og auðmannadekur eru enn í öndvegi.

Það er vel þekkt í fjármálafræðunum að aukið frelsi á fjármálamarkaði í bland við óhóflega græðgi og andvaraleysi eftirlitsaðila felur í sér stórkostlegar hættur á bóluhagkerfi og fjármálahruni, eins og hér varð. Slík þróun tengist einnig verulega auknum ójöfnuði í tekju- og eignaskiptingu, enda hagnast peningaöflin stórlega við slík skilyrði (sjá hér og hér).

Hvergi sér þess merki að Sjálfstæðisflokkurinn vilji hefta það frelsi með aukinni reglun og aðhaldi, sem Styrmir bendir þó á að sé nauðsynlegt að gera. Yfirstéttin sem ræður ferðinni í flokknum virðist ekki á sama máli.

Á yfirstandandi landsfundi flokksins er boðað að lækka skatta á hátekjufólk og fyrirtæki, afskrifa skuldir hjá fólki í hærri tekjuhópum, um leið og sagt er að úrræði séu þegar til staðar fyrir lægri tekjuhópana. Veiðigjaldinu á að skila aftur til útvegsmanna.

 

Niðurstaða

Niðurstaðan er skýr. Sjálfstæðisflokkurinn breyttist í grundvallaratriðum eftir frjálshyggjubyltinguna. Hann hefur hvergi snúið frá þeim nýju áherslum sem þar komu til sögunnar. Siðferðileg íhaldsstefna hefur að miklu leyti horfið sem einkenni á flokknum og eftir stendur einn róttækasti frjálshyggjuflokkur Vesturlanda.

Að þessu leyti er Sjálfstæðisflokkurinn ólíkur Repúblikanaflokknum í Bandaríkjunum, þ.e. ekki með samfélagslega, siðferðilega eða trúarlega íhaldsstefnu. Samhljómur er með þeim að flestu öðru leyti, ekki síst hvað snertir auðmannadekrið.

Kjörorðið “stétt-með-stétt” heyrist ekki lengur. Hagsmunir fiskvinnslukonunnar ber varla á góma, né hagsmunir lægri stétta almennt. Peningamenn yfirstéttarinnar ráða ferðinni sem aldrei fyrr. Hagsmunagæsla í þeirra þágu eru helstu mál flokksins. Formaðurinn er meira að segja auðmaður sjálfur.

Sjálfstæðisflokkur nútímans er flokkur ríka fólksins – og lítið annað.

Það er synd, því gamli Sjálfstæðisflokkurinn var ekki alslæmur.

 

Sjá nánar bók Styrmis Gunnarssonar (2012), Sjálfstæðisflokkurinn – Átök og uppgjör.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 21.2.2013 - 23:58 - FB ummæli ()

Bjarni lofar töfrabrögðum

Nú stefnir í kosningar. Framsókn spennti loforðabogann til hins ítrasta um síðustu helgi, eins og Þorsteinn Pálsson benti á (hér). Þorsteini leist ekki á, enda var í pakkanum “eitt stærsta kosningaloforð allra tíma”.

Nú er röðin komin að Sjálfstæðisflokki. Landsfundur er settur.

Bjarni Benediktsson flutti ræðu og virðist ætla að keppa við Framsókn í yfirboðum. Enda mikið í húfi. Sagði flokksmenn þyrsta í völdin eftir fjögurra ára úthýsingu.

Bjarni lofar skattalækkunum (sem þó eiga einkum að nýtast hærri tekjuhópum, með afnámi þriggja þrepa skattsins). Svo lofar hann til viðbótar léttingu skulda af fólki með enn frekari skattaafslætti (það á líka einkum að nýtast hærri tekjuhópum).

Skattalækkanir minnka tekjur ríkisins.

Bjarni kynnti í leiðinni tillögur um að banna með lögum aukningu ríkisútgjalda, m.a. til velferðarmála. Það á raunar að skera niður, eins og hann og Illugi Gunnarsson hafa reyndar áður sagt skýrum rómi (hér og hér).

Samt segist Bjarni vilja bæta kjör lífeyrisþega og efla heilbrigðisþjónustuna. Gera alla káta.

Þetta gengur hins vegar ekki upp, ekki einu sinni í töfraheimi vúdú-hagfræðinnar. Það þarf auðvitað meiri skatttekjur til að bæta hag lífeyrisþega og efla heilbrigðisþjónustuna – og einnig til að greiða niður skuldir ríkisins.

Þorsteinn Pálsson segir að stór loforð vísi oft á mikil svik. Spurningin er þá hvaða loforð Sjálfstæðismenn ætla að svíkja?

Ég spái því að þeir ætli að lækka skatta á hátekjufólk og atvinnurekendur og draga verulega úr opinberum útgjöldum. Þetta hafa verið þeirra stefna lengi. Alveg eins og hjá Repúblíkönum í USA.

Sjálfstæðismenn hafa þegar sagt að ekki sé innistæða fyrir þeirri 30% hækkun á barnabótum sem vinstri stjórnin er nú að framkvæma (hér). Það segir sína sögu.

Lækkun skatta svo um munar þýðir niðurskurður opinberra útgjalda til lífeyrisþega, heilbrigðismála og menntunar. Nema menn ætli að stefna ríkisbúskapnum í halla á ný og safna frekari skuldum.

Samt stóð líka til að greiða niður opinberar skuldir!

Þorsteinn Pálsson hefur líklega rétt fyrir sér um loforðin og svikin.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 20.2.2013 - 22:00 - FB ummæli ()

Helber ósannindi

Nærri þriðjungur af þeim greinum sem Birgir Þór Runólfsson skrifar á Eyjuna fjallar um mig og verk mín.

Þessar greinar eru allar sama marki brenndar.

Fyrirsagnirnar innihalda yfirleitt nafn mitt með upphrópun um „reiknivillur“ eða „leiðréttingar“ eða „rangfærslur“. Markmiðið er alltaf að ófrægja nafn mitt en ekki að segja satt og rétt frá.

Það er augljóst því allt það sem Birgir Runólfsson hefur hingað til sagt um meint mistök mín er rangt.

Ekki sumt; ekki flest; heldur allt.

Það vill líka svo til að hann veit það, því ég hef skýrt flest af þessu á prenti. Háskólakennari sem lætur frá sér önnur eins gífuryrði um verk fólks og Birgir Runólfsson gerir ætti að hafa kannað heimildirnar sem málinu tengjast.

En hann kýs frekar að endurtaka í síbylju þessi ósannindi sín.

Gott dæmi er nýjasta grein hans hér á Eyjunni (hér). Ég skal fara í gegnum rangfærslur hans þar. Hér eru fullyrðingar hans:

  1. Birgir segir: “(Stefán) reiknaði til dæmis með miklu meiri fátækt árið 2003 en í ljós kom í mælingum.”
  2.  “(Stefán) reiknaði líka Gini-stuðla um tekjudreifingu rangt árið 2006 og ofmat þá, hversu ójöfn tekjudreifingin væri.”
  3. “Hann reiknaði líka skattleysismörk lægri en þau voru og notaði það til að saka stjórnvöld um „skattalækkunarbrellu“.

Allt er þetta rangt hjá manninum. Hér eru svörin mín:

  1. Tölur mínar um fátækt voru fyrir árin 1997-8 en ekki fyrir 2003. Það breytir miklu.
  2. Ég reiknaði ekki þá Gini-stuðla sem hann nefnir. Stuðlarnir komu af vef evrópsku hagstofunnar (Eurostat) og íslensku tölurnar voru reiknaðar af Hagstofu Íslands. Skömmu síðar kom í ljós að þær voru ekki sambærilegar. Ég gerði grein fyrir því í blaðagrein og útskýrði málið. Hef síðan skrifað fjölda fræðilegra greina um efnið þar sem þessar tölu koma hvergi við sögu. Það er því blekkjandi og beinlínis óheiðarlegt að staglast á þessu eins og ég sé í verkum mínum eitthvað að byggja á þessum villandi samanburði sem Hagstofurnar sjálfar gerðu.
  3. Í grein minni um “skattalækkunarbrellu” stjórnvalda frá 2006 birti ég tölur Hagstofu Íslands um skattbyrði tekjuhópa en reiknaði þær ekki sjálfur. Þetta hefði Birgir getað staðreynt með lágmarks heimildakönnun. Ég hef raunar aldrei gert neinar slíkar reiknivillur sem hann talar um varðandi skattleysismörkin. Annað hvort skilur maðurinn ekki þau gögn sem byggt er á eða hann segir vísvitandi ósatt (því ég hef sagt honum hvernig þetta er, t.d. hér og hér).

Í þessum síðasta pistli sínum talar Birgir síðan um “nýja tölfræðivillu” sem ég á að hafa gert í kafla í bókinni Eilífðarvélin. Hann fullyrðir að ég reikni þar meðaltal hagsældar norrænu og enskumælandi þjóðanna á rangan hátt. Ég reiknaði óvegið meðaltal en hann vill nota vegið meðaltal. Segir þetta vera mikinn glæp og ber sig mannalega.

Nú er það svo að OECD og allir aðrir nota ýmist vegið eða óvegið meðaltal í samanburði hinna ýmsu atriða milli þjóða. OECD notað hugtakið “OECD average” yfir óvegna meðaltalið (sem ég nota), en “OECD total” fyrir vegna meðaltalið (sjá t.d. hér).

Hvort notað er vegið eða óvegið meðaltal ræðst af því hvaða sögu menn eru að segja með samanburðinum. Það væri beinlínis rangt að nota vegið meðaltal í þeim samanburði á árangri þjóðríkja sem ég er að gera í umræddri bók. Viðmiðið er ekki samanburður einstaklinga óháð því frá hvaða þjóðríki þeir koma, heldur samanburður þjóðríkja. Með vigtun meðaltalsins í slíkum samanburði myndu útkomur fjölmennustu ríkjanna skyggja á útkomur hinna ríkjanna.

Fullyrðing Birgis Runólfssonar um “tölfræðivillu” í þessu samhengi er því út í hött. Ef ég hef gert villu þarna þá gerir OECD slíka villu í hverri einustu skýrslu sem frá þeim kemur. Enginn málsmetandi maður hefur haldið slíku fram.

Þeir sem kjósa að ítreka ósannindi þrátt fyrir að þeim hafi verið bent á hið rétta, eins og Birgir gerir, eru ekki í rökræðu. Þeir eru í áróðurs- eða ófrægingarherferð – nema hvoru tveggja sé.

Birgir Runólfsson leggur lykkju á leið sína til að gefa falska mynd af verkum mínum og gagnrýnir þau síðan á upplognum forsendum. Það er mun alvarlegra en að búa sér til ódýran strámann til að fella. Birgir brýtur raunar með þessu helstu siðareglur fræðasamfélagsins sem hann tilheyrir.

Hann slær fram helberum ósannindum. Endurtekur þau síðan ítrekað þrátt fyrir að honum sé bent á hið rétta.

Ég mun ekki fjalla aftur um skrif Birgis Runólfssonar. Þau verðskulda enga umfjöllun.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 18.2.2013 - 15:19 - FB ummæli ()

“Hyski” rændi völdum frá aðlinum

Það vakti mikla athygli þegar stjórnarmaður í Félagi sjálfstæðismanna í Grafarvogi kallaði Jón Gnarr borgarstjóra og samstarfsfólk hans “hyski”. Sagðist vilja losna við hann og “hyski” hans úr lífi sínu!

Margir voru hneykslaðir á uppákomunni og formaðurinn baðst síðar afsökunar á umnmælum sínum, en tók fram að það væri ekki vegna þess að hann harmaði þau.

En þetta er sami tónn og iðuglega heyrist í Morgunblaðinu um fólkið sem var kosið af þjóðinni til að stýra landinu út úr hruninu, eftir að Davíð Oddsson (þá æðsti stjórnandi íslenska peningakerfisins) hafði stýrt fjármálum þjóðarinnar fyrir björg.

Ritstjóri Morgunblaðsins talar iðuglega af svipaðri fyrirlitningu um lýðkjörin stjórnvöld landsins, eins og þessi formaður Sjálfstæðismanna í Grafarvogi.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, kallaði svo gagnrýnendur sína “svín”. Margt fleira af þessum toga mætti nefna.

Halló! Er ekki allt í lagi í Sjálfstæðisflokknum?

Eru stjórnvöld í Reykjavíkurborg svo ómerkileg að sjálfsagt sé að kalla þau “hyski”? Eða stjórnvöld þjóðarinnar? Ég held ekki.

Jón Gnarr og félagar voru kosnir af borgarbúum eftir að Sjálfstæðismenn stýrðu borginni og Orkuveitunni því sem næst í gjaldþrot, undir forystu Hönnu Birnu Kristjánsdóttur þáverandi borgarstjóra, þó rætur vandans mætti rekja lengra aftur í tíma. Hanna Birna sagði fyrir kosningarnar 2010 að ekki þyrfti að hækka gjaldskrá Orkuveitunnar, hún stæði svo vel! Borgarbúar höfnuðu hins vegar Hönnu Birnu og Sjálfstæðisflokknum. Kusu Jón Gnarr og félaga í staðinn.

Heiðar Már Guðjónsson, fjárfestir og efnahagsráðgjafi Sjálfstæðisflokksins, telur að staða borgarinnar og Orkuveitunnar hafi verið orðin svo slæm á þessum tíma, að best hefði verið að setja það allt á hausinn og fá erlenda vogunarsjóði til að endurreisa borgina – fyrir væna þóknun. Sagðist þó ekki vera að hugsa um eigin hag með tillögu sinni (sjá hér).

En Besti flokkurinn og Samfylkingin hafa, að því er Gylfi Magnússon hagfræðingur segir, náð ótrúlegum árangri við að bjarga Orkuveitunni og borginni. Miðað við núverandi stöðu sé hægt að greiða skuldirnar niður á rúmum áratug. Gjaldþroti var sum sé forðað.

Svipað segja ábyrgir erlendir aðilar um endurreisn þjóðarbúsins undir vinstri stjórn Jóhönnu og Steingríms. Hún er almennt talin hafa náð góðum árangri við afar erfiðar aðstæður.

Hvers vegna eru Sjálfstæðismenn þá að nota þessi ókvæðisorð um pólitíska andstæðinga sína, sem hafa að bestu manna yfirsýn náð ágætum árangri?

Jú, það virðist sem Sjálfstæðismenn sætti sig ekki við að hafa misst völdin. Líta beinlínis á sig sem sjálfkjörna stjórnendur og eigendur Íslands. Jafnvel þó þeir hafi fyrir skömmu rekið landið í þrot.

Þeir eru íslenskur aðall – að eigin mati!

Ég minnist þess er helsti hugmyndafræðingur Sjálfstæðisflokksins sagði fyrir Alþingiskosningar á síðasta áratug (líklega 2007), að kosningar væru tilraun til valdaráns – og átti hann þá við tilraun til að taka völdin af Sjálfstæðisflokknum.

Þetta þótti fyndið á þeim tíma. En ekki lengur.

Sjálfstæðismenn virðast ekki sætta sig við niðurstöður lýðræðislegra kosninga, ef þeir tapa. Vilja þá hafa lýðræðið að engu.

Þess vegna er heift, hroki og óþol þeirra svona mikið gagnvart andstæðingum sínum. Og gagnvart lýðræðinu.

Aðallinn telur sig einan réttborinn til valda. Þannig var það á miðöldum og þannig virðist það vera í Sjálfstæðisflokki nútímans.

Þeir sem taka völdin frá Sjálfstæðisflokknum eru því réttnefnt “hyski” – af aðlinum í Valhöll!

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 17.2.2013 - 16:02 - FB ummæli ()

Staða innflytjenda í kreppunni

Það er athyglisvert að velta fyrir sér hvernig kreppan hefur leikið Íslendinga annars vegar og innflytjendur hins vegar.

Fæst erum við meðvituð um kjör og stöðu innflytjenda.

Margt bendir þó til að kreppan hafi verið innflytjendum erfiðari en Íslendingum. Innflytjendur eru gjarnan á lægri launum en Íslendingar, með minna atvinnuöryggi og með veikara félagslegt stoðkerfi en heimamenn.

Það þýðir að áhætta á lífskjaraáföllum er meiri hjá innflytjendum en Íslendingum. Ein vísbending um það er atvinnuleysi, eins og sjá má á myndinni hér að neðan (tölur um skráð atvinnuleysi frá Vinnumálastofnun).

Eftir 2008 jókst atvinnuleysi almennt. Eins og myndin sýnir var aukningin hjá innflytjendum langtum meiri en hjá Íslendingum.

Atvinnuleysið hjá Íslendingum náði hámarki 2009 í um 8% en hjá innflytjendum náði það hámarki 2010. Innflytjendur almennt voru þá með tæplega 15% en pólskir innflytjendur voru með mesta atvinnuleysið, rúmlega 20%.

Á árinu 2011 var atvinnuleysi pólskra innflytjenda um þrisvar sinnum meira en atvinnuleysið hjá Íslendingum.

Atvinnuleysi Íslendinga hefur lækkað bæði 2010 og 2011 (og einnig 2012, þó það sé ekki sýnt á myndinni), en meðal innflytjenda hefur staðan lítið skánað og alls ekkert hjá Pólverjum.

Það er athyglisvert að skoða stöðuna þegar atvinnuleysi jókst á árunum 2002-2004. Þá varð atvinnuleysi minnst hjá Pólverjum.

Sennilega er staða Pólverja jafn slæm og raun ber vitni vegna þess að þeir starfa sérstaklega mikið í byggingariðnaði, sem fór mjög illa út úr kreppunni.

Athyglisverð spurning er hvort við séum nógu meðvituð um þrengingar Pólverja og annarra innflytjenda? Ná vinnumarkaðsúrræðin nógu vel til innflytjenda?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 16.2.2013 - 14:24 - FB ummæli ()

Svona virka skattleysismörk

Um daginn birti ég tölur um raunverulega greidda beina skatta hjá fjölskyldum í ólíkum tekjuhópum, frá 1996 til 2010 (sjá hér).

Þar kom meðal annars fram hvernig skattbyrði lágtekjufólks jókst umtalsvert frá 1995 til 2004, en lækkaði talsvert eftir hrun.

Ein af mikilvægari skýringum á þeirri þróun er rýrnun skattleysismarka. Það þýddi að lágtekjufólk greiddi tekjuskatt af sífellt stærri hluta tekna sinna. Þannig eykst skattbyrði þeirra, jafnvel þó álagning geti verið sú sama frá ári til árs.

Á myndinni hér að neðan má sjá góða vísbendingu um þessa rýrnun skattleysismarka, í samanburði við heildarlaun verkafólks (verkamannalaun koma frá Hagstofunni en upphæð skattleysismarka frá Ríkisskattstjóra).

Hér má sjá hvernig skattleysismörkin þróuðust. Þau fóru frá því að nema 40% af heildarlaunum verkafólks árið 1998 og niður í 26% árið 2007. Síðan hækkuðu þau á ný og eftir hrun náðu þau hámarki í um 34-35% af launum verkafólks. Þess vegna lækkaði skattbyrði verkafólks eftir hrun, en hækkun vaxtabóta jók þau áhrif enn frekar.

Þannig minnkaði verulega sá hluti launa verkafólks sem var skattfrjáls, allt til 2007. Ríkisstjórnirnar sem sátu á tímabilinu frá 1995 til 2007 kenndu sig við frelsi og skattalækkanir, en þær rýrðu verulega skattfrelsi verkafólks og hækkuðu skattbyrði þess.

Aðrir þjóðfélagshópar eru með lægri tekjur en verkafólk, t.d. öryrkjar og atvinnulausir. Fyrir þá skipta skattleysismörkin enn meira máli en fyrir verkafólk.

Lífeyrisþegar sem einkum stóluðu á lífeyri almannatrygginga voru skattfrjálsir til 1996 (tekjur þeirra voru þá undir skattleysismörkum), en eftir það tóku þeir að greiða tekjuskatt af sífellt stækkandi hluta tekna sinna, allt til 2006 (sjá hér, töflu 1).

 

Virkni og mikilvægi skattleysismarka

Skattleysismörk eru þannig mjög mikilvæg fyrir skattbyrði, sérstaklega fyrir lægri og milli tekjuhópa. Þau skipta hátekjufólk hins vegar litlu eða engu máli, enda eru þau svo lítill hluti tekna þeirra.

Skattleysismörk geta oft verið 80-100% af tekjum lífeyrisþega en einungis 3-5% af tekjum forstjóra. Þess vegna getur hátekjufólki verið sama hvort skattleysismörk lækki eða hækki – og kanski þess vegna vilja sumir í efri þrepum tekjustigans leggja þau af. Við það myndu kjör lágtekjufólks hins vegar rýrna stórlega.

Barnabætur og vaxtabætur eru einnig mikilvægar fyrir skattbyrði fjölskyldna, enda dragast þær frá álögðum skatti, eins og persónufrádrátturinn (sem myndar skattleysismörkin). Lífeyrisiðgjöld dragast hins vegar frá skattstofni, sama hlutfall af launum hjá öllum (en ekki föst krónutala eins og skattleysismörk) og hafa þau því svipuð áhrif á skattbyrði í ólíkum tekjuhópum.

Almenna reglan í nútímanum er sú, að skattleysismörk og önnur viðmið skattkerfisins (t.d. mörk milli álagningarþrepa) hækki svipað og meðalhækkun launa. Ef það gerist ekki þá aukast tekjur ríkisins umfram launahækkunina og jafnvel umfram hagvöxtinn, þ.e. báknið blæs út, eins og sjálfkrafa sé.

Það að viðmið skattkerfisins fylgi launaþróuninni tryggir að skattkerfið er í megindráttum það sama frá ári til árs og hlutdeild tekna hins opinbera vex með þjóðarframleiðslunni, en ekki meira. Dreifingaráhrif beinna skatta haldast þá einnig svipuð (þ.e. skattbyrði ólíkra tekjuhópa).

Ef viðmiðin fyrir mörkum milli álagningarþrepa fylgja ekki launaþróuninni þá fara tekjur fólks í vaxandi mæli í hærri álagningarþrep. Ef slíkt gerist yfir langan tíma þá verða allir skattgreiðendur smám saman komnir í efsta þrep! Það er almennt ekki látið gerast í vestrænum samfélögum.

Ef skattleysismörk hækka minna en laun og jafnvel minna en verðlag (eins og gerðist á Íslandi) þá hækkar skattbyrði lægri tekjuhópa verulega.

 

Niðurstaða: Skattar og frelsi

Rýrnun skattleysismarka átti stóran þátt í aukinni skattbyrði lægri og milli tekjuhópa á áratugnum eftir 1996. Raunlækkun barnabóta og vaxtabóta hafði sömu áhrif á sama tíma.

Skattleysismörk þurfa að fylgja launaþróuninni frá einu ári til annars. Ef það gerist ekki þá eykst hlutur ríkisins af þjóðarkökunni því skattbyrði fjölskyldna eykst, mest í lægstu tekjuhópum, að öðru óbreyttu. Ekki er nóg að skattleysismörk fylgi verðþróun.

Ríkisstjórnir Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar minnkuðu skattfrelsi verkafólks, lífeyrisþega og annarra lágtekjuhópa.

Þær juku hins vegar skattfrelsi hátekjuhópa, fyrirtækjaeigenda og stóreignafólks.

Frelsinu var sem sagt mjög misskipt. Aukið hjá hástéttinni, en minnkað hjá milli og lægri tekjuhópum.

Var það kanski alltaf markmiðið með frjálshyggjupólitíkinni? Þannig varð einmitt þróunin í Bandaríkjunum á síðustu áratugum – fyrir tilstilli frjálshyggjustefnunnar.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 14.2.2013 - 14:38 - FB ummæli ()

Svona greiddi fólk skatta, 1996 til 2010

Nú í kjölfarið á birtingu nýrrar skýrslu ASÍ um lífskjör á Íslandi og hinum Norðurlöndunum er gagnlegt að rifja upp hvernig skattbyrði ólíkra tekjuhópa þróaðist á áratugnum fram að hruni – og einnig eftir hrun.

Í töflunni hér að neðan er sýnt hvernig raunveruleg skattbyrð fólks í ólíkum tekjuhópum þróaðist frá 1996 til 2010.

Tölurnar eru niðurstöður Ríkisskattstjóra um hversu mikið fólk í viðkomandi tekjuhópum greiddi í reynd, eftir álagningu og alla löglega frádrætti (m.a. persónufrádrátt, barnabætur, vaxtabætur og lífeyrisiðgjöld einstaklinga).

Taflan sýnir hversu stóran hluta af heildartekjum sínum fjölskyldur í ólíkum tekjuhópum greiddu í beina skatta frá 1996 til 2010. Hópur I eru þau 10% fjölskyldna sem lægstu tekjur höfðu, hópar V og VI eru miðtekjuhóparnir og hópur X eru þau 10% fjölskyldna sem höfðu hæstu tekjurnar. Auk þess er sýnd skattbyrði tekjuhæsta 1% fjölskyldna, lengst til hægri í töflunni.

Gögn: Reiknað úr tölum ríkisskattstjóra. Gögnin ná til hjóna og sambúðarfólks. Tölurnar sýna greidda beina skatta sem hlutfall heildartekna fyrir skatt. Gögnin eru því raunverulega greiddir skattar (e: effective tax burden), en ekki reiknuð eða áætluð stærð. Taflan kemur héðan.

Hér má sjá hvernig raunveruleg skattbyrði lágtekjufólks jókst frá -6% árið 1996  og upp í 4,1% árið 2004, en lækkaði svo rólega til 2008 og síðan mun meira eftir hrun, eða niður í -3,0%. Hjá næst tekjulægsta hópnum (hópur II) fór skattbyrðin úr 1,1% og upp í 12,2% árið 2004 en var svo komin niður í um 7% árið 2010. Þetta eru miklar sveiflur á skattbyrði hjá lágtekjufólkinu.

Hjá miðtekjuhópunum var sambærileg þróun, en mun minni að stærðargráðu. Hjá hópi V fór skattbyrðin úr 16,4% upp í 21,2% árið 2004 og svo aftur niður í 17,5% eftir hrun.

Í hátekjuhópunum varð þróunin hins vegar mest afgerandi. Hjá tekjuhæstu 10% heimila (hópur X) fór skattbyrðin úr 30,3% niður í 17,1% árið 2007. Skattbyrðin lækkaði um tæpan helming, sem virðist vera fordæmalaust á Vesturlöndum á síðustu áratugum (sjá hér). Eftir hrun varð hún síðan hækkuð upp í rúm 30% á ný, eða svipað og hafði verið um 1996.

En í allra tekjuhæsta hópnum (Efsta 1% fjölskyldna) fór skattbyrðin úr 32% árið 1996 og niður í 13% árið 2007, áður en hún hækkaði á ný eftir hrun í rúm 33%. Skattbyrði hátekjuhópa var þannig aukin eftir hrun, en þó ekki meira en upp á svipað stig og verið hafði um 1996.

Niðurstaða ASÍ er sú, að skattbyrði hátekjufólks á Íslandi sé nú lægri en er hjá sambærilegum hópum á hinum Norðurlöndunum, þrátt fyrir hækkunina eftir hrun. Skattbyrði lágtekjufólks er einnig talsvert lægri hér, en hjá millitekjufólki virðist hún vera svipuð. Hækkun barnabóta á árinu 2013 gæti bætt stöðu millitekjuhópa hér í þessu tilliti.

 

Helstu ástæður breyttrar skattbyrði

Hvers vegna varð þessi aukning á skattbyrði lágtekjufólks frá 1996 til 2004? Það varð einkum vegna þess að skattleysismörk fylgdu ekki hækkun launa. Því greiddi lágtekjufólk skatt af sífellt stærri hluta tekna sinna. Einnig lækkuðu barnabætur og vaxtabætur ár frá ári á þessum tíma, en þær dragast frá álögðum tekjuskatti.

Þrátt fyrir að lífeyrisiðgjöld væru gerð frádráttarbær á tímabilinu breytti það ekki því, að skattbyrði lágtekjufólks hækkaði umtalsvert, um leið og skattbyrði hátekjufólks lækkaði. Lífeyrisiðgjöld urðu frádráttarbær frá skatti til að afnema tvísköttun lífeyrissparnaðar (en ekki til að koma í stað rýrnandi skattleysismarka).

Lækkuð skattbyrði hjá lágtekjufólki eftir hrun tengdist bæði hækkun persónufrádráttar, lækkun launa og stórhækkun vaxtabóta. Einnig voru barnabætur í meiri mæli greiddar til allra tekjulægsta fólksins.

Lækkuð skattbyrði hjá hátekjufólki varð áberandi eftir að fjármagnstekjuskattur hafði verið tekinn upp um 1998, en fjármagnstekjur fóru mjög vaxandi eftir það, ekki síst í bóluhagkerfinu frá 2000 til 2007. Fjármagnstekjur eru algengastar og langhæstar hjá hátekjufólki, því meiri sem ofar í tekjustigann er litið.

Þar eð fjármagnstekjur báru léttari skattbyrði en aðrar tekjur lækkaði heildar skattbyrði hátekjufólks um leið og hlutdeild fjármagnstekna í heildartekjum þeirra jókst. Auk þess var hátekjuskatturinn aflagður á árunum frá 2004 til 2007.

 

Niðurstaða

Skattbyrði lágtekjufólks jókst verulega frá 1996 til 2004, en lækkaði eftir hrun. Skattbyrði hátekjufólks lækkaði hins vegar stórlega frá 1996 til 2007, einkum vegna aukinna fjármagnstekna í hærri tekjuhópum, en einnig vegna lækkunar hátekjuskattsins.

Eftir hrun hækkaði skattbyrði hátekjuhópa, bæði vegna hærri álagningar en einnig vegna lækkunar fjármagnstekna.

Nánar má lesa um þessi mál í nýlegri fræðilegri grein eftir mig og Arnald Sölva Kristjánsson hagfræðing, í tímaritinu Stjórnmál og stjórnsýsla (hér).

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 11.2.2013 - 18:58 - FB ummæli ()

Ný bók: Þróun velferðarinnar frá 1988 til 2008

Nýlega kom út bókin Þróun velferðarinnar 1988-2008. Bókin fjallar um framvindu helstu sviða velferðarmála á Íslandi á tímabilinu.

Bókin er afrakstur viðamikils norræns rannsóknarverkefnis sem hópur íslenskra fræðimanna tók þátt í. Markmiðið var að meta árangur norrænu velferðarríkjanna í breyttu þjóðfélagsumhverfi samtímans.

Þessi bók beinir sjónum að Íslandi sérstaklega og spyr hvernig hinir ýmsu þættir velferðarmálanna hafa þróast á tveimur áratugum, frá gerð fyrstu norrænu lífskjarakönnunarinnar á Íslandi árið 1988 til hruns fjármálakerfisins haustið 2008.

Fjallað er um heildarmat lífskjara um 1988 og í lok tímabilsins, í samanburði við hinar norrænu þjóðirnar, þróunina á einstökum sviðum velferðarkerfisins, þjónustu og tekjutilfærslur, skipulagsbreytingar og árangur.

Guðný Björk Eydal og Stefán Ólafsson stjórnuðu verkefninu og ritstýra bókinni. Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gefur út. Verkefnið var styrkt af RANNÍS og NordForsk (NCoE – REASSESS). Bókin er 365 bls. að stærð og fæst í Bóksölu stúdenta og öðrum helstu bókaverslunum.

Bókin samanstendur af 17 köflum eftir 16 höfunda, sem eru sérfræðingar á sínu sviði. Eftirfarandi er efnisyfirlit bókarinnar:

 

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 10.2.2013 - 16:51 - FB ummæli ()

Hannes Hólmsteinn delerar um Icesave

Hannes Hólmsteinn skrifar upphrópanir á Pressunni í gær um nýlegan pistil minn sem fjallaði um það, hverjir færðu íslensku þjóðinni Icesave og dýrustu lausnina (sjá hér).

Hólmsteinn vill meina að ég skrifi þar um samning sem ekki hafi verið til og birt línurit sem ekki hafi komið frá fjármálaráðuneytinu.

Þetta er mjög hlægilegt!

Í pistli mínum kom fram að dýrasta leiðin hafi verið dregin upp í plöggum sem gerð voru í nóvember og desember 2008, í tíð ríkisstjórnar Geirs Haarde. Bjarni Benediktsson mælti fyrir framgangi málsins á Alþingi í desember. Ljóst var að ekki var um frágenginn samning að ræða og vísaði ég beint í ýmis plögg um málið.

Það er því ekkert nýtt hjá Hólmsteini um þetta.

Í öðru lagi telur hann sig vera með mikla uppljóstrun um að myndin sem ég birti hafi ekki komið frá fjármálaráðuneytinu. Hún hafi ekki verið til.

Hins vegar segir hann sjálfur að tölurnar á myndinni hafi að vísu verið reiknaðar í fjármálaráðuneytinu. Svo var mér líka sagt!

Þannig var það einmitt. Ég teiknaði myndina sjálfur með tölum frá ráðuneytinu. Tölurnar um kostnaðinn af gjaldþroti Seðlabankans komu þaðan líka.

Hver er þá glæpurinn? Enginn.

Skilaboðin eru hins vegar þau, að pistill minn var óþægilegur fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Í honum stendur allt óhaggað.

Hvet alla til að lesa hann hér – nema þið hafið þegar lesið hann…

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar