Laugardagur 9.2.2013 - 11:40 - FB ummæli ()

Skattbyrði: Frjálshyggjumenn leiðréttir

Birgir Runólfsson, samstarfsmaður Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar, fór með staðlausa stafi um skrif mín um skattbyrði á árunum 1991 til 2007, í nýlegum pistli á Eyjunni. Hann fullyrti eftirfarandi:

“Skattar voru sem kunnugt er lækkaðir verulega hér á landi árin 1991–2007. Stefán Ólafsson prófessor hélt því hins vegar fram í grein í Morgunblaðinu 18. janúar 2006 undir heitinu „Stóra skattalækkunarbrellan“, að þessar skattalækkanir væru blekkingar. Mestu réði um það að sögn hans, að skattleysismörk hefðu ekki verið hækkuð með verðlagi, svo að hærra hlutfall fólks en áður lenti ofan skattleysismarka. En Stefán gleymdi að taka með í reikninginn, að á tímabilinu var lífeyrissparnaður gerður skattfrjáls (eða skattgreiðslum af honum frestað fram á lífeyrisaldur). Þegar það var gert, kom í ljós, að skattleysismörk voru svipuð allt tímabilið 1993 til 2007.” (undirstrikun mín)

“Ályktunin er einföld: Það stóðst ekki, að skattar hefðu 1991–2007 verið hækkaðir í laumi með því að lækka skattleysismörk. Lækkun þeirra var óveruleg.”

Skemmst er frá því að segja, að þetta er kolrangt hjá Birgi Runólfssyni. Í tölum mínum og meðhöfundar míns um skattbyrði er allur leyfilegur frádráttur meðtalinn, t.d. barnabætur, vaxtabætur, persónuafsláttur (sem myndar skattleysismörkin) og líka lífeyrisiðgjöld.

Tölur okkar eru þannig rauntölur um skattbyrði fólks í ólíkum tekjuhópum, í reynd það sem kom upp úr kössunum hjá Ríkisskattstjóra. Þetta er það sem á ensku er kallað “net effective tax burden”, þ.e. það sem fólk greiddi í reynd í beina skatta, að teknu tilliti til álagningar og allra frádrátta skv. skattalögum.

Birgir Runólfsson er að tyggja þessar rangfærslur upp eftir Hannesi Hólmsteini (sjá t.d. hér). Allt sem Hannes hefur sagt um meintar “reiknivillur” mínar varðandi skattbyrði, bæði um lífeyrisiðgjöld og annað, er alveg jafn rangt og hjá Birgi.

Annað hvort skilja þeir félagar ekki gögn Ríkisskattstjóra og Hagstofunnar um skattgreiðslur fólks eða þeir segja vísvitandi ósatt um verk mín og meðhöfundar míns.

Skrif mín og samstarfsmanns míns um tekjuskiptingu og skatta á fræðavettvangi eru empirísk skrif. Þau eru lýsingar og fræðilegar greiningar á þróun tekjuskiptingarinnar og skattbyrðarinnar. Við höfum ekki tekið afstöðu til niðurstaðna né kveðið upp gildisdóma um þróunina, einungis lýst henni.

Í nálægum löndum telst það til brota á siðareglum fræðasamfélagsins að segja ranglega frá verkum og niðurstöðum annarra og villa þannig um fyrir almenningi. Hvað þá ef rangfærslurnar eru að auki notaðar til að ófrægja mannorð viðkomandi.

Ef ofangreind skrif þessara frjálshyggjumanna eru ekki vísvitandi blekkingar þá eru þau ótrúlegt fúsk.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 6.2.2013 - 21:39 - FB ummæli ()

Ég er hræsnari, heimskingi og dóni!

Þegar ég skrifa um tekjuskiptingu, skattamála, lífskjör, fátækt og hrunið, þá fæ ég alltaf sömu viðbrögð frá frjálshyggjumönnum. Jafnvel þó frjálshyggja komi ekkert við sögu!

Viðbrögðum þeirra má skipta í eftirfarandi flokka:

  • Persónulegar árásir, byggðar á ósannindum og níði (sjá t.d. síðustu 120-130 greinar Hannesar Hólmsteins um mig og verk mín. Einnig tíð skrif hér og ýmis skrif á amx.is, sem er sérstakur ófrægingavefur Hannesar og félaga, þar sem þeim þykir þægilegt að ráðast á fólk í skjóli nafnleyndar).
  • Ásakanir um reiknivillur og heimsku (t.d. þegar Árni Matthiesen fjármálaráðherra sakaði mig um að kunna ekki að reikna skattbyrði; samt hafði ég ekkert reiknað þá, heldur bara birt skotheldar opinberar tölur frá OECD og Hagstofunni um raunverulega skattbyrði á Íslandi).
  • Ásakanir um meintar rangfærslur mínar. Þær ásakanir eru þó nær allar rangar, afbakanir eða beinlínis út í hött. Dæmi um þetta eru hér og hér og hér, en í þessum tilvikum fara skrifararnir (frjálshyggjumennirnir Hannes Hólmsteinn og Birgir Runólfsson) með grundvallarvillur um útreikninga á raunverulegri skattbyrði. Þeir virðast ekki skilja eðli gagna ríkisskattstjóra um þetta efni né útreikninga okkar á raunverulegri skattbyrði – eða þá að þeir fara vísvitandi rangt með.
  • Ásakanir um dónaskap fyrir að gagnrýna Sjálfstæðisflokkinn og frjálshyggjuna, sem væntanlega eiga að vera yfir gagnrýni hafin – þrátt fyrir að hafa fært okkur hrunið (sjá t.d. hér).

Sameiginlegur þráður í viðbrögðum þessara frjálshyggjumanna er yfirleitt sá, að þeir virðast öðru fremur vilja fegra stjórnartíma Davíðs Oddssonar, jafnvel með blekkingum. Þeir virðast vilja fela hversu mikið tekjur hátekjufólks hækkuðu umfram alla aðra á árunum fram að hruni og hvernig hátekjufólk og stóreignafólk naut hér óvenju mikilla skattfríðinda, um leið og skattbyrði lágtekjufólks jókst.

Þá virðast þeir einnig vera í hagsmunabaráttu fyrir hátekju- og stóreignafólk (sjá t.d. hér, hér, og hér og hér).

Frjálshyggjumenn hika ekki við að bera á borð ósannindi, afbakanir og óhróður til að ná markmiðum sínum.

Ég hef hins vegar aldrei látið svona skrif áróðursmanna hafa áhrif á verk mín. Held bara mínu striki.

Ég vil að lokum benda lesendum á nýlega grein eftir mig og hagfræðinginn Arnald Sölva Kristjánsson um þróun tekjuskiptingarinnar og skattbyrðarinnar frá 1992 til 2010 (sjá hér). Arnaldur Sölvi er fróðastur Íslendinga um aðferðafræði tekjuskiptingarrannsókna og hefur hann verið í samstarfi við heimsfræga sérfræðinga á því sviði, t.d. Peter Lambert og sérfræðinga Luxembourg Incomes Study (LIS).

Þessi grein okkar Arnaldar Sölva er ítarleg empirísk úttekt og greining á þróun þessara mála á Íslandi, sem byggð er á þeirri aðferðafræði sem tíðkast hjá alþjóðlegum stofnunum, eins og OECD og Luxembourg Incomes Study og helstu erlendu fræðimönnum á sviðinu.

Þeir sem vilja fá staðreyndirnar á hreint ættu að skoða þessa grein vandlega.

 

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 5.2.2013 - 09:25 - FB ummæli ()

Svona fór Ísland á hliðina

Ég skrifaði grein um daginn þar sem ég fór yfir helstu skýringar Carmen Reinhart og Kenneth Rogoff á orsökum fjármálakreppa. Einnig sagði ég frá samhljóða greiningu frjálshyggjumannsins Richard A. Posner á orsökum bandarísku fjármálakreppunnar (sjá hér).

Reinhart og Rogoff hafa safnað gögnum um allar helstu fjármálakreppur sem orðið hafa á síðustu átta öldum og rannsakað aðdraganda þeirra, orsakir og afleiðingar (sjá bók þeirra This Time is Different, frá 2009).

Þau hafa síðan gefið út aðra bók, A Decade of Debt, árið 2011. Þar fylla þau út í myndina sem þau hafa áður dregið upp.

 

Skuldasöfnun leiðir til fjármálakreppu

Ör ósjálfbær skuldasöfnun er nær algilt einkenni á aðdraganda fjármálakreppa. Því stórtækari og örari sem skuldasöfnunin er, þeim mun alvarlegri verður fjármálakreppan eða hrunið sem kemur í kjölfarið.

Ósjálfbær skuldasöfnun kemur iðuglega í kjölfar aukins frelsis á fjármálamarkaði, sem felur í sér að reglun er rýrð, aðhald og eftirlit rofnar, álykta Reinhart og Rogoff.

Með auknum frjálshyggjuáhrifum á fjármálamörkuðum eftir 1980 jókst tíðni fjármálakreppa og náði hámarki með núverandi kreppu. Saman fór aukið frelsi, vegna aukinnar afskiptaleysisstefnu margra stjórnvalda, og nýjar afurðir og ný skipan á fjármálamarkaði sem gerðu meiri og örari skuldasöfnun mögulega en áður var. Aukið framboð fjármagns á lágum vöxtum í slíku umhverfi varðaði síðan leiðina  í ógöngur, sem þó voru misjafnlega alvarlegar eftir löndum.

Ísland var eitt allra alvarlegasta dæmið um óhóflega skuldasöfnun og stjórnleysi í peningamálum á áratugnum fyrir hrun. Hér má heyra Carmen Reinhart flytja athyglisvert erindi í tilefni að útkomu bókarinnar A Decade of Debt, þar sem hún meðal annars fjallar um skuldasöfnunina á Íslandi (það er skömmu eftir mínútu 20 sem Ísland er nefnt til sögunnar). Reinhart og Rogoff segja að þau hafi ekki áður í rannsóknum sínum séð jafn öfgafulla skuldasöfnun eins og varð á Íslandi og Írlandi (sjá einnig grein þeirra hér).

Á myndinni hér að neðan má sjá þessa skuldasöfnun sem þau Reinhart og Rogoff tala um. Tölurnar koma frá Þjóðhagsstofnun og Seðlabanka Íslands og sýna erlendar skuldir sem hlutfall af landsframleiðslu.

 

Tengsl milli aukins frelsis, einkavæðingar og skuldasöfnunar

Hin fordæmalausa uppsöfnun skulda hér á landi hófst með einkavæðingu bankanna, byrjar 1998 en tekur svo stefnuna til himna frá og með 2003, eftir að bankarnir voru að fullu komnir í hendur hinna nýju eigenda, sem breyttu þeim á punktinum í óvenju áhættusækna fjárfestingabanka.

Strax í lok árs 2004 var Ísland orðið skuldugasta þjóðarbú heims (sjá hér), en þá átti mikið lánsfé enn eftir að renna inn í landið. Skuldirnar fjórfölduðust frá lokum árs 2004 til hrunsins 2008.

Skuldir heimilanna voru einungis um 10% af heildarskuldum þjóðarbúsins við hrun. Það var því einkageirinn (fyrirtæki og bankar) sem söfnuðu megninu af skuldunum (sjá hér). Þær fóru í að fjármagna spákaupmennsku og brask sem var gríðarlega arðbært fyrir viðkomandi á uppsveiflunni.

Alvöru viðvaranir voru gefnar út af matsfyrirtækjunum í lok árs 2005 og af Lars Christiansen í Danske bank í byrjun árs 2006. Samt tvöfölduðust skuldirnar enn eftir það! Willem Buiter, þekktur sérfræðingur í fjármálahagfræði, sagði að á Íslandi hafi myndast allsherjar vitfirring á þessum árum (“collective madness”). Skuldasöfnunin var eins og ekki væri gert ráð fyrir gjalddögum morgundagsins.

Peningamál þjóðarinnar voru stjórnlaus. Seðlabanki, Fjármálaeftirlit og ríkisstjórn brugðust í einu og öllu.

 

Frjálshyggjumenn mærðu efnahagsundrið

Skondnust voru ummæli frjálshyggjupáfans Arthurs Laffer, guðföður vúdú-hagfræðinnar. Hann kom til Íslands í nóvember 2007 (í boði íslenskra frjálshyggjumanna) og sagði við það tækifæri, að hér væri allt í allra besta lagi! Engin ofhitun, engin óeðlileg skuldasöfnun og allt bara frjálst og fínt. Um 25% halli á viðskiptum við útlönd á einu ári skipti ekki máli!

Fjármálaráðherrann, Árni Matthiessen, sagði að Ísland væri sönnun þess að kenningar Laffers væru réttar!

Hannes Hólmsteinn sagði í tilefni af komu Laffers: “Samkvæmt þjóðsögunni bíður fjársjóður við enda regnbogans. Engum hefur enn tekist að finna þann fjársjóð. En annar bogi er til, þar sem hafa má ógrynni fjár. Hann er Laffer-boginn svonefndi, sem kenndur er við bandaríska hagfræðinginn Arthur B. Laffer …”

Töfrar vúdú-hagfræðinnar lágu í loftinu…

Skemmst er frá því að segja, að fjármálakerfið hrundi til grunna rúmum tíu mánuðum eftir að þessir spekingar höfðu tjáð sig með þessum hætti, um stöðu fjármálanna.

Robert Aliber, þekktur fjármálahagfræðingur frá Bandaríkjunum, hafði hins vegar komið hér sumarið 2007 og séð á ytri merkjum og lauslegri skoðun hagtalna að hér stefndi í óefni. Hann sá dæmigert bóluhagkerfi í hættulegum þenslufasa.

Þegar bankarnir svo hrundu haustið eftir sagði prófessorinn um stjórnvöld og stjórnendur Seðlabankans, að “ólíklegt væri að nýir leiðtogar sem valdir væru af handahófi í símaskránni gætu valdið jafnmiklum efnahagslegum glundroða.”

Þeir sem áttu að verja fjárhagslegan stöðugleika þjóðarbúsins voru slegnir blindu af frjálshyggjuhagfræði Laffers og annarra. Skildu ekki hætturnar sem þjóðinni var stefnt í með fordæmalausri skuldasöfnun og stóluðu á sjálfstillingu markaðarins, sem frjálshyggjumenn töldu sjálfgefna. Töfrar ósýnilegu handarinnar myndu tryggja eilífa farsæld!

Af þessu öllu varð hér stærsta bóluhagkerfi sögunnar og stærsta fjármálahrun sögunnar, að mati AGS og OECD.

Við Íslendingar höfum síðan sopið seyðið af þessum göruga frjálshyggjudrykk – og verðum fyrir vikið á kafi í skuldum um langa framtíð.

Frjálshyggjan reyndist vera leiðin til ánauðar! Skuldaánauðar.

Verst er að fúskararnir sem fluttu þessa speki til landsins og stjórnmálamennirnir sem fylgdu ráðum þeirra hafa ekkert lært og engu breytt í stefnumálum sínum.

Þeir virðast ætlað að halda sínu striki inn í framtíðina – komist þeir til valda á ný.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 4.2.2013 - 11:49 - FB ummæli ()

Árni Páll kemur sterkur inn

Formannskjörið í Samfylkingunni virðist vera nokkuð vel heppnað. Árni Páll fékk sannfærandi kosningu en Guðbjartur kemur heill frá slagnum og styður nýja formanninn. Raunar virtist Guðbjartur lengst af vera með hálfum huga í þessari vegferð, þegar Árni Páll sýndi mikinn sóknarhug.

Að kjöri loknu hefur Árni Páll síðan stimplað sig kröftuglega inn sem forystumaður.

Ræða hans við lok landsfundar Samfylkingarinnar, sem birt var á Eyjunni í gær, er óvenju góð og kraftmikil. Hann vísar jöfnum höndum í arfleifð sænsku kratanna og hin brýnustu kjaramál heimilanna á Íslandi nútímans.

Minnir raunar á Jón Baldvin Hannibalsson.

Árni Páll leggur ferska áherslu á frelsi og réttlæti í bland. Þróttmikið atvinnulíf og nýsköpun í opnu hagkerfi – og velferð almennings og jöfnuð.

Með kjöri Árna Páls eru orðin kynslóðaskipti í forystu Samfylkingarinnar. Jóhanna Sigurðardóttir er að ljúka verki sínu og hefur skrifað sig rækilega inn í sögubækurnar. Ferill hennar er einstakur og árangur í endurreisninni eftir frjálshyggjuhrunið mikill.

Árni Páll er ekki bara af yngri kynslóð, heldur einnig með annan stíl og heldur meiri áherslu til hægri eða á miðjuna. Boðar það breytingu hjá Samfylkingunni?

Það er erfitt að segja. Samfylkingin er eins og norrænu krataflokkarnir, vinstri-miðjuflokkur. Slíkir flokkar sameina áherslur bæði til hægri (atvinnulíf) og vinstri (velferðarríki). Þó áherslurnar breytist lítillega frá einum tíma til annars felur það varla í sér grunvallarbreytingar. Olof Palme var vinstri jafnaðarmaður en Göran Persson hægri jafnaðarmaður. Báðir voru farsælir krataleiðtogar.

Nýr formaður í Samfylkingunni getur skapað flokknum sóknarfæri í kosningunum framundan, að mörgu leyti laus undan átökum og erfiði hrunáranna. Hann getur betur fókusað á framtíðina – sem er brýnast nú eftir að Ísland hefur aftur náð vopnum sínum.

Sjálfstæðismenn hafa sýnt Árna Páli nokkurn áhuga. Það er væntanlega einnig vísbending um sóknarfæri Samfylkingar gagnvart Evrópu-sinnuðum hægri mönnum, nú þegar Sjálfstæðisflokkurinn hefur tekið mjög einstrengingslega afstöðu gegn framhaldi aðildarviðræðna.

Margir hófsamir og skynsamir Sjálfstæðismenn vilja vita hvað aðildarsamningur gæti falið í sér – þó meirihluti flokksins fylgi línunni úr Hádegismóum.

Það má því búast við auknu fjöri í stjórnmálunum þegar nær kosningum dregur. Með góðum meðbyr Bjartrar framtíðar í skoðanakönnunum er einnig ljóst að mikil óvissa er um útkomur og stjórnarmyndun að kosningum loknum. Aukið fylgi Framsóknar virðist tengt Icesave dómnum og koma að stærstum hluta frá Sjálfstæðisflokki – gæti verið tímabundið.

Það verður fróðlegt að fylgjast með Árna Páli í baráttunni. Hann er greinilega vígfimur og í miklum sóknarhug.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 2.2.2013 - 16:24 - FB ummæli ()

Væri sænska leiðin góð fyrir Ísland? – Já og nei!

Tímaritið Economist er búið að uppgötva að leið frjálshyggju felur í sér of mikinn ójöfnuð og vilja þeir nú styðja norrænu velferðarleiðina og aðrar skynsamlegar miðjuleiðir (sjá hér).

Staðreyndin er nefnilega sú, að norræna módelið hefur mikla yfirburði á mörgum sviðum – og hefur lengi haft (sjá hér).

Hver eru megin einkenni norræna eða sænska módelsins?

  • Viðamikið opinbert velferðarkerfi
  • Frekar örlát bótaréttindi
  • Hátt þjónustustig (leikskólar, umönnum, heilsugæsla, félagsþjónusta)
  • Sveigjanlegur vinnumarkaður, með kröftugum virkniaukandi aðgerðum
  • Öflugt nýsköpunarkerfi, með opinberum stuðningi við rannsóknir og þróunarstarf (R&Þ)
  • Mikil jöfnun tekjuskiptingar (með bótakerfi og sköttum)
  • Lítil fátækt
  • Há laun
  • Stuttur vinnutími
  • Háir skattar

Ísland hefur lengi haft þá sérstöðu í samfélagi Norðurlandanna að hafa viðaminna velferðarkerfi en hinar norrænu þjóðirnar. Þannig hefur stuðningur hins opinbera verið minni hér á landi, þó saman hafi dregið á síðustu áratugum, m.a. vegna aukinna útgjalda lífeyrissjóða.

Bætur hér hafa ekki verið eins örlátar og einnig meira tekjutengdar en í Skandinavíu. Laun hafa verið lægri  hér og vinnutími lengri. Skattar hafa einnig verið lægri hér, en þjónustustig er að mörgu leyti svipað hér og í Skandinavíu.

Íslendingar hafa bætt sér upp minni opinbera velferðarforsjá og lægri laun með meiri vinnu og lægri sköttum. Það hefur haldið fátækt í skefjum hér – en almennt hafa Íslendingar meira fyrir lífskjörum sínum en norrænu frændþjóðirnar (sjá nánar um þetta hér).

Myndin hér að neðan sýnir opinber velferðarútgjöld í Svíþjóð, á Íslandi og meðaltal OECD-ríkjanna 1980-2010 (inn í íslensku tölurnar vantar útgjöld lífeyrissjóða; ef það er meðtalið færumst við nær meðaltali OECD-ríkjanna; tölurnar eru frá OECD).

Ef við ættum að smella okkur beint inn í sænska velferðarmódelið þyrfti að hækka velferðarútgjöld hér strax úr u.þ.b 22% af landsframleiðslu upp í 28-30%, eins og er nú í Svíþjóð – og lengi hefur verið.

Skattbyrðin þyrfti að hækka úr um 35% af VLF í um 45%. Álagning á hæstu tekjur einstaklinga þyrfti að hækka úr um 46% í um 56% og álagning á fjármagnstekjur og fyrirtæki þyrfti að hækka stórlega.

 

Væri þá gott fyrir Ísland að fara sænsku leiðina í auknum mæli?

Ég segi bæði já og nei!

Það væri gott fyrir okkur að fá örlátara bótakerfi og minni tekjutengingar (t.d. hærri barnabætur), hærri laun og styttri vinnutíma. Við erum hins vegar með svipað þjónustustig í velferðarþjónustu og frekar stórt hlutverk fyrir einkageira í umönnun aldraðra og fatlaðra (félagslega einkaþjónustu – non-profit).

Ekki er ástæða til að fylgja Svíum í því að auka hlutverk hagnaðarleitandi einkarekstrar í veitingu umönnunarþjónustu, því það er mjög umdeilt þar í landi og mörg hneykslismál því tengd hafa komið upp á síðustu árum (m.a. í anda EIR-málsins hér á landi). Þegar einkafyrirtæki ætla að græða á umönnun aldraðra (sem ríkið fjármagnar) þá kemur það niður á umfangi og gæðum þjónustunnar.

Hins vegar væri ekki gott að fá sænska skatta hér á landi. Það myndi þýða umtalsvert hækkaða skattbyrði. Í ljósi lágra launa á Íslandi og mikils álags á heimili þá væri það alls ekki gott.

Þess vegna segi ég, að sumt sem Svíar njóta gæti bætt hag íslenskra heimila – en annað ekki.

Þeir hægri menn sem nú dásama sænska módelið (sumpart vegna misskilnings á hvað í því felst) myndu ekki vera sáttir við beina yfirfærslu þess á íslenskan veruleika.

Eða myndu frjálshyggjumenn skrifa upp á verulega aukið hlutverk hins opinbera á Íslandi og hækkaða skattbyrði? Ég held ekki. Sú hægri stjórn sem nú situr í Svíþjóð hefur ekki breytt velferðarkerfinu í grundvallaratriðum, heldur fínpússað það.

Hægri stjórn í Svíþjóð er að mörgu leyti eins og vinstri stjórn á Íslandi!

Enginn er andvígur slíkri fínpússningu til að bæta virkni og nýta opinbert fé betur – og til að ná betur markmiðum um atvinnusköpun, atvinnuþátttöku, hagvöxt og útrýmingu fátæktar.

Slíkt hefur allta verið hluti norrænu velferðarleiðarinnar.

PS! Myndu íslenskir hægri menn styrja aðild Íslands að ESB, eins og Svíar gera?!!

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 31.1.2013 - 14:03 - FB ummæli ()

Harmageddon – góð umræða

Ég var í þættinum Harmageddon á Xinu 977 um daginn.

Stjórnendur þáttarins, Frosti og Máni, voru með mjög góðar spurningar og sóttu fast að mér.

Úr varð mjög góð umræða.

Strákarnir eru vel að sér í þjóðmálunum og skemmtilegir.

Svo er tónlistarvalið líka gott hjá þeir. Alveg óhætt að mæla með þætti þeirra.

Hér er vídeóið af umræðunni hjá okkur.

Sjáið viðtalið hér:

 

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 28.1.2013 - 22:34 - FB ummæli ()

Hverjir færðu okkur Icesave og verstu lausnina?

Nú þegar við fögnum innilega fullnaðarsigri Íslands í Icesave-málinu er hollt að minnast tveggja atriða:

  • Hverjir færðu íslensku þjóðinni Icesave
  • Hverjir lögðu til dýrustu leiðina til að leysa málið

Þeir sem færðu okkur Icesave voru eigendur og stjórnendur Landsbankans. Hvers vegna? Jú þeir voru að reyna að bjarga eignum sínum í bankanum og öðrum fyrirtækjum eftir að lokað hafði verið á frekari lánveitingar til bankans á alþjóðlegum fjármálamarkaði á árinu 2006.

Þá ákváðu þeir að afla fjár með því að ryksuga upp sparifé almennings í Bretlandi og Hollandi með yfirboðum í vaxtakjörum. Með því gætu þeir haldið bankanum lengur á floti.

Þetta voru ekki bara uppáhaldsbankamenn forystu Sjálfstæðisflokksins heldur sat sjálfur framkvæmdastjóri flokksins í bankaráðinu, þegar ákvörðun um þetta var tekin. Stjórnendur bankans ákváðu líka að gera þetta í formi útibúa frá bankanum (en ekki dótturfélaga eins og Kaupþing gerði), því þannig gátu þeir flutt féð örar til Íslands. Kölluðu þetta “tæra snilld”.

Þeir völdu leið sem lagði áhættuna á íslensku þjóðina, af því það hentaði þeim sjálfum betur. Kaupþing fór hina leiðina og hætti ekki fjöreggi þjóðarinnar með sínum innlánsreikningum (þó þeir gerðu það á aðra vegu).

Svo þegar kom að því að horfast í augu við þennan gerða hlut, eftir hrunið, þá samþykkti ríkisstjórn Geirs Haarde skuldbindingu um að Ísland myndi greiða lágmarksinnstæðutrygginguna í formi láns frá Bretum og Hollendingum. Lánið sem þannig yrði til skyldi greiðast til baka á tíu árum með 6,7% vöxtum (sjá hér og hér og hér og hér og hér).

Bjarni Benediktsson mælti fyrir samþykkt þessarar skuldbindingar á Alþingi fyrir jólin 2008, fyrir hönd ríkisstjórnarinnar.

Á myndinni hér að neðan, sem kemur frá fjármálaráðuneytinu, má sjá áætlaðan kostnað við hinar ýmsu leiðir í Icesave-málinu, ásamt samanburði við kostnaðinn af endurreisn Seðlabankans, sem varð gjaldþrota. Tölurnar eru settar fram sem % af landsframleiðslu.

Fyrsta leiðin var sem sé sú dýrasta og kom fram í tíð ríkisstjórnar Geirs Haarde (Árni Matthiesen var fjármálaráðherra og Bjarni Benediktsson studdi málið – sjá ræðu hans hér).

Fyrri Svavars-samningurinn kostaði rúmlega helming af fyrsta samningnum, en að auki fólst í honum að eignir Landsbankans myndu renna til greiðslu “skuldarinnar”. Þær eignir borga nú innstæðurnar til fulls.

Seinni samningur nefndar Svavars Gestssonar lækkaði svo kostnaðinn úr 7,6% í 5,1% af landsframleiðslu og Buchheit-samningurinn náði kostnaði ríkisins svo niður í 2,8% af landsframleiðslu.

Við skulum fagna því lengi og innilega að vel hefur unnist úr þessu máli á lokasprettinum.

Við skulum líka hafa skilning á því að Ísland var í afar þröngri stöðu á hverjum tíma til að bregðast við þessu ógæfulega máli og þeir sem um það sýsluðu gerðu án efa sitt besta. Óvissa um aðstæður, möguleika og framtíðarhorfur fylgdu allri aðkomu að málinu – á hverjum tíma.

Ísland var líka beitt þvingunum til að standa við hinar upprunalegu skuldbindingar, sem m.a. Árni Matthiesen fjármálaráðherra og Davíð Oddsson seðlabankastjóri skrifuðu undir.

Enginn gat gengið að því vísu að EFTA dómurinn myndi sýkna okkur. Flestir lögfræðingar óttuðust útkomuna fyrirfram, enda hefur ESA unnið flest mál sín á þessum vettvangi.

En gleymum ekki hvernig málið varð til og hverjir komu að dýrustu leiðinni sem til greina kom. Þeir sömu hafa verið iðnastir við að afneita eigin ábyrgð á málinu.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 27.1.2013 - 10:58 - FB ummæli ()

Orsakaði frjálshyggjan kreppuna?

Íslenskir frjálshyggjumenn hafa gengið hart fram í að þvo kenningu sína af ábyrgð á fjármálakreppunni og hruninu. Það er annað erlendis. Þar tengja virtir fræðimenn aukin frjálshyggjuáhrif á fjármálamarkaði við tilkomu fjármálakreppunnar alþjóðlegu. Einnig við almennt aukna tíðni fjármálakreppa eftir um 1980.

Hættur á að fjármálakreppur skelli á aukast stórlega með aukinni skuldasöfnun. Óholl skuldasöfnun fylgir oftast auknu frelsi og áhættuaukandi nýmælum á fjármálamörkuðum, sem ekki búa við fullnægjandi reglun, aðhald og eftirlit.

Hér eru nokkur dæmi um slíkan málflutning. Byrjum fyrst á frjálshyggjumanninum Richard A. Posner, sem tekur frjálshyggjumenn í bakaríið.

 

Uppgjör frjálshyggjumannsins Richard A. Posner

Posner er bandarískur fræðimaður, sem hefur verið mjög hallur undir frjálshyggju á liðnum árum. Hann hefur nýlega skrifað tvær bækur um fjármálakreppuna (bandarísku og alþjóðlegu) til að greina og skýra orsakir hennar. Hann kennir frjálshyggjunni að umtalsverðu leyti um núverandi kreppu í Bandaríkjunum og víðar á Vesturlöndum.

Fyrri bókin heitir “Hvernig kapítlisminn brást” (A Failure of Capitalism, útg. 2009) og sú seinni “Kreppa kapítalísks lýðræðis” (The Crisis of Capitalist Democracy, útg. 2010).

Niðurstaða Posners er sú, einkum í seinni bókinni, að aukin frjálshyggjuáhrif á síðustu áratugum (afreglun, afskiptaleysisstefna, aukið frelsi á fjármálamarkaði) hafi gert kapítalismann viðkvæmari fyrir sveiflum. Aukið frelsi og minna aðhald á fjármálamörkuðum, í bland við aukið framboð á ódýru fjármagni, leiddi til bóluhagkerfisins eftir aldamótin, með ótæpilegri skuldasöfnun, sem endaði svo í núverandi fjármálakreppu, segir Posner.

Posner ítrekar að hann sé ekki andvígur kapítalisma heldur varar hann við því, að menn jafni kapítalisma við óheftan markað. Hann varar í reynd við afskiptaleysisstefnu frjálshyggjunnar, sem að stórum hluta bannar ríkisafskipti. Hann segir reynslu sögunnar sýna að kapítalismi sé annað og meira en óheftir markaðir. Ríkisafskipti, lýðræði og aðhald séu allt nauðsynlegir þættir markaðshagkerfanna, svo þau virki vel og þjóni almannahag – en ekki bara sérhagsmunum.

Posner bendir í seinni bókinni á það, að kapítalismi sé í eðli sínu óstöðugur. Það er raunar augljóst af sögunni. Það var einnig niðurstaða John M. Keynes og Hyman Minskys og margra annarra sérfræðinga í fjármálum. Tilhneiging kapítalismans til óstöðugleika, ekki síst fjármálamarkaðanna, getur svo dregið allt hagkerfið niður með sér þegar markaðirnir fara verulega afvega, eins og gerðist í Kreppunni miklu er hófst 1929 og á afgerandi hátt í núverandi kreppu frá 2008.

Þess vegna er reglun, virkt eftirlit og aðhald svo mikilvægt. Í kjölfar Kreppunnar miklu var reglun verulega aukin til að draga úr áhættum. Það ásamt Bretton Woods samkomulaginu, sem tók gildi í upphafi eftirstríðsáranna, dró stórlega úr tíðni fjármálakreppa, alveg fram á áttunda áratuginn, er kerfið brotnaði upp á ný (frá og með 1971). Bretton Woods kerfið takmarkaði flæði fjármagns milli landa og veitti fjármálamörkuðum gagnlegt aðhald og stöðugleika. Eftir hrun þess jukust svo frjálshyggjuáhrif með aukinni útbreiðslu markaðshyggju og peningahyggju, ekki síst eftir 1980.

 

Rannsóknir og niðurstöður Reinhart og Rogoff

Það var einmitt eftir 1980 sem tíðni fjármálakreppa í heiminum tók einnig að aukast á ný (sjá umfjöllun um það í stórmerkri bók Carmen Reinhart og Kenneth Rogoff, This Time is Different – Eight Centuries of Financial Follies, er kom út 2009; sjá hérhér og hér).

Það er einnig niðurstaða Reinhardt og Rogoff að aukið frelsi á fjármálamarkaði og óhófleg skuldasöfnun hafi átt stærstan þátt í aukinni tíðni fjármálakreppa almennt eftir 1980. Á bls. 217 segja þau t.d.: „Sögulega séð hefur aukið frelsi í fjármálum (financial liberalization) eða nýmæli í starfsháttum verið með síendurteknum hætti einkennandi fyrir aðdraganda fjármálakreppa…“.

Núverandi kreppa er einfaldlega óvenju stór fjármálakreppa af klassískri gerð, þar sem saman fer aukið frelsi og aðhaldsleysi, aukið framboð á fjármagni, aukin spákaupmennska og óhófleg skuldasöfnun, sem eykur allar áhættur, samkvæmt niðurstöðum þeirra Reinhart og Rogoff. Alltaf er þetta eins, þó menn segi í hvert skipti að nú sé þetta með öðrum hætti (þaðan kemur heiti bókar þeirra: This Time is Different).

Minnstu frávik eða bakslög geta svo sprengt slíkar bólur og dregið hagkerfin niður í djúpa kreppu. Því meiri sem skuldasöfnunin er, þeim mun meiri er áhættan og því stærra hrunið, ef til þess kemur.

 

Voru of mikil ríkisafskipti orsök kreppunnar?

Posner varar við öllu tali róttækra frjálshyggjumanna um að of mikil ríkisafskipti (t.d. af húsnæðismarkaði í USA) hafi orsakað fjármálakreppuna. Hann finnur slíkum rökum engan stað í framvindunni og segir óhjákvæmilegt að viðhafa öfluga reglun, eftirlit og aðhald gagnvart mörkuðum, vegna hins eðlislæga óstöðugleika þeirra. Annars fer illa.

Posner leggur einnig áherslu á að menn endurnýji kynni sín af klassískri hagfræði John Meynard Keynes, ekki síst um reynsluna af Kreppunni miklu og viðbrögðum við henni. Paul Krugman og Joseph Stiglitz, Nóbelsverðlaunahafar í hagfræði, leggja einnig mikla áherslu á þá lexíu. Frjálshyggjumenn bjóða hins vegar enn upp á óhefta markaði og hafna gjarnan hagfræði sem er í anda Keynes.

Óheftir fjármálamarkaðir eru samkvæmt þessu alvarleg ógn við velferð almennings. Ógn sem aukin frjálshyggjuáhrif juku stórlega á síðustu áratugum og keyrðu um þverbak eftir aldamótin 2000.

Það er ánægjulegt að til skuli vera málsmetandi frjálshyggjumenn, eins og Richard A. Posner, sem draga réttar ályktanir af reynslu sögunnar – og laga kenningar sínar að veruleikanum. Draumóramenn óheftrar markaðshyggju á Íslandi ættu að kynna sér þessi skrif hans, sem og skrif Reinhart og Rogoff, Paul Krugmans, Joseph Stiglitz og annarra helstu sérfræðinga á þessu sviði.

Á Íslandi gerðist þetta með svipuðum hætti. Aukin frjálshyggjuáhrif, samhliða verulega auknu aðgengi að ódýru fjármagni, stórjuku áhættuna á ósjálfbærri skuldasöfnun, bóluhagkerfi og hruni. Eftirlitsaðilarnir brugðust í einu og öllu, aðhald varð ekki nægt og markaðsaðilar í taumlausri gróðaleit steyptu þjóðarbúinu fyrir björg, með fordæmalausri skuldasöfnun. Frjálshyggjan færði þeim frelsið til að gera það.

Meira um orsakir íslensku kreppunnar síðar.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 25.1.2013 - 09:26 - FB ummæli ()

Vúdú-hagfræði Laffers er alger snilld!

Arthur Laffer er einn af áhrifamönnum nýfrjálshyggjunnar. Hann kom til Íslands í boði frjálshyggjumanna um miðjan nóvember 2007, er Ísland var þegar komið að bjargbrún fjármálahrunsins.

 

Skilaboð Laffers í aðdraganda hrunsins

Laffer sagði við það tækifæri, að hér á landi væri allt í besta hugsanlega lagi (sjá hér). Allt væri svo frjálst í landinu að allir vildu koma með fé sitt hingað. Ekkert væri til sem héti ofhitun hagkerfisins eða ofþensla.

Venjulegir hagfræðingar segja hins vegar, að ef viðskiptahalli er í tveggja stafa tölu í meira en eitt ár, með tilheyrandi ofhitun, þá stefni í voða. Þannig hafði ástandið verið á Íslandi í nokkur ár í röð, með methalla á erlendum viðskiptum og ógnvænlegri skuldasöfnun. Frjálshyggjumenn höfðu engar áhyggjur af því. Gróðinn skilaði sér sem aldrei fyrr.

Laffer yfirsást að vísu að búið var á þessum tíma að skrúfa fyrir frekari lánveitingar til bankanna á erlendum mörkuðum. Þeir björguðu sér með brellum í tvö misseri í viðbót, m.a. með söfnun sparifjár frá almenningi í grannríkjunum, með yfirboðum á vöxtum (Icesave o.fl.).

Þáverandi fjármálaráðherra, Árni Matthiesen, sagði að Ísland væri sönnun þess að kenning Laffers væri rétt! Hvorki meira né minna. Kanski Árni Matthiesen og Sjálfstæðismenn almennt hafi endurskoðað kenninguna eftir hrunið – eða hvað?

Þess sjást þó engin merki!

En hver er kenning Laffers um Laffer-bogann?

 

Vúdú-hagfræði Laffers í hnotskurn

Megin boðskapur Laffers er að skattar verði að vera mjög lágir til að fólk vilji vinna launavinnu og til að hagvöxtur geti gengið þokkalega. Allar skattahækkanir eru taldar leiða til minna vinnuframlags einstaklinga og minni hagvaxtar.

Síðan segja bogamenn Laffers að ef skattlagning fari yfir svona 25% þá hætti hækkunin að skila samsvarandi aukningu á tekjum ríkisins. Ekki hefur þó tekist að sanna að slíkt geti gerst að ráði fyrr en við mun hærri skattlagningu, t.d. við 70-80% (sjá hér). Þessu til viðbótar segja Laffer-menn að allar skattalækkanir skili auknum tekjum í ríkissjóð! Þar koma vúdú-áhrifin til sögunnar…

Ef speki Laffers væri rétt þá myndi enginn nenna að vinna í Skandinavísku löndunum, því þar eru skattar svo háir. Samt er reyndin sú, að atvinnuþátttaka er meiri í Skandinavíu en í Bandaríkjunum og Bretlandi (sem hafa mun lægri skatta). Þannig hefur það verið í áratugi.

Í Bandaríkjunum er reynslan sú, að á þremur áratugum eftir seinni heimsstyrjöldina, þegar hámarks álagning í tekjuskatti einstaklinga var sem hæst (yfir 90%), þá jókst atvinnuþátttaka og hagvöxtur varð meiri en fyrr eða síðar (sjá hér)! Það var alveg öfugt við speki og spá Laffers. Vúdú-brögð hans virkuðu ekki í reynd.

 

Prófun á Laffer áhrifum á Íslandi

Hvernig eru Laffer áhrifin á vinnuframboð á Íslandi? Þau virðast ekki vera nein á áratugnum fram að hruni – eða í besta falli öfug. Það má sjá á myndinni hér að neðan.

Þarna er sýnt samband milli hámarks álagningar í tekjuskatti einstaklinga og meðallengdar vinnutíma. Speki Laffers segir að vinnutími ætti að styttast þegar jaðarskatturinn hækkar og lengjast þegar skatturinn lækkar.

Svo heppilega vill til að hámarksálagningu í tekjuskatti var breytt á 15 ára tímabilinu fram að hruni (hækkun kom fyrst 1994 og síðan var lækkuð álagning á hærri tekjur frá 2004 ti 2008). Það er því hægt að prófa hvort hér hafi gætt Laffer áhrifa.

Niðurstaðan er sú, að engin Laffer-tengsl virðast vera milli hámarks álagningar í tekjuskatti og lengdar vinnutíma. Ef eitthvað er þá styttist vinnutími um leið og álagningin lækkaði frá 2004 til 2008 (fylgni er jákvæð upp á 0,48), sem er öfugt við speki Laffers!

Samband skattabreytinganna við atvinnuþátttöku er beinlínis ekkert. Þetta má skoða nánar hér.

Það er sitthvað annað en bara álagning í tekjuskattinum sem stýrir atvinnuþátttöku og vinnutíma fólks. Hagvexti líka. Raunverulegi heimurinn er flóknari og öðruvísi en heimur Laffers og frjálshyggjukóna hans!

 

Niðurstöður

Laffer áhrif á vinnuframboð, hagvöxt og tekjur ríkisins eru almennt ósönnuð og afar umdeilanleg. Þau gætu hins vegar átt við í öfgakenndu ástandi, sem þekkist almennt ekki í vestrænum samfélögum nú á dögum. Notagildi þessarar speki Laffers, sem Georg Bush eldri  gaf nafnið „vúdú-hagfræði“, er því lítið sem ekkert.

Ef finna á einhver áhrif af breytingu á skattlagningu launatekna á vinnuframboð eða hagvöxt þá þyrfti að fara mjög ofarlega í skattstigann. Til dæmis mætti búast við að lækkun skatta úr um 70-80% í svona 40-50% gæti hugsanlega haft einhver hvataáhrif eða bætt skattaskil (sjá hér).

Svo há álagning þekkist þó almennt ekki núna á Vesturlöndum svo líkindin á að finna Laffer áhrif virðast hverfandi í nútímanum. Erindi vúdú-spekinnar er því lítið, nema í blekkingar- eða áróðursskyni.

Annars eru menn mest farnir að hlægja að speki Laffers, jafnvel í Bandaríkjunum (sjá hér). Svo eru líka sumir hægri menn farnir að sjá í gegnum sjónhverfingar Laffers. Bruce Bartlett, einn af efnahagsráðgjöfum Reagans og höfundur hugtaksins „Reaganomics“, gagnrýnir núna villandi og hættulega notkun Repúblikanaflokksins á speki Laffers (sjá hér).

En það er annað á Íslandi.

Birgir Þór Runólfsson, riddari frjálshyggjuboðsins, hefur hamast við að birta fyrri greinar Hannesar Hólmsteins um hin “miklu” Laffer áhrif, bæði á Íslandi og í Sviss og Svíþjóð (t.d. hér).

Sú endurvinnsla er hálf súrrealísk, en hún hefur skemmtigildi. Þar eð ég er forfallinn aðdáandi súrrealisma þá mæli ég með vúdú-hagfræðinni sem dægradvöl og gef henni þrjár stjörnur fyrir skemmtigildið (***).

Þó fann ég einn hægri mann á Íslandi sem hefur varað við kuklinu í Deiglunni (sjá hér). Það sannar að til eru hægri menn hér sem kjósa meira raunsæi en frjálshyggjumenn bjóða uppá.

Vonandi næ ég að snúa einum hægri manni frá villutrú frjálshyggjunnar og vúdú-hagfræðinnar með pistli þessum. Þá myndi fjölga í hópi sómakærra Sjálfstæðismanna – sem væri gott fyrir land og þjóð.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 23.1.2013 - 23:02 - FB ummæli ()

Um hóflegar vinsældir ríkisstjórnarinnar

Karl Th. Birgisson skrifaði pistil á Eyjunni þar sem hann veltir fyrir sér hvers vegna ríkisstjórnin njóti ekki meira fylgis, eftir að hafa að sögn unnið afar góð verk í einstaklega erfiðum aðstæðum, í kjölfar frjálshyggjuhrunsins.

Karl kennir Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra um fylgisleysið. Segir hana ekki vera nógu góðan ræðumann og að hún hafi ekki kynnt árangurinn nógu vel né talað nógu mjúku máli fyrir hönd stjórnarinnar.

Efast má um þessa kenningu Karls.

Fyrir það fyrsta er fylgistapið sértaklega afgerandi hjá VG og má einkum rekja það til sundrungar þar á bæ, sem engu jákvæðu hefur skilað. Sundrungin hefur þvert á móti varpað neikvæðu ljósi á bæði VG og ríkisstjórnina sem heild. Samfylkingin hefur staðið saman og ekki tapað jafn miklu fylgi. Hún á sennilega talsvert inni í stórum hópi óráðinna og gæti náð þokkalegri kosningu í vor.

Stuðningur við stjórnina fór að rýrna þegar sundurlyndið í VG fór að magnast. Icesave málið, sem Sjálfstæðismennirnir í Landsbankanum færðu þjóðinni, varpaði líka skugga á stjórnina.

Stærsti áhrifavaldur óvinsældanna er þó líklega kjaraskerðing heimilanna, sem hrun krónunnar orsakaði. Þó ríkisstjórninni hafi tekist að hlífa lægri og milli tekjuhópum við verstu afleiðingum hrunins og hemja atvinnuleysið, þá hafa allir fundið fyrir kjaraskerðingunni. Reynslan, bæða hérlend og erlend, kennir að stjórnum sem sitja í gegnum djúpa efnahagskreppu er oft refsað – jafnvel þó ósanngjarnt sé.

Ég held að þjóðin þekki Jóhönnu Sigurðardóttur alveg nógu vel eftir hennar langa og farsæla feril. Allir vita að hún er vinnusöm, heiðarleg og trú þeirri stefnu að verja þá sem minna hafa. Þjóðin metur forystu hennar í endurreisninni og mun án efa sýna það í verki þegar á hólminn er komið.

Það er afrek að hafa ekki aðeins náð að endurreisa samfélagið þannig að aðdáun vekur á alþjóðavettvangi, heldur einnig að hafa náð að halda ríkisstjórninni saman í ólgusjó dýpstu kreppunnar í lýðveldissögunni. Fordæmalaus óbilgirni frá stjórnarandstöðu og áhrifamiklum fjölmiðlum hefur einnig haft áhrif, auk hinna veiku hlekkja í stjórnarliðinu.

Jóhanna og hennar lið hefur hamið hverja ógnina á fætur annarri, sem virtist líkleg til að granda fleyi stjórnarsamstarfsins. Sá árangur er raunar einstakur og óvæntur, ekki síst í huga þeirra sem hafa sagt Jóhönnu vera óbilgjarna og ósveigjanlega í samningum.

Steingrímur J. Sigfússon fékk versta starf landsins er hann gerðist fjármálaráðherra í kjölfar hrunsins. Flestir eru sammála um að hann hefur leyst það farsællega af hólmi, enda vitnisburðurinn ótvíræður. Minnkandi fylgi VG er ekki vegna ófullnægjandi árangurs hans – heldur vegna sundrungarinnar.

Það er líka reynslan af sögu vinstri hreyfingarinnar á Íslandi á 20. öldinni, að sundrung var alltaf mesta eyðileggingaraflið, sem færði Sjálfstæðisflokki og Framsókn ofurvald til að móta samfélagið, oft í þágu atvinnurekenda og fjármálamanna.

Þó stjórnarflokkarnir súpi nú seyðið sem sundurlyndisfjandinn bruggðaði þeim, þá hygg ég að staða þeirra geti batnað talsvert í aðdraganda kosninga – nema þeir kjósi að klúðra kosningabaráttunni algerlega, t.d. með enn frekari sundrungardansi.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 23.1.2013 - 12:20 - FB ummæli ()

Var meiri fátækt á Íslandi en í Skandinavíu?

Frjálshyggjumenn hafa ítrekað reynt að afbaka og hártoga 13 ára gömul skrif mín um fátækt. Telja sig geta sýnt með tölum Hagstofu Íslands um afstæða fátækt frá 2003-2005 að ég hafi haft rangt fyrir mér er ég ályktaði út frá ýmsum gögnum frá 1997-1998, að fátækt virtist þá hafa verið heldur meiri á Íslandi en í Skandinavíu.

Nú eru hins vegar til nýrri og betri gögn um efnið sem að mörgu leyti styðja fyrri ályktun mína. Horfa þarf á fleira en afstæða fátækt (hlutfall heimila með tekjur undir 50% eða 60% af miðtekjum heimila á mann), eins og almennt er gert nú á dögum.

Ein mjög mikilvæg vísbending um fátækt er raunverulegur kaupmáttur lágtekjufólks. Á myndinni hér að neðan, sem kemur frá OECD og er fyrir árið 2005, má sjá hvernig Ísland kom út í samanburði við hinar norrænu þjóðirnar.

Raunverulegur kaupmáttur ráðstöfunartekna lágtekjufólks í OECD-ríkjum árið 2005 (miðað er við þau 10% heimila sem lægstar tekjur hafa). (Heimild: OECD Growing Unequal?, 2008)

Hér má sjá að lágtekjufólk á Íslandi var með lægri rauntekjur en samsvarandi hópar á hinum Norðurlöndunum (rauðu súlurnar).

Lágtekjufólk á Íslandi hafði sem sagt minna fé milli handanna og minni kaupmátt til að lifa af á þessum tíma. Það styður vissulega þá ályktun að fátæktarþrengingar hafi verið meiri hér á landi en í Skandinavíu um árið 2005, mitt í góðærinu svokallaða. (Til eru samsvarandi gögn fyrir 2007 sem gefa svipaða niðurstöðu).

Ég hef hins vegar sagt og skrifað að skoða þurfi fátækt með margvíslegum mælingum til að fá heildstæða mynd. Almennt myndi ég ekki gera mjög mikið úr því að fátæktarvandamál séu meiri á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum. Við erum ekki mjög langt frá þeim og fátækt Skandínava er ein sú alminnsta sem þekkist í heiminum, þegar allt er skoðað. Fátækir í hinum hagsælu Bandaríkjum Norður Ameríku eru t.d. með talsvert minni kaupmátt ráðstöfunartekna en norrænu þjóðirnar (sjá myndina) – og njóta að auki lakari velferðarþjónustu frá hinu opinbera.

Kreppan eftir hrun hefur þó dregið okkur neðar og í meiri fjárhagsþrengingar en þessar frændþjóðir okkar hafa mátt þola, vegna hins gríðarlega hruns krónunnar og kjaraskerðingarinnar sem af hlaust.

Þó tekist hafi að hlífa lægri tekjuhópum við áfallinu að hluta þá slapp nær enginn Íslendingur við umtalsverða kjaraskerðingu vegna hrunsins (sjá hér). Við getum því illa keppt við frændþjóðir okkar í þessum efnum fyrr en við erum búin að ná kaupmættinum aftur upp á það plan sem var fyrir hrun.

Ég mun síðar birta fleiri upplýsingar um fjárhagþrengingar og basl á Íslandi í samanburði við frændþjóðirnar á Norðurlöndum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 22.1.2013 - 17:19 - FB ummæli ()

Stjórnarskráin: Er málamiðlun æskileg?

Það fer varla á milli mála að staðan varðandi afgreiðslu nýju stjórnarskrárinnar er afar þröng.

Fyrst og fremst er það tímaskorturinn. En athugasemdir þær sem fram hafa komið hjá fræðimönnum, úttektarnefndum og nú síðast hjá umboðsmanni Alþingis, eru einnig þess eðlis að ástæða er til að staldra við, þó í sumu hafi gagnrýnendur farið offari.

Nú má vera að stjórnarmeirihlutinn lumi á leið til að klára málið í heild sinni í tíma og geti látið kjósa sérstaklega um frumvarpið samhliða kosningunum í vor. Það myndi binda hendur næstu ríkisstjórnar að hluta, ef hún vildi draga breytingar til baka.

Að því slepptu virðast tvær leiðir nærtækar:

  • Einföldun: Stjórnarmeirihlutinn einfaldi eða sleppi þeim ákvæðum sem fengið hafa alvarlegasta gagnrýni og freisti þess að afgreiða málið þannig í heild sinni
  • Málamiðlun: Semja um afgreiðslu mikilvægustu greina til að ná fram núna í meiri sátt

Hættan við fyrri leiðina er sú, að einföldun eða útþynning geti gert einstök ákvæði of óskýr (eins og umboðsmaður Alþingis hefur áhyggjur af) eða að nýr árgreiningur myndist um frumvarpið í heild sinni.

Öruggast virðist vera að fara seinni leiðina og ganga frá mikilvægustu greinunum í breiðari sátt en ella væri. Þar er útspil Framsóknarflokksins frá í gær sérstaklega athyglisvert.

Það sem er mikilvægast er að koma skotheldu auðlindaákvæði tryggilega í gegn og að auka möguleika almennings á að kalla eftir þjóðaratkvæðagreiðslum um stór og umdeild hagsmunamál þjóðarinnar. Fleira mætti taka með.

Mikilvægast er að ná einhverjum árangri. Verst væri að sigla málinu alveg í strand og fá ekkert. Menn geta gengið að því vísu að reynt verður til þrautar, jafnvel með fordæmalausum hætti, að skemma framgang málsins.

Stjórnarmeirihlutinn hlýtur því að ræða við Framsókn og aðra flokka til að tryggja mögueika á málamiðlunarleiðinni, a.m.k. samhliða því að unnið sé að málinu í heild.

Að ná einhverjum árangri er mikilvægast. Samningar brúa líka leiðir inn á næsta kjörtímabil.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 22.1.2013 - 10:47 - FB ummæli ()

Skafti Harðar er sérfræðingur í fátækt

Skafti Harðarson, frjálshyggjumaður og bloggari, fer mikinn á köflum. Í gær sendi hann mér harðan dóm vegna meintra skrifa minna um fátækt fyrir 10 og 13 árum síðan.

Það er að vísu allt rangt sem Skafti segir um skrif mín, forsendur og samhengi þeirra (sjá hér). Auk þess er hann augljóslega ókunnugur rannsóknum og aðferðafræðum fátæktarrannsókna.

Það kemur ekki að sök. Skafti hefur í staðinn þann hátt á að smjatta á gömlu skroi sem Hannes Hólmsteinn hefur spýtt út úr sér í stjórnmálabaráttu sinni. Þó skro Hannesar sé ekki beint veislumatur þá gerir Skafti sér þetta að góðu.

Hann endurómar rödd Hannesar samviskusamlega, stundum nánast orðrétt.

Þetta er Skafta nægur efniviður til að kveða upp dóma um hver hafi unnið og hver tapað í hinum ýmsu skrifum um fátækt.

Gögn, aðferðir og staðreyndir skipta engu máli.

Hávaðinn er hins vegar það sem máli skiptir hjá Skafta og félögum hans í frjálshyggjunni. Fullyrða og nafngreina digurbarkalega í fyrirsögnum. Endurtaka svo í sífellu í von um að fals og óhróður nái að síast inn í þjóðarsálina.

Hávaði er auðvitað alveg fullnægjandi þegar erindið er áróður.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 21.1.2013 - 12:10 - FB ummæli ()

Villandi tal um fátækt

Birgir Þór Runólfsson skrifar um fátækt árið 2003 hér á Eyjunni í dag. Þar endurtekur hann, nær orðrétt, skrif sem Hannes Hólmsteinn hefur prentað í tugum greina á liðnum árum.

Boðskapurinn er sá, að ég hafi í grein í Morgunblaðinu árið 2003 (það var raunar athugasemd frekar en grein) fullyrt að fátækt væri “verulega” meiri á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum. Síðan hafi Hagstofa Íslands gert könnun fyrir árið 2003 (og birt 2007) sem hafi sýnt að fátækt var þá á svipuðu róli hér og á hinum Norðurlöndunum. Síðan er fullyrt sigri hrósandi að ég hafi haft rangt fyrir mér. (Í þessu er í öllum tilvikum miðað við “afstæða fátækt”, þ.e. hlutfall heimila undir 50% eða 60% af miðtekjum heimila á mann).

Þarna er ranglega farið með hjá BÞR (og HHG). Tölur sem ég vísaði til í athugasemdinni í Mbl. 2003 voru frá 1997-8, en ekki 2003. Könnun Hagstofunar fyrir 2003 getur því varla verið prófsteinn á sannleiksgildi minna niðurstaðna frá sex árum áður! Þetta vita BÞR og HHG en kjósa að bera þessa villu ítrekað á borð fyrir fólk. Það eru alvarleg óheilindi í fari fræðimanna.

Í ályktunum mínum um þessi gögn sagði ég reyndar að tölurnar bentu til að á þeim tíma (1997-8) hafi fátækt verið „heldur meiri á Íslandi en hjá hinum norrænum þjóðunum“. Ekki “verulega”, eins og Birgir Þór og félagi hans iðuglega segja. Þeir félagar leggja mér ranga lýsingu í munn til að villa um fyrir fólki.

Ég vil líka hvetja áhugasama lesendur til að skoða athugasemdina sem ég gerði í Morgunblaðið 2003, svo þeir fái réttari mynd af umræðunni sem þá var (sjá hér).

Ég hafði unnið mér það til sakar að hafa gert rannsókn á fátækt frá 1986 til 1998 og skrifað hóflega um að hér væri einhverja fátækt að finna. Þáverandi stjórnvöld vildu hins vegar halda því að fólki að hér væri engin fátækt. Ég féll því í ónáð hjá forsætisráðherra (DO) og félögum hans. Þeir telja enn að eitt brýnasta verkefni þeirra sé að refsa mér fyrir þetta frumhlaup!

 

Afstæð fátækt og raunverulegar fjárhagsþrengingar

Ef menn hins vegar vilja fá sem sannasta mynd af umfangi fátæktar á Íslandi og bera saman við niðurstöður frá hinum Norðurlöndunum, þá þarf að skoða marga mælikvarða, ekki bara aftæða fátækt. Ólíkir mælikvarðar gefa nefnilega ólíkar niðurtöður, enda segja þeir ólíkar sögur, eins og eðlilegt er. Fátækt er margþætt og flókið fyrirbæri.

Tölur um “afstæða fátækt” benda t.d. til að hún sé með minnsta móti á Íslandi frá 2003 til nútímans, í samanburði við hinar norrænu þjóðirnar. Tölur um raunverulegar fjárhagsþrengingar heimila benda hins vegar til að þær hafi verið markvert meiri hér á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum á hverju ári frá 2004 (sjá hér og hér).

Afstæð fátækt (hlutfall heimila undir 60% fátæktarmörkum) var um 10% á Íslandi frá 2003 til 2007 en um 11-12% á hinum norrænu löndunum að meðaltali. Hlutfall heimila þar sem “mjög erfitt var að láta enda ná saman” var hins vegar um 9% á Islandi árið 2004 en að meðaltali um 3% í hinum norrænu löndunum. Þarna eru misvísandi niðurstöður úr sömu könnunum. Enda verið að mæla ólíka hluti. Báðir mælingar hafa þó þýðingu fyrir mat á fátæktarþrengingum heimila.

Ef sérstaklega er litið á þá sem eru í lágtekjuhópnum (þ.e. undir afstæðu fátæktarmörkunum), þá eru fjárhagsþrengingar þeirra afgerandi meiri á Íslandi en í samsvarandi hópi á hinum Norðurlöndunum. Þannig voru það um 21% lágtekjuheimila á Íslandi sem sögðust “eiga mjög erfitt með að láta enda ná saman” árið 2004, en á hinum Norðurlöndunum voru tölurnar 8-13% á sama tíma. (Gögnin um þetta koma frá Eurostat).

Stærð lágtekjuhópsins (afstæð fátækt) er því ekki það eina sem máli skiptir. Raunverulegar fjárhagsþrengingar fólks sem er í lágtekjuhópnum segja meira um fátæktarþrengingar. Þar stendur Ísland verr en hinar norrænu þjóðirnar og hefur svo verið öll árin frá 2004 til 2011.

Ég birti líka tölur um raunverulegan kaupmátt ráðstöfunartekna lágtekjufólks í OECD löndunum árið 2005 í nýlegum pistli mínum, sem BÞR kýs að hafa að engu, þó hann hafi áður viðurkennt gildi þeirra talna frá OECD. Þær tölur sýna svo ekki verður um villst, að kaupmáttur ráðstöfunartekna lágtekjufólks var lægri á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum á þeim tíma (sjá hér). Það segir ef til vill mest um fjárhagslega fátækt hér á landi í samanburði við vestræn hagsældarríki.

Þannig gefa ólíkar mælingar ólíkar niðurstöður. Fleiri dæmi um það mætti tína til. Að því þarf að huga, ekki bara grípa eina tölu og ætla henni að vera hin eina sanna niðurstaða. (BÞR og HHG hafa raunar ítrekað lýst vanþónkun sinni á mælingum á “afstæðri fátækt” – en nota þær þó þegar hentar! Það er enn eitt dæmið um óvönduð vinnubrögð þeirra).

Skoða þarf sem flesta þætti fátæktar til að fá heildstæða mynd af einkennum og umfangi hennar. Það hef ég leitast við að gera í rannsóknum mínum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 19.1.2013 - 09:54 - FB ummæli ()

Davíð Oddsson – í réttu og röngu ljósi

Davíð Oddsson, fyrrverandi þjóðarleiðtogi okkar Íslendinga, er hálfsjötugur um þessar mundir. Ég óska honum til hamingju með það. Á tímamótum er líka við hæfi að líta til baka.

Aðdáendur Davíðs hefja hann enn til skýjanna. En hverju skilaði forysta hans í reynd?

Ágætur borgarstjóri

Því er ekki að neita að Davíð Oddsson var sterkur og afgerandi leiðtogi. Hann leiddi Sjálfstæðisflokkinn verulega langt í átt frjálshyggjustefnu, að hætti Margrétar Thatcher. Hann jók svigrúm markaðshátta, einkavæddi, jók afskiptaleysisstefnu í stjórnsýslunni og færði fyrirtækjaeigendum og fjáraflamönnum verulega aukin fríðindi, svo dæmi séu tekin. Hann breytti flokknum og landinu með.

Þó mér litist illa á frjálshyggjutilraun Davíðs og Eimreiðarklíkunnar þá hafði ég verið frekar ánægður með Davíð Oddsson sem borgarstjóra í Reykjavík, þó hann yrði á endanum óþægilega hrokafullur þar.

Afleitur landsfaðir

Hins vegar voru áhrif hans í landsstjórninni ekki öll til farsældar fyrir þjóðina. Hann stýrði þjóðarbúinu inn í stærsta bóluhagkerfi sögunnar, meðal annars með siðlausri einkavæðingu ríkisbankanna. Þegar bóluhagkerfið var komið á flug gerðist hann aðalbankastjóri Seðlabankans og varð þar með æðsti yfirmaður íslenskra peningamála.

Peningakerfið (krónan og bankarnir) hrundi síðan til grunna á hans vakt, vegna ofþenslu og ævintýralegrar skuldasöfnunar – og ófullnægjandi viðbragða Seðlabankans og annarra eftirlitsaðila.

Þó menn kunni að meta kosti Davíðs er varla við hæfi að horfa framhjá því sem miður fór á ferli hans, ekki síst þegar tjón þjóðarinnar af stefnu hans og hruninu varð jafn mikið og raun ber vitni.

Pólitík gegn alþýðufólki

Aðdáandi Davíðs og vinur, Hannes H. Gissurarson, sér hins vegar ekkert nema kosti og árangur í ferli leiðtogans í nýjum pistli á Pressunni – að vanda. Ástæða er til að setja fyrirvara við sumt af því sem hann tínir til í pistli sínum.

Hannes segir til dæmis um Davíð: “…hann er einbeittur hugsjónamaður, sem hefur ætíð tekið málstað alþýðu manna, venjulegs vinnandi fólks, gegn þeim, sem hafa viljað fá gæðin fyrirhafnarlaust upp í hendur í krafti mælsku, prófskírteina, ætternis, auðs eða annars slíks.”

Margt kemur strax upp í hugann sem rímar alls ekki við þessa fullyrðingu. Davíð tók t.d. ekki afstöðu með alþýðu manna, venjulegu vinnandi fólki, þegar hann hæddist af fátæku fólki sem stóð í biðröðinni hjá Mæðrastyrksnefnd og beið eftir matargjöfum. Sagði að alltaf væri til fólk sem hlypi eftir ókeypis gæðum ef þau væru í boði. Neitaði að um væri að ræða skort eða fátæktarvanda.

Raunar var honum sérstaklega í nöp við að talað væri um fátækt fólk á Íslandi á stjórnartíma hans. Er ég birti árið 1996 ásamt öðrum rannsókn á fátækt á tímabilinu 1986 til 1995 lenti ég t.d. í mikilli ónáð hjá Davíð og stuðningsmönnum hans. Þeir eru enn að fárast yfir því sem sagt var um ástandið þá, þó það væri allt mjög mildilega orðað og raunar ekki óþægilegar niðurstöður fyrir stjórnvöld.

Fátækt var bannorð hjá Davíð og hans mönnum. Var það til marks um afstöðu með alþýðu manna eða fátækum? Nei, öðru nær!

Pólitík í þágu yfirstéttar

Var Davíð gegn þeim sem vildu fá gæðin fyrirhafnarlaust upp í hendurnar í krafti auðs? Nei, öðru nær!

Stjórnarstefna Davíðs frá 1995 til 2004 einkenndist af síauknum skattfríðindum til hátekjufólks um leið og skattbyrði lágtekjufólks var aukin. Skattar vinnandi alþýðufólks voru hækkaðir en skattar iðjulítilla fjárfesta og braskara voru stórlega lækkaðir.

Barnabætur voru einnig lækkaðar ár frá ári eftir 1995. Vaxtabætur vegna húsnæðiskostnaðar sömuleiðis. Stefna og framkvæmd ríkisstjórna Davíðs Oddsonar frá 1995 til 2004 var að stærstum hluta í þágu yfirstéttarfólks en íþyngdi lágtekjufólki, hinni vinnandi alþýðu, þar á meðal ungu barnafólki og lífeyrisþegum.

Hannes Hólmsteinn sagði á sínum tíma að þetta væri eðlilegt, því að lágtekjufólkið hefði orðið “aflögufærara”. Hátekjufólkið sem fékk þó margfalt meiri tekjuaukningu en fólk með milli og lægri tekjur varð hins vegar ekki “aflögufærara” í huga Hannesar, þó ríkidæmi þess væri orðið meira en áður hafði sést í landinu! Nei, það þurfti skattalækkanir og aukið frelsi til að flytja fé í erlend skattaskjól – sem það fékk frá stjórn Davíðs.

Mesta framfaraskeið Íslandssögunnar?

Loks segir Hannes: “Tímabilið frá 1991 til 2004, þegar Davíð Oddsson var forsætisráðherra, er eitthvert mesta framfaraskeið Íslandssögunnar.” Þetta er því miður eins rangt og nokkuð getur verið!

Í byrjun árs 2003 var hinni misheppnuðu einkavæðingu bankanna lokið og í lok árs 2004 var íslenska þjóðarbúið orðið það skuldugasta í heimi (sjá bls. 74)! Það varðaði leiðina að hruni. Voru það framfarir?

Tölur Hagstofu Íslands um hagvöxt og aukningu ráðstöfunartekna heimilanna, sýna að auki að stjórnartími Davíðs (1991 til 2004) var frekar slakur í samanburði við t.d. tímabilið frá 1960 til 1987. Árlegur hagvöxtur og raunaukning ráðstöfunartekna heimila var talsvert meiri frá 1960 til 1987 en á stjórnartíma Davíðs (sjá hér).

Staðreyndirnar benda þannig ekki til þess að stjórnartími Davíðs hafi verið mesta framfaraskeið Íslandssögunnar. Öðru nær.

Eigum við ekki heldur að hafa það sem sannara reynist?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar