Fimmtudagur 29.11.2012 - 22:13 - FB ummæli ()

Bítlarnir – George og Ringo hættu fyrst!

Margir halda að það hafi verið John Lennon sem hætti fyrstur í Bítlunum – og þá vegna áhrifa frá Yoko frauku sinni. Það hélt ég líka.

En það var ekki svo.

Hér má heyra viðtal Howard Smiths við John og Yoko þar sem þau tala um hvernig Bítlarnir leystust upp. Viðtalið var tekið 1972 og er neðst á síðunni.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 28.11.2012 - 09:47 - FB ummæli ()

Skattstjóri afhjúpar atvinnurekendur

Í vikunni birti Indriði H. Þorláksson, fyrrverandi ríkisskattstjóri, athyglisverða og mikilvæga grein um skattamál í Fréttablaðinu. Þar flettir hann ofanaf blekkingum sem Samtök atvinnulífsins (SA) settu fram í nýlegri skýrslu.

Boðskapur SA var sá að skattar á fyrirtæki og aðra hafi hækkað mikið og þeir kynntu svo hugmyndir sínar um æskilegar skattalækkanir á næstu árum.

Indriði sýnir að útreikningar SA um aukna skattheimtu standast enga skoðun og að hugmyndir þeirra um skattalækkanir eru einfaldlega krafa um aukin forréttindi til hátekju- og stóreignafólks – þ.e. til þeirra sjálfra.

Misræmi er á tölum SA um álagningu skatta og rauntölum ríkisreiknings fyrri ára og tölum fjárlaga fyrir næsta ár. Indriði segir SA áætla sínar tölur með röngum hætti og því verði þær fjarri veruleikanum.

  • Ég hef áður sýnt að skattbyrði fyrirtækja og fjármagnseigenda er enn með því minnsta sem þekkist meðal OECD-ríkja, þrátt fyrir hóflega hækkun álagningar eftir hrun (sjá hér og hér).
  • Indriði bendir á að skattbyrði sumra hafi hækkað en annarra lækkað. Ég hef einnig sýnt hvernig raunverulega greiddir skattar hærri tekjuhópa hækkuðu um leið og skattbyrði lægri tekjuhópa lækkaði frá 2007 til 2010 (sjá hér, kafla IV).

Það athyglisverðasta í grein Indriða er þegar hann sýnir hvað felst í hugmyndum SA um skattalækkanir á næstu árum. Ég hef niðurstöðu Indriða orðrðétta eftir honum:

“Framangreindar tillögur SA fela í sér 30 mia. kr. lækkun á sköttum. Yfir 20 mia. kr. rynnu til þeirra 5% skattgreiðenda sem hæstar tekjur hafa og allt að 27 mia. kr. til um 30% tekjuhæstu skattgreiðenda. Þeir 3 mia. kr., sem eftir eru myndu deilast á þá sem eftir eru.

Tillögur SA miða að því að færa þeim sem nutu forréttinda í skattamálum í aðdraganda hrunsins þá stöðu aftur. Með breytingum síðustu ára var sköttum á þennan hóp þokað frá “vinnukonuútsvari” upp í meðalskatthlutfall launamanna. Því vill SA breyta og færa þeim með blómvendi 30 milljarða króna á hverju ári, sem almenningur myndi taka á sig með hærri sköttum eða frekari skerðingu á opinberri þjónustu.”

Atvinnurekendur eru sem sagt að leggja til sérstakar skattalækkanir á ríkustu atvinnurekendur og fjármálamenn, en ekki á almenning! Þetta er eins og hjá róttækustu Repúblikönum í Bandaríkjunum.

Enginn getur véfengt útreikninga fyrrverandi ríkisskattstjóra. Talsmaður SA, Halldór Árnason, svarar grein Indriða í FB í gær, með upphrópunum einum – en engum efnislegum aðfinnslum (sjá svar Indriða til Halldórs). Niðurstaða Indriða stendur óhögguð.

Allir Íslendingar vilja atvinnulífinu vel.

Það er hins vegar alger óþarfi að íslenskir atvinnurekendur og fjármálamenn njóti skattfríðinda langt umfram það sem almennt er á Vesturlöndum.

 

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 26.11.2012 - 21:10 - FB ummæli ()

Hverju breytir Hanna Birna?

“Ákall um breytingar”, sögðu menn er niðurstaða prófkjörs Sjálfstæðisflokksins lá fyrir, með sigri Hönnu Birnu Kristjánsdóttur í fyrsta sæti.

En hvað ætti að breytast? Er Hanna Birna með aðra stefnu eða áherslur en tíðkast hafa frá því nýfrjálshyggjan hélt innreið sína í Valhöll?

Nei, ekki hefur örlað á því. Raunar er hún alin upp, innvígð og innmúruð af Kjartani Gunnarssyni á Davíðs-tímanum.

Helsta einkennið á stjórnmálaferli Hönnu Birnu er vélbyssutalandi frekar en vel ígrundaður og hraustlegur boðskapur. Hún er ekki einu sinni fulltrúi gamla Sjálfstæðisflokksins sem þóttist stundum vera hófsamur velferðarflokkur er vildi að stétt stæði með stétt.

Andrés Magnússon blaðamaður sagði t.d. eftirfarandi í fréttaskýringu á Eyjunni á sunnudag:

“…þrátt fyrir að Hanna Birna hafi verið þetta lengi í pólitík þá virðist enginn vita fyrir hvað hún stendur, svona í pólitísku tilliti. Yfirlýsingar hennar um stjórnmál eru flestar mjög almenns eðlis og hún lætur yfirleitt ekki þröngva sér til svars um umdeild álitamál.”

Hanna Birna sagði í aðdraganda síðustu borgarstjórnarkosninga að Orkuveita Reykjavíkur stæði vel og gæti greitt borginni arð án þess að hækka þyrfti notendagjöldin. Veruleikinn var hins vegar sá, að Orkuveitan rambaði á barmi risagjaldþrots og alls óvíst var þá hvort borgin gæti bjargað henni.

Hanna Birna var borgarstjóri þegar þetta var – og borgarbúar höfnuðu henni í kosningunum í kjölfarið! Kusu frekar Jón Gnarr og félaga…

Í dag sagðist hún þó vilja hætta samningaviðræðum við Evrópusambandið. Hún vill sem sagt banna þjóðinni að kanna til hlítar hvað gæti falist í öðrum af tveimur helstu valkostum þjóðarinnar í gjaldmiðilsmálum, sem Seðlabankinn hefur skilgreint.

Það er afgerandi afstaða, en er það þó ekki fyrst og fremst heimskuleg afstaða, sem sæmir öfgamönnum eða blindum þjónum útgerðarmanna?

Og svo tilkynnti hún líka í dag að hún færi ekki fram gegn Bjarna Benediktssyni formanni á næsta landsfundi. Þar fór það líka!

Hugmyndin um að Hanna Birna breyti einhverju sem máli skiptir, til að gera Sjálfstæðisflokkinn meira stjórntækan, virðist byggja á því að hún gæti verið ný forsíðumynd, flekklaus af skuldavafningum braskáranna sem svo margir Sjálfstæðismenn tóku þátt í.

Hún gæti verið gagnlegt ímyndarskjól fyrir braskarana sem að baki búa – og öllu ráða.

Hanna Birna breytir því litlu sem engu í Sjálfstæðisflokknum.

 

 

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 24.11.2012 - 12:24 - FB ummæli ()

Saga kaupmáttarins eftir hrun

Það alvarlegasta við hrunið 2008 er einkum tvennt: mjög mikil kaupmáttarrýrnun heimilanna og aukin skuldabyrði þjóðarbúsins (heimila, ríkis og fyrirtækja).

Mikið gengisfall krónunnar var  helsta orsök þessa. Gengi krónunnar var byrjað að lækka undir lok árs 2007 en lækkaði svo mikið á fyrstu mánuðum ársins 2008, alveg fram á vor.

Síðan kom annað stórhrun krónunnar beint í kjölfar hruns bankanna í október og út árið – og reyndar inn á árið 2009.

Kaupmáttur launanna fylgdi með, eins og sjá má á þessari skýringarmynd (Heimild: Hagstofa Íslands).

Þegar núverandi ríkisstjórn tók við í sumarbyrjun 2009 var hrun kaupmáttarins að mestu komið fram, en náði þó botni vorið 2010.

Það eru fyrst og fremst gengi krónunnnar og svo kjarasamningar sem skýra þróun kaupmáttar launa. Myndin sýnir glögglega hvernig kjarasamningar vorið 2010 og 2011 fleyta kaupmættinum upp á ný. Nú síðustu mánuði hefur hann verið að gefa lítillega eftir.

Kjaraskerðing heimilanna var þó meiri en hér er sýnt (um 28% að meðaltali; minna í lægri tekjuhópum en meira hjá þeim tekjuhærri – sjá hér). Til viðbótar minni kaupmætti launa kom aukin skuldabyrði lána, minni yfirvinna og aukið atvinnuleysi, auk tap fríðinda og jafnvel launalækkun, eins og í opinbera geiranum. Hækkun vaxtabóta vóg á móti þessu fyrir skuldug heimili.

Eftir ágætan hagvöxt bæði 2011 og nú 2012, samhliða góðri hagvaxtarspá fyrir næstu ár, er brýnt að koma kaupmættinum upp aftur.

Boltinn er hjá aðilum vinnumarkaðarins.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 23.11.2012 - 11:22 - FB ummæli ()

Báknið skreppur saman

Því er oft haldið fram í opinberri umræðu að ríkið sé sífellt að stækka. Báknið blási út.

En hvað segja gögn Hagstofu Íslands um það?

Staðreyndirnar segja að starfsmönnum í opinberri stjórnsýslu hefur fækkað úr 9600 árið 2008 niður í 7200 árið 2011. Það er mikil fækkun.

Á myndinni má sjá starfsmenn í opinberri stjórnsýslu sem hlutfall af heildarfjölda starfandi fólks í landinu. Þeim fækkaði úr 5,5% í 4,3%. Það þýðir að fækkun stjórnsýslufólks hefur verið markvert meiri en almenn fækkun starfa í kreppunni.

Stjórnsýsluyfirbygging ríkisins hefur sem sagt minnkað um nærri 20% eftir hrun, bæði hjá ríki og sveitarfélögum. Þrátt fyrir að verkefnin hafi stóraukist. Stöðugildum hjá ríkinu í heild hefur líka fækkað, en þó ekki jafn mikið og í yfirbyggingunni.

Allt er öfugt nú á tímum.

Hægri menn segjast vilja minnka ríkisvaldið, eða báknið, eins og þeir kalla það. Það hafa þeir ekki gert að neinu marki á síðustu árum. Raunar stækkaði stjórnsýslan á valdatíma þeirra frá 1995 til 2008.

Vinstri stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar hefur hins stórminnkað báknið í kreppunni.

Það eru tíðindi út af fyrir sig.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 20.11.2012 - 22:47 - FB ummæli ()

Pólitík í þágu efnafólks

Frjálshyggju-hugveita Hannesar Hólmsteins (www.rnh.is) og Skafti Harðarson, róttækur frjálshyggjumaður í Reykjavík, buðu til fundar í Háskóla Íslands sl. föstudag. Fundarefnið var skattastefna.

Þetta væri ekki í frásögu færandi nema vegna þess hver frummælandi fundarins var. Hann kom frá Cato hugveitunni í Bandaríkjunum og mælti sérstaklega með lækkun skatta á hátekjufólk, fjárfesta og fyrirtækjaeigendur.

Cato hugveitan er áróðursmiðlun sem fjármögnuð er af auðmönnum. Starfsmenn hennar boða róttæka hægri pólitík sem þjónar hagsmunum auðmanna. Þeir berjast einnig gegn opinbera velferðarkerfinu, sem þeir kalla “skrímsli”. Margar slíkar áróðursveitur eru í Bandaríkjunum og hafa þær haft nokkur áhrif á þjóðmálastefnuna þar í landi.

Þegar sagt er að íslenskir hægri menn sæki hugmyndir sínar til hinna róttækustu hægri manna í Bandaríkjunum, er einmitt verið að vísa í talsmenn fyrirbæra eins og Cato Institute. Aðrar slíkar áróðursveitur sem sótt er til eru t.d. Frazer Institute, Heritage Foundation, AEI – auk talsmanna Teboðshreyfingarinnar.

Hannes Hólmsteinn og félagar standa í vetur fyrir innflutningi fjölda slíkra áróðursmanna. Virðast þeir telja þörf á að skerpa á hægri öfgunum í Sjálfstæðisflokknum á kosningaári.

Þessir aðilar höfðu mikil og vaxandi áhrif á Íslandi á áratugnum fram að hruni og náðu því m.a. að innleiða hér á landi skattfríðindi fyrir hátekjufólk, stóreignafólk og fyrirtækjaeigendur sem ekki áttu sér fordæmi á Vesturlöndum.

Ísland var orðið að skattaparadís fyrir efnafólk, um leið og skattbyrði lægri tekjuhópa var aukin. Þetta var pólitík í þágu efnafólks.

Gamla kjörorð Sjálfstæðisflokksins, “stétt-með-stétt”, varð þar með úrelt!

Eftir hrun var gerð breyting á skattastefnunni, með hóflega auknum álögum á hærri tekjuhópa, stóreignafólk, fjármagnstekjur og fyrirtæki, sem færði skattbyrðina nær því sem algengast er á Vesturlöndum.

Nú er hins vegar í fullum gangi barátta fyrir því að afnema þær breytingar. Sjálfstæðismenn lofa því í gríð og erg að þeir muni láta breytingarnar sem vinstri stjórnin gerði ganga til baka ef þeir komast til valda. Þeir boða flatan tekjuskatt án þeirra frádráttarliða sem nú tíðkast, samkvæmt formúlu Cato áróðursveitunnar.

Stefna Cato og nýfrjálshyggjumanna mun létta sköttum af yfirstéttinni en stórauka byrðar lægri tekjuhópa, líkt og gerðist á Davíðs-tímanum. Ég hef áður sýnt hvernig slík breyting yrði í framkvæmd nú (sjá hér). Næst virðist eiga að ganga enn lengra en áður var gert.

Skattar ellilífeyrisþega, ungra barnafjölskyldna, öryrkja og lágtekjufólks á vinnumarkaði munu stórhækka, verði þessar hugmyndir að veruleika. Einnig skattar millitekjufólks.

Samhliða slíkum skattabreytingum er boðaður mikill niðurskurður opinberra velferðarútgjalda, sem mun bitna harkalega á venjulegum fjölskyldum.

Þetta er róttæk hægri pólitík í anda Cato áróðursveitunnar bandarísku.

Pólitík í þágu efnafólks.

Það er sú pólitík sem Sjálfstæðisflokkurinn rak fram að hruni. Þeir virðast ætla að bjóða áfram upp á sama prógram, komist þeir til valda í vor.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 19.11.2012 - 16:26 - FB ummæli ()

Orðhvatur Sighvatur

Sá ágæti maður Sighvatur Björgvinsson fór afvega í kynslóðastríði sínu um daginn.

Í fyrsta lagi er ófært að alhæfa um heila kynslóð eins og Sighvatur gerði, enda hefur hann dregið það að hluta til baka.

Í öðru lagi þá hefur fólk á aldrinum 25-40 ára lögmætt tilefni til að bera sig verr en aðrir vegna skuldavanda. Ástæða þess er sú, að margir úr þessum aldurshópum keyptu íbúðarhúsnæði á árunum eftir 2004, á uppsprengdu verði og þurftu því að taka á sig meiri skuldir en áður hafði tíðkast hér á landi, jafnvel þó húsnæðið væri hóflegt.

Þau voru því í meiri áhættu en aðrir hafa verið. Hrunið kom verr við þau, eins og fram kemur í skýrslu Þjóðmálastofnunar HÍ um áhrif hrunsins á lífskjör þjóðarinnar (sjá hér). Skuldavandi þeirra og eiginfjárstaða er verri en hjá öðrum aldurshópum.

Stjórnvöld hafa að vísu gert meira til að létta undir með þessum hópum en gert var t.d. á misgengisárunum 1983-5, með skuldaúrræðum og verulegri hækkun vaxtabóta. Stærð gengisfellingarinnar og kreppunnar er hins vegar alvarlegri nú og íþyngir þessu fólki verulega. Hækkun barnabóta á næsta ári hjálpar til, en án kauphækkana verður staðan áfram erfið.

ASÍ ætti kanski að hugleiða hvað hægt er að gera þar á bæ til að létta á vandanum. Má nokkuð ræða kauphækkun?

Það er heldur ekki fallegt af Sighvati að ráðast að okkur íbúum bloggheima og tala niður til okkar. Ekki eru allir sem þar skrifa jafn orðhvatir og Sighvatur. Eitt er líka skrif pistlahöfunda og annað framlag þeirra sem skrifa í umsagnardálkana.

Lexían er líklega sú, að menn skyldu draga andann djúpt og gæta vel að staðeyndum og sanngirni áður en öxin er reidd á loft.

Stóru orðin og belgingurinn bæta ekki umræðuna – ekki heldur hjá hinum orðhvata Sighvata!

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 18.11.2012 - 10:52 - FB ummæli ()

Opinber útgjöld – hæst í heimi?

Nokkrir aðilar hafa fullyrt að skattbyrði á Íslandi sé sú hæsta í heimi. Slíkar fyllyrðingar standast þó enga staðreyndaskoðun (sjá hér).

En ef þær væru réttar mætti búast við að Íslendingar væru nú með ein hæstu opinberu útgjöld í heimi – eða væru ella að greiða stórlega niður skuldir ríkisins.

Hvað segja staðreyndirnar um þetta?

Myndin hér að neðan sýnir samanburð milli OECD-ríkja á heildarútgjöldum hins opinbera (ríki og sveitarfélög samanlögð), sem hlutfall af landsframleiðslu árið 2011. Þetta eru nýjustu tölur frá OECD.

Ísland er í miðju hópsins, en ekki á toppi. Fimmtán ríki eru með meiri útgjöld en við og önnur fimmtán með minni útgjöld.

Það er því fjarri lagi að Íslendingar séu með hæstu opinberu útgjöld í heimi. Við erum í miðjunni. Skatttekjurnar 2011 voru að auki lægri en útgjöldin, enda um 4% halli á opinberum búskap og skuldir auknar sem því nam.

Útgjöldin höfðu sveiflast í kringum 42% áratuginn fram að hruni. Á árinu 2008 ruku þau upp í 57%, vegna gjaldþrots Seðlabankans og annars beins kostnaðar við hrunið sem féll til á því ári.

Frá því núverandi ríkisstjórn tók við völdum hafa opinberu útgjöldin lækkað úr 57% af landsframleiðslu niður í 46% árið 2011.

OECD spáir því að opinberu útgjöldin á Íslandi verði komin niður í um 43% á næsta ári, sem er ekki fjarri langtíma meðaltalinu frá um 1990.

Þeir sem fullyrða að skattbyrði Íslendinga sé ein sú hæsta í heimi vaða þannig í reyk, hvort sem það er vísvitandi eða vegna misskilnings.

Tölum um skatttekjur og útgjöld hins opinbera ber saman. Ísland er hvorki með hæstu skattbyrði né mestu útgjöld vestrænna ríkja.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 16.11.2012 - 16:13 - FB ummæli ()

Sterkasti leikur Samfylkingarinnar

Forystumál Samfylkingarinnar eru talsvert spennandi fyrir áhugamenn um stjórnmál.

Áður en Jóhanna Sigurðardóttir ákvað að hætta í stjórnmálum fannst mér augljóst að það væri sterk staða fyrir Samfylkinguna að hafa hana áfram í forystu í næstu kosningum.

En hún kaus að hætta.

Árni Páll Árnason hefur þegar gefið kost á sér. Hann gæti án efa orðið ágætur formaður og látið mikið að sér kveða. Fleiri gætu þó blandað sér í baráttuna, enda ágætt mannaval í fylkingunni.

Að öðrum ólöstuðum held ég þó að lang sterkasti leikur Samfylkingarinnar í stöðunni sé sá, að fá Össur Skarphéðinsson til að gefa kost á sér. Það er óumdeilt að Össur, með sína miklu reynslu og persónutöfra, er einn af örfáum einstaklingum í stjórnmálunum um þessar mundir sem ná því að hafa ímynd landsföður. Hann er mannasættir og í fyrri formennskutíð hans reis fylgi Samfylkingarinnar hæst.

Ungt fólk og kraftmikið er auðvitað mikilvægt í liðsheildinni en reynsla og leiðtogahæfileikar byggjast upp, þroskast og eflast á löngum tíma.

Stuðningsmenn Össurar lýsa honum svona: “Össur sameinar helstu kosti  góðs leiðtoga; hann er hugmyndaríkur og skapandi stjórnmálamaður og sérlega samningslipur… Hann er snjall ræðumaður og hlýr félagi. Hann sýnir í verkum sínum samúð og samstöðu með þeim sem höllum fæti standa og er réttsýnn og sanngjarn við andstæðinga jafnt sem samherja.”

Það er óhemju mikilvægt fyrir stjórnmálaflokk að geta nýtt sér hæfileika þeirra sem hafa framúrskarandi leiðtogahæfileika. Með Össur sem formann hygg ég að Samfylkingin myndi hafa ákveðna yfirburði yfir hina flokkana í næstu kosningum.

Nú veit ég að Össur ágirnist ekki formannsstöðuna. Það gerði Jóhanna heldur ekki.

Almennt er betra að fólk taki að sér slík hlutverk af skyldurækni við hugsjónir og þjóð sína frekar en af persónulegum metnaði.

Samfylkingarfólk hlýtur því að veita Össuri góða kosningu í prófkjöri og leggja síðan hart að honum að gefa kost á sér til formennsku.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 15.11.2012 - 09:18 - FB ummæli ()

Jakinn snýr aftur!

Ég fór á fund Hagsmunasamtaka heimilanna um verðtrygginguna í Háskólabíói í gærkvöldi. Vildi fá botn í hvað væri á seyði.

Ég skildi satt að segja lítið í viðamikilli auglýsingaherferð sem samtökin höfðu keyrt í viku fyrir fundinn, með gríðarlegum tilkostnaði. Mér fannst þetta því nokkuð spennandi. Bjóst við nýjum uppljómunum um verðtrygginguna og skuldavandann, en það var ekki á boðstólum.

Pétur Blöndal var fyrstur fyrirlesara og sagði að hann hefði verið beðinn um að verja verðtrygginguna, en kvaðst ekki geta það því hann væri á móti henni.

Í lok fundarins var svo borin upp tillaga um að ríkisstjórnin beitti sér fyrir afnámi verðtryggingar. Flestir fundarmanna voru því hlyntir.

Einn var andvígur og vildi halda í verðtrygginguna: Pétur Blöndal!

Það var annars þungt í fundarmönnum og augljóst að skuldavandinn liggur enn eins og mara á þjóðinni. Því miður var umræðan um verðtrygginguna ekki uppbyggileg né líkleg til að leiða til lausna. Enda getur ríkið ekki borgað umtalsverða niðurfellingu skulda og lítið er um fé-án-hirðis sem hægt er að grípa til, eins og fyrir hrun.

Steingrímur J. Sigfússon var fulltrúi raunsæisins en reifaði þó athyglisverða hugmynd um breytta vísitölutengingu lána við laun og verðlag í senn – heimilunum til hagsbóta. Einn fundargesta lagði til að Íbúðalánasjóður leigði út þær tvö þúsund íbúðir sem hann á og standa tómar. Enginn skilur hvers vegna það er ekki löngu búið og gert…

Það sem vakti þó mesta athygli mína var frammistaða Vilhjálms Birgissonar, verkalýðsleiðtoga af Akranesi. Hann er sjálfur kominn í mál við verðtrygginguna og talar um vandann og aðgerðarleysi ASÍ forystunnar á mannamáli, með djúpum þunga sem minnir á Guðmund Jaka, fyrrverandi formann verkamannafélagsins Dagsbrúnar.

Verkalýðsleiðtogi getur varla náð lengra en að líkjast Guðmundi Jaka. Og Vilhjálmi var vel tekið í bíóinu. Fólk stóð á fætur og klappaði þegar hann brýndi raustina.

Vilhjálmur er verkalýðsleiðtogi af gamla skólanum. Honum finnst að kaupið eigi að vera hærra, skuldir heimilanna viðráðanlegar og vinnukjörin betri – og hann veit hverjir bera ábyrgð á því að svo er ekki. Lætur í sér heyra.

Það er nostalgía sem fylgir því að sjá svona alvöru verkalýðsleiðtoga nú á dögum. Raunar er það fátíð sjón. Verkalýðshreyfingin er almennt hætt að hugsa um kauphækkanir og styttingu vinnutíma.

Hún er í staðinn orðin að eins konar gæslustofnun lífeyrissjóða. Verkalýðsleiðtogarnir hugsa nú eins og fjárfestar og þykjast vera miklir hagfræðingar. Svo hnýta þeir annað slagið í ríkisstjórnina út af aukaatriðum í samningum og væna hana um svik, einkum þegar atvinnurekendur veifa bláu höndinni.

Salurinn í Háskólabíói var á bandi Vilhjálms Jaka í gærkveldi.

Kanski hans tími sé kominn…

 

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 13.11.2012 - 12:31 - FB ummæli ()

Nýtt leikrit: Hipparnir í Hálsaskógi

Um daginn greindi ég frá því að Félag frjálshyggjumanna á Íslandi hefur átt í miklum ímyndavanda eftir hrun. Félagsmenn eru á örvæntingarfullum flótta undan fortíð sinni.

Þeir kynna sig nú sem eins konar hippahreyfingu. Segjast vera hinir einu sönnu friðarsinnar. Allir aðrir eru ofbeldisseggir, segja þeir.

Gunnlaugur Jónsson hefur farið fyrir þessari miklu endurskoðun á hugmyndafræði frjálshyggjunnar.

Gunnlaugur hefur til dæmis útfært nýja útgáfu af afskiptaleysisstefnu frjálshyggjunnar í anda innhverfrar íhugunar austurlenskra gúrú-manna, í bland við hugmyndafræði hippanna í Kaliforníu. Nægjusemi, ást, friður og umburðarlyndi eru ný kjörorð frjálshyggjunnar á Íslandi.

Þetta þykir frumleg heimspeki hjá Gunnlaugi, enda afskiptaleysisstefna frjálshyggjunnar áður þekkt fyrir allt sem er andstætt þessu: miskunnarleysi markaðarins, fégræðgi og heiftarlega einstaklingshyggju, eins og Ayn Rand boðaði.

Nú nýlega bætti Gunnlaugur um betur og sýndi á snjallan hátt hvernig norska leikritaskáldið Thorbjörn Egner er hinn vænsti frjálshyggjumaður – eða þannig. Raunar segir Gunnlaugur að Thorbjörn Egner sé helsti heimspekingur Norðmanna – fyrr og síðar. Grein sína kallar Gunnlaugur réttilega „Sannleikurinn er öfugur“!

Það vafðist nokkuð fyrir pistlahöfundi að skilja samhengið í þessari nýju kenningu Gunnlaugs, en hér eru nokkrar setningar frá honum sem ættu að skýra sig sjálfar:

“…frjálshyggjan byggist á andstöðu við ofbeldi að fyrra bragði. Þetta má útskýra með tilvísun til norskrar heimspeki. Frelsi Mikka refs til að borða hin dýrin í skóginum er ekki það frelsi sem frjálshyggjumenn styðja. Við styðjum þvert á móti frelsi Lilla klifurmúsar frá því að vera étinn. Þessu prinsippi beitum við bæði á einstaklinga og ríki. Ríkið má ekki heldur gera það sem Mikki refur má ekki.”

Þetta er athyglisvert! Klassískir frjálshyggjumenn, eins og Herbert Spencer og Milton Friedman, sögðu að lífið væri lífsbarátta í frumskógi, þar sem hver ætti að bjarga sér sjálfur. Þeir hæfustu, gráðugustu og duglegustu myndu lifa (e: survival of the fittest). Samkvæmt þessu hafði Mikki refur fullan rétt til að éta upp þá sem slappari eru, líkt og kapítalistar gera á markaði.

Ekki lengur, segir Gunnlaugur frjálshyggjumaður nýja tímans. Nú standa frjálshyggjumenn með lítilmagnanum. Spurningin er þá hvort framvegis verði nokkur þörf fyrir jafnaðarmenn vöggustofusamfélagsins, eins og tíðkast í Skandinavíu?!

Það verður þó að segjast að þrátt fyrir góðan vilja og ást á mannkyninu, þá á Gunnlaugur enn eftir að vinna þessari nýju frjálshyggju fylgi í ranni kapítalistanna. Aðrir myndu segja, að eitt sé ný ímynd frjálshyggjumanna og hitt að þeir fari eftir því sem þeir segja. Þeir séu snjallir auglýsingamenn og ímyndasmiðir, með lygina að helsta vopni.

Illkvittnir fræðimenn hafa til dæmis bent á, að gráðugir fjáraflamenn frjálshyggjunnar hafi étið upp allt fé þjóðarinnar á árunum fram að hruni, í anda Mikka refs, og sett með því þjóðarbúið á hausinn. Þeir sögðust hafa leyfi til að græða á daginn og grilla þjóðina á kvöldin!

„Ég á’etta – ég má’etta“, var kjörorðið.

Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið samþykktu það og sögðu í anda frjálshyggjunnar að það væri ofbeldi að banna þessum góðu mönnum að græða svona mikið og grilla á eftir. Auk þess hefðu þeir eignarrétt á aflafeng sínum. Þess vegna létu þeir það afskiptalaust að þjóðinni væri drekkt í skuldum – og því fór sem fór.

Það var hins vegar grímulaust ofbeldi þegar ríkisvald heilagrar Jóhönnu fór að endurreisa þjóðarbúið, eins og eitthvað hefði hrunið! Hið “svokallaða hrun” var bara réttlæting fyrir þjóðnýtingu banka og fyrirtækja og skattahækkun á grillmeistara landsins – að hætti vinstri villinga. Vart er hægt að hugsa sér meira ofbeldi. Þetta segir hin nýja frjálshyggja Lao-Tze og hippanna í Hálsaskógi.

Gunnlaugur er að vísu ekki enn búinn að greina hið mikla verk Kardemommubæinn, sem einnig er eftir heimspekinginn Thorbjörn Egner. Þar segir af skondnum ræningjum sem lögðu hald á eigur borgaranna í skjóli nætur –og lifðu af því góðu lífi. Höfðu ljón sér til varnar.

Sumir kynnu að láta sér detta í hug að þetta væri framferði sem einkenndi skjólstæðinga frjálshyggjunnar fyrir hrun. Margir frjálshyggjumenn voru einnig á kafi í skuldsettu braski og gripdeildaræði.

Ræningjarnir í Kardemommubæ héldu uppteknum hætti uns Soffía frænka kom í heimsókn, rændi þá frelsinu og kom þeim fyrir í tugthúsi. Síðan sá Soffía til þess að ræningjarnir voru siðaðir upp á nýtt og gerðir að nýtum borgurum, með endurhæfingu. Einn varð bakari, annar slökkviliðsmaður og sá þrijði starfaði við almannaþjónustu í turninum hans Tobba, ef ég man rétt. Allir bæjarbúar lifðu svo hamingjusamlega um ókomna tíð.

Skruggukerlingin Soffía er þarna í hlutverki ríkisvaldsins, sem hugsar um hag borgaranna allra og lagar það sem miður fer. Stöðvar rányrkju, endurhæfir óknyttamenn og veitir borgurunum öryggi.

Nú myndi Gunnlaugur að vísu kalla hegðun Soffíu frænku ofbeldi, í anda frjálshyggjunnar. Það verður því spennandi að sjá hvernig Gunnlaugur snýr þessu verki Torbjörns Egners yfir á málfar frjálshyggju-hippanna.

Styður hann frelsi ræningjanna eða ofbeldi Soffíu frænku?

Eða segir hann einfaldlega að allir eigi að elska alla – og þá verði allt sjálfkrafa í góðu lagi…

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 12.11.2012 - 11:04 - FB ummæli ()

Ragnheiður Ríkharðsdóttir sigrar í Kraganum

Menn hafa sagt ýmislegt um úrslit prófkjörs Sjálfstæðisflokksins í Kraganum um helgina.

Fróðlegt var að sjá hversu dræm kosningaþátttakan var í þessu kjördæmi, sem lengi hefur verið sterkt vígi Sjálfstæðisflokksins. Sjálfstæðismenn sögðu að 50% þátttaka í þjóðaratkvæðagreiðslunni um nýju stjórnarskrána væri lítil þátttaka og vildu hafna niðurstöðunni á þeirri forsendu. Nú þurfa þeir að sætta sig við 34% á eigin vettvangi!

Hvað útkomu einstakra frambjóðenda varðar fannst mér athyglisverðast hversu góða kosningu Ragnheiður Ríkharðsdóttir hlaut. Hún var með hæst hlutfall greiddra atkvæða í eitthvert sæti á listanum – og endaði í öðru sæti á eftir formanninum. Hún hafði þannig víðtækastan stuðning frambjóðendanna.

Þetta er sérstaklega athyglisvert vegna þess að Ragnheiður hefur verið jákvæð gagnvart því að þjóðin klári aðildarviðræður við ESB og sjái svart á hvítu hvaða hag við gætum haft af aðild. Ráðandi öfl í flokknum hafa hins vegar viljað draga umsóknina til baka án niðurstöðu og loka þar með á annan af tveimur helstu valkostum þjóðarinnar í gjaldmiðilsmálum.

Ragnheiður hefur að sumu leyti verið hófsamari og skynsamari í afstöðu en frjálshyggjuöflin í flokknum. Hún er nær miðjunni.

Mér segir svo hugur að ef Sjálfstæðisflokkurinn allur væri meira eins og Ragnheiður og minna eins og Hannes Hólmsteinn og Davíð Oddsson þá gengi flokknum almennt betur.

Þjóðinni myndi líka stafa minni hætta af Sjálfstæðisflokknum þannig skipuðum en reyndist vera á árunum fram að hruni, þegar hann gerðist handbendi fjárplógsmanna og braskara sem settu þjóðina á hausinn.

Kanski boðar góð kosning Ragnheiðar Ríkharðsdóttur hófsamari afstöðu í Sjálfstæðisflokknum á komandi misserum.

Það væri betra fyrir þjóðina – en verra fyrir auðmennina í flokknum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 10.11.2012 - 18:19 - FB ummæli ()

Spiegel: Hnignun Bandaríkjanna

Bandaríkin voru lengst af land tækifæranna og öflugt nýsköpunarsamfélag, með góð og ört batnandi lífskjör fyrir almenning. Þau voru samfélag þar sem alþýðan gat flutt sig í vaxandi mæli upp í millistétt og komist til ágætra bjargálna. Ameríski draumurinn var raunverulegur fyrir marga.

Bandaríkin voru þannig að mörgu leyti leiðarljós framþróunar.

Á þessu hefur orðið breyting á síðustu þremur áratugum.

Ameríski draumurinn á nú meiri möguleika á að rætast í norrænu velferðarríkjunum, Kanada, eða í sumum hagsælli ríkjunum á meginlandi Evrópu, samkvæmt nýjum rannsóknum.

Hagur bandarísku millistéttarinnar hefur staðið því sem næst í stað frá um 1980 um leið og hagur ofurríkrar yfirstéttar hefur blómstrað sem aldrei fyrr. Fátækir hafa dregist afturúr, þrátt fyrir ágætan hagvöxt á tímabilinu.

Ójöfnuður hefur stóraukist á þessum tíma, með því að hagvöxturinn hefur að mestu leyti runnið til yfirstéttarinnar. Þetta er meðal annars boðskapur nýrrar bókar eftir Nóbelsverðlaunahagfræðinginn Joseph E. Stiglitz, The Prize of Inequality.

Kunningi minn sem lærði í Bandaríkjunum fyrir um 20 árum snéri aftur á slóðir skólaáranna fyrir skömmu. Hann var sleginn yfir því hve mikil afturför hafði orðið þar á mörgum sviðum. Sérstaklega nefndi hann hversu samgöngumannvirki og opinber rými ýmis konar höfðu látið á sjá.

Tímaritið Spiegel gerði hnignun Bandaríkjanna að umtalsefni nýlega í ítarlegri grein (sjá hér og hér og hér).

Sérstaklega fjallar tímaritið um veika stöðu ríkisvaldsins í Bandaríkjum nútímans.

Stormurinn Sandy sem skall á New York svæðið fyrir skömmu dró þennan veikleika að mörgu leyti upp á yfirborðið, líkt og gerðist þegar Katarína skall á New Orleans fyrir um 7 árum. Geta ríkisins til að verja borgarana gegn slíkri náttúruvá var ótrúlega lítilfjörleg.

Grunngerð samfélagsins í New York, New Jersey og á Nýja Englandi var reyndar orðin afar veikt löngu áður en stormurinn skall á. Enda var lítið um fyrirbyggjandi varnir, þó vitað væri af ógninni nokkrum dögum fyrr og að hætta væri mikil á svæðinu, vegna lítillar hæðar sumra þéttbýlissvæða yfir sjávarmáli.

Staða dreifikerfis rafmagns í þessu einu af stærstu þéttbýlissvæðum heimsins er til dæmis sambærileg við það sem er víða í þróunarlöndum, segir Spiegel, með rafmagnslínur hangandi á veikburða staurum en ekki grafnar í jörðu, eins og er algengast í þróaðri löndum. Slíkt dreifikerfi verður fyrir miklum áföllum í ofviðri.

Nú segja opinberar skýrslur í Bandaríkjunum að ein af hverjum fjórum brúm í þessu ríka landi sé ófullnægjandi eða úr sér gengin. Verja þurfi um 60% meiri fjármunum í brúaviðgerðir á hverju ári allt til 2050 til að koma þessu í lag!

Samanburðartölfræði ýmis konar sýnir einnig ítrekað að Bandaríkin eru ekki lengur með bestu lífskjör fyrir almenning eða bestu skilyrði í umhverfi samfélagsins (sjá hér). Meðaltekjur eru háar í Bandaríkjunum, meðal annars vegna þess hversu gríðarlega háar hæstu tekjur eru. Annað kemur mun lakar út í alþjóðlegum samanburði, ekki síst vegna mikils ójafnaðar í skiptingu lífsgæðanna.

En hvers vegna er svona komið fyrir þessu áður glæsta ríki, spyr Spiegel?

Helsta svarið sem þeir gefa er að hatur stórs hluta íbúa á ríkisvaldinu sé komið í slíkar öfgar að tilvist og farsæld þjóðarinnar stafi ógn af.

Fyrirvarar gagnvart of valdamiklu ríki hafa fylgt Bandaríkjunum frá öndverðu. Það er hins vegar vöxtur nýfrjálshyggjuáhrifa eftir um 1980 sem hefur fært þetta sjónarmið í algerlega nýjar hæðir.

Bandaríkjamenn áttu áður talsmenn öflugs ríkisvalds og lýðræðis í þágu almannahagsmuna. Franklín D. Roosevelt boðaði að með New Deal aðgerðum ríkisvaldsins í kreppunni miklu, sem byggðu öðru fremur á auknu hlutverki ríkisvaldsins við að bæta hag almennings, myndi frelsi almennings aukast. Frjálshyggjumenn nú til dags kalla slíkar aðgerðir hins vegar hættulegan sósíalisma og tilheyrandi skattheimtu kalla þeir eignaupptöku og ofbeldi!

Þeir vilja frekar afskiptaleysisstefnu hins opinbera og umfram allt lítið ríkisvald. Óheftur kapítalismi er þeirra draumur.

Dwight D. Eisenhover forseti Repúblikana lét ríkið gangast fyrir byggingu hins viðamikla þjóðvegakerfis milli fylkja á sjötta áratugnum (interstate highways). Það þótti mikið framfaraskref. Nú eru hraðbrautirnar að grotna niður því ríkið má ekki lengur sinna slíkum verkefnum, samkvæmt kokkabókum nýfrjálshyggjumanna. Bandaríkin hafa einnig dregist afturúr öðrum hagsælum þjóðum hvað snertir aðra þætti samgöngukerfa, svo sem í þróun hraðlesta.

Boðskiptakerfi síma og upplýsingatækni, sem að stórum hluta voru fundin upp í Bandaríkjunum, eru nú langt á eftir slíkum kerfum annars staðar á Vesturlöndum.

Menntakerfið hefur einnig dregist stórlega afturúr. Brottfall úr framhaldsskólum hefur aukist og námsárangur er ekki nógu góður. Bandaríkin höfðu lengi á 20. öld forskot á þessu sviði, en það er nú tapað. Hinir öflugu háskólar sem enn eru víða í Bandaríkjunum eru í vaxandi mæli að lokast nemendum úr tekjulægri hópum, vegna ofurhárra skólagjalda. Háskólarnir verða þannig í of miklum mæli vettvangur fyrir forréttindastéttina.

Lyndon B. Johnson lýsti yfir stríði ríkisvaldsins gegn fátækt í Bandaríkjunum á sjöunda áratugnum og innleiddi nýmæli í opinbera velferðarkerfið, sem aðrar vestrænar þjóðir höfðu reyndar löngu fyrr komið á hjá sér. Á fáum árum tókst með því að fækka fólki undir fátæktarmörkum um helming.

Nú lýsa frjálshyggjumenn, eins og Mitt Romney og Ron Paul, yfir stríði gegn fátækum og vilja rýra lök kjör þeirra stórlega. Nú segja þeir að þjóðin hafi ekki efni á hinu hófsama velferðarkerfi, þó hún sé orðið helmingi ríkari að jafnaði en var þegar Johnson innleiddi Medicaid og Medicare fyrir lágtekjufólk og aldraða.

Repúblikanar og frjálshyggjuróttæklingar hafa löngum viljað hafa herafla Bandaríkjanna sterkan til að tryggja vald þeirra í heiminum. Nú hafa Bandaríkjamenn varla efni á þeim styrjöldum sem þeir illu heilli komu sér í á Bush-tímanum. Enda vilja Repúblikanar ekki greiða skatta fyrir það, frekar en annað. Bandaríkin eru þó enn öflugasta herveldið.

Auðvitað hafa Bandaríkjamenn samt efni á að reka þokkalegt velferðarkerfi fyrir lágtekjufólk og almennt að hafa grunngrerð samfélagsins í góðu lagi, ef þeir einfaldlega vilja. Það sem er hins vegar nýtt er að yfirstéttin í Bandaríkjunum, sem nú er orðin miklu ríkari en nokkru sinnum fyrr, sættir sig ekki lengur við að greiða skatta eins og tíðkuðust fyrir 30-40 árum! Þar liggur vandinn. Þetta viðhorf berst svo niður til efri millistéttarinnar.

Skattalækkanapólitík fyrir fólk í hærri tekjuhópum er þannig að grafa undan ríkisvaldinu, hinu lýðkjörna valdi í Bandaríkjunum, um leið og vald auðmanna hefur aukist. Með því veikist getan til að sinna sameiginlegum þörfum þjóðarinnar.

Vítahringur vaxandi ójafnaðar og valdasamþjöppunar er þannig að draga Bandaríkin niður í svaðið. Með þeim sívaxandi klofningi sem einkennir stjórnmálin þar í landi er erfitt að sjá að skilyrði verði á næstunni til að snúa þessari þróun við.

Lexían af þessari þróun er hins vegar sú, að til að tryggja farsæld almennings í nútímasamfélögum þarf bæði öflugt lýðræðislegt ríkisvald og öflugan markað.

Óheftur kapítalismi með veiku ríkisvaldi grefur undan samfélaginu og fórnar hag almennings. Auðræði fámennrar yfirstéttar er afleiðing slíkrar skipanar.

Það er núverandi leið Bandaríkjanna og afleiðingar hennar koma sífellt betur í ljós.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 8.11.2012 - 22:36 - FB ummæli ()

Skattbyrði íslenskra fyrirtækja er lítil

Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð koman reglulega fram með boðskap sinn um skattbyrði atvinnulífsins. Á morgun (föstudag) er von á nýrri skýrslu frá SA. Ég spái því að þeir muni syngja sama lagið og síðast!

Þeir munu segja að mikill fjöldi skattahækkana hafi dunið á þeim og að verið sé að skattleggja fyrirtækin út úr heiminum. Svo koma þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og taka undir – í barlómskór.

En hvað segja staðreyndirnar um málið?

Staðreyndirnar segja, að tekjuskattbyrði fyrirtækja á Íslandi sé með því minnsta sem þekkist í vestrænum samfélögum. Hún hefur að auki lækkað eftir 2007, en ekki hækkað.

Hér eru þrjár myndir með nýjum gögnum frá OECD. Fyrst er sýnt hversu stóran hluta af landsframleiðslu fyrirtæki raunverulega greiddu í tekjuskatta fyrir árið 2010.

Mynd 1: Raunveruleg skattbyrði fyrirtækja í OECD-ríkjunum 2010 (% af landsframleiðslu).

Eins og sjá má af myndinni var Ísland með lægstu tekjuskattbyrði af öllum OECD-ríkjunum. Ástæður þess eru þær, að álagning á íslensk fyrirtæki er almennt lág, frádráttarmöguleikar nokkuð rúmir og svo var árið 2010 botn kreppunnar. Þá var afkoma fyrirtækja lök, sem þýðir að þau greiddu að jafnaði lægri skatta en ella.

Á mynd 2 má sjá álagningarhlutfall í tekjuskatti fyrirtækja, fyrir árið 2011. Þar er sama sagan.

Mynd 2: Álagningarhlutfall í tekjuskatti fyrirtækja í OECD-ríkjum, árið 2011

Einungis fimm OECD-ríki eru með lægri tekjuskattsálagningu en Ísland. Önnur fjögur eru með sömu álagningu.

Þær þjóðir sem við berum okkur saman við eru allar með hærri álagningu á hagnað fyrirtækja, bæði norrænar þjóðir og helstu vestrænu hagsældarríkin – nema Írland.

Að lokum er svo sýnt hvernig raunveruleg tekjuskattbyrði fyrirtækja hefur þróast á Íslandi frá 1990 til 2010, í samanburði við meðaltal OEC D-ríkjanna.

Mynd 3: Þróun á tekjuskattbyrði fyrirtækja á Íslandi og í OECD-ríkjum, 1990 til 2010.

Tekjuskattbyrði fyrirtækja á Íslandi hefur verið talsvert lægri en meðaltal OECD-ríkjanna allan þennan tíma. Skattbyrðin jókst á Íslandi frá árinu 2000 til 2007, eða úr 1,2% af landsframleiðslu í 2,5%, með aukinni veltu fyrirtækja, ekki síst fjármálafyrirtækja.

Frá hámarkinu á toppi bóluhagkerfisins árið 2007 hefur skattheimtan af fyrirtækjum lækkað aftur úr 2,5% niður í 1% árið 2010. Skattbyrði fyrirtækja árið 2010 er svipuð og verið hafði árið 1995.

Önnur gjöld á fyrirtæki eru alls ekki sérlega há á Íslandi í samanburði við vestræn samfélög, til dæmis almannatryggingagjöld.

Það er því enginn fótur fyrir þeim síendurtekna málflutningi að skattbyrði fyrirtækja sé mikil á Íslandi. Þrátt fyrir að álagning hafi hækkað nokkuð eftir hrun er hún samt enn með allra lægsta móti.

Spyrja má hvort íslenskir atvinnurekendur séu óbilgjarnari í hagsmunabaráttu sinni en atvinnurekendur grannríkjanna? Svo virðist vera.

Hið opinbera tekur um og yfir 40% af landsframleiðslu í skatttekjur á ári hverju. Hlutur fyrirtækjanna í því var um 1% árið 2010. Það er því almenningur sem greiðir megnið af sköttunum sem renna til ríkis og sveitarfélaga, ekki fyrirtækin.

Miðað við barlóminn sem frá atvinnurekendum kemur mætti almenningur heldur betur láta í sér heyra!

Samt er þetta smápeningur sem fyrirtækin eru að greiða í tekjuskatta.

Kanski það væri þó ráð að fella alveg niður tekjuskattheimtu af fyrirtækjum og ná í staðinn inn sömu upphæð með skatti á eignir og tekjur stóreigna- og hátekjufólks. Það fólk er ekki með jafn mikla skattbyrði hér á landi og samsvarandi hópar á hinum Norðurlöndunum.

Þá myndum við kanski losna við leiðinlegan síbylju-barlóm fyrirtækjamanna!

Fyrirtækjamenn gætu þá líka sparað sér allan tímann og orkuna sem fer í áróður um skattbyrði og haft meiri tíma til að reka fyrirtækin.

Kanski reksturinn og framleiðnin gæti þá batnað…

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 7.11.2012 - 21:25 - FB ummæli ()

Ameríkanar hafna auðmannapólitík

Eftir óvenju harða baráttu tapaði Mitt Romney fyrir Barak Obama í forsetakosningunum í Bandaríkjunum í gær. Það gerðist þrátt fyrir að atvinnuleysi sé enn óvenju mikið. Raunar hafa sitjandi forsetar yfirleitt ekki fyrr náð endurkjöri í svo miklu atvinnuleysi.

Flokkur Mitt Romneys, Repúblikanar, færðist lengra til hægri í stjórnartíð Ronald Reagans, upp úr 1980, meðal annars með róttækri frjálshyggjustefnu, en einnig gætti þar vaxandi menningarróttækni trúarhópa.

Vaxandi róttækni og minnkandi umburðarlyndi hefur einkennt Repúblikana frá þeim tíma.

Í efnahagspólitík hafa Repúblikanar lagt höfuð áherslu á minna hlutverk ríkisins, skattalækkanir til fjárfesta og hátekjufólks, aukna markaðsvæðingu, fjármálavæðingu, afskiptaleysisstefnu og niðurskurð opinbera velferðarkefisins.

Í menningarpólitík hefur verið einkennandi andstaða við fóstureyðingar og samkynhneigða, rík trúrækni og almenn íhaldssemi í lífsháttum. Í utanríkismálum hefur gætt aukinnar þjónkunar við sérhagsmuni, eins og olíuiðnaðinn.

Á tímabilinu frá 1980 hefur ójöfnuður aukist mikið í Bandaríkjunum, raunar svo mikið að hagvöxturinn hefur að stærstum hluta runnið til yfirstéttarinnar, en millistéttin og fólk í tekjulægri hópum hefur setið eftir.

Bandaríkin breyttust úr því að vera samfélag millistéttarfólks í samfélag þar sem yfirstétt auðmanna hefur haft allan forgang eftir 1980, í krafti kenninga frjálshyggjunnar.

Þeir fátæku telja yfirleitt ekki með í Bandaríkjunum, enda voru þeir til dæmis ekki nefndir á nafn í kosningabaráttunni núna.

Stefna Mitt Romneys og Ron Pauls einkenndist af þessari arfleifð Repúblikanaflokksins. Róttækur niðurskurður opinbera velferðarkerfisins og skattalækkanir til auðmanna sögðu þeir leiða til aukins hagvaxtar, sem myndi svo skapa fleiri störf. Síðan bættist við menningaríhaldssemi, til að þóknast hægri róttæklingum í teboðshreyfingunni og réttrúnaðarsöfnuðum ýmsum.

Þetta er auðmannapólitík í bland við menningaríhaldssemi. Sjálfur er Mitt Romney auðmaður er efnaðist á fyrirtækjabraski, sem sagt er að hafi leitt til taps á bandarískum störfum, m.a. til Kína.

Þessari stefnu var sem sagt hafnað í gær – og einnig auðmanninum Mitt Romney sjálfum. Samt rak hann öfluga kosningabaráttu.

Barak Obama er alþýðumaður úr minnihlutahópi sem vann sig upp með góðri frammistöðu í menntun. Hann er holdgervingur ameríska draumsins, sem þó hefur látið á sjá eftir 1980 (sjá hér).

Það er auðvitað merkilegt að Obama skuli hafa náð endurkjöri, þrátt fyrir hið mikla peningaafl sem býr í Repúblikanaflokknum og djúpstæða fordóma sumra hvítra kjósenda í hans garð.

Þó Bandaríkjamenn hafi hafnað Repúblikönum núna er auðmannapólitíkin fjarri því að vera dauð í landi þeirra. Munur flokkanna er lítill og vald auðmanna er áfram mjög mikið í USA. Síðan er rétt að hafa í huga að Demókratar myndu teljast hægri flokkur í Evrópu um leið og Repúblikanar eru hægri róttæklingar á evrópskan mælikvarða. Miðjan er mjög langt til hægri í Bandaríkjunum.

Á Íslandi er það Sjálfstæðisflokkurinn sem stendur næst Repúblikanaflokknum, þó munur sé á (sjá hér). Sjálfstæðismenn hafa sjálfir færst mjög langt til hægri á síðustu tveimur áratugum og einmitt sótt mikið af fyrirmyndum í frjálshyggju hægri manna í Bandaríkjunum, þó ekki gæti hér amerískrar menningaríhaldssemi. Harðsvíruð hagsmunagæsla í þágu auðmanna, fjárfesta og atvinnurekenda hefur verið þeim mun sterkari í stefnu Sjálfstæðismanna.

Þó tengja megi frjálshyggju Sjálfstæðisflokksins við bóluhagkerfið og hrunið skelfilega sér þess engin merki að þeir ætli að breyta helstu stefnumálum sínum. Frjálshyggjuróttæknin og hagsmunagæsla fyrir yfirstéttarhópa blífur – eins og ekkert hafi í skorist.

Þeir boða nú að auki róttæka niðurskurðarstefnu, sem gæti rústað velferðarkerfinu og aukið ójöfnuð á ný.

Það verður fróðlegt að sjá hvernig íslenskir kjósendur bregðast við í kosningum að vori.

Munu þeir fylgja fordæmi Bandaríkjamanna eða gefa tilraunamönnum frjálshyggjunnar annað tækifæri til að leggja fjöregg þjóðarinnar undir, í spilavíti hins óhefta kapítalisma?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar