Sunnudagur 4.11.2012 - 21:39 - FB ummæli ()

Margrét Thatcher jók fátækt og ójöfnuð

Frjálshyggjumenn – og hægri menn almennt – hafa glímt við ímyndavanda eftir hrun. Hrunið var jú hrun frjálshyggjustefnunnar.

Félag frjálshyggjumanna er á fullu að endurskilgreina sig, meðal annars sem hálfgerða hippa (sjá hér). Þeir kasta sauðagæru yfir gráðuga fjárglæfrafólið sem í þeim býr!

Margrét Thatcher hefur lengi verið ein helsta stjórnmálastjarna frjálshyggjumanna, ásamt Ronald Reagan. Þau voru bæði hafin til skýjanna af innvígðum hægri mönnum. Ríkisstjórnir þeirra þóttu bera af öðrum.

Þegar ég sá að Jón Magnússon, lögfræðingur í Sjálfstæðisflokknum, var búinn að skrifa grein í dag sem hann kallar “Umhyggjusama járnfrúin”, datt mér í hug að þarna væri kominn enn einn tilraunin til að tengja frjálshyggjuna við hugmyndafræði hippanna, með áherslu á frið, ást og umhyggju.

Svo var að vísu ekki alveg – en þó í áttina! Dregin var upp mynd af hinni “umhyggjusömu” frú Margréti Thatcher.

Í því samhengi er fróðlegt að skoða afleiðingar stjórnmálastefnu Thatchers. Endurspeglar frjálshyggja Thatchers mikla umhyggju gagnvart þeim sem minna mega sín í samfélaginu?

Frjálshyggjumenn eru almennt þekktir fyrir að hygla hátekju- og stóreignafólki, en láta lágtekjufólk sitja á hakanum.

Þannig vilja frjálshyggjumenn gjarnan lækka bætur og þrengja hag fátækra – telja að þá vilji þeir frekar vinna fyrir sér sjálfir. Ekki er þó alltaf spurt að því hvort störf sé að fá.

Lekakenning frjálshyggjunar (trickle-down theory) gengur svo út frá því, að mikilvægast sé að bæta hag hátekjufólks. Þaðan geti svo seytlað eitthvert fé niður til fátækra – ef auðmönnum þóknast.

En hvað segja staðreyndirnar um þróun fátæktar og ójafnaðar í stjórnartíð Margrétar Thatchers í Bretlandi, frá 1979 til 1990. Það má sjá á myndinni hér að neðan.

Myndin sýnir annars vegar hlutfall barna sem búa í fjölskyldum undir fátæktarmörkum (súlurnar) og hins vegar Gini ójafnaðarstuðul tekna (línan), frá 1961 til 2010.

Þróun barnafátæktar og ójafnaðar í Bretlandi, frá 1961 til 2010. (Heimild: Institute for Fiscal Studies). 

 

Bláu súlurnar eru stjórnartími Margrétar Thatchers.

Eins og sjá má stórjókst barnafátækt á stjórnartíma Thatchers úr um 13% í um 28%, eða meira en tvöfaldaðist. Fyrir tíma Thatchers hafði barnafátækt lítið breyst í um 20 ár.

Línan sýnir að ójöfnuður tekna jókst einnig á sama tíma. Gini stuðullinn fór úr um 0,24 upp í um 0,34 – sem er mikil aukning.

Stefna Margrétar Thatchers jók bæði ójöfnuð og barnafátækt – svo um munaði.

Á stjórnartíma John Majors, sem tók við af Thatcher, var barnafátækt áfram svipuð, en tók síðan að minnka umtalsvert í stjórnartíð verkamannaflokks Tony Blairs og Gordon Browns, eins og sjá má. Árið 2010 var barnafátæktin komin niður í tæp 18%. Ójöfnuður tekna breyttist hins vegar lítið eftir tíma Thatchers.

Frá 1979 til um 1983 lækkuðu lægstu tekjur að raungildi og hlutur launa af landsframleiðslu lækkaði umtalsvert á stjórnartíma Margrétar Thatchers, eða úr um 60% í um 54%, samkvæmt mati bresku launþegahreyfingarinnar (TUC). Lágtekjufólk dróst ekki bara aftur úr hátekjufólki, heldur fékk hluti þess raunlækkun ráðstöfunartekna eftir að Thatcher komst til valda.

Nú berast fregnir af því, að eftir að út í kreppuna kom hafi barnafátækt aftur tekið að aukast, þ.e. frá 2010. Hægri ríkisstjórn David Camerons komst til valda á árinu 2010 og beitir nú miklum niðurskurði opinberra útgjalda.

Frjálshyggjumenn tala oft um að ríkisstjórnir Thatchers hafi aukið hagsæld í Bretlandi og komið landinu á meiri hreyfingu. Hagsældaraukningin var hins vegar einkum í ranni hátekjufólksins. Þróunin var svipuð í Bandaríkjum Ronald Reagans.

Arfleifð Margrétar Thatchers er þannig aukin barnafátækt og aukinn ójöfnuður.

Ef það kallast umhyggjusöm stjórnmál, þá er ljóst að umhyggjan beindist einkum að hátekjufólki.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 3.11.2012 - 16:55 - FB ummæli ()

Stétt með stétt – í kvótakerfinu

Það var í senn óvenjulegt og óviðeigandi þegar sjómenn mættu á fund LÍÚ á Austurvelli í sumar til að styðja baráttu útvegsgreifa gegn nýja auðlindargjaldinu, sem rennur til þjóðarinnar.

Með veiðileyfagjaldinu nýtur þjóðin loks eignarhalds síns á fiskinum í sjónum. Þar með fást peningar til sameiginlegra verkefna þjóðarinnar. Þetta vildi þjóðin tryggja í atkvæðagreiðslunni um nýju stjórnarskrána um daginn.

Við vitum nú þegar í hvað gjaldið á að renna á næsta ári: samgöngubætur, þróunaráætlanir landshlutanna og í nýsköpun (skv. Fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar).

Auðlindargjaldið er gott fyrir alla Íslendinga. Líka fyrir sjómenn – og landsbyggðina.

Svona gjaldtaka er sérstaklega mikilvæg og réttlát eftir gengishrun, sem hefur fært útvegsmönnum gríðarlegan gróða – en heimilunum meira en 20% rýrnun ráðstöfunartekna og aukna skuldabyrði.

En sjómenn lögðust í duftið fyrir atvinnurekendum og mættu í mótmælin til að styðja kröfu þeirra.

Á myndinni hér að neðan má sjá hversu forsjáll Halldór Bragason teiknari var er hann lýsti upplifun sinni af hlutverki sjómanna í mótmælunum:

Nú fáum mánuðum síðar eru útvegsmenn komir til dyranna eins og þeir eru klæddir. Þeir krefjast 15% kauplækkunar hjá sjómönnum, vegna auðlindargjaldsins.

Samt er metgróði í sjávarútvegi þessi árin. Afkoma hefur t.d. aldrei í sögunni verið betri hjá Samherja. Eigendur geta tekið milljarða til sín út úr greininni. Þó segjast þeir ekki geta greitt þjóðinni fyrir afnot af auðlindinni og vilja launalækkun hjá sjómönnum.

Það er raunar ótrúlegt hversu langt útvegsmenn ganga.

En þetta er stéttasamstaðan í hnotskurn!

Nú tala forystumenn sjómanna um svik útvegsmanna og hnífsstungur í bakið. Eru hissa á að útvegsmenn vilji lækka kaupið. Í þessu sjá þeir hins vegar hvert hlutverk þeirra var á Austurvelli í sumar.

Sjómenn voru verkfæri útvegsmanna í ósvífinni hagsmunabaráttu þeirra. Sjómönnum var beitt gegn þjóðinni svo útvegsmenn gætu grætt enn meira (sjá hér).

Útvegsmenn munu þó ekki græða á kauplækkun sjómanna, því það mun einungis hækka auðlindargjaldið. En útvegsmönnum er alveg sama um það. Þeir eru einfaldlega (eins og áður) að beita sjómönnum fyrir vagn sinn, gegn ríkisstjórninni. Fórna kjörum sjómanna til að berja á ríkisstjórninni – sem er að þjóna hagsmunum þjóðarinnar.

Betra hefði verið fyrir sjómenn að styðja hina heilbrigðu kröfu stjórnvalda um að þjóðin fái eðlilega rentu af auðlindinni, í stað þess að hún renni óskipt í útbólgna vasa útvegsmanna.

Skyldu sjómenn læra eitthvað af þessari reynslu?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 31.10.2012 - 16:34 - FB ummæli ()

Frjálshyggjan breytist í hippahreyfingu

Róttækir frjálshyggjumenn hafa verið í tilvistarkreppu eftir hrun.

Allir sjá að frjálshyggjan leiddi ekki bara Íslendinga út í stærsta hrun sögunnar heldur gat hún einnig af sér hina alþjóðlegu fjármálakreppu.

Gamla frjálshyggjan sem Milton litli Friedman, Friðrik von Hayek og frú Margrét Thatcher kenndu Hannesi og strákunum í Eimreiðinni gengur ekki lengur.

Almenningur vill ekki of mikið dekur við auðmenn, ójöfnuð, einkaeign náttúruauðlinda, skattalækkanir handa auðmönnum, niðurskurð velferðarkerfisins, né “frelsi” sem gagnast engum nema moldríkum körlum!

Almenningur vill eitthvað huggulegra og heilbrigðara.

Hinir bestu menn frjálshyggjunnar hafa séð þetta um hríð og lögðu til yfirhalningu á frjálshyggjunni (“extreme makeover”): nýja ímynd og nýja hugmyndafræði. Eitthvað sem væri vænlegt til vinsælda á kosningavetri. Niðurstaðan var kynnt um daginn.

Í stað íhaldssamrar myndar af Margréti Thatcher í grárri dragt með handtöskuna frægu, mun fagur og friðelskandi hippi verða nýtt vörumerki frjálshyggjufélagsins. Hér að neðan má sjá hina nýju táknmynd frjálshyggjunnar á Íslandi, sem verður lógó á bréfsefni og vefsíðum frjálshyggjumanna:

Félag frjálshyggjuróttæklinga efndi líka til ritgerðarsamkeppni um nýja og söluvænni hugmyndafræði. Gunnlaugur Jónsson, sem er einn af ættarlaukum Eimreiðarinnar, hlaut verðlaunin, en það var skemmtiferð á mykjudreifara amx-samsteypunnar upp í musterið í Hádegismóum. Þar tók hann við verðlaunum að viðstöddu fámenni.

Gunnlaugur skrifaði alveg nýja hugmyndafræði í stað vúdú-hagfræðinnar og klappstýrutakta fyrir auðmenn sem Hannes Hólmsteinn hefur rappað í gegnum tíðina. Gunnlaugur sótti tema sitt einkum til hins vinstri sinnaða taóista Dalai Lama og í 50 ára gamla stefnuskrá hippahreyfingarinnar í Kaliforníu.

Í stað trylltra dansa fjármálamanna í kringum gullkálfinn er nú lagt upp með innhverfa íhugun og afneitun efnishyggju, lífsgæðakapphlaups og fjármálavafninga. Í stað auðhyggjunnar er kominn friðarboðskapur hippanna. Maður bíður bara eftir að hagvöxtur og jakkaföt verði sögð af hinu illa!

Gunnlaugur segir að frjálshyggjan sé “hin eina friðsama stjórnmálastefna”. Allir aðrir en frjálshyggjumenn eru ofbeldismenn! Það vissuð þið ekki, lesendur góðir – enda er þetta í fyrsta sinn sem slíkt er fullyrt í heiminum…

Áfram heldur Gunnlaugur:  “… það er ekki hægt að vera á móti ofbeldi án þess að vera frjálshyggjumaður. Annað hvort þarf fólk að samþykkja frjálshyggju eða viðurkenna að það sé hlynnt ofbeldi”. Þetta eru sem sagt valkostirnir!

Reyndar afarkostir.

Hmmmm… þar fór frelsið fyrir lítið.

Allt sem ríkið gerir til að stjórna og bæta í nafni lýðræðis er ofbeldi, segir Gunnlaugur líka. Þarna er einmitt mikill samhljómur með afskiptaleysisstefnu frjálshyggjunnar og óskum hippanna um að mega segja sig úr samfélaginu og lifa sínu lífi í faðmi náttúrunnar, reykja súrhey og svífa í friðardraumum, óháð veraldlegum hrammi ríkisvaldsins.

Gunnlaugur segir frjálshyggjumenn líka vera “einu varanlegu bandamenn undirokaðra hópa” og nefnir til sögunnar konur í frelsishug, homma og lesbíur, og loks svarta þræla sem vilja frelsi. Hér vantar að vísu mikið upp á staðreyndirnar, því frjálshyggjumenn eru einmitt þekktir fyrir að sniðganga nær algerlega undirokaða hópa og styðja margs konar undirokun, bæði fyrr og síðar.

Til dæmis vilja frjálshyggjumenn aldrei gera neitt fyrir fátæka og þegar svartir þrælar börðust fyrir frelsi sögðu frjálshyggjumenn að það væri brot á eignarrétti þrælahaldaranna. Ef láglaunafólk vill stofna launþegafélög til að semja um hærra kaup er það kallað brot á athafnafrelsi auðmanna. Sams konar rök um eignarrétt nota þeir um kvótakerfið í íslenskum sjávarútvegi, til að réttlæta að auðmenn einir megi eiga auðlind sem er í reynd þjóðarinnar.

En hvaða máli skipta smá staðreyndavillur þegar jákvæða ímynd skal byggja?!

Lokaorð Gunnlaugs eru þessi: “Góðir frjálshyggjumenn, við höfum verk að vinna – en við höfum sterkara vopn í höndum en nokkur annar: kærleikann”.

“All you need is love!”, sögðu hipparnir einmitt.

Annars staðar upplýsir Gunnlaugur þó um hvað málið snýst í raun, þegar hann segir: “En ég held að það sé (…) skýrara að tala um frelsið sem hinn gullna meðalveg. Þá er líka aldrei að vita nema við fáum einhverja góða framsóknarmenn til liðs við okkur!”

Þar kom það svart á hvítu: Þetta er sem sagt kosningastrategía hjá frjálshyggjumönnum. Draga upp nýja ímynd og nýtt yfirbragð hugmyndafræðinnar til að auka fylgið. Fela þá staðreynd að frjálshyggjan snýst mest um að bæta hag auðmanna, oftast á kostnað almennings. Segja frekar að svart sé hvítt og boða frið og ást – í stað græðginnar sem er undirrótin.

Þetta er svipuð hugmynd og kom fram hjá Hannesi Hólmsteini fyrir kosningar 2007. Þá skrifaði hann tvær greinar um frjálshyggju. Í annarri fullyrti hann að frjálshyggja væri jafnaðarstefna og því til vinstri. Í hinni sagði hann frjálshyggju vera umhverfisvæna og græna stefnu.

Hannes sagði þannig frjálshyggjuna vera “vinstri-græna” stefnu! Þetta þótti sprenghlægilegt. Menn munu sjálfsagt skemmta sér álíka vel eða betur yfir hinni nýju ímynd frjálshyggjumanna sem friðelskandi hippar!

Hvað um það. Gunnlaugi þótti mælast vel og félagið bauð í pípu að loknum aðalfundarstörfum. Mantra friðar og ásta sveif um loftin.

Hér má sjá kónginn í Hádegismóum í nýjum búningi sem frjálshyggjufélagið afhenti honum, til að marka þessi stóru tímamót – þegar frjálshyggjan breyttist í hippahreyfingu.

Peace brother!  Make love – not war!

 

 

Flokkar: Menning og listir · Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 27.10.2012 - 23:17 - FB ummæli ()

Íslendingar eru ein skuldugasta þjóð heims

Um daginn sýndi ég skuldaþróunina á Íslandi, Írlandi og í Grikklandi. Í dag sýni ég skuldabyrði íslenska ríkisins (ríki og sveitarfélög) í samanburði við flestar aðrar Evrópuþjóðir og Bandaríkin árið 2011.

Síðan skoðum við skuldir heimila og fyrirtækja í nokkrum löndum, í seinni huta greinarinnar.

Fyrst eru hér skuldir hins opinbera, sem % af landsframleiðslu. Þetta eru nýjustu tölur Eurostat og bandarísku hagstofunnar.

Mynd 1: Skuldir hins opinbera (ríkis og sveitarfélaga) sem % af landsframleiðslu 2011.

Hér má sjá að Ísland var í lok árs 2011 í 5.-6. sæti af þessum þjóðum, jafnfætis Bandaríkjunum. Auk Grikklands og Írlands eru Ítalía og Portúgal fyrir ofan okkur.

Eins og ég sýndi í gær eru horfurnar í þessum löndum verri en á Íslandi þannig að búast má við að skuldir þjóðanna sem eru fyrir ofan okkur eigi eftir að hækka meira en skuldir okkar.

Þjóðir sem eru rétt fyrir neðan okkur virðast líklegar til að fara fram úr okkur í skuldastigi hins opinbera á næstu árum. Það á við um lönd eins og Belgíu og jafnvel Frakkland og Bretland. Samt eru opinberar skuldir okkar mjög miklar.

Athyglisvert er að Eystrasaltslöndin (Eistland, Lettland og Litháen), sem öll fóru djúpt í kreppuna, skulda mun minna en við og Írar. Frændþjóðir okkar á Norðurlöndum skulda allar innan við helming af því sem opinberar skuldir okkar eru.

Eitt eru skuldir hins opinbera, sem við þurfum að bera sem skattgreiðendur. Hitt eru skuldir heimilanna. Næst skoðum við þær í nokkrum löndum.

Mynd 2: Skuldir heimila sem % af ráðstöfunartekjum þeirra, 2000-2012. (Heimild: Seðlabanki Íslands, Fjármálastöðugleiki).

Hér má sjá hvernig skuldir heimilanna á Íslandi jukust mjög ört umfram ráðstöfunartekjurnar frá 2004 og alla leið til 2010, en hafa lækkað síðan þá. Árið 2010 vorum við með hæsta skuldahlutfall heimilanna, en 2012 erum við komin rétt niður fyrir það sem var í Danmörku og Hollandi á árinu 2010.

Heimilin í Danmörku eru álíka skuldug og á Íslandi, en hið opinbera í Danmörku skuldar mun minna en íslenska ríkið.

Hér má líka sjá að heimilin á Írlandi eru mjög skuldur – en þó ekki eins og þau íslensku.

Þegar við skoðum allt saman: skuldir hins opinbera, skuldir heimila og loks einnig skuldir fyrirtækja (sem ég hef skrifað um hér), þá sjáum við að Ísland er eitt allra skuldugasta land heims nú á dögum.

Það er þrátt fyrir að mikið hafi verið skrifað niður af skuldum þjóðarbúsins, mest vegna gjaldþrots bankanna (þá töpuðu erlendir lánadrottnar þeirra um fjór- til fimmfaldri landsframleiðslu), en einnig voru skuldir lækkaðar í skuldaúrvinnslu eftir hrun.

Strax árið 2004 var Ísland orðið skuldugasta land í heimi (sjá hér). Síðan jukust heildarskuldir þjóðarbúsins mikið fram að hruni, upp í áttfalda til nífalda landsframleiðslu. Nú eru heildarskuldir þjóðarbúsins um fjórar landsframleiðslur (ríkið með um eina, heimilin með rúmlega eina, fyrirtækin eru með skráðar á sig tæpar tvær: samtals um fjórar landsframleiðslur). Már Guðmundsson seðlabankastjóri sagði í Silfri Egils í dag að heildarskuldir þjóðarbúsins væru nú um fimm og hálf landsframleiðsla, en þá telur hann til viðbótar við ofangreint einnig skuldir þrotabúa bankanna, en þær verða að talsverðu leyti strikaðar út í þrotameðferðinni.

Það var einmitt óhófleg skuldasöfnunin sem setti Ísland á hliðina með bankahruninu.

Skuldir eru þannig ein helsta arfleifð frjálshyggjutímans, frá 1995 til 2007. Hámarki náði braskið og skuldasöfnunin á árunum eftir 2000.

Frjálshyggjunni tengdist aukið frelsi á fjármálamarkaði, óheftur kapítalismi, afskiptaleysisstefna og verulega aukin græðgi. Mikið framboð af fjármagni á alþjóðlegum fjármálamarkaði eftir 2001 fól í sér allt of miklar freistingar fyrir gráðuga og  agalausa Íslendinga, sem sökktu sér á kaf í skuldir.

Mesta ábyrgð báru bankamenn og braskarar fyrirtækjaheimsins.

Heimilin voru leiksoppar þeirra.

Þeir sem áttu að tryggja fjárhagslegan stöðugleika og verja heimilin (Seðlabanki, Fjármálaeftirlit og ríkisstjórnir) brugðust í einu og öllu.

Almenningur situr uppi með afleiðingarnar – eitt skuldugasta ríki heims, ein skuldugustu heimili Vesturlanda og ein skuldugustu fyrirtæki heims.

 

 

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

Laugardagur 27.10.2012 - 13:18 - FB ummæli ()

Marxisti í gær – kapítalisti í dag!

Umræðan á Íslandi er ekki alltaf vönduð. Ef birtar eru staðreyndir sem eru óþægilegar, þá er gjarnan hjólað í manninn frekar en efnisatriði.

Reynt er að sverta persónuna eða stimpla hana á neikvæðan hátt.

Ég hef ekki farið varhluta af þessu í gegnum tíðina – jafnvel þó ég hafi stundum það eitt til saka unnið að birta opinberar tölur Hagstofu Íslands.

Um daginn kallaði einn skrifari mig marxista, af því ég leyfði mér að nota orðið “yfirstétt” í texta sem ég skrifaði um baráttu fyrir lýðréttindum og stjórnarskrárbreytingum. Þegar ég leiðrétti það hjá honum endurtók hann einfaldlega stimplunina. Honum kemur ekkert við hvað er satt og rétt og heitir Páll Vilhjálmsson.

Í dag er vakin athygli á því í “frétt” í Viðskiptablaðinu að ég sé kapítalisti, sem hafi stofnað einkahlutafélag utan um ráðgjafastarfsemi sem ég stunda erlendis í frítíma mínum. Þau skrif koma frá róttækum frjálshyggjumanni, Gísla Frey Valþórssyni. Hann reynir að gera þetta grunsamlegt með því að segja að hagnaður hafi verið af starfseminni og keyptur bíll. Honum yfirsást að vísu að bíllinn er 6-7 ára, en látum það liggja milli hluta.

Það er almennt ekki fréttaefni í viðskiptalífinu að fólk kaupi 6-7 ára gamlan bíl, en ef maður skrifar eitthvað sem er óþægilegt fyrir frjálshyggjumenn eða Sjálfstæðisflokkinn, þá getur slíkt orðið að “frétt”. Það getur verið gagnlegt til að ófrægja, jafnvel þó léttvægt sé. Svo dúkkar “málið” upp með nýju áleggi á amx-mykjudreifaranum og í nafnlausum dálkum Moggans.

Hvort er ég marxisti eða kapítalisti? Hvorugt – eða sitt lítið af hvoru og annað í bland.

Ég hef sjálfur lýst mér þannig að ég sé talsmaður blandaða hagkerfisins, þar sem saman fer þróttmikill markaðsbúskapur og öflugt velferðarríki. Það hefur sýnt sig að vera farsælasta skipan þjóðmála fyrir flesta og er næst því að vera miðjustefna í nútímanum.

Við sem viljum hafa það sem sannara reynist megum ekki láta öfgamenn til hægri eða vinstri þagga niður í okkur með ófrægingum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 26.10.2012 - 10:56 - FB ummæli ()

Lífsgæði nútímaþjóða – erindi í dag

Í dag líta félagsvísindamenn við Háskóla Íslands í þjóðarspegilinn. Það er eins konar uppskeruhátíð rannsóknarstarfsins á síðasta ári. Margir starfsmenn flytja erindi un nýleg verk sín.

Ég mun fjalla um samanburð á lífsgæðum 29 nútímaþjóða á Lögbergi, stofu 103, kl. 13. Þar geri ég grein fyrir nýlegum gagnabanka um lífsgæði þjóða sem byggir á 69 aðskildum lífsgæðaþáttum, sem dregnir eru saman í eina lífsgæðavísitölu. Einnig eru skoðaðir undirþættir lífsgæða, svo sem hagsæld, heilsufar, menntastig, atvinnustig, dreifing lífskjara, fátækt, fjölskylduaðstæður, samfélagsþátttaka og huglægir þættir lífsgæða.

Á myndinni hér að neðan má sjá samandregnar niðurstöður þessara 69 mælinga á lífsgæðaþáttum hjá umræddum 29 nútímaþjóðum. Gögnin eru fyrir tímabilið frá 2005 til 2008, þannig að þetta er staðan eins og hún var fyrir fjármálakreppu. Staða okkar hefur lækkað nokkuð síðan þá, en er aftur batnandi.

Norrænu þjóðirnar mælast með best lífsgæði á flestum sviðum. Næst þeim koma fremstu þjóðirnar á meginlandi Evrópu, eins og Holland, Sviss og Lúxemborg.

Enskumælandi þjóðirnar eru sem hópur næst þar á eftir. Þær búa oft við góða hagsæld en velferðarkerfi þeirra eru gjarnan veikari og dreifing lifsgæðanna ójafnari en á Norðurlöndum og á meginlandi Evrópu.

Þannig eru Bandaríkjamenn til dæmis mjög hagsæl þjóð en vegna þess hversu ójöfn skipting lífskjaranna er þar þá verður heildarútkoman slakari. Óvenju mikil fátækt í bandaríska hagsældarríkinu dregur þá niður á aðra mælikvarða, eins og í heilsufari, menntun, fjölskylduaðstæðum og þeir eru heldur ekki eins ánægðir með lífið og samfélagið að jafnaði og norrænu þjóðirnar.

Ég mun síðar gera frekari grein fyrir þessu efni hér á bloggi mínu síðar.

Allir eru velkomnir á öll erindi á Þjóðarspegli í Háskóla Íslands og finna má dagskrá víða við fyrirlestrasali.

 

 

 

 

Flokkar: Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 24.10.2012 - 21:28 - FB ummæli ()

Skuldir Íslendinga, Grikkja og Íra

Það er fróðlegt að bera saman skuldaþróunina hjá okkur Íslendingum og tveimur öðrum kreppuþjóðum: Grikkjum og Írum.

Fyrri myndin sýnir brúttóskuldir hins opinbera (ríki, sveitarfélög og almannatryggingar) sem hlutfall af landsframleiðslu. Þetta eru nýjustu tölur frá Hagstofu Evrópusambandsins (Eurostat) og ná til ársloka 2011.

Mynd 1: Opinberar skuldir alls, sem % af landsframleiðslu. Heimild: Eurostat

Skuldaþróunin er hrikalegust í Grikklandi, fór frá 113% af landsframleiðslu 2008 upp í 171% í árslok 2011. Á eftir að aukast enn meira.

Á Íslandi voru skuldir hins opinbera um 29% árið 2007 og ruku svo upp með hruninu, í 70% 2008 og 88% árið 2009 – og svo áfram vegna hallans á fjárlögum upp í 99% árið 2011.

Írar byrjuðu hins vegar með minni skuldir en við, en eru nú árið 2011 komnir fram úr okkur.

En hvernig eru svo horfurnar fyrir næstu ár?

Seinni myndin gefur vísbendingu um það, því þar er sýnt hversu stór hallinn er á fjármálum hins opinbera (sem % landsframleiðslu).

Mynd 2: Halli á búskap hins opinbera, sem % af landsframleiðslu. Heimild: Eurostat

Hér er athyglisvert hversu mikið hallinn hefur lækkað á Íslandi árið 2011, langt niður fyrir hinar þjóðirnar. Við stefnum í að komast út úr hallarekstri á næsta eða þarnæsta ári og hættum þá að safna frekari skuldum.

Að því leyti eru horfurnar bestar hjá okkur.

Grikkir fóru hæst í 15,6% en hafa lækkað í 9,4% árið 2011 og eru samt fjarri því að vera komnir út úr hallarekstri. Horfurnar eru enn slæmar þar.

Hjá Írum er staðan hins vegar verst hvað hallarekstur varðar. Þeir fóru langhæst árið 2010 í 30,9% halla, vegna bankabjörgunarinnar. Þeir voru enn með 13,4% halla í árslok 2011, þ.e. eins og Ísland fór hæst árið 2008.

Írar eru sem sagt enn á þeim stað sem við vorum á árið 2008.

Þetta segir okkur að Írar eiga eftir að fara talsvert framúr okkur í skuldasöfnun hins opinbera á allra næstu árum.

Þetta eru allt tölur frá Eurostat, eins reiknaðar og byggðar á því sem fyrir liggur. Ef okkur farnast illa fyrir EFTA dómstólnum með Icesave-málið verður staðan væntanlega verri hér en þarna er sýnt.

Vonandi fer það þó ekki á versta veg.

Nægur verður samt vandinn við að greiða þetta niður.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

Þriðjudagur 23.10.2012 - 11:18 - FB ummæli ()

Hvað gerir Valhöll?

Baráttan fyrir lýðfrelsi og mannréttindum í Evrópu og Norður Ameríku er nátengd stjórnarskrármálum.

Þegar Magna Carta stjórnarskráin var innleidd í Englandi árið 1215 var meginmarkmið hennar að takmarka vald konungsins í höllinni og skapa héraðshöfðingjum aukið sjálfstæði og vörn gegn geðþóttalegri beitingu konungsvaldsins.

Þó enn séu í gildi í Englandi ákvæði úr Magna Carta hafa seinni tíma stjórnarskrár verið víkkaðar út og snúast sífellt meira um að færa réttindi til almennings. Upphafsorð bandarísku stjórnarskrárinnar, “We the people…”, er einmitt táknrænt fyrir þessa breyttu og nútímalegri áherslu réttindamálanna. Réttindin eiga að vera fyrir alla og fólkið á að ráða.

Raunar má segja að í lýðræðislegum stjórnarskrám sé lagður grundvöllur að réttindakerfi laganna og almannahagur í vaxandi mæli varinn gegn sérhagsmunum yfirstétta. Þetta hefur verið langtímabarátta og hægfara þróun, vegna þess að yfirstéttir veita iðuglega viðnám gegn breytingum. Yfirstéttir vilja síður gefa eftir völd sín og forréttindi.

Að þessu leyti er baráttan fyrir nýrri stjórnarskrá á Íslandi barátta fyrir bættri stöðu almennings gegn ásókn sérhagsmuna eftir auðlindum lands og sjávar og eftir áhrifavaldi í samfélaginu.

Þetta er enn barátta almennings gegn valdhafanum í “höllinni”.

Á Íslandi er það Valhöll Sjálfstæðisflokksins sem er hið táknræna setur gamla valdsins, höfuðból sérhagsmuna og yfirstéttarinnar. “Musterið sjálft”, eins og landskunnur lögreglumaður sagði um Valhöll fyrir skömmu, í augljósri andakt yfir því að vera kominn inn í höllina í fyrsta sinn.

Eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna á laugardag er þetta orðið skýrara en áður var. Almenningur hefur kveðið upp sinn dóm og talað skýrt. Fólkið vill nýja breytta stjórnarskrá – en Valhöll er því andvíg.

Á þingi virðist líka vera stór meirihluti fyrir því að ný stjórnarskrá verði unnin úr tillögum stjórnlagaráðs og lögð fullbúin fyrir almenning samhliða þingkosningum að vori. Það eru helst Sjálfstæðismenn sem hafa talað gegn því.

Þegar þjóðfélag er komið svo langt í lýðræðisátt að almenningur geti í reynd ráðið útkomu svona máls, með meirihlutaatkvæði kjósenda, er spurning hvernig gamla valdið í höllinni á að bregðast við?

Á það að berjast áfram gegn almannahag og fyrir sérhagsmunum sínum eða beygja sig undir vilja meirihluta almennings? Eða á gamla valdið að bjóða sátt og samvinnu og leita málamiðlana?

Fyrst það er góður meirihluti fyrir framgangi og lúkningu málsins á þinginu í vetur virðist sem að með harðsvíraðri andstöðu sé Valhöll dæmd til að tapa. Leit eftir samvinnu og málamiðlun virðist því rökréttari afstaða.

Þess vegna vekur það athygli þegar kóngurinn í Valhöll, Bjarni Benediktsson, tekur línuna frá ritstjóra Morgunblaðsins og hirð hans og gefur almenningi langt nef. Segir þjóðaratkvæðagreiðsluna ómarktæka og kallar hana öllum illum nöfnum. Finnur málinu allt til foráttu.

Fyrstu viðbrögð við ósigrinum á laugardag benda þannig til að Valhöll ætli að berjast til síðasta manns – gegn ofureflinu. Það er kanski ósk kvótagreifanna.

Ég spái því þó að hófstilltari menn í Sjálfstæðisflokknum grípi í taumana og bjóði samstarf og leiti sátta. Talsmenn sigursins eru allir boðnir og búnir að fyrirgefa Valhöll andstöðuna og bjóða fram sáttavilja. Svigrúm fyrir málamiðlanir er að vísu þröngt, en samt eitthvert.

Þó það sé súrt fyrir Valhöll að játa sig sigraða er það líklega skynsamlegri kostur – jafnvel eina leiðin.

Hins vegar hefur maður áhyggjur af þeirri róttækni og óbilgirni sem hefur grafið um sig í hinum nýja Sjálfstæðisflokki frjálshyggjutímans, ekki síst á Morgunblaðinu. Þar virðast of margir vera reiðubúnir að ganga fyrir björg á grundvelli hinna ólíkindalegustu raka og sérhagsmuna.

Vonandi hefur skynsemin og sáttin þó yfirhöndina í Valhöll sem annars staðar í samfélaginu.

Það er best fyrir Ísland.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 21.10.2012 - 21:37 - FB ummæli ()

Ósigur Sjálfstæðisflokksins

Þegar sagt er að áhugafólk um nýtt Ísland hafi unnið stóran sigur í kosningunni í gær, blasir auðvitað við að Sjálfstæðisflokkurinn beið afhroð. Hið sama má segja um LÍÚ og aðra talsmenn sérhagsmuna – sem í reynd eru útibú frá flokknum.

Talsmenn Sjálfstæðisflokksins hömuðust gegn tillögum stjórnlagaráðs eins og þeir ættu líf sitt undir því að þjóðin felldi þær.

En þjóðin hafnaði flokknum – með afgerandi hætti.

Eftir að niðurstaða lá fyrir settu Sjálfstæðismenn í gang prógram til að lágmarka tjónið fyrir flokkinn og véfengja niðurstöðu þjóðarinnar. Þeir sögðu kosningaþátttökuna of litla og létu sem þeir er heima sátu væru á bandi flokksins. Sögðu að um 70% hefðu ekki mætt eða sagt nei við tillögunum – eins og það sé sami hópurinn!

Þetta gæti ekki verið vitlausara – jafnvel  þó Hannes Hólmsteinn hefði samið það!

Lang líklegast er að þeir sem heima sátu hafi svipuð sjónarmið og hinir sem kusu. Þetta er til dæmis stutt af könnun á viðhorfum til tillagna stjórnlagaráðs frá því í vor. Úrtak allra kjósenda fékk svipaða niðurstöðu og þjóðaratkvæðagreiðslan nú (sjá hér).

Í reynd er kosningaþátttakan mjög vel viðunandi og afar ólíklegt að niðurstaðan hefði orðið önnur jafnvel þó þátttakan hefði verið 80-90%, miðað við ofangreinda könnun. Þar fyrir utan ráða þeir sem mæta og láta sig málið einhverju varða.

Sjálfstæðismenn eru nú komnir í vörn og munu á yfirborðinu fara varlega í að leggjast gegn svona afgerandi niðurstöðu þjóðarinnar, í lokafrágangi nýrrar stjórnarskrár.

Því er líklegast að þeir muni reyna þá taktík að stýra orðalagi nýrra ákvæða, t.d. um náttúruauðlindir í þjóðareigu. Þynna út textann þannig að hann verði meiningarlaus. Þetta hafa þeir leikið áður.

Talsmaður LÍÚ var reyndar þegar kominn í fréttir RÚV í dag með þau skilaboð, að öllu máli skipti hvernig svona ákvæði væri orðað. Ekki mætti taka nein réttindi frá útvegsmönnum sem fyrri stjórnvöld hafi úthlutað þeim!

Sem sagt, ekki mætti breyta neinu sem máli skiptir.

Framsókn ætti hins vegar að styðja tillögur stjórnlagaráðs (sjá hér).

Baráttan um auðlindirnar og lýðræðið heldur þannig áfram, þó Sjálfstæðisflokkurinn og útvegsmenn hafa beðið afhroð í þjóðaratkvæðagreiðslunni í gær.

Þess vegna er mikilvægur sá skilningur sem Jóhanna Sigurðardóttir ítrekaði í dag, að svigrúmið til að víkja frá tillögum stjórnlagaráðs sé lítið og helst bundið við tæknilegar útfærslur.

Þjóðin þarf áfram að halda vöku sinni, því sérhagsmunaöflin ásælast auðlindirnar sem fyrr – og svífast einskis.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 21.10.2012 - 11:24 - FB ummæli ()

Afgerandi niðurstaða – skýr skilaboð.

Þjóðaratkvæðagreiðslan um nýju stjórnarskrána skilar afgerandi niðurstöðu með skýrum skilaboðum.

Kosningaþátttakan er ágætlega viðunandi, nærri helmingur kosningabærra manna tók afstöðu, eða ríflega 130 þúsund manns. Meira en helmingur kjósenda í höfuðborginni mætti á kjörstað. Það er gott fyrir svona atkvæðagreiðslu.

Ég hafði alls ekki gert ráð fyrir að kosningaþátttakan yrði yfir 35% og taldi viðbúið að hún yrði jafnvel nær 30%. Það liggur í því eðli atkvæðagreiðslunnar að hún er krefjandi fyrir þátttakendur, í þeim skilningi að nokkra fyrirhöfn þarf til að kynna sér málavexti og slíkt er alltaf hindrun á þátttöku. Um 37% höfðu mætt til að velja fulltrúa í stjórnlagaráðið og rétt um 30% kusu um framtíð flugvallarins í Vatnsmýri.

Síðan var ekki verið að kjósa um fullfrágengna stjórnarskrá heldur snérist valið um að taka afstöðu til vinnu stjórnlagaráðsins og leggja línur fyrir lokafrágang Alþingis. Auðvelt var fyrir kjósendur að telja sér trú um að þetta væri ekki sérlega mikilvægt á þessu stigi.

Samt er útkoman sterk. Það liggur ekki síst í skýrum og afgerandi svörum kjósenda við spurningunum.

Um tveir af hverjum þremur vilja leggja tillögur stjórnlagaráðs til grundvallar í nýrri stjórnarskrá og hátt í 80% vilja ákvæði um að náttúruauðlindir verði lýstar þjóðareign.

Óvænta niðurstaðan er sú að meirihluti kjósenda vill hafa þjóðkirkjuna áfram í stjórnarskránni. Það er eini liðurinn í atkvæðagreiðslunni sem gengur beinlínis gegn tillögum stjórnlagaráðs. Þessi niðurstaða undirstrikar að þjóðin tekur sjálf sína afstöðu og virðist sjá mikilvægi kirkjunnar óháð hinu ógæfulega biskupsmáli, sem er nú endanlega að baki.

Athygli vekur einnig, þó ekki sé það óvænt, að landsbyggðarfólk er andvígt jöfnun atkvæða en þéttbýlisfólkið á suðvestur horninu fylgjandi; um það bil 70:30 á sitt hvorn veginn. Málamiðlun hlýtur að verða niðurstaðan þar.

Síðan vill þjóðin aukið vægi persónukjörs og greiðari leið til að setja mál í þjóðaratkvæðagreiðslur í framtíðinni.

Niðurstaðan er þannig ákveðin og skýr leiðbeining til Alþingis um að breyta stjórnarskránni til þeirra átta sem fyrir liggja. Það á Alþingi að gera í vetur og klára fyrir næstu kosningar. Alþingi á vissulega að fara varlega og hafa meðalhófsreglur að leiðarljósi þar sem afstaða er ekki einföld eða afgerandi.

Stjórnarskrá á alla jafna að breyta með varkárni þegar ekki er nógu fyrirséð hvaða afleiðingar breytingar geta haft. Til dæmis væri hægt að ganga út í mikla óvissu með róttæku fyrirkomulagi persónukjörs. Sjálfur hef ég reyndar miklar efasemdir um of opið persónukjör, óháð flokkum. Það getur aukið lýðskrum og peningaáhrif í stjórnmálum, jafnvel aukið upplausn. Samt vil ég auka persónuleg áhrif á mannaval þingflokka.

Þó stjórnmálaflokkar hafi brugðist á síðasta áratug – og sumir meira en aðrir – væri of langt gengið að veikja þá alla um of. Leiðin á fyrst og fremst að snúast um að bæta vinnubrögð, heiðarleika og ábyrgð flokkanna, ekki að færa okkur nær meiri sundrungu eða upplausn.

Ein leið til að auka persónuleg áhrif á niðurstöður kosninga væri að auka verulega áhrif útstrikana á framboðslista þess flokks sem viðkomandi velur. Nú er vægi útstrikana alltof lítið. Þetta er einföld og skýr aðferð í framkvæmd og með verulega auknu vægi útstrikana ætti að vera hægt að auka umtalsvert áhrif kjósenda á mannaval á þingi.

Síðan þarf að skýra betur stöðu forsetans og aðkomu almennings að því að koma stórum deilumálum stjórnmálanna í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það var helsti galli atkvæðagreiðslunnar að ekki skyldi spurt um forsetahlutverkið. Þar eru nokkur óleyst mál.

Á heildina litið urðu mikilvæg tímamót á Íslandi í gær. Þeir sem vilja umtalsverðar breytingar á stjórnarskrá unnu stórsigur.

Nýtt Ísland er í sjónmáli!

Þeir sem kvöttu fólk til að segja nei urðu undir með afgerandi hætti. Þeir hafa ekkert umboð til að flækjast fyrir í framhaldinu.

Stjórnlagaráðsfólkið sem samdi góðan leiðarvísi til framtíðar og náði um hann mikilvægri samstöðu hefur unnið gott verk í þágu þjóðarinnar. Þeim ber að þakka, ekki síst þeim úr hópnum sem beittu sér fyrir kosninguna.

Þjóðin hefur talað.

Þjóðin fær nýja stjórnarskrá fyrir næstu kosningar.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 20.10.2012 - 23:49 - FB ummæli ()

Nýja Ísland: Stórsigur í uppsiglingu!

Kjörsókn er mjög viðunandi og stuðningur við nýju stjórnarskrána mjög afgerandi – um tveir þriðju (skv. fyrstu tölum).

Nærri 80% vilja ákvæði um náttúruauðlindir í þjóðareigu.

Nýja Ísland vill líka hafa kirkjuna áfram sem þjóðkirkju.

Mikill meirihluti með öllum áherslum stjórnlagaráðs – nema varðandi þjóðkirkjuna.

 

Nú virðist ljóst að kjörsókn verður mjög viðunandi í þjóðaratkvæðagreiðslunni um nýju stjórnarskrána. Meira en 51% kjörsókn í Reykjavík suður og rúmlega 50% í Reykjavík norður.

Sem sagt, meira en helmingur íbúa höfuðborgarinnar kaus í dag.

47% í Þingeyjarsveit og Skútustaðahreppi. Mun meira en í kosningunni til stjórnlagaráðs.

Meira en að meðaltali í þjóðaratkvæðagreiðslum í Sviss (45%).

Landsmeðaltal kjörsóknar gæti verið 45-50%.

Enginn gat búist við að kjörsókn yrði meira en 30-35% í svona atkvæðagreiðslu, þar sem almenningur þurfti að leggjast í lestur og pælingar til að vera reiðubúinn í atkvæðagreiðsluna.

 

Bjarni Benediktsson hefur þegar játað ósigur og segir augjóst að þjóðin vilji breytingar á stjórnarskránni og taka verði tillit til þess! Hann kvatti alla til að segja nei við breytingunum sem kosið var um.

Þetta eru mikil tíðindi sem hljóta að boða alvöru breytingar á stjórnarskránni.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 20.10.2012 - 22:57 - FB ummæli ()

Nýja Ísland: Stefnir í stórsigur!

Kjörsókn er mjög viðunandi og stuðningur við nýju stjórnarskrána mjög afgerandi – um tveir þriðju.

Nærri 80% vilja ákvæði um náttúruauðlindir í þjóðareigu.

Nýja Ísland vill hafa kirkjuna áfram sem þjóðkirkju.

 

Nú virðist ljóst að kjörsókn verður mjög viðunandi í þjóðaratkvæðagreiðslunni um nýju stjórnarskrána. Meira en 51% kjörsókn í Reykjavík suður.

47% í Þingeyjarsveit og skútustaðahreppi. Mun meira en í kosningunni til stjórnlagaráðs.

Meira en að meðaltali í þjóðaratkvæðagreiðslum í Sviss (45%).

Landsmeðaltal gæti verið 45-50%.

Enginn gat búist við að kjörsókn yrði meira en 30-35% í svona atkvæðagreiðslu, þar sem almenningur þurfti að leggjast í lestur og pælingar til að vera reiðubúinn í atkvæðagreiðsluna.

 

Þetta er mjög spennandi…

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 19.10.2012 - 09:50 - FB ummæli ()

Nýja Ísland segir já!

Fulltrúar gamla Íslands ætla að mæta á kjörstað á laugardag og segja nei við umbótum á stjórnarskránni.

Bjarni Benediktsson hefur sent út tilskipun, að hætti Pútíns, um að allir Sjálfstæðismenn kjósi eins, lúti alræðisvaldi Flokksins og afsali sér sjálfstæði sínu!

Segi nei við öllu sem um verður spurt! Allir sem einn. Það segir ansi mikið.

Sjálfur hugmyndafræðingur hrunsins, Hannes Hólmsteinn Gissurarson, hefur einnig opinberað neikvæðni sína gagnvart nýju stjórnarskránni. Hún þrengir að þeim sem hann fyrir hrun kallaði “Auðmennirnir okkar!” – rétt eins og þeir væru handboltalandsliðið.

Þá veit áhugafólk um nýtt Ísland hvað skal kjósa. Ég ætla að setja við allar spurningarnar.

Hvers vegna?

Nýja stjórnarskráin miðar að því að verja almannahag gegn ásókn sérhagsmunaafla og styrkja lýðræðislegt aðhald. Sérhagsmunaseggirnir sem settu þjóðina á hausinn eru allir andvígir nýju stjórnarskránni.

Þeir vilja hvorki efla lýðræðið, siðferðið né mannréttindin.

Ástæða er þó til að skora á sómakært Sjálfstæðisfólk að fylgja ekki hinum alræðislega formanni og klíkubræðrum hans. Verið frekar sjálfstæð og setjið já við einhverjar spurninganna – takið þátt í mótun nýs Íslands.

Góð kjörsókn og góður meirihluti já-atkvæða tryggir að sjónarmið stjórnlagaráðs verða höfð til hliðsjónar við lokafrágang nýrrar stjórnarskrár. Það styður við uppbyggingu nýs Íslands.

Alþingi mun þó óhjákvæmilega vera íhaldssamt við lokafráganginn og þynna út tillögur um persónukjör, vægi atkvæða og fleira.

Skýr niðurstaða á laugardag stuðlar að stærra framfaraskrefi. Allir ættu að segja já við þjóðareign náttúruauðlinda og að tillaga stjórnlagaráðs verði höfð til grundvallar endurbættri stjórnarskrá. Það er mikilvægast.

Segið einfaldlega já við flestar spurninganna. Þá verða meiri framfarir.

Verum já-kvæð.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 17.10.2012 - 17:33 - FB ummæli ()

Óreiðuskuld Davíðs Oddssonar

Frægt varð þegar Davíð Oddsson, þá aðalbankastjóri Seðlabanka Íslands, sagði í Kastljósi í miðju bankahruninu að við myndum “ekki greiða skuldir óreiðumanna”.

Nú fjórum árum síðar er þetta allt að verða skýrara – á annan veg.

Ríkisendurskoðun skilaði fyrir nokkru skýrslu um fjárhagstjón skattgreiðenda vegna fyrirgreiðslu ríkisins við fjármálastofnanir í kjölfar bankahrunsins. Það er beinn kostnaður vegna endurreisnar fjármálakerfisins sem hrundi. Stærsti hlutinn var vegna gjaldþrots Seðlabankans.

Niðurstaðan er sú, að Seðlabankinn hafði lánað um fjórðung af landsframleiðslu til fjármálafyrirtækja á árinu 2008, þ.e. fram að hruni. Tryggingar vegna þessara lána voru afleitar. Alls töpuðu Seðlabankinn og ríkissjóður um 267 milljörðum vegna þessa.

Tjónið er um 800 þúsund krónur á hvern Íslending, eða um 3,2 miljónir á hverja fjögurra manna fjölskyldu.

Þetta má telja óreiðuskuld Davíðs Oddssonar vegna þess að hann hefur sagt eftir hrun, að hann hafi vitað snemma í febrúar 2008 að bankarnir væru dauðadæmdir. Hann ítrekaði það í vitnisburði fyrir Landsdómi fyrr á þessu ári.

Samt lánaði hann þeim gríðarlegar upphæðir gegn ófullnægjandi veðum. Síðasta lánið, um 80 milljarðar, fór til Kaupþings eftir að bankahrunið var hafið.

En þetta er fjarri því að vera allt tjónið sem hlaust af frjálshyggjutilrauninni sem Davíð Oddsson stýrði okkur inn í. Hrun krónunnar, sem seðlabankastjórarnir áttu að verja, kostaði samfélagið einnig gríðarlegt fé í hækkuðum skuldum heimila, fyrirtækja og hins opinbera.

Ýmislegt annað mætti tína til, svo sem hugsanlegan kostnað ríkisins af Icesave-máli Landsbankans o.m.fl.

Tjón íslensku þjóðarinnar vegna þessarar ógæfulegu tilraunar er því ekki nærri allt fram komið á þessu stigi.

En ofangreindur hluti af óreiðuskuld Davíðs Oddssonar, sem þegar liggur fyrir, er þó ærinn. Þetta eru skuldir sem munu fylgja þjóðinni langt inn í framtíðina.

Dýr verður Davíð allur – þegar upp verður staðið.

Svo mikið er víst.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

Þriðjudagur 16.10.2012 - 12:44 - FB ummæli ()

Lekakenning frjálshyggjunnar

Sífellt verður ljósara að hagfræði frjálshyggjunnar byggir á blekkingum, sem miða flestar að því að sópa stærri hluta þjóðarauðsins til yfirstéttarinnar.

Frjálshyggjumenn neituðu því aldrei að kenningar þeirra væru auðmönnum hagfelldar. Í staðinn sögðu þeir að besta leiðin til að auka hagvöxt væri sú að bæta fyrst  hag auðmanna, síðan myndi auðurinn leka niður til almennings og jafnvel til lágstéttanna. Þetta var kallað “lekakenningin” (trickle-down theory), áður “brauðmylsnukenningin”.

Samkvæmt þessari kenningu eiga menn fyrst að lækka skatta á auðmenn ef þeir vilja bæta hag fátækra. Þó þetta sé vægast sagt langsótt þá virkaði það á suma!

Alkunna er að áhrif frjálshyggju jukust verulega á Vesturlöndum eftir 1980. Því fylgdi aukin ójöfnuður (bættur hagur auðmanna og hnignun hags milli- og lágstétta), aukið vægi fjármálageira og aukin hætta á fjármálakreppum. Hagvöxtur varð hins vegar markvert minni eftir 1980 en á áratugum blandaða hagkerfisins, frá um 1950 og fram undir 1980.

Staðreyndirnar blasa sem sagt við. Lekakenning frjálshyggjunar eykur einfaldlega auð hátekjufólks en gagnast engum öðrum. Í besta falli lekur auður úr landi í erlend skattaskjól! Ekki gagnast það almenningi heldur, enda er með því tappað mikilvægu blóði af þjóðarbúinu.

Frjálshyggjan sýnir sig þannig að vera hugmyndafræði sem réttlætir óréttlætið: aukinn auð hástéttarinnar á kostnað almennings. Hástéttin er ríkasta 1% þjóðarinnar, en almenningur eru hin 99% sem eftir sitja. Almenningur fær svo reikninginn þegar brask og skuldasöfnun auðmanna keyrir í þrot með fjármálakreppum og hruni, eins og hér varð. Joseph Stiglitz, Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, hefur fjallað um þetta á skýran hátt (sjá hér).

Vel má vera að einstaka hagfræðingar hafi trúað lekakenningunni, þó sannanir hafi alltaf vantað. Líklegar er þó að talsmenn lekakenningarinnar og boðberar frjálshyggju hafi einfaldlega verið í hláturkór auðmanna, eins og þeirra sem fagna á myndinni hér að neðan.

Aðhlátursefnið er auðvitað hversu auðvelt var að blekkja almenning með ýmsum brellum vúdú-hagfræðinnar, sem frjálshyggjumenn bjuggu til.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar