Mánudagur 15.10.2012 - 00:18 - FB ummæli ()

Ójöfnuður og frjálshyggja í USA

Það er fróðlegt að skoða þróun tekjuójafnaðar í Bandaríkjunum yfir lengri tíma.

Ójöfnuður tekna náði hámarki þar á árinu 1928 og síðan aftur á árinu 2007. Í bæði skiptin fylgdi stór fjármálakreppa í kjölfarið.

Þetta er athyglisvert samband, sem margir fræðimenn erlendis hafa tekið eftir. En ójöfnuður og fjármálakreppur virðast einnig vera nátengdar frjálshyggjupólitík.

Áratuginn frá um 1920 til upphafs Kreppunnar miklu haustið 1929 var ójöfnuður að aukast mjög hratt (sjá myndina). Það var einnig tímabil vaxandi frjálshyggjuáhrifa. Forsetarnir þrír sem sátu á þessum tíma voru allir hallir undir frjálshyggju og hægri pólitík (Harding, Coolidge og Hoover).

Eftir hrunið á Wall Street haustið 1929 tók við Kreppan mikla með 32% samdrætti þjóðarframleiðslu og um 25% atvinnuleysi þegar mest varð. Ójöfnuður hélst áfram mikill, þó úr honum hafi dregið. Eftir seinni heimsstyrjöldin rann hins vegar upp nýtt tímabil, með breyttri pólitík og breyttri skipan efnahags- og samfélagsmála.

Það var gullöld blandaða hagkerfisins, sem stóð fram á áttunda áratuginn. Þetta varð eitt allra mesta góðærið í sögu Bandaríkjanna, og reyndar flestra þjóða á Vesturlöndum. Hagvöxtur var mikill, kaupmáttur almennings jókst mikið og jöfnuður tekna var þá mun meiri en fyrir heimsstyrjöldina. Lífskjör alls þorra almennings bötnuðu sem aldrei fyrr. Neysluþjóðfélag millistéttarinnar kom til sögunnar.

Síðan tók við nýtt tímabil vaxandi frjálshyggjuáhrifa upp úr árinu 1980, með ríkisstjórn Ronald Reagans. Þá tók ójöfnuður að aukast hratt á ný, eins og sjá má á myndinni sem hér fylgir.

Mynd 1: Samband milli tekjuójafnaðar og frjálshyggjuáhrifa í Bandaríkjunum, 1917 til 2010. Svörtu línurnar á myndinni sýna hlutdeild tekjuhæstu 10% fjölskyldna af heildartekjum allra. Því hærra sem þær fara, þeim mun meiri var ójöfnuðurinn. (Heimild: E. Saez; http://elsa.berkeley.edu/~saez/).

 

Myndin sýnir hvernig ójöfnuðurinn jókst nær stöðugt frá stjórnartíma Reagans upp úr 1980 og fram að fjármálakreppu. Aðeins gætir frávika á skemmri tímabilum.

Frjálshyggjan leiddi til aukins ójafnaðar, bæði með því að réttlæta verulega hækkaðar tekjur til atvinnurekenda og fjármálamanna, með auknu frelsi á fjármálamarkaði og með skattafríðindum til hátekju- og stóreignafólks. Á sama tíma var þrengt að lágtekjufólki – lægri laun og bætur rýrnuðu.

Frjálshyggjan hafði einnig þau áhrif að auka stórlega hættu á fjármálakreppu, sem varð reyndin í bæði skiptin eftir að ójöfnuður hafði náð hámarki.

Samband frjálshyggju og aukins ójafnaðar var alla jafna mest í enskumælandi löndunum í þróaða heiminum. Þeirra gætti þó á svipaðan hátt víðar, t.d. í sumum löndum Suður-Ameríku, Asíu og í Austur-Evrópu eftir 1990.

Frjálshyggja og ójöfnuður virðast nátengd.

Á Íslandi var óvenju sterkt samband milli frjálshyggjuáhrifa og aukins ójafnaðar frá 1995 til 2007. Meira um það síðar.

 

 

Sjá meira um þetta efni í bók Anthony B. Atkinson og Thomas Piketty, Top Incomes: A Global Perspective. Oxford and New York: Oxford University Press.

Einnig nýja grein eftir Atkinson, Piketty og Saez (2011), Top Incomes in the Long Run of History 

Einnig grein mína og Arnaldar Sölva Kristjánssonar, Þróun tekjuskiptingarinnar á Íslandi frá 1992 til 2010

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

Laugardagur 13.10.2012 - 12:45 - FB ummæli ()

Hefðu Norðmenn átt að gefa auðmönnum olíuna?

Það er athyglisvert að fylgjast með því hverjir eru andvígir nýju stjórnarskránni og ekki síst nýja ákvæðinu um náttúruauðlindir.

Það er að mörgu leyti sama fólkið og bjó til kvótakerfið og bóluhagkerfið sem færði okkur hrunið – þ.e. yfirstéttin og stjórnmálamenn frjálshyggjunnar.

Hér var kvótakerfinu komið á með þeim hætti að þær útgerðir sem höfðu stundað fiskveiðar í þrjú ár fyrir upptöku kerfisins fengur úthlutað kvóta/veiðirétti eftir hlutdeild sinni í heildarafla – ókeypis. Síðar var heimilað framsal kvótans að ósk útvegsmanna.

Þannig var fiskveiðiauðlindin í reynd einkavædd – án endurgjalds. Hún var gefin.

Svo sögðu hagfræðingar frjálshyggjunnar að þetta væri sérstaklega hagkvæmt því þjóðin nyti afrakstursins sem yrði enn meiri en áður. Arður þjóðarinnar af fiskveiðiauðlindinni jókst þó ekki en arður kvótagreifa stórjókst.

Ef Norðmenn hefðu farið eins að varðandi olíuauðlind sína þá hefðu þeir gefið einkaaðilum hana. Til dæmis hefðu þeir þá úthlutað vinnslurétti olíu á landgrunninu til norsku olíufélaganna eftir markaðshlutdeild þeirra. Niðurstaðan hefði verið sú að einkafyrirtæki hefðu notið auðsins sem olíuauðlindin skapaði. Þjóðin hefði í besta falli fengið skatttekjur af þeim sem unnu við olíuiðnaðinn.

Norðmenn hugsuðu hins vegar meira um almannahag. Þeir stofnuðu Statoil og tryggðu að meginhluti arðsins af auðlindinni rynni í sameiginlegan sjóð þjóðarinnar sem myndi nýtast til að bæta hag hennar til lengri tíma. Sú leið hefur gefist afar vel og gert Norðmenn að einni af hagsælustu þjóðum heims.

Nýja stjórnarskráin eykur líkur á að svipaðar leiðir yrðu farnar á Íslandi í framtíðinni.

Auðlindirnar verða þá frekar nýttar í þágu almannahags en sérhagsmuna yfirstéttarinnar.

Þess vegna er svo mikilvægt að kjósa þann 20. október og setja JÁ við spurningu nr. 1 og enn frekar við nr. 2 um auðlindaákvæðið í þjóðareigu.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 12.10.2012 - 00:42 - FB ummæli ()

Þjóðin eigi Þingvelli – og fiskimiðin líka

Ég hef verið að lesa nýju stjórnarskrána, sem hið geðþekka stjórnlagaráð setti saman. Mér lýst afar vel á hana.

Hún er öll nútímalegri og skýrari en sú gamla. Ég er ánægður með mörg nýju ákvæðin, til dæmis um mannréttindi, svo sem um upplýsingarétt, félagsleg réttindi, frelsi fjölmiðla og menntun. Í öllum þessum þáttum eru nýmæli sem skerpa á og skýra í þágu almannahags.

Það helsta sem ég hef efasemdir um er ákvæðið um aukið persónukjör. Ég þarf þó að skoða það betur.

Hrifnastur er ég af náttúruauðlindaákvæðinu. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir almannahag. Við sjáum það best af því hverjir eru andvígir því: kvótagreifar, auðmenn og braskarar, sem fyrir hrun ásældust kvóta, hálendið, orkulindirnar – og jafnvel vatnið.

Dapurlegast finnst mér þegar lögfræðingar yfirstéttarinnar reyna að telja mér trú um að hugtakið “þjóðareign” hafi enga meiningu!

Efast nokkur um að þjóðin eigi Þingvelli? Þarf eitthvað að velta fyrir sér hvað það þýðir? Nei, ég held ekki.

Hið sama á að gilda um fiskimiðin, orkulindir og aðrar náttúruauðlindir sem ekki eru þegar í einkaeigu. Það allt á að vera eins og Þingvellir – í eigu þjóðarinnar.

Fyrir hrun voru kvótagreifar og stjórnmálamenn frjálshyggjunnar búnir að slá einkaeign sinni á fiskimiðin og vildu allt hitt líka.

Þeir vilja ekki einu sinni að þjóðin fái auðlindarentu af sjávarauðlindinni heldur renni arðurinn óskiptur í einkavasa greifanna. Hugsið ykkur ef Norðmenn hefðu farið þannig að og gefið einkaaðilum olíuauðlind sína!

Fátt er mikilvægara en að stoppa allt slíkt. Það gerir nýja stjórnarskráin.

Kjósum því öll og segjum örugglega  við fyrstu tveimur spurningunum. Skoðum hinar síðar.

Hér er hið nýja ákvæði um náttúruauðlindirnar:

 

Náttúruauðlindir.

Auðlindir í náttúru Íslands, sem ekki eru í einkaeigu, eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar. Enginn getur fengið auðlindirnar, eða réttindi tengd þeim, til eignar eða varanlegra afnota og aldrei má selja þær eða veðsetja.

Til auðlinda í þjóðareign teljast náttúrugæði, svo sem nytjastofnar, aðrar auðlindir hafs og hafsbotns innan íslenskrar lögsögu og uppsprettur vatns- og virkjunarréttinda, jarðhita- og námaréttinda. Með lögum má kveða á um þjóðareign á auðlindum undir tiltekinni dýpt frá yfirborði jarðar.

Við nýtingu auðlindanna skal hafa sjálfbæra þróun og almannahag að leiðarljósi.

Stjórnvöld bera, ásamt þeim sem nýta auðlindirnar, ábyrgð á vernd þeirra. Stjórnvöld geta á grundvelli laga veitt leyfi til afnota eða hagnýtingar auðlinda eða annarra takmarkaðra almannagæða, gegn fullu gjaldi og til tiltekins hóflegs tíma í senn. Slík leyfi skal veita á jafnræðisgrundvelli og þau leiða aldrei til eignarréttar eða óafturkallanlegs forræðis yfir auðlindunum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 9.10.2012 - 18:08 - FB ummæli ()

Fátækt Hannesar Hólmsteins

Í hádeginu í dag fór ég á fyrirlestur Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar um fátækt á Íslandi á stjórnartíma Davíðs Oddssonar (1991 til 2004).

Í dæmigerðum stíl Hannesar hefur hann nú skrifað bloggfærslu um fund þennan (sjá hér). Fyrirsögnin er “Fjörugar umræður: Stefán í uppnámi”.

Þetta er það sem maður myndi jafnvel kalla skemmtilega ósatt! Hvorki voru umræðurnar fjörugar né ég í uppnámi!

Fundurinn var þannig að Hannes flutti erindi sitt, sem var grautarleg blanda af frjálshyggjuáróðri og molum um fátækt og ójöfnuð, en þó mest um að ég hefði haft uppi áróður og reiknivillur um fátækt og ójöfnuð í aðdraganda kosninganna 2003 og 2007.

Þetta var fátækleg umfjöllun um fátækt.

Eftir erindi Hannesar var orðið laust. Eftir smá þögn bað ég um orðið og fékk. Ég gerði athugasemdir við fjögur grundvallaratriði í málflutningi Hannesar. Leiðrétti misskilning og fákunnáttu hans, leiðrétti rangfærslur um tölur sem hann eignaði mér og útskýrði hvernig hann hafði rangt fyrir sér um það sem hann sagði um fátækt og tekjuójöfnuð.

Eftir að ég hafði gert þessar athugasemdir svaraði Hannes með þunnum og fálmkenndum útúrsnúningi. Síðan var orðið aftur laust – en enginn annar tók til máls.

Það kallar Hannes sem sagt “fjörugar umræður”!

Mun nákvæmari lýsing hefði verið: “Þögn sló á salinn”! Þetta var hin vandræðalegasta stund fyrir Hannes.

Hannes hefur skrifað meira en eitt hundrað áróðurs- og ófrægingagreinar um mig og verk mín á síðustu fjórum árum. Ég hef engu svarað þeim skrifum. Í erindinu í dag stillti hann enn einu sinni upp því sem hann telur bitastæðast í þeim skrifum sínum. Það var alveg jafn þunnt og ómerkilegt og í öll hin hundrað skiptin.

Ég mun ekki elta ólar við fúsk, afbakanir og ósannindi Hannesar hér.

Hins vegar mun ég skrifa um ójafnaðarþróunina og ýmislegt fleira sem tengist kjaraþróun á árunum bæði fyrir og eftir hrun hér á Eyjunni á næstu vikum, í bland við ýmislegt áhugavert sem uppá kemur.

Í millitíðinni bendi ég áhugasömum á ítarlega nýja rannsóknargrein mína og Arnaldar Sölva Kristjánssonar hagfræðings, um þróun tekjuskiptingarinnar á Íslandi frá 1992 til 2010, í tímaritinu Stjórnmál og stjórnsýsla.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 8.10.2012 - 00:15 - FB ummæli ()

Styrmir velur formann Samfylkingar

Á meðan Sjálftæðisflokkurinn hafði nánast ofurvald á Íslandi, þ.e. á áratugunum sex fram að hruni, reyndu áhrifamenn þar oft líka að stýra vinstri flokkum – og jafnvel kljúfa þá. Þetta byggðist meðal annars á miklum áhrifum Morgunblaðsins á þeim tíma.

Stundum voru vinstri menn þó alveg fullfærir um að sundra sér sjálfir.

Þá sjaldan að vinstri stjórnir sátu í stjórnarráðinu voru Moggamenn yfirleitt fljótir að sjá hvar veika hlekki var að finna í meirihlutanum. Þeim var hampað í blaðinu og stefnt gegn samherjum og stjórninni. Þannig tókst oft að kljúfa slíkar stjórnir áður en kjörtímabilið var liðið – og þar með fella stjórnina.

Þetta hafa Sjálfstæðismenn reynt linnulaust allt núverandi kjörtímabil og náð nokkrum árangri í að magna klofning og sundrungu innan VG. Kvótakóngar Sjálfstæðisflokksins réðu Davíð Oddsson sem ritstjóra Morgunblaðsins einmitt vegna þess að þeir töldu hann geta beitt blaðinu til að reka ríkisstjórnina frá völdum á nokkrum mánuðum (þetta er haft eftir manni úr hópi eigenda Morgunblaðsins).

Samt hefur enn ekki tekist að fella stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur! Núverandi stjórn virðist geta orðið fyrsta vinstri stjórnin til að sitja út kjörtímabilið. Sennilega er áhrifavald Moggans og Davíðs Oddssonar orðið of lítið til að hrekja stjórnina frá völdum.

Styrmir Gunnarsson var listamaður í slíkri herfræði þegar hann var ritstjóri Morgunblaðsins. Hann reynir ennþá að stýra andstæðingum Sjálfstæðisflokksins í pistlum sínum á Evrópuvaktinni,  með gömlu töktunum sínum.

Allt síðasta árið hefur Styrmir hamast við að koma Jóhönnu Sigurðardóttur úr formannssæti í Samfylkingunni, með skrifum sínum. Hann taldi greinilega að það þjónaði hagsmunum Sjálfstæðisflokksins að Jóhanna myndi ekki leiða Samfylkinguna í næstu kosningum.

Nú vill Styrmir fá að velja næsta formann Samfylkingarinnar og hefur þegar tilkynnt val sitt (sjá hér). Hann vill Árna Pál Árnason.

Í pistli sínum í gær skipar hann Árna Páli að hefja stórsókn gegn Katrínu Júlíusdóttur – nú þegar! Hann segir líf eða dauði Árna Páls í stjórnmálum vera í húfi. Árni Páll verði að fella Katrínu í prófkjöri og megi engan tíma missa.

Síðan leggur hann Árna Páli línuna í pólitík með eftirfarandi hætti:

“Er það rétt mat, sem m.a. hefur komið fram hér á Evrópuvaktinni að hann vilji draga Samfylkinguna aftur inn á miðjuna?

Er það rétt mat, sem m.a. hefur komið fram hér á Evrópuvaktinni, að hann vilji hægja á aðildarumsókninni?

Hver er afstaða hans til fiskveiðistjórnarmála? Hversu langt vill hann ganga í breytingum á fiskveiðistjórnarkerfinu?

Hver er afstaða hans til stjórnarskrármálsins? Er hann með eða á móti þeim tillögum, sem svonefnt stjórnarskrárráð hefur sett fram?

Hver er afstaða hans til frekari uppbyggingar stóriðju? Vill hann halda áfram að standa á bremsunum eða stíga benzínið í botn?“

Þessi texti Styrmis hljómar eins og upphaf fyrsta fundar í stjórnarmyndunarviðræðum Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar! Þessir punktar rúmast raunar allir í einni setningu: Hversu lang í átt að stefnu Sjálfstæðisflokksins er Árni Páll tilbúinn að ganga?

Það er þannig ljóst að Styrmir telur Árna Pál henta markmiðum Sjálfstæðisflokksins afar vel. Markmið Sjálfstæðisflokksins að þessu leyti eru einkum tvenns konar:

  • Að Samfylkingin verði ekki of stór og ógni ekki forræði Sjálfstæðisflokksins
  • Að Samfylkingin geti verið hentugur valkostur til að þjóna sem hækja í stjórn með Sjálfstæðisflokknum (ef Framsókn verður ekki nógu stór)

Það er athyglisverð spurning hvort þetta inngrip Styrmis og annarra Sjálfstæðismanna verði framboði Árna Páls til framdráttar innan Samfylkingarinnar?

Vonandi er þó sjálfstraust Samfylkingarfólks orðið nógu sterkt til að láta svona skrif Sjálfstæðismanna sem vind um eyru þjóta.

Það var stefna Sjálfstæðisflokksins sem öðru fremur orsakaði hrunið. Flokkurinn hefur þó í engu breytt þeirri stefnu. Samfylkingin gerði stór mistök í stjórnarsamstarfinu með Sjálfstæðisflokki frá 2007 til 2008, meðal annars með því að eftirláta honum alla helstu þætti fjármála og efnahagsstjórnarinnar – allt það sem hrundi.

Samfylkingin sætti sig m.a. við að viðskiptaráðherra hennar væri áhrifalaus á ögurstundu, vegna þess að það var fyrir neðan virðingu Davíðs Oddssonar seðlabankastjóra að tala við hann.

Samfylkingin hefur hins vegar náð góðum árangri í núverandi stjórn.

Það væru því söguleg mistök ef Samfylkingin kokgleypti stefnu Sjálfstæðisflokksins og gengi í björg hans eftir næstu kosningar, eins og Framsóknarflokkurinn gerði frá 1995 til 2007.

Það er Sjálfstæðisflokkurinn sem þarf að laga sig að stefnu annarra – eftir að hann hefur lokið alvöru iðrun og endurhæfingu sinni.

Hvernig má það annars vera að Sjálfstæðisflokkurinn telji að aðrir flokkar eigi að beygja sig undir stefnuna sem brást svo herfilega?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 6.10.2012 - 16:50 - FB ummæli ()

Skatttekjur á mann lækkuðu um 503.000 kr.

Í framhaldi af frétt RÚV í fyrradag um að skattahækkanir á hvern skattgreiðanda eftir hrun hefðu numið um 360 þúsund krónum skrifaði ég grein í gær sem sýndi að bæði heildartekjur hins opinbera og skatttekjur allar höfðu lækkað umtalsvert frá 2007 til 2011, bæði m.v. fast verðlag og sem hlutfall af þjóðarframleiðslu.

Í dag sýni ég hvernig heildarskatttekjur hins opinbera á hvern íbúa í landinu þróuðust frá árinu 2000 til 2011. Tölurnar eru reiknaðar út frá opinberum tölum Hagstofunnar um tekjur hins opinbera og mannfjölda.

Mynd: Skatttekjur hins opinbera á hvern íbúa, á föstu verðlagi ársins 2011.

Skatttekjur hins opinbera (ríkis og sveitarfélaga saman) voru 517,7 milljarðar árið 2011. Deilt niður á íbúa voru það að jafnaði 1.625.636 krónur á mann.

Hæstar urðu skatttekjurnar árið 2007, en þá voru þær um 655 milljarðar eða 2.129.160 á mann. Þetta eru allar skatttekjur, bæði beinir og óbeinir skattar.

Skatttekjurnar á íbúa lækkuðu sem sagt frá 2007 til 2011 um 503.524 krónur að jafnaði.

Skatttekjurnar eru árið 2011 svipaðar og hafði verið milli áranna 2003 og 2004.

Þetta rýmir illa við frétt RÚV um að auknar skattaálögur á hvern skattgreiðanda hafi numið 362 þúsund krónum á sama tímabili. Inn í reiknidæmi RÚV vantar allar lækkanir á skattheimtu sem urðu á sama tíma. Þetta passar hins vegar ágætlega við aðra frétt sem RÚV var með í gær um lækkun opinberra útgjalda eftir hrun.

Skatttekjur lækkuðu eftir hrun vegna minni skattstofna (minni neyslu og lægri tekna) og breyttrar álagningar. Skattbyrði hækkaði í efri tekjuhópum en lækkaði hjá lægri tekjuhópum.

Þetta eru staðreyndirnar.

Þarf RÚV ekki að leiðrétta svona villandi frétt?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

Föstudagur 5.10.2012 - 00:37 - FB ummæli ()

Furðufrétt á RÚV

Í sjónvarpsfréttum RÚV í gærkvöld var frétt um að hundruð breytinga hefðu verið gerðar á skattkerfinu eftir hrun sem hefðu falið í sér hækkun gjalda á hvern íbúa upp á um 360.000 krónur. Fréttin virtist vera í boði Viðskiptaráðs.

Vissulega hafa verið gerðar breytingar á tekjuöflunarkerfi hins opinbera vegna hrunsins, en þær telja ekki í hundruðum. Sumar breytingar hafa lækkað skatta en aðrar hækkað. Byrðunum hefur meira verið endurdreift en að þær hafi verið auknar.

Meðlimir Viðskiptaráðs greiða nú meira en fyrir hrun (bæði fyrirtæki, stórir fjármagnseigendur og hátekjufólk), en rúmlega helmingur fjölskyldna greiðir minna í tekjuskatta en fyrir hrun, þ.e. þau 60% fjölskyldna sem lægri tekjur hafa. Sumir greiða meira í neysluskatta en aðrir minna.

Reyndar hafa bæði heildartekjur og skatttekjur hins opinbera stórlækkað eftir hrun. Heildartekjur hins opinbera voru t.d. árið 2011 um 18% lægri að raunvirði en verið hafði á árinu 2007.

Þessa þróun tekjuöflunar hins opinbera má sjá á tveimur meðfylgjandi myndum, sem koma úr birtum gögnum Hagstofu Íslands.

Mynd 1: Heildartekjur og skatttekjur hins opinbera á föstu verðlagi, frá 2000 til 2011 (m.kr.).

Heildartekjur á föstu verðlagi eru svipaðar árið 2011 og var milli áranna 2004 og 2005, en skatttekjurnar eru svipaðar og var á árinu 2004.

Mynd 2: Heildatekjur og skatttekjur hine opinbera sem % af vergri landsframleiðslu, 2000 til 2011.

Skatttekjur hins opinbera eru nú minni sem hlutfall af landsframleiðslu en áður hefur verið frá árinu 2000 og heildartekjurnar eru svipaðar og var á árinu 2002. Minni skattstofnar, lægri tekjur og breytt álagning eiga þátt í þessum breytingum.

Það er magnað að RÚV skuli flytja svona “frétt” sem augljóslega er matreidd af hagsmunaaðila fyrir fréttastofuna og fær ekki staðist. Ekki er rætt við neinn hlutlausan aðila, eins og Ríkisskattstjóra, Hagstofu Íslands, ráðuneyti né fræðimenn.

Ef Þjóðhagsstofnun væri enn starfandi hefði t.d. verið kjörið að leita til hennar um álit á málinu og forðast svona áróður undir yfirskini frétta.

Niðurlagning Þjóðhagsstofnunar hefur haft þær afleiðingar að hagsmunaaðilar eiga mun auðveldara með að afbaka tölur en áður var og villa þannig um fyrir almenningi.

Staðreyndir víkja þannig í meiri mæli en áður fyrir blekkingum og áróðri. Það er leiðinlegt að sjá þetta gerast með svona afgerandi hætti á RÚV.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

Fimmtudagur 4.10.2012 - 10:52 - FB ummæli ()

Atvinnurekendur vilja meiri frjálshyggju

Samtök atvinnulífsins hafa kynnt nýjar tillögur sínar um breytingar á samkeppnislögum. Samtökin vilja veikja framkvæmd laganna, veikja Samkeppniseftirlitið og fá meira frelsi á markaðinn.

Fræg er lýsing Adams Smith í bókinni Auðlegð þjóðanna á því hvernig fundir kaupahéðna snúast gjarnan upp í tal um samráð gegn hagsmunum almennings. Þetta má einmitt sjá í framkvæmd í þessum nýju tillögum Samtaka atvinnulífsins.

Forstjóri Samkeppnisyfirlitsins talaði óvenju skýrlega á fundi SA í gær um þessi nýmæli. Eftirfarandi er niðurstaða hans af yfirferð um helstu tillögurnar:

“Allar þessar tillögur vinna í eðli sínu gegn hagsmunum þeirra fyrirtækja sem þurfa á samkeppnislögum að halda til að komast inn á markaði og vaxa og dafna við hlið stærri fyrirtækja. Þær vinna gegn hagsmunum neytenda og samfélagsins af virkri samkeppni”.

Afskiptaleysisstefna frjálshyggjunnar var ráðandi á árunum frá aldamótum til hruns. Það sjónarmið var afdrifaríkast og skaðlegast á fjármálamörkuðum. Hér á landi sáum við á þeim tíma ítrekaðar tillögur um niðurlagningu Samkeppniseftirlitsins eða rýrnun þess og Fjármálaeftirlitsins. Menn í atvinnulífi og á hægri væng stjórnmálanna töluðu af mikilli fyrirlitningu um “eftirlitsiðnaðinn” sem þeir sögðu hamla frelsi fyrirtækjaeigenda.

Nú sjá hins vegar flestir málsmetandi menn og konur á Vesturlöndum að afskiptaleysisstefnan á fjármálamörkuðunum leiddi þjóðir heimsins í ógöngur fjármálakreppunnar. Engin þjóð fór ver út úr þeirri þróun en Íslendingar.

Viðskiptaráð stærði sig af því að hafa komið 95% af stefnumálum sínum inn í stefnu ríkisstjórna Sjálfstæðisflokks og Framsóknar. Stefnumál Viðskiptaráðs voru nær öll af frjálshyggjutoga. Þessir aðilar hafa engu breytt í stefnu sinni, þrátt fyrir hrunið.

Nú hafa Samtök atvinnulífsins komið til dyranna eins og þau eru klædd. Vilja rýra eftirlit og aðhald á markaðinum almennt, jafnvel þó það vinni gegn hagsmunum neytenda og samfélagsins af virkri samkeppni.

Samtök atvinnulífsins vilja frelsi án aðhalds og gefa þannig lítið fyrir boðskap Adams Smiths. Samt hæla þeir honum á tillidögum…

Vofa frjálshyggjunnar leikur enn ljósum logum um Ísland.

 

 

 

 

 

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

Miðvikudagur 3.10.2012 - 15:29 - FB ummæli ()

Þjóðarhagur og rödd skynseminnar

Í gær kom saman hópur fólks úr öllum stjórnmálaflokkum og ýmsum kimum samfélagsins. Þau sömdu áskorun til þjóðarinnar og stjórnmálamanna um að gæta betur að framtíðarhagsmunum þjóðarinnar.

Þarna hljómaði rödd skynseminnar.

Vönduð ný skýrsla Seðlabanka Íslands um valkosti í gjaldmiðilsmálum þjóðarinnar sýndi svart á hvítu, að raunhæfustu valkostirnir í þeim efnum eru áframhald krónuhagkerfisins, þ.e. óbreytt ástand með þeim göllum og kostum sem við þekkjum alltof vel, eða aðild að ESB og upptaka Evru.

Við þær aðstæður segir rödd skynseminnar að við eigum að halda báðum leiðum opnum og kanna þær til hlítar, til að vita hvernig best megi ná árangri.

Þess vegna er mikilvægt að klára aðildarviðræður við ESB, á þeim tíma sem til þarf. Þannig könnum við þá leið til þrautar og tökum svo skynsamlega afstöðu til hennar í samanburði við krónuleiðina. Kanna þarf einnig hvort og hvernig efla megi krónuhagkerfið frá því sem nú er.

Þjóðmálaumræðan er hins vegar of oft fráhverf því að kanna kosti Evru og aðildar að ESB til hlítar og einkennist jafnvel af ofsa og forheimskun, bæði til hægri og vinstri. Það er hættulegt.

Við eigum sem þjóð að hafa þrek til að kanna helstu kosti okkar með skynsemina að leiðarljósi.

Ég tek því heilshugar undir tilmæli þessa góða fólks sem kom saman í gær og talaði máli skynseminnar. Læt ályktun þeirra og nöfn fylgja hér með:

„Mikilvægasta verkefni íslenskra stjórnmála er að tryggja sambærileg lífskjör og í grannlöndum. Við ungu fólki á Íslandi blasir hins vegar framtíð með lægri launum, dýrara lánsfé, minna athafnafrelsi og veikara velferðarkerfi. Þessari framtíðarsýn þarf að breyta.

Fyrirsjáanlegt er að Ísland muni búa við takmarkanir á viðskiptafrelsi um langa framtíð verði ekkert að gert.

Þær hugmyndir sem uppi eru um nýtt form gjaldeyrishafta sýna – svo að ekki verður um villst – að óbreytt staða er óhugsandi og endurskoðun samningsins um Evrópska efnahagssvæðið er óhjákvæmileg.

Stöðu Íslands á innri markaðnum verður að styrkja og jafna samkeppnisstöðu við nágrannalönd. Því er nauðsynlegt að ná breiðri samstöðu um þessi brýnustu markmið:

  • Agaða hagstjórn sem samræmi stefnuna í ríkisfjármálum og málefnum atvinnuveganna markmiðinu um fjármálastöðugleika og upptöku nothæfs gjaldmiðils.
  • Traustan pólitískan stuðning við efnahagsmarkmiðin og aðildarviðræður við Evrópusambandið. Einungis þannig næst fram eins hagstæður samningur og mögulegt er, sem þjóðin tekur síðar afstöðu til.
  • Nýja raunhæfa áætlun um aðildarviðræðurnar með hliðsjón af aðstæðum hér heima og í Evrópu, sem gefur rýmri tíma til að ná samstöðu sem tryggi hagsmuni þjóðarinnar.
  • Sú breyting á stjórnarskránni taki gildi sem tryggir að þjóðin geti tekið þessar brýnu ákvarðanir um stöðu Íslands í Evrópu á næsta kjörtímabili.

Ekki er rökrétt að veikja stöðu Íslands með því að loka á einstaka kosti meðan ekki er vitað að aðrir séu færir. Við skorum því á fólkið í landinu að taka höndum saman um öfgalaus viðhorf, að beita áhrifum sínum til að þrýsta á stjórnmálaflokkana og treysta samstöðu um þjóðarhagsmuni, festu í alþjóðasamskiptum og eflingu hagstjórnar á Íslandi. Þannig verða samkeppnishæfni og ásættanleg lífskjör þjóðarinnar tryggð til framtíðar.“

Reykjavík, 2. október 2012,

Eftirfarandi skrifuðu undir yfirlýsinguna. Starfsheiti aðeins til glöggvunar, en allir mættu til fundar sem einstaklingar en ekki fulltrúar annarra.

Ari K. Jónsson, rektor HR
Andrés Magnússon, frkvstj. Samt. verslunar og þjónustu
Andrés Pétursson, Alþjóðastofnun HÍ
Árni Gunnarsson, fv. alþm.
Árni Oddur Þórðarson, Eyri
Baldur Þórhallsson, HÍ
Benedikt Jóhannesson, frkvstj. Talnakönnunar
Björn Sigurbjörnsson, fv. ráðuneytisstj.
Bolli Valgarðsson, ráðgjafi
Einar Stefánsson, læknir
Erna Bryndís Halldórsdóttir, lögg. end.
Finnbjörn A. Hermannsson, form. Samiðnar
Finnur Oddsson, frkvstj. Viðskiptaráðs
Friðrik Pálsson, forstj. Hótels Rangár
G.Valdimar Valdimarsson, kerfisfr.
Gísli Hjálmtýsson, frkvstj. Thule
Grímur Sæmundsen, forstj. Bláa lónsins
Guðmundur Gunnarsson, verkalýðsforingi
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ
Gylfi Sigfússon, forstj. Eimskips
Halldór Einarsson, Henson
Halldór Halldórsson, form. Samb. ísl. sveitarfél.
Hanna Katrín Friðriksson, frkvstj. hjá Icepharma
Hannes G. Sigurðsson, aðstfrkvstj. SA
Haraldur Flosi Tryggvason, form. stj. Orkuveitunnar
Helgi Magnússon, iðnrekandi
Hilmar B. Janusson, deildarforseti, HÍ
Hilmar P. Valgarðsson, Eimskipafél.
Hjörleifur Pálsson, Össuri
Jóhann R. Benediktsson, HBT International
Jón Ásbergsson, Íslandsstofu
Jón Ingvarsson, lögfr.
Jón Kristjánsson, fv. alþm.
Jón Sigurðsson, fv. form. Framsóknarfl.
Jón Sigurðsson, Össuri
Karl Steinar Guðnason, fv. alþm.
Kolbeinn Kolbeinsson, Ístaki
Kolbrún Hrund Víðisdóttir, frkvstj. 19. hæðar og Turnsins
Kristín Pétursdóttir, Auði Capital
Kristján Þorsteinsson, Marel
Kristrún Heimisdóttir, lektor
Loftur Árnason, Ístaki
Magnús Geir Þórðarson, LR
Margrét Guðmundsdóttir, Icepharma
Margrét Kristmannsdóttir, Pfaff
Páll Rafnar Þorsteinsson, stjórnmálafr. KOM
Pétur J. Eiríksson, form. Hörpu
Ragnheiður Kolsoe, þróunarfulltr.
Rannveig Guðmundsdóttir, fv. alþm.
Sigsteinn Grétarsson, Marel
Sigurður Harðarson, Centra
Sigurlaug Anna Jóhannsdóttir, frkvstj. Já Íslands
Stefán Jón Hafstein, Þróunarsamvinnust.
Stefán Thors, Skipulagsstofnun
Svana Helen Björnsdóttir, form. SI
Ellisif Tinna Víðisdóttir, Thule
Thomas Möller, Rými
Valgerður Sverrisdóttir, fv. utanríkisráðh.
Vésteinn Ólason, próf.
Vilhjálmur Egilsson, frkvstj. SA
Vilhjálmur Þorsteinsson, fjárfestir
Vilmundur Jósefsson, form. SA
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, alþm.
Þorkell Sigurlaugsson, form. Framtakssjóðsins
Þorsteinn Pálsson, fv. forsætisráðh.
Þórður Magnússon, Eyri
Þórður Sverrisson, forstj. Nýherja
Þórunn Sveinbjarnardóttir, fv. ráðh.
Þráinn Þorvaldsson, Saga Medica.
Þröstur Ólafsson, fv. frkvstj. Sinfóníunnar
Örn Gústafsson, Okkar líf

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 2.10.2012 - 17:47 - FB ummæli ()

Persónuafsláttur Bjarna Benediktssonar

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, var í herferð í síðustu viku, með útreiknaðan boðskap um að skattbyrði allra hafi hækkað eftir hrun.

Bjarni brá á það ráð, til að fá “rétta” niðurstöðu, að reikna skattbyrðina eins og tekjuskattur hefði verið lagður á kaupmátt tekna ársins 2007 (eftirá) en ekki á venjulegar heildartekjur ársins, eins og gert er hjá skattinum á hverju ári. Niðurstöðurnar urðu þar með alrangar. Hann reiknaði kaupmáttarskerðingu hrunsins inn í skattaálagninguna á árinu 2007.

Eftir að útreikningar Bjarna voru reknir ofan í hann af sérfræðingum fjármálaráðuneytisins breytti Bjarni hins vegar um umræðuefni. Sagði að reiknidæmi hans snérist um svik ríkisstjórnarinnar um að efna loforð í kjarasamningum, sem var að persónuafsláttur skyldi hækka með verðlagi og ríflega það.

Á bloggi mínu í gær ítrekaði Bjarni þetta og sagði:

“Það sem er ámælisvert Stefán er að ríkisstjórnin skyldi ákveða að virða ekki gefin fyrirheit um verðtryggingu persónuafsláttar (auk hækkunar um 7.000 kr.) fram til 2012 en halda því engu að síður fram að aðgerðir hennar hafi hlíft lægstu launum. Það er virkilega ámælisvert enda fékk stjórnin að heyra það frá verkalýðsfélögum um allt land þegar svikin urðu ljós.”

Það er reyndar rétt hjá Bjarna að ríkisstjórnin stóð ekki við þessi fyrirheit að fullu öll árin, einkum 2011, en hún hækkaði samt persónuafsláttinn verulega (t.d. um 24% árið 2010).

Lítum á þróun skattleysismarkanna (persónuafsláttarins)  yfir tíma.

Þróun skattleysismarka sem hlutfall af launum verkafólks, 1998 til 2012.

Línan sýnir þróun heildarlauna verkafólks en súlurnar sýna hlutfall skattleysismarka af þeim launum, þ.e. hve stór hluti launanna var skattfrjáls á hverju ári.

Þarna má sjá hvernig ríkisstjórnir Davíðs og Halldórs rýrðu skattleysismörkin stórlega frá 1998 til 2007, eða úr 40% af launum verkafólks niður í 26%. Þetta þýðir að verkafólk greiddi tekjuskatt af sífellt stærri hluta tekna sinna til 2007, þ.e. skattfrjálsi hluti launanna minnkaði. Það, ásamt öðru, leiddi til verulega aukinnar skattbyrði lægri tekjuhópa.

Eftir hrun voru skattleysismörkin (persónufrádrátturinn) hækkuð á ný umfram launahækkanir, upp í 33-35%. Þetta þýðir að þá stækkaði aftur sá hluti launa verkafólks sem var skattfrjáls – og skattbyrði verkafólks lækkaði.

Svikin sem Bjarni talar um eru einkum það að skattleysismörkin skyldu ekki hækka á árinu 2011, en þau hækka síðan nokkuð á þessu ári.

Auðvitað hefði verið betra að skattleysismörkin hefðu hækkað enn meira en varð. Hækkunin varð þó nógu mikil til að tryggja að skattbyrði lægri tekjuhópa (t.d. verkafólks, atvinnulausra og lífeyrisþega) lækkaði í reynd. Síðan hjálpaði stórhækkun vaxtabóta enn frekar við að létta skattbyrðina hjá skuldugum heimilum.

Myndin sýnir þannig hvernig einn stærsti þátturinn sem mótar skattbyrði lægri tekjuhópa breyttist eftir hrun. Hækkun skattleysismarka þýðir alla jafna lækkun á skattbyrði, mest hjá lægstu tekjuhópunum.

Stóra spurningin er þá þessi, hefði ríkisstjórn undir forsæti Bjarna Benediktssonar hækkað skattleysismörkin (persónuafsláttinn) miklu meira en núverandi ríkisstjórn þó gerði, eða hefði Bjarni fylgt fordæmi Sjálfstæðisflokksins frá 1998 til 2007? Hefði Bjarni sjálfur gert það sem hann sakar ríkisstjórnina um að hafa ekki gert?

Bjarni svaraði ekki þessari spurningu er ég beindi henni til hans í gær.

Sjálfstæðismenn hafa ekki svo vitað sé boðað breytta stefnu í skatta- og bótamálum. Þeim er almennt illa við bætur velferðarkerfisins og skattleysismörkin og teljast ekki líklegir til að hækka þessa þætti. Þvert á móti hafa þeir þegar boðað þörf fyrir róttæka niðurskurðarstefnu.

Hætt er við að slík stefna myndi bitna illa á barna- og vaxtabótum, sem og á persónuafslættinum. Þar er stórar upphæðir að fá í niðurskurðardæmið, nema farið verði í að lækka lífeyri eldri borgara og öryrkja stórlega – ja eða að skera stórlega til viðbótar útgjöld til heilbrigðiskerfisins.

Einu er ég þó alveg sammála í ummælum Bjarna á blogginu mínu í gær og það er þetta:

“Verkefnið er að bæta kjörin, hækka launin…

 

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 2.10.2012 - 08:49 - FB ummæli ()

Barnabætur – tímamót Oddnýjar Harðardóttur

Það voru tímamót hjá Oddnýju Harðardóttur fv. fjármálaráðherra í gær. Hún kvaddi ráðuneytið eftir 9 mánuði í embætti.

Oddný hefur þótt standa sig vel, enda með góða reynslu úr fjárveitinganefnd Alþingis áður en hún tók við fjármálaráðuneytinu. Hófsöm og traustvekjandi framkoma hefur einkennt stjórnmálaferil hennar, sem hefur verið mjög árangursríkur.

Það var vel til fundið hjá Oddnýju að tilkynna stórar breytingar á barnabótakerfinu á síðasta degi sínum í embætti, með allt að 30% hækkun bótanna. Það eru tímamót.

Jón Baldvin Hannibalsson hafði komið á mjög öflugu nýju kerfi barnabóta er hann var fjármálaráðherra árið 1988. Barnabótakerfið var síðan stórskemmt á tímabilinu 1996 til 2004. Það rýrnaði ár frá ári. Stefna ríkisstjórna Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar var sú að draga úr persónufrádrætti tekjuskattsins, barnabótum og vaxtabótum. Allt kom það illa við lægri tekjuhópa, ekki síst ungar barnafjölskyldur.

Núverandi ríkisstjórn hefur stóraukið vaxtabætur eftir hrun og persónuafslátturinn í tekjuskattinum hækkaði einnig umtalsvert. Það hafa verið mikilvægar breytingar til að verja hag lægri og milli tekjuhópa í kreppunni. Barnabæturnar höfðu hækkað nokkuð frá 2004 til 2008 en síðan rýrnað á ný.

Í skýrslu Þjóðmálastofnunar Háskóla Íslands, sem birt var í síðustu viku, kom fram að barnabæturnar væru einn veikasti hlekkurinn í mótvægisaðgerðum stjórnvalda, sem ætlað var að verja lægri og milli tekjuhópana gegn verstu afleiðingum kreppunnar.

Nú er sem sagt komið að því að bæta úr á þessu sviði. Strax í byrjun næsta árs verður þetta skref stigið. Síðan þarf að halda áfram og efla hag barnafjölskyldna enn frekar í framhaldinu á næstu árum.

Oddný Harðardóttir og ríkisstjórnin öll mega vel við una að koma þessu máli í höfn. Fjármálahrunið gerði slíkar kjarabætur erfiðar, enda forgangsverkefni að koma ríkisbúskapnum á sléttan sjó.

Þar sér nú til sólar á ný og gott að hækkun barnabóta skuli hljóta náð svo snemma. Barnabætur voru orðnar alltof lágar og ungar barnafjölskyldur fóru margar sérstaklega illa út úr hruninu.

Það er góð velferðarstefna að bæta hag þessa hóps – stefna sem örvar efnahagslífið um leið.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 1.10.2012 - 00:14 - FB ummæli ()

Bjarni Benediktsson hagræðir hagtölum

Í vikunni var Bjarni Benediktsson í viðtali í Morgunblaðinu að tala um skattbyrði. Hann kynnti þar línurit sem átti að sýna að skattbyrði allra hafi aukist frá 2007 til 2012.

Línuritið er byggt á reiknidæmi sem hagræðir forsendum á þann veg að útkoman fyrir árið 2007 verður röng. Tölur Bjarna eru ekki raunverulega álagðir skattar, heldur skáldaðir skattar.

Hann, eða þeir sem reiknuðu dæmið fyrir hann, uppfæra tölur ársins 2007 með vísitölu neysluverðs til dagsins í dag. Enginn greiddi skatta samkvæmt því á árinu 2007 heldur samkvæmt rauntölum þess árs. Þessi samanburður Bjarna á reiknaðri skattbyrði ársins 2007 og 2012 verður þar með marklaus.

Fullyrðingar hans um að tekjuskattbyrði allra hafi aukist eftir hrun eru því alrangar.

Þetta er staðfest af embættismönnum fjármálaráðuneytisins og hagfræðingum ASÍ. Talsmaður Samtaka atvinnulífsins reynir hins vegar að verja reiknibrelluna með veikburða yfirklóri í Morgunblaðinu.

Það er þó annað í þessum málflutningi formanns Sjálfstæðisflokksins sem er enn alvarlegra. Inn í dæmið vantar barnabætur og vaxtabætur, sem dragast frá álögðum tekjuskatti einstaklinga. Bætur þessar eru hluti af tekjuskattkerfinu og hafa mikil áhrif á endanlega skattbyrði fólks.

Ekkert er hægt að fullyrða um raunverulega skattbyrði tekjuhópa án þess að taka tillit til barna- og vaxtabóta. Raunar vantar líka inn í þetta skáldaða reiknidæmi Bjarna áhrif af fjármagnstekjuskattinum á fjármagnstekjur.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem talsmenn Sjálfstæðisflokks skálda reiknidæmi um skattbyrði á röngum forsendum. Þeim hefur áður verið bent á reiknivillur slíkra dæma. Þegar Tryggvi Þór Herbertsson gerði skylda reiknivillu fyrr á árinu baðst hann afsökunar. Það virðist því sem Bjarni fari vísvitandi fram með þessar rangfærslur núna.

Ef menn ætla að skoða hvort skattbyrði fólks í ólíkum tekjuhópum hafi breyst eftir hrunið þá á að skoða tölur um það sem fólk í ólíkum tekjuhópum raunverulega greiddi í tekjuskatt af tekjum sínum, t.d. árin 2007 og 2010, að teknu tilliti til álagningar og allra frádráttarliða (ekki eru til nýrri rauntölur enn sem komið er).

Þær tölur, sem eru niðurstaða skattaálagningarinnar eins og hún var í reynd, sýna með ótvíræðum hætti að skattbyrði lægri og milli tekjuhópa lækkaði frá 2007 til 2010, mest hjá tekjulægsta hópnum. Skattbyrði tekjuskattkerfisins hækkaði einungis hjá þeim 40% fjölskyldna sem hæstu tekjurnar höfðu, en lækkaði hjá öllum öðrum (sjá hér og hér).

Nú hefur verið tilkynnt í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2012 að barnabætur verða hækkaðar umtalsvert og einnig vaxtabætur að hluta. Það mun lækka skattbyrði lægri og milli tekjuhópa enn frekar en verið hefur eftir hrun. Þetta vantaði sem sagt einnig inn í hið skáldaða reiknidæmi Bjarna.

Bjarni Benediktsson er þannig staðinn að því að hagræða hagtölum vísvitandi í áróðursskini. Fullyrðingar hans um aukna skattbyrði allra eru ekki byggðar á staðreyndum. Hann reynir með þessu að halda ósannindum að almenningi.

Það hlýtur að teljast alvarlegt fyrir formann í stjórnmálaflokki, sem ætti að vilja láta taka sig alvarlega.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

Laugardagur 29.9.2012 - 12:12 - FB ummæli ()

Viðskiptaráð mærir norræna velferðarstjórn

Nýtt fréttabréf Viðskiptaráðs kemur svo sannarlega á óvart!

Frægt var þegar Viðskiptaráð lýsti yfir í skýrslu frá 2006 að við Íslendingar ættum að hætta að líta til hinna norrænu þjóðanna eftir fyrirmyndum. Við værum þeim framar á flestum sviðum.

Þetta var á þeim tíma sem stjórnvöld framkvæmdu um 95% af skoðunum og stefnumálum Viðskiptaráðsins, sem öll miðuðu að því að bæta hag fyrirtækjaeigenda og auðmanna, oft á kostnað almennings. Við vorum á kafi í frjálshyggjutilrauninni um óheftan fjármálakapítalisma.

Viðskiptaráð hafði lagt til siglingafræðingana sem voru í brú þjóðarskútunnar þegar henni var siglt í strand.

Í nýju fréttabréfi (sem þeir kalla Skoðun Viðskiptaráðs) leggur ráðið lykkju á leið sína og mærir norrænu velferðarstjórnina sem fékk það verkefni að ná skútunni af strandstað og endurbyggja hana. Fréttabréfið byrjar svona:

“Fjárlög næsta árs staðfesta einkum tvennt. Annars vegar að árangur hefur náðst í ríkisfjármálum frá haustinu 2008 – um það verður ekki deilt.”

Síðan halda þeir reyndar áfram og segja að  mun betri árangur hefði átt að nást og að þessi árangur sé öllu öðru en ríkisstjórninni að þakka. Það er ansi hlægileg messa!

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (IMF) var hins vegar að skila nýju áliti um framvinduna í fjármálum og efnahag Íslendinga um daginn. Þeir hafa bæði meira vit á svona málum en Viðskiptaráð og eru heldur ekki innvígðir og innmúraðir meðlimir í Sjálfstæðisflokknum, eins og Viðskiptaráðið. Þess vegna getum við tekið meira mark á umsögn AGS.

AGS hælir ríkisstjórninni fyrir framvinduna og góðan árangur, bæði fyrir og eftir að samstarfsáætlun Íslands og sjóðsins lauk. Segja þó að bæta mætti í aðhaldskröfuna fyrir næsta ár um 0,2% af landsframleiðslu, hún fari úr 0,5% í 0,7%. Það er auðvitað lítil breyting.

Staðan er sem sagt þannig, að Viðskiptaráð getur ekki annað en hælt ríkisstjórninni – þó þeir vildu miklu frekar finna henni allt til foráttu.

Staðreyndirnar um góðan árangur eru einfaldlega of traustar og afgerandi.

En það er gaman að láta koma sér á óvart og því ber að þakka Viðskiptaráði fyrir þetta nýja fréttabréf.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

Fimmtudagur 27.9.2012 - 15:53 - FB ummæli ()

Góðir og slæmir kapítalistar

Það er mikilvægt að greina á milli góðra og slæmra kapítalista, góðra og slæmra athafnamanna á sviði atvinnu- og fjármála. Ekki síst þegar menn gagnrýna atvinnulífið, fjármálamenn og fyrirtækjamenn, eins og ég geri stundum.

Steven Jobs er gott dæmi um góðan kapítalista. Hann hefur um langa hríð verið leiðandi í nýsköpun. Búið til tölvutæki margvísleg sem gagnast fólki og fyrirtækjum um allan heim. Hann hefur tengst nýsköpun sem hefur gert fólki mikið gagn og stuðlað að stórkostlegum framförum.

Sama má segja um marga kollega hans í Kísildal í Kaliforníu, þaðan sem margt af nýju upplýsingatækninni kom. Það er almennt til mikill fjöldi slíkra framtaksmanna í heiminum, frumkvöðla og framfaramanna sem eru góðir kapítalistar. Fólk sem hannar og framleiðir nýja hluti, aðferðir eða þjónustu (húsgögn, tæki og tól, ferðaþjónustu, afþreyingarþjónustu, listir, föt, heilbrigðisvöru, o.s.frv.).

Slíkt fólk á skilið að hljóta góða umbun fyrir framtak sitt. Enginn getur kvartað yfir að það efnist á því sem vel er gert – ef það gagnast fjöldanum.

Þeir slæmu eru hins vegar fólk sem liggur eins og afætur eða blóðsugur á raunhagkerfinu. Sumir fjármálamenn nútímans eru oft nefndir sem dæmi um slíka. Þeir braska með eignir, fjármálagerninga og eru á kafi í spákaupmennsku alls konar – oftast með lánsfé.

Slíkir aðilar reyna að græða sjálfir á braski með alvöru fyrirtæki, fénað og fólk, breyta þeim í vettvang fyrir spákaupmennsku – en gera engum gagn. Þeir eru höfundar froðuhagkerfisins og sjúga gjarnan blóðið úr raunhagkerfinu. Vogunarsjóðir eru skýrustu dæmin um slíka starfsemi. Starfsemi forsetaframbjóðandans Mitt Romney hjá Bain Capital var af þeim toga.

Það var slík brask- og blóðsugustarfsemi sem bjó til fjármálakreppuna sem nú geysar – sem og hrunið á Íslandi. Sagt var í erlendum fjölmiðlum um Ísland fyrir hrun að það væri orðið að vogunarsjóði, svo umfangsmikið þótti braskið hér á landi. Ísland var sagt vera vogunarsjóður skreyttur jöklum!

Þegar við gagnrýnum það sem miður fór í braski og skuldasöfnun áranna fram að hruni erum við að gagnrýna slíka aðila – braskara sem engum gera gagn en græða sjálfir vel á að tappa blóði af  hagkerfinu.

Við eigum þó líka að hafa góðu kapítalistana í huga. Þeir gera gagn og bera ekki sök af hinum sem verri eru.

Hins vegar gildir almennt um kapítalista og auðmenn, að stjórnvöld mega ekki dekra of mikið við þá. Þeir taka sér þá aukin völd og nota í eigin gróðasókn, oft gegn hagsmunum almennings. Með því að auðmenn fá of mikil völd veikist lýðræðið.

Þannig er það t.d. í Bandaríkjunum. Auðmenn eru þar búnir að stórskaða lýðræðiskerfið og gera veg peningaafla allt of mikinn. Þó eru enn til málefnalegir og vel viljaðir auðmenn þar, eins og t.d. Warren Buffett og Bill Gates sem gagnrýna græðgi kollega sinna.

Við skulum sjá báðar hliðar. Kosti og galla. Magna kostina en hefta gallana.

Til þess þarf ríkisvald í lýðræðiskapítalisma. Það er forskrift blandaða hagkerfisins – þar sem þróttmikið lýðræði og þróttmikill markaður fara saman.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

Mánudagur 24.9.2012 - 00:07 - FB ummæli ()

Hverjir drekktu Íslandi í skuldum?

Það var alltof mikil skuldasöfnun sem setti Ísland á hliðina, með hruni bankanna og krónunnar. Skuldasöfnun er algengasta ástæða alvarlegra fjármálakreppa í heiminum. Þær koma gjarnan í kjölfar aukins frelsis á fjármálamörkuðum, óhóflegrar spákaupmennsku, brasks eða annarrar umframeyðslu.

Það sama gildir um þjóðarbúið og rekstur heimilis: Of mikil skuldsetning skapar áhættu. Alltof mikil skuldsetning skapar alltof mikla áhættu.

Íslendingar settu heimsmet í aukningu erlendra skulda, frá 2002 til 2008. Heimsmet.

Við vitum auðvitað hverjir gerðu ofurskuldsetningu Íslands mögulega. Það voru eigendur og stjórnendur ný-einkavæddu bankanna: Landsbankans, Kaupþings og Glitnis. Þeir fleyttu alltof miklu erlendu lánsfé inn í landið. Eftirlitsaðilar eins og Fjármálaeftirlit og Seðlabanki horfðu aðgerðalausir á.

En hverjir tóku lánin, aðrir en bankarnir sjálfir?

Ein af fyrstu kenningunum um orsakir hrunsins kom frá Björgólfi Guðmundssyni, stjórnarformanni Landsbankans. Hann sagði að þjóðin hefði eytt of miklu í flatskjái.

Var þá skuldaaukning heimilanna helsta orsök hrunsins?

Hvað segja tölur Seðlabankans um þetta?

Mynd 1: Skuldir fyrirtækja og heimila, sem % þjóðarframleiðslu, 2001 til 2012. Heimild: Fjármálastöðugleiki 1:2012.

Hér má sjá að þó heimilin hafi aukið skuldir sínar umtalsvert þá var skuldsöfnun fyrirtækjanna margfalt meiri, eða hátt í tífalt meiri. Frá árslokum 2002 til ársloka 2007 jukust skuldir fyrirtækja um 222% en skuldir heimila um 26%.

Þegar skuldirnar höfðu svo náð hámarki eftir hrunið (á árinu 2009), þá höfðu skuldir fyrirtækja aukist frá sama tíma árið 2002 um 276% en skuldir heimila um 43%.

Það voru þannig fyrirtækin sem stóðu fyrir hinni hættulegu skuldasöfnun er setti Ísland á hliðina. Skuldaaukning heimila, þó hún hafi verið of mikil, var smá  samanborið við skuldaaukningu fyrirtækjanna. Skuldir heimilanna í Danmörku jukust svipað og á Íslandi. Ekki leiddi það til hruns danska fjármálakerfisins.

Á seinni myndinni má sjá skuldaaukningu íslenskra fyrirtækja í samanburði við fyrirtæki í öðrum löndum. Þar kemur sérstaða íslensku fyrirtækjanna aftur í ljós.

Mynd 2: Skuldir fyrirtækja sem % af landsframleiðslu, 2003 til 2011. Heimildir: Eurostat og Seðlabankinn

Hvergi í þessum löndum jukust skuldir fyrirtækja neitt í líkingu við skuldasöfnun íslenskra fyrirtækja fyrir kreppu, þó víðast hafi gætt aukningar (ekki þó í Þýskalandi, Finnlandi og Noregi). Það er helst Írland sem nálgast okkur, en stærstur hluti skuldaaukningarinnar á Írlandi varð eftir að út í kreppuna var komið – ekki fyrir kreppu eins og hér.

Þó skuldir íslenskra fyrirtækja hafi lækkað mjög mikið eftir hrun, eða úr um 329% af landsframleiðslu í 194%, þá eru þau enn mjög skuldsett. Aðeins írsk fyrirtæki eru nú skuldsettari í þessum landahópi.

Það liggur þannig ljóst fyrir, að fyrirtækjageirinn ber ábyrgð á skuldsetningunni sem setti Ísland á hliðina – ekki heimilin.

Það gerðist með því að allt of margir eigendur og stjórnendur fyrirtækja fóru að braska með lánsfé (það var kallað “fjármálastarfsemi” eða fjárfestingastarfsemi”). Þessu tengdust einnig mjög auknar úttektir fjár úr fyrirtækjum og oft flutningur þess í erlend skattaskjól.

Blóði var þannig tappað af atvinnulífinu og skuldir skildar eftir. Í stað “framleiðslu-kapítalisma” kom eins konar “blóðsugu-kapítalismi” til sögunnar. Eigendur og stjórnendur fyrirtækjanna voru blóðsugurnar, eða braskararnir (eins og það hét hér áður fyrr)!

Þetta var róttæk breyting á viðhorfum í fyrirtækjarekstri á Íslandi. Og hættuleg.

Skyldu nýju viðhorfin enn vera við lýði?

Flest virðist benda til þess. Enda græddu eigendur margra fyrirtækjanna gríðarlega á bóluhagkerfinu.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar