Þriðjudagur 25.09.2012 - 12:34 - Rita ummæli

Frilla Lúðvíks

Opinberað hefur verið hve ríkisvaldið hefur eytt í hugbúnað sem Advania, áður Skýrr, seldi til að sjá um flókin og viðamikil samskipti og bókhaldskerfi íslenska ríkisins. Þetta er ekkert einsdæmi í hjá íslenskri stjórnsýslu sem sendir sína bestu drengi og dætur í golf með framkvæmdastjórum stórfyrirtækja því það er svo óskaplega gaman.

Er ekki hér um að ræða umboðsvanda gagnvart skattgreiðendum, jafnvel umboðssvik sbr. kærur Sérstaks saksóknara undanfarið á hendur stjórnendum hlutafélaga? Ríkisvaldið er veikt, það er svo veikt að það jaðrar við að vera veikara en holdið sjálft. Hver stendur með okkur skattborgurum á Íslandi í þessu máli?

Samkvæmt rannsóknablaðamönnum er verðmiðinn á vændi á Íslandi á bilinu 10 til 100 þúsund eftir því hve mikil viðskiptin eru og hve lengi þau standa yfir (sbr. þátt Sölva Tryggvasonar á Skjá einum mánudaginn 9. apríl 2012). Mikilvægt við þessi viðskipti virðist vera að flæðið sé mikið en í því efni má notast við enska fræðiorðið „throughput“ eða gegnumstreymi og varðar það hve hratt neytandinn fer í gegnum viðskiptamótelið, í þessu tilviki íbúðarholu eða kjallaraskonsu í Reykjavík, borg lista og menninga norður við Dumbshaf. Markmiðið, eins og í öðrum viðskiptum, er að fullnægja þörfum viðskiptavinarins.

Gegnumflæði (e. throughput) hjá ríkisstofnunum varðandi hin ýmsu verkefni virðist allt annað en hjá griðkonum og körlum. Samningum virðist aldrei vera fullnægt og virðist sem ríkisstarfsmenn vilji annað hvort helst ekki láta fullnægja sér eða að þeir fái aldrei nóg og vilja sífellt meiri þjónustu enda borga þeir ekki fyrir hana sjálfir. Það gerir einhver þriðji aðili, þ.e. skattgreiðandinn.

Samkvæmt drögum að skýrslu frá Ríkisendurskoðun var aðeins um að ræða eitt forrit sem átti að fullnægja þörfum margra í einu. Það fór á nokkrum árum (frá árinu 2001) aðeins einu sinni í gegnum kerfið og náði ekki að fullnægja þörfum notendanna en fyrir það fengust c.a. 4 milljarðar króna. Í kjölfarið var ritað undir rekstrarsamning við þann sem þessa þjónustu átti að veita. Þetta er auðvitað skandall í huga allra nema kanski þeirra sem nutu þjónustunnar, veita hana og fá fyrir hana greitt. En hvað með þá sem greiddu fyrir þetta, skattgreiðendurna? Þessarar spurningar spyrja margir skattgreiðendur Evrópusambandsins (ESB) sig einnig.  En innan ESB eru leiðslurnar reyndar mun lengri en frá stúdíóinu við Efstaleiti niður að Skúlagötu og því örðugara að fylgjast með óráðsíunni.

Danice ljósleiðarinn kostaði ríkisábyrgð að fjárhæð c.a. kr. 5 milljarða þrátt fyrir að gjaldkeri Samfylkingarinnar hafi ritað undir kaup á miklu ljósi á sínum tíma. Sá samningur átti að standa undir stórum hluta af fjármögnun og rekstri leiðarans en eins og að leiðum líkur kom ekkert út úr því og ruglið var því ríkisvætt. Nýlega var svo troðið í gegnum þingið ríkisábyrgð á gati sem gera á í gegnum Vaðlaheiði í einkaframkvæmd þar sem ætlunin er að ríkisvæða tapið ef af verður og sterkar líkur benda til að verði. Slitastjórnir og skilanefndir bankanna eru svo nú að rjúfa friðinn í samfélaginu með bruðli aldarinnar enda lagaformið að baki þessara fyrirbæra í ólagi.

Samfylkingin og VG ákváðu að skattgreiðendur gengust í ábyrgð fyrir þessu öllu saman ef allt færi á hausinn og gera enn. Síðan má nefna Hörpuna, Grímseyjarferjuna, bruðl R-listans í Orkuveitu Reykjavíkur, öldusundlaugina á Álftanesi, REI og Línu Net auk annara atvika þar sem opinberir embættismenn og fulltrúar skattgreiðenda tóku ákvörðun með það að leiðarljósi að láta frillu Lúðvíks 15. líta vel út. Skuldaklukkan sem SUS (Samband ungra sjálfstæðismanna) hefur komið upp stendur nú í um 2.357 milljörðum króna sem gerir rúmar 7 milljónir króna á hvert mannsbarn á Íslandi.

Allt er þetta gert til að fegra hárbrúskinn á frillu Lúðvíks 15. en hún virðist nú hafa náð völdum í Evrópusambandinu sem og á Íslandi. Hér lætur hún móðan mása og sáu menn þann kost vænstan að ráða hana í fast starf við hirðina því daggjaldið á henni var orðið svo hátt. Hún gat líka farið að kjafta frá sem þótti ótækt með öllu enda gæti slíkt varðað almannaheill. Kjaftagangurinn í henni gat því orðið óhollur almenningi.

Það virðist því orðinn lífstíll að bruðla fjármunum skattgreiðenda, bæði á Íslandi og innan ESB. Til eru háskólamenn og rithöfundar sem bæði skrifa vel og lesa auk þess sem einhverjir búa yfir þeim hæfileika að getað málað ómálaðar myndir af frillunni og boðið listaverkin til sölu og fengið morðfjár fyrir.

Frilla Lúðvíks á því sína vini og velunnara víða í samfélaginu sem munu halda áfram að sjá um að hárbrúskur hennar líti vel út svo hún muni áfram tolla í tísku.

Flokkar: Lífstíll · Menning og listir · Óflokkað · Spaugilegt · Stjórnmál og samfélag

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og þremur? Svar:

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur