Mánudagur 08.10.2012 - 15:35 - Rita ummæli

Höfundarréttarbrot ? – Mætum en skilum auðu !

Nýlegt myndband ýmissa íslenskra listamanna hefur verið birt á netinu og vekur athygli.

Er verið að brjóta blað með tilkomu þess? Nei, því hér er líklega verið að afrita hugverk og hugsanlega brjóta höfundarrétt á upplegginu öllu. Þarna er skorað í fyrstu á fólk að kjósa ekki. Síðan er vikið að því að það sé brýnt að kjósa og skorað á fólk að senda myndbandið á 5 aðila. Kaldhæðnin felst ekki beint í skilaboðunum heldur í því að væntanlega sé búið að véla þarna vel meinandi listafólk í höfundarréttarbrot enda myndböndin sem um ræðir nákvæmlega eins fyrir utan persónur, leikendur og annan boðskap.

Hverjum er ekki sama um höfundarréttarbrot og eignaupptöku?

Íslenska myndbandið er nákvæmlega eins og það sem gert var fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum árið 2008 þar sem stórstjörnur Hollywood stigu fram. Okkar útgáfa er því n.k. Sodastream útgáfa af CocaCola en hugsanlega án heimildar höfundar upphaflega myndbandsins í Bandaríkjunum. Frumleikinn hér á landi er því allur fokinn út í veður og vind þó svo að boðskapurinn sé ágætur og að íslenskir listamenn teljist almennt frekar frumlegir og margir mjög færir á sínu sviði.

Ætli þetta sé ekki vegna þess að þeir sem unnu þetta myndband hér á landi og studdu gerð þess telja allt milli himins og jarðar þjóðareign og almenningshlunnindi. Það er alveg hugsanlegt.

Það er algengt á Íslandi að hugverk annarra séu afrituð og leitað m.a. að auglýsingum og þær afritaðar fyrir íslensk fyrirtæki og jafnvel stofnanir. Þetta hefur ítrekað komið upp.

Leiðinlegt þykir að nú hafa skapandi og afar hæfir listamenn á Íslandi verið leiddir í þessa gildru. Þarna koma þau fram með þá hugmynd að fólk eigi að kjósa sem er sjálfsagt mál. Var ekki hægt að gera þetta samt einhvernvegin öðruvísi?

Pistlahöfundur mun fara á kjörstað nú sem fyrr og nýta atkvæðaréttinn sinn enda ekkert sjálfsagðara. Einnig er rétt að hvetja til þátttöku í kosningum enda ríkur réttur í því fólginn t.a.m. með því að skila auðu. Í því að skila auðu eru fólgin mótmæli gegn fyrirkomulagi, tilurð og áeggjan sem í þessari þjóðaratkvæðagreiðslu er fólgin.

Eitt af því sem er verið að hvetja fólk til að gera, þ.e. með því að taka afstöðu til 1. spurningarinnar á kjörseðlinum, er m.a. að leggjast á árar með ríkisstjórn Íslands að gera lítið úr Hæstarétti Íslands enda er allt þetta fár varðandi stjórnarskrá lýðveldisins komið til vegna ólögmætra kosninga til svokallaðs Stjórnlagaþings á sínum tíma.

Eins og allir vita er ekki hægt að afrita allt með þessum hætti og munu listamenn ekki afrita fiskinn í sjónum, þjóðlendur eða fallvötnin þrátt fyrir að þátttakan í komandi kosningum nái þeim 40% sem prófessor Þorvaldur Gylfason telur nægjanlegt til að niðurstaðan verði bindandi.

Kjósið endilega en skilið auðu. Með því getur kjósandi vottað baráttunni fyrir þrískiptingunni virðingu sína. Eins og flestir vita gengur þrískipting ríkisvaldsins út á að skipta eigi valdsviði ríkisins í dómsvald, framkvæmdavald og löggjafarvald. Þetta stjórnskipulag er grundvöllur lýðræðislegs skipulags á vesturlöndum. Ríkisstjórn Íslands hefur virt þessa reglu að vettugi hingað til og sett ofaní Hæstarétt landsins.

Nánar má lesa um lýðræði hér á Vísindavefnum.

Svo má senda pistilinn á 5 vini til að ná hámarksdreifingu á þessum pistli mínum sem er, „Nota Bene“, ekki afritaður og alls ekki brot á höfundarrétti.

Flokkar: Heimspeki · Menning og listir · Stjórnmál og samfélag

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og sex? Svar:

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur