Föstudagur 19.10.2012 - 17:52 - Rita ummæli

Gengistryggð lán og óhæf ríkisstjórn

Með nýjum dómi Hæstaréttar , Borgarbyggðardómnum, er ein enn stoðin rekin undir þau rök að bankarnir reiknuðu alla tíð, allt frá útgáfu svonefndra gengistryggðra skuldabréfa, lán sín rangt, ógnuðu fjármálastöðugleika og skertu miðlunargetu stýrivaxta Seðlabanka Íslands um hagkerfið fyrir hrun hagkerfisins.

Á þessa hættu benti Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) árið 1998 þegar stefnt var að því að fleyta krónunni og gerði það að verkum að óheimilt var að verðtryggja skuldbindingar í krónum með því að binda þær gengi erlendra mynta. Það gerði ríkisstjórn Davíðs Oddssonar og er niðurstaða þeirrar aðgerðar að koma í ljós þessa dagana.

Hér er lesendum gefinn kostur á að líta yfir raunverulegt lán á fasteigna að Drómafelli í Reykjavík. Upphafleg fjárhæð lánsins var kr. 10,6 milljónir króna (A). Í miðju hruni reiknaði Frjálsi fjárfestingarbankinn lánið upp í krónur 26 milljónir (B). Endurskoðaði KPMG ársreikninga félagsins miðað við þetta og sá m.a. um að gjaldeyrisjöfnunarskýrslur, sem sendar voru Seðlabanka Íslands, sýndu þessa röngu tölu um gjaldeyrisstöðu bankans. Það allt saman skekti stórgreiðslukerfi Íslands sem og gaf út rangar tölur til matsfyrirtækja á erlendum vettvangi um árabil.

Eftir óbilaða baráttu almennings og síðar niðurstöðu Hæstaréttar að hausti 2010 voru sett svokölluð Árnalög í desember 2010. Gekk mikið á og sjaldan hafa lög náð að þjóta svo hratt í gegnum Alþingi og Árnalögin. Í kjölfar setningu þeirra laga voru lánin endurreiknuð langt aftur fyrir síðustu greiddu gjalddaga, nú með vöxtum Seðlabanka Íslands fyrir tilstilli núverandi seðlabankastjóra og þv. forstjóra Fjármálaeftirlitsins. Voru lánin sem hvíldu á Drómafelli reiknuð í kr. 15,9 milljónir (C) og þar við sat.

Smelltu á mynd til að stækka

Dómar Hæstaréttar Íslands frá því í febrúar 2012 (Elviru-Sigurðar dómurinn) og sá er féll í gær, Borgarbyggðardómurinn,  benda ótvírætt til þess að bönkum ber að endurreikna og það strax.

Þetta dregur fjármála- og efnahagsráðherra, formaður VG, reyndar í efa og telur að almenningur verði að bíða mun lengur eftir úrskurði annarra 11 mála sem lögð verða fyrir dómstóla en aðeins 2 hafa verið dómtekin. Ekkert nýtt á þeim bæ nema það einna helst að vanvirða úrskurð Hæstaréttar varðandi kosningu til Stjórnlagaþings á sínum tíma með kosningum á morgun, laugardag.

Og í hverju stendur þá lánið að Drómafelli í Reykjavík?

Ljóst er að ef lántakandi hafi greitt afborganir og vexti alla tíð, nú eða vexti í umsamdri frystingu tímabundið, á hann rétt að fá allt leiðrétt frá upphafi, þ.e. frá fyrsta vaxtadegi lánsins og gjalddaga, allt eftir því sem við getur átt. Í tilfelli Drómafells var lánið fryst í eitt ár og á þeim tíma aðeins greiddir vextir.

Samkvæmt því og ef miðað er við febrúar 2012 (þegar Elviru-Sigurðar dómurinn féll) stendur lánið, sem hvílir á Drómafelli í Reykjavík, í krónum 9,4 milljónum (1). Það ætti að vera staðan í dag.

Ef viðmiðið er tilkoma Árnalaga í desember 2010 (sem Borgarbyggðardómurinn virðist ekki miða við) stæðu eftirstöðvarnar í krónum  10,2 milljónum (2).

Ef hins vegar yrði miðað við að viðkomandi hafi hætti að borga í desember 2009 vegna erfiðleika stendur lánið í krónum 10,7 milljónum (3) með dráttarvöxtum inniföldum.

Verður að gæta að jafnræði í þessum málum og eðli máls þar sem bæði fólki og fyrirtækjum hefur verið stillt upp við vegg og jafnvel gert að missa allt sitt t.a.m. á nauðungarsölum. Mörg fyrirtæki hafa misst tæki sín sem seld voru á spottprís til útlanda og fólk hefur glatað lífsviðurværi sínu samhliða miklum harmleik.

Ef lántakandi hafi ekki greitt frá hruni, september 2008, stæði lánið væntanlega í krónum 12,8 milljónum (4) og gildir þá hið sama og varðandi (sbr. 3) vexti og dráttavexti.

Hér er því ljóst að þetta ber að leiðrétta strax enda óréttlætið hrópandi.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og sex? Svar:

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur