Mánudagur 25.02.2013 - 11:35 - 14 ummæli

Sterkasti flokkurinn – Sjálfstæðisflokkurinn

Eftir lok Landsfundar er óhætt að segja að í dag og fyrir kosningar í vor geta landsmenn valið á milli stöðugleika, sem Sjálfstæðisflokkurinn getur einn flokka boðið uppá, og stirðleika bæði í innviðum og á milli allra annarra flokka á miðju stjórnmála á Íslandi og til vinstri. Að auki má segja að formaður Sjálfstæðisflokksins, sem hlaut glimrandi kosningu á fundinum, kom afar vel út sem framtíðar leiðtogi íslensku þjóðarinnar. Það sem einnig ber hæst er hve öflugt málefnastarfið var og hve víðsýnn flokkurinn er þegar litið er til þeirra ályktana sem samþykktar voru á fundinum. Sjálfstæðisflokkurinn og formaður þessa öfluga stjórnmálaafls er því tilbúinn að taka við stjórnartaumunum á Íslandi og axla ábyrgð.

Hagsmunir heimilanna og efnahagurinn

Sjálfstæðisflokkurinn býður einn flokka fram á raunhæfa lausn fyrir heimilin í landinu með leiðum er liggja um skattkerfið. Hægt er að bæta hag fjölda fjölskyldna og að auki að stuðla til framtíðar að sparnaði í hagkerfinu. Í stjórnmálaályktun fundarins kemur m.a. fram:

  1. Að ráðast að rót vanda íslenskra heimila með skulda- og skattalækkunum
  2. Að auka verðmætasköpun í íslensku atvinnulífi
  3. Að stuðla að efnahagslegum stöðugleika og afnema gjaldeyrishöft
  4. Að sýna ábyrgð og bæta opinberan rekstur, lækka skatta og endurskoða bótakerfi
  5. Að tryggja grunnþjónustu fyrir alla landsmenn og standa vörð um velferðina

Þarna má sjá hvert Sjálfstæðisflokkurinn stefnir fyrir fjölskyldur þessa lands og einstaklinga sem hafa kallað eftir bættum hag allt frá hruni hagkerfisins 2008. Ekki hafa vinstri flokkarnir náð að hafa styrk til að taka á þessu málefni og fremur látið eins og sundurlaus hópur sem nær ekki saman um grundvallar mál heimila á Íslandi.

Besta leiðin til þess að styrkja stöðu heimilanna er að tryggja fólki möguleika til að stunda arðbæra atvinnu og gefa því þar með tækifæri til að vinna sig út úr vandanum.

Þetta er göfugt markmið og skynsamlega orðað.

Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherlslu á að forgangsverkefni nýrrar ríkisstjórnar verði markvissar aðgerðir til að bregðast við greiðslu- og skuldavanda heimilanna með almennum aðgerðum. Þessi aðgerð er mikilvæg forsenda fyrir auknum hagvexti og framtíðauppbyggingu íslensks þjóðfélags.

Allt sem að framan er talið kemur heimilum vel bæði til lengri og skemmri tíma. Grunntónn fundarins var í þágu heimilanna og það líkar pistlahöfundi afar vel. Það er einmitt hlutverk stærstu og öflugustu stjórnmálahreyfingar landsins að gæta að hagsmunum heimilanna umfram allt annað.

Evrópumálin afgreidd

Sjálfstæðisflokkurinn er eini flokkurinn á landinu sem tekur raunsæja afstöðu til málefna í tengslum við aðild að Evrópusambandinu. Það er ekki hægt að menga umræðuna næstu árin eða eyða fé í eitthvað sem alsendis er óraunhæft, þ.e. að ræða við samband sem Íslendingar vilja ekki ganga til samninga við, a.m.k. þorri þjóðarinnar.

Þeir sem eru fyrir Evrópusambandið verða að bera skynbragð á sinn vitjunartíma í þessu efni og skilja að þjóðin vill alls ekki ganga í Evrópusambandið. Ástandið innan þessa sambands, hversu gott sem það kann að vera á mörgum sviðum, er bara með þeim hætti að ómögulegt er að eiga í aðildarviðræðum við það. Það er heldur ekki útséð með hvert það er að fara og hvert stefnir varðandi sambandið í heild sinni.

Áréttað er að aðildarviðræðum við ESB verði hætt og þær ekki teknar upp aftur nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.Sjálfstæðisflokkurinn telur að varnir landsins séu best tryggðar á þeim tvíþætta grundvelli sem felst í aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu (NATO) og varnarsamningi Íslands og Bandaríkjanna.

Því var eina vitið hjá Sjálfstæðisflokknum að afgreiða aðildarviðræður útaf borðinu og líta fremur í kringum sig á alþjóðavettvangi eins og um sé að ræða aukin tækifæri þar sem mesti vöxturinn er, þ.e. í austurlöndum fjær.

Í setningaræðu formanns Sjálfstæðisflokksins mátti heyra að hann er áhugasamur um vaxtatækifæri t.d. í Asíu. Þetta er skynsamlegt innlegg af hans hálfu. Við eigum fyrirtæki sem eru að vaxa í þessa átt og tæknimenntaða einstaklinga og öflug tæknifyrirtæki sem hafa komið sér vel fyrir á þessum slóðum. Vöxturinn næstu árin verður ekki í Evrópu, það er alveg ljóst.

Svo má ekki gleyma hvar og innan hverra vébanda vörnum okkar er best borgið, þ.e. innan NATO. Það er augljóst.

Gjaldeyrishöft og fjárfesting

Fjárfestingar innanlands eru algjör nauðsyn og gera verður kröfuhöfum bankanna, sem vilja utan með gjaldeyri, það alveg ljóst að þeir komu hingað inn með því að kaupa kröfur á lágum verðum og í því felst áhætta sem þeir vissu af og þá borgar sig að þeir viti að þeir eru enn í þeirri áhættu en henni er hægt að stýra þeim í vil og einnig Íslendingum í vil. Þarna geta því báðir aðilar séð framúr vandanum.

Þannig á að ganga til samninga við þessa blessuðu kröfuhafa og ekki víla fyrir sér að benda á virðið sem þeir fóru inná og gera þeim fyllilega grein fyrir því að þeir munu ekki koma út í tapi en kanski ekki út í 50 til 100% ávöxtun sem þeir vildu vissulega fá ef miðað er við þá ávöxtunarkröfu sem til þeirra hefur verið gerð síðustu ár frá hruni.

Það er bara ,,því miður“ ekki í boði. Það á að vinna þetta í sátt við kröfuhafa sem verða að gera sér grein fyrir því að þeir keyptu sér ekki inní þriðjaheimsríki eða í gjaldþrota bílaframleiðanda heldur fjárfestu þeir í vestrænu lýðræðisríki sem vill vel og þegnum sínum umfram allt þann aðbúnað og kjör sem best eru í heiminum. Það gæti tekið tíma að láta þessa aðila skilja þetta en það er mikilvægt að gera þeim sem fyrst grein fyrir þessu svo þeir skilji betur virði eigna sinna. Vinstri stjórn síðustu ára hefur villt þessum kröfuhöfum sýn á undanförnum árum og talið þeim trú um annað, því miður.

Samningatæknin er sú að segja; ,,þið tapið ekki en fáið ekki það sem þið viljið helst fá“. Þegar náð hefur að sannfæra þá um að engin leið er fær nema samningaleiðin, er fyrst hægt að hefja viðræður. Það þarf reyndar hugsanlega að setja lög svo þeir geri sér grein fyrir sinni stöðu og einnig að gera þeim grein fyrir því að það er ,,deadline“ á þeirra mál. Það verður svo sett fram slagplan varðandi málið og með því að hafa gott slagplan, vita þeir hvenær þeir geta tapað á að semja ekki og hvað þeim getur áunnist við að semja við íslensk stjórnvöld. Þetta þarf að vera skýrt og skilmerkilegt, einföld og aðgengileg áætlun.

Þetta getur sjálfstæð og fullvalda þjóð farið fram á því hún hefur lagasetninga- og skattavaldið.

Sjálfstæð og fullvalda þjóð getur lofað vogunarsjóðum að fá ávöxtun fjár síns þannig að fjárfestar, sem eiga í þeim, tapi ekki heldur komi ágætlega út en þeir græða heldur ekki m.v. 50 til 100% ávöxtunarkröfu sem þeir óska helst. Hvers vegna ekki? Jú, það er vegna þess að þeir eiga ekki að gera svo háa ávöxtunarkröfu þegar þeir sjá fram á að þeir geta fengið greitt, þeir eiga kost á að fá gjaldeyri og að ríkissjóður Íslands, hversu sterkur sem hann nú er, tryggir að framfylgt sé því sem lofað er.

Þegar hingað er komið og þetta er vel formað og fest niður má ætla að hægt verði að bjóða mjög góð kjör á raforku og í skiptum fáist gjaldeyrir á góðum kjörum um leið og fjárfesting streymir í landið. Þannig má gera gjaldmiðlaskiptasamninga og/eða viðskipti til að tryggja að bitið sé hressilega af snjóhengjunni í hvert skipti.

Arðsöm uppbygging og nýting auðlinda landsins í sátt við umhverfissjónarmið eru lykilatriði í framtíðaruppbyggingu íslensks hagkerfis. Þær atvinnugreinar sem nýta náttúruauðlindir í eigu hins opinbera eiga að greiða hóflegt og sanngjarnt gjald fyrir. Þá þarf að gæta þess að nýtingar- og eignarrétturinn sé virtur í hvívetna.

Reikna má að hægt verði að fá Alcoa aftur að borðinu varðandi álver á Norðurlandi, stækkun í Straumsvík og álver í Helguvík. Þessi 3 verkefni geta klipið um 400 til 500 milljarða af hengjunni með fyrirvara um betri úttekt á því.  Samhliða þarf að fara í að virkja neðri hluta Þjórsár og fara í virkjanir á Suðurnesjum, í Þingeyjasýslum sem og á Hellisheiði. Við kaup á vélbúnaði mætti klípa um 200 milljarða af snjóhengjunni.

Allt er þetta umhverfisvænn iðnaður og atvinnuskapandi mjög bæði til lengri og skemmri tíma.

Samhliða þessu mætti bjóða öðrum fjárfestum áhugaverð verkefni hér á landi t.a.m. á sviði ferðaiðnaðar, endurnýtanlegrar orku sem og þjónustu. Við eigum einnig að hefja aftur af krafti uppbyggingu þjónustugreina t.a.m. í fjármálageiranum og tryggja ávöxtun lífeyris með þátttöku í áhugaverðum verkefnum bæði hér innanlands og erlendis.

Það er af nógu af taka og óhætt er að treysta Sjálfstæðisflokknum til þeirra verka á næstu árum.

Til lukku sjálfstæðisfólk !

Til hamingju Ísland !

 

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

«
»

Ummæli (14)

  • Tilboð Sjálfstæðisflokksins um áframhaldandi gengisfellingar og dýrtíð í boði LÍÚ og Flokksins telst varla girnilegt.

    Á síðustu 33 árum hefur gengið á Krónunni fallið 23 falt. Dönsk kr. kostar nú 23 ísl kr. en kostaði eina krónu árið 1980. Á þessum tíma hafa fjármál íslendinga lengst af verið undir stjórn Sjálfstæðisflokksins og áfram skal haldið á sömu leið. Hver Óskar eftir því?

    • Sveinn Óskar Sigurðsson

      Þakka ábendinguna. Við höfum verið að byggja Ísland frá upphafi síðustu aldar. Það kallar ávallt á verðbólgu sbr. þau svæði sem nú byggjast í Asíu. Nú erum við ríkari en áður og verðlagið hefur því breyst mikið. Hins vegar liggur vandinn í sparnaði sem skortir mikið á Íslandi en mikið er af í Asíu. Við erum nefnilega búin að bruðla samhliða sem ekki er gott. Það að gengisfella gekk út á að landið þarf gjaldeyri og án samkeppnishæfni útflutningsgreina á mörkuðum fáum við ekki gjaldeyri yfir höfuð. Það skiptir máli að geta stýrt þessu til að halda mörkuðum og atvinnu. Svo þegar við þroskumst inní framtíðna sem þjóð þá vona ég að við spörum meira og eyðum minna.

  • Jón Páll Garðarsson

    …og áfram skal bruna niður snjóhengjuna…!

    • Sveinn Óskar Sigurðsson

      Það er gaman á skíðum en sumir óttst hæðina sem farið er í og hengjurnar sem fara á niður. Þetta er bara spennandi verkefni. Ekki að óttast það að takast á við krefjandi verkefni.

  • Sverrir Kr. Bjarnason

    Það eru engin einhlít meðmæli með stjórnmálaflokki, að hann sé sterkastur, nema fyrir þá sem dýrka valdið eitt og fylgja alltaf þeim sterkasta, jafnvel gegn betri vitund.

    • Sveinn Óskar Sigurðsson

      Það er alveg rétt hjá þér Sverrir. Hins vegar hefur veiklyndi einstakra þingmanna leitt til sundrungar við stjórn landsmála og þeir hafa vikið sér undan því að ganga sama veg of forysta t.d. vinstri stjórnarinnar. Þarna skiptir litlu hvort flokkur sé hægri eða vinstri flokkur. Það sem er alltaf vont er áhættan og óreiðan sem skapar óstöðugleika og ekki sé hægt að treysta aðgerðum stjórnvalda vegna innanbúðarátaka. Því er öllu betra að hafa sterka flokka hvort heldur eð sé vinstri flokkur eða hægri flokkur. Hins vegar er ég hægri maður og því segi ég þetta. Vandi vinstri manna er að kljúfa sig út og suður, það þekkjum við báðir.

  • Höfðu bæði stund og stað
    að stynja því upp loksins
    en afsökunar enginn bað
    Ísland á stefnu FLokksins

    • Sveinn Óskar Sigurðsson

      Þú hefur nú prik og gluggapunt
      að pot’í kokkinn
      Nú með hik hér og þvagið þunnt
      við að’þukla Flokkinn.

  • Nei takk.

  • Björn Gunnlaugsson

    Það er varla hægt að segja – bara ef maður skoðar forsíðu Eyjunnar í dag – að það sé mikið mark takandi á því hvernig þú stillir Sjálfstæðisflokknum upp sem valkosti stöðugleika á móti stirðleika vinstri flokkanna.

    „Sjálfstæðisflokkurinn er patt“
    „Af hverju kýs sjálfstæðismaður ekki flokkinn sinn?“
    „Er hægt að kjósa sjálfstæðisflokkinn?“

    Fréttir af landsfundi gáfu til kynna að þar logaði allt í deilum, kannski nema rétt á meðan heimildamyndin um heilagan Davíð var sýnd.

    Formaðurinn þinn hlaut glæsilega kosningu, þangað til maður tekur með í reikninginn að nærri fimmta hvert atkvæði var greitt konu sem var ekki í framboði gegn honum. Hún hefði líklega burstað hann hefði henni verið leyft að fara gegn honum. Á meðan höfðu hinir aðframkomnu stjórnarflokkar vit á að skipta út sínum óvinsælu formönnum.

    Það er ekki laust við að maður horfi til vandræða Repúblikanaflokksins og sjái ákveðin líkindi.

    • Sveinn Óskar Sigurðsson

      Þakka skeytið. Það er fagnaðarefni ef tekist er á í málum og það hefur oft verið um átök að ræða innan nefnda og bak við tjöldin. Þar er Sjálfstæðisflokkurinn ekki undantekning. Bjarni er í góðum málum og mun aðeins sækja í sig fylgið hér eftir sem hingað ti.

      • Björn Gunnlaugsson

        …eins og skoðanakönnun dagsins gefur til kynna – fylgið ekki verið minna á þessu kjörtímabili.

        • Björn Gunnlaugsson

          Af hverju er lokað fyrir ummæli á nýjasta pistli þínum sem virðist vera þó nokkuð beittur?

          Getur verið að þú hafir lært að skammast þín?

  • Jóhann Grétar Kröyer Gizurarson

    Sjálfsstæðisflokkurinn er búin að umturnast úr víðsýnum miðju-hægri flokki í þröngsýnan, jafnvel kristilegan forræðishyggjuflokk enga framtíðarsýn í peningamálum. Formaðurinn safnaði saman jáfólki til að láta kjósa sig, það endurspeglar ekki þá megnu óánægju með störf hans og afar tíð skoðunarskipti sem eru meðal almennra flokksfélaga sem ekki fengu boð á elítufundinn. Flokkurinn hefur ekki verið veikari málefnalega en einmitt nú.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og þremur? Svar:

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur