Fimmtudagur 28.03.2013 - 09:06 - Lokað fyrir ummæli

Árangur ríkisstjórnar Íslands

Nýlega las forsætisráðherra úr forsetabréfi og frestaði fundum Alþingis framyfir kosningar.

Lýkur þá tímabili fyrstu tæru vinstristjórnar Íslandssögunnar en sögu Íslands má rekja langt aftur þar sem margt hefur gengið á og miklar hamfarir geysað svo ekki sé minnst á pestir og vosbúð fyrri alda.

Þeir sem kusu þessa stjórn yfir sig eftir hrunið árið 2008 höfðu væntingar um að nútímavæddir rauðliðar gætu bylt kerfinu og búið þannig til betra Ísland. Rætt var um spillingu, kallaður var saman Landsdómur í fyrsta sinn, lofað var efndum vegna stökkbreyttra lána, stefnt að aðild Íslands að ESB og að auki reynt að koma hér á bankakerfi sem fólk treysti á. Einnig var lagt upp með að breyta stjórnarskránni.

Eftirfarandi náðist fram í tíð þessarar ríkisstjórnar:

 • Rannsóknarnefnd sett á laggirnar til að afrita úr Peningamálum Seðlabanka Íslands og prenta skýrslu um efnhag bankakerfisins og viðtöl við ergilega banka- og stjórnmálamenn. Eina sem kom út úr því og eitthvað vit var í var heimspekilega úttektin sem fylgdi með þessum 9 bindum er gefin voru út. Annað var endurtekning, afritun eða tóm vitleysa.
 • Sérstakur saksóknari skipaður (reyndar af fyrri ríkisstjórn). Þessi aðili skilar seint og illa frá sér verki og starfsmenn hans margir uppfullir af umboðsvanda. Embættið yfirheyrir, rannsakar og ákærir í senn sem telja má vera mannréttindabrot.
 • Slitastjórnir og skilanefndir skipaðar án þess að mynda hvata til ljúkningar mála. Þess í stað eru þessir aðilar, sem þar starfa á milljóna launum ár hvert, ekki að leysa mál og senda þau flest frekar til dómstóla þar sem dómarar eru á margfallt lægri launum og dómskerfið uppfullt af málum. Enginn hvati virðist vera til að ljúka málum og semja um þau. Fremur er hvati til að halda þrótabúum gangandi eins lengi og kostur er svo sjúga megi fjármuni frá kröfuhöfum hverjir sem þeir kunna að vera. Má m.a. nefna Dróma sem sérstakt afbrigði af þessu fyrirbæri þar sem starfandi virðast vera trassar í stjórn og aðilar sem njóta í raun fjármuna óbeint frá ríki enda virðist eignasafnið allt enda þar og tjónið (vegna slælegra samninga í upphaf ferilsins) um leið.
 • Dæmt í máli ráðuneytisstjóra sem telja má að varði við mannréttindabrot fyrir Hæstarétti.
 • Landsdómur kallaður saman og uppskeran engin. Einnig miklar líkur á mannréttindabroti í því máli öllu saman.
 • ESB umsóknarferli í gang og eytt þar miklum fjármunum og ekkert komið út úr því annað en umtalsverð sóun á skattfé og tíma embættismanna á Íslandi.
 • Ríkisstjórnin einkavæðir bankana til kröfuhafa með gjafagjörningum á lánasöfn – Stærsta einkavæðing Íslandssögunnar.
 • Icesave var þrívegis reynt að setja ofan í þjóðina með tilsvarandi klækjum.
 • Greitt út til fólks sem sætti illri meðferð í opinberum stofnunum í Breiðuvík og víðar.
 • Vændi gert lögmætt ef það er stundað skv. lögum.
 • Kosningar til stjórnlagaþings sem illa var að staðið og síðar dæmdar ólögmætar.
 • Skipað í svokallað Stjórnlagaráð sem taldi sig hafa fullt umboð þjóðar til að setja henni nýja stjórnarskrá. Miklum fjármunum skattgreiðenda eytt í það verkefni.
 • Gengistryggð lán leiðrétt með dómi þrátt fyrir að reynt hafi verið að standa í vegi fyrir slíku og öllum brögðum beitt.
 • Verðtryggð lán ekki leiðrétt þrátt fyrir að það hafi verið hin ólögmætu gengistryggðu lán sem þöndu út hagkerfið og olli verðbólgu er hækkuðu verðtryggðu lánin og skekkti hagkerfið það mikið að það hrundi lengra niður en ella hefði orðið raunin.
 • Ríkisstjórn Íslands setur svokölluð Árnalög sem Hæstiréttur dæmir ólögmæti og brot á stjórnarskrá.
 • Stjórnarskrármálið eyðilagt af þeim sem töldu breytingar mikilvægar á stjórnarskrá, þ.e. af 24 þingmönnum sem eftir voru á Alþingi og studdu hreinu vinstri minnihlutastjórnina.
 • Jafnréttislög brotin af forsætisráðherra.
 • Enginn spítali í augsýn.
 • Fátækt minnkar ekkert.
 • Engin erlend fjárfesting.
 • Vegir um land allt að gefa sig vegna skorts á viðhaldi.
 • Opnir sorphaugar víða því búið er að loka sorpbrennslum vegna ESB regluverks.
 • Fjölgun stofnanna og flækjustig eykst.
 • Ekkert kjöt mælist í auglýstum kjötréttum á Íslandi.
 • Ekkert virkjað á kjörtímabilinu og ekkert fjárfest í stóriðju.
 • Ríkisfjölmiðillinn RÚV ræðst á iðnað á Íslandi og erlenda fjárfesta ásamt ríkjandi minnihlutastjórnvöldum.

Hér er ekki allt upp talið og hver og einni Íslendingur getur talið upp mun meira hvað varðar árangur þessarar ríkisstjórnar sem brátt víkur fyrir þeim sem þjóðin kýs í þeirri þjóðaratkvæðagreiðslu sem framundan er.

Njótið nú kosninganna og vill pistlahöfundur fullyrða að framundan séu áhugaverðustu kosningar sem haldnar hafa verið í áratugi. Fjöldi framboða og úrvalið mikið. Framsókn að fá mesta fylgið, smáflokkur sem margir gerðu grín að hér um árið.

Nú er öldin önnur.

Gleðilega Páska !

 

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur