Föstudagur 07.03.2014 - 10:09 - Lokað fyrir ummæli

Ég borga ekki ! Ég borga ekki !

Nóbelsverðlaunahafinn, ítalski leikritahöfundurinn og skáldið Dario Fo

Nóbelsverðlaunahafinn, ítalski leikritahöfundurinn og skáldið   Dario Fo

 

Óhætt er að segja að eitt ástsælasta gamanleikjaskáld okkar tíma sé ítalska skáldið Dario Fo. Í júní 2009, í miðri Búsáhaldabyltingu á Íslandi, setti leikhópurinn Nýja Ísland upp leikverkið ,,Við borgum ekki! Við borgum ekki!“ (í. Non Si Paga! Non Si Paga!) í Borgarleikhúsinu við mikinn fögnuð landsmanna sem höfðu staðið út í kuldanum um veturinn 2008/2009 og mótmælt óspart svo þúsundum skiptir á Austurvelli og fyrir framan Seðlabanka Íslands.

Í þessum yndislega farsa eftir nóbelskáldið, þ.e. í uppfærslu Borgarleikhússins árið 2009, verður m.a. sérsveitarmaður, sem kallaður var til vegna óróa á meðal kvenna er tekið höfðu völdin á sviðinu, óléttur. Var þessi gamanleikur settur upp sem ný útgáfa og í þýðingu Magneu J. Matthíasdóttur. Eins og flestir vita var og er Dario Fo mjög pólitískur í verkum sínum og ber hag þess minni máttar fyrir brjósti og var frekar andsnúinn kirkjunni. Var þessi uppfærsla samvinnuverkefni Nýja Íslands, Borgarleikhússins og Leikfélags Akureyrar sett upp bæði á Akureyri og í Reykjavík undir leikstjórn Þrastar Leó Gunnarssonar.

Sama ár og leikverkið var sett upp hringdi þáverandi forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, í þáverandi aðalseðlabankastjóra og sagði að ef bankastjórarnir þrír segðu ekki af sér myndi hún koma þeim öllum frá með valdi. Þetta gerði hún með dyggum stuðningi frá núverandi formanni Samfylkingarinnar sem hún síðar bolaði sjálf út úr ráðuneyti sínu eins og bankastjórunum þremur úr Seðlabanka Íslands. Ætla má að hún hafi brugðið sér í Borgarleikhúsið árið 2009 og séð þar ,,Við borgum ekki! Við borgum ekki!“ eftir Dario Fo. Á þessum tíma var leihússtjóri Leikfélags Reykjavíkur Magnús Geir Þórðarsson núverandi og nýskipaður útvarpsstjóri RÚV svo því sé haldið til haga.

Már Guðmundsson seðlabankastjóri

Már Guðmundsson seðlabankastjóri

Eftir að Jóhanna vó að sjálfstæði Seðlabanka Íslands með beinum hætti, sem jaðrar við stjórnarskrárbrot, var fenginn annar seðlabankastjóri og þá aðeins einn. Að honum var logið svo herfiðlega varðandi launamál að hann ákvað að fara í dómsmál við launagreiðanda sinn, Seðlabanka Íslands. Hafði þessi mæti fagmaður, Már Guðmundsson, starfað hjá Alþjóða greiðslubankanum (e. Bank for International Settlements – BIS) um árabil og hafði þar fín laun og treysti Jóhönnu Sigurðardóttur og ráðuneyti hennar að staðið yrði við gefin fyrirheit varðandi laun. Það var ekki gert eins og allir vita og því fór Már í mál.

Nú hefur verið dæmt í þessu máli og tapaði Már Guðmundsson málinu fyrir Hæstarétti, sbr. frétt Viðskiptablaðsins þar að lútandi. Hann sagði í kjölfar dómsúrskurðar að vegna þess að hann hefði greinilega verið ómissandi hafi hann ,,ekki getað hrokkið undan því vegna stöðu landsins.“.  Það er virðingarvert og minnir þetta mann óneitanlega á sannkristinn byltingarmann er snýr heim frá París, Basel, Berlín eða Róm.

Hann tók því starfinu, kynnti sér launakjörin en klikkaði á því að treysta orðum Jóhönnu Sigurðardóttur og félaga þegar kom að því að efnt yrði loforð sem greinilega var gefið á bak við tjöldin. Hann treysti orðum ráðherra er braut á sjálfstæði Seðlabanka Íslands og síðar á honum sjálfum persónulega. Kannast þjóðin ekki við brotin loforð síðustu ríkisstjórnar varðandi ,,Skjaldborg heimilanna“? Það loforð var svikið og endaði sem n.k. ,,Tjaldborg heimilanna“ eftir nauðung af margvíslegu tagi. Þetta þekkir islensk þjóð og þarf ekki að sjá leikrit í Borgarleikhúsinu til að átta sig á samhenginu undir glaðværum hlátrasköllum.

Það er ekki að undra að Már Guðmundsson, sá ágæti hagfræðingur og séntilmaður, hafi ekki verið sáttur enda lítur hann nú út eins og sérsveitamaðurinn ólétti í leikverki Dario Fo sem núverandi útvarpsstjóri lét setja upp í Borgarleikhúsinu hér á árunum eftir hrun.

Ekki er að undra að þegar kom að því að greiða meðlagið með króanum hafi bankastjórinn kallað upp yfir sig; ,,Ég borga ekki! Ég borga ekki!“ og krafist þess ofan í kaupið að launagreiðandinn greiddi reikninginn eftir sambúðina, sjálfur Seðlabanki Íslands, gagnaðilinn í málinu sem vann málið. Hvort þetta endar í drama eða dásemd skal ósagt látið.

Gleði eða grískir harmleikir

Gleði eða grískir harmleikir

Farsinn í kringum Seðlabanka Íslands virðist engan enda ætla að taka.

Hefði Dario Fo getað gert betur?

 

 

Flokkar: Heimspeki · Menning og listir · Spaugilegt · Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur