Föstudagur 14.03.2014 - 14:58 - Lokað fyrir ummæli

LEGO og ESB

Niels Jacobsen stjórnarformaður Lego

Niels Jacobsen stjórnarformaður Lego

Við Íslendingar þekkjum það frá því fyrir hrun að það var umtalsvert mikið logið að öldruðum, börnum og búaliði þessarar þjóðar um margvísleg hagsmunamál þjóðarinnar, fjármál heimila, velferð og þann gríðarlega vöxt sem bankar og margar innlendar samsteypur sýndu. Svo þegar hinir ,,alþjóðlegu“ lánamarkaðir þurrkuðust upp voru margir snillingar kallaðir til við að rita skýrslur og rugla svo óskaplega í þjóðinni að það héldu flestir að það væri allt í stakasta lagi á Íslandi eftir að Lehman Brothers hrundu. Það komu súltanar og sæfarar að málum sem sögðust vilja kaupa í bönkunum aðeins til þess að ljúga að hluthöfum bankanna. Guðirnir voru þá fleiri en einn á Íslandi.

Nú hefur einn slíkur ESB snillingur dúkkað upp til að sannfæra landann að selja landið sitt og auðlindir. Hann er dani og hann er SKO LÍKA stjórnarformaður í Lego. Nú segir hann að svo stoðtækjafyrirtækið Össur gæti lifað og dafnað á alþjóðlegum vettvangi verði Ísland að ganga í ESB því Ísland sé ekki lengur góður staður til að reka alþjóðlegt fyrirtæki. Það er nú ekki beinlínis fallega gert að draga karl skömmina inní þessa umræðu á Íslandi enda má efa það stórlega að hann botni í henni.

Hið vinsæla Lego fyrirtæki hóf göngu sína í Billund í Danmörku hjá húsasmiðnum Ole Kirk Christiansen sem fæddur var 7. apríl 1891. Hann hóf að búa til leikföng fyrir börn úr timbri árið 1932. Árið 1932 var talið allra versta ár kreppunar miklu þegar hagvöxtur heimsins er talinn hafa dregist gríðarlega saman og atvinnuleysið varð um 23,6% í Bandaríkjunum. Verðfall hlutabréfa í iðnfyrirtækjum þar féll þá um 80% frá árinu 1930 og um 10 þúsund bankar féllu í Bandaríkjunum frá árinu 1929 til ársins 1932. Svona var umhorfs þegar Lego hóf göngu sína.

Sé litið til atvinnuleysis í Danmörku (sjá Danmark Statistik varðandi atvinnuleysi) kemur í ljós í nýlegri skýrslu dönsku hagstofunnar að ungt fólk og börn sem eru að koma á vinnumarkaðinn séu í lang mestri áhættu að lenda í langtíma atvinnuleysi þegar þau koma á vinnumarkaðinn.

Áættumat varðandi atvinnuleysi ungmenna í Danmörku

Áættumat varðandi atvinnuleysi ungmenna í Danmörku

Sökum þessarar áhættu og fyrirliggjandi upplýsinga um eða yfir 20% atvinnuleysi ungs fólks á Spáni, í Frakklandi, Þýskalandi og víðar í ESB löndum getur ekki annað verið en hluthafar Lego fagni enda geta þá börn dundað sér við eitthvað annað en vinnu þegar fólk flosnar upp úr skóla eða lendir á bótum. Á meðan þessar þjóðir fjölga sér ekki, hagvöxtur dregst saman er það atvinnuleysið sem eitt getur drifið áfram sölu á legókubbum ef fram heldur sem horfir.

Ekki að undra þó að stjórnarformaður Lego telji Ísland, þar sem atvinnuástandið er mun betra og þar sem ungmenni geta fengið vinnu á sumrin, sjái sér ekki hag í því að selja mikið af Lego kubbum á Íslandi þessi misserin. Sama gæti átt við CCP sem lifir á því að fólk leiki sér í tölvu dægrin löng og fara því ,,hagsmunir“ bæði Lego og CCP vel saman hvað þetta varðar.

Við viljum öll að alþjóðafyrirtæki líði vel með starfsemi sína á Íslandi. Hvaða leið á að fara til að fullnægja þeirra óskum?

Vissulega er þetta einföldun en þeir sem gagnrýna stöðu Íslands í dag og vilja sjá það fremur innan ESB en utan þess verða að gera sér grein fyrir því að valið stendur um krónu og hærra atvinnustig eða evru og meira atvinnuleysi. Verða stórfyrirtæki að meta sína samfélagslegu ábyrgð út frá fólkinu í landinu og hvort það þjóni hagsmunum allra að gefa eftir fullveldi Íslands og setja stjórn auðlindamála undir embættismannakerfið í Brussel.

Nýlegt útspil ESB varðandi makríldeiluna minnir okkur óneitanlega á að ESB er ekkert fyrir náttúruvernd gefið né sjálfbærni hvað náttúruauðlindir varðar.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur