Upp á síðkastið hefur verið mikið skrafað um Rússa og tilburði þeirra í Úkraínu og innlimun Krímskaga í Rússland á dögunum.
Eftir þetta umstang allt saman hefur forseti Bandaríkjana talað digurbarkalega ásamt kanslara Þýskalands og öðrum pótintátum Vesturlanda eins og fulltrúum Evrópusambandsins sem hlegið er að þegar kemur að viðbrögðum á sviði varnarmála. Það hrífur ekki enda vita bitlaust og illa undirbúið innlegg af þeirra hálfu. Nató hefur brugðist við með því að færa sér nær landamærum Rússa í Póllandi og í Rúmeníu. Það er allt og sumt.
Á 18. öld börðust Rússar undir forystu Katrínar miklu gegn Ottóman Tyrkjum er höfðu ráðið skaganum frá 1441 til 1783 þegar Rússar sigruðu þá. Þá höfðu svonefndir Tatars ráðið ríkjum og stundað yfirgripsmikla þrælasölu þar sem Ottómanar náðu að flytja út um 2 milljónir þræla frá Rússlandi og Úrkaínu á tímabilinu 1500 til 1700. Ekki von að Rússum hafi ekki líkað það og að Katrín mikla hafi haft áhyggjur af sínu fólki enda frelsaði hún bæði sitt fólk og Úkraínumenn undan þessu oki Ottóman Tyrkja og Tatara.
Það braust út stríð á skaganum á 19. öld er kallast Krímstríðið þegar Rússar þurftu að berjast við bandamenn Ottóman veldisins, þ.e. Frakka, Breta og herflokka frá Sardiníu. Þar töpuðu Rússar og var það Austuríska keisaradæmið sem stóð hlutlaust á hliðarlínunni en tók þátt í því á bak við tjöldin að sigra Rússa.
Þarna stóð því hið ,,forna Evrópusamband“ í raun í blóðugu stríði við Rússa er voru að verja sig gegn þrælasölu og skepnuskap fyrri alda. Gátu Bretar og Frakkar ómögulega ætlað Rússum að ná þarna völdum á kostnað Ottóman veldisins er réð þá Jerúsalem og öllu heilögu landi kristinna. Þarna voru Rússar að gæta Orþadox kristinna manna, vernda sitt fólk og sína menningu á svæðinu. Þegar Rússar voru nánast búnir að sigra Tyrkina komu Bretar og Frakkar Tyrkjum til hjálpar árið 1854 og snéri þetta stríð einnig um það hver færi í framtíðinni með yfirráð á Svarta hafinu.
Helsta vígi Rússa á þessum tíma var Sevastopol, sú borg sem mikið hefur verið fjallað um að undanförnu. Eftir að Sevastopol féll var kallað til ,,friðarráðstefnu“ í París árið 1856 þar sem Wallachia (nú Rúmenía) og Moldóvía urðu ,,sjálfstæð“ ríki undir Ottóman veldinu auk þess sem Svarta hafið var gert að hlutlausu svæði. Það voru nú öll elskulegheit Frakka og Breta gagnvart Evrópuríkjum eftir þrælasölu og ok Tyrkja sem Rússar reyndu að ná þessum menningarheimum undan.
Í borgarstríðinu í Rússlandi var skaginn undir stjórn Hvíta hersins sem tapaði fyrir Rauða hernum síðar og varð skaginn í kjölfarið hluti af Sovétríkjunum árið 1921. Undir lok síðari heimstyrjaldarinnar var haldin ráðstefna í borginni Yalta á Krímskaganum (4. til 11. febrúar 1945) þar sem sigurvegarar réðu ráðum sínum varðandi skiptingu Evrópu. Þar varð Evrópa nútímans til (fyrir utan breytinga í kjölfar hruns Sovétríkjanna) og í raun Evrópusambandið í allri sinni dýrð fáum árum á eftir með Parísarsáttmálanum 1952 og í framhaldinu með Rómarsáttmálanum 1958..
Það var svo sjálfur Níkíta Krútsjev, aðalritari sovéska kommúnistaflokksins, sem gaf Úkraínu (e. Ukrainian Soviet Socialist Republic) Krímskaga árið 1954. Árið 1991 varð Krímskagi svo hluti af sjálfstæðri Úkraínu. Krútsjev var sjálfur fæddur á landamærum Úkraínu og Rússlands í rússneska þorpinu Kalinovka árið 1894 og hafði sjálfsagt munað eftir sögum af tilburðum Breta og Frakka við að koma aftur á þrælasölu á þessu svæði fáeinum áratugum áður en hann fæddist.
Nú hafa Rússar ákveðið að taka Krímskagann aftur í fang sér og það er ekki hægt annað en að skilja þá afstöðu sem þeir hafa til málsins í ljósi sögunnar.
Rússar eru stolt þjóð með ríka sögu. Deila má svo um stjórnmál á víðum grunni s.s. um pólitískan og hernaðarlegan stöðugleika, stöðu listamanna og samkynhneigðra í Rússlandi.
Rússar eru því alls ekki eins slæmir og látið er í veðri vaka. Rússa og rússneskrar menningar ber að gæta.
Við gætum okkar eigin sem sjáald augna okkar.
Gleymum ekki sögunni í þessu samhengi.