Laugardagur 12.04.2014 - 09:08 - Lokað fyrir ummæli

Athyglissýki og meðalhóf

Við Íslendingar erum ekki öðruvísi en aðrar þjóðir en þessi litla þjóð virðist þó eiga heimsmet á hvern einstakling sem hér býr í fjölmörgum ,,keppnisgreinum“ ef svo má að orði komast. Fyrir utan hina vel þekktu hjarðhegðun, sem lýsa má með fótanuddtækinu, bumbubananum, soda-stream tækjakaupæðinu (hinu fyrra), hjólaskautahæðinu og hlutabréfakaupaæðinu hinu fyrra (2000-2003) og hinu síðara (2005-2008), erum við mörg hver með einstaklega mikla athyglissýki. Við erum einnig mörg of feit og hefur það m.a. leitt til að hin vel þekkta alþjóðlega sjónvarpskeppni, ,,the Biggest Loser“, hefur tröllriðið landanum og gefið öðrum gott fordæmi. Hefur pistlahöfundur ekki farið varhluta af þessari keppni enda bentu börnin á að rétt væri að pabbinn færi í þessa keppni en létu nú fylgja með að hann væri nú kanski ekki beinlínis ,,loser“ heldur ,,biggest“. Það er mikið rétt enda börnin oftast þau sem segja sannleikan og koma sér beint að efninu, fylgja dygðunum sem við hin eldri virðumst mörg hver gleyma.

En snúum okkur að dygðunum.  Til vitrænnna dygða teljast:

  • skilningur
  • þekking
  • viska
  • hyggindi

Til hinna siðrænu dygða teljast:

  • hugrekki
  • hófstilling
  • veglyndi
  • stórlyndi
  • mikillæti
  • mátulegur metnaður
  • háttvísi
  • sannsögli
  • vinátta
  • réttlæti

Þegar kemur að athyglissýki er ljóst að þar keppa aðilar um að berast á, fá athygli almennings og notast er við fjölmargar aðferðir til að koma sér á framfæri og oftar en ekki á kostnað annarra. Þetta er lýtur því lögmálum framboðs og eftirspurnar og máli skiptir hvar þú ert í hillunni og hve áberandi þú ert svo einhver vilji kaupa þig og yfireitt veita þér athygli. En er þetta sýki rétt eins og áfengissýki eða fíkn? Það þarf alls ekki að vera enda getur þetta verið einhver rík þörf til að tjá sig og verður hún þó oftar til þess reyndar að skyggja á aðra og vitrænni persónu, einstakling sem hefur framangreindar dygðir að leiðarljósi. Hægt er að sjá þetta á börnum, þ.e. athygslisþörfina, þar sem eitt barn getur oft skyggt á heilan hóp vegna þess að það stekkur fremst fram og lætur á sér bera með margvíslegum hætti. Oft er þetta afar gamansamt en oft er þetta einnig leiðingjarnt.

Dæmi um þetta má finna á Alþingi Íslendinga. Þar starfa 63 þingmenn ásamt starfsfólki þingsins. Á Alþingi Íslendinga eru fluttar fjölmargar þingsályktunartillögur og mörg frumvörp, bæði þingmannafrumvörp og svo frumvörp frá ríkisstjórn sem viðkomandi fagráðherra mælir oftar en ekki fyrir. Sjá má það af þátttöku þingmanna að þeir nenna hreinlega ekki að taka þátt í umræðum á þinginu um þorra þeirra mála sem þar koma fram heldur ná að hópa sér saman um fáein mál sem vekja athygli almennings og eru ,,efst á baugi“ og eru góð söluvara fyrir fjölmiðla. Þar má nefna:

  • Fjölmiðlafrumvarp
  • Rannsóknanefndir og skýrslur þeirra
  • Evrópusambandið og umsókn eða afturköllun umsóknar
  • Utanríkismál ef um stríðsátök er að ræða
  • Skuldaleiðréttingar
  • Flugvallarmálið
  • Fjárlagafrumvarp

Þetta er ekki upp talið en gefur ágæta innsýn í þá málaflokka sem eru áberandi í umræðunni í dag. Vissulega fer yfirgripsmikið starf fram í nefndum þar sem hver þingmaður sérhæfir sig, ef svo má að orði komast, í ákveðnum málaflokkum. En þrátt fyrir allt virðast fjölmargir þingmenn ekki setja sig vel í málaflokka en eru tilbúnir að koma fram í ræðustól Alþingis og ræða um málefni sem viðkomandi hefur jafnvel lítið eða ekkert vit á. Þá er sagt að þetta sé ,,hans skoðun“ og það má vel vera. Margir segja; ,,…en þetta er nú mín skoðun.“. Hér ríkir mál-, tjáningar- og ritfrelsi en það fylgir ábyrgð því hvernig maður tjáir sig og kemur sínum málum á framfæri.

Ef við snúum okkur að athyglissýki skal bent á að einn þingmaður á Alþingi Íslendinga reif nýlega þrjá 10 þúsund krónur seðla í ræðustól Alþingis. Þetta átti líklega að vera táknrænt og þarna kemur þingmaður fram og setur nýtt viðmið (e. benchmark)  varðandi það sem má bjóða almenningi uppá úr ræðustól Alþingis Íslendinga. Hvað kemur næst? Verða þarna rifin skuldabréf eða hlutabréf ákveðinna fyrirtækja. Með þessu framferði þingmannsins, sem vissulega var vakin athygli á, er hann ekki að gæta hófs né háttvísi. Þetta átti að vera gert til að mótmæla kostnaði við gerð skýrslu að beiðni Alþingis Íslendinga. Hefði þingmaðurinn ekki getað komið þessu á framfæri með öðrum hætti?

Þetta framferði lýsir ekki mikilli visku né hyggindum. En vissulega fékk hann þá athygli sem hann sóttist eftir en á kostnað Alþingis og dró þannig athygli frá efni skýrslunar sjálfrar og færði hana yfir á að vandamálið sé ekki í raun innihaldið heldur kostnaðurinn við gerð hennar. Alþingi Íslendinga ,,fjárfesti“ í þessari vinnu og málið fékk lýðræðislega umfjöllun á sínum tíma þegar ákvörðun um rannsókn var tekin. Er ekki lágmark að þingmaðurinn, sem situr þó annað þing en það sem tók þessa ákvörðun, beri lágmarks virðinu fyrir þeirri fjárfestingu sem Alþingi lagði í en rýri ekki verkið meira en efni standa til. Í sama mund bera þingmenn fyrir sig að málið var tekið það snemma upp á Alþingi að þeir hefðu ekki haft tök á að kynna sér efnið hennar sem er vel yfir eitt þúsund síður. Þetta er því mikið verk sem á eftir að vera rætt lengi á Alþingi enda ekki vanþörf á og þingmenn mega ekki verða uppvísir af jafn lélegum vinnubrögðum sjálfir og gagnrýnin í skýrslunni um sparisjóðina gengur út á.

Ef þeir gera það ekki mun virðing á Alþingis Íslendinga minnka enn frekar.

En eftir stendur spurningin hvers vegna þingmaðurinn reif ekki evrur?

Gætum hófs.

 

Flokkar: Heimspeki · Menning og listir · Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur