Föstudagur 25.04.2014 - 18:27 - Lokað fyrir ummæli

Everest og ESB

Everest - Hæsta fjall jarðar 8.848 metrar yfir sjó

Everest – Hæsta fjall jarðar 8.848 metrar yfir sjó

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, sló á þráðinn til Pútín forseta, fyrrverandi forsætisráðherra og fyrrverandi forseta Rússlands og sagðist ekki nenna að standa í þessu Úkraínumáli lengur. Bað hún Pútín um að hætta þessu hernaðarbrölti sínu við landamæri Úkraínu enda hefði hún enga skriðdreka að ráði lengur og enginn væri ógnin úr vestri nema helst það er varðar of mikinn efnahagslegan viðsnúning í Bandaríkjunum og argaþras frá Obama sem brátt yfirgefur Hvíta húsið í Washington.

Á sama tíma hafa Serparnir sagt upp störfum hjá þeim sem hafa efni á að fljúga til Nepal og ráða þar þessa blessuðu fátæklinga til að hlaupa með vistir upp og niður Everest og leggja slóða. Serparnir ,,bera“ víst marga þá ríkustu upp sem koma m.a. frá Kína og Rússlandi. Þeir borga hvað sem er til að komast á topp Everest. Eftir flugferð upp í um 2.860 metra hæð við þorpið Lukla í Nepal er haldið upp í grunnbúðir í um 5.380 metra og þaðan uppá topp fjallsins sem er í um 8.848 metrum. Frá grunnbúðum upp á topp eru því um 3.468 metrar en eldfjallið okkar Öræfajökull er í um 2.110 metrum frá fjöruborði og uppá topp.

En hvað tengir þetta saman?

Jú, það eru hetjurnar. Hverjir eru hetjurnar í þessu samhengi öllu saman, þeir sem þora, þeir sem geta og þeir sem sigra toppinn?

Ef við byrjum á því að undirstrika að það er Pútín sem er ,,hetjan“ í sínu heimalandi. Hann er sigurvegarinn enda hefur hann vaðið yfir og tekið það sem hann langar í. Hann er hins vegar ekki hetjan sem fór á Everest en hann er hetjan sem tók Krímskaga aftur ef svo má að orði komast, hann er töffarinn og snillingur Rússa í dag. ESB er ekki með forseta og er því Angela Merkel, helsti bandamaður Rússa í viðskiptum með gas, olíu og bíla látin hringja í Pútín og ,,skamma“ hann. En hvað er nú pólitískt rétt í þessu öllu saman, hvar eru gjárnar og þorir ESB að taka áhættu á leið sinni í átt að ,,friði“? Hugsanlega væri betri krókur en kelda fyrir kosningarnar til Evrópuþingsins?

Þeir eru raunverulegar hetjur sem geta borið föggur ferðalanga á Everest upp og niður, mánuð eftir mánuð, ár eftir ár án þess að ná á allri sinni ævi þeim kaupmætti sem þeir hafa er borið er fyrir eða þeir sem eru bornir upp. Það hafa margir drýgt hetjudáð við að komast á toppinn. Serparnir hafa nú misst mikið og hafa misst ættingja og vini í klakaflóði í hlíðum Everst. Það er mikil sorg og mikil fórn sem fylgir því að stunda þessa iðju.

Nú leggur ESB á sitt Everest í utanríkismálum eina ferðina enn með Þýskaland í fararbroddi. Vandinn er bara sá að ,,Serpar“ ESB, þ.e. embættismenn þess, hafa aldrei komist ofar en á efstu hæð Berlaymont byggingarinnar í Brussel og hafa þá oftar en ekki varla getað náð andanum af spenningi. Svo eru þessir ESB ,,Serpar“ líklega skíthræddir við að fá yfir sig pappírsflóð enda gætu þeir á leiðinni upp á efstu hæð orðið óvænt fyrir áföllum af stærðargráðu sem enginn hefur séð fyrir eða tekist á við í því augnarmiði að ganga t.a.m. erinda smáríkja innan ESB. Nú er komið að því að fara uppá þak, útundir bert loft og ógna Rússum. Þar gæti orðið kalt og dimmt eða hvað?

Nú er spurningin sú hvort ESB geti tekist á við þetta verkefni og komist á toppinn í utanríkismálum heimsins.

Tekst ESB að ná toppnum á meðan engan ,,Serpa“ er að finna til að bera allt hafurtaskið? Er nú orðið hættulegt að standa í fæturna?

Eru þetta aumingjar og liðleskjur í ESB?

Flokkar: Heimspeki · Íþróttir · Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur