Fimmtudagur 01.05.2014 - 11:29 - Lokað fyrir ummæli

Skítugasti maður Evrópu

Ludvik Dolezal frá Tékklandi - Mynd afrituð af vefnum www.visir.is (birt 1. maí 2014)

Ludvik Dolezal frá Tékklandi – Mynd afrituð af vefnum www.visir.is (birt 1. maí 2014)

Í nýlegum pistli hér á Eyjunni fór pistlahöfundur stuttlega yfir stjórnmálaferil þingflokksformanns Sjálfstæðisflokksins og varð á þau leiðu mistök að fara rangt með það vinstra framboð sem þingflokksformaðurinn hafði starfað í áður en hann gekk til liðs við Sjálfstæðisflokkinn. Eftir að hafa fengið ábendingu um það frá þingflokksformanninum sjálfum að farið væri með LYGAR leitaðist pistlahöfundur við að leiðrétta mistök sín. Með réttmætinum breytingum leiðrétti pistlahöfundur pistil sinn enda hafði, við nánari skoðun, þingflokksformaðurinn ekki fylgt Jóhönnu Sigurðardóttur úr Alþýðuflokknum í Nýjan vettvang heldur Vilmundi Gylfasyni í Bandalag jafnaðarmanna.

Óhætt er að segja að viðbrögð netheima, t.a.m. á fésbókarsíðu þingflokksformannsins, urðu umtalsverð og þar látið margt flakka. Eftir að leiðrétting á pistlinum hafði verið gerð setti pistlahöfundur inn á fésbókarþráð þingflokksformannsins að leiðrétt hafi verið að þingflokksformaðurinn klauf sig ekki á sínum tíma úr Alþýðuflokknum með Jóhönnu heldur klauf þingflokksformaðurinn sig úr Alþýðuflokknum með Vilmundi heitnum Gylfasyni. Hefur þingflokksformaðurinn ekki en séð ástæðu til að þakka pistlahöfundi fyrir þessa mikilvægu leiðréttingu.

Þegar lesinn er þráður stuðningsmanna þingflokksformannsins kemur í ljós talsverður stuðningur við það að þarna hafi verið um LYGAR að ræða. Eftir lestur þeirra fjölmörgu athugasemda varð pistlahöfundi svo um að hann var á tímabili farinn að halda að hann væri að verða skítugasti maður Mosfellsbæjar, jafnvel Íslands eða Evrópu. Létti honum mjög eftir að í málgagni evrópusinna, www.visir.is, birtist frétt þess efnis að það væri hann Ludvik Dolezal frá Tékklandi sem hampaði titlinum að vera skítugasti maður Evrópu.

Ætla má, í ljósi þessa kjörs innan Evrópu, að pistlahöfundur verði að sætta sig við að vera aðeins skítugasti maður Mosfellsbæjar í bili a.m.k. þar til einhver annar vogar sér að tjá sig um pólitíska fortíð stjórnmálamanna á Íslandi í dag.

Að lokum er viðeigandi að rifja upp vísu er Jón Baldvin Hannibalsson orti til Ragnheiðar Ríkharðsdóttur núverandi formanns þingflokks Sjálfstæðisflokksins og þáverandi félaga í Bandalagi jafnaðarmanna árið 1985. Hér er um n.k. pólitískt ,,Sonatorrek“ Jóns að ræða eftir að hann hafði misst góða félaga en athygli vekur að hann fól Jóhönnu Sigurðardóttur að koma þessu öllu til skila en hún sá sér heldur ekki vært í hinum gamla og góða Alþýðuflokki frekar en Ragnheiði.

Ilmandi við öllum blasa,

yfir skyggja reiðina,

sextán blóm í sama vasa

sýna okkur leiðina.

Höfundur: Jón Baldvin Hannibalsson (1985)

En bæði Jóhanna og Ragnheiður sáu ekki aðra leið færa á þessum tíma en að kljúfa Alþýðuflokkinn í herðar niður þrátt fyrir velvilja Jóns Baldvins í þeirra garð þegar hann vildi ,,sýna þeim leiðina“. Jóhanna fór reyndar bara hálfa leiðina í ESB en Ragnheiður fer enn sínar eigin leiðir.

Jóhanna (þá í Alþýðuflokknum) afhendir Ragnheiði Ríkharðsdóttur (þá í Bandalagi jafnaðarmanna, áður í Alþýðuflokknum) blóm - NT, 2. febrúar 1985

Jóhanna (þá í Alþýðuflokknum) afhendir Ragnheiði Ríkharðsdóttur (þá í Bandalagi jafnaðarmanna, áður í Alþýðuflokknum) blóm – NT, 2. febrúar 1985

Óhætt er að segja að á þessum tíma hafi Alþýðuflokkurinn verið í ,,djúpum skít“.

Nú situr Jón Baldvin bitur hér við Mosfellsdal rétt eins og Egill Skallagrímsson forðum. Nú er reynt að beita sömu brögðum innan Sjálfstæðisflokksins og verður pistlahöfundur að benda sjálfstæðisfólki á það að hann hefur talsverða óbeit á því.

Á síðasta aðalfundi Sjálfstæðisfélags Mosfellinga sá fyrrverandi forseti Alþingis, frú Salome Þorkelsdóttir,  ástæðu til þess að standa upp og leggja áherslu á að sjálfstæðisfólk stæði  saman og sýndi samstöðu. Pistlahöfundur ber mikla virðingu fyrir þessari góðu konu og þessum orðum hennar.

Verður sjálfstæðisfólk að meta það hvort útspil Ragnheiðar Ríkharðsdóttur, þingflokksformanns Sjálfstæðisflokksins, varðandi evrópumál að undanförnu og á skjön við ályktanir landsfundar flokksins, hafi verið á þá lund sem ein helsta stuðningsmanneskja hennar hér í Mosfellsbæ lagði upp með á aðalfundi Sjálfstæðisfélags Mosfellinga nýlega.

Hitt er þó víst að Ludvik Dolezal mun áfram þurfa að berjast fyrir tilveru sinni innan Evrópu og vera n.k. birtingarmynd ritstjórnar ,,VÍSIS“ á þeim sem fylla í fátæktarhlið GINI stuðuls Evrópu 1. maí 2014.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur