Laugardagur 03.05.2014 - 11:19 - Lokað fyrir ummæli

Undirskriftir og ESB

Í Fréttablaðinu í dag, 3. maí 2014, víkur bæði núverandi ritstjóri blaðsins og sá fyrrverandi að afhendingu undirskriftalista til Alþingis Íslendinga. Báðir láta það vera að fjalla málefnalega um tvær skýrslur sem gerðar hafa verið um aðildarviðræður við ESB þar sem bent hefur verið á að engar varanlegar undanþágur verði hægt að fá í aðildarviðræðunum. Lagaprófessor hefur þó bent á að líkur séu á að við fáum líklega varanlega viðurkennda 200 mílna efnahagslögsögu sem reyndar þegar er viðurkennd á alþjóðlegum vettvangi og langt utan landsteina ESB. Þetta þekkja Íslendingar vel og þá baráttu sem háð var til að tryggja afkomu þjóðarinnar til langrar framtíðar.

Þegar pistlahöfundur var stjórnarmaður í einu af félögum ungra sjálfstæðismanna á tímum samningaumleitana um evrópska efnahagssvæðið (EES) lagði fyrrverandi ritstjóri Fréttablaðsins til, þá þingmaður Sunnlendinga og ráðherra í ríkisstjórn, að pistlahöfundur færi og mælti því gegn að EES samningurinn yrði lagður í þjóðaratkvæði. Farið var með drög að EES samningnum (fjölda binda sem fengust úr hendi núverandi forstjóra 365 miðla), sem þá lá fyrir Alþingi Íslendinga, austur fyrir fjall og fjallað m.a. um að líkur væri á að þjóðin öll gæti hreint ekki lesið þann fjölda blaðsíðna sem myndaði fjölmörg bindi EES samningsdraganna.

Rök pistlahöfundar voru skýr og eru það enn. Alþingi Íslendinga á að taka ákvarðanir um viðamikil mál sem þessi enda þannig um málið búið í stjórnskipun landsins. Ekki hefur pistlahöfundur breytt þeirri skoðun sinni né sýn þó svo að einhverjir aðrir telji það ekki henta þeim í dag. Í tilviki ESB þá er ekki einu sinni fram komin drög og aðeins verið að draga umsókn til baka sem ætti að falla skör neðar stjórnsýslulega en þegar unnið var hart í því að Alþingi eitt og sér afgreiddi EES samninginn sem afsalaði ekki stórum hluta af fullveldinu eins og vænta má með ESB aðild.

Ekki er séð, þó svo að yfir 53 þúsund Íslendingar hafi nú ritað undir áskorun um að leggja ógerðan og óumsamnin samning um aðild Íslands að ESB fyrir íslenska þjóð, að fyrrverandi ritstjóri Fréttablaðsins hafi kallað eftir því ofan af Kögunarhól að allt þetta fólk læsi svo sem eins og brot af því sem fram hefur komið af efni um málið. Ekki liggur fyrir e.k. samræmt próf um það eða skilmálar að baki undirskriftunum að viðkomandi einstaklingur, sem ritaði undir, hafi jafnframt og samhliða staðfest með undirskrift sinni að hafa lesið t.a.m. skýrslu Alþjóðastofnunar Háskóla Íslands um málið eða hvað þá skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands. Án slíkra skilmála eru undirskriftir sem þessar ekki marktækar og fólk látið ,,kaupa köttinn í sekknum“ eina ferðina enn.

Hvað með hið marg umrædda ,,upplýsta samþykki“ sem fjallað hefur verið um m.a. varðandi gagnagrunna á heilbrigðissviði og alla þá umræðu?

Varðandi það að menn væru eða væru ekki að svíkja kosningaloforð skal á það bent að þegar ráðamenn taka sæti í ríkisstjórn er lagt upp með áætlun og stefnu ríkisstjórnar. Þetta þekkja ritstjórarnir vel. Við það að taka sæti (t.a.m. í fyrsta skipti sbr. núverandi stjórn) birtast mönnum oft nýjar upplýsingar um hvernig málum er komið sem áður voru þeim dulin enda ríkir mikill trúnaður t.a.m. um samningaumleitanir við kröfuhafa bankanna og fjölmarga aðra þætti. Einn sá þáttur snýr að alþjóðasamvinnu, alþjóðasamningum sem og öryggis- og varnarmálum er heyra undir Utanríkisráðuneytið og utanríkismálanefnd Alþingis. Það má vel vera að mál hafi borist svo illa leikin í hendur núverandi meirihluta frá þeim fyrrverandi að ekki var séð fram á að hægt yrði annað en að slíta viðræðum við ESB á þeim forsendum sem fyrir liggja. Það þurfa alls ekki að vera ,,svik við kjósendur“ í slíku fólgið. Þingmenn og ráðherrar eru ekki kjörnir vegna eins máls heldur vegna afstöðu þeirra til fjölmargra málaflokka og vegna trausts sem þeir byggja á vegna áralangrar stjórnmálabaráttu.

Væri ekki meira vit í því fyrir ritstjóra Fréttablaðsins að eyða nokkrum auglýsingasíðum blaðsins, sé þetta svo mikið hjartans mál, í að skýra út t.a.m. sjávarútvegskaflann sem er enn óopnaður fyrir íslenskri þjóð í stað þess að fjalla fjálglega um að Alþingi Íslendinga eigi nú að taka mark á mótmælum utanhúss frekar en það hefði átt að gera það þegar sótt var um aðild að NATO.

Fyrir áhugasama má finna hér slóð á vefsetur Utanríkisráðuneytisins varðandi framangreint efni. Skorað er á þá er stóðu að umtalaðri undirskriftarsöfnun að endurtaka hana þar sem fólk ,,kýs“ eða greiðir ,,atkvæði“ um hvern samningskafla og hakar við skilmála þess efnis að viðkomandi hafi lesið, skilið og kynnt sér vel efni og innihald tengt viðkomandi kafla. Sé það ekki gert má ætla að skilaboð og áróður fyrir slíka undirskriftasöfnun sé mun óljósari almenningi á Íslandi en sú einfalda nálgun og skýr tilgangur sem var í tengslum við undirskriftasöfnun varðandi Reykjavíkurflugvöll. Það var afmarkað mál ólíkt aðild að ESB.

Hafa stuðningsmenn ESB aðildar skautað léttilega framhjá þessari augljósu staðreynd hingað til eins og svo mörgu öðru viðkomandi ESB og aðildarumsókn.

Svo má benda á að það kusu 193.828 manns í síðustu kosningum til Alþingis.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur