Það er afar ánægjulegt, sem gamall pönkari, að sjá þessa frábæru listamenn taka á fordómum með þessum jákvæða hætti og ná áfram í Eurovison í kvöld. Hver og einn er fagmaður á sínu sviði, með hjartað á réttum stað og eru þeir allir mjög svo líflegir og litríkir á sviði.
Pönkið (e. punk), sem gekk einnig undir heitinu ,,ræflarokk“, þróaðist á tímabilinu frá 1975 til 1976 og þá í Bandaríkjunum, á Bretlandseyjum og í Ástralíu. Sex Pistols, the Clash, the Damned í London, Television og the Ramones í New York City eru þegar orðnar klassískar hljómsveitir pönksins. Svo má ekki gleyma Patti Smith (e. the Patti Smith Group) sem heimsótti Ísland á síðasta ári og tróð upp með Russell Crowe á Kexinu sælla minninga á miðri Menningarnótt í Reykjavík.
Meðlimir pollapönks eru þeir Heiðar Örn Kristjánsson, Haraldur Freyr Gíslason, Arnar Gíslason, Guðni Finnsson og bakraddir syngja þeir Snæbjörn Ragnarsson og þingmaðurinn Óttarr Proppé. Þetta eru pönkarar og þungarokkarar af bestu gerð.
Það sem gleður mann sérstaklega sem föður er hve vel þeir hafa náð til barna með tónlist sinni og nú þjóðarinnar allrar.
Gangi ykkur vel drengir og njótið þess arna í ,,botnleðju“.
Njótum boðskaparins.
Hann er ósvikinn.