Mánudagur 12.05.2014 - 17:49 - Lokað fyrir ummæli

Izekor og Útlendingastofnun

Myndarleg hjón - Hjónin Izekor Osazee og Gísli Jóhann Grétarsson - Mynd fengin af vef DV (12. maí 2014)

Myndarleg hjón – Hjónin Izekor Osazee og Gísli Jóhann Grétarsson – Mynd fengin af vef DV (12. maí 2014)

 

Hjónin Izekor Osazee og Gísli Jóhann Grétarsson gengu í það heilaga 12. apríl 2014 en Izekor Osazee er flóttamaður frá Nígeríu og Gísli Jóhann er borinn og barnfæddur Íslendingur. Áform Útlendingastofnunar var að vísa Izekor úr landi á morgun, þann 13. maí 2014.  Helga Vala Helgadóttir, lögmaður þeirra hjóna, upplýsti að fulltrúi Útlendingastofnunar hafi tjáð henni að nú ætlaði stofnunin að meta almennt málefni maka íslenskra ríkisborgara í heild sinni og búa til stefnumótun varðandi það hvernig ætti að taka á málum i framtíðinni.

Kristín Völundardóttir, forstjóri Útlendingastofnunar, hefur fundað lengi með fulltrúum innanríkismála í dag vegna málsins og í kjölfarið tjáði hún sig um að mál Izekor Osazee væri einstakt því ekki hefði áður komið inn á borð Útlendingastofnunar mál þar sem hælisleitandi gat gifst íslenskum ríkisborgara eftir að hafa fengið synjun um dvalarleyfi á Íslandi.

Þarna koma upp þrjú álitaefni.

  • Hvers vegna getur Útlendingastofnun, uppfull af íslensku kvenfólki, ekki veitt þessari konu hæli þegar fyrir liggur að kynsystur hennar eru píndar til kynlífsþrælkunar fyrir kolvitlausa glæpamenn og trúarofstækismenn í norður Nígeríu?
  • Telur fólk það nokkuð undarlegt að þegar afgreiðslutími Útlendingastofnunar er svo langur, svo þreytandi og eyðileggjandi fyrir ,,viðskiptavini“ stofnunarinnar að fólk fari að nýta tíman sinn í annað en að bíða eftir illa mannaðri stofnun og fer þess í stað að leita sér að maka og gifta sig, stofna fjölskyldu og njóta lífsins?
  • Hvers vegna flettir lögreglan ekki upp í þjóðskrá eða leitar af sér allan grun áður en eiginkonu Íslendings er stungið í steininn án ásetningsbrots? Þetta verklag er lögreglu og Útlendingastofnun til vansa sem og öðrum stjórnvöldum sem koma að þessum málum.

Í þeirri heimspeki sem ég hef lært er ein dyggðin veglyndi og önnur umburðalyndi. Svo virðist sem regluverk það sem hannað hefur verið af stjórnvöldum utan um Útlendingastofnun sé mannfjandsamlegt og virðist stefna í að verða álíka ömurlegt kerfi, þrátt fyrir alþjóðasamvinnu, og það sem þekkist innan ESB. Má þar nefna skelfilegan aðbúnað flóttamanna á Ítalíu og á Grikklandi.  Eins og pistlahöfundur hefur bent á er fjölmargt af þessu flóttafólki mikil auðlind, gott fólk og gefandi. Á þetta hefur pistlahöfundur bent í pistli sínum í tengslum við heimildarmyndina Fit Hostel. Reyndar hafa fáeinir bloggarar náð að misskilja afstöðu pistlahöfundar til þessara mála, það er miður og vonandi leiðréttist það hér með.

Pistlahöfundur á vini víða í Afríku og einnig í Asíu sem og fjölmörgum öðrum ríkjum heims. Það vill svo til að hömlur varðandi flóttamenn má ekki yfirskyggja markmiðið með að auka fjölbreytni mannlífs á Íslandi og gefa fólki af erlendum uppruna tækifæri til að öðlast hamingju sem hvert mannsbarn á rétt á.

Nú er Innanríkisráðuneytið einnig uppfullt af íslensku kvenfólki alveg upp í æðstu stöður stjórnkerfisins rétt eins og Útlendingastofnun. Hafa íslenskar konur náð að koma sér fyrir víða í stjórnkerfi á Íslandi en hafa hikað við að ráða kynsystur sínar af erlendum uppruna við hlið sér til að veita sér ráðgjöf og skiptir litlu þó viðkomandi hafi víðtæka menntun. Þetta eru fordómar.

Nú er komið að íslenskum konum innan stjórnkerfisins á Íslandi að aflétta fordómum gagnvart fólki af erlendum uppruna sem íslenskar kynsystur þeirra urðu fyrir hér innanlands á árum áður. Ein kynsystir þeirra af erlendum uppruna hefur nú gift sig manni af íslenskum uppruna og þá er spurn hvort eitthvað standi þá í veginum fyrir því að hún fái dvalarleyfi og verði síðar íslenskur ríkisborgari?

Pistlahöfundur á erfitt með að trúa að konur af íslenkum uppruna séu svo fordómafullar að þær treysti ekki lengur fólki fyrir því að velja sér maka.

Nígerísku glæpamennirnir treystu ekki yfir 200 kornungum skólastúlkum til þess að velja sér maka og því rændu þeir þeim í skjóli myrkurs. Sama á við um marga trúarofstækismenn um heim allan.

Ekki ræna þessu yndislegu hjónum, sem og öðru góðu fólki, hamingjunni.

 

 

Flokkar: Heimspeki · Stjórnmál og samfélag · Vinir og fjölskylda

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur