Kæru Íslendingar – Gleðilega hátíð !
Í dag fögnum við því að þjóðin er sjálfstæð og hefur náð að dafna betur undir sinni stjórn en allar þær aldir þar á undan þar sem þjóðin varð að lúta erlendri stjórn. Íslendingar vilja starfa með öðrum ríkjum á jafnræðisgrunni, stunda verslun og viðskipti þar sem allir aðilar gæta að jafnræði og því að vaxtarbroddar nýrra viðskipta geti dafnað og orðið að einhverju stóru og blómlegu. Þessu hafa Íslendingar náð í öll þessi 70 ár og skapað sér virðingu á meðal þjóða heims.
Heimurinn tekur stöðugum breytingum og hafa Íslendingar verið lánsamir með að getað átt góð samskipti við öll ríki heims en jafnframt getað sýnt festu þegar á reynir í mikilvægum málum. Má þar helst nefna baráttu okkar fyrir lögsögu landsins og landhelgi þess. Þar stóðum við saman og náðum því að breyta veröldinni allri þegar aðrar þjóðir fylgdu fordæmi Íslendinga með 200 mílna landhelgi.
Nú hafa skotið rótum á Íslandi öfl sem telja Íslandi betur borgið í framtíðinni innan ríkjasambands eins og Evrópusambandsins. Í miðri heimstyrjöldinni síðari voru til einstakir menn sem vildu að Ísland gengi Þýskalandi á hönd sem hafði þá innlimað bæði Noreg og Danmörk í það sem mátti kalla ríkjasamband sem var myndað með valdi. Eftir heimstyrjöldina síðari voru stofnuð ríkjasambönd kommúnistaríkja og einbeittu þau sér að því að miðstýra allri framleiðslu og byggja upp mikið og stórt embættismannakerfi með aðsetur í Moskvu. Eftir stríð sameinuðust nokkur ríki Evrópu undir merkjum kolabandalags, þ.e. ríki sem höfðu m.a. fengið styrki til uppbyggingar innviða sína frá Bandaríkjunum. Gerðu þau þetta svo hægt yrði að fá betri verð í heildsöluinnkaupum á kolum. Þau ríki áttuðu sig á því að orka væri grundvallarmál þegar kæmi að iðnaði og samkeppnisstöðu ríkja. Þetta bandalag hefur nú stækkað og nefnist nú Evrópusambandið.
Íslendingar vilja eiga góð samskipti við Evrópusambandið sem og önnur samtök ríkja um víða veröld. Það er afar mikilvægt að slík samskipti verði virt á báða bóga og að þess sé gætt að samband eins og Evrópusambandið virði sjálfstæði Íslands. Evrópusambandið á ekki að reyna að beita taktík eins og kommúnistar gerðu hér á árum áður m.a. með því að halda uppi fjölmiðli eins og Þjóðviljanum eða útgáfu af mörgu tagi til að fegra stöðu kommúnistaríkja og blekka þannig þorra almennings á Íslandi.
Evrópusambandið er talvert snúnara fyrirbæri en Sovétríkjasambandið. Sovétríkjasambandið var fremur einfalt kerfi sem byggðist á þekktri heimspeki kommúnismans. Þarna ríktu vissulega mismunandi skoðanir um áherslur rétt eins og tíðkast um trúarbrögð. Sem dæmi um trúarbrögð má geta þess að múslímar í Indónesíu og Malasíu eru talsvert hógværari í túlkun sinni á Kóraninum en trúbræður þeirra við botni Miðjarðarhafs. Mátti í þessu samhengi því einnig finna hógværa kommúnista sem skildu viðskipti og mikilvægi þess að þróa samskipti á milli ríkja á annan hátt en almennt tíðkaðist með hervaldi og kúgun kommúnistaríkja.
Evrópusambandið er flóknara og byggir á kennisetningum um frjáls viðskipti í bland við umtalsverða miðstýringu og flókið samspil á milli embættismannaeinræðis og lýðræðis. Flestir eru á því að frjáls viðskipti eru af hinu góða og það er fullvíst að Jón Sigurðsson forseti hefði verið mjög hlynntur frjálsum viðskiptum. Hins vegar eru viðskipti innan Evrópusambandsins það snúin og skattkerfið flókið að örðugt er að sjá í gegnum viðamiklar niðurgreiðslur sem taka á sig ótal myndir.
Með samningnum um evrópska efnahagssvæðið (EES) hafa Íslendingar náð að innleiða umtalsvert af tilskipunum og gert lagabreytingar með það í huga að aðlagast markaði Evrópu. Vandinn er sá að þrátt fyrir tilkomu Evrópusambandsins hefur atvinnuleysi þar aukist til muna, málefni flóttamanna eru þar í molum og sambandið virðist nú búið að missa sjálfstæði sitt í orkumálum eftir að Rússar lokuðu fyrir gasleiðslur til Úkraínu þar sem Evrópusambandið er með sinn stærsta gas-lager. Þetta minnir mann óneitanlega á það þegar Hitler réðst inn í Danmörku og Íslendingar notuðu þau rök til að öðlast endanlegt sjálfstæði að þar sem Danir væru ekki lengur sjálfstæð þjóð væri Íslendingum ekki annað fært en að taka endanlega yfir stjórn á öllum sínum málum. Það var og gert árið 1944 þjóðinni til heilla.
Því er leitt að sjá og heyra af svo einbeittum Íslendingum sem líta ekki til sögunnar í þessu samhengi. Við verðum að tryggja að eiga góð og bein samskipti við öll þjóðríki heims og það að ganga í samband eins og Evrópusambandið er lítt frábrugðið því í eðli sínu ef við hefðum gengið í ríkjasamband með Sovétríkjunum á sínum tíma. Hugsanlegt er að aðild að Evrópusambandinu væri öllu bærilegri en innan Sovétríkjanna en sjálfstæði þjóðarinnar yrði af henni tekið og auðlindir færðar til lengri tíma undir miðstjórn í Brussel.
Það er leitt að sjá að vinstri menn og konur á Íslandi hafi nú lagt einn stjórnmálaflokk í e.k. einelti eftir að bent hafi verið á mikilvægi þess að við gættum íslenskrar menningar og trúar. Þeir sem slíku vilja halda á lofti þurfa alls ekki að vera rasistar. Það er sorglegt að vinstri menn leggist svo lágt að beita n.k. einelti með þessum hætti í ljósi þess að allt menntakerfið er að reyna að berjast gegn slíku fyrirbæri. Það að trúfélög fái úthlutun á lóðum er hið besta mál en rétt að gæta þess að slíkar lóðir verði ekki við hliðina á Skálholti eða við innkeyrslu til Reykjavíkur sem beinlínis gæfi ranga mynd af sögu þjóðarinnar og menningu hennar. Ekki hefur Búddistafélagið fengið þvílíka afgreiðslu á Íslandi þó eftir lóð hafi verið leitað um árabil. Hér þarf að gæta jafnræðis og skipulagsmála sem reyndar hafa verið í molum eftir að vinstri menn tóku við stjórn Reykjavíkurborgar, höfuðstað Íslands.
Hér er því um pólitískt einelti vinstri manna að ræða og virðast stjórnmálamenn henda þessu á milli sín eins og heitri kartöflu enda ekki dugur í mörgum að ræða þetta svo vel sé. Vinstri menn eru að nýta öll tækifæri til að etja Íslendingum saman og það er allt gert fyrir Evrópusambandið eins og þar þrífist enginn rasismi. Vinstri menn og miðjumoðsgengi vill láta líta á sig sem ,,framtíðarfólkið“ og fólkið sem er alþjóðlegt á meðan restin sé púkó, asnaleg, heimsk og jafnvel rasistar. Því má ætla að flestir þessir sem kalla sig Evrópusinnna séu nú afar ósáttir við að víða um land sé í dag flaggað íslenskum fána í stað fána Evrópusambandsins.
Jón Sigurðsson var sjálfstæðismaður, hann var réttsýnn og áræðinn lýðræðissinni sem lagði áherslu á einstaklingsframtakið og frelsi einstaklingsins til orðs og athafna. Hann aðhylltist atvinnufrelsi og jafnræði á milli þegna landsins. Hann var hlynntur samningsfrelsi og því að tryggt yrði að atvinnulífið gæti blómstrað á Íslandi. Hann var foringi og fylginn sér í að gæta hagsmuna Íslands og Íslendinga. Hann var ekki rasisti heldur opinn fyrir því að Íslendingar ættu góð samskipti við önnur ríki og bauð alla sem komu frá útlöndum velkomna til Íslands. Hann var verndari náttúru, menningar og lista á Íslandi.
En Jón Sigurðsson var ekki Evrópusambandssinni né vinstri maður. Hann var þjóðhetja og þeirri stöðu skal hann fá að halda svo lengi sem við byggjum þetta land.
Njótið dagsins kæru Íslendingar.