Miðvikudagur 11.02.2015 - 13:54 - Lokað fyrir ummæli

Skattrannsókn og samningatækni

Upp á síðkastið hefur verið mikið fjallað í fjölmiðlum um gögn sem einhver huldumaður hefur undir höndum og vill selja embætti skattrannsóknastjóra. Fulltrúar stjórnarandstöðunnar hafa farið mikinn og talið að ráðherrar í ríkisstjórn Íslands vilji alls ekki semja um kaup á þessum gögnum án þess að vita hver þessi gögn eru eða hvað þau innihalda. Því virðist einstökum þingmönnum nokk sama, ef vísað er í umfjöllun þeirra um málið og yfirlýsingar nýlega, hvað greitt verði fyrir þessi gögn svo fremi sem hið opinbera, íslenska ríkið, kaupi gögn sem þingmennirnir sjálfir hafa ekki hugmynd um hvað innihalda og enginn veit hvað muni skila í ríkissjóð.

Kaup á gögnum með fjármunum skattgreiðenda

Það hefur komið fram hjá skattrannsóknastjóra að þrátt fyrir að greiddar verði margar milljónir fyrir gögnin sé hreint ekki víst hvort þau muni nýtast embættinu og ríkissjóði nema þó aðeins í að hefja málaferli. Það er allt og sumt að svo komnu máli.

Svo virðist sem stjórnarandstaðan, með upphrópunum sínum um að ríkið verði að kaupa gögn sem enginn veit hvað innihalda og hvernig munu nýtast við skattrannsókn, hafi skaðað samningsstöðu skattrannsóknastjóra sem sér um kaupin fyrir okkur skattborgarana. Þrýstingur á embætti skattrannsóknastjóra og ráðherra um að það verði að kaupa gögnin gera ekkert annað en að hækka verðið á ,,vörunni“ sem er í boði, ,,vöru“ sem enginn veit hvort muni koma að gagni. Því er það óábyrgt af hálfu stjórnmálamanna að hafa hátt þegar hið opinbera er í samningaumleitunum af þessum toga þar sem krafa, t.a.m. um að það verði að semja um að kaupa eitthvað, gerir ekkert annað en að skerða samnignsstöðu þess sem gengur erinda almennings og leitast við að nýta takmarkaða fjármuni sem best, fjármuni sem fást úr hendi skattgreiðenda.

Listi yfir glæpamenn?

Einhver kann að hrópa upp yfir sig að þessi gögn innihaldi lista yfir Íslendinga sem hafa falið fjármuni erlendis og hugsanlegt að viðkomandi aðilar hafi þar falið fjármuni í skattaskjólum, náð að skorast undan lögum sem skylda þá að skila skatti til ríkissjóðs og brotið skattalög. Það kann vel að vera en það er ekki einu sinni alveg á hreinu. Það gæti líka verið að viðkomandi aðilar hafi gefið allt upp til skatts en svo sett fjármuni í eðlilega ávöxtun erlendis. Þarna mun reyna á þekkingu og getu embættis skattrannsóknastjóra við greiningar á þessum gögnum en þær greiningar munu takmarkast við gæði þess hráefnis sem fjárfest var í. Það þekkir hver einstaklingur sem verslar í matinn að hráefnið skiptir öllu máli og einnig hvað það kostar.

Það sem fáir velta fyrir sér er hve umsvifamikil þessi mál geta orðið, kostnaðarsöm og þvæld fyrir hið opinbera. Það gæti orðið dýrara að sækja það skattfé sem um er að tefla en nemur því sem hugsanlega næst að innheimta. Það kann að vera siðferðislega rétt að eltast við ákveðin erfið og flókin mál og sýna þannig fram á fordæmi en það útheimtir umtalsvert fé. Það réttlætir þó alls ekki að það eigi ekki að reyna á mál enda eðlilegt að sýna skattaglæpum í tvo heimanna.

Skattaundanskot er glæpur

Skattaundanskot varða við lög á Íslandi og flestum ber skylda að borga skatta lögum samkvæmt. Hins vegar vitum við líka að aukin skattheimta, hærri skattar og hærri gjöld auka líkur á að fólk leiti leiða til að komast hjá skattheimtu þar sem skattar draga úr getu fyrirtækja og fólks til að standa undir öðrum skuldbindingum sínum eins og hærri launum og arðsemiskröfu fjármagnsmarkaðar. Þar hafa einstaka stjórnmálamenn einnig lagst neðarlega í umræðuna og kallað eftir hærri sköttum og auknum gjöldum bæði á atvinnulífið og almenning á Íslandi. Það er hin hliðin af hvatanum sem kallar á samdrátt í atvinnulífinu.

Við ættum því að vera sammála því að upphlaup stjórnarandstöðunnar nýlega verði aðeins til þess að skerða samningsstöðu skattrannsóknastjóra gagnvart umræddum huldumanni sem nú getur óskað eftir því að gögnin verði keypt á 150 milljónir í stað 100 milljóna sem dæmi. Eftir kaupin, sem væntanlega eru í farvatninu, á hið opinbera eftir að setja milljónatugi í vinnu við þessi gögn, mat á ,,sakar-kostum“ sem í boði eru og svo eftirfylgni fyrir dómstólum næstu árin.

Hvar liggja hagsmunir skattgreiðenda?

Er það til hagsbóta fyrir skattborgara að þingmenn stjórnarandstöðunnar hagi sér með þessum hætti og væntanlega skerði þannig samningsstöðu skattrannsóknastjóra í þessu mikilvæga máli?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur