Föstudagur 11.12.2015 - 09:13 - Lokað fyrir ummæli

Lögin sendu gyðinga í útrýmingabúðir

 

 

althingi

 

 

Nú hafa íslensk stjórnvöld sent fólk frá Íslandi sem hér vildu búa. Þau eru send af landi brott því þau voru ekki í nægjanlega mikilli hættu í heimalandi sínu, þaðan sem þau flúðu, að tilefni væri til þess að sleppa því að senda þau þangað. Lögin eru víst mjög skýr hvað þetta varðar segir fulltrúi Útlendingastofnunar sem og er ein þeirra stofnunar sem heyrir undir Innanríkisráðuneytið.

Hjálpum þeim

Við Íslendingar sendum einnig gyðinga hér á árum áður til síns heima en það land var þá Þýskaland. Á þeim tíma var heilbrigðisþjónustan hreint út sagt ágæt í Þýsklandi í samanburði við önnur ríki á sama tíma. Þar giltu lög og reglur, þar var uppgangur fyrir síðari heimstyrjöldina og framan af styrjöldinni þar til að bandamenn gripu í taumana. Gyðingar sættu ofsóknum í heimalandi sínu á þessum tíma og stór hluti heimsins á þeim tíma vildi ekki viðurkenna að svo væri. Höfum við ekkert lært?

Skýringar Útlendingastofnunarinnar eru þær að fólkið hafi óskað eftir því að fara þrátt fyrir að svo hafi ekki verið enda var ekki í önnur hús að venda nema að snúa aftur heim enda ljóst að það tæki því ekki að kæra. Því dró þetta fólk, sem vill búa hér með okkur hinum, kæru sína til baka.

Girðing laganna er orðin það há að hún er farin að virka fyrir þá sem gæta landamæranna. Er það einmitt það sem við öll viljum?

Sýnum meiri samkennd

Við sem þjóð verðum að huga að því hvar við viljum standa þegar fólk sækir okkur heim eða er á flótta undan vosbúð eða stórkostlegri hættu. Áleitnar spurningar sækja að:

  • Eigum við að skapa fordæmi þannig að hingað streymir fjöldi fólks ef  það fréttist að einn hópur fái að vera?
  • Er ekki erfitt að hafna hinum sem koma síðar og vísa til jafnræðisreglu hvað þeirra umsókn varðar og fordæma?
  • Á að heimila Útlendingastofnun að geta þess sé um að ræða hælisumsækjanda sem brotið hefur af sér í heimalandi sínu eða annars staðar?

Vandinn er nefnilega sá að stofnunin má ekki stöðu sinnar vegna segja hvað eina sem fulltrúar hennar búa yfir. Við þekkjum afleiðingar af slíku og einnig vitum við að ef við segjum ,,já“ við eina fjölskyldu, ber okkur að segja ,,já“ við allar hinar sem munu feta í fótsporið enda mun okkar velvild fréttast víða. Þetta þekkja Svíar mæta vel.

Þessu verða þeir að svara sem vilja nú sýna hugulsemi sem er mjög svo skiljanleg. Það að sýna hugulsemi og hafa góðan vilja svarar ekki allri þörfinni sem er í heiminum. Hvað með börnin í Afríku sem og önnur börn í austurhluta Evrópu, á Indlandi sem og í Bangladesh?

Vinstri menn stóðu að lögum um útlendinga

Stefna íslenskra stjórnvalda, gagnvart flóttafólki og öðrum sem vilja flýja heimaland sitt virðist vera álíka ömurleg eins og hjá Evrópusambandinu. Þeir sem hafa nú hátt á Alþingi og út í samfélaginu verða á hinn bóginn að vera tilbúnir til að svara mjög svo áleitnum spurningum um hvernig á að haga þessum málum svo vel sé.

Hér má finna álit minnihluta allsherjar- og menntamálanefndar á vef Alþingis varðandi það frumvarp sem lá fyrir á þinginu og varð síðar að lögum nr. 64/2014 um breytingu á lögum um útlendinga nr. 96/2002. Undir þetta álit minnihlutans skrifar Guðbjartur heitinn Hannesson fh. Samfylkingarinnar, Helgi Hrafn Gunnarsson fh. Pírata og síðast en ekki síst Svandís Svavarsdóttir fh. Vinstri grænna.

249. mál á dagskrá 143. löggjafaþings Alþingis Íslendinga – framsaga frummælanda minnihluta allsherjar- og menntamálanefndar Guðbjarts Hannessonar – Frumvarp að lögum um breytingar á lögum um útlendinga nr. 96/2002: Hér er slóðin

Þar segir m.a. í fyrstu orðum frummælanda:

Ég tek undir með talsmanni og formanni nefndarinnar, hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur, að unnin hafi verið mjög vönduð vinna í nefndinni og að flestu leyti stóðu menn sameiginlega að þeirri vinnu.

Síðan fjölluðum við um kærunefnd útlendingamála. Frumvarpið felur í sér að sett verði á fót sjálfstæð úrskurðarnefnd, þ.e. kærunefnd útlendingamála, og telur minni hlutinn það mikið framfaraskref sem leiði til þess að málsmeðferðartími hælisumsókna styttist til muna. Minni hlutinn tekur undir þær breytingar sem meiri hlutinn leggur til á skipan kærunefndarinnar og telur þær efla sjálfstæði hennar.

Tekin var ákvörðun um að fagleg kærunefnd tæki á þeim málum sem og var gert í því máli sem hér er til umfjöllunar í þessum pistli. Því er undarlegt að ráðist er nú á Ólöfu Nordal eins og gert er þessa dagana. Nú þýðir ekki að hlaupa í skjól og segja að ,,ég tók ekki þátt“ þegar ljóst að raunin er önnur t.a.m. hjá Svandísi Svavarsdóttur og Helga Pírata. Breytið bara lögunum teljið þið þetta ósanngjarnt. Þið hinir góðu, sem hafið hæst á samfélagsmiðlunum og teljið ykkur Pírata eða eitthvað annað, sendið skeyti á Svandísi og Helga eða hvaða vinstri mann sem er og kallið eftir að þeir skýri afstöðu sína um framangreinda kærunefnd og neðangreinda þverpólitíska nefnd varðandi endurskoðun á þessum málaflokki.

Minni hlutinn fagnar því að búið er að skipa þverpólitíska nefnd um málefni útlendinga á Íslandi en verkefni hennar er meðal annars að hefja vinnu við heildarendurskoðun málaflokksins. Mikilvægt er að markmið þeirrar vinnu verði að móta heildstæða stefnu íslenskra stjórnvalda í málefnum útlendinga og haft verði að leiðarljósi að tryggja mannúðlega meðferð stjórnvalda á því sviði og réttaröryggi útlendinga á Íslandi sem og að líta til þeirra alþjóðasamninga sem Ísland er aðili að. Það er vilji minni hlutans að þeirri vinnu verði hraðað eins og kostur er.

Erum við með á nótunum? Er vitleysan hugsanlega þverpólitísk? Eigum við að setja lög sem eru mannúðlegri, eigum við að opna landið okkar alveg eða setja kvóta? Það voru lög og það voru reglur um meðferð á gyðingum. Í dag vita allir að það voru ólög en erum við með þessi ólög hér heima studd af þverpólitískum öflum?

Pistlahöfundur telur að við séum með ólög á þessu sviði sem eru í senn þröngsýn, afturhaldssöm og mannfjandsamleg. Þar er ekki við einn stjórnmálaflokk að sakast. Þeir eru allir undir þetta seldir og má leita rétt út fyrir landsteinanna yfir til ESB til að sjá glundroðann í þessum málaflokki. Það ríkir ráðaleysi hjá ráðamönnum víðar en á Íslandi.

Börnin og heilbrigðismálin

Hitt er svo annað mál að senda veik börn frá sér út í óvissuna. Það er ábyrgðarhluti. Óvíst er hvort heilbrigðismálin séu í eins slæmu ástandi í Albaníu eða Makedóníu og hér á Íslandi. Fullyrt er að Útlendingastofnun hafi hringt þarna austur’um þó almennt sé slíkt ekki talið æskilegt, reyndar óheimilt, þ.e. að hafa samband við heimaríki hælisleitanda til að réttlæta það að hafna umsókn.

Engar sögur fara af því hvort Útlendingastofnun hafi hringt í heilbrigðisráðherrann hér á Íslandi og spurt hvort hann hefði einhvern samanburð áður en börnin voru send út fárveik ásamt foreldrum sínum, hugsanlega í betra umhverfi á sviði heilbrigðismála en þau hefðu annars búið við hér.

Þetta er synd.

Flokkar: Heimspeki · Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur