Laugardagur 19.03.2016 - 12:34 - Lokað fyrir ummæli

Óþefur stjórnmálanna í vikulokin

Fulltrúar stjórnmálahreyfingarinnar Vinstri grænna á Alþingi Íslendinga hafa lagt upp með þá stefnu að standa vörð um náttúru Íslands, verja almenning gegn mengun og leita allra leiða til að stuðla að margvíslegum hagsmunum verkafólks með opna stjórnsýslu að leiðarljósi. Björt framtíð er flokkur ungs og upprennandi fólks í leit að frelsi án skuldbindinga. Þessir fulltrúar mættu í Vikulokin á Rás 1 í morgun ásamt fulltrúum Sjálfstæðis- og Framsóknarflokksins.

Eignir og skuldir kröfuhafa

Hvaðan barst fjármagnið í hendur viðkomandi á sínum tíma? Eru þetta ,,óhreinir“ peningar eða ,,blóðpeningar“ nú eða ,,Rússagull“ eða ölmusa? Nei, þetta er arður, reyndar föðurarfur, eftir áralangt starf, reksturs vinsæls fyrirtækis á Íslandi sem seldi afar vinsæla vöru frá Asíu sem hefur stuðlað að sparnaði, minnkað mengun og keppti á sínum tíma við hina vondu Bandaríkjamenn. Það hlakkaði þá í mörgum við nám í Austur Berlín þegar illa gekk hjá Könunum gegn uppgangi bílaframleiðenda í Asíu.

Það skiptir afar miklu máli hvernig mál þróast í umhverfi fjármála, hvernig fólk reynir að verja sig og hvort það vill tryggja að fjármagn þeirra fari ekki forgörðum, geti ekki tapast eða verði hreinlega spillt í hagkerfi sem var óstöðugt á tímum hrunársins 2008 og síðar þar á eftir. Það að koma fjármunum undan bæði bönkum og ríki er skiljanlegt t.a.m. í ljósi þess þegar vágestir fjármálanna hreinlega geta eyðilagt framtíð fólks og hið sama á við um illa innrætt stjórnvöld sbr. fjölmargar vinstri stjórnir um árabil austur þar sem kenningar VG eru sprottnar.

Kröfuhafar íslensku bankanna voru því af margvíslegum toga. Þar má nefna sárasaklaust eignafólk sem er bara fólk eins og við hin. Fólk sem hefur passað fjármuni sína, staðið sig vel og átt vinsældum að fagna með listsköpun sinni eða notið ávaxta erfiðis. Þetta fólk á rétt á friði með sína fjármuni og skiptir litlu hvort þetta séu stjórnmálamenn eða venslafólk þeirra. Það að brenni ofan af þessu fólki getur valdið miklu tjóni rétt eins og hjá öðrum sem brennur ofan af. Hins vegar virðis sem óþefur af málflutningi VG um þessar mundir sé að skapa e.k. pólitíska mengun er stuðlar að því að draga fólk í dilka eftir því hvort það eigi fjármuni eða er fátækt. Hinir eignamiklu virðast eiga minni réttindi í huga VG, minna persónufrelsi og eiga að lúta lægri rétti en aðrir. Er þetta rétt, er þetta eðlilegt og stuðlar þetta að eðlilegum framgangi hagkerfis, réttarfars og siðferðis? Nei, það gerir það ekki. Kröfuhafar geta átt sínar kröfur vegna margvíslegra ástæðna, keypt þær á smáaura eða verið bara venjulegt fólk sem tapaði eignum sínum vegna vanrækslu ríkis og banka.

Sjúkrahús og staðsetning

Pistlahöfundur, eftir kynningu á staðsetningu sjúkrahúss frá fjölmörgum aðilum, telur að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sé einfaldlega, með ábendingum varðandi staðsetningu, að gæta að því að fjármunum ríkisins sé vel varið. Skiptir litlu varðandi núverandi samþykktir og áratuga umræður. Hér er um meðferð opinbers fjárs að ræða, framtíðarskipan höfuðborgarsvæðisins og áhættu vegna sjúkraflutninga, byggingakostnaðar og heildarmyndarinnar er miðast m.a. að því að selja dýrt land í miðbæ og byggja fullkomið húsnæði inn til lengri framtíðar sem hýsa á sjúkrahús allra landsmanna.

Enn og aftur kom fulltrúi VG með e.k. yfirlætislega ályktun í vikulokinn þess efnis að ráðherra í ríkisstjórn megi ekki tjá sig um skipulagsmál. Þetta mál varðar ekki síður ríkisfjármál og því varða skipulagsmál miklu þegar kemur að staðarákvörðun og nýtingu fjármagns. Við eigum ekki og megum ekki með nefndum, ráðgjöfum og hagsmunatengdum skipulagsfræðingum sem og sérfræðingum, sem telja sig vita betur, stuðla að því að sólunda opinberu fé. Sjúkrahús, rétt eins og hótel og skólahúsnæði, úreldast hratt. Því eiga ríki og sveitarfélög að forðast að eyða miklu í hönnun dýrra og flókinna bygginga með tilheyrandi listunnendum sem koma að slíku fyrirkomulagi þegar verið er í raun að byggja n.k. framleiðslulínu. Sjálfsagt er að leita allra leiða til að tryggja velferð þeirra sem nýta slíkt húsæði og þurfa að njóta slíks húsnæðis en lágmarka alla skúlptúra og e.k. varanlega byggingamynd er skapar aðeins kostnað án þess að tryggja sérstaklega aukna velferð eða ánægju þeirra sem stunda þar nám, vinnu og stuðla að velferð.

Þrýstingur hönnuða á byggingaframkvæmdir og innbyggð stjórnsýsla, sem stuðlar að bruðli af margvíslegum toga, er ekki beint gagnsætt og opið ferli. VG og Björt framtíð virðast snobba sig inn í þessa ,,velferð“ sem er ekkert annað en þróun í þá átt að eyða fé almennings sem gerir ekki neitt annað en að fara í óhagstæðar framkvæmdir sem sífellt fara fram úr þeim áætlunum sem gerðar eru.

Hönnun er mikilvæg en hönnun er misjöfn. Hönnun getur einmitt bjargað fjármunum og hönnun getur bæði verið slæm og einnig góð. Það er eins og með hvað annað sem hannað er. Hins vegar verður hið opinbera að tryggja almennafé en ekki hagkerfi hönnuða. Þessu verður að breyta og umræða af þeim toga sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefur skapað stuðlar einmitt að því að opna á að gæta betur að meðferð almannafjár skattborgaranna. List og hönnun er mikilvæg og getur einnig skapað ánægju, velferð og hamingju. Það að niðurgreiða slíkt er hið besta mál en það á hið sama við um bændur og mikilvægi þeirrar listgreinar að rækta búfénað og tryggja aðföng til neytenda. Allt er þetta afar mikilvægt en við þurfum að gæta að fjármunum skattborgara engu að síður.

Þöggun og þæfing

Það versta sem vinstrimenn hafa að geyma úr sinni fortíð er þöggun. Þetta á við um alla flokka en í misjöfnum mæli og fer alfarið eftir einstaklingum sem eru oddvitar hverju sinni. Þöggun vinstri manna og frelsisrómantík án ábyrgðar hinnar Björtu framtíðar er ekki eitthvað sem framtíð Íslands á að byggja á. Þöggun í Austur Berlín var mikil og þöggun sú sem þar var drukkin af vinstri mönnum með móðurmjólkinni er ekki eitthvað sem pistlahöfundur vill að verði leiðarvísir okkar Íslendinga inn í framtíðina.

Með framferði sínu síðustu daga hafa fulltrúar VG skapað á Íslandi umtalsverða pólitíska mengun. VG hefur, þrátt fyrir græna stefnu sína, verið ansi grámyglukennt fyrirbæri í íslenskri pólitík lengi vel og mengað umræðuna svo að margir ágætir þegnar þessa lands skilja hvorki upp né niður í því hverjum ber að treysta og hverjum ekki. Á þessari mengun nærist sundurlyndisfjandinn rétt eins og El Ninjo á miðu Kyrrahafi um þessar mundir.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er afar frambærilegur maður, ötull forsætisráðherra og hefur staðið sig vel í sínum störfum fyrir land og þjóð. Árásir á hann þessa dagana sem og á eiginkonu hans eru sóðarlegar og byggðar á takmörkuðum skilningi á því að allir eigi rétt á að verja eigur sínar. Það hafa margir þurft að reyna síðustu ár en þar hefur forsætisráðherra reynst mikill og ötull bandamaður.

Þökk sé honum !

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Vinir og fjölskylda · Viðskipti og fjármál

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur