Fimmtudagur 24.03.2016 - 09:07 - Lokað fyrir ummæli

Vanþekking fjölmiðla er ógn

Hvort heldur sem rætt er um fjármál, efnahagsmál eða mennta- og menningamál á Íslandi einkennast flestir fjölmiðlar á Íslandi, ekki allir, á því að vera illa undir umfjöllun búnir, segja rangt frá eða skekkja myndina svo mikið að til almennings er miðlað rangri mynd af stöðu mála, eðli þeirra og efni.

Ríkisfréttastofa og aðrar slíkar stofur

Við teljum okkur vera vel menntaða þjóð, vel upplýsta og skynsama hvað flest varðar. Það má til sanns vegar færa en þetta á ekki við um flesta fjölmiðla á Íslandi. Aðeins það eitt að stilla á bresku sjónvarpsfréttastöðina SKY fást mun betri fréttir, nánari og skilmerkari fréttir þar sem heimsmálin eru krufin af alúð og visku.

Hér rekum við ríkissjónvarp og ríkisútvarp sem og þartilgerða ríkisfréttastofu. Sú fréttastofa, rétt eins og sláturhússgengi við upphaf sláturtíðar, upphefst og virðist fá aukið súrefni þegar Alþingi kemur saman. Þá fyrst færist fjör í leikinn. Þess á milli virðist sem fjölmiðlar eigi í stökustu vandræðum með að afla sér frétta og virðast sumir framleiða fréttir með misjöfnum árangri og oftar en ekki lélegri eftirtekju.

Léleg framleiðsla frétta og vanreifun

Í gúrkutíð er gott að eiga að þingmenn á hinu háa Alþingi til að framleiða fréttir. Oft eru það vinstrimenn, a.m.k. um þessar mundir, stjórnarandstöðunnar sem eru sérstaklega tilkippilegir enda eiga flestir þeirra undir högg að sækja. Einn flokkurinn hefur það í sínu græna farteski, sem hangir svo þungt á bakborða að slagsíða hefur myndast, að hafa lagt til að setja hundruð milljarða byrðar á almenning á Íslandi. Hinn flokkurinn tók þátt í því og er nú máttleysið eitt vegna sundurlyndis og flokkadrátta sem vel er þekkt á meðal villikatta. ICESAVE klafi Svavarssamninganna segir sína sögu um hvað þetta gengi ætlaði sér. Til að sverta núverandi ríkisstjórn er ráðist á forsætisráherra með innantómri þvælu í því augnarmiði að blekkja almenning.

Það mistókst og má því reikna með að fylgið falli enn frekar hjá lykilflokkum fyrstu vinstri stjórnarinnar á Íslandi. Spurning hvort að fylgismenn Pírata átti sig á að forystumenn þeirra hafi verið villuráfandi varðandi mörg mál og hafa „kóað“ með í umræðunni oftar en ekki eins og blindir kettlingar.

Ríkisfréttastofan kommúnísk

Ríkisfréttastofan, sem í raun er rekin eins kommúnísk og kostur er í vestrænu samfélagi, er svo misbeitt í umfjöllun af verra taginu. Engin eða vanreifuð þekking er oftar en ekki dregin saman og viðmælendur oft á tíðum heimildarmenn vitleysunnar en ekki grandvarir fagmenn enda eru þeir sagðir seldir undir hagsmuni tjái þeir sig ekki með þeim hætti að miðla megi vitleysunni súrefni.

Sigur fyrir Ísland og Íslendinga þrátt fyrir illa upplýsta fréttamenn

Þannig gera óvandaðir fréttamenn og einstaka pólitískt samkynja þingmenn sér stjórnmálafræðilega féþúfu út úr litlu trausti á Alþingi með því að rýra það enn frekar eftir hina bestu og afgerandi glæsilegustu lausn sem fannst á málum kröfuhafa og til losun gjaldeyrishafta á Íslandi. Flestir höfðu ekki hugmynd um þessa lausn, aðrir gagnrýndu að hún væri tóm þvæla en forsætisráðherra með stuðningi samstarfsflokksins og sinna bandamanna voru þeir sem leystu Íslandi úr viðjum kröfuhafa. Þau sem að þessu stóðu eiga öll hrós skilið fyrir það.

Þetta er sigur sem allir Íslendingar ættu að fagna. Þetta er glæsilegur sigur fyrir land og þjóð !

Til þeirra fjölmiðlamanna sem hafa staðið sig skal það sagt að þið vitið vel hverjir þið eruð og finnið það vel að þið eigið hrós skilið að standa af ykkur áganginn. Það að kasta rýrð á ritstjórn ríkisfréttastofu er ekki hið sama og að kasta rýrð á alla starfsmenn þar enda margir hið vænsta fólk. Það er bara undir lélega stjórn selt og vanbúið fjármunum til að sinna sínu starfi vel. Hvað með frjálsari fjölmiðlun en nú er?

Áskorun um aukin gæði

Skorað er á alla fjölmiðlamenn á Íslandi að vanda vel framleiðslu frétta sinna en fréttin verður aldrei betri en sú auðlynd sem fréttin er dreginu úr. Þetta fer einnig eftir þeim tækjum sem beitt er við veiðarnar og þeirri manneskju sem tækjum þessum beitir, framleiðsluferlinu öllu og hvernig rétturinn er borinn fram. Gæðin skipta öllu máli, ekki satt?

Þar kemur hætta á mengun til skjalanna, baneitraður áburður og hugsanlega hráefni af sjálfdauðu sem til sveita þótti ekki einu sinni hæft sem refafóður. Slíkt hráefni ber að forðast í fréttamennsku á Íslandi en því miður hefur maður orðið var við það á markaðnum upp á síðkastið. Það er miður.

Gerum Íslandi gott en flytjum ekki falskar fréttir eða óvandaða umfjöllun.

Flokkar: Menning og listir · Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur