Föstudagur 29.04.2016 - 09:42 - Lokað fyrir ummæli

Blaðamannafundur Árna

Í gærdag boðaði formaður Samfylkingarinnar, Árni Páll Árnason, til blaðamannafundar í skyndi kl. 15:00 og fylltust allir fréttamiðlar af þessu efni rétt fyrir hádegi. Fólk beið spennt enda blaðamannafundir ekki boðaðir nema eitthvað merkilegt sé á ferðinni.

Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands boðaði til blaðamannafundar eftir að Panamaskjölin voru birt og allt stefndi í að ríkisstjórn Sigmundar Davíðs viki fyrir annarri ágætri stjórn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins.

Tilefni til að stíga til hliðar

Undanfarið hefur fólki verið tíðrætt um að einstaklingar eigi að hætta að vinna snemma þrátt fyrir góða heilsu, mikla reynslu og dugnað í embætti. Margir vinstri menn eru í framvarðarsveit þeirra sem helst vilja að eldri borgarar (sbr. tjáningu á samfélagsmiðlum og á RÚV) með reynslu hætti að vinna sem fyrst og eigi að ,,yfirgefa sviðið“, eins ,,smekklega“ eins og sumir orða það. Þetta eru einstaklingar sem m.a. kenna sig við Samfylkinguna og önnur vinstri öfl á Íslandi. Það er miður og sorglegt í raun.

Þegar forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, tilkynnti nýlega um framboð sitt til embættis forseta Íslands ætlaði allt um koll að keyra. Það gerðist stuttu eftir að Árni Páll Árnason hafði hrósað forseta Íslands fyrir að hafna því að veita Sigmundi Davíð þingrofsheimild þrátt fyrir mikil mótmæli á Austurvelli þar sem mótmælendur vildu að kosið yrði strax.

Ánægja með forseta Íslands og Árni nær árangri

Nú er svo komið að flestir eru afar ánægðir með að forseti Íslands sitji áfram í embætti. Það virðist vera raunin skv. skoðannakönnunum og þykir frábær niðurstaða. Það er því hið besta mál þó svo ekki sé nema væri fyrir þær sakir að ekki þyrfti að færa einhvern annan t.d. af listamannalaunum yfir í forsetaembættið og borga svo báðum af fjármunum skattgreiðenda til að segja okkur hvað klár við erum Íslendingar.

Forseti Íslands, með ákvörðun sinni, er að spara fyrir okkur skattgreiðendur með ákvörðun sinni. Þetta frábæra útspil Ólafs Ragnars Grímssonar bætist við önnur góð verk sem hann hefur unnið að í embætti og sigra sem hann hefur svo vissulega unnið fyrir land og þjóð.

Nú er svo komið að fylgi Samfylkingarinnar er komið niður í 9% skv. skoðanakönnunum. Sökum þess árangurs boðaði Árni Páll til blaðamannafundar og tilkynnti að hann ætlaði að bjóða sig aftur fram til forystu í Samfylkingunni. Aðrir í framboði eru þau Oddný G. Harðardóttir, Magnús Orri Schram, Helgi Hjörvar og Guðmundur Ari Sigurjónsson.

Fylgi Árna Páls Árnasonar

Eins ágætur og Árni er virðist hann sjá sig áfram í þessu krefjandi embætti og sérstaklega eftir að gjaldkerinn sagði af sér vegna Panama skjalanna. Samhliða eru gerðar skoðanakannanir og flutti Eyjan frétt (apríl 2016) af einni þeirra sem mældi fylgi frambjóðenda til formanns Samfylkingarinnar. Þar segir m.a:

Oddný mælist með 32,4 prósenta fylgi en Helgi Hjörvar kemur næstur með 29,9 prósenta fylgi. Athygli vekur að Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, mælist með 20 prósenta fylgi. Þar á eftir koma Magnús Orri Schram (12,3%) og Guðmundur Ari Sigurjónsson (5,5%), bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar á Seltjarnarnesi.

Tilefni Árna til að halda blaðamannafund í gær virtist ærið og líklega fyrir þær sakir að hann hefur ekki aðeins náð fylgi Samfylkingarinnar niður í 9% heldur hefur hann náði eigin fylgi neðar, nú innan Samfylkingarinnar úr 50,009% skv. síðasta kjöri til formanns í um 20% eins og að framan greinir.

Birtust fréttir af þessu víða í gær og sjá má að blaðamannafundurinn hefur skilað sér en spurningin er sú hvort að hann skili sér í lægra fylgi bæði Samfylkingarinnar og svo Árna Páls innan eigin vébanda.

Lífslíkur

Í vefriti Lífeyrissjóðs Verzlunarmanna frá því í nóvember árið 2011 birtist frétt sem rakin er til Hagstofu Hollands og varðaði lífslíkur fólk í því ágæta landi, landi sem hefði átt umtalsverðar kröfur á skattgreiðendur hefði forseti Íslands ekki gripið inní. Um þessar mundir stýrir Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður VR, þeim félagssamtökum sem standa að baki þessum lífeyrissjóð. Áður var hún helsti ráðgjafi Árna Páls og kosningastjóri. Nú er öldin önnur.

Þó svo að fjölmargir aðstandendur Samfylkingarinnar og aðrir vinstri menn hafa rætt um hve aldraður forseti vor er orðinn og að hann ætti að hætta sökum þess virðast aðrir liggja nærri lokaaldri í embætti en menn hugðu. Undir lok síðasta árs birti Völva DV spá sína og sagði hún að Árni Páll myndi ekki ,,lifa“ árið 2016 af í embætti formanns Samfylkingarinnar.

Í vefritinu Kjarninn, sem nýlega varð fyrir hnjaski vegna Panama skjalanna svokölluðu, var fjallað um lífslíkur og birtist efnið í ritinu í júní 2015 og þar vitnað í gögn frá Hagstofu Íslands. Þar kom fram að lífslíkur á Íslandi séu með þeim bestu í Evrópu og ungbarnadauði sá minnsti í álfunni. Þar kom einnig fram að íslenskir karlmenn geta nú náð um 80,6 ára aldri á Íslandi og íslenskar konur 82,7 ára aldri að meðaltali. Hér skal áréttað að sumir geta orðið mun eldri enda um meðalaldur að ræða. Þetta er mikið fagnaðarefni fyrir þá sem styðja sitjandi forseta áfram í embætti.

Kjarninn hefur hingað til fjallað um hve mikilvægt það er að skipta um stjórn í landinu þrátt fyrir þann árangur sem núverandi stjórnarflokkar hafa náð fyrir land og þjóð síðustu áratugi. Einnig hefur verið róið undir því að forseti Íslands sé óhæfur í embætti sökum aldurs. Hann er talinn jafnvel vanhæfur þrátt fyrir að hann hafi beitt sér gegn því að síðasta vinstri stjórn Íslands kæmi ógnarháum skuldum að ósekju yfir á herðar Íslendinga.

Niðurlag

Þegar litið er yfir framangreint liggur fyrir að ef eitthvað vit er í Samfylkingarfólki um land allt og eðalkrötum ættu þeir að kjósa kornunga konu í embætti formanns Samfylkingarinnar en ekki karlmann. Kona með reynslu gæti komið til greina þó hún sé eldri en Árni enda benda allar spár til þess að Árni verði ekki eldri í embætti. Vísað er til þess að þó svo að Samfylkingin lifi ekki af má ætla að kven-for-maður nái háum aldri og lifi talsvert lengur en karlmaður. Vilji Samfylkingarmenn ná fylginu neðar má hugsa sér að kjósa einhvern annan.

Varðandi lífslíkur og hæfni forseta Íslands sem og annarra karlmanna á Íslandi getur Ólafur Ragnar a.m.k. náð allt að 80,6 ára aldri. Hann er fæddur árið 1943, er 73 ára í dag og yrði því aðeins 77 ára að loknu næsta kjörtímabili. Hér er aðeins um að ræða meðalaldur og hugsanlegt er að hann gæti tekið annað kjörtímabil þar á eftir enda hefur meðalaldurinn hækkað umtalsvert á þessari öld. Varðandi árangur hans í embætti er það allt augljóst og einfalt. Hann hefur staðið sig frábærlega og er hokin reynslu.

Þar sem Árni Páll er stöðugt að lækka fylgi Samfylkingarinnar og að kvenréttindi séu þar í hávegum höfð, sbr. þegar Jóhanna Sigurðardóttir fór á skjön við jafnréttislög, má ætla að tilefni hafi verið fyrir því að halda blaðamannafund í gærdag og bjóða sig fram til áframhaldandi setu. Hann er jú víst 9 árum yngri en Oddný sem nýtur mesta fylgis til formannsembættisins.

Efnið var því afar brýnt.

Góða helgi.

Flokkar: Hagmál · Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur