Miðvikudagur 01.06.2016 - 10:17 - Lokað fyrir ummæli

Hrun Guðna Th

Guðni Th Jóhannesson forsetaframbjóðandi og sagnfræðingur hefur fjallað eins og fjöldi annara um hrun fjármálakerfisins á Íslandi. Einnig hefur Guðni sérhæft sig í þorskastríðsárunum og fjallað um samninga Íslands á erlendum vettvangi á erfiðum tímum þar sem íslensk þjóð hefur þurft að taka á honum stóra sínum, þjappa sér saman til að tryggja slagkraft í annars óvæginni umræðu. Það sem komið hefur fram, m.a. í skrifum Guðna, er að hann vildi semja varðandi ICESAVE samningana þegar þjóðin neitaði. Guðni steig fram og það ítrekað til að bera saman ICESAVE og samninga í tengslum við þorskastríðin, vildi með því segja að við hefðum átt að semja um ICESAVE og er það svo sem afstaða sem forsetaframbjóðandinn má hafa. Það tekur enginn þá afstöðu af Guðna, hvorki fyrr né síðar.

Réttlát niðurstaða í ICESAVE?

Í grein Guðna Th Jóhannessonar, sem birtist 10. mars 2010 í Fréttablaðinu og rétt eftir að Íslendingar höfðu hafnað ICESAVE, spyr Guðni í upphafsorðum hennar:

Hvernig verður réttlátri niðurstöðu náð í Icesave-deilunni?

Aðeins þessi upphafsorð sýna augljóslega afstöðu í stað þekkingar á því sem fyrir lá, eða hvað? Ef þekking var til staðar á efninu má ætla að ásetningur sé uppi um að vilja semja, vilja ganga til samninga við Breta, vilja semja svo um að Íslendingar, sem höfðu ekkert með hrunið að gera, myndu borga skuldir banka, einkarekinna banka. Í lögum og þeirri tilskipun sem til var um Tryggingasjóð innistæðueigenda lá ávallt fyrir að íslenska ríkinu bar ekki að vera í ríkisábyrgð og engin heimild til staðar frá Alþingi eða skuldbinding frá framkvæmdavaldinu.

Grundvöllur einkarekinna fyrirtækja er að þau eiga ekki og geta ekki leitað til hins opinbera þegar þeim gengur illa. Hvers vegna ætli það sé? Í fyrsta lagi hafa þeir sem stjórna landinu ekki umboð til þess að veita slíkar ábyrgðir fari einkareknir bankar eða fyrirtæki í þrot. Í annan stað er staðreyndin sú að ef slík ábyrgð yrði gefin út liggur í hlutarins eðli að slíkt yrði til þess eins að rekstraraðilar myndu taka meiri áhættu og verða mun værukærari við reksturinn. Einföld ástæða fyrir þessu er sú að viti atvinnurekandinn eða bankaeigandinn að einhver muni taka hann í fallinu, eða hruninu, yrði hópur skattgreiðenda sem myndu borga tjónið og hann gæti tekið meiri áhættu í rekstri án þess að hætta sínu eigin fé. Því mætti koma fyrir í hýsingu á Tortóla.

Þetta fyrirkomulag mun aldrei stuðla að arðbærum, sjálfbærum og traustum rekstri sem hvert hagkerfi verður að standa á til að geta talist kröftugt og byggt á bjargi. Því eiga skattgreiðendur ekki að borga skuldir þeirra sem fara illa með fjármuni. Ríkið á að stuðla að bættri menntun, bættara heilbrigðiskerfi og hjálpa þeim sem eiga bágt.

Þekkingagrunnur og menntun

Vandinn á Íslandi er sá að síðustu áratugi hefur menntun háskólamanna verið einhæf. Þverfagleg kennsla hefur þó aukist og hafa lögfræðingar farið yfir í Odda og tekið þar viðskiptafræðikúrsa. Einnig hafa læknar, sem pistlahöfundur þekkir vel, farið í viðskiptafræði til að ná tökum á rekstrarþætti heilbrigðisstofnana. Hjúkrunarfræðingar hafa gert hið sama og náð utan um afar flóknar stofnanir sem eru betur reknar en áður fyrir þeirra tilstuðlan.

Ekki skal dæmt um hvort sumir menn séu almennt fávís almenningur því allir eru í grunnin gáfum gæddir. Hins vegar eru ekki allir sem búa yfir sömu þekkingu. Þekkingagrunnur einstaklinga er mismunandi og byggir oft á því að viðkomandi, sem ekki býr yfir nægri þekkingu, leitar til fagfólks að svörum. Þannig leitar greinarhöfundur til pípulagningameistarans og rafvirkjans að lausn á þeim tæknilegu þáttum er þeir þekkja best til og skortur er á þegar kemur til þess að gera við innan- sem utanhúss.

Þessi grunnur er samt þeim annmörkum háður að þó þeir, sem tjá sig í ræðu og riti viti margir sjálfir eigin takmörk, virðast ekki allir þeim gáfum gæddir. Það er miður en pistlahöfundur er þó á því að almenningur almennt veit sínu viti.

Hvað ef?

Það kann að vera að þorri þjóðarinnar kjósi Guðna Th sem forseta sinn en maðurinn vill örugglega vel, virðist ljúfur í lund og ágætur sagnfræðingur. Mun pistlahöfundur vissulega taka því af æðruleysi og af stuðningi við lýðræðið sem allir eiga að gera og gæta að því að þegar lýðræðið er virkt og gagnrýnin vex að grýta það ekki á milli kosninga. Hins vegar verða allir að bíða eftir kjördag enda ráðast úrslitin þar, ekki á netinu.

Það er hið besta mál að eiga í skoðanaskiptum um menn og málefni, takast á og spyrja spurninga. Það er þá algjört lágmark að þeir sem eru í framboði svari eftirspurninni rétt eins og fyrirspurninni. Þannig er hinn frjálsi markaður og þannig er hin frjálsu samskipti og þannig er tjáningafrelsið. En það er þetta með frelsið. Því fylgir ábyrgð en ekki ríkisábyrgð. Íslenska ríkinu ber að standa að baki sínum þegnum fyrst og fremst og tryggja að ólga og sundrung dragi okkur ekki í sundur sem þjóð.

Hvernig myndaðist ICESAVE?

Þegar fólk tjáir sig um ICESAVE áttar það sig ekki alltaf á tilurð þessa mikla fjárs í formi innlána í Landsbankanum og EDGE í Kaupþingi.

Árið 2001 voru sett lög nr. 36/2001 um Seðlabanka Íslands og vaxtalög nr. 38/2001 sem voru undanfari á fleytingu íslensku krónunar. Á þessum tíma var Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) að vinna að úttekt á íslenska hagkerfinu og peningastjórn í landinu með þessa aðgerð í huga. Í skýrslum og leiðbeiningum lagði sjóðurinn mjög ríka áherslu á að ekki yrði heimilt bankakerfinu að lána óvarin lán í krónum þar sem þau yrðu tengd við gengi erlendra mynta, þ.e. gengistryggð lán. Ríkisstjórn Davíðs Oddssonar fór að þessum leiðbeiningum frá AGS. Skýrsla frá AGS kom út í sama mund og lögin voru afgreidd frá Alþingi Íslendinga og hana má finna hér (sjá mynd bls. 23 – Figure 1 sem sýnir keðjuverkun og áhættuferli vegna gjaldeyrisáfalls þar sem slík lán eru talin stórskaðleg óvarin í bókum bankakerfis).

Á árunum 2004-2005 tóku bankar að keppa við Íbúðarlánasjóð. Hvers vegna? Jú, það var til þess að stækka efnahagsreikning sinn svo blása mætti út hagnað er aðallega myndast við virðisaukningu á lánasafni. Þetta gerist stuttu eftir að bankamenn sömdu um tugi milljarða kaupauka og árslauna upp á hundruð milljóna á mann. Því lá mikið við að ná að stækka bankakerfið.

Seðlabankinn tók að hækka vexti enda kröfðust lög nr. 36/2001 að halda bæri verðlagi innan vikmarka og sem næst 2,5% verðbólgumarkmiði sem sett voru í lög og almenn sátt um m.a. á vettvangi vinnumarkaðarins. Þar sem Íbúðarlánasjóður var félagsleg lánastofnun fyrir þá sem áttu erfitt með kaup á húsnæði var hann baktryggður af íslenska ríkinu og gátu bankar því ekki keppt við sjóðinn um innlent fjármagn þegar vextir tóku að hækka.

Á þeim tímapunkti gaf Árni Páll Árnason, fyrrum ráðherra og nú formaður Samfylkingarinnar, út lögfræðiálit sem sagði Íbúðarlánasjóð heimilt að lána til SPRON fjármagn sem m.a. hafði safnast upp í sjóðnum. Það fé safnaðist þar upp eftir uppgreiðslu lána í kjölfar 100% lánakjara bankanna. Íbúðarlánasjóðurinn gat hins vegar ekki keppt við 100% lánin vegna þess lagaramma sem hann starfaði eftir. Á tímabili lánuðu bankar allt að 130% af brunabótamati fasteigna og almenningi seld að sú hugmynd væri góð og gild.

Þeir fjármunir fóru til að stækka efnahagsreikning SPRON og Frjálsa fjárfestingarbankann sem lánuðu með þessum krónum gengistryggð lán sem var lögbrot. Sama gerðu aðrir bankar þegar vextir hækkuðu. Lögbrotin þessi urðu til að skekkja og brengla peningastefnuna rétt eins og AGS hafði varað við. Lögbrotin voru augljós og juku á þenslu sem Seðlabankinn varð að bregðast við með vaxtahækkun.

Þarna fór að leka úr blöðrunni. Samhliða þessu þurrkuðust upp erlendir lánamarkaðir og bankarnir þurftu að fara endurfjármagna sig. Þá kom hin ,,tæra snilld“ sem fólst í ICESAVE. Menn vissu að vextir hækkuðu ef þeir héldu áfram að brjóta lög með ólögmætum lánum er juku þensluna. Seðlabankanum bar að fara að lögum og hækka vextina. Þeir sáu þetta, þ.e. að Seðlabanki Íslands var því þvingaður í að hækka vexti og fara að lögum til að halda verðlagi niðri. Þeir voru komnir með ,,högnunarástand“ (e. hedging) þar sem þeir gátu boðið háa innlánsvexti enda héldu þeir, með þessu lögbroti, uppi vöxtum í landinu sjálfir.

Guðni ekki einn um það

Ekki skal hér haldið því fram að Guðni hafi einn ekki áttað sig á þessu samhengi og því síður þegar hann les Fréttablaðið sem fæst frítt inn um lúgur landsmanna þar sem þessum sannleik er snúið á haus.

Í lokaorðum sínum í framangreindri grein sinni í Fréttablaðinu segir Guðni:

Niðurstaðan er þessi: Ætli menn að halda því fram að Íslendingar séu að reyna sýna umheiminum fram á óréttlætið í því að ríkisvaldið þurfi að ábyrgjast innstæður í einkareknum bönkum verða þeir að bæta við orðum sem gætu hljómað eitthvað á þessa leið: „það er að segja í útlöndum en á Íslandi hljóta aðrar reglur að gilda“.

Hér skiptir miklu hvernig þessir reikningar mynduðust. Það skiptir miklu að þessi innlán urðu til vegna lögbrota hinna föllnu banka og fárra en leiðandi starfsmanna þeirra. Þessi innlán urðu ekki til undir eðlilegum rekstri bankakerfis og engin umbjóðandi þjóðar getur látið almenning á Íslandi taka á sig tjón sem varð til undir þessum kringumstæðum.

Þessi jafnræðisrök gilda ekki hvað þetta varðar. Hér urðu ráðamenn að standa fyrst og fremst vörð um Íslendinga sem höfðu þá þegar verðið vélaðir í að taka þátt í ólögmætri aðgerð gegn peningastjórn í sínu landi. Þessi aðgerð var framkvæmt af bankakerfinu sem jók á þenslu í hagkerfinu gegn ábendingum alþjóðastofnunar, þ.e. Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, og gegn lögum í landinu. Dómar Hæstaréttar og fræðirit um þetta efni liggja fyrir þessu til áréttingar.

Skiptir því litlu ef Guðni verður kjörinn forseti eftir þetta. Þetta voru hans orð, hans gjörðir og hans skilningur sem hér er hrakinn. Það er gert í fullri vinsemd og alfarið gert út frá staðreyndum máls, hvorki með illum hug né af vondri samvisku.

Þessi skilningur Guðna var og er byggður á sandi. Það er miður en það er mikilvægt að þetta sé reifað og þessu sé haldið til haga sem og rætt kinnroðalaust.

Þetta efni var engu að síður ritað í bók og var væntanlega grundvöllurinn að Hruni Guðna Th sem finna má hjá forlaginu.

 

Flokkar: Hagmál · Heimspeki · Sagnfræði · Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur