Föstudagur 24.06.2016 - 07:14 - Lokað fyrir ummæli

YES! BREXIT – ESB Steingervist

Bretar eru á leið úr ESB. Fyrstu skref að upplausn ESB eru stigin með útgöngu Breta. Það hefur sýnt sig að þó miklu afli sé beitt gegn almenningi lætur lýðræðið ekki að sér hæða en framganga fjölmargra sýnir samt þau öfl sem hafa þarna gríðarlega sterk áhrif á kjósendur.

Íslendingar hafa mátt þola umtalsverðan áróður ESB sinna sem hafa fengið stuðning innan ríkisfjölmiðla og hjá þeim sem vilja minnka vægi þess sjálfstæðis er við Íslendingar búum við. Hafa m.a. einstakir þáttagerðarmenn hjá RÚV komið fram og reynt að smækka eða smætta inntak þjóðsöngs þessarar yndislegu þjóðar sem byggir Ísland.

Svo virðist sem þjóðin ætli að kjósa sér ESB áróðursmann sem forseta, sem virðist nú flagga þjóðfánanum af e.k. hentugleika fyrir málstað sinn og ESB. Hvers vegna?

Fræðimenn er notið hafa styrkjaflóru ESB sjá nú drauma um ,,ókeypis“ fjármuni fjara út en þekkja ekki til umboðsvandans þegar þeir sumir kaupa sér frægð og frama með fjármunum ESB er slíkt á kostnað sjálfstæðisins. Tilfinning einstakra fræðimanna fyrir baráttu um frelsi þjóðar og auðlindir hafa dvínað. Slíkir menn hafa og munu aldrei hafa í brjósti sínu sannfæringu fyrir því að blása kjark í brjóst þjóðar.

Nú tekur við áralöng barátta Breta um að semja sig frá ESB og það verður lærdómsríkt að fylgjast með því.

ESB á það til að líma sig fast í þjóðarvitund og regluverk þeirra ríkja sem ganga þar inn og ætla má að ferlið framundan mun verða að fræðigreinum. Það er sem þjóðir gangi í björg.

Við Íslendingar eigum að þróa fræðigrein um það hvernig þjóðir eigi að standast freistingar og áróður til að verja landamæri sín og sjálfstæði. Tengist þetta einnig úreldingu fræðimanna sem mælt hafa með aðild að ósjálfstæði og undirgefni með aðild að ESB.

Ungt fólk vill ekki missa frelsi sitt sem felst í því að vera hluti af sjálfstæðu ríki. Það þarf að fræða ungt fólk um rétt sinn og styrk innan sjálfstæðs ríkis.

Markaðir munu taka þessu misjafnlega en þeir munu ná jafnvægi og læra af reynslunni. Sjálfstæði þjóðar er ekki selt í kauphöllum. Kauphallir eiga að taka mið af sjálfstæði þjóða en ekki að stuðla að skerðingu sjálfstæðis þess sem skóp hinn frjálsa markað.

Þetta tekur á rétt eins og viðamikil tannviðgerð en jafnar sig. Álagið og umrótið lýsir fremur kostnaði við inngöngu í ESB fremur en kostnaði við útgöngu. Sjálfstæði þjóða og fullveldisréttur á að vera viðmið innan ríkjasambanda til að tryggja samkeppnishæfni og samkeppni til lengri tíma, tryggja ber menningu, þjóðareiningu og tungu ríkja. Sé þetta ekki tryggt ber að hætta aðild og má ekkert ríkjasamband eigna sér eða taka yfir þjóðríki eða auðlindir þess með beinum eða óbeinum hætti í gegnum þvælt og óskiljanlegt regluverk. Þannig er ESB einmitt orðið.

Til hamingju Bretar !

 

 

Flokkar: Heimspeki · Menning og listir · Sagnfræði · Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur