Mánudagur 25.07.2016 - 20:07 - Lokað fyrir ummæli

24% fylgi X-D óásættanlegt

Í nýlegri könnun MMR, sem Morgunblaðið birti í dag, kemur fram að fylgi Sjálfstæðisflokksins er aðeins 24% og Píratar með tæplega 27% fylgi. Þetta er algjörlega óásættanleg niðurstaða fyrir forystu Sjálfstæðisflokksins og rétt að fara yfir það hver ástæðan kann að vera.

Forysta Sjálfstæðisflokksins

Það hefur verið viðtekin venja að í forystusveit stjórnmálaflokka veljist helst einn karl og ein kona. Það hefur verið svo í pottinn búið hjá Sjálfstæðisflokknum um árabil. En hefur einhver önnur nýlunda skotið upp kollinum frá því að þessi flétta var tekin upp? Svarið er nei. Ekkert nýtt. Við sjáum að íhaldsmenn á Bretlandseyjum hafa nú enn á ný kosið sér til forystu konu sem virðist bæði skelegg og föst fyrir í mikilvægum málum, sbr. varnarmálum. Á sama tíma hefur Verkamannaflokkurinn þar á bæ ekki náð að kjósa sér til forystu konu. En skiptir það máli?

Nei það skiptir ekki megin máli hvers kyns þeir forystumenn eru sem skipa forystusveit hvers flokks um sig. Það sem mestu máli skiptir er að þessir aðilar nái að halda fylginu og tryggja nýliðun bæði í flokksstarfinu og að flokkurinn sjálfur haldi fylgi sínu og forystu í stjórn landsmála hverju sinni. Það næst með öflugu innra starfi og málefnalegum grunni sem fylgt er fast eftir.

Óhætt er að segja að forysta Sjálfstæðisflokksins er bæði sterk og viljug til að fylgja málefnum flokksins eftir en hvað er þá það sem vantar uppá til að fylgið nái flugi?

Staða formanns Sjálfstæðisflokksins

Staða formanns Sjálfstæðisflokksins er sterk innan flokksins en hælbítar og niðurrifsöfl hafa náð að innræta í fjölda landsmanna að hann hafi eitthvað að fela í stað þess að benda á þann frábæra árangur sem hann hefur náð á síðustu árum, bæði sem ráðherra og sem formaður flokks sem hefur þurft að breytast mikið á skömmum tíma.

Sama má segja með varaformann Sjálfstæðisflokksins.

Málefnastaðan

Hér tel ég að Sjálfstæðisflokkurinn standi veikt í dag. Málefnanefndir hafa verið fremur illa sóttar, fólk virðist ekki leggja eins mikið upp úr starfinu og áður, ungt fólk á erfitt með að eiga tíma til að mæta og stuðla að frjóu starfi sem pistlahöfundur sá að átt í sér stað hér á árum áður. Hvað veldur?

Við búum í gjörbreyttu umhverfi. Málefnin eru önnur og þurfa að lúta að því að tryggja grunninn sem flokkurinn er byggður upp af, þ.e. stétt með stétt. Hvar er ungi iðnaðarmaðurinn í dag? Hvar er hárgreiðsludaman, rakarinn, píparinn, verkfræðingurinn, ungu barnafjölskyldurnar og frumkvöðlarnir? Þeir eru ekki að sækja í Sjálfstæðisflokkinn þrátt fyrir að stefna þess flokks er sú eina og sanna fyrir þessa hópa sem reka lítil og meðalstór fyrirtæki eða hefðbundna þriggja til fjögurra manna fjölskyldu sem er fyrirtæki út af fyrir sig.

Ritari Sjálfstæðisflokksins hefur staðið sig vel með myndbandi á samfélagsmiðlum og kemur fram með kjarna sem verðugt er að halda á lofti, þ.e. séreignaréttinn og tryggja að ungt fólk geti haft efni á að fjárfesta í íbúð. Það var reyndar gert með breytingu á byggingareglugerð og íbúðirnar minnkaðar niður í um 40 fermetra. Hvers vegna? Jú, það er vegna þess að sveitarfélög eru að innheimta of mikið fyrir lóðir og eftirlitsiðnaðurinn og kröfur um dýra innviði eins og skóla sem kalla á dýran arkitektúr og listainnkaup sem er orðin skylda hins opinbera.

Barnafólkið þarf að vita að um þau er hugsað. Það þarf að afnema hömlur fyrir þetta fólk og ekki má heldur gleyma öldruðum og öryrkjum varðandi leiðréttingu á kjörum þeirra.

Það er því af mörgu að taka.

Ný stefnumál á gömlum grunni

Hér eru settar fram hugmyndir að stefnumálum sem setja ætti á oddin fyrir næstu kosningar til Alþingis og sveitastjórna og byggir á ályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins:

Frelsið: Þetta er grunnstefn í stefnu Sjálfstæðisflokksins en það hefur verið örðugt að auka frelsið og þess í stað leitast við að fela ríkinu og öðrum opinberum aðilum verkefni í of miklum mæli sem aðrir geta sinnt. Gott dæmi er rekstur ríkisútvarps – og sjónvarps, rekstur hafnamannvirkja og stofnbrauta í vegamálum, rekstur menntastofnana og tilhneiging til þess að stofna nefndir um margvísleg málefni eins og varðandi rekstur ferðamannastaða. Byggja þarf upp eftirlitsiðnað með ábyrgð á hendur þeim sem eftirliti þurfa að lúta í stað þess að hanga yfir frjálsum einstaklingum í rekstri í stað þess að beina að þeim öfugri sönnunarbyrði sbr. í skattamálum. Ungt fólk þarf að finna fyrir þessu frelsi á öllum sviðum mannlegs lífs. Það þarf að tryggja.

Jafnrétti: Í grunnin þarf að tryggja jafnan rétt allra óháð kyni. Hins vegar hefur minna verið um að tryggt sé jafnrétti út frá kynþætti og uppruna þar sem íslensk tunga hefur verið gerð að ásteitingarsteini í ráðningum hjá hinu opinbera. Það verður að víkja frá þeirri kvöð við opinberar ráðningar sem felst í lýtalausri íslensku sem beinlínis hamlar því að fólk með sambærilega menntun af ólíkum uppruna hafi sömu tækifæri. Þarna verðum við að opna á þann möguleika að fólk af erlendum uppruna geti átt raunverulegt tækifæri til að njóta sín í íslensku samfélagi og að samfélagið fái notið sín betur með fólki af erlendum uppruna. Þar er óbeisluð auðlind sem virkja má inn í framtíðna. Þar liggur launamunurinn ekkert síður en á milli kynja.

Trúfrelsi: Það þarf að tryggja algjört trúfrelsi og beisla þá umræðu sem hefur orðið varðandi mismunandi trúarhreyfingar og nýta trúarhreyfingar til að breiða út boðskap um jafnrétti og samfélagslega ábyrgð hvers og eins. Það þarf að tryggja samvinnu og sameiginlega samveru trúarhreyfinga og vettvang þar sem tryggt er að allir leiðtogar þessara trúarhreyfinga geta komið saman og átt samtal við opinbera aðila. Þar gæti slíkt komið í stað Kirkjuþings eða haldið í samfellu við það ágæta þing.

Aldraðir: Þessi hópur, sem við öll nálgumst hratt og örugglega, hefur verið afskiptur of lengi. Tryggja þarf að framtíðarkynslóðir eigi kost á fjölmörgum áhugaverðum sparnaðarleiðum til efri áranna og rétt væri að veita öldruðum tækifæri sem eru raunveruleg og felast aðallega í kjarabótum. Það hefur þó verið svo að tækifæri aldraða til að afla sér tekna eru afar mismunandi og taka ber tillit til þess í meira mæli en gert er. Tryggja verður að aldraðir geti búið við öryggi til æviloka og að hjón og sambúðarfólk geti búið saman heima eins lengi og nokkur kostur er. Standa ber vörð um kaupmátt aldraða.

Öryrkjar: Auka á atvinnuþátttöku öryrkja og tryggja þeim aukin tækifæri í samfélaginu. Byggja verður utan um þennan hóp vernd sem þeir geta treyst á og aðbúnað sem er bæði fullnægjandi og mannsæmandi. Standa ber vörð um kaupmátt öryrkja.

Mannréttindi: Íslendingar hafa verið eftirbátar í stuðningi við þróunarlönd víða um heim. Það er miður og svo virðist sem stefnubreytingar undanfarið hafi ekki skilað sér í mældum árangri eða aukningu á fjármagni í þá átt. Fremur hefur verið um að ræða e.k. geymslustofnun fyrir afdankaða einstaklinga sem hafa sumir verið þar setir á beit fjarri heimahögum. Það á hins vegar ekki við alla enda fjölmargir mætir menn sem starfa á þessu sviði fyrir Ísland um víða veröld. Þarna þarf að líta til verka sem eru stærri og gætu fallið að því að efla útrás verkfræðiþekkingar sem og annarar tækniþekkingar samhliða þróunarhjálp.

Löggæsla: Á fundum Sjálfstæðisflokksins hefur það komist í hámæli að gera lítið úr þeirri löggæslutengdri áhættu sem felst í fíkn og þá helst tengt fíkniefnum hvers konar. Þetta er heilsufarsvandamál en einnig glæpamál og varast ber að fegra það umhverfi sem við sköpum ef við gefum afslátt af þessari sýn almennings á ástand fíkniefnamála í landinu samhliða glæpum þeim tengdum. Vitað er að víða er um fíkn að ræða og er um heilsufarsvanda að ræða en einnig löggæsluvanda enda standa laganna verðir frami fyrir mikilli áskorun og áhættu þegar þeir horfast í augu við aukna neyslu fíkniefna á Íslandi. Á slíku þarf að taka með festu og áræðni án málamiðlana.

Heilbrigði: Tryggja ber aðgengi allra að heilbrigðisþjónustu í landinu. Í sama mund á að hvetja til nýfjárfestinga á þessu sviði bæði hjá hinu opinbera og auka hvata fyrir einkaaðila til hins sama. Þar ber hæst að auka ber frelsið til að hægt verði að afkasta þeirri þörf sem er fyrirséð á heilbrigðissviðinu. Þar gætu lausnir verið margvíslegar og tækniþróun gæti leitt til aukinna afkasta og bættrar þjónustu fyrir alla landsmenn. Tryggja þarf einnig nýliðun í greinum heilbrigðisvísinda á landinu og tryggja inn í framtíðna aukið frelsi í hvers kyns rekstrarformi á sviði þjónustu og meðhöndlun sjúklinga samhliða öflugum opinberum rekstri. Það er ótækt að ráðuneyti heilbrigðismála geti ekki með góðu móti starfað með það að augnarmiði að nýta megi krafta einkaaðila svo tryggja megi einstaklingsmiðaða þjónustu til lengri framtíðar og aukin afköst. Það á að veita læknum og öðrum starfsstéttum aukið frelsi til reksturs eigin sjúkraþjónustu og opna fyrir leiðir í því efni í meri mæli. Tryggt skal að frjáls verðlagning sé til staðar ásamt því að hið opinbera tryggi að hverjum skattgreiðanda fylgi ákveðin fjárhæð og/eða réttindi sem hann getur nýtt hvar sem er, hvenær sem er hjá fyrirtækjum og/eða stofnunum sem bjóða upp á margvíslega viðurkennda þjónustuþætti á sviði heilbrigðisvísinda.

Efnahags- og fjármál – Tækniþróun því tengdu: Fjölbreytt atvinnulíf verður að fá að dafna við bestu skilyrði. Þau skilyrði fást með auknu frelsi og minni ríkisafskiptum. Með því má auka lífskjör í landinu og til að tryggja grunndvöll byggðar í landinu ber ríkisvaldinu þó að tryggja að grunnstoðir séu til staðar á sviði mennta-, heilbrigðis-, velferðar- og öryggismála. Tryggja ber að skattar letji ekki atvinnulíf og almenning til athafna. Tryggja þarf að ríkið sem og skuldsett sveitarfélög greiði niður skuldir í meira mæli en gert hefur verið. Sameina á sveitarfélög í meira mæli þar sem rekstrargrunnur margra þeirra er tæpur.

Losa þarf um eignir ríkisins með opnu ferli og á það einnig við um fyrirtæki sem ríkið á minnihluta í með beinum eða óbeinum hætti, í gegnum eignarhlutafélög hins opinbera eða ekki. Varðandi tækniþróun ber að koma upp miðlægri gagnamiðlun ríkisins og efla tækni til að tryggja betur upplýsingar til ráðamanna samhliða því að bæta upplýsingaflæði til almennings og gera almenning auðveldara að afla sér upplýsinga milliliðalaust. Með þessu fyrirkomulagi geta þegnar landsins tekið beinan þátt í lýðræðisumbótum t.a.m. í málefnum sem eru í ferli á Alþingi Íslendinga og haft áhrif áður en frumvarp verður að lögum. Þetta er hægt með nokkrum mæli í dag en upplýsingar skortir til handa bæði þingmönnum, ráðherrum sem og sérstaklega almenningi til að efla lýðræðisvitund almennings og tryggja þátttöku sem flestra í mótun samfélagsins. Fjárlagaþáttur hins opinbera og fjárlagagerð spilar þar stóran þátt.

Húsnæðimál og barnafjölskyldur: Sameina á átak milli ríkis og sveitarfélaga til að tryggja ungu fólki, barnafjölskyldum sem og öðrum húsnæði. Þar ber helst að nefna að auka vægi þeirra sem búa í eigin húsnæði og vilja tryggja sér og sínum þak yfir höfuðið ásamt því að nýta fjármuni til að fjárfesta í fasteign sem reynst hefur besti kosturinn til að geyma lífeyrir til lengri framtíðar. Leggja ber upp úr því að á næstu árum verði gert átak á vegum hins opinbera í samráði við sveitarfélög og einkaaðila að bæta úr lóðaframboði á sérstökum kjörum í hverju deiliskipulagi sem verður samþykkt á næstu 4 til 20 árum. Á móti gæti ríkissjóður bætt tekjustofn sveitarfélaga sem kallað hefur verið eftir og með þeim hætti breikkað tekjustofn þeirra gegn skuldbindingu til handa komandi kynslóðum.

Samhliða slíkri breytingu ætti að lækka skuldahlutfall það sem sveitarfélög ber að halda sig innan og ná því úr 150% niður fyrir 100% af heildartekjum sveitarfélaga. Að auki ber að búa til fjárflæðisgreiningu á tekjustofnum þeim er ríkið felur sveitarfélögum ásamt ákveðnum þáttum sem flust hafa frá ríki til sveitarfélaga síðustu 20 árin. Með því geta skattgreiðendur viðkomandi sveitarfélags séð betur og greinilega hvort tekjustofnar, t.d. til fatlaðra og barna með sérþarfir í skólum, skili sér beint þar sem þörfin er. Slíkt tryggir hag barnafjölskyldna og skil fjármuna beint til barnanna úr ríkissjóði.

Umhverfismál: Vernda ber náttúru Íslands. Það er enginn spurning og koma að því með virkum hætti samhliða eðlilegri nýtingu auðlinda bæði í hafinu og á landi. Auðlindir sem fólgnar eru í vind- og sólarorku eru þættir sem ber að hafa í huga samhliða því að fá fólkið í landinu til að opna á þau tækifæri sem í þessum orkugjöfum felast. Virk skógrækt og hreinsun strandlengjunnar á að vera tryggð með ákveðnum hætti sem og að gæta að því að náttúran verði ekki spillt vegna ágangs búfénaðar og ferðamanna. Þar þarf að eiga sér samspil verndar og nýtingar í sátt við þjóðina og umhverfið allt til lengri framtíðar. Tryggja ber að einkaaðilar verði fengnir í meira mæli til að gæta að náttúru lands og sjávar, nýta hana með eðlilegum skilum til samneyslunnar hverju sinni. Tryggja þarf að tekjur og afraksturinn verði eftir sem næst uppruna nýtingarinnar en fari ekki í miðstýringu sem skilar sér oftar ekki með sama hætti. Þarna ber að nýta krafta einkaframtaksins og standa ber vörð um nýtingu og auðlindir hafsins án þess að kollvarpa því kerfi sem reynst hefur best til verndunar.

Ríkið á að takmarka afskipti sín af almenningi nema ef um öryggismál er að ræða, heilsuvernd og til að tryggja almenna velferð. Ríkið og aðrir opinberir aðilar þurfa að tryggja þann skilning innan sinna vébanda að einkaaðilar séu jafn færir og hið opinbera til að leysa flókin og erfið mál á sviði umhverfis og náttúru.

Utanríkismál: Viðskiptafrelsi þarf að aukast til muna. Sjálfstæðisflokkurinn hefur haft veg og vanda að því að fella niður gjöld og tolla í tíð núverandi ríkisstjórnar. Betur má ef duga skal. Sjálfstæðisflokkurinn á að leggja upp með, ásamt versluninni, að afnema tolla og skatta af barnatengdum vörum hvers konar. Tryggja verður að þetta skili sér til neytenda og að neytendur séu vel upplýstir um úrræði sem beita má standist verslunin ekki þær freistingar sem felast í að hækka verð á vörum sínum. Til að ná utan um þetta ber að gæta að því að gjöld á verslunarhúsnæði aukist ekki og éti upp arðinn af slíkum aðgerðum beint eða óbeint.

Öryggið er best tryggt með aðild að Atlantshafsbandalaginu og með varnasamningi Íslands og Bandaríkjanna. Leggja ber áherslu að tryggja frekari viðskiptasamninga við Norður Ameríku á næstu árum þar sem leitast verður við að auka frelsi í viðskiptum. Einnig má leita samninga við Bandaríkin og Kanda á sviði menntunar, atvinnu, verslunar og þjónustu sem gætu gengið lengra en þeir samningar sem nú eru í gildi.

Ísland hefur í gegnum árin átt gott samband við Evrópusambandið án aðildar að sambandinu og halda ber þeirri stöðu án aðilar. Sjálfstæðisflokkurinn á að mælast til þess innan EFTA að þau ríki sem aðild eiga að EFTA leiti allra leiða til að taka upp EES samninginn við Evrópusambandið með það að leiðarljósi að ná inn viðaukum gangi samkomulag Breta við ESB á næstu árum lengra en EES samningurinn gerir varðandi fjórfrelsið og innleiðingu tilskipanna. Hins vegar er rétt að mælast til þess að Schengen samningurinn verði endurskoðaður m.t.t. ástandsins í Evrópu en með það að leiðarljósi að hluti þess tryggi flóttafólki betri aðbúnað en nú er nær sínum heimahögum án þess að skuldbindingar Íslendinga til aðstoðar flóttamönnum takmarkist við það sem verið hefur. Þátttaka Íslands á vegum Sameinuðu þjóðanna er mikilvæg og ber að halda á lofti, tryggja og efla.

Upplýsingasamfélagið: Sjálfstæðisflokkurinn á að vera í fararbroddi fyrir opinni stjórnsýslu sem tryggir n.k. „Ríkið to Go“ upplýsingar beint í viðtæki og búnað ungs fólks í dag sem og eldri kynslóða sem hafa tileinkað sér tækni hraðar og í meira mæli en áður fyrr. Aðgangur að gögnum ber að tryggja svo opna megi stjórnsýsluna og auka þannig lýðræðisvitund almennings og þátttöku hans við ákvarðanir á öllum stigum máls. Með þessu fyrirkomulagi á að ná því að stjórnendur stofnana viti að skattgreiðendur hafa eftirlit á degi hverjum með því sem gert er og hvernig fjármunir eru nýttir. Sama á við ráðherra og stjórnmálamenn almennt. Með þessum hætti gerir aðhaldið það að menn geta síður vikið sér undan þegar augljóst er að illa er farið með opinbert fé. Með þessum hætti má tryggja að hið opinbera verði skilvirkara og skili þannig betra starfi, þróist og dafni.

Innviðir: Tryggja þarf búsetu um land allt og grunnþjónustu á sviði heilbrigðismála ásamt því að sjúkrastofnanir séu sem næst almenningi í landinu þannig að mæður geti fætt börn sín í heimabyggð og að sjúklingar geti leitað að þjónustu í nærsamfélaginu. Bæta ber samgöngur á höfuðborgarsvæðinu sem og víða á landsbyggðinni. Sjálfstæðisflokkurinn á að setja sér það markmið að ljúka endanlega við hringveginn og að stefnt verði á tvöföldun hans frá höfuðborginni allt að 200 kílómetrum frá borginni norður og austur fyrir fjall. Það markmið skal nást fyrir 2030 og tryggt að öll sveitarfélög geri ráð fyrir þessu í aðalskipulagi sínu á næstu misserum. Í meira mæli verði farin sú leið að leita leiða til að einkaaðilar reki stofnbrautir með BOT (e. Build Operate and Transfer – Byggja, reka og flytja yfir) leiðinni sbr. Hvalfjarðargöng. Einkaaðilar byggja og reka mannvirkin um ákveðið árabil þangað til þau flytjast yfir til ríkisins eða sveitarfélags eftir því sem við á hverju sinni. Samhliða þessu á að gera ráð fyrir raflögnum í jörðu meðfram vegum og leggja upp úr því að styrkja raforkukerfið um land allt með hálendisvegi og línu í jörðu meðfram slíkum vegi sem hluti þeirrar framkvæmdar.

Ef vegakerfið og innviðir eiga að afskasta því sem framundann er verður að horfa fram á vegin í þessum málum.

Önnur mál: Það sem setja verður á oddinn eru mál sem ekki verður hvikað frá í stjórnarmyndunarviðræðum eftir næstu kosningar til Alþingis. (1) Skattar ekki hækkaðir; (2) Ekki vikið frá stöðugleika efnhagslífsins til að tryggja kaupmátt launa og ráðstöfunartekna; (3) Leiðrétting á kjörum aldraða og öryrkja; (4) Samið við sveitarfélög um tekjustofna gegn skipulagsbreytingum til að tryggja ódýrara húsnæði og lægri fasteignaskatta; (5) Skattar og tollar felldir niður á barnatengdum vörum á kjörtímabilinu; (6) Miðlægt tölvukerfi innleitt til að virkja lýðræði og aðgang almenngins að gögnum og framvindu mála hins opinbera; (7) Opnari stjórnsýsla fyrir fólk af erlendum uppruna og verkefni sett af stað til að auka virkni fólks af erlendum uppruna í varanlegum störfum fyrir hið opinbera; (8) Aukin þátttaka einkaaðila í vegaframkvæmdum til að svara öryggissjónarmiðum og þörf á auknum afköstum vegkerfisins til 2030; (9) Aukin fríverslun við önnur ríki en þau sem aðilar eru að EES samningnum; (10) Tryggja öryggi landsins, þátttöku í alþjóðasamvinnu og aukin þróunaraðstoð í nærsamfélögum þeirra flóttamanna sem verst eru staddir bæði innan og utan Evrópu; (11) Virk náttúruvernd og efling uppbyggingar ferðamannastaða um land allt.

__

Það er af mörgu að taka en Sjálfstæðisflokkurinn þarf að fara að setja fram þá framtíðarsýn sem komandi kynslóðir vilja sjá. Framangreint þarf ekki að vera hið eina rétta og er alls ekki tæmandi, síður en svo. Hér er talið upp í 11 liðum það sem pistlahöfundur telur brýnt og ófrávíkjanlegt í stjórnarmyndunarviðræðum. Það verður að tryggja fjölmarga þætti og reka stoðum undir aðra. Í grunnin á þó að takmarka ríkisafskipti sem mest en nýta hið opinbera eins og vera ber, þ.e. bæði ríki og sveitarfélög. Þar má nefna að þeim ber að halda innviðum í lagi og lágmarksþjónustu á fáeinum sviðum og afmörkuðum. Heilbrigðisþjónusta á að vera fyrsta flokks og fjölbreytt. Sama á við um menntun og samgöngur. Ísland er að vaxa og dafna og unga fólkið er tilbúið til þátttöku. Það er viljugt og vel meinandi. Framangreint er ekki tæmandi, síður en svo.

Virkjum allt okkar góða fólk og tökum öllum nýliðum fagnandi sem fyrr. Þannig og með þessu lagi eykst fylgið og trú á Sjálfstæðisflokkinn styrkist enn frekar.

Við getum betur. Við munum gera betur.

Áfram Ísland !

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur