Föstudagur 15.07.2016 - 14:22 - Lokað fyrir ummæli

Kaupmáttur og Kjararáð

Um þessar mundir er mikið rætt um Kjararáð og hækkun launa opinberra aðila. Óskapleg læti eru í gangi vinstra megin við miðju í íslenskum stjórnmálum og hafa margir stokkið fram með tilfinningaþrungnar yfirlýsingar og aðrir hreinlega misst sig.

Verkalýðsforingjar sumir hafa komið fram og sagt þetta skelfilegt framferði en almenningur áttar sig ekki alveg á því hverns vegna er ekki hægt að segja upp embættismönnum og hagræða eins og gildir um aðra starfsmenn á vinnumarkaði nema einna helst þingmenn og ráðherra væntanlega einnig. Það gerist í kosningum til þings enda segja kjósendur þá upp þingmönnum sem ekki hafa staðið sig vel, þ.e. menn hafa ekki orðið fórnarlömb óvandaðra fjölmiðla og fjölmiðlamanna að ósekju þar sem villandi gögn og upphrópanir hafa lagt menn að hinum pólitíska velli.

Þróun kaupmáttar á Norðurlöndunum (olíuríkjum sleppt)

Þróun kaupmáttar á Norðurlöndunum (olíuríkjum sleppt)

Svo eru aðrir sem telja að laun verði að hækka en hafa gleymt kaupmættinum og mikilvægi þess að halda honum. Það er ekkert í því að hækka laun flæði hækkunin ekki öll út í verðlagið þannig að kaupmáttur rýrni. Hér má sjá þann árangur sem náðst hefur með aukningu kaupmáttar Íslendinga síðustu ár. Núverandi ríkisstjórn hefur staðið sig vel og ytri aðstæður hafa verið okkur hliðhollar. Þarna spila fjölmargir þættir inní en samhliða þessu má sjá fram á betri tíð. Því ber að fagna.

Varðandi embættismenn er nær að vinstri menn sjái ljósið í því að heimila það að forstjórar ríkisfyrirtækja og stofnana hins opinbera geti sagt undirmönnum sínum upp möglunarlaust eins og gerist víða annars staðar. Með því munum við sjá að hægt er að spara hjá hinu opnibera og hagræða mun meira og fyrr. Þora þeir því? Þeir hafa ekki þorað því hingað til.

Hér má sjá að Jóhanna Sigurðardóttir ritaði undir nefndarálitið sem fylgdi lögum nr. 47/2006 um Kjararáð úr hlaði á Alþingi Íslendinga hér um árið.

Hún sagði m.a. á þingi undir umræðum um frumvarp til laga um Kjararáð 2. júní fyrir rétt rúmum 10 árum:

Ég held ég megi segja að almenn samstaða hafi verið um það hjá þeim sem fjölluðu um málið og sendu umsagnir til þingsins að sú skipulagsbreyting sem gerð er væri verulega til bóta, þ.e. að ekki séu tvískiptar ákvarðanir fyrir þá aðila sem kjaranefnd og Kjaradómur hafa ákvarðað laun fyrir heldur falli þetta undir eina skipan sem er kjararáð og er það vissulega til bóta, virðulegi forseti.

Gerið það vinstri menn og verkalýðsforkolfar að hætta að vísa út og suður þegar ykkar eigin menn innan þings hafa lagt upp með lög af þessum toga. Ég sem hægri maður vil helst losna við svona ráð ríkisins, láta ráðherra taka meiri ábyrgð á launastefnum sinna stofnana og ríkisfyrirtækja, séu þau á annað borð til, og hafi vald, ásamt forstjórum stofnana, til að ráða og segja upp fólki að vild en eftir rökstuðning um mikilvægi slíkra aðgerða. Þeir taka svo pólitíska ábyrgð á því sem þeir gera og framkvæma til hagræðingar.

Þessu ægivaldi stjórnkerfisins á skattgreiðendum verður að ljúka þar sem meðalmennskan ræður ríkjum og stofnanir stækka og stækka án þess að hægt sé að hagræða með góðu móti nema að leggja stofnun niður. Erum við tilbúin til þess?

Allt þetta varð til á vinstri vængnum ella hefði það ekki komist í gegnum þingið með Jóhönnu Sigurðardóttur að baki því.

Flokkar: Hagmál · Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur