Miðvikudagur 16.03.2016 - 17:09 - Lokað fyrir ummæli

Allur ketill í eld í orkumálum

Síðustu ár hefur viðskipta- og lögfræðingurinn Ketill Sigurjónsson haldið uppi áhugaverðu og oft á tíðum orkumiklu efni á vef sínum undir heitinu Orkubloggið. Óhætt er að segja að það hefur vakið umtal í gegnum tíðina en þar hefur verið leitað leiða að upplýsa almenning um orkumál á Íslandi.

Ketill Sigurjónsson

Ketill Sigurjónsson

Í gær kom Ketill fram í Kastljósi RÚV og virtist mikið niðri fyrir varðandi álframleiðendur á Íslandi. Í nýlegum pistli hans, Átökin um orkuauðlindir Íslands, virðist hann vaða á súðum varðandi orkumál á Íslandi. Þessi pistill, sem virðist stefna í að verða sá síðasti hjá Katli um orkumál, er stílbrot sé miðað við fjölmörga pistla hans um sama efni frá upphafi. Hann segir m.a.:

Það fór reyndar svo að miðað við ruglukollana sem spruttu nú fram með áróðursskrif fyrir stóriðju og gegn sæstreng, virðist sem Norðuráli hafi gengið eitthvað illa að fá fagfólk til þess verks.

Hingað til og allt frá tíð Halldórs Jónatanssonar sem forstjóra Landsvirkjunnar hefur verið fjallað um möguleika á sölu á orku til Evrópu um sæstreng. Einn helsti áróðursmeistari þess verkefnis, a.m.k. í tíð síðustu vinstri stjórnar á Íslandi, var gjaldkeri Samfylkingarinnar. Það hefur reyndar sjatnað aðeins í honum eftir að Samfylkingin varð pólitískt gjaldþrota. Það er greinilega ekki lengur í tísku að vera Samfylkingarmaður.

Orkan ekki ódýr

Þrátt fyrir að upplýsingar streymi nú um allan heim á netinu á ljóshraða virðist sem Ketill hafi ekki áttað sig á því að nú vilji Kanadamenn fremur vinna úr orkunni heimavið en að flytja hana úr landi. Þeir sem mæla með útflutningi á orku um sæstreng átta sig ekki á því að þegar frumorkan er seld úr landi, þó svo fyrir hana fáist hugsanlega hærra verð, eru þættir í hagkerfinu, þar sem margfeldisáhrifa gætir vegna framleiðni og atvinnusköpunar, sem verða undir.

Í annan stað ber að geta þess að áhættan við að hafa rafstreng á hafsbotni kallar á að sá sem selur orkuna verður að kaupa raforku framvirkt á markaði til að tryggja megi afhendingaröryggi rofni strengurinn á líftíma hans. Fjölmargir þættir geta komið til þess að slíkur strengur rofni en þetta er vel þekkt í ljósleiðarabransanum og hver þekkir ekki tilvik þar sem Farice hefur farið úr sambandi auk þess sem Írlandshaf er þekkt fyrir tíð rof strengja af mörgum toga.

Það eru margir þættir sem hafa bæði bein og óbein áhrif á rekstur iðnaðarfyrirtækja og oft ekki metið að verðleikum minni áhætta standi að baki samningum efnahagslega sterk fyrirtæki, samningum sem eru til langs tíma og tryggja afkomu orkuframleiðenda.

Áhættumat

Varðandi áhættumat almennt virðist Ketill loka augum sínum fyrir pólitískri áhættu hér heima. Hún er til staðar og er síður en svo hverfandi. Hún er hins vegar ekki mikil en samt sem áður til staðar. Pistlar hans benda beinlínis til þess að hann virðist vera að mæla með sæstreng og hver veit nema að slík umræða komi framleiðendum sæstrengja vel en það liggur fyrir að þeir treysta sér ekki að leggja og eiga strenginn og má ætla að þeir muni, sem og meðmælendur slíks verkefnis, leggja til ríkisábyrgðar á slíka framkvæmd rétt eins og mælt var fyrir með Danice. Fjáraukalög frá 2009, ef greinarhöfundur man rétt, sýna fram á að um 5 milljarðar að lágmarki féllu á íslenska skattgreiðendur á þessum tíma vegna þess strengs yfir hafið. Hver metur þá áhættu að lagður sé strengur og svo sé öll áhættan ekki verðlögð heldur rennt blint í sjóinn með þetta?

Hátt orkuverð

Orkuverð er mjög hátt til stóriðju á Íslandi og það er fásinna að halda því fram að orkuverð sé hér of lágt. Það er á samkeppnishæfu verði séu allir helstu áhættuþættir lagðir til samanburðar á milli markaðssvæða. Hins vegar nýtur almenningur þess arna í lágu orkuverði og hefur íslenska þjóðin fengið að ,,fljóta með“ í verð sem er frábrugðið því sem gerist erlendis m.a. vegna tilkomu stóriðju á Íslandi. Hvers virði er það? Það er gríðarlega mikils virði.

Samkeppnin er víða og má þar nefna orkuverð í Bandaríkjunum sem og í Kanda. Varðandi svokallaða PESTEL greiningu má einnig benda á „Social“ áhættuna en þar má nefna t.d. verkföll og vinnustöðvanir. Þetta er réttur starfsmanna en þegar umræðan er villandi er hætta á að það verði til vinsældar fallið að rýra orðspor fyrirtækja sem hafa skuldbundið sig um árabil og stuðlað að uppbyggingu á iðnaði í landinu.

Því er ljóst að Ketill Sigurjónsson, eins ágætur sem hann er og málefnalegur, hefur farið offari í umræðunni án þess að innistæða sé fyrir því sem hann setur fram. Það er miður enda sjónasviftir af honum í þessari annars áhugaverðu umræðu.

Við búum hér við afar vönduð vinnubrögð á sviði orkunýtingar. Hér á landi hefur byggst upp mikilvægur iðnaður og hann á undir högg að sækja vegna kreppu á mörkuðum. Það mun breytast á næstu árum og því verðum við sem viljum skapa stöðugleika, sýna langtímafjárfestum fram á heilindi og áreiðanleika að lágmarka áhættuna, tryggja hagsmuni bæði kaupenda og seljenda með áreiðanlegum langtímasamningum og byggja þannig stoðir sem endast.

Því miður er umræðan sem Ketill heldur uppi í síðasta orkupistli sínum ekki málefnaleg. Það er miður enda að öllum líkindum síðasti pistill hans um orkumál.

Gleðilega Páska !

Flokkar: Iðnaður · Orkumál · Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur