Nú hafa margir synir og margar dætur Samfylkingarinnar yfirgefið þetta blessaða framlag fyrrum forystumanna Alþýðuflokksins, Kvennalistans og Alþýðubandalagsins, arftaka Kommúnistaflokksins, til íslenskra stjórnmála.
Reykjavíkurlistinn (R-listinn) var víst eitthvað afbrigðilegasta afsprengi af þessu sem náði því að leggja mestu byrgðar á borgarbúa sem sögur fara af auk þess sem að hanna og smíða dýrasta eldhús norðan við miðbaug sem hýst er í Orkuveituhúsinu sem í dag er aðeins nýtt að hluta.
Samfylkingin hefur hingað til, þ.e. frá sameiningu alþýðuafla á Íslandi, haft aðeins eitt mál á dagskrá, þ.e. aðild að friðar-nóbels-verðlaunahafanum ESB. Reyndar hefur einnig verið um að ræða persónulegar árásir á forsætisráherra Ísraels en það er talið til mistaka og upphlaups sem verður afsakað síðar. Erfitt er að átta sig á þessum friðarverðlaunum nema þau séu fyrir það að hafa átt erfitt með að halda friðinn í Bosníu á sínum tíma þar sem NATO varð að skakka leikinn eftir óendanlegar umræður um málið innan ESB þó svo að framin væru þjóðarmorð á svæðinu.
Það er margt afar fagurt frá tímum kommúnista og afskaplega rómantísk og má þar m.a. nefna spænsku borgarstyrjöldina sem Ernest Hemingway lýsti vel í bókinni Hverjum klukkan glymur (e. From Whom the Bell Tolls). Lýsingar á persónum og baráttu þeirra, ástum og sorgum eru hvoru tveggja fagrar en ekki síður daprar. En það voru spænsku ættjarðarlögin, söngurinn og stemmningin sem sameinaði fólkið. Það var þá sem hægt var að véla fólk til ýmisra verka, bæði til góðs og til ills. Fólkið heillaðist af boðskapnum.
Spænski kommúnistaflokkurinn PCE (s. Partido Comunista de España), stærsta hreyfing samtaka vinstriflokka á Spáni, sameinaðist fyrir tæpri öld úr tveimur flokkum sem kenndu sig við kommúnista. Var þessi hreyfing fámenn til að byrja með en óx og börðust liðsmenn hennar hatrammri baráttu gegn ofríki Franco sem naut stuðnings frá Hitler á árum áður. Franco réð ríkjum á Spáni frá 1939 til 1975. Þarna fórnuðu menn og konur lífi sínu gegn ofurefli.
Einnig eru söngvar Rauða hersins í Rússlandi fagrir þar sem burðamiklar og hljómfagrar raddir óma kommúnisma, foringjum og stríðsafrekum þeirra til dýrðar. Þar fer reyndar hvergi texti varðandi aðstoð Bandaríkjanna sem sendu þeim vopn til að verjast Hitler enda Stalín gjörsamlega vanbúinn á þeim tíma sem Hitler réðst til atlögu. Var Ísland viðkomustaður margra skipa bandamanna sem fluttu hergögn til norðurhluta Rússlands á þessum válegu tímum.
Á Íslandi er þessu nú öðruvísi farið. Eins og lýst er í Morgunblaðinu í dag (13. október 2012 – Staksteinar) eru nú tveir mætir menn, höfundar texta (ath. ekki lags) um Samfylkinguna, gengnir úr fylkingunni og þurfti hvorki manndráp né blóðuga borgarastyrjöld til eins og á Spáni. Hugsanlegt að ástin hafi blómstrað en hún er líka numinn á brott. Rómantíkin og rauðu snýtuklútarnir um hálsin eru horfnir.
Það þurfti eiginlega ekkert til nema kanski það að annar þeirra, sem nýlega fór að heiman, varð að fara þaðan því það vildi hann ekki nokkur maður á þing í því héraði þar sem söngvar hans um kvótamálin hafa ómað um hríð.
Nú hafa þeir ekki sameinað Samfylkinguna heldur splittað henni upp í nýja fylkingu sem nefnd hefur verið Björt framtíð. Það sem alþýðumenn á Spáni töldu áður afar mikilvægt, þ.e. að sameinast, telst nú löstur einn og algjört ólán.
Hlýðum nú aðeins á boðskap þessara tveggja manna sem sköpuðu stemmninguna innan Samfylkingarinnar hér á árum áður með afrituðu erlendu lagi. Lagið er líklega flutt án heimildar höfundarins og þannig algerlega ókeypis því sú auðlind er víst alfarið í eigu þjóðarinnar ef miðað er við áherslur einstakra aðila upp á síðkastið.
Eftir þetta útspil drengjanna má ætla að í framtíðinni verði á brattann að sækja fyrir Samfylkinguna.
Góðar stundir.
Rita ummæli