Í dag og næstu daga, þ.e. til hádegis þriðjudaginn 14 mars nk., standa yfir kosningar hjá Verzlunarmannafélaginu (VR) bæði til stjórnar og til formannsembættis þessa fjölmenna aðildafélags Alþýðusambands Íslands (ASÍ). Ef þú ert félagsmaður getur þú farið hér beint á vef VR og greitt Ragnari Þór Ingólfssyni atkvæði þitt. Hvers vegna ættir þú að gera það?
Að hafa áhrif
Frá hruni fjármálakerfisins hefur verkalýðshreyfingin á Íslandi lítið lagast ef svo má að orði komast. Það er þegar nánast búið að hreinsa út einn flokk á Alþingi sem hefur stýrt verkalýðshreyfingunni og lífeyrissjóðum landsins í áratugi. Í dag og í gegnum verkalýðsfyrirkomulagið hefur lífeyrissjóðum verið stýrt bæði illa og af mörgum einstaklingum án þekkingar á áhættu og ávöxtun.
Þar hafa hagsmunir fremur ráðið för en almenn skynsemi. Hver þekkir þá sögu ekki eftir sífelldar skerðingar á lífeyrisréttindum og blæti fyrir bönkum fyrir hrun? Þú hefur nú tækifæri að breyta og hafa áhrif. Þitt atkvæði gæti hér vegið mun þyngra en atkvæði til Alþingis svo þú hefur virkilega áhrif þegar þú kýst formann VR sem og stjórn. Þetta snýst aðeins um að velja rétt, ekki rangt.
Kjóstu einstakling eins og þig
Með því að kjósa Ragnar Þór Ingólfsson ertu að kjósa einstakling úr grasrótinni, mann með þekkingu og getu til að breyta. Ef þú kýst hann ekki og velur annað hvort að eyða ekki smá tíma í tölvunni við að kjósa eða ákveður að kjósa einhvern annan ertu ekki að breyta nokkrun sköpuðum hlut heldur viðhalda stöðnuðu kerfi sem hefur ekki sýnt að það sé alfarið traustsins vert eða sannað getu sína sem nútíma verkalýðs- og lífeyriskerfi.
Ragnar Þór er rétt eins og þú, starfsmaður verslunar, er verslunarmaður sem þjónustar fram í fingurgóma, heill og ekki bundinn á klafa vinstri eða hægri í íslenskri pólitík. Hann er harður nagli sem og ljúfur drengur. Hann lætur ekki eitthvað óhreint fara í gegnum kerfið óþvegið. Kjóstu því einstakling eins og þig. Hann er ósköp venjulegur félagsmaður sem hefur burði til að verða formaður VR.
Stöðvum samkeppni lífeyrissjóðina við fólkið í landinu
Um þessar mundir standa illa skipaðir, illa áttaðir og fremur fáfróðir stjórnendur lífeyrissjóða í því að keppa við sjóðsfélaga sína um íbúðir á fasteignamarkaði. Nú er þeim heimilt, eftir ákveðinni forskrift þar um, að fjárfesta erlendis og hví nýta þeir ekki krafta sína í að finna tækifæri erlendis í stað þess að keyra upp fasteignaverð hér á landi?
Gamlar tuggur í þessu efni og þröngsýn afstaða til veraldarinnar, heimóttaleg áhættufælni og vanþekking veldur því ásamt klíkumyndun að fremur er fjárfest í kringum vini og vandamenn en í besta kostinum. Það gerðist einnig fyrir hrun fjármálakerfisins. Það þekkja flestir.
Þarna þarf nýja hugsun, ekki hvatvísa heldur skynsama og áræðna er byggir á kunnáttu en ekki kunningjavæðingu. Þar hafa oft komið sér saman ólíkustu aðilar sem leitt hafa saman hesta sína innan vébanda þessa kerfis og sogið þaðan fjármagn sem súrefni að eigin eldi. Þessu ber að breyta og treysti ég Ragnari Þór til þess að vera sú rödd sem þörf er á innan vébanda verkalýðshreyfingarinnar á Íslandi. Tími hinna er liðinn. Nú er tækifæri þitt til að fjárfesta skynsamlega í góðum einstakling með því að kjósa Ragnar Þór.
Kynni af Ragnari
Ragnar Þór er þannig maður að honum er fullkomlega treystandi. Hann er gæddur hæfileikum og þekkingu til að setja sig í flókin og viðamikil mál. Hann er með yfirgripsmikla þekkingu á lífeyrismálum og rekstri sem mikilvægt er að hafa þegar kemur að stórri félagasamstæðu sem VR er í raun og sann. Hann er fylginn sér og hefur kosti að bera til að vera leiðtogi, sanngjarn og heill leiðtogi sem virðir jafnrétti í víðum skilningi þess orðs.
Ég hef þekkt Ragnar Þór um langa hríð og kynnst verkum hans, skrifum og einnig áhugamálum í tengslum við hjólaferðir um þvera og endilanga Suðaustur Asíu. Ragnar er vandaður maður og viljasterkur þegar kemur að baráttumálum fyrir almenning, félagsmenn VR og lífeyrisþega.
Sem ungur maður vann ég eilítið fyrir verkalýðshreyfinguna og kynntist fólki sem þar starfaði vel. Ég tefldi oft ungur við Guðmund Jaka og fékk þar fyrst í nefið. Það er enginn Guðmundur Jaki hér í dag og skarð hans verður ekki fyllt nema að við breytum rétt, kjósum rétt. Ég tel að Ragnar Þór sé sá maður sem getur fyllt í skarðið og skiptir engu þó hann taki ekki í nefið. Hann er rétti einstaklingurinn í verkið og af þeirri kynslóð sem á að taka við í dag.
Greiðið Ragnari Þór Ingólfssyni ykkar atkvæði fram til hádegis þriðjudaginn 14. mars næstkomandi og skorið á alla ykkar vini og ættingja að greiða honum atkvæði.
Áfram Ragnar Þór Ingólfsson !