Fimmtudagur 5.1.2017 - 20:27 - FB ummæli ()

Landbúnaður á villigötum

 

Aldrei fór það svo, að stjórnkerfi  landbúnaðarins megnaði ekki að koma mér á óvart, hélt  þó að sá brunnur væri þurrausinn. Slíkur hefur fjárausturinn verið; svo mögnuð hefur umframframleiðslan orðið;  jafn læstu hefur kerfinu verið haldið og því staurblint á afkomu almennings . Viðskiptaleg einokun og einangrun íslenskrar matvælaframleiðslu er slík að frekar illaþokkuð iðnaðarframleiðsla  á eggjum og kjúklingum er hér seld á uppsprengdu  verði. Öll atvinnustarfsemi þarfnast samkeppni ef hún á að þroskast, einnig landbúnaður, enda ber íslenskur landbúnaður stöðnuninni og ofdekri vitni. Allt þetta hefur verið þekkt og þolað.  Jafnvel sú fáranlega þversögn hefur verið gjaldgeng, að jafn erfitt landbúnaðarland sem Ísland er, sem býður eigin þegnum dýrustu matvæli, geti með hinni hendinni flutt út matvæli á ódýra samkeppnismarkaði. Íslendingum er ekki bara skylt að borða dýrasta matinn, heldur eru þeir skyldaðir til að borga að auki lambakjöt ofan í  velmegandi útlendinga. Það verður ekki annað sagt en þeir  sem þessu stjórna séu örlátir, a.m.k. á annarra fé.

Ósjálfráð meðvirkni

Það sem kom á óvart var ósjálfráð meðvirkni ríkisstjórnarinnar þegar hún, skömmu fyrir jólin, lagði til að auka fé til erlendrar markaðssetningar á landbúnaðarvörum, einkum lambakjöti. Þar á bæ eru menn svo næmir fyrir kenjum og offrekju kerfisins, að  óþarfi er að biðja um viðbótarfé, það kemur af sjálfu sér. Það kannaðist nefnilega enginn við að hafa beðið um þessar 100 m.kr. Markaðsnefndin segist ekki hafa beðið um þetta. Skyldu það hafa verið pólitísku bændahöfðingjarnir á alþingi ? Á meðan forstjóri Landspítalans  talar um neyðarástand ; meðan ekki má manna lögregluna nægilega ; meðan vegakerfið er víða í lamasessi ; meðan heilsugæslan er á horriminni ; meðan hluti aldraðra lifir við sultarkjör – þá er fé ausið í tilgangslausan útflutning á lambakjöti.Einu rökin voru að verð á lambakjöti mætti ekki lækka  hér heima, bara erlendis ! Það er göfug gjafmildi. Þessi pólitísku heljartök sem landbúnaðurinn hefur á löggjafanum eru afkvæmi tærandi dreifbýlishyggju og misvægis atkvæða, sem er smánarblettur á íslensku lýðræði. Þó ný ríkisstjórn  kæmi engu öðru í verk en jafna atkvæðavægið, þá væri það umtalverður áfangi. Jöfnun gildi atkvæða er grundvallar réttlætismál og jafnframt forsenda þess, að skynsemin (brjóstvitið) öðlist eðlilegan sess við úrlausn mála á alþingi.

Óráðsía offramleiðslunnar

Svo er það þessi hvimleiða regla um framboð og eftirspurn. Ríkisstýrð hagkerfi eða framleiðslugreinar hafa tilhneigingu til að líta fram hjá henni. Hún bankar þó uppá að lokum.  Hér halda menn áfram offramleiðslu og hvetja til aukningar með þá glapræðis  tálsýn að leiðarljósi, að nú fari erlendir markaðir að opnast. Hvað skyldi vera búið að eyða mörgum milljörðum í sjálfsblekkjandi markaðsaðgerðir vestan hafs s.l. hálfa öld ? Það brást. Nú er einblínt á Kína, því ekki má undir neinum kringumstæðum draga úr framleiðslunni. Hér heima er öllum ráðum beitt  til að þrengja svo kosti íslenskra neytenda að framhjá lambakjötinu sé torleiði. Hvað skyldi ráða því að bændaforystan hafi valið þráláta offramleiðslu sem meginreglu við stýringu á framboði lambakjöts, og komist upp með það ? Ekki er það eftirtekjan hvað þá umhyggjan fyrir afkomu bænda. Hún er og verður rýr þrátt fyrir fjáraustrið af almannafé. Launhelgi þjóðarinnar á sauðkindinni hjálpar þar eflaust til. Til eru þó aðrar árangursríkar leiðir. Í framhaldi af setningu aflamarksreglu í sjávarútvegi og lögfestingu kvótakerfisins (1985), var gerð tilraun með að kvótasetja landbúnaðarframleiðsluna. Hugmyndin var sú að aðlaga framleiðsluna að heimamarkaði. Þetta var skynsamleg nálgun sem smámsaman hefði  bætt afkomu búanna um leið og þeim hefði fækkað, sbr. þróunina í sjávarútvegi. Samdráttur er nefnilega árangursríkasta aðferðin við að draga úr offramleiðslu. Þessi tilraun fékk ekki að þróast.Bændaforystan gafst fljótlega upp á leið skynseminnar en valdi slóð óráðsíunnar. Hún var studd af stjórnmálaflokkum sem studdu og styrktust af misvægi atkvæða. Vituð þér enn, eða hvað ?

 

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 10.12.2016 - 18:40 - FB ummæli ()

Af frelsi annarra

Á síðastliðnu ári ritaði ég nokkrar greinar hér í Fréttablaðið, þar sem ég reyndi að rekja söguslóð og ráða í þróun þeirra samfélagsgilda sem einkenna vestræna samfélagsmódelið. Frelsi einstaklingsins, lýðræði, virðing fyrir lögum og rétti, mannréttindi, valddreifing og markaðsbúskapur svo nokkur séu nefnd. Samflétting allra þessara gilda mynda þann vef sem vestrænt lýðræðisskipulag er ofið úr. Af þessum gildum er frelsi einstaklingsins það sem mestum ljóma stafar af. Frelsið hefur meira aðdráttarafl en öll önnur vestræn gildi, en á erfitt uppdráttar án þess að hin fylgi með. Það tók aldir að draga einstaklinginn undan oki fordóma, gera hann sjálfstæðan gagnvart trúarbrögðum, veraldlegum yfirvöldum  og að lokum gagnvart sjálfum sér. Þetta snerist allt um  myndugan, frjálsan einstkling. Frelsið hefur verið rauði þráðurinn í mótunarferli vestræns samfélags. Lengi vel var tekist á og barist um hvað hefði undirtökin, einveldi, stjórnveldi eða lýðveldi. Það er í raun ekki fyrr en Bandaríkin, með þátttöku sinni í fyrri heimsstyrjöldinni, taka af allan vafa um að þau ætla að standa vörð um vestrænt, frjálslynt lýðræði og verða forystuþjóð þess.

Beygur um afdrif frelsisins

Síðan þá er liðin heil, misfarsæl öld. Lengst af var óttinn um afturhvarf til verri tíma með í för. Öflugar einræðishreyfingar sóttust eftir heimsyfirráðum langt fram yfir miðja síðustu öld. Fasista- , nasista- og kommúnistahreyfingar lögðu til atlögu við vestrænt lýðræði og reyndu að leggja það að velli. Óttinn á Vesturlöndum við að þessar ofbeldisstefnur myndu ná undirtökum var lengi mikill og ríkjandi fram eftir síðustu öld. Með þátttöku í tveimur heimsstyrjöldum og einu köldu stríði, réðu Bandaríkin úrslitum um að Vestrið sigraði. Eftir hrun Berlínarmúrsins og síðan Sovétríkjanna leit  svo út, sem vestrænt frjálslynt lýðræði hefði lagt allar andstefnur sínar að velli. Hræðslan við að glata frelsinu, sem sameinað hafði vestræn ríki, vék fyrir bjartsýni um sigurgöngu frelsisins um alla framtíð. Engin öflug hugmyndfræði  eða hervætt stórveldi virtist geta ógnað því. Viðskiptahindranir voru fjarlægðar, samfélögin opnuð í frjálsræðis átt ; samstarf og aðlöðun  þjóðanna gerð greiðfærari. Hnattvæðingin hélt innreið sína, en hún er í reynd ekki annað en aukið frelsi til að flytja viðskipti, framleiðslu, vinnuafl, þjónustu og fjármagn á milli landa og heimsálfa. Samfélagsleg áhrif hennar urðu einkum þau að flytja fjármagn og framleiðslu frá vestri til austurs og frá norðri til suðurs. Þetta jók tekjur í austri og suðri en færði sumum vestrænum ríkjum atvinnuleysi, en jafnframt ódýrari neysluvörur.

Óttinn við frelsið

Það var ekki hvað síst af ótta við að missa frelsið, að forysturíki Vestursins hóf herferð til að útbreiða vestræna  samfélagsmódelið, með frelsið að leiðarljósi.  Ríkisstjórnir sem lögðust á sveif með Vesturlöndum voru styrktar. Róttækar vinstri hreyfingar voru ofsóttar og gengið var milli bols og höfuð á ríkisstjórnum sem  bandarísk stjórnvöld töldu vera ógnun við frelsið, ekki hvað síst við hið frjálsa framtak. Aftökur, limlestingar og stríð voru sett á dagskrá til varnar þessu frelsi. Þrátt fyrir  mörg óhæfuverkin tókst ætíð að vinna meirihlutann til fylgis við vestræn grunngildi. Markaðskerfið, með öllum þess vanköntum og veikleikum, var ríkisstýrðum hagkerfum yfirsterkara og árangursríkara. Síðan kom árásin á tvíburaturnana. Þá breyttist flest. Í hugum fólks verða djúpstæð umskipti. Jafnframt því að óttast hefndarverk og að glata eigin frelsi, fer almenningur að hræðast frelsið sjálft. Frelsið opnar landamæri og opnar framandi fólki ný heimkynni; það hrindir burtu  viðskiptahindrunum og eykur samkeppni heimafyrir. Frjálst fólk má berjast fyrir réttindum kvenna, hinsegin fólks , hörundslitaðra og minnihluta hópa. Eina leiðin til að hindra þetta er að takmarka eða afnema frelsið. Nei, það er ekki sitt eigið frelsi sem fólk óttast, það nýtur þess. Það er hrætt við frelsi annarra, og berst því  gegn því.Frelsið, sem er aðall Vesturlanda, er orðið mörgum ógnvekjandi. Við breiðum það ekki lengur út, heldur takmökum það. Kannski litum við alltaf á frelsið sem frelsi okkar,til að gera það sem okkur sýnist. Með kosningu Trumps vex óttinn við, að hann muni  hefjast handa við að takmarka frelsið í höfuðvígi þess, Bandaríkjunum. Hann mun trauðla afnema lýðræðið,en hann ætlar að leggja af þetta frjálslynda, umburðarlynda og veraldaropna vestræna lýðræði. Þessi pólitísku veðrahvörf frá hægri eru ógnvænleg. Bretland er á svipaðri vegferð. Víða í löndum Vestur-Evrópu setja hægri lýðskrumarar fram sömu kröfurnar; úthýsum frjálslyndi og umburðarlyndi. Frjálslynt, opið og upplýst  lýðræði, sem er kjarni frelsisins, virðist orðið vegavillt og vinafátt. Sic transit gloria mundi.

 

 

 

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 16.11.2016 - 21:34 - FB ummæli ()

Gamla eða nýja Ísland

Viðræður um myndun næstu ríkisstjórnar eru hafnar. Það mun verða ljóst af málefnasamningnum, hvort komandi ríkisstjórn endurspeglar væntingar um nýtt Ísland eða um verður um að ræða áframhald þess gamla.  Allt frá hruni og fram að umliðnum kosningum hefur þjóðin verið innbyrðis klofin. Til að sætta þjóðina og brúa gjána milli þjóðarinnar og, að hennar mati, rangsnúins samfélags kerfis, þarf umbætur. Gömlu kerfisflokkarnir náðu ekki meirihluta. Þeir munu því ólíklega geta haldið ótrauðir áfram með gömlu uppskriftina. Misvægi atkvæða er þeim í hag. Sterk kosningastaða þeirra er m.a. misvæginu að þakka. Hver afstaða VG verður í þessum málum, verði þeim kippt um borð, er óljóst.  Af ummælum sumra alþingismanna flokksins fyrir kosningar var ljóst að þar fóru einarðir stuðningsmenn búvörusamningsins. Fyrrverandi formaður VG hefur einnig haft lítinn áhuga á jöfnun atkvæðisréttar.

Málefnasamningurinn

Með nýjum málefnasamningi koma skýr skilaboð. Það eru fáein mikilvæg mál sem tekið verður eftir hvernig ákveðin verða.  Allt eru það mál sem við höfum deilt um lengi en verða þjóðinni að fótakefli meðan ekki nást þær málamiðlanir, sem gera þjóðina sátta að kalla.

 Jöfnun atkvæðavægis: Jafna verðu vægi atkvæða milli kjördæma. Misvægi atkvæða eftir búsetu er mikið óréttlæti.Flestar vestrænar lýðræðisþjóðir hafa leyst það fyrir öld eða fjölmörgum áratugum síðan. Við búum við almennan en þó ekki jafnan kosningarrétt. Það er hneisa. Alþingi endurspeglar ekki þjóðina sem heild og lögin sem þaðan koma ekki heldur. Alþingi Íslendinga er því ekki þjóðþing í þess göfugustu merkingu. Þótt ekkert annað yrði gert í stjórnarskrármálinu en þetta, væri það góður áfangi.

Auðlindagjald: Finna þarf sátt um greiðslu fyrir einkaafnot af sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar.. Mest brennur á sanngjörnum greiðslum fyrir afnot af sjávarauðlindinni, sem eru í einhverju  eðlilegu samræmi við gjöfulleika hennar. Alþingi samþykkti metnaðarfull lög um verndum og stjórnun fiskveiða, sem gert hefur nýtingu auðlindarinnar mun arðbærari en áður. Það eru einkum þessi lög sem eru grundvöllur hins mikla arðs sem fiskimiðin gefa. Sanngjarnt afgjald er ein af forsendum þess að geta endurreist heilbrigðiskerfi þjóðarinna.

Búvörusamningurinn: Fátt vegur þyngra í buddu almennings en matvöruverð.Verðlagning, framleiðsla og  innflutningur matvöru  skiptir afkoma almennings mestu máli. Lág laun má gera þolanlegri með lækkun framfærslukostnaðar. Núverandi landbúnaðarkerfi sóar miklum verðmætum,ekki hvað síst í mikilli offramleiðslu á lambakjöti; Kerfið er rándýrt. Það er ekki umhverfisvænt og heldur fjölda bænda við hokur. Finna þarf leið til að endurskoða búvörulögin þannig við fáum heilbrigðan og sæmilega arðbæran landbúnað. Það yrði mikilvægt skref inn í væntanlegar kjaraviðræður.

Heilbrigðismál: Endurreisn heilbrigðiskerfisins og bygging nýs Landsspítala verður að vera forgangsverkefni. Búið er að eyða alltof löngum tíma í deilur um staðsetningu hans, deilur sem litlu máli skipta og eru afar ófrjóar. Þær skila ekki niðurstöðum, því þær byggja á persónulegum skoðunum. Þær þjóna deilugirni okkar meir en efninu sjálfu. Búið er að eyða löngum og dýrmætum tíma í undirbúning sem þyrfti að hefja að nýju verði ný staðsetning ákveðin. Það mun örugglega seinka verekefninu um um árabil. Þjóðin vill og þarf nýjan spítala, sem fyrst.

Fjármálakerfið: Mig rekur ekki minni til þess að nokkuð bitastætt hafi komið fram í kosningabaráttunni um framtíðarskipan fjármálakerfisins eftir að gjaldeyrishöftin hafa  verið afnumin. Hér er þó á ferð feikna mikilvægt  mál. Þrír stórir bankar sem, vegna smæðar íslenska hagkerfisins, verða að  leita verkefna erlendis, gætu á ný vaxið hagkerfi okkar yfir höfuð eins og gerðist fyrir hrun.Þetta þarf að koma í veg fyrir. Í þessu samhengi er einkavæðing ekki gilt úrræði. Það myndi frekar ausa olíu á eldinn.

Parísarsáttmálinn og umhverfismál: Ekki var gamla ríkisstjórnin afkastamikil þegar að umhverfismálum kom. Lítið liggur fyrir um hvernig við ætlum að standa við skuldbindingar okkar í loftlagsmálum. Verndum sjávarins, vatnsfalla, votlendis og gróðurs verður að taka alvarlega og leggja fram sannfærandi aðgerðaráætlun um úrbætur.

Þetta gæti orðið upphaf nýs samfélagssáttmála, sem síðan yrði fyllt frekar út í. Hér vantar t.d bæði skóla- og fræðslumál sem og Evrópumál. Aðalatriðið er að hefjast handa. Nú gæti verið tækifærið.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 13.9.2016 - 10:35 - FB ummæli ()

Ábyrgðarlaust valdaembætti ?

 

Svanur Kristjánsson prófessor hefur sett fram nýja túlkun á forsetaembættinu og stöðu þess í stjórnkerfinu. Snemmsumars  var endurtekið við hann áhugavert viðtal um fyrrnefnt efni. Hann hefur, að eigin sögn, lagt að baki mikla vinnu og stundað ítarlegar rannsóknir á skjölum frá þeim tíma er stjórnarskráin var rædd og afgreidd á alþingi og komist að þeirri niðurstöðu að embættið hafi verið hugsað sem valdaembætti og fyrsti forseti lýðveldisins hafa beitt því þannig, ekki hvað síst við meðhöndlun utanríkismála. Þetta ver í lok mesta hildaraleiks tuttugustu aldarinnar  og Ísland orðið lýðveldi. Sjálfstætt eða fullvalda var það naumast, því trauðla verður þjóð sem ekki ræður eigin vörnum talist sjálfstæð. Svanur segir að Sveinn Björnsson hafi í reynd sjálfur samið við Roosevelt um áframhaldandi dvöl bandaríska hersins á landinu og boðið  honum 99 ára samning þar að lútandi. Þarna gekk forsetinn ótvírætt gegn stefnu þáverandi ríkisstjórnar, enda þurfti ekkert minna til, en að koma henni frá, til að ná fram samþykki Keflavíkursamningsins. Allt gerðist þetta á bak við tjöldin að þjóðinni forspurðri. Hún fékk ekkert að vita af þessu brölti forsetans, fyrr en nú á yfirstandandi áratug. Svanur færir einnig rök fyrir því að embættið hafi verið hannað sem mótvægi við vald þingsins, sem eins konar öryggisventill, til að grípa til , sé sannalega mikil gjá milli ákvarðana alþingis og skoðana forsetans (þjóðarinnar ?). Við búum þannig við takmarkað þingræði. Þetta er eflaust rétt hjá Svani. En duga þessi rök til að geirnegla þá túlkun,að þar með sé ljóst að forsetaembættið hafi verið hannað sem valdaembætti ? Mér sýnist vanta eitt mikilvægt atriði í framsetningu Svans.

Ábyrgðarlaus af öllum stjórnarathöfnum

Það sem vantaði í annars merka rannsóknarumsögn var umfjöllun um ábyrgðarleysi forsetans og afskipti hans af stjórn landsins. Það eina sem er kýrskírt í stjórnarskránni varðandi forsetaembættið er, að sá sem situr embættið er ábyrgðarlaus af öllum stjórnarathöfnum. Út frá því verður að álykta um stöðu embættisins. Hvernig má það vera að mikið valdaembætti sé ábyrgðarlaust af öllum stjórnarathöfnum ? Það er andstætt öllum gildum ábyrgrar stjórnsýslu og lýðræðisfyrirkomulagsins sem slíks, að til sé valdasembætti án ábyrgðar. Án skilgreindrar ábyrgðar er lýðræðið varhugavert stjórnarform. Við hljótum að mega draga það í efa, að hugsunin á bak við hönnun embættisins í stjórnarskránni hafi verið þessi. Ef ábyrgðarleysið felst í því að flytja ábyrgðina yfir til þjóðarinnar, þá verður ábyrgðin aðeins þá virk þegar þjóðin  fær að greiða atkvæði um ágreiningsatriðið. Um leið og forsetinn neitar að undirrita lög, færðist ábyrgðin yfir til þjóðarinnar, sem afgreiðir málið. Að því er virðist, felast í því ákveðin rök, sem bera vott um nokkra víðsýni og jafnvel framsýni þeirra sem um þetta fjölluðu. Við höfum hins vegar verið þáttakendur í því að forsetinn hefur neitað undirskrift og ríkisstjórn dregið  lögin til baka. Þjóðin  fékk aldrei að segja sitt álit. Forsetar hafa vissulega leikið sér með þá veikleika sem eru í stjórnarskránni hvað forsetaembættið varðar.

Takmörkun valdsins

En eins og dæmin hér að framan sýna en einnig ekkik hvað síst í nýrri fortíð, þá eru fingraför forsetans, þegar að annars konar stjórnarathöfnum kemur, víðar en með því að synja um undirskrift. Bæði Sveinn Björnsson og Ásgeir Ásgeirsson voru á kafi í afskiptum af stjórnarmyndunum og stefnumótun  í meginmálum. Sveinn í öryggismálum þjóðarinnar við endalok heimsstríðsins. Ásgeir í eftirmála gjaldþrots haftastefnunnar við upphaf viðreisnar. Ólafur Ragnar með bein afskipti af uppgjöri við hrunið og mótun utanríkistefenunnar. Hafi hugsunin með 26. grein stjórnarskrárinnar verið sú, sem túlka má af orðum doktors Svans, þá ætti að takmarka stjórnarafskipti forsetans við það eitt að undirrita eða neita að undirrita lög, sem síðan yrði vísað í dóm þjóðarinnar. Annari aðkomu forseta að stjórnarathöfnum verður trauðla vísað til þjóðarinnar. Þau verða ábyrgðarlaus afskipti. Það er og hefur verið andstætt öllum heilbrigðum sjónarmiðum og grundvallargildum lýðræðisins að ábyrgðarlausir menn séu að vasast í stjórnarathöfnum. Hver var ábyrgð Sveins Björnssonar,þegar hann samdi við Roosvelt ? Ekki var þeim samningum vísað til þjóðarinnar. Ábyrgðalaus maður skuldbindur þjóðina  gagnvart erlendu stórveldi til langframa. Er það í anda eðlilegrar ákvörðunartöku? Var það á þeim tíma virkilega talið sjálfsagt ? Er það svo að stjórnarskráin leyfi að ábyrgðarlaus maður hafi nánast frjálst spil í samskiptum sínum við erlend ríki og eftir aðstæðum gagnvart alþingi og ríkisstjórn. Svo rugluð erum við orðin í hugsun um valdsvið forsetaembættisins, að við áttum fullt í fangi með að fylgjast með pólitískum nýjungum sem frambjóðendur til forseta höfðu á prjónunum, ef þeir yrðu kosnir til embættisins. Þetta þóttust þau hafa lært að stjórnarafskiptum síðasta forseta. Sé ályktun doktor Svans rétt,að forsetaembættið sé valdaembætti, sem ég er ekki sannfærður um, verður við fyrsta tækifæri að gera forsetann ábyrgan gerða sinna, með einum eða öðrum hætti. Hin leiðin er sú að takmarka afskipti hans með skýrum hætti og án mikils svigrúms til túlkana. Til þess þurfum við nýja stjórnarskrá.

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 4.7.2016 - 07:26 - FB ummæli ()

Að semja við sjálfan sig

 

 

 

Þegar fyrrverandi ríkisstjórn sameinaði  öll atvinnuvegaráðuneytin í  eitt ráðuneyti, var sú hugsun ráðandi að þannig fengist sterkari og markvissari stjórnsýsla sem fær væri um að takast á við  flókin og erfið  mál. Íslensk stjórnsýsla er veik og þarf  í meira eða minna mæli að reiða sig á  vinnu einkaaðila eða hagsmunaaðila  við  undirbúning og frágang frumvarpa eða annarra opinberra gjörninga. Í seinna tilviki verður niðurstaðan óhjákvæmilega lituð af stefnu og skoðunum hagsmunaaðilanna, sem hvorki þarf að vera í samræmi við almannahagsmuni, ríkishagsmuni  hvað þá góða stjórnsýslu. Ekkert ráðuneyti hefur, í tímans rás, verið stjórnsýslulega veikara en landbúnaðarráðuneytið. Snemma virðist sú ákvörðun hafa verið tekin, að  ráðuneytið myndi nýta  vinnu frá hagsmunasamtökum bænda , enda voru þau,og eru kannski enn, hálf opinber samtök, í stað þess að byggja upp sterkt ráðuneyti sem gæti  sjálft metið  verkefni og unnið úr málum á eigin forsendum.  Með tímanum hætti almenningur að taka eftir því, að það varð fremur regla en undantekning að Stéttarsamband bænda, síðar Bændasamtök Íslands voru í eins konar fastri en þó  endurgjaldslítilli verktöku, þegar ráðuneytið þurfti að semja lagafrumvörp eða drög að reglugerðum, sem snertu verksvið þess. Undir þetta féllu einnig búvörusamningarnir.

Eitt atvinnuvegaráðuneyti

Með sameiningu allra atvinnuvegaráðuneyta í eitt ráðuneyti var gerð tilraun til að búa til  sterkari stjórnsýslueiningu þar sem saman væri komin sú sérþekking og sá  mannauður sem gæti staðið í og klárað samninga og unnið frumvörp á eigin forsendum í stað þess að vera uppá vinnuframlag hagsmunaaðila komin. Það kom því frekar á óvart að við myndun núverandi ríkisstjórnar skyldi vera farið  í gamla farið og opinber stjórnsýslan þannig veikt. Landbúnaðar- og sjávarútvegsmál voru á ný sett undir sérstakan ráðherra og  klofin frá málaflokkum annarra atvinnuvega. Þannig var hægt að viðhalda gömlum vinnubrögðum og leyfa bændum að semja við sjálfa sig, í stað þess að semja við öfluga samninganefnd frá ríkinu, því innan nýs ráðuneytis var engin sjálfstæð samningsgeta til staðar. Bændasamtökin voru því í reynd að semja við sig sjálf og landbúnaðarráðherra kvittaði undir til staðfestingar. Hvað skyldi verða sagt ef fjármálaráðherra gæfi BSRB sjálfdæmi um að semja nýja kjarasamninga til  margra ára, en hans hlutverk væri eitt að undirrita gjörninginn ? Því miður virðist aðgæsla fjármálaráðherra ekki hafa verið sem skyldi, því samningarnir eru  gildir sem slíkir, þótt í þetta skipti fylgi önnur frumvörp, sem hangi á sömu spítunni.

Niðurstaðan í samræmi við vinnubrögðin

Niðurstaða samninganna er því í samræmi við vinnubrögðin. Þeir eru gerðir án nokkurrar aðkomu almannavaldsins og hagsmunir almennings þ.e. neytenda fyrri borð bornir. Sterkustu hagsmunaaðilar innan samtaka bænda, stórbændur  og afurðastöðvar þeirra hafa fengið að spenna samningana  fyrir eigin vagna. Búvörusamningar fjalla  núorðið ekki síður um markaðsstöðu og afkomu afurðastöðvanna frekar en afkomu almennra bænda. Í sauðfjárrækt er engin viðmiðun  tekin af getu  innlends markaðar til að kaupa allt þetta kjöt. Til að réttlæta þessa vitleysu er ausið mörg hundruð milljónum í markaðsátök bæði hér heima og erlendis. Forsvarsmenn bænda fabúlera um að kenna þurfi erlendu ferðafólki að meta íslenskt lambakjöt. Á að setja ferðamenn á námskeið í lambakjötsáti ? Barnaskapurinn og bullið er greinilega sífrjó auðlind !  Það vottar hvergi fyrir framtíðarhugsun um umhverfisvænan landbúnað, sem starfi með þarfir íslenskra neytenda að leiðarljósi,í sátt við náttúruna og sem jafnframt tryggi bændum góða lífsafkomu. Þá er athygli almennings og smábænda dreift með því að klifa stöðugt á því að búvörusamningar séu jafnframt aðgerð í dreifbýlismálum.

Fortíð í stað framtíðar

Raunverulegan árangur þessarar áratuga samtvinnunnar má glöggt kenna í dreifðustu sveitum landsins. Þær eru að verða að mannlífsöræfum; yfirgefnar, fátækar og niðurníddar. Þar blasir við dapurlegt árangursleysi afturhaldsstefnu sem neitar að horfast í augu við nútímann. Flestar þjóðir Vesturlanda hafa þurft að hrista af sér strúktúrvanda  úr fortíð, sem búið hefur lengi um sig og hefur hindrað þjóðir í að nútímavæðast. Landbúnaðurinn á það eftir.Þrátt fyrir – eða kannski vegna -milljarða moksturs  úr ríkissjóði til sauðfjárbúskapar mjakast ekkert áfram, framleiðni vinnu og fjármagns nánast engin og afkoman eftir því.  Forystufólk bænda virðist ófært um að eygja nokkra hugsun í átt að breytingum eða til nýsköpunar. Það eina sem þeim dettur í hug eru viðbótarpeningar úr ríkissjóði. Þarna koma einnig í ljós annmarkar þess að láta bændaforystuna semja við sjálfa sig. Það er ófrjótt og útilokar sjónarmið að utan. Það er árangursríkasta leiðin til að hjakka áfram í sama farinu. Það er löngu tímabært að slíta naflastrenginn milli samninga við bændur og afurðastöðva,þó þær séu formlega í eigu bænda. Þær verða eins og önnur iðnaðaframleiðsla  að starf innan reglna markaðskerfisins. Þetta var önnur ástæða þess að búa varð til nýtt ráðuneyti svo hægt væri að viðhalda og auka enn sérreglur fyrir úrvinnslu og markaðssetningu landbúnaðarafurða. Hollir eru heimanfengnir búvörusamningar! Tíu ára gildistími tryggir fullkomlega,  þann ásetning sem ræður ferð meðal Bændasamtakanna. Nú þyrfti að stofna „BúSave“  til að vernda þjóðina gegn yfirgangi samtaka landbúnaðarins,  sem þessi tíu ára búvörusamningur vissulega er.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 3.4.2016 - 20:57 - FB ummæli ()

Alþýðuhreyfingar, útópíur og tálsýn tíðarandans.

 

Vandinn við okkar tíma er sá að framtíðin er ekki sú sem hún er vön að vera, sagði Paul Valery hinn franski. Síðan þessi skáldlegu og andríku orð féllu er liðinn nokkuð langur og afdrifaríkur  tími.   Sýn mannsins á heiminn og á sjálfan sig hefur breyst. En það breytir því ekki …“að framtíðin er ekki sú, sem hún  er vön að vera.“

Á öllum tímum reynum við að útskýra, hver séu hreyfiöfl sögunnar, orsakasambönd pólitískra athafna,  og hver sé hugmyndaheimur stjórnmálanna. Hvað gefi vísbendingar um þann tíðaranda sem umlykur okkur og hvað sé framundan.

Það voru þeir Hegel og Marx sem mótuðu sýn margra kynslóða á þróunaröfl sögunnar. Hugmynd marxismans um stéttarsamfélagið var reist á díalektískum átökum andstæðna,vinnu og auðmagns, öreigastéttar og auðstéttar. Þessi söguskoðun var eldsneytið í sósíalismann allt uppúr miðbiki nítjándu aldar og fram á okkar öld. Stéttarbaráttan var í senn tilvísun tímans og tíðarandinn sjálfur. Þannig voru þjóðfélagsgerðin og þjóðfélagsátök skýrð út frá hugmyndafræðilegum forsendum. Sumir marxistar töldu þessa skýringu altæka.

Nú er orðið sjaldgæfara að leita skýringa á þróun samfélagsins með tilvísunum í stéttaátök. Hefðbundin stéttarátök eru ekki fyrirferðarmikil lengur og pólitískar atlögur milli kapítalisma og sósíalisma eða þeirra beggja við kommúnismann eru ekki áberandi. Verkföll litin tortryggnum augum. Kjarasamningar eru leystir tæknilega inná skrifstofum af tölvufróðu fólki.

Merking hugtakanna sósíalismi og kommúnismi hefur líka dofnað. Í Kína búa meira en helmingur allra milljarðamæringa heimsins. Hvergi eru andstæður auðs og örbirgðar nöturlegri en þar. Félagsleg ábyrgð samfélagsins óvíða minni. Þó prýðir ríkið sig með nafnbótinni Alþýðulýðveldi og alræðisflokkurinn heitir Kommúnistaflokkur Kína.

Með þeirri friðsamlegu byltingu sem varð í austur Evrópu og sem leiddi til hruns Sovétríkjanna og  Berlínarmúrsins, á árunum 1989-1991 urðu mikil vatnaskil í pólitískri sögu og þróun heimsins. Ekki bara að kommúnisminn hyrfi  af leiksviði sögunnar, heldur kvöddu í framhaldi hinn heimspólitíska vettvang bæði  hefðbundin  íhaldsstefna (konservatívísmi) og hefðbundinn kratismi.

Í gömlu gildum evrópsk-borgaralegrar íhaldsstefnu var áhersla lögð á kristna trú, heiður þjóða sinna, öryggi og reglu í samfélaginu og sterkt feðraveldi bæði innan fjölskyldu og ríkis – þessi gildi máðust út í framhaldi af byltingunum 1989-1991.  Nú eru þau nánast horfin úr pólitískri umræðu. Það sem tók við var neo-kon og nýfrjálshyggjan.

Hefðbundinni jafnaðarstefnu gekk einnig sinn pólitíski áttaviti úr greipum. Hún missti viðmiðunina við stéttarhugmyndina. Þegar stéttarríkið – sem slíkt – var horfið úr almennri umræðu, hvarf viðspyrnan – framtíðin sveipaðist þoku. Ef andstæðar stéttirnar voru ekki lengur sá veruleiki sem almenningur skynjaði –  hvaða meining var þá í því að berjast fyrir samfélagi án stéttamismunar ? Kommúnisminn var ekki til staðar lengur til að brýna kratana, með því að kalla þá stéttsvikara og handlangara auðvaldsins. Um leið hvarf eldsneytið í baráttu jafnaðarmanna  gegn kommunum vegna alræði þeirra síðanefndu, ófrelsi þegna þeirra og undirokunarstefnu þeirra. Það sem á eftir kom var Blair-isminn eða New Labour stefnan.

Báðar fyrrnefndar stefnur – íhaldshyggjan og kratisminn-  vantaði nú sárlega gagnaðilann. Andstæðingurinn gufaði upp og með hvarfi hans breyttist umræðan, varð opnari en jafnframt einsleitnari. Hún snerist meir um hagskipanina, með og móti. Þetta skók tilvistargrundvöll hefðbundins íhalds og gamla kratismans. Það sem einu sinni þótti gott og gilt mátti nú draga í efa. Hefðbundin gildi og baráttumál misstu marks.

Hvaða hugmyndir eru þá að takast á innan nútíma vestrænna samfélaga ? Eru viðfangsefni jafnaðarmanna einhver önnur en annarra miðjusækinna stjórnmálaflokka ? Nei,  því miður. Ekki er um auðugan garð að gresja. Engar ferskar hugmyndir um nýtt og breytt eða annars konar samfélag. Ný hugmyndafræði ekki í sjónmáli. Sú nýjasta var feminisminn, sem þegar er farinn að grána. Ekki eru sjáanlegar neinar útlínur nýs samfélagssáttmála.  Þó er nóg af upplausn, úlfúð og átökum. Þó er það svo að ekki er örgrannt um að ný tímamót séu að knýja dyra.

Ef grannt er skoðað, má kenna breyttar pólitískar viðmiðanir. Ný pólitísk eyktarmörk, þar sem átakalínur samfélags nútímans virðast liggja ?  Þessar eyktir eru okkur þó gamalkunnar.  Þær heita : Fortíð, nútíð og framtíð. Pólitískir hreyfiferlar og tilvísanir taka nú í vaxandi mæli mið af og snúast um hugmyndir sem rekja má til mismunandi tímaskeiða. Það endurspeglast í pólitískum átökum um þessar mundir.

Með því að skoða og fylgjast með pólitískum hræringum í álfunni má rekja slóðina. Við erum annars vegar vitni að aðför pólitískra hugmynda úr fortíð, sem sækja að samtímanum. Jafnframt hamlar hagskipan nútímans sýn til framtíðar.

Skýrum þetta nánar.

Þótt fortíðin hafi vissulega margar mismunandi birtingarmyndir og ásýndir, getum við skilgreint sem fortíð, allar þær hreyfingar og stefnur, sem styðjast við misöfluga valdræðishyggju – átóriterisma, sem er ætíð á skjön við nútíma opið vestrænt lýðræði. Sterkur foringi, veikar stofnanir, skert fjölmiðafrelsi, mannréttindi á hliðarlínunni, girt og varin landamæri.                                                                                                                                        Í þessari skírskotun skiptir það ekki öllu máli, hvort hugmyndirnar komi frá vinstri eða hægri. Þær koma frá þjóðernissinnum, sem predika valdbeitingu ríkisins í stað lýðræði fjöldans, en þannig samfélag er jafnan lokaðra og sniðið að þrengri sérhagsmunum. Þið kannist við nöfnin: Sannir Finnar, Sænskir demókratar, Danski þjóðarflokkurinn, Front national, Hinn pólska flokk, Réttar  og réttlætis, o.fl.

Sama gildir um hreyfingar sem ættaðar eru úr aðdáendahópum einstakra valdsmanna, sem sýnt hafa glögga valdræðistilburði; eða úr baráttusamtökum til varnar evrópskri menningu, svo ekki sé talað um liðsmenn „Íslamska ríkisins“, sem með hrotta og hryðjuverkum vilja kveða niður hvers konar frjálslynd lífsviðhorf og upplýst samfélög.     Allt sækir þetta næringu úr sömu lindinni – fortíðinni.

Þessa hópa, eða endurómun þeirra, má, stóra sem smáa, finna í flestum ríkjum álfunnar, einnig hérlendis. Þeir stefna að skertu lýðræði, þögulum fjölmiðlum og þrengra samfélagi, lokuðum efnahag og upphafningu á fullveldi þjóða. Þarna er um öfl að ræða, þar sem afturhaldssækin – reaktioner – hugsun úr fortíð, sem við héldum að væru komin á ruslahaug sögunnar, ákveður stefnur og framgöngu hreyfinga og stjórnmálaafla í nútíð.

Margar þjóðir í álfunni hafa kosið yfir sig ríkisstjórnir sem blekkja þegna sína með margs konar tálsýnum og hugmyndum úr fortíð sem taka nútíðina í herkví.

Sömu hugmyndatengsl má greina hjá ríkisstjórn Íslands. Tökum lítið dæmi: Hvaðan haldið þið t.d. að þær fyrirmyndir séu komnar sem endurspeglast í nýgerðum búvörusamningnum ? Engir samningar snerta almenning meir en þessi samningur. Hvaðan eru viðmiðin tekin ? Hann þarf í reynd hvorki að bera undir bændur sjálfa né alþingi. Þetta er gert af sömu mönnum og kvarta undan lýðræðishalla hjá ESB. Við gætum haldið áfram með fleiri dæmi.

Ég sagði líka að ég teldi okkur taka þátt í atlögu nútíðar að framtíðinni. Gjaldgengur samtalsfrasi segir, að við séum uppi á nýfrjálshyggju tímum, og þá er yfirleitt átt við hömlulausan markaðsátrúnað og einsleitna gróðahyggju á grunni kapítalismans, sem eins konar grunn gildi samfélagsins. Ef grannt er skoðað er nýfrjálshyggjan hins vegar meira. Áhrif hennar eru ekki eingöngu efnahagsleg. Hún er frekari til fjörsins en svo.

Ítök hennar í hugsunarhætti okkar eru sterk. Segja má, að nýfrjálshyggjan sargi sundur samhengi tímanna, því hún byggir nefnilega á  tvíhyggju: þ.e. samfélagslegri kyrrstöðu, um leið og hún rekur hagkerfið áfram á fleygiferð og skapar mikinn auð. Hún er gjöful á auðsköpun og atvinnu sem veldur því, að við teljum kerfi hennar vera árangursríkt. En það  leiðir hins vegar til ákveðinnar pólitískrar kyrrstöðu. Það er eins og framtíðin hverfi úr hugum okkar öðru vísi en í umgjörð nýfrjálshyggjunnar. Í huga okkar afmáum við vissa samfélagslega framtíð, með því að gleyma okkur í nútímanum.

Við vesturlandabúar búum við meira öryggi, frið og velmegun en nokkur kynslóð á undan okkur. Þessi velmegun dregur eðlilega úr löngun okkar til að hugsa til breytinga á samfélaginu. Einhvers konar pólitísk tómhyggja ræður ríkjum. Við erum nefnilega hætt að trúa því, að til sé hagskipan sem virki betur en kapítalismi bragðbættur með nýfrjálshyggju.

 

 

Útópían

En af hverju fullyrði ég það vera  afleiðingu nýfrjálshyggju að við séum stöðnuð í aðdáun á samtímanum ? Við höfum þegar minnst á seiðmögnun velmegunarinnar. Af hverju sagði ég að hún sargi sundur samhengi tímanna !

Það var nefnilega svo, að í eina tíð hafði verið lofað breytingum á þjóðfélaginu, á kapítalismanum, einkum af alþýðuhreyfingum sem áttu uppruna sinn í fátækt og undirokun. Kynslóðir börðust með það fyrirheit á vörum að  breytingar kæmu. Loforðið var hugsjónin um samfélag sem ekki var, útópían, staðleysan. Útópían var nauðsynleg  til að við gætum breytt samfélagi nútímans. Og mannkynið  veit af þessu loforði. Það veit að kapítalismi í nýfrjálshyggjustíl er ekki endalok tímans.

Frelsi, jafnrétti og bræðralag voru einu sinni stefnumörk eða gildi, sem sett voru á pólitíska dagskrá heimsbyggðarinnar, sem framtíðarsýn – útópía  –     til að við gætum notið  þeirra í samtíðinni – núna í dag. Framtíðin varð nútíð. Þetta samhengi hefur verið rofið.

Ef við teljum:

Upplýst lýðræðissamfélag , Jafnrétti og Jöfnuð,   Jafnræði kynjanna,     Mannréttindi,   Virðingu og vernd einstaklingsins   og       Jafnan rétt til menntunar

Ef við teljum þetta vera vinstrisinnuð gildi, þá getum við sagt, að framtíðin hafi alltaf verið til vinstri. Framtíðin var ætlunarverk hreyfinga vinstrimanna, jafnaðarmanna. Fortíðin var aldrei viðmiðun alþýðuhreyfinga. Þess vegna þurfum við að endurvekja framtíðina, gera hana aftur að útópíu vinstri manna. Við þurfum á ný að finna leið til að úthugsa nútímann frá sjónarhorni framtíðarinnar. Þannig breytir útópían deginum í dag.

Sveitaútópía Jónasar frá Hriflu.

En pólitískar draumsýnir geta átt mismunandi  rætur. Þær geta líka tekið mið af rómantískri endursköpun fortíðar. Þegar núverandi ríkisstjórn var mynduð, var eftir því tekið, að það gerðist með sterkri skírskotun til Jónasar frá Hriflu. Samfélagssýn hans var fyrirmyndin. Stjórnarsáttmálinn og ummæli öll bera þess vitni.

Uppúr aldamótunum 1900 fjalla margir leiðarar Skinfaxa um það, að ´kaupstaðalífið íslenska sé að bera sveitalífið ofurliði. Kaupstaðirnir séu bæði of margir og of fjölmennir ; sá faraldur geisi um landið, að æskulýðurinn streymi til kaupstaðanna  og fjöldinn allur hafi snúið baki við sveitalífi fyrir fullt og allt – Allir sjái, hvílíkur voði þetta sé þjóðlífinu og öllum framförum í landinu. Þetta sé þjóðinni hættulegra en búferlaflutningarnir til Ameríku.  Snúa verði af þessari viðsjárverðu braut.´

Sams konar málflutningur þótti aftur boðlegur með tilkomu nýrrar ríkisstjórnar. Móta skal nútíð okkar úr þekktum hugmyndaheimi fortíðar.

Jónas frá Hriflu kallaði þetta kaupstaðasýki, sem yrði að stöðva. Hann tók til óspilltra málanna við að smíða pólitíska stefnu fyrir ungan flokk, byggða á eins konar afturhvarfi til þjóðveldissamfélagsins. Jónas afbakaði útópíu jafnaðarmanna og flutti hana uppí sveit.  Verkfærið var  Framsóknarflokkurinn

Hann hannaði og gróðursetti þá framtíðarsýn að íslensk bændastétt skyldi leiða þjóðina inní farsæla framtíð. Hann fól það bændum og búaliði að aðlaga íslenskt samfélag þessari framtíðarsýn. Fjölga skyldi í sveitum. Landnám ríkisins, átti að auka ræktanlegt land fyrir stórtæka nýbýlabyggð.  Pólitísk og þjóðfélagsleg undirtök ættu að vera hjá bændum til frambúðar. Til að tryggja pólitískt yfirráð sveitanna var tangarhaldið  geirnegld með ójöfnum kosningarrétti..

Hrinda skyldi af stað menningar- og viðskiptabyltingu í dreifbýlinu svo bændur gætu sinnt forystuhlutverki sínu. Samvinnurekstur dreifbýlisins var mótvægið við og áskorun á einkarekstur í bæjunum. Samvinnuskólinn var stofnaður til að mennta elítuna – forystusveit  samvinnuhreyfingarinnar. Jónas kom á fót héraðs- eða alþýðuskólum. Allir voru þeir staðsettir í dreifðum byggðum.

Nýlega  greindi forsætisráðherra frá nýrri  menntastefnu sérhannaðri fyrir dreifbýlið.

Allt var þetta gert í nafni litla mannsins og bændasynir höfðu þessa lífssýn að leiðarljósi allt sitt líf, löngu eftir að þeir voru komnir í daglaunavinnu á mölina. Í þessari framtíðarsýn – tilraun til íslenskrar  útópíu – lá styrkur Framsóknarflokksins. Á grunni hennar varð til öflug alþýðuhreyfingin í sveitum landsins.

Rétt er að taka það fram, að þegar ég tala sífellt um Jónas frá Hriflu, þá nota ég hann meira sem sýmból – táknmynd-  en alsráðandi, einan geranda – því þó hann hafi verðið þyngsta áburðarkerran, var hann alls ekki sú eina.

Alþýðuhreyfing jafnaðarmanna

Sýn Jónasar um endurnýjun sveitabúskaparins á kostnað þéttbýlisins gerði hugsjón jafnaðarmanna erfitt fyrir. Tvær alþýðuhreyfingar  kepptu  um atkvæði og pólitísk heimkynni.  Ungt sveitafólk sem komið var á mölina hafði bundist og játast hugsýn Jónasar um nýja gullöld velmegandi sveita. Þessum ungmennum reyndist erfitt að slíta sig frá henni. Það voru aðeins slitrur úr þessari bændahreyfingu sem gengu til liðs við alþýðuhreyfingu jafnaðarmanna.

Þegar  jafnaðarmenn tóku þátt í ríkisstjórnum var staða þeirra jafnan á hliðarlínunni – til hliðar við Jónas. Fylgdarsveinahlutverk þeirra olli því að þeir náðu aldrei þeirri pólitísku fótfestu að hafa  heildar áhrif á uppbyggingu og mótun samfélagsins. Jafnaðarstefnan skaut því aldrei sömu djúpu rótum hérlendis sem á hinum Norðurlöndunum.

Hún varð aldrei grunnstoð samfélagssins eins og þar.    Þrátt fyrir það ávannst margt sem fáir vildu vera án, og sem bætti líf alþýðufólks umtalsvert.

Hvað lifði af ?

En þróunin varð ekki umflúin. Tíminn vann á móti Jónasi. Þrátt fyrir öflugan og langvarandi stuðning fækkaði sífellt  í sveitunum og innviðir þeirra veiktust. Samvinnustefnan varð undir. Forystusveit samvinnuhreyfingarinnar, sem alist hafði upp í velgengni og undir pólitískum verndarvæng Framsóknarflokksins, en jafnframt  bundin af stefnu hans, fann engin svör við tíðarandanum. Samfélagsþróunin tók fram úr  þjóðfélagsmódeli Jónasar, sem byggði á því að endurlífga samfélag, sem var á útleið. Kerfi hans hlaut  að  líða undir lok. Forystusveit með áttskakkann kompás, hafði hvorki þrótt, vilja, né þekkingu  til að endur hanna stefnuna. Þegar útópía Jónasar tók að blikna, skrapp fylgi við Framsóknarflokkinn saman.

Voldug og áhrifamikil samvinnuhreyfing, samvinnuskólinn, héraðsskólarnir, Landnám ríkisins, allt er þetta horfið á braut. Og ég vil bæta því við, að það er mikil eftirsjá að samvinnustefnunni.. Það sem enn lifir góðu lífi er opinber framfærsla úrelts landbúnaðarkerfis og ójafn kosningaréttur. Hann er nú – valdaleg forsenda ný endurvakinnar landbúnaðar- og dreifbýlisstefnu.

Nú – þegar bráðum tveir áratugir eru liðnir af 21. öldinni og liðlega 150 ár frá evrópsku byltingunum, hefur íslensku þjóðinni enn ekki tekist að jafna kosningaréttinn, þótt vissulega hafi hún  innleyst kröfu evrópsku byltinganna um almennan kosningarétt.  Samsetning alþingis endurspeglar því ekki þjóðina sem heild og þar af leiðandi gera lögin, sem þaðan koma, það ekki endilega heldur. Alþingi Íslendinga er því ekki þjóðþing í  þess göfugustu merkingu.

Það er einörð skoðun mín, að ekkert eitt atriði í pólitísku stjórnskipulagi Íslands endurspegli á jafn nöturlegan hátt, sögulegt  magnleysi alþýðuhreyfinga jafnaðarmanna eins og það misvægi atkvæða, sem enn er leyft að vara hér, eins og hvert annað náttúrulögmál.

Staða stjórnmálaflokka

Frá upphafi þessarar aldar hefur verið í gangi mikil breyting á stöðu stjórnmálaflokka um alla álfuna. Sú líflega skoðanamyndun og almenna umræða sem áður átti sér stað innan evrópskra stjórnmálaflokka , einnig hér,  er ekki svipur hjá sjón. Flokksfélögum hefur fækkað og eru nú  aðeins lítið brot kjósenda. Nýjustu flokkarnir hafa enga skráða meðlimi.

Flokkarnir hafa því glatað hæfileika sínum, til að vera þessi mikilvæga brú milli þjóðar og pólitískra stofnana ríkisins, sem þeir einu sinni voru.                                                                    Þjóðþingin eru lítillækkuð í þá stöðu að vera leiksoppur eða leikfang  flokkanna, sem veldur því að þjóðirnar vantreysta báðum – flokkunum og þjóðþingunum. Einnig hér á landi. Stefnuskrár flokka og pólitískar lífsskoðanir  þykja gamaldags.

Nú eru evrópskir flokkar reknir eins og straumlínulöguð fyrirtæki, þar sem  formaðurinn og ímynd hans er talin skipta mestu máli fyrir árangur flokksins. Persónur ýta stefnuskrám til hliðar. Fólk er með eða móti Merkel, með eða móti Hollande, Camerun , o.s.frv.. Við gætum heimfært þetta á íslenska formenn Árna Pál. Sigmund Davíð eða Bjarna Ben. Dugi þeir ekki , er þeim ýtt til hliðar. Pragmatismi og hentistefna ráða ríkjum.

Ég sagði í upphafi máls míns að sýn mannsins á sjálfan sig hafi breyst. Stafræna byltingin hefur haft sín áhrif. Við erum öll jöfn á fésbókinni og þar er enginn foringi. Þar tekur hver mið af sjálfum sér. Fólk er orðið sjálfsækið. Margir bera eigin getu ekki lengur saman við afreksgetu, heldur eingöngu við sjálfa sig. Horfa í spegil og þykja harla gott. Sjáið allan þennan fjölda sem telur sig ráða við embætti Forseta Íslands. Sama sjálfshyggja smitast inní stjórnmálaflokkana. Binding við þá er talin tímaskekkja. Stöðug þjóðaratkvæði eiga að koma í staðinn fyrir flokkslýðræði þjóðþinganna. Brúin milli þjóðar og þings skal vera þjóðaratkvæðið.

Hætt er við að þetta byrgi pólitísku samhengi sýn, ýti samfélagslegri og samflokkslegri hugsun til hliðar, því flokkarnir varðveittu samfélagssýnina, hver á sinn hátt. Hér mætti einnig bæta við tíðaranda nýfrjálshyggjunnar, sem minnst var á að framan. Hann er einnig hér að verki. Sögðum við ekki að hann sliti sundur samhengi tímans ?

Jafnaðarmannaflokkur Íslands                                                   

Niðurstöður  þessarar léttstígu yfirferðar um stöðu  stjórnmálaflokka í álfunni, má einnig heimfæra á þann flokk, sem flestir lifandi leiðtogar íslenskra jafnaðarmanna höfðu forystu um að stofna – Samfylkinguna.

Eitthvað brást hrapalega. Flokkur sem ekki nær tveggja stafa fylgi í könnunum,  hvað eftir annað, gæti auðveldlega orðið tæringunni að bráð. Slíkur flokkur hefu rekki  mikið aðdráttarafl.Þess vegna hrekst hann til áhrifaleysis.     Enn er þó jafnaðarstefna viss kjarni í pólitísku veganesti flokksins.

En það nægir ekki lengur, því stefnuskrám virðist vera ofaukið. Síðasta ríkisstjórn og endalok hennar virðist hafa skipt sköpum í fylgistapi flokksins. Hún var:

Ríkisstjórn,  þar sem hver höndin var uppá móta annarri; fyrir opnum tjöldum.

Ríkisstjórn, þar sem eigin ráðherrar hindruðu framgang meginmála ríkisstjórnar sinnar;

Ríkisstjórn, sem ekki kunni að forgangaraða mikilvægustu verkefnunum og klára þau;

Ríkisstjórn, sem virtist setja metnað sinn helst í það að sanna að vinstri stjórn geti setið út heilt kjörtímabil;

Ríkisstjórn, sem taldi það sitt helsta afreksverk að kona stýrði henni;

Þannig ríkisstjórn fælir kjósendur frá og þá skiptir það minna máli þótt viðkomandi ríkisstjórn hafi á ýmsum sviðum lyft grettistaki. Í augum kjósenda var hún ónýt.

Núverandi forystusveit Samfylkingarinnar  leggur margt skynsamlegt til málanna. En hana vantar tengingu við þjóðina. Ungt venjulegt fjölskyldufólk er aðþrengt. Lífsbarátta þess er allt annað en auðveld. Verðtryggð krónan, rokdýrar landbúnaðvörur, útlátamikið og vandfundið húsnæði gerir þeim lífið erfitt, því launin eru ekki að sama skapi há. Samfylkingin virðist ekki hafa haft frumkvæði af því að mynda með þeim baráttuhópa fyrir betri kjörum. Þannig mætti halda áfram.

Þótt margt hafi breyst, þá er pólitísk ábyrgð stjórnmálaflokks jafnaðarmanna gagnvart þeim þjóðfélagshópum, sem álíta forystusveit þjóðarinnar eða efnahagskerfið sem slíkt, vera sér andsnúið,- þessi ábyrgð er enn til staðar. Og það skiptir engu máli hvort forysta Samfylkingarinnar  er  þessum hópum að einhverju leyti ósammála og finnst þeir vera ósanngjarnir – við þá þarf að tala. Flokkurinn verður að sýna  þessu fólki fram á, að hann láti sér ekki standa á  sama. Jafnaðarstefnan snýst ekki hvað síst um það, að fólk viti að það skipti máli, vandamál þess sé líka vandamál flokks jafnaðarmanna og fólk finni að það sé ekki eitt á báti.   Það eru ekki upphlaup á alþingi, heldur samtöl við almenning sem gera gæfumuninn.

Þess vegna er það mikilvægt að gefa almennum borgurum tækifæri til að setjast á alþingi fyrir jafnaðarmannaflokk. Meðan prófkjörsaðferðin er notuð til að forgangsraða á framboðslista komast fyrst og fremst þekkt andlit og persónur úr framvarðasveit flokksins á lista. Í stað helmingareglu kynja ætti ekki síður að hafa helmingareglu almennings og elítu. Það myndi jarðbinda flöktandi fylkingu betur. Þegar forystusveitin er farin að endurnýja sjálfa sig, eins og prófkjörin ýta undir, þá er einangrun afleiðingin.

Hér erum við enn og aftur komin á þekkta brautarstöð.     Evrópsku  og norrænu krataflokkarnir  vissu í upphafi, hvar þeir áttu að staðsetja sig á andlegu og pólitísku landakorti fólksins. Þeir vissu að boðskapurinn þurfti að snerta tilfinningalíf fólksins, vekja með því ástríðu, koma því í uppnám. Ef það tækist, þá yrði  flokkurinn heimili þess. Forystufólk þessara flokka vissi mætavel að lærdómur og vitsmunir hrökkva skammt, ef tilfinningin fylgdi ekki með, því næra þyrfti ástríðuna. Hreinn vitsmunaflokkur yrði aldrei heimili fólksins, hversu klókur og viturlegur sem málflutningurinn annars væri.

Í aðalatriðum gildir þetta enn. Þegar jafnaðarmenn fara á ný að horfa á nútímann af sjónarhóli framtíðarinnar, verður ástríðan og tilfinningin að eiga þar sinn sess. Innantóm og nagandi neysluboðun og nauðhyggja hagvaxtarátrúnaðarins eru gengin sér til húðar. Þau eru fortíð sem vekja frekar óvissu og óþægindi en hrifningu. Hreyfing nýrra náttúruverndarsjónarmiða, á seinni hluta liðinnar aldar, kafnaði að mestu í skruðningum hagvaxtarhyggjunnar og náði aldrei landfestu á hugmyndaströnd jafnaðarmanna. Þess gjalda þeir nú.

Víðara sjónarhorn

Við hófum þessa lautarferð með því að skoða nýjar viðmiðanir stjórnmálanna; að fjölmargir sæki ekki skoðanalegar viðmiðanir lengur til framtíðarsýnar – heldur með afturhvarfi til fortíðar. Við sögðum að hrun  Sovétríkjannna, Berlínarmúrsins og kommúnismans hefðu verið vatnaskil í nútíma stjórnmálasögu heimsins. En það er fleira sem breytt hefur gamalkunnum skírskotunum til stéttarsamfélagsins, sem megin pólitísks átakasvæðis.

Það sem breyst hefur undanfarna áratugi – og sem einnig má rekja til loka níunda áratugs liðinnar aldar, er hnattvæðingin – hún hefur umturnað skipulagi heimsviðskipta, svo trauðla verður aftur snúið ; vörur , þjónusta, vinnuafl, fjármagn og auðhyggja flæða yfir allan heiminn, framhjá öllum landamærum, tillitslaus og brútal. Í senn uppbyggileg og styrkjandi fyrir suma,  en jafnframt eyðileggjandi og veikjandi fyrir aðra. Atvinnuleysið og vonleysi þess, hungur og örvænting;  upplausnin og stríðin í Austurlöndum-nær og straumar flóttafólks þaðan, og hryðjuverkin – Allt eru þetta líka, en ekki bara, afleiðingar hnattvæðingarinnar.

Í  vestrænum samfélögum verður framandi fólk, lítt skiljanleg tungumál, óþekktir siðir og annars konar trúarbrögð sífellt fyrirferðameiri. Þjóðleg hagkerfi fara úr skorðum. Þau nýju ekki orðin til.  Fólk er hrætt við að missa öryggi sitt og samsömun við eigin trúarbrögð og þjóðlega menningu sína.

Hér erum við aftur komin að átökum milli  fortíðar, nútíðar og framtíðar.

Í eigin álfu erum við áhorfendur að rimmu milli þeirra sem aðhyllast svokallaða þjóðríkis- eða smáríkjalausn annars vegar og hinna sem kjósa það sem nefna má Evrópulausn hins vegar.

Þeir sem kjósa smáríkjalausn, vilja verjast glundroðanum og óvissri framtíð með því að loka landamærum, stjórna efnahagsmálum sínum sjálf og forðast framandi fólk. Þeir  óttast hnattvædda framtíð, vilja snúa af leið. Því finnst ofmargt  vera á hverfanda hveli.  Fullveldi og ídentítet eru baráttuorð þeirra, hugtök sem vísa til fortíðar, gamalla siða,eigin trúarbragða, menningar sem er, en ekki verður – til veraldar sem var, en ekki er. Hver og ein þjóð otar sínum tota.

Ef við viljum finna pólitíska fulltrúa þessara hópa þá má nefna Donald Trump , Marie le Pen þá frönsku, Pútín, Erdógan hinn tyrkneska og Orban þann ungverska.

Þeir sem aðhyllast Evrópulausn líta hins vegar svo á að hnattvæðingin sé staðreynd, sem ekki verði snúið til baka. Hún hafi kosti en hún varpi jafnframt af sér stórum skuggum. Sameiginlega megi  draga úr neikvæðum áhrifum hennar og nýta sér kosti hennar. Ef hver og ein þjóð otar sínum litla tota, verði það vonlítið.

Víggirt eða lokuð landamæri, ógagnsæ valdsmannleg stjórnkerfi og gagnrýnislaus samfélög dragi úr samkeppnishæfni og áræðni. Það geri neikvæðar afleiðingar hnattvæðingarinnar verri. Þeir vilja að glímt verði við vandamálin innan stofnana Evrópusambandsins og leyst sameiginleg af meðlimaríkjum þess.

Áhangendur Evrópulausnarinnar segja að hnattvædd framtíð sé óhugsandi án þess að deila með öðrum; vinnu, velmegun, siðum, menningu, trúarbrögðum og einnig að hluta – fullveldi. Þeir tala fyrir opnum landamærum, hreyfanleika milli  atvinnusvæða, frjálsum og opnum viðskiptum og hnattrænum samfélagsbreytingum innan laga og reglna réttarríkis, lýðræðis og mannréttinda.

Sé einhver einn stjórnmálamaður fulltrúi   þessara sjónarmiða, þá er það Angela Merkel.

Sú lausn að taka heilstætt á vanda nútímans á erfitt uppdráttar um þessar mundir, því hún skírskotar til hins óþekkta, vill byggja upp nýtt, nokkuð framandi heimili. Það gengur skrykkjótt og flækjustigin eru mörg.  Gamla lausnin er hins vegar þekkt, vafningarnir færri.

Þessi átök milli fortíðar og framtíðar skapa mikinn glundroða, já fjandskap nú um sinn. Í því róti þrífast hálf fasískir og pópúlískir flokkar og hreyfingar, sem aldrei fyrr, því þar gilda fullyrðingar og einfaldar skýringar meir en flókin greining.

Lýðskrum og pópúlismi skjóta ekki hvað síst rótum, þar sem jafnaðarflokkar hafa vanrækt tilfinningaræturnar og ná ekki eyrum almennings. Stærsti hluti áhangenda pópúlískra flokka er óöruggur og hræddur almúginn, hræddur við óvissuna. Mörg úr þeirra hópum líta vonaraugum til svokallaðra sterkra leiðtoga, og virðast  reiðubúin til að fallast á að dregið verði úr lýðréttindum  og frelsi til að tryggja öryggi gegn því óþekkta.

Það vekur athygli að evrópskir jafnaðarmenn hafa flestir skipað sér á bekk við hliðina á kristilega demókratanum Angelu Merkel í þessum átökum. Og þeir virðast leika þar, ekki ósvipað hlutverk og íslenskir jafnaðarmenn fyrrum; til hliðar við Hriflu-Jónas. Boðskapur þeirra um frelsi, jafnréttindi og bræðralag til handa flóttafólki í nauð, féll í ófrjóan jarðveg. Merkel var búin að sá í þann akur á undan þeim og pópúlísk samtök höfðu  ötullega eitrað fyrir þess konar málflutningi. Jafnaðarmenn móta ekki lengur sýn almennings‚ heldur eru þeir meðhlauparar. Þeir ryðja ekki brautir lengur.

Þetta er reiðarslag þeirrar hreyfingar, sem eitt sinn  hafði framtíðina að léni og mótaði samtíma sinn í  spegilmynd hennar.

 

Skruðningar tímans

Skruðningar tímans eru sannarlega allmiklir. Sumir segja, að þetta sterka afturhvarf til fortíðar, þar sem sjónarmið pólitískrar einsleitni og orðfæri öfga og bábilju eru orðin gjaldgeng á ný,  —  að fortíðarhyggja  bjóði öruggara skjól gegn framtíð, sem „er ekki sú sem hún er vön að vera.“    Þetta séu fyrirboðar mikilla umbreytinga.  Djúpt niðri í þjóðarsálunum vaxi órói og ótti um að velmegunin sem við höfum búið við frá stríðslokum, sé á útleið. Upplausn og átök um minnkuð gæði innan svæða og milli landsvæða muni einkenna síðasta hluta yfirstandandi aldar.

Þekktir hagfræðingar amerískir, færa nú rök fyrir því að tækniþróun sú sem knúið hefur hjól velmegunarinnar áfram síðast liðin 250 ár hafi hægt verulega á sér. Sú þróun hafi þegar náð hámarki sínu.

Ef efnahagur vestrænna ríkja muni hnigna  og verði pólitísk viðbrögð flótti til fortíðar – þá eru vissulega mikil pólitísk vatnaskil framundan.

Nú er ég kominn að lokum þessara losaralegu hugleiðinga.

Þróun kapítalismans hefur sett  megin hugsjón jafnaðarstefnunnar um jöfnuð á hliðarspor. Þrátt fyrir að hafa verið  möndull verkalýðshreyfinga í yfir 100 ár – og þrátt fyrir þátttöku jafnaðarmanna í stjórn stórra sem smárra vestrænna ríkja, verður misskipting, hvort heldur sem er tækifæra, auðs eða tekna, sífellt augljósari, einnig hérlendis. Hér eflast eignastéttir og láta æ meira til sín taka, meðan fátækt er aftur orðin smánarblettur á Íslandi. Með aukinni misskiptingu rýrnar einnig lýðræðið.  Enginn jafnaðarflokkur hefur komið með marktækt andsvar við þessu.  Því skrikar þeim fótur. Tiltrú á þá dvínar.

Við sögðum áðan að framtíðin hefði alltaf verið til vinstri – meðan okkur tekst ekki að skapa nýja, skarpari framtíðarsýn, sem hrífur  fólkið, skírskotar til tilfinninga þess, vona þess og ótta, þá munu þeir sem leita lausna í liðinni, þekktri fortíð hafa undirtökin. Fortíðarhyggja samfara sterkri þjóðernisstefnu leiðir okkur til baka í enn óöruggari, ójafnari og varhugaverðari heim, hvort heldur sem sá heimur verður fátækari, ríkari eða svipaður og nú.

Þessar slitróttu hugleiðingar hófust jafnframt á stuttri umfjöllun um nýfrjálshyggjuna.  Um og eftir síðustu aldamót tókum við Íslendingar hana í sérstakt dekurfóstur,sem framtíðarsýn  okkar ; var boðskapurinn þó ekki óþekktur áður. Á liðlega 20 ára tímaskeiði mótaði hún samfélag okkar og hugsunarhátt sterkar en flestra annarra þjóða í álfunni.  Það er okkar nútími.

En nýfrjálshyggjan varir ekki að eilífu. Hún er þrátt fyrir allt tímabundið fyrirbæri. Hvað tekur við af henni ? Verður það einhvers konar einokunar kapítalismi,  þar sem hnattrænar fjármálastofnanir ráða för – eða róttæk félagshyggja á grunni blandaðs hagkerfis, þar sem gangverk markaðsins,  hefur verið stokkað upp ? Það fer mikið eftir því hvernig efnahag heimsins muni reiða af. Hver sem  auðlegð heimsins verðu, hljóta jafnaðarmenn að taka þátt í því að móta þá framtíð. Gefa þjóðum heims nýja sýn, nýja von.

Boðskapur nýfrjálshyggjunnar  hefur vissulega haft  áhrif á sýn okkar til samfélagsins. En það er ekki  sú sýn sem útópían lofaði okkur endur fyrir löngu – sem var – að gera okkur nútímabörn að frjálsum einstaklingum í samfélagi jöfnuðar og réttlætis ; í samfélagi mótuðu af samhyggju.

Ég á enn ósótta tösku í Berlín, söng Marlene Dietrich, eftir að hún flutti til Ameríku.

Víða liggja ósóttar töskur fullar af fyrirheitum um réttlátari, öruggari og jafnari  heim. Taka þarf uppúr þeim, því fyrirheitin skuldbinda.  Jafnaðarmenn – hvar sem þeir búa – eiga þar sérstökum skyldum að gegna.

Erindi flutt í fyrirlestraröð vegna 100 ára afmælis Alþýðuflokksins í Iðnó, laugardaginn 2.apríl 2016.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 14.1.2016 - 10:01 - FB ummæli ()

Einhæfni auðlinda og virðiskeðjan

 

Nýverið birtist frétt um að þrátt fyrir uppgang væri brottflutningur fólks meiri en aðflutningur. Það sem þó vakti ekki síður athygli  var að lunginn af brottfluttum var ungt menntað fólk. Síðar komu tölur um að atvinnuleysi hjá háskólamenntuðum færi vaxandi. Þetta eru slæm tíðindi.Nú er því ekki til að dreifa að almennt atvinnuástand sé bágborið. Hér er næg almenn atvinna og  þúsundir lítt menntaðra útlendinga á leiðinni. Afkoma fólks fer batnandi. Brottflutningur menntaðs fólks er vegna skorts á sérhæfðum atvinnutækifærum, sem á mikið skylt við óþroskað,einhæft  hagkerfi. Auðlindahagkerfi eru í eðli sínu einhæf. Hvorki landbúnaður né sjávarútvegur hafa mikla þörf fyrir  fjölmenntað fólk.

Stóriðja átti að auka fjölbreytni

Við fórum af stað með stóriðju til að auka fjölbreytni í efnahagslíf landsins. Hagkerfið var staðnað. Þetta voru rétt skref í upphafi. Síðan var uppbygging stóriðju meginþungi í efnahagstefnu  landsins. Nýr einhæfur auðlindaatvinnuvegur varð til. Okkur mistókst að byggja upp úrvinnsluiðnað og skapandi störf tengd stóriðjunni sem juku verðmætasköpunina og skildu stærri hluta virðisaukans eftir í landinu. Nánast allur virðisauki stóriðjunnar verður til erlendis. Hér verða aðeins eftir beinar launagreiðslur, smávægilegir skattar og greiðsla fyrir orku, sem fram til þessa hefur ekki íþyngt rekstri stóriðjuveranna. Þessar greiðslur eru aðeins lítið brot af virði endanlegrar vöru.  Virðismyndunin hérlendis  verður þar að auki  enn rýrari fyrir þá sök að sami aðili stýrir allri virðiskeðjunni og hefur það því nokkurn veginn í hendi sér, hvar virðisaukinn verður til. Þá rýrnar hann  enn þar sem við fórnum íslenskri náttúru. Auðlindaafurðir eru óstöðugust afurðir á mörkuðum.  Gleymum því  heldur ekki að ungt fólk með fjölhæfa menntun er ekki á launaskrá stóriðjuvera.

Virðisaukinn

Auður þjóða myndast þegar þeim tekst að halda hjá sér eða draga til sín arðbærustu hlekkina í framleiðslukeðjunni. Þar liggur mestur virðisaukinn.Þessir þættir framleiðslukeðjunnar eru t.d. hugmyndavinnan, hönnun vörunnar, dreifing og að lokum salan. Frumframleiðsla er ekki sérlega arðbær atvinnugrein, ekki einu sinni í olíu. Hugmynda- og þróunarvinnan, dreifingin og kannski ekki hvað síst margumtöluð vörumerki, mynda stærstan hluta virðiskeðjunnar í nútíma atvinnurekstri. Þar greiðast hæstu launin, mestur arðurinn og hæstu skattarnir. Af hverju skyldu bæði frystihús og sláturhús vera staðir, þar sem Íslendingar bíða ekki í röðum eftir að fá vinnu ? Engin þjóð þroskast atvinnulega séð á því að leggja höfuð áherslu á að búa til nóg af almennum láglauna störfum. Það er leið langtíma stöðnunar. Íslenska ríkið hefur allt frá upphafi fullveldisins verið afgerandi afl á sviði atvinnumála. Einkum hefur þetta gilt gagnvart auðlinda atvinnuvegunum, landbúnaði , sjávarútvegi og síðar stóriðju. Því miður hafa þessi afskipti ríkisvaldsins einkum  fest í sessi  haggerð, sem til lengdar örvar hvorki hagvöxt né nýsköpun. Tiltölulega einhæf nýtingu auðlinda er sett í forgang, því það er auðveldara og atkvæðavænlegra. Þroskað hagkerfi byggir á hugviti, verkkunnáttu, áræðni og margvíslegri þekkingu.  Þaðan kemur mestur virðisaukinn.

Gjaldmiðilinn

Ekki má gleyma garminum honum Katli, þegar rætt er um fráhrindandi aðstæður fyrir ung menntað fólk  til að setjast að á Íslandi. Þar á ég við íslensku krónuna, sem fengið hefur þá heiðursnafnbót frá forsætisráðherra að vera sterkasti gjaldmiðill í heimi. Það er ekkert sérstakt afreksverk að gjaldmiðil sem býr við ströng gjaldeyrishöft og er hvergi nothæfur utan eigin lands, haldist þokkalega stöðugur. Til þess eru höftin.Þrátt fyrir þessa algjöru einangrun og vernd þarf krónan háa vexti svo hún geti staðið undir því verkefni, að halda verbólgu í skefjum. Gjaldeyrishöftin koma heldur ekki i veg fyrir að mörg mismunandi gengi eru á krónunni. Innflutnings- og  ferðamannagengi, útboðsgengi seðlabankans og síðan er verðtryggða útgáfa hennar.Sem mælieining er hún skökk, óstöðug og misvísandi. Sennilega hefur enginn einn hluti íslenska hagkerfisins „féflett“ Íslendinga meir í gegngum árin en krónan. Það er hún sem gerir ungu fólki erfitt með að búa hér, þótt það hafi vinnu.  Hún er svo dyntótt og dýr, hvort sem hún er óverðtryggð eða verðtryggð.Hún gengur af öllum húsnæðiskerfum dauðum. Ef við viljum fá ungt menntað fólk til að setjast að hérlendis þurfum við að breyta um opinbera atvinnustefnu, hætta fjáraustri í auðlindaatvinnuvegi og finna lausn á gjaldmiðilsmálum okkar.

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 3.12.2015 - 13:28 - FB ummæli ()

Þess vegna vantreystir þjóðin Alþingi

 

 27. NÓVEMBER 2015

Þjóðir vinna stríð eða tapa þeim. Þar fær enginn önnur verðlaun. List stjórnmálanna er hins vegar þríþætt. Hún liggur í sókn, tilslökun og síðan í málamiðlun. Stjórnmálamenn í lýðræðisríki sem leggja mál þannig upp að málamiðlun sé útilokuð, lenda óhjákvæmilega í átökum og að jafnaði gera þeir meiri óskunda en gagn.

Í ríkisstjórn Jóhönnu bar mikið á heilagri sannfæringu einstakra alþingismanna, sem ekki þoldi neinn afslátt, enda voru lyktir þeirrar ríkisstjórnar heldur snautlegar. Þótt hrunið hafi vissulega átt sér erlenda tilsvörun, var það engu að síður íslensk hönnun. Það voru ekki bara bankamennirnir sem biluðu heldur brást einnig stjórnmálakerfi okkar. Alþingi, kjarni kerfisins, skarst úr leik, og áfallið lét ekki á sér standa.

Heimssagan hermir að pólitísk stóráföll megi oft rekja til bresta í stjórnmálakerfi eða menningu. Þegar ríkisstjórnir og þjóðþing verða ofurseld blindri hugmyndafræði eða trúarórum, sem leyfa hvorki tilslökun né málamiðlun, er ófarnaður á næsta leiti. Öfgafyllsta dæmi slíks ástands er saga Þýskalands á fyrri helmingi síðustu aldar.

Við Íslendingar flæktumst einnig í hugmyndafræðilegar hafvillur á áratugnum fyrir hrunið. Hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar, sem var stýrikerfi stjórnvalda, opnaði allar gáttir fyrir hyggjulitlum bankamönnum og gróðabröllurum. Því fór sem fór. Þjóðverjar kölluðu hafvillu sína Þýsku leiðina. Íslendingar töluðu um Íslensku útrásina, sem rakin var til víkinganna. Þar væri á ferð arfgeng, þjóðleg snilligáfa, sem aðrar þjóðir mættu taka sér til fyrirmyndar. Hvorug þjóðin sá hvílík hélog þær eltu og enduðu báðar í hruni, sín á hvorum tíma.

Átök um almannahagsmuni

Pólitískt upplausnarástand á líka upptök sín í illrjúfanlegum tengslum voldugra hagsmunahópa við stjórnmálin. Í þróunarferli flestra Evrópuríkja má finna lengri og skemmri tímabil, þar sem sérhagsmunir einstakra stétta eða þjóðfélagshópa mótuðu stefnu landstjórnarinnar. Oftast endaði það í stórátökum, þegar sérhagsmunir verndaðir af ríkisvaldinu rákust á almannahagsmuni, sem landslýður reyndi að ná fram. Hér nægir að nefna almennan og jafnan kosningarétt en einnig pólitískt varin forréttindi, einkum og sér í lagi skattaleg og viðskiptaleg.

Það þurfti tvær heimsstyrjaldir til að brjóta niður ofurvöld iðnaðarbarónanna við Ruhr og prússnesku Júnkeranna. Keimlíkt ástand, þó á míní mælikvarða, þekkjum við Íslendingar. Sjávarútvegur og landbúnaður hafa í gegnum pólitísk völd sín geirneglt sérhagsmuni sína, sem ósjaldan ganga í berhögg við almannahagsmuni. Landbúnaðinum leyfist að halda þjóðinni í bóndabeygju offramleiðslu, innflutningshafta, eftirlitslausra styrkja og örlátra niðurgreiðslna. Óþarfi er að ræða skattaleg forréttindi útgerðarmanna við nánast ókeypis nýtingu fiskimiðanna og lagalega varið fjárfestingabann útlendinga. Því má ­einnig bæta við að Íslendingar búa enn við ójafnan kosningarétt, þótt hann sé orðinn almennur. Íslensk stjórnmál eru enn gegnsýrð af forréttindum auðlindaatvinnuvega og dreifbýlis.

Alþingi og skipulagðir sérhagsmunir

Pólitíska óreiðu má einnig rekja til vanhæfi þeirra sem sitja á þingi. Sagnfræðingar sumir telja sig geta rakið ofstopann sem leiddi til ofbeldis og hryðjuverka frönsku byltingarinnar til skorts á praktískri menntun og reynslu meðlima franska þjóðþingsins. Meðlimir þess voru ýmist stofuspekingar og hugmyndafræðingar en í besta falli lögfræðingar. Þarna voru hópar ófyrirleitinna málflutningsmanna úr dreifbýlinu og margs konar undanvillingar úr forréttindahópum samfélagsins. Þingið komst að þeirri niðurstöðu, að til að koma á réttlátu samfélagi þyrfti að afhenda lægstu stéttunum öll völd. Þær nýttu þau síðan til að útrýma eignarréttinum að mestu og afmáðu þar með eina mikilvægustu forsendu frelsisins.

Þótt við Íslendingar höfum aldrei gengið í gegnum viðlíka tíma, þá er því ekki að neita, að Alþingi virðist einnig ofsetið af fólki sem lítið erindi á þangað. Alþingi þarf að vera staður opinnar rökræðu, pólitískra skoðanaskipta og þroskaðra viðhorfa. Þess í stað er Alþingi í alltof ríkum mæli staður þar sem fulltrúar skipulagðra sérhagsmuna, í fylgd gaumlausra meðhlaupara, ráða ferðinni. Umræða, sem ber öll einkenni þess, að stór hluti þingmanna telji sig skuldbundinn til að halda uppi vörnum og sókn fyrir sérhagsmuni auðlindarekenda í andstöðu við almannahagsmuni, kallar fram óvægnar andstæður og skörp átök. Þar af leiðandi glatar þingið hæfni sinni til að geta laðað fram pólitíska samfylgd, búið til málamiðlun, staðið undir nafni sem pólitísk samkoma allrar þjóðarinnar, ekki bara samtaka auðlindarekenda til sjávar og sveita. Þetta er alvarleg brotalöm í stjórnmálakerfi okkar. Þess vegna vantreystir þjóðin Alþingi.

 

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 3.10.2015 - 18:47 - FB ummæli ()

Offramleiðsla, förgun og niðurgreiddur útflutningur lambakjöts

 

Einhvern tíma í sumar birti Ríkisútvarpið frétt sem studdist við viðtal við talsmann sauðfjárbænda,þess eðlis að brýn þörf væri á að hækka skilaverð á dilkakjöti til bænda. Ef minni mitt svíkur mig ekki þá var minnst á 12 % sem fyrsta árs hækkun, síðan næsta ár o.s.frv. Mér þóttu þetta ekki óvæntar fréttir, því með  offramleiðslustefnunni er öll viðmiðun við eftirspurn gerð óvirk. Í grein (Fréttabl. 18. júní s.l.) benti ég  á að framleiðsla umfram innanlandsneyslu væri um helmingur allrar lambakjötsframleiðslunnar,hinn helmingurinn ýmist fluttur út með ærnum „niðurgreiðslum“, birgðastaðan aukin eða kjötinu einfaldlega fleygt. Á hverju ári er  hundruðum tonna af kindakjöti fargað. Það fer á haugana. Það þarf engan snilling til að sjá að slíkt framleiðslukerfi getur aldrei skilað viðunandi verði til bænda. Það vakti einnig athygli mína við þessa frétt að talsmaður sauðfjárbænda vakti upp gamla drauga úr íslenskri  verðlagsumræðu, hina skelfilegu milliliði. Lúðvík heitinn Jósefsson útskýrði flest tilbrigði verðbólgunnar með óseðjandi ásókn milliliða í meiri gróða.  Talsmaður sauðfjárbænda útskýrði  lágt skilaverð til bænda einnig með hárri álagningu milliliðanna einkum stórmarkaðanna. Hann kenndi sem sagt Finni Árnasyni um lélega afkomu sauðfjárbænda. Hann þekkti greinilega ekki lögmál framboðs og eftirspurnar og áhrif þess á vöruverð. Þó er aðeins ein leið til að raunverulegt markaðsverð lambakjöts hækki. Hún er sú að takmarka framleiðsluna verulega. Setja þarf lambakjötsframleiðsluna í kvóta sem tekur mið af innanlands neyslu. Ekki efa ég það að Finnur reyni að hámarka hagnað fyrirtækis síns. Hann verður þó að gæta viss hófs í álagningu því hann er ekki einn á markaði.

Milliliðakenningin endurvakin

Í refsiverðri einfeldni minni hef ég lengi vel viljað trúa því ,að framleiðslukerfi búvöruframleiðslunnar væri hannað með hag bænda í huga. Ég var alinn upp við þá hugsun. Offramleiðsla gagnast þó síst bændum. Eins og dæmin sanna er hún mikil ólyfjan í afkomu þeirra. Þeir verða að þiggja það sem að þeim er rétt. Geta sér enga vörn veitt með framleiðslustýringu. Offramleiðslan gæti þó komið sér vel fyrir neytendur, því þeir fá kjötið á tiltölulega lágu verði. Þeir borga það þó allt til baka með ofur niðurgreiðslum innanlands og beingreiðslum sem notaðar eru m.a. til að framleiða kjöt ofan í efnaða útlendinga. Hagnast milliliðirnir hans Finns á offramleiðslunni ? Kemur það  sér vel fyrir verslunina að selja vöru sem framleidd er langt umfram eftirspurn ? Á venjulegu markaðskerfi setur offramleiðsla verslunina í sterkari stöðu gagnvart framleiðendum. Í ríkisvernduðu verðlagkerfi er það ekki svo.

Er offramleiðslan fyrir afurðastöðvarnar ?

Það verður því að leita lengra til að finna þann sem stýrir því og lifir af því að viðhalda offramleiðslu á lambakjöti. Pólitíkin með  sitt yfirgangssama og rangláta  kosningakerfi er hér ekki ein að verki en hún er handlangari afurðastöðva landbúnaðarins. Það eru þær sem hagnast fyrst og fremst á offramleiðslunni, þó þær séu sennilega ekkert sérlega öfundsverðar af afkomu sinni. Hitt er ljóst að nokkuð stór hluti tekna þeirra kemur frá geymslu á óseljanlegu lambakjöti og meðhöndlun og sölu kjöts til útlanda. Án þessara liða yrði  rekstur afurðastöðvanna eflaust mun erfiðaðri. Þá má geta þess að fyrir utan beingreiðsluféð sem greiðir niður kjötið til útlendinganna þá er ullin stórlega niðurgreidd. Sauðfjárbúskapur er ekki arðvænleg atvinnugrein. Til að svo geti orðið þarf að draga verulega úr framleiðslu lambakjöts og verðleggja það hátt á markaðslegum forsendum. Lambakjötið er löngu hætt að vera aðalfæða landsmanna. Villilambakjöt er miklu nær því að vera sælkerafæði en til framfærslu fátækra. Styrkir til bænda geta verið með allt öðrum og umhverfisvænni hætti. Með aukinni heimavinnslu geta bændur aukið ábata sinn. Það væri vissulega meira gaman að versla hjá Finni ef hann seldi okkur sperðla frá Þverá eða hangikjöt frá Haga. En umfram allt þarf að draga úr framleiðslunni. Það hagnast enginn á því að framleiða, vinna eða selja offramleidda, niðurgreidda vöru. Sovésku leiðtogarnir þekktu heldur ekki lögmál framboðs og eftirspurnar, enda hrundi ríki þeirra.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 26.8.2015 - 21:04 - FB ummæli ()

Enginn er eyland

Ísland er smáríki. Ef tekið er mið af íbúafjölda erum við örþjóð. Menningarlega, stjórnmálalega og sögulega erum við hluti þeirrar vestrænu samfélagstilraunar sem enn stendur yfir. Frelsi einstaklingsins,mannréttindi, réttarríki og lýðræði eru megin stoðir vestræns samfélags. Ekkert af fyrrnefndum gildum er sjálfgefið. Að baki þessa samfélagsforms liggur aldalöng hörð og blóðug barátta þjóða V-Evrópu og síðar  N-Ameríku. Fórnir þessara þjóða fyrir réttlátara og frjálsara samfélagi voru miklar. Þær má víða sjá í kirkjugörðum beggja vegna Atlantshafsins. Þegar Íslendingar loksins hristu af sér aldalanga fjötra kúgunar,stöðnunar og doða, þá var það ekki hvað síst að þakka frelsishreyfingum úti í Evrópu. Þaðan komu þeir straumar sem við nýttum og leiddu til fukkveldis og frelsis. Fórnir Evrópu voru okkar fengur. Þessi stöðuga barátta hefur síðan haldið áfram gegnum seinni heimsstyrjöldina þar sem tugmilljónir létu lífið, og síðan í varðstöðu kalda stríðsins. Samfélög okkar eru eftirsóknarverð. Nánast allir þeir sem nú flýja lönd sín stefna ótrauðir til landa ESB eða BNA. Hvorki Kína né Rússland eru áfangastaðir þeirra.

Friðarsáttmálar Evrópu

Evrópa lá í rústum eftir seinni heimsstyrjöldina. Búið var að umturna landamærum ríkja. Í framhaldi var hafin vinna að gerð varanlegs friðar í álfunni. Samkomulag náðist loks í Helsinki 1976 og annað við sameiningu Þýskalands 1991. Megin niðurstaðan var að ekki mætti breyta landamærum í Evrópu nema með samþykki allra hlutaðeigandi þjóða. Undir þetta skrifuðu Sovétríkin og síðar Rússland. Árið 1992 gerðu Úkraína og Rússland sérstakt samkomulag, þar sem það síðarnefnda viðurkenndi þáverandi landamæri Úkraínu og ríkið sem frjálst og fullvalda. Innlimun hérðs í Georgíu í Rússland var mótmælt en litlar refsiráðstafanir ákveðnar. Þegar Rússar svo færa sig uppá skaftið og innlima Krím í andstöðu við stjórn Úkraínu og eftir einhliða atkvæðagreiðslu  undir vopnaógn, er það friðrof og skýrt brot á því samkomulagi sem tryggja átti frið í Evrópu.

Viðbrögð við yfirgangi

Þegar rússneskir aðskilnaðarsinnar tóku svo að herja í austurhluta Úkraínu með dyggri aðstoð Rússa, átti öllum að vera ljóst hvert Pútínrússland stefndi. Vopnaskak Rússa gagnvart Eystrasalts ríkjunum, Póllandi og fleiri þjóðum, skaut litlum ríkjum í nálægð við Rússland mikinn skelk í bringu. Þau óttuðust aðskilnaðarbrölt stutt af Rússum. Þau kröfðust þess að ESB og BNA svöruðu, bæði með hernaðarstyrk og refsiaðgerðum. Þessu var í fyrstu seinlega tekið einkum af stóru löndunum í ESB. Reyna skyldi samningaleiðina til þrautar. Þrátt fyrir óteljandi fundi varð Rússum ekki haggað. Ákveðið var þá að setja bann við vopnasölu, frystingu á innistæðum nokkurra  Kremlverja og takmarkanir á fjármálaviðskiptum margra rússneskra banka og fyrirtækja. Rússar svöruðu með innflutningsbanni á matvæli. Rússland er ekki lýðræðisríki og hefur aldrei verið. Það er orþódox valdbeitingarríki. Viðskiptahindranirnar eru aðvörun. Þær sýna samstöðu með litlu ríkjunum ekki hvað síst við Eystrasalt andspænis yfirgangi og vopnaskaki. Þátttaka Íslendinga er  yfirlýsing um samstöðu á sambærilegan hátt og Jón Baldvin gerði 1992. Engin er eyland, sagði írski klerkurinn John Donne, öll erum við hluti stærra meginlands.

Háskaleg einangrun

En við gerum þetta jafnframt fyrir okkur sjálf. Við viljum ekki standa ein ef okkur skyldi verða ógnað. Við fylgdum vinaþjóðum okkar í verki. En það undarlega gerðist að þegar svo Rússar svöruðu með innflutningsbanni á sjávarfang, þá var eins og hugarheimur margra  umturnaðist. Viðbrögð lýðskrumara (pópúlista) allra flokka komu ekki á óvart. Í fjölmiðlum fór fram kostuleg umræða, hvort horfið skyldi frá samstöðu með vina þjóðum af því við gátum ekki lengur selt makríl til Rússlands. Sjóndeildarhringurinn náði ekki út fyrir rönd grautardisksins. Á nokkrum árum hefur þjóðernishlöðnum áburðarkerrum skammsýnna sérhagsmuna tekist að rugla dómgrein hluta þjóðarinnar alvarlega. Menn ýmist harma að við skyldum hafa slegist í för með vestrænum vinaþjóðum eða vilja ganga svo langt að afturkalla stuðning okkar. Hvílík reisn, hvílík staðfesta, hvílík sjálfsvirðing! Jafnvel formaður Sjálfstæðisflokksins lét að því liggja að við hefðum í upphafi átt að íhuga betur stuðning okkar. Svo bregðast krosstré sem önnur tré. Samhliða þessu kemur í ljós önnur og ekki síður alvarleg hlið þessa máls sem er skaddað og klúðrað samband okkar við ESB, mikilvægasta viðskiptabandalags okkar. Það sýnir hve sú utanríkisstefna sem byggir á hatursandstöðu við ESB er háskaleg til lengdar. Hún hornsetur hagsmuni þjóðarinnar.

 

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Þröstur Ólafsson
Hagfræðingur. Á eftirlaunum. Margvísleg störf, bæði opinber sem og hjá öðrum.
RSS straumur: RSS straumur