Þriðjudagur 23.6.2015 - 10:21 - FB ummæli ()

Offramleiðsla lambakjöts er böl

 

„ Í raun má segja að umgjörðin í kringum sauðfjárræktina sé að mörgu leyti heilbrigð og mun heilbrigðari en t.d. í mjólkurframleiðslu.“ Þannig segir í  skýrslu Háskólans á Akureyri um samfélagslega þýðingu sauðfjárbúskapar sem birtist s.l. vetur. Skýrslan fjallar um atvinnugrein sem  er svo óarðbær að ríkisstyrkir mynda obbann af tekjum hennar og eru sauðfjárbændur þó síst öfundsverðir af tekjum sínum. Skyldu eftirfarandi setningarbrot bera þess vott að höfundum þykir umgjörð greinarinnar heilsugóð, „…bændur fá styrki frá ríkinu til að stunda greinina… „  og síðar „ bændur fá beingreiðslur eftir 63 ára aldur, án þess að framleiða neitt“ þeir sitja jarðirnar „…bara til að hokra áfram“, eins og einn viðmælandi segir í skýrslunni. „Menn eru í búskap af gömlum vana,“ svo vitnað sé enn í skýrsluna. Það vekur athygli að slík „atvinnustarfsemi“ fái sérstakt háskólastimplað heilbrigðisvottorð. Heilstæð úttekt á samfélagslegri stöðu greinarinnar er þetta ekki. Hvorki er sagt frá því hvað þessi atvinnugrein kostar samfélagið í meðgjöf né greint frá þeim umhverfisspjöllum, sem sá fjöldi fjár sem rekinn er árlega á fjall veldur náttúru landsins. Þá er ógetið þeirrar byggðaeyðingar sem stjórnlaus, arðlaus og óþarfa  offramleiðsla leiðir af sér. Það er fræðasamfélagi íslenskra háskóla ekki til framdráttar, ef  hagsmunasamtök geta pantað skýrslur, þar sem niðurstöðurnar eru klæðskerasniðnar hagsmunapoti þeirra.

 Óréttlætanleg offramleiðsla

Af liðlega 10 þús. tonna heildarframleiðslu kindakjöts 2014, voru um 1100 tonn óseld en 2500 tonn sett í  útflutning. Offramleiðslan nemur því um 3600 tonnum. Mér reiknast svo til að heildarverðmæti útflutnings sauðfjárafurða hafi verið 3,7 mrð. kr.. Þá var búið að eyða 1,2 mrð. kr. af ríkisgreiðslum til þess hluta framleiðslunnar sem fluttur var út. Þetta er „niðurgreiðsla“ til velstæðra útlendinga um 32%. Það er mikill rausnarskapur. Af þessum grófa reikningi sést að útflutningur sauðfjárafurða er þjóðhaglega óarðbær og engin hagræn rök fyrir þessari starfsemi. Sauðfé í landinu er því um 40% of margt. Þetta kostar ríkissjóð mikla peninga, sem brýnt væri að nota í heilbrigðisþjónustuna. Það kemur ekki á óvart að í fyrrnefndri skýrslu skuli hvergi minnst á að  taka þurfi tillit til þarfa markaðarins og takmarka framleiðslu. Lambakjöt er ekki lengur megin fæðutegund þjóðarinnar. Áratugum saman hefur ríkisfé verið veitt til markaðssetningar og geymslu kindakjöts, nú 414 m.kr., með þeim eftirtektarverða árangri að neyslan dregst saman. Kerfi sem hvetur til stjórnlausrar framleiðslu, óháð þörfum markaðsins, er andstætt allri heilbrigðri skynsemi. Þá ýtir það undir hugarfar, sem gerir sífellt kröfur til annarra, en minni til sjálfs síns.  Ég vona að ekki verði sagt það sama um þá alþingismenn sem halda þessu fáránlega kerfi gangandi, og sagt var um sovétleiðtogana, þegar leitað var skýringa á hruni Sovétríkjanna, að það hafi ekki verið svo að leiðtogarnir hafi hundsað lögmál efnahagslífsins heldur hitt,sem var verra, þeir skildu þau ekki.

Gróðureyðing  er afleiðingin

Engin  réttlætingarrök eru fyrir því að  veita almannafé til að eyða viðkvæmum  gróðri. Hafi  núverandi landbúnaðarstefna haft einhver markmið þá hafa þau öll mistekist. Sauðfjárbændur maka almennt ekki krókinn. Atvinnugrein þeirra er nokkuð frumstæð og óarðbær og tekjur því lágar.Hvorki íslenska kindin né kýrin eru afurðavænar, því stofnar þeirra eru rýrir af aldalangri einangrun. Þessi framleiðslustefna hefur ekki styrkt dreifðustu byggðir, heldur eru áhrifin öfug. Þar er því miður flest sagt  þar á undanhaldi,ef marka má tölur, skýrslur og frásagnir. Það er eðlilegt, því megin atvinnugreinin, sjálf undirstaðan er afar óarðbær. Ekki þangað, heldur þaðan flyst fólk.Til að laða að fólk í dreifbýlið þarf atvinnugrunnurinn þar að vera heilbrigður. Ferðaiðnaðurinn er tækifæri ef hugvit fylgir máli. Í stað offramleiðslu með gróðureyðingu skulum við þó frekar borga fyrir að hlúa að gróðri. Ítala í Almenningana frá í vor var dapurlegt dæmi. Eindregnar ráðleggingar gróðurvísindamanna voru hundsaðar, því þær rákust á við skammvinna hagsmuni yfirvaldsins. Víðtæk skaðsemi offramleiðslunnar er augljós, og hlýtur að vekja þá spurningu, hvaða æðri hagsmunir  stýri þarna för, því hvorki eru það hagsmunir neytenda né sauðfjárbænda,sem margir hverir „hokra áfram“ „af gömlum vana“. Þá er pólitíkin nærtækust. Í kosningum jafngildir  atkvæði eins sauðfjárbónda allt að þremur atkvæðum í þéttbýli höfuðborgarsvæðisins. Stuðningafólk óréttláts atkvæðavægis hlýtur að telja að ýmislegt megi leggja á land og þjóð til að halda atkvæðunum í sveitunum.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 29.5.2015 - 11:18 - FB ummæli ()

Gagnrýnin umræða leiðréttir

 

Vestrænt samfélag einkennist af gildum eins og frelsi einstaklingsins, lýðræði, réttarríki og mannréttindum. Þessi gildi hafa haft mikið aðdráttarafl fyrir þjóðir um allan heim. En jafnframt hafa þau átt hatramma andstæðinga, sem reynt hafa að hefta útbreiðslu þeirra.Þessi gildi hafa þróast í aldanna rás í þeim heimshluta þar sem aðskilnaður veraldlegra og trúarlegra valda varð við upphaf kristninnar,sbr. svar Krists, „Guði það sem Guðs er, keisaranum það sem keisarans er“. Rómarríki hið forna klofnaði í tvo hluta austur-rómverska hlutann (byzant/orthodox) og hinn vestur-rómverska (latnesk, kaþólsk). Í austur hlutanum var ríki og trú einn og sami hluturinn, enda stöðnuðu þau ríki, meðan í vesturhlutanum var hægt að gagnrýna ríkisvaldið án þess að móðga Guð almáttugan. Menn voru vissulega drepnir vegna gagnrýni en drápin voru framin í nafni og á ábyrgð keisarans, ekki Guðs. Síðan komu ný þjóðfélagsöfl til sögunnar, sem leiddu þrónarferlið áfram.  Átök innan kirkjunna enduðu í siðbótinni, með  upplýsingastefnu, kapítalisma og sósílaisma sem hliðarafurðir. Tjáningar- og prentfrelsið leiddi af sér almenna og gagnrýna umræðu. Vestrænt samfélag var orðið til.

Ferðalag mistaka

Á þessu yfirborðslega ferðalagi okkar um söguna er mikilvægt að gleyma því ekki, að svokölluð vestræn ríki voru, þrátt fyrir þessi göfugu gildi, engir eftirbátar annarra ríkja í yfirráðum og grimmd. Þau brutu sjálf iðulega gegn eigin gildum. Höfundar mannréttinda- og frelsisyfirlýsingar Bandaríkjanna áttu flestir þræla. Vestrænir menn útrýmdu innbyggjum s.s. indjánum og stunduðu þrælasölu. Hatröm nýlendustefna var rekin af vestrænum ríkjum. Vestræn ríki hafa barist  gegn frelsisunnendum og kæft sjálfstæðiskröfur og  tekið afstöðu með einræðisherrum og kúgurum. Stríðið í Víetnam, innrásin í Írak, þátttaka í kúgun Palestínþjóðarinnar eru aðeins örfá dæmi um hve skammsýn valdabarátta getur leitt til svika  við eigin gildi. Kirkjan var heldur ekkert rómað framfaraafl. Sterk, stundum banvæn, andstaða gegn  vísindum og víðtæk undirokun kvenna og margs konar lítilsvirðandi afstaða gegn „vantrúuðum“ var fylgifiskur kirkjunna um aldir.Þó voru það spænskir guðsmenn sem fyrstir allra skrifuðu um skelfilega meðferð á indjánum og bentu á að þeir væru mennskir eins og við og bæri að meðhöndlast sem slíkir.

Mikilvægi umræðunnar

Galdur vestræns samfélags liggur ekki í því að þau geri ekki  mistök, brjóti jafnvel gegn eigin gildum, heldur sá að þeim auðnast að leiðrétta mistök sín. Það gerðist með opinni, frjálsri umræðu. Hún fór fyrst leynt af stað en óx fiskur um hrygg að varð síðar lýðræðislegur réttur. Hún opnaði fyrir gagnrýni heima fyrir sem menn lærðu að taka mark á. Umræðan og rökræðan er drifkraftur og mergur lýðræðislegs samfélags. Þess vegna er þetta samfélagsform svona stekt, en verður ofurveikt fái frjáls umræða ekki að dafna. Gagnrýnin umræðan var áttavitinn sem leiðrétti missig samfélagsins. Þess vegna hafa vestræn ríki fram til þessa komið standandi út úr flestum afglöpum og misgjörðum sínum og orðið leiðarljós hinna sem festust í mistökum sínum. En umræðan þarf að vera opin og lýðræðisleg svo almenningur geti fylgst með henni og tekið þátt. Hún má aldrei vera skilyrt.Ef fjölmiðlar eru ófrjálsir og starfa undir boðvaldi ríkisvalds eða hafa víðtæka eigendavernd að viðmiði ritstjórnar, þá getur umræðan ekki verið frjáls, leiðréttingarferlinu seinkar eða mistökin festast í sessi. Það verður viðkomandi samfélagi fjötur um fót um ókomin ár.

Gagnrýni er styrkur

Bjartsýni er mannskepnunni eðlislæg, aðfinnsla litin hornauga.Gagnrýnin umræða á oftast á brattann að sækja. Mörgum finnst eðlilegra að halda áfram, horfa lítt til baka,vera ekki sífellt að nöldra. Valdhafar segja  gjarnan að gagnrýni á framvindu landsmálanna beri vott um  neikvæði og bölsýni,menn eigi að vera bjartsýnir á framtíðina.  Gagnrýnið hugarfar hefði væntanlega getað dregið úr eða komið í veg fyrir hrunið. Varfærnisleg varnarorð fárra náðu ekki í gegn. Trúgirni og velvilji einfeldningsins þróa ekkert vitrænt samfélag. Aðeins gagnrýn hugsun megnar að draga úr hættunni á að mannleg mistök verði endurtekin. Það gildir einnig um okkur.Við þurfum að horfa með gagnrýnum huga á þróunarferli samfélagsins á hverjum  tíma.Stefnum við samfélagi okkar aftur á bak í ógöngur eða höldum við opnum huga inní ókomna tíð ? Hún er styrkur hins vestræna samfélags. Án hennar væri þessi merkilega samfélagstilraun löngu stöðnuð. Við eigum þess vegna að gera henni hátt undir höfði í stað þess að bera hana út.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 18.5.2015 - 20:56 - FB ummæli ()

Launakröfur og reið þjóð

Launakröfur og reið þjóð

Tímarnir eru gamalkunnir en þó sérstakir. Verkalýðsfélögin setja fram háar kröfur sem lærðir hagfræðingar og ábyrgðaraðilar fyrirtækja svo ekki sé talað um ríkisstjórnina, vísa út í hafsauga – segja þær ávísun á verðbólgu. Verði þær samþykktar þýði þær kjaraskerðingu ekki kjarabætur. Nú þurfi nýja þjóðarsátt. Á þessa leið hljóma ummæli margra þeirra sem spáð hafa í raungetu hagkerfisins til kjarabóta. Sá sem þetta ritar talaði og skrifaði í  anda þessa boðskapar í aðdraganda þjóðarsáttar haustið 1985 um nauðsyn þess að semja um betri kjör í stað uppskrúfaðra, falsra launahækkana. Rökin voru veikt efnahagslíf sem svara myndi háum launakröfum með gengisfellingu og verðbólgu. Eftirtekjan yrði skammvinn og rýr. Árum seinna voru gerðir skynsamlegir samningar,sem kenndir eru við þjóðarsátt. Gilda ekki sömu rök lengur ? Hefur eitthvað breyst frá því í lok níunda áratugar s.l. aldar? Vissulega. Umgjörð, samsetning og gangvirki efnahagskerfisins hafa gjörbreyst. Fiskveiðistjórnunarkerfið er farið að skila umtalverðum hagnaði til útgerðarmanna. Með auknum aflaheimildum mun hagnaðurinn að öðru óbreyttu vaxa enn. EES samningurinn hefur gert íslensks efnahagslíf fjölbreyttara, frjálsara og áræðnara, aukið samkeppnishæfni þess og opnað markaði áður lokaða. Ferðamannaiðnaðurinn hefur vaxið með leifturhraða og er nú orðin ein vinnufrekasta og gjöfulasta útflutningsgrein landsins. Krósett bankakerfið bólgnar út af krónueignum. Afkomutölur segja að flest svið íslensks efnahagslífs skili handhöfum og eigendum góðum eða miklum hagnaði. Þannig var sannarlega ekki umhorfs á tímum þjóðarsáttar.

Velgjörðarhalli hjá ríkisstjórn

Enn búum við þó við hagkerfi, sem knúið er áfram af meginboðorði nýfrjálshyggjunnar, sem stillt er inná hámarkshagnað sem forgangsmál meðan laun eru afgangsstærð. Félagslega markaðskerfið staldraði stutt við hérlendis.Bilið milli hagnaðar og raunlauna er hættulega breitt og víkkar. Þetta veit launafólk og vill ekki sætta sig við. En það er ekki nóg með að fyrirtækin hagnist vel, sem í sjálfu sér er gott. Ríkisstjórnin virðist hafa það að megin viðfangsefni að auka hagnaðinn enn meir. Hún  er ötul við að taka ákvarðanir sem lækka skatta á útgerðir, stóriðju og hæst launaðasta fólkið, eins og þar kreppti mest að. Jafnframt finnst fólki ríkisstjórnin vera að ræna sig helgum arfi sínum og eign sem er sjávarauðlindin, með einhliða úthlutun langvarandi aflaheimilda s.s. á makríl. Allt er þetta gert í nafni bættra rekstrarskilyrða atvinnuveganna, sem eru sömu vígorð og notuð voru fyrir hrun. Við virðumst ófær um að læra af reynslunni.Samhliða þessum velgjörðarhalla berst ungt fólk í bökkum við að komast af, ekki hvað síst vegna hárra húsnæðisreikninga og verðtryggðra skulda. Ísland er erfitt og óvinveitt land ungu launafólki. Skilaboð til launafólks um ábyrgð og skynsemi missa því  marks.

Reið kynslóð

Hvergi lenti almenningur verr útúr fjármagnskreppunni en hér á landi vegna gengishraps krónunnar. Hún magnaði upp áhrif hrunsins og kom mörgu launafólki á kaldan klakan.Hún var bölvun ekki happ. Nú hefur ríkisstjórnin ýtt útaf borðinu  þeirri von að tenging við ESB gæti opnað framtíðarsýn og fært okkur gjaldmiðil, sem ekki er stöðugur leiksoppur misheppnaðra ákvarðana stjórnmála- og/eða fjármálamanna. Þá virðist það ekki hvarfla að alþingismönnum að gagngerar breytingar á landbúnaðarkerfinu  geti bætt kjör almennings. Núverandi kerfi er rándýrt og sniðið að hagsmunum fárra á kostnað fjöldans.Þetta sést ekki bara á fjallháum styrkjum til frumstæðs sauðfjárbúskapar, heldur einnig í fáránlegum einkasölureglum, þar sem innflutningsbanni er beitt þó aðeins einn  eða örfáir innlendir framleiðendur séu til staðar. Auðvitað finnur almenningur hve niðurnjörvað og andsnúið kerfið er, en hann veit jafnframt að hann á fáa bandamenn, sem þora að gera breytingar þar á.  Þess vegna dugar lítt nú að skírskota til hógværðar í kröfugereð eins og hægt var á árunum fyrir 1990.  Reiði fólks birtist m.a. í hruni allra flokka í skoðanakönnunum, nema þessara einu lítt þekktu pírata. Háar launakröfur með verkfallsvopnið á lofti er líka andsvar fólks og tjáning við áhrifaleysi, andsnúnum og einstrengingslegum ákvörðunum ríkisvaldsins. Á síðasta útifundi  á Austurvelli spurði ég unga konu hverju hún væri að mótmæla. Hún sagðist mótmæla því að vera neydd til að lifa í stöðugu ofbeldissambandi með ríkisstjórninni, sem keyri áfram af óbilgirni ítrustu sjónarmið sín í öllum viðkvæmum málum. Sanngirnissjónarmið eða meðalhóf sé hvergi að finna. Hræddur er ég um að þetta viðhorf sér algengara en mig hafði grunað, og að unga konan deili því með fjölmörgum.

Greinin birtist i  Morgunblaðinu 16. maí s.l.

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 31.3.2015 - 20:59 - FB ummæli ()

Krónan og EES

Aðeins áratug eftir að EFTA samningurinn var undirritaður var ljóst að hann  var bara áfangi. Með vaxandi pólitískum og efnahagslegum samruna Evrópu þurfti betri aðgang að  mörkuðum þar. EES samningurinn hvílir á þremur megin stoðum; frjálsu flæði vöru, þjónustu, vinnuafls og fjármagns. Þetta á að tryggja frjálsan, hindrunarlausan markað með sameiginlegum leikreglum. Undanþágur frá þessum meginprinsippum fást trauðla til lengdar. Landbúnaðar- og sjávarútvegsvörur eru þó sér kapítuli með  breytilegum leiðum fyrir einstök lönd. Slíkir samningar flokkast ekki sem undanþágur.Tímabundnar undanþágur hafa hins vegar  verið við  lýði s.s. vegna frjáls flæðis vinnuafls. Íslendingar sóttu ekki um neinar meiriháttar undanþágur frá fjórfrelsinu fyrr en eftir hrun, er tímabundin undanþága fékkst frá frjálsu flæði fjármagns, þegar gjaldeyrishöftin voru lögfest. ESB samþykkti tímabundna undanþágu vegna stærðar hrunsins og þeirra sérstöku aðstæðna sem hér ríktu þá. Þessi undanþága hefur nú staðið í um fimm ár. Þar sem ríkisstjórnin hefur lýst því yfir að viðhalda skuli krónunni sem gjaldmiðli, og aðildarumsókninni verið ýtt útaf borðinu,  liggur fyrir að sækja þarf um varanlega undanþágu frá einni af megin stoðum EES/ESB.

Varanleg undanþága frá fjórfrelsinu ?

Bretar hafa látið að því liggja að þeir vilji fá varanlega undanþágu frá frjálsu flæði vinnuafls. Þeirri hugmynd hefur þegar verið hafnað. Hætt er við að Ísland fái sambærilega synjun, ef farið verður fram á varanlega undanþágu frá einni megin stoð EES-samningsins. Verði synjun niðurstaða er EES samningurinn í uppnámi. Hvað gerum við þá ? Fórnum við krónunni eða EES, mikilvægustu tengingu okkar við gjöfullasta markað heims ? Eru tvíhliða samningar valkostur ? Sagt er að Sviss hafi þurft að gera 225 sérsamninga í staðinn fyrri einn EES-samning.  Og hvað ef ESB gerði fjórfrelsið að megin kjarna tvíhliðasamninga eins og reyndin er með Sviss ? Hver yrði ávinningur okkar að því að fórna EES og endurnýja efni hans í tvíhliða samningum ? Þá nytum við ekki lengur samfylgdar Noregs sem styrkir stöðu okkar i samningaviðræðum og greiðir hluta af kostnaðar okkar í EES. Við hefðum aldrei náð EES samningunum án aðstoðar annarra landa sem við vorum í samfloti með. Það ber vott um mikinn veikleika að ofmeta styrk sinn.Kannski leitum við á náðir Kínverja ?  Þeir eiga bæði  mikla peninga og öfluga formælendur á æðsti stöðum. En það yrði varla ókeypis. Þjóðin er því miður komin í öngstræti með krónuna. Þótt okkur vonandi takist að komast ólimlestuð úr snöru vogunarsjóðanna þá er það bara upphafið. Með krónuna sem framtíðar ferðafélaga er hætt við því að styttist í næsta klúður. Viðnámsþróttur hagkerfisins hefur dvínað vegna hafta og skorti á framsýni. Samfelld reynsla okkar frá 1922 segir okkur að krónan sé afar gallaður gjaldmiðill. Aldrei hafa þessi sannindi birst okkur skýrar en á árunum fyrir og eftir hrun. Þjóðleg, íslensk peningafræði í hnattvæddum heimi er sjálfsblekking, sem stenst ekki einu sinni skammtímans tönn.

Danska krónan eða evran ?

Hagkerfi Færeyja og á vissan hátt Grænlands eru lík því íslenska hvað varðar þyngsl sjávarútvegs í hagkerfinu. Báðar þessar þjóðir hafa dönsku krónuna að gjaldmiðli og farnast nokkuð vel. Þeir þurfa hvorki að glíma við bölvun verðbólgu né verðtryggingar. Stöðugleiki ríkir í frekar óstöðugum auðlinda hagkerfum þeirra. Danska krónan er tengd evrunni en hefur sveigjanleg vikmörk. Á þau hefur reynt þessar vikurnar. Hvorki Grænland né Færeyjar eru aðilar að ESB, ekki frekar en við. Þótt danska krónan geti vissulega verið kostur er ég ekki sannfærður um að Danir tækju okkur fagnandi,  og alls ekki án strangra skilyrða. Evrunni tengjumst við hins vegar mun sterkari viðskiptaböndum. Stærstur hluti viðskipta okkar við útlönd fer fram í evrum. Breytingar á verði afurða á stærstu mörkuðum  okkar í evrulöndunum skila sér hér í gegnum evruna.  Þá eru hefðbundnar aflasveiflur orðnar hverfandi eftir upptöku aflamarkskerfisins. Hvað þetta varðar er evran nærtækasti kosturinn og sá sem veitir okkur besta skjólið gegn erlendri ásælni. Það er þó vissulega ekkert einfalt mál, því ervan er heimsviðskipta gjaldmiðill og gengi hennar mótast mikið af hreyfingum á hnattvæddum fjármálamörkuðum,en það á einnig við um flesta aðra frjálsa gjaldmiðla, og trauðla tökum við upp evru án þess að ganga í ESB.

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 28.3.2015 - 09:12 - FB ummæli ()

Verstöðin Ísland

 

 

Með krónuna í farteskinu munum við ekki geta aflétt öllum höftum af gjaldeyrisviðskiptum eða leyft frjálst flæði fjármagns milli landa. Engum nema vitleysingi dytti í huga að róa á árabáti til Bretlands. Í hnattvæddum fjármálaviðskiptum er íslenska krónan slíkur árabátur, ef hún þá nær þeirri stærð. Við yrðum að leita ásjár efnahagsstórveldis til að verja gjaldmiðilinn. Heftir gjaldmiðlar draga ekki bara úr samkeppni heldur auka þeir á einhæfni atvinnulífsins. Þeir ýta þeim greinum sem ekki þrífast við höft út af borðinu, meðan verndaðar auðlindagreinar  geta afborði höftin um tíma. Fréttir af flutningi fyrirtækja úr landi eru tíðar. Sá pólitíski og efnahagslegi ávinningur sem náðist með EES-samningnum er að renna okkur úr greipum. Bæði hefur viðskiptaumhverfið breyst og svo virðist sem samningurinn sé að daga uppi í stjórnkerfinu. Lokaðir auðlindaatvinnuvegir munu þola gjaldeyrishöft til skamms tíma s.s. sjávaraútvegur, landbúnaður og stóriðja (að hluta). Þó mun samkeppnishæfni sjávarútvegsins fljótlega líða fyrir innilokunina. Ástandið í landbúnaði er þannig að það verður trauðla greint með verkfærum hagfræðinnar. Framleiðsluiðnaður, skapandi greinar og sprotafyrirtæki munu reyna að flytja starfsemi sína sem mest til útlanda, þar sem þær fá nauðsynlegt súrefni til að þroskast og taka þátt í samkeppni, sem er orkugjafi sérhvers fyrirtækis, sem ekki byggir afkomu sína á vernduðum auðlindum.

Fortíð í forgang

Við þau tímamót þegar fyrsta rifan var opnuð í lokað hagkerfi landsins, á áttunda áratug s.l. aldar, var allmikið rætt og skrifað um hagsældarhorfur landsins. Hagur þjóðarinnar og þróun hagkerfisins hafði dregist afturúr nágrannaþjóðum. Við bjuggum við víðtæk og langvarandi gjaldeyrishöft, háa tolla og innflutningstakmarkanir. Til að viðhalda þokkalegri afkomu voru fiskistofnar ofveiddir og gengið var á landgæði. Við stunduðum rányrkju. Þá ákvað meirihluti alþingis að við skyldum ganga í EFTA. Það var bjarghringur sem dugði um stund. Ég minnist samtala við Magnús heitinn Kjartansson, sem tók við iðnaðarráðuneytinu skömmu eftir inngönguna í EFTA. Þótt hann væri flokkslega innikróaður af þjóðlegum einangrunarsinnum gerði hann sér grein fyrir því að velferð þjóðarinnar var komin undir margþættu atvinnulífi. Hann sagði, að ef ekki tækist að festa fjölbeytt atvinnulíf í sessi, skapa ný störf sem menntað ungt fólk vildi starfa við, myndi landið smám saman þróast í Verstöð – land þar sem lífs- og atvinnuhættir væru sniðnir að þörfum sjávarútvegs og landbúnaðar. Brottfluttir Íslendingar kæmu „heim“ í sumarfrí. Þetta yrði að koma í veg fyrir. Nú er þessi sviðsmynd að raungerast. Bæði fólk og fyrirtæki flytja úr landi og þeir sem ráða ferðinni í stjórnmálum forgangsraða skammtíma hagsmunum sjávarútvegs og landbúnaðar á undan framtíðinni.

Traust

Nýverið barst frétt  um að heimsþekktur tölvurisi ætlaði að fjárfeta fyrir liðlega tvö hundruð milljarða í gagnaveri í Danmörku. Iðnaðarráðherra var fljótur að fullvissa okkur um að allt væri gert til að styrkja samkeppnishæfni landsins. Hann gleymdi að segja frá fælingarmætti íslensku krónunnar og þeirri vantrú sem erlendir fjárfestar hafa á henni sem framtíðar gjaldmiðili þjóðarinnar. Á tímum hnattvæðingar er traustið ásamt langtíma hagnaðarvon þyngsti ákvörðunarþáttur fjárfesta. Sé traustið ekki til staðar er fjárfest annars staðar. Við þetta er Ísland að glíma. Við urðum áþreifanlega vör við hyldýpi vantraustsins í framhaldi af hruninu.Sá skoðun heyrist að við ættum að feta í fótspor Svisslendinga og búa við eigin gjaldmiðil og tvíhliða samninga við erlend riki og bandalög. Sterkur efnahagur þeirra byggist á mjög samkeppnishæfu atvinnulífi og sterkum, frjálsum alþjólegum gjaldmiðli. Ekkert af þessu er til staðar hjá okkur. Vissulega er enginn leikur sjálfgefinn í þessari stöðu. Nýr gjaldmiðill liggur ekki á lausu, og skiptar skoðanir eru um hver sá ætti að vera. Það breytir því ekki að þetta verða íslenskir stjórnmálamenn að leysa. Því dýpra sem þjóðin spólar sig niður í hjólför krónunnar, þeim mun erfiðara mun henni reynast að komast á greiðfæran veg aftur. Við höfum setið árum saman í þeim hjólförum. Er ekki komið nóg ?

Birtist í Fréttablaðinu  21. mars s.l.

 

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 21.3.2015 - 08:51 - FB ummæli ()

Gjaldmiðill í hjólastól

 

Það er samdóma álit flestra þeirra sem fjalla um efnahagsmál af skynsamlegu viti að samkeppni sé helsti drifkraftur öflugs viðskiptalífs og velmegunar í markaðstengdum hagkerfum. Færa má rök fyrir því, að samkeppni í viðskiptum  í ESB/EES ríkjum  sé hvergi minni en á Íslandi. Því valda m.a. stór auðlindageiri, íslenska krónan og smæð hagkerfisins. Auðlinda atvinnuvegirnir  þ.e. landbúnaður, sjávarútvegur og stóriðja bjóða ekki uppá mikla samkeppni og þar sem hægt væri að koma henni við, er það ekki leyft, svo sem með því að bjóða upp hluta kvótans ,sem væri samkeppni í reynd. Þá þjóna bönn á erlendu eignarhaldi í sjávarútvegi og innflutningi á landbúnaðarvörum sama tilgangi. Samkeppni á fjármálamarkaði er einnig í skötulíki og verður það í enn ríkara mæli, eftir því sem lengist í fjármálahöftunum eða meðan krónan er enn gjaldmiðil þjóðarinnar.Á meðan fitna bankarnir og vextirnir haldast háir. Landlægir háir vextir og verðtrygging samninga og lána eru fylgifiskar íslensku krónunnar.Sá sem borgar brúsann  er síðasti neytandi vörunnar, hvort sem það eru matvörur,ferðalög eða húsnæði. Ekkert verndar innlenda starfsemi og dregur úr samkeppni hérlendis eins og veikleikar krónunnar. Því má spyrja, hvort það sé ekki bara gott mál ? Nei, því skortur á samkeppni  er ávísun á stöðnun og síðan afturför.Verndun er einnig ávísun á hátt innlent verðlag og lélegri lífskjör. Með því að viðhalda krónunni er viðskiptaumhverfi landsins sett í sóttkví og ýtt til baka til áranna fyrir 1985.

Forsenda velmegunar

Ríkisstjórn sem vill auka  velmegun og vernda velferð í landinu  verður sífellt hafa auga á samkeppnishæfni landsins. Ef okkur tekst ekki að bæta samkeppnishæfnina umtalsvert munum við ekki geta fjármagnað það sem þó er enn eftir af velferðarkerfinu, hvað þá að borga þau laun, sem halda ungu fólki hér heima. Íslenska krónan er stærsta hindrunin á þessari vegferð. Hún virkar eins og hár, sveigjanlegur verndartollur til að gera innflutning dýrari. Þótt aldrei megi missa sjónir af því, að íslenskt hagkerfi er örsmátt og þar þrífast ekki margir öflugir  leikendur á mörkuðum, þá höfum við verið iðin við að fækka þeim eftir megni. Hér er sú afstaða útbreidd  að  líta á samkeppni sem ógnun. Sérstaklega höfum við haft horn í síðu útlendinga sem hafa viljað fást við heilbrigð viðskipti hér. Þá er ég ekki að tala um viðskipti sem eru af pólitískum toga og til þess stunduð að koma heimalandi viðkomandi til áhrifa í landinu. Það hefur ekkert með heilbrigð viðskipti að gera, heldur nýja,mjúka yfirráðastefnu.

Sterkur gjaldmiðill vernd gegn ásælni

Sterkur og stöðugur gjaldmiðill er lykillinn að samkeppnishæfu hagkerfi. Það er engin tilviljun að þær þjóðir sem búið hafa við sterkustu gjaldmiðlana hafa jafnframt verið árangursríkastar í heimsviðskipum. Sterkur gjaldmiðill er pískur til meiri hagkvæmni og vörn gegn hagsveiflum. Þá má ekki gleyma þeim mikla vaxtamun sem er að jafnaði á milli sterkra gjaldmiðla og veikra.Hér er hann 5–10% m.v. evrulöndin. Sterkur gjaldmiðill er jafnframt hlíf gegn ásælni og yfirráðum fjársterkra einstaklinga eða ágengra  ríkja. Lítill veikburða gjaldmiðill er auðveld bráð þeim sem vilja koma róti á efnahag lands og valda pólitískum óróa. Í litlum vanmáttugum gjaldmiðli liggur mikil pólitísk áhætta. Ein megin ástæða þess að  Eystrasaltsríkin flýttu sér við að taka upp evruna var að útiloka þann leik Rússa að valda usla í efnahag þeirra með því að veikja litlu þjóðlegu gjaldmiðla þeirra. Þetta ætti að verða okkur Íslendingum sérstakt umhugsunarefni. Og það þarf hvorki Rússa né Kínverja til. Það dugar einn stór íslenskur banki. Þó ekki væri nema af þessum sökum mun íslenska krónan aldrei getað þjónað þjóðinni sem frjáls gjaldmiðill. Hún verður bundin í hjólastól, gengi hennar „handstýrt“ og hún mun ekki verða gjaldgeng erlendis. Íslenskum bönkum verður ekki leyft að setja niður útibú erlendis. Sömu sögu er að segja um útibú erlendra banka hérlendis, nema Kínverjar vilji hasla sér völl hér, til að hliðra fyrir áhrifum stjórnar sinnar á stjórnmál og efnahag landsins. Ef þessi litla þjóð á að geta dafnað á erlendum mörkuðum og bægt frá sér erlendri ásælni, þarf hún alþjóðlegan gjaldmiðil. Gjaldmiðill í hjólastól mun hins vegar verða íslenskum efnahag fjötur um fót.  Það er því dýrkeypt  blekking að halda að það beri vott um þjóðlega reisn og sjálfstæði að halda dauðahaldi í krónuna. Þessu er því miður öfugt farið. Hún er ógn við fullveldi þjóðarinnar.

 

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 7.3.2015 - 14:49 - FB ummæli ()

Vestræn gildi í vörn

 

 

Þegar Berlínarmúrinn féll 1989 og Sovétríkin  lognuðust út af 1991, litu ófáir svo á sem Vesturlönd hefðu sigrað í Kalda stríðinu og þar með hefði samfélagstilraun þeirra, sem hefur lýðræði ,réttarríki, mannréttindi og frelsi að leiðarljósi,  fest sig varanlega í sessi. Amerískur fræðimaður skrifaði um endalok sögunnar. Nú 25 árum síðar virðist sem hér hafi mönnum skjátlast alvarlega. Vesturlönd eru komin í vörn víða um heim.  Á síðustu misserum hefur vestrænt lýðræðissamfélag verið skorað  eftirminnilega á hólm. Rússar innlimuðu hluta af Georgíu og síðan Krímskaga og komu af stað borgarstríði í austurhluta Úkraínu. Íslamska ríkið lagði undir sig hluta af Sýrlandi og Írak. Kína varð sterkasta efnahagsveldi heims og lét engan ganga þess gruflandi, að þeir myndu nota þetta afl sitt til hernaðaruppbyggingar og til að auka pólitísk áhrif sín um allan heim. Tyrkland steig stór skref frá veraldlegu lýðræðisríki til trúarlegs valdstjórnarríkis (authoritarian) og hefur tekið upp náið samstarf við Rússland. Arabíska vorið hefur snúist uppí andstæðu sína allstaðar, ef frá er talið Túnis. Þótt finna megi mismunandi skýringar á þessum atburðum, þá liggur að baki þeim sameiginleg  ósk um að snúa baki við vestrænum gildum og láta þau ekki lengur stýra lífi fólks í þessum samfélögum.

Nýir vindar í Evrópu

Í Evrópu  hefur einnig orðið vart viðhorfsbreytinga. Umburðarlyndi gagnvart þeim sem eru annarrar skoðunar, sem er eitt af stoðum vestræns samfélags, er víða á undanhaldi. Hægra lýðskrum eða pópulismi hefur breiðst út um álfuna og flokkar þeirrar ættar hafa  styrkt stöðu sína í Evrópukosningum  í stóru löndum Evrópu. Þessir flokkar eru  fjandsamlegir útlendingum, róa á mið þjóðernishyggju og hugmyndafræði þeirra er valdstjórnarleg ekki lýðræðisleg. Þeir eru t.d.  flestir vinsamlegir í garð Pútíns. Þeim finnst fjölskoðunar- og fjölmenningarsamfélagið ógna sér og  telja hamingju þjóða sinna liggja í einsleitum þjóðríkjum með eigin gjaldmiðil. Annað einkenni þeirra er þrá eftir einföldum sannleika.  Vonandi eru þetta ekki forboðar varhugaverðari atburða úr sögunni. Þjóðernisstefnan í Evrópu allt frá aldamótum 1900 og fram til 1950 breytti heilli álfu úr því að vera heimshluti þar sem samlíf og sambland mismunandi þjóðerna, fjölbreyttra trúarbragða og margra tungumála var ríkjandi, yfir í það að samanstanda að mestu af einsleitum, þjóðernis hreinsuðum ríkjum. Útbreidd og róttæk þjóðernishyggja sá til þess. Þegar búið var að útrýma samfélagslegri fjölbreytni, fann álfan loks frið. Nú samtengist hún að nýju sem smáríkjahópur. Í þetta sinn innan bandalags,  sem er dæmalaust  í sögunni fyrir viðleitni og getu til að snúa hlutum til betri vega.

Hvert stefnir Ísland ?

Við  hér uppi á Íslandi höfum heldur ekki með öllu farið varhluta af þessum pólitísku sunnanvindum. Við höfum einnig lokað gluggum og þrengt útsýnið.Þjóðernishyggja og pópúlismi  eru orðin að þjóðarstefnu. Í síðustu alþingiskosningum komust til valda flokkar sem fluttu með sér þau skilaboð til þjóðarinnar, að við skildum hafa sem mesta einstefnu í samskiptum við aðrar þjóðir.  Skortur á skilningi og umburðarlyndi gagnvart framandi menningum og trúarbrögðum þykir nú gjaldgengur í opinberri umræðu. Þjóðernishyggja  leikur lausum hala. Hún þolir hvorki fjölskoðunar- né fjölmenningarsamfélag. Hún er ólán sérhvers samfélags. Hér heyrist einnig sá boðskapur, og það af æðstu stöðum, að við eigum að halla okkur að valdstjórnarríkjunum Rússlandi en þó einkum Kína, enda hafa Kínverjar gert sér óvenju dælt við okkur um margra ára skeið. Það gera þeir að vísu einnig við mörg önnur lítil og veikburða ríki, sem ekki geta staðið óstudd í ólgusjó hnattvæðingarinnar.  Þeir munu fúslega rétta okkur hjálparhönd, þegar á bjátar og gera okkur sér  háð. Á sama tíma fjarlægjumst við vestrænar lýðræðisþjóðir og sýnum þeim jafnvel ódulbúna andúð einkum ESB. Þetta eru ekki viðhorf valdalítillar sjálfsprottinnar  hreyfingar, heldur stefna ríkisstjórnar Íslands. Við erum eina ríki vestur og mið Evrópu sem rekur slíka utanríkisstefnu. Það skapar tortryggni og vantraust og leiðir til pólitískrar einangrunar og áhrifaleysis. Því er hún svo hættuleg.

Birtist í Fréttablaðinu 6. mars 2015

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 8.2.2015 - 19:18 - FB ummæli ()

Vestræna samfélagstilraunin og við

 

Mikið er nú talað um sameiginleg gildi vestrænna samfélaga. Þeim virðist ógnað af hópum öfgamanna sem aðhyllast islamisma. Hver eru þessi gildi og hvaðan koma þau ? Eins og aðrar þjóðir erum við Íslendingar hluti að stærri samfélaglegri og pólitískri menningarheild, sem þróast hefur  í aldanna rás. Við erum hluti af vestrænni samfélagsgerð, sem hefur lýðræði, réttarríki, mannréttindi og frelsi einstaklings að leiðarljósi. Þetta eru undirstöður þeirrar samfélagsgerðar sem barist hefur verið fyrir og mótast hafa í Vesturevrópu og síðar á öðrum Vesturlöndum í hartnær 2000 ár. Þessi samfélagsgerð lýðræðis og réttar  hefur fært hefur okkur mikla velmegun og óviðjafnanlegt frelsi til að þroska og þróa einstaklinginn og samtök hans.

Vestræn samfélagstilraun

Þessi tilraun hófst með orðum Krists: Gefið keisaranum það sem keisarans er, en Guði það sem Guðs er. Þar með var guðlegt og veraldlegt vald aðskilið hjá hluta þeirra sem aðhylltust kenningar Jesú Krists. Engin önnur trúarbrögð hafa tileinkað sér þessa aðgreiningu með svipuðum hætti. Enn þann dag í dag hafa múslímar ekki stigið þetta skref.  Ekki hvað síst þess vegna eru samskipti þeirra við Vesturlönd svo erfið. Þegar kirkjan síðan klofnaði í Austurkirkju (Byzanz)og Vesturkirkju (Rom) var það m.a. þessi aðgreining sem skildi á milli, vesturs og austurs. Austurkirkjan lagði aðra merkingu í fyrrnefnd orð og viðurkenndi aldrei  í reynd aðskilnað þess veraldlega og þess guðlega. Rétttrúnaðarkirkja  var þessi kirkjudeild kölluð á íslensku.Rússneska rétttrúnaðarkirkjan er höfuðkirkja þessarar deildar. Við aðskilnað kirkjudeildanna mynduðust  ný landamæri  í gegnum Evrópu, sem enn þann dag í dag skilja á milli vestrænnar samfélagshugsunar og austrænnar ,milli  lýðræðis, réttarríkis og frelsis annars vegar og fá- eða einmennisvalds og réttleysis , bælingar og kúgunar hins vegar. Átakasvæðin í Evrópu nútímans ganga enn þvert í gegnum þessa gömlu aðskilnaðarlínu, hvort heldur það er í Bosníu  eða Úkraínu og að mörgu leyti einnig Grikkland. Fyrrnefnd leiðarljós eiga erfitt uppdráttar á svæðum þar sem sögulegur grundvöllur er ekki fyrir hendi.

Tilraunin þróast og þroskast

Vestræn samfélagstilraun þróast síðan áfram í gegnum Endureisnartímann, þar sem pólitísk og heimspekileg forngrísk rit eru nýtt til að endurvekja gleymda hugsun, varpa nýju ljósi á og endurnýja samfélagið. Siðbótin færir okkur enn nær veraldlegri og samfélagslegri hugsun, þar sem einstaklingurinn er settur í beint talsamband við Guð.Í kjölfar hennar verða miklar breytingar sérstaklega í lútherskum löndum. Síðan fylgja stjórnarumbætur á Englandi og með Upplýsingastefnunni   er varpað enn nýju ljósi á hlutverk ríkisins, einstaklinsins, trúabragða og samfélagsins. Næstu stóru skrefin í þróun þessarar tilraunar var svo byltingin á Frakklandi og mannréttinda- og frelsisyfirlýsing Bandaríkjanna. Jafnframt kom almennur og jafn kosningaréttur og síðar jafnrétti kvenna. Enn stendur þessi barátta yfir á nýjum jafnréttissviðum. Á handahlaupi má þannig rekja misafdrifaríka áfanga á þroskaleið vestrænnar samfélagsgerðar. Henni verður aldrei lokið, er sífellt í mótun. Við erum enn í dag að ná fram auknu jafnrétti fyrir einstaka samfélagshópa. Vestrænar þjóðir eru einnig mislangt komnar í þróun samfélagsins. Við Íslendingar höfum enn ekki náð jöfnum kosningarrétti, því eru lög landsins ekki nema að hluta til sniðin að heildarhagsmunum, heldur  hagsbótum þrengri hópa. Þar er verk að vinna.

Flókin samfélagsgerð

Þótt Ísland komi seint til leiks og hafi á síðustu öld þróast eins og ofvaxinn, fordekraður unglingur, þá erum við óaðskiljanlegur hluti  þessarar vestrænu samfélagstilraunar. Trúarbrögðin, stoðir menningar okkar, uppbygging réttarkerfis og stjórnskipunar, frelsi einstaklingsins og mannréttindi. Allt eru þetta megin gildi vestræns já, okkar samfélags. Ekki virðist vera mikill ágreiningur um það meðal þjóðarinnar. Þótt við séum ósammála um fyrirkomulag einstakra  þátta og vægi þar á milli,  þá er stjórnskipanin ekki umdeild. Vestrænt samfélag er vissulega flókið. Þar eru margar skoðanir á lofti og menn deila af aumasta tilefni. Löngum hafa verið til staðar tilhneigingar til að einfalda fjölskoðunarsamfélagið og gera eina skoðun  ríkjandi. Því finnast alltaf þeir sem heillast af stjórnarfyrirkomulagi þar sem ein skoðun er gerð að skoðun ríkisins. Það einfaldar vissulega margt og ýmsum finnst það traustvekjandi. Fjölskoðunar og fjölmenningar samfélög  eru bæði frjálsari og mennskari svo og auðugri af mannauði og leysa mikla orku úr læðingi. Við verðum því að berjast fyrir þessum gildum á heimavelli, ekki láta eins og þau komi okkur ekki við. Bandamenn okkar erlendis eru þau ríki þar sem þessi gildi eru höfð í hávegum – önnur ekki.

Birtist í Fréttablaðinu 7. febr. 2015

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 9.12.2014 - 10:04 - FB ummæli ()

Þjóðernisöfgar, fávísi og stríð

 

Árið sem er að líða  er mikið afmælisár. Við  minnumst upphafs þriggja stríða. Frá ófriði Dana og Prússa árið 1864 eru liðin 150 ár.  Heil öld er síðan heimsstyrjaldöldin fyrri  hófst 1914, og frá upphafi seinni heimsstyrjaldarinnar eru  liðin 75 ár.  Sjónvarpið sýnir nú danskan sjónvarpsþátt, sem fjallar um þessi afdrifaríku átök 1864. Þar er dregið fram hvernig fávísir, þröngsýnir og vitgrannir  stjórnmálamenn kynntu undir blindum ofmetnaði, dönskum þjóðernisyfirburðum  og megnri vanþóknun gagnvart útlendingum, ekki hvað síst nágrönnunum í suðri.Svo staurblindir voru þeir af  þjóðrembuofsa að frekar létu þeir slátra lunganum úr dönskum ungmennum á vígvellinum en viðurkenna dapurlegar staðreyndir. Málamiðlanir jafngiltu svikum. Kenjar og duttlungar réðu ferð. Þeir töpuð því stórt. Afstaða annarra evrópskra stjórnmálamanna sunnar í álfunni hálfri öld síðar, einkenndist af sama hugaræði ofmetnaðar og eigin þjóðlegra yfirburða. Við klárum þetta á hálfu ári sögðu vímuvilltir Þjóðverjar 1914. Slátrunin, grimmdin og glæpaverkin voru eftir því. Hrikalegar afleiðingar fyrra heimsstríðsins mótuðu sögu álfunnar út öldina. Tuttugu og fimm árum seinna hófst enn einn hildarleikurinn upprunninn úr ofstopafullri þjóðernishyggju, af áður óþekktum ofsa. Nú var ekki bara ráðist á fyrirlitlega útlendinga, heldur gengið á milli bols og höfuðs á samborgurum, sem ekki höfðu réttan þjóðlegan uppruna, jafnvel  langt fram í ættir. Atburðarás, endalok og afleiðingar þessa þjóðamorða þekkjum við of vel. Mannlegar hörmungar eru framdar af vitskertum leiðtogum.

Bölvun þjóðrembunnar

Ein megin kveikjan að þessum stríðum var sú sama, þótt blæbrigðin væru ólík. Öll áttu þau það sameiginlegt að kvikna og nærast af þjóðernishyggju, en hún byggir á þeirri tilfinningu að einhver ákveðinn hópur fólks sé útvalinn, sérstakur og æðri öðrum. Það er því örstutt skref á milli þess að ofmeta eigin þjóð og málstað hennar og að fyrirlíta aðrar þjóðir.  Blindur þjóðrembingur og ranghugmyndir um völd, stöðu og getu, leiddu og leiða enn heilar þjóðir á villigötur jafnvel glötun. Engar samfélagskenningar eða „ismar“ eru eins varasamir til pólitísks brúks, því þjóðernishyggjan grundvallast á tifinningu, ekki rökhyggju. Auðvelt er  að vinna henni fylgi. Einstaklingum, hópum eða þjóðum finnast þau vera  sterkari og öruggari,  ef þeim er sagt að þau skari fram úr öðrum. Erfitt getur því reynst að halda þjóðhyggjunni í skefjum, því auðvelt er að spila á þessar tilfinningar. Á tímum umróta, breytinga á lífskjörum og óvissu er skírskotun til þjóðlegs ágætis og yfirburða vel þegin. Þess vegna komust og komast þjóðrembumenn svo auðveldlega til valda. Því betur voru og eru líka til í öllum löndum, stjórnmálamenn sem ekki leika á pólitískt tilfinningalíf fólks  með þessum hætti. Aðdráttarafl þjóðernishyggjunnar og kjörþokki hennar er enn mikill. Einbeiting að eigin verðleikum gerir þjóðir þröngsýnar, sem einangrar og er ávísun á áhrifaleysi.  Hugarheimur tilbúinna yfirburða verkar illa á aðrar þjóðir.

Íslenska útgáfan

Allt frá dögum sjálfstæðisbaráttunnar hefur þjóðernishyggja verið sterk hérlendis. Framan af var hún aflvaki þjóðvakningar og orkugjafi . Á síðustu tímum  hefur hún  hins vegar þróast yfir í ágenga þjóðrembu sem byrgt hefur sýn. Í stað hófsemi kom oflæti. Úr hógværð varð hroki. Við  lentum í gjörningarveðri þjóðernisskrumsins. Hér voru kveiktir eldar þjóðlegra afburða og arfborins ágætis. Því miður lifir enn  í þeim glæðum. Íslenskir stjórnmálamenn ólu og ala enn á sérstæði og yfirburðum þjóðarinnar, þótt minnimáttarkenndin blasi við í áráttu okkar við, að þykjast allstaðar vera  „á heimsvísu“. Oflæti, hroki og ofmetnaður urðu  þjóðarlestir sem alræmdir voru í útlöndum. Við urðum, eins og Danir 1864, blindir á getu okkar,veikleika og vanmátt. Enn þykjumst við fullfærir einir,enda er pólitískur einstæðingsskapur okkar áberandi. Í þessu andrúmslofti ofláts og ruglaðrar dómgreindar gerðu íslenskir útrásarvíkingar strandhögg, rændu fjárhirslur evrópskra banka, stofnana og sparnaði einstaklinga. Árásir á fjármálakerfi eru nútíma stríð.Hér fór þetta sviðað og hjá Dönum 1864. Sjálfsmörkin urðu dýrkeyptust. Litlar þjóðir geta vissulega valdið miklum usla ef brotaviljinn er einbeittur eða sem síst er betra, ef  hyggjuleysið er algjört.

Greinin birtist í Fréttablaðinu  8. des. s.l.

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 28.10.2014 - 17:08 - FB ummæli ()

Ríkisútvarpið – hvað næst ?

 

Það blæs ekki byrlega fyrir Ríkisútvarpinu þessa dagana. Margra ára skuldahaugur hvílir á rekstri þess og  stjórnendum er uppálagt að skera niður. Magnús Geir er ekki öfundsverður af starfi sínu. Hann tekur við afleitu búi.Hvernig gat það gerst að grundvallarstoð íslenskrar menningarmiðlunar og menningarvarðveislu, er að blæða út ? Finnst stjórnmálamönnum sem ríkisútvarpið skipti ekki máli eða að hægt sé að reka alvöru menningarfjölmiðil  án alvöru tekna ? Það erfiðasta sem Ríkisútvarpið þarf þó að glíma við, er það menningarpólitíska tómarúm sem umlykur starfsemi þess. Það er bara þarna eins og venslalaus  einstaklingur á víðavangi. Það á að sjá um sig sjálft. Það var mikið óheilla skref sem fyrrverandi fjármálaráðherra  steig, þegar hann tók hluta af áskriftargjaldi ríkisútvarpsins og lét það renna í ríkissjóð. Það var baneitrað fordæmi, jafnvel þótt reynt væri að réttlæta það. Þá var það vanræksla hjá fyrrverandi stjórnendum að takast ekki strax á við lífeyrisskuldbindingar stofnunarinnar. Nú er það að verða of seint.  Þetta var upphaf þrautargöngu RÚV sem engan enda sér á. Þá er það auðheyrt að áhrifamiklir pólitískir einkavæðingarsinnar vilja ekkert ríkisútvarp. Þeir eiga öfluga forsvarsmenn í báðum ríkisstjórnarflokkunum. Á meðan svo er mun enginn friður verða, hvorki um daglegan rekstur, fjárhagsaðgerðir né framtíðarsýn RÚV. Einu skilaboðin sem almenningur fær úr Efstaleitinu er vonlaus skuldastaða, erfiður rekstur og vængbrotin dagskrá.

Opinber fréttamiðlun og menningarrækt

Flestar þær þjóðir sem eru okkur næstlægar reka öfluga ríkisfjölmiðla í formi útvarps og sjónvarps. Undantekning  eru BNA.  Á Norðurlöndum og á meginlandi  Evrópu eru ríkisfjölmiðlar kjölfestan í frétta- og menningarfjölmiðlun viðkomandi landa. Um það ríkir pólitísk sátt, þótt núningur geti orðið við skipan einstakra stjórnenda. Megin straumar stjórnmálanna telja að þannig verði fréttamiðlun og kostnaðarsöm menningarrækt best af hendi leyst. Styrkur almannavalds  og almenningsálits í samfélagi þessara þjóða er svo sterkt, að stjórnmálamenn virða vilja þess. Þannig vinna þroskaðar, siðmenntaðar þjóðir. Einnig hér hjá okkur ríkti fyrrum sátt um öflugt Ríkisútvarp, þótt átök í útvarpsráði væru  tíð ,einkum ef um ómerkilega hluti var að ræða. Megin munur á samfélagslegri umgjörð útvarpsmála hérlendis  og í grannríkjum okkar er að hér hefur almannahugsun löngum verið veik og almenningsálitið breytilegt eins og vindáttirnar. Við erum svo fámenn og auðvelt að ná eyrum okkar,að öflugur pólitískur áróður getur  sveiflað almenningsálitinu  fram og til baka. Einræna fásinnisins  mótaði þjóðina meir en samhyggja þéttbýlisins, sem var ekki burðugt lengi vel. Áhrifavald almannaálitsins  veitir stjórnmálamönnum hér því ekki sama aðhald.

Rás 1,5

Dagskrá útvarpsins hefur einnig orðið fyrir áföllum í þessum þrengingum. Rás 1 eða Gamla gufan, sem einu sinnu var, er ekki svipur hjá sjón, eftir að hún var sameinuð  Rás 2 á aðalhlustunartímum . Búið er að aðlaga dagskrána óskum auglýsenda.Háværar  auglýsingar fá kjörstaðsetningu í dagskránni. Utan um þær sveipast umgjörð efnislítilla viðtala, fyllt upp með gnauði frá stuðmúsík. Svona samsetning breytir sérhverjum hlustanda í  steinrunna mosaþembu. Af hverju má ekki móta dagskrána að hlustendum sem eru aðal greiðendur stofnunarinnar? Ég hélt lengi vel í þá von, að við sem höfum litla ánægju af síbyljutónlist sem uppistöðu í dagskrá, fengjum að hafa Rás 1 í friði. Sennilega eru  gagnrök  útvarpsstjórnenda  þau, að bæði hlustun og tekjur hafi aukist með þessum breytingum. Slík áhrif eru velþekkt, þegar staðlar eru lækkaðir.Opinber fjölmiðill  verður að miða dagkrá sína kröfuharðara  viðmiði um upplýsingu og menningarmiðlun, en auglýsendur  gera.Verði framhald á þessari pop- og auglýsingavæðingu, hlýtur almenningur að spyrja, hvort ekki sé rétt að losa um skylduaðildina. RÚV er þó enn okkar BBC, DR, NRK, ARD. Það er daglegur félagi okkar, velferð þess og reisn skiptir okkur öll máli.  Alþingi verður að höggva á tilvistarvanda þess. Auðvelda því að losna  við fjárhaglegar byrgðar fortíðarinnar, og gefa okkur  með því von um skapandi,kröfuharða og þar með skemmtilega  dagskrá.

Greinin birtist í mbl. 27.10.2014

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Þröstur Ólafsson
Hagfræðingur. Á eftirlaunum. Margvísleg störf, bæði opinber sem og hjá öðrum.
RSS straumur: RSS straumur