Fimmtudagur 2.10.2014 - 15:27 - FB ummæli ()

Lendir skulu lög setja

 

Umræður um landbúnað á Íslandi hafa löngum verið óhægar. Því veldur tilfinningarík afstaða þjóðarinnar  til sveitanna.Upprunin erum við flest úr bændastétt, við höfum verið í sveit eða búið í sveit, auk þess sem okkur þykir afar vænt um landið okkar. Þessi tilfinningatengsl eru ekki til staðar gagnvart nokkurri annarri starfsstétt. Þess vegna eigum við erfitt með að gera greinarmun á landbúnaðarkerfinu og bændum.Gagnrýni á kerfið er tekin sem árás á bændur. Þar með er umræðunni lokið.Annað sem gerir umræðuna örðuga er hve kerfið er tyrfið.Aðeins sérfróðir kunna full skil á gangverki þess. Þeim er innanhandar að finna veikleika í málflutningi annarra. Margar forsendur þess eru fljótandi og því auðvelt að benda á að tiltekinn útreikningur sé á misskilningi byggður. En landbúnaður er atvinnugrein og við verðum að geta rætt starfsskilyrði hennar af skynsamlegu viti. Það er oft stutt úr særðu rökþroti í ofstopa. Það er ekki langt síðan forystumaður úr bændastétt krafðist þess af háskólarektor að prófessor, sem lagði út af opinberum tölum um landbúnað, yrði rekinn.

Hækkandi fjárframlög

Gangverk landbúnaðarins hvílir á tveimur heimildarlögum. Önnur fjalla um framleiðslu,verðlagningu og sölu á búvörum en hin, búnaðarlögin um framlög ríkisins til ýmissa verkefna. Á grundvelli þessara heimildarlaga semja ráðherrar við Bændasamtökin. Íslenskri stjórnsýslu í landbúnaðarmálum hefur vísvitandi ætíð verið haldið svo veikri að samtök bænda, sáu bæði um að móta innihald samninganna og hafa eftirlit með framkvæmd þeirra. Stundum var sagt að Bændasamtökin semdu við sig sjálf. Það var því að vonum að ný ríkisstjórn drægi landbúnaðinn útúr stóru sameinuðu atvinnuvegaráðuneyti, til fyrra horfs. Innan öflugra ráðuneytis hefði sjálfsafgreiðslan getað orðið örðugri. Samningarnir eru gjarnan til nokkurra ára og taka oftast árlegum hækkunum auk vísitölutryggingar. Þegar fjárlagafrumvarp er samið eru niðurstöðutölur úr samningunum settar þar inn og alþingi er áhorfandi.Mjög hagkvæmt fyrirkomulag. Búvörusamningarnir  eru því aldrei ræddir á alþingi og ég hygg að fæstir þingmanna hafi lesið þá. Þannig er hækkun framlaga til verkefna fram til 2017 árlega um og yfir 4% auk verðlagsbóta. Á meðan heilbrigðiskerfið þarf að draga verulega saman seglin, Landspítalinn hrópar á hjálp,framhaldsskólar eru skornir niður, löggæslan er í fjárþröng og dregið er úr velferð þjóðarinnar, þurfa bændur ekki að óttast samdrátt, þökk sé samningum sem gerðir voru fyrir einhverjum árum.Þeir eru undanþegnir aðhaldsaðgerðum og niðurskurði.Hugtakið hagræðingakrafa er óþekkt þar á bæjum.

„ …þó ekki hóffjaðrir. “

Þegar við sem sátum í fyrstu skattsvikanefndinni (1983-1984) kölluðum  Sigurbjörn heitinn Þorbjörnsson þáverandi ríkisskattsjóra á fund okkar og spurðum  hann um skattalögin íslensku, hvort í þau vantaði eitthvað mikilvægt ákvæði, og vorum þá með hugann við verkefni nefndarinnar, svaraði  hann: „ Já, fyrsta grein skattslaganna hefur aldrei verið skrifuð. Hún ætti að hljóða : Þrátt fyrir ákvæði laga þessara, skulu þau ekki gilda um bændur.“ Þó í orðum þessum lægi lúmsk kímni, þá segja þau mikið um stöðu bóndans í íslensku lagaumhverfi. Lög Íslands voru meira og minna sniðin að ýtrustu hagsmunum bændastéttarinnar. Skattalögin, svo dæmi sé tekið, voru það haganlega úr garði gerð, og án þess að mikið bæri á, að bændur sluppu að mestu. Það er t.d. afar snúið að finna hver séu laun bænda.Hvaða tala sem ekki er hagsmunagæslumönnum að skapi, er skotin í kaf með öðrum og „raunhæfari“ forsendum. Þá þekkjum við dæmið um vaskleysið á sölu laxveiðileyf.Einhver hefur giskað á þar sé um 300-400 m.kr. að ræða. Afurðastöðvarnar eru undanþegnar samkeppnislögum, og þannig mætti halda áfram.

Lendir og landleysingjar

En hvernig stendur á því að ein stétt nær slíku tangarhaldi á einu þjóðfélagi ? Við teljum okkur þó lifa í upplýstu,vestrænu jafnréttissamfélagi. Saga Íslands svarar því. Frá upphafi Íslandsbyggðar voru það stórbændur með aðstoð kirkjunnar manna, sem settu lög og umferðarreglur samfélagsins. Kúgun vinnuhjúa og ánauð leiguliða var megineinkenni  gamla bændasamfélagsins. Lög bönnuðu fasta búsetu við sjávarsíðuna og komu þannig í veg fyrir þéttbýlismyndun og samkeppni um vinnuafl Barátta bænda gegn þurrabúðafólki stóð allt fram undir aldamótin 1900. Þegar ekki var lengur hægt að sporna við þéttbýlismyndun, var samt hægt að skerða rétt þessa fólks. Það átti ekkert land og var því léttvægara en landeigendur. Með því að gera vægi atkvæða þeirra til þingkosninga minna en sveitafólks gátu efnabændur haldið áfram að móta meginlínur þjóðfélagsins. Þar skiptu viðskipta- og framleiðsluskilyrði landbúnaðarins mestu.Um leið og kræla tók á frjálslyndum sjónarmiðum  í landbúnaðarmálum, var brugðist við af festu og sett sérlög. Engin önnur atvinnugrein nýtur þeirra forréttinda að búa við sérlög um alla sína starfsemi.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 14.9.2014 - 13:28 - FB ummæli ()

Landbúnaðarkerfið – broddur á barka þjóðarinnar

Eina atvinnugreinin hérlendis sem enn starfar við víðtæk innflutningsbönn,ofurtolla en jafnframt umtalsverða ríkisstyrki er landbúnaðurinn. Landbúnaðarkerfið íslenska er mikil ógagnsæ flækja, hannað í anda gamla sovéska hagkerfisins. Megin inntak er að framleiða sem mest, óháð afkomu eða eftirspurn. Vinnutekjur í sauðfjárrækt er nánast engar, þótt óseljanlegt kjöt hrúgist upp. Inntektin kemur beint frá ríkinu.Starfsumhverfi íslenska bóndans er sovést, því hann ber enga ábyrgð á eigin framleiðslu. Afkoma hans ákvarðast á skrifstofum í Reykjavík. Það skiptir einstaka bændur litlu máli, þótt allir markaðir séu yfirmettir. Lögmál framboðs og eftirspurnar eru að engu höfð. Sovétmenn, þóttust hafa afsannað hin „kapítalísku“ lögmál um framboð og eftirspurn,en gáfust að lokum upp nær örendir. Íslenska bændaforustan og stjórnmálaflokkar hennar þybbast við og lofsyngja þetta örláta sóunarkerfi. Þá er ótalin sú jarðvegseyðing sem stóraukið beitarálag veldur hrjóstrugum úthaganum.

Niðurgreidd offramleiðsla

Skömmu eftir að aflamarkskerfinu í sjávarútvegi var komið á fót, en það gekk m.a. út á að  laga sókn að veiðigetu fiskistofna, voru bújarðir „kvótasettar“.Opinber tilgangur var sagður vera að laga framleiðslumagn að  innlendri eftirspurn.Reynslan sýnir að það var blekking.Kvótasetning í mjólkurframleiðslu virðist beinast að bændum sjálfum til að koma í veg fyrir að þeir fari að keppa hver við annan í verði. Kvótinn í sauðfjárrækt virðist vera mælikvarði á framtíðargreiðslur úr ríkissjóði. Offramleiðslan er óbreytt.Nýverið birti Hagstofan upplýsingar um að af 9000 tonna lambakjötsframleiðslu væru enn um 2000 tonn óseld, þrátt fyrir að flutt hafi verið út um 2500 tonn. Þetta segir að ekki þurfi að framleiða nema um 4000 tonn til að fullnægja innlendri neyslu. Það má vissulega finna réttlætingu á niðurgreiðslu kindakjöts innanlands. Haft var eftir einum forystumanna bænda að útflutningur á kindakjöti væri þjóðhagslega hagkvæmur. Sú hagþvæla, að örlítið brot af heildarkostnaði sem skili sér í gjaldeyri, réttlæti útflutninginn, er aumkunarverð. Meinleg er sú manngæska að niðurgreiða mat ofan í útlendinga á meðan 12500 Íslendingar eiga hvorki til hnífs né skeiðar. 2500 íslensk börn fá ekki nægju sína að borða, en okkur er svo hlýtt til stöndugra útlendinga að við eyðum stórfé til að gefa þeim ódýrt kjöt. Þetta hefði einhvern tíma verið kölluð rangsnúin mannúð.

Hverjum þjónar sóunin ?

Svona dýrt og sóunargjarnt framleiðslukerfi nærist ekki bara af þröngsýni og þrjósku.Eini markvissu hvatinn sem innbyggður er í kerfið er sá að fjölga sauðfé án afkomuáhættu fyrir bændur. Þótt útflutningsbæturnar hafi að nafni til verið afnumdar, þá er  nú farið bakdyrameginn inní ríkissjóð. Greiðslurnar skila sér. Þótt kerfið gagnist ekkert sérstaklega minni bændum,þá þjónar það ágætlega þeim sem geta nýtt sé vissa hagkvæmi stærðarinnar, þeim sem geta sankað að sér kvótum og þar með greiðslum úr ríkissjóði. Þá kveinka innflytjendur fóðurs og áburðar sér ekki undan þessu kerfi.Og ekki má gleyma afurðarstöðvunum. Þær hagnast af því að meðhöndla og vinna úr vöru sem stendur vart undir eigin framleiðslukosnaði. Svína- og alifuglabændur maka krókinn í skjóli innflutningsbanns. Já- þetta er vissulega mikið töfrakerfi fyrir alla aðstandendur þess, nema þá sem borga brúsann. Við greiðum fyrir helmingi meira kjöt en við borðum. Landið er ásetið fé sem enginn þarf á að halda. Fáir útvaldir,sem hafa tögl og hagldir á öllum ríkisstjórnum, sjá til þess að vitleysunni er haldið áfram. Þessari skaðlegu óráðsíu verður að linna, því auk útgjalda fyrir almenning, er þetta ein af stóru hindrununum áleiðis til heilbrigðari atvinnuhátta, svo ekki sé minnst á landvernd.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 27.8.2014 - 21:35 - FB ummæli ()

Að vanda sig

 

Það mun hafa verið Þorsteinn Gylfason sem sagði að menning væri það að vanda sig. Þetta er hagnýt en jafnframt djúp hugsuð skilgreining. Til eru margar fleygar skilgreiningar á menningu. Sú þekktasta sennilega ættuð úr Vilta vestrinu; „þegar ég heyri orðið menning gríp ég um byssuskeftið“. Það er nokkuð önnur nálgun en hjá Þorsteini. Kannski óttuðust  þessir ofbeldismenn Vestursins ósýnilegt afl menningarinnar, það gæti tafið fyrir ef þyrfti að vanda sig við að ákveða, hvort drepa skyldi. Yfirfært á annað svið, þá könnumst við Íslendingar við þá sjálfsmynd að við séum öðrum þjóðum fremri í því að vera skjótráðir til ákvarðana. Á meðan aðrar þjóðir þurfi langan tíma til að velta fyrir sér tiltekinni framkvæmd, þá sé hún afgreidd á einum stuttum fundi hér. Það fyrrnefnda skoðast sem tafsamt skrifræði. Sögu hrunsins má líka skrifa undir þeim formerkjum,að þar hafi farið menningarlaus lýður sem kunni ekki að vanda sig. Sú tvíræða, dulda aðdáun sem kemur fram í því að kalla strandhöggsmenn og áburðarkerrur þeirra útrásarvíkinga, segir meira um nafngiftarmenn en þá sem fengu nafnið. Víkingar, fyrirennarar hetja Villta vestursins, gerðu strandhögg, drápu,limlestu,rændu, nauðguðu og seldu í ánauð. Sú endurvakning aðdáunnar Íslendinga á víkingaeðlinu s.s. hjá Agli Skallagríms og Gretti sterka og fleiri ribböldum fornaldar, sýnir vonandi bara tímabundið afturhvarf menningar okkar. Aðdráttarafl orðspakurs hrottaskapar hefur ekki bliknað.

Menning er hugarfar

Menning er það að vanda sig.  Að vanda sig er ákveðið hugarfar. Til að vinna vel úr hlutunum þarf að gefa sér tíma, hafa bæði kunnáttu og reynslu til að gera vel. Ná því besta fram. Það er vissulega oft mikill kraftur í því sem við erum að fást við Íslendingar. Árangur okkar á einstaka sviðum er ágætur. Við erum góðir í því að hrinda af stað  og klára hlutina. Úrvinnslan er erfiðari. Það er þar sem þörf er á vandvirkni,reynslu og nægum tíma. Verkmenningu. Atvinnuuppbygging okkar er mikið með þessu marki brennd. Lengi vel þótti það manndómur að sækja sem mest úr sjó, óháð því hvernig það væri nýtt. Landið sjálft var og er að hluta enn ofnýtt, gróðureytt og sundurskorið af djúpum skurðum. Hér voru og eru menn ekki að vanda sig. Það þarf heldur ekki að vanda sig til að lokka að eitt stykki stóriðju. Það tefur frekar fyrir samningum að vanda sig, gera sjálfsagðar kröfur og ganga vandlega frá. Þetta er allt tafsamt. Stóriðjan krefst ekki af okkur mikillar verkkunnáttu,hana sjá aðrir um.

Ribbaldaháttur

Við gerum vissulega marga hluti snoturlega. Þegar talað er um menningu eiga menn almennt við tónlist, bókmenntir, myndlist og aðra listræna sköpun. List er vissulega menning en menning er meira. Sú stóra eflur sem myndar menningu þjóðar streymir úr hugsun okkar, tilfinningum og framgöngu á öllum sviðum þjóðlífsins frá morgni til kvölds. Listsköpun þjóðarinnar er á köflum glæsileg. Við yrðum merkis þjóð ef menningarstig annarra samfélagsþátta væri svipað. En menning okkar ristir ekki svo djúpt, að hún gagnsýri þjóðfélagið. Við vöndum okkur ekki mikið í stjórnmálum. Íslensk stjórnmála- og viðskiptasaga einkennist því miður hvorki af kunnáttu né reynslu. Það pólitíska fárviðri og sá fjármálalegi ribbaldaháttur sem mærðir voru af þjóðinni og sem að lokum leiddu hana í ógöngur, er gott dæmi um óvandaða, hraðsoðna hugsun, lausa við reynslu og þroska – menningarleysu. Fyrir einhverjum mánuðum ákvað ráðherra að flytja ríkisstofnun út á land án nokkurrar umræðu í samfélaginu eða samráðs við hlutaðeigandi starfsmenn. Sumum kann að finnast þetta sniðugt. Vönduð vinnubrögð eru þetta ekki. Svona ákvörðum  þarfnast tíma, rökræðna og kannski snýsr mönnum að lokum hugur. Það er ribbaldaháttur að stilla fólki þannig upp við vegg. Það skiptir sköpum að vanda sig, því farsæl framtíð er ekki hvað síst undir því komin að þjóðmál, stór sem smá, séu meðhöndluð af ráðamönnum af yfirvegun og þeim leyft að þroskast. Það þarf að gefa sér tíma og vanda sig skref fyrir skref.

Flokkar: Menning og listir

Fimmtudagur 5.6.2014 - 22:32 - FB ummæli ()

Að vernda vitleysuna, eða…?

 

Um miðjan níunda áratug síðustu áldar var svo komið að fiskistofnar í höfunum kringum landið voru að eyðast. Hélst það í hendur við gróðureyðingu og víðtækan uppblástur lands.Eigendur og umsjónarfólk auðlinda þjóðarinnar voru komin vel á veg með að farga gæðum láðs og lagar. Við eyðingu sjávarauðlindarinnar var brugðist og stjórnkerfi fiskveiða komið á.Annars vegar var heildarafli hverrar fisktegundar ákveðinn.Hins vegar var öllum útgerðum í sjósókn úthlutað ókeypis aflamarki byggðu á aflareynslu, sem var föst hlutdeild í árlega leyfðum heildarafla. Þessar aflaheimildir voru framseljanlegar, sem var driffjöður þess að auka hagræði.Það var flestum þeim sem komu að mótun aflamarkskerfisins ljóst að frjálst framsal myndi færa aflaheimildir milli útgerða og þar með byggðarlaga.Þegar búið var að draga saman heildar þorskrafla úr 450 þ. tonnum í 165 þ.t., hefði  óbreytt útgerðarmunstur lagt bæði byggðarlög og útgerðir í rúst. Eina leiðin til að bjarga útgerðarstöðum og efla útgerðafyrirtæki var að gera kvótakaup frjáls.Okkur, sem um þessi mál fjölluðum, var einnig ljóst að veik fjárhagsstaða íslenskra útgerðarfyrirtækja gerði þau að auðveldri bráð erlendra stórútgerða,þegar viðskiptaheimurinn færi að opnast.Á þeim þrjátíu árum sem þetta kerfi hefur verið við lýði,hafa flest öll markið þess náðst.Afleiðingarnar fyrir byggðir landsins hafa verið miklar.Án frjálsa framsalsins hefðu þær hins vegar orðið mun umfangsmeiri og erfiðari viðfangs.Kerfið hefði staðnað í örsmáum óarðbærum útgerðum,sem reknar hefðu verið með tíðum gengisfellingum og ríkisaðstoð.

Erlent fjármagn í útgerð

Í EES samningnum eru skýr ákvæði um bann við erlendri fjárfestingu í íslenskum sjávarútgerðum. Á upphafsárum  nýs fiskveiðistjórnunarkerfis var þetta skiljanleg ráðstöfun.En það hefur breyst. Íslensk útgerð er í sterkri stöðu um þessar mundir. Þær útgerðir sem ekki hafa skuldsett sig úr hófi með dýrum kvótakaupum eða spákaupmennsku,standa almennt sterkt að vígi. Í framhaldi af styrkingu útgerðanna hófu þau sókn erlendis.Nú voru það íslenskir útgerðamenn sem keyptu erlendar útgerðir og urðu að öflugustu útgerðafyrirtækjum Evrópu. En eins og frjálsa framsalið var nauðsynleg ráðstöfun til að miðla afla til öflugustu fyrirtækjanna, þá er frjálst fjármagnsflæði besta ráðstöfunin til að styrkja fjárhagstöðu, endurnýjun og markaðsöflun íslenskra útgerða. Það er því fagnaðarefni að skráning þeirra í kauphöllinni sé hafin. Jafnframt þarf að opna fyrir erlent fjármagn, því lífeyrissjóðir eru ekki framsæknustu fjárfestarnir. Ekkert er að óttast þótt erlendir fjárfestar taki þátt í að fjármagna útgerðir hérlendis. Okkur er í lófa lagið að setja ákvæði sem niðurnjörva í stjórnarskrá eignarhald þjóðarinnar á auðlindinni og jafnframt að allir sem geri út greiði þjóðinni afnotagjald. Þannig myndi íslensk útgerð þróast best.

Uppdiktuð hræðsla eða eiginhagsmunir ?

Í þessu samhengi er það fróðlegt að skoða afstöðu LÍÚ til  Evrópusambandsins.Sá matseðill sem LÍÚ réttir að okkur er fullur af sérréttum sem allir eru eldaðir úr ótta og hræðslu. Þeir eru hræddir við að stjórn sjávaraútvegsmála flytist til Brussel. Flest allir sérfræðingar sem kynnt hafa sér þessi mál, eru sammála um að stjórn sjávarútvegsmála héldist hérlendis, vegna þess að við eigum enga fiskveiðilögsögu með ESB og ekki væri til staðar nein veiðireynsla erlendra þjóða hér við land. Þar að auki væri hér eitthvert öflugasta stjórnkerfi fiskveiða sem fyrirfyndist. LÍÚ óttast að verða afskiptir í veiðum úr flökkustofnum.Vitað er þó að við myndum halda óbreyttum veiðirétti úr þessum stofnum sem búið er að semja um. Jafnvel makríllinn er nánast frágenginn. Þá hræðast þeir evrópska fjárfestingu.  Erfitt er að skilja hræðslu öflugustu útgerðafyrirtækja Evrópu við erlendri fjárfestingu. Stunda þau hana þó sjálfir í all miklu mæli í aðildarlöndum ESB. Ekki hafa keyptar útgerðir þar verið fluttar til Íslands. Þeim virðist vegna vel í höndum íslenskra útgerðarmanna. Hvar liggur vandinn ? Hvað er verið að vernda ? Jú, sagði þekktur fjármálamaður við mig,það er verið að vernda vitleysuna. Kannski raunveruleg ástæða þessarar fælni sé þó önnur og dýpri. Vera má að íslenskir útgerðamenn vilji með þessu koma á og festa síðan í sessi eignarhald sitt á sjávarauðlindinni.Þeir gera það best með því að sveipa kufli fullveldis- og sjálfstæðisbaráttu yfir kröfur sínar um alíslenst eignarhald. Það væri sanngöfugur og óeigingjarn tilgangur eins og þeim einum sæmir.

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 26.5.2014 - 10:28 - FB ummæli ()

Vegið að réttarríkinu

Ég hlustaði á fréttir sunnudagkvöldið 25.maí s.l. þegar sagt var frá því, að frá áramótum giltu í landinu  lög sem bönnuðu vönun á grísum án deyfingar. Þegar landbúnaðarráðherra var spurður af hverju ekki væri farið eftir lögunum nú tæpu hálfu ári eftir gildistöku þeirra, svaraði hann því til að lögin hefðu verið umdeild, og hann sjálfur hefði haft miklar efasemdir um þau. Ráðuneytið hefði því ekki þrýst á að þeim yrði framfylgt. Ég spurði sjálfan mig hvort áhugaleysi ráðherrans á því að landslögum væri framfylgt væri vegna þess að lögin hafi verið umdeild eða af því hann sjálfur var á móti þeim. Valdavíma ráðherrans virðist engan enda ætla að taka. Það er að sjálfsögðu grafalvarlegt mál ef ráðherra lætur að því liggja, að lög beri ekki að virða,af því andstaða hafi verið við setningu þeirra. Eru ekki flest lög umdeild ? Um hvers konar stjórnleysi er ráðherrann að biðja? Eða meinar hann kannski að hafi Framsóknarflokkurinn verið á móti lagasetningunni þá beri ekki að virða hana. Vissulega geta lög verið arfa vitlaus, það getur verið bæði tafsamt og flókið að hrinda sumum þeirra í framkvæmt svo vel sé. Forkastanlegt er að láta eins og allt sé í himna lagi með að hundsa lögin, af því sjálfur ráðherrann var þeim andvígur. Þá er vegið að réttaríkinu sjálfu.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 15.5.2014 - 14:22 - FB ummæli ()

Umskipti Sjálfstæðisflokksins

 

Það hefur komið mörgum á óvart,hvernig það gat gerst að  Sjálfstæðisflokkurinn hvarf frá frekari evrópsk/vestrænni samvinnu en kaus vaxandi einstæðingsskap í utanríkismálum. Sjálfstæðisflokkurinn á áhrifamikla sögu að baki. Hæst risu völd hans í kalda stríðinu,þegar hann tók afgerandi forystu um inngöngu landsins í NATO og stóð að  gerð varnarsamningsins við Bandaríkin. Í kjölfarið fylgdi svo  Viðreisnarstjórnin, inngangan í EFTA og seinna EES-samningurinn. Að vísu hafði Alþýðuflokkurinn frumkvæði að og var í forsvari fyrir tveimur síðastnefndu samningunum en ríkisstjórnirnar voru undir forsæti  Sjálfstæðisflokksins. Til voru einstaka sjálfstæðismenn sem andsnúnir voru þessum samningum, einkum EES-samningnum. Við gerð hans kom berlega í ljós hve mótdrægnir  fulltrúar auðlinda atvinnuveganna, Bændasamtökin og LÍÚ, voru þegar minnsta gagnkvæmi gagnvart þeirra atvinnugrein bar á góma. Skjól áttu þeir alltaf hjá Sjálfstæðisflokknum svo og Framsókn.

Nálgunahræðsla eyríkja

Utanríkismál eru vandmeðfarin þjóðmál.Eylönd eru þar sérstaklega viðkvæm. Nágrannar eru þeim framandi og eyþjóðir bregðast  oftast fjandsamlega við  nálgunartilraunum annarra þjóða. Frumkvæði til nálgunar hafa eyþjóðir ekki oft.Undantekningin eru Bretar. Þeir voru svo heppnir að verða undirsátar germannska þjóðflokka. Þar næst kom herseta Rómverja, landseta Víkinga og innrás  fransk-norrænna Normandíbúa. Þeir voru fyrsta evrópska fjölmenningarþjóðin.Þeir óttuðust ekki  áhrif framandi þjóða,því þeir vissu hve mikið þeir höfðu  styrkst við blöndunina.Að lokum sigraði eyþjóðin heiminn.Íslendingar sem verið höfðu einangraðir í liðlega fimm aldir fengu aldrei neina fjölþjóðlega blöndun, aðeins eilítið keltneskt blóð. Við þróuðumst einir,töldum okkur„hreinan stofn“ og óttuðumst að verða fyrir slæmum framandi áhrifum,en þjóðernisstefna byggist á þeirri tilfinningu að þykjast öðrum fremri.Það var því afrek þegar alþingi undir forystu Bjarna heitins Benediktssonar reif sig uppúr einangrunarklömbrunum og tók þá ákvörðun, að við yrðum þjóð meðal þjóða. Við vildum að vísu fá meir en við gáfum, en við vildum vera með.Sú ákvörðun hefur  reynst okkur heilladrjúg og gefið okkur tækifæri til að koma ár okkar fyrir borð við matarborð stórþjóða, því við vildum frekar éta með þeim en verða étnir.

Þjóðflokkurinn

Bjarni Ben, Ólafur Thors og Gunnar Thoroddsen voru  þeir foringjar sem gerðu Sjálfstæðisflokkinn að frjálslyndum flokki hægra megin við miðju.Þau þjóðfélagsöfl sem að baki stóðu spönnuðu nokkurn veginn allt litróf samfélagsins.Á þessum tíma voru öflugust hagsmunahópar landsins útgerðarmenn, kaupmenn og bændur. Ef frá eru talin  baráttumál verkalýðs, sem aldrei voru á stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins,má segja að hann hafi  verið eins konar þjóðflokkur,þótt sérhagsmunir hafi vissulega verið rúmfrekir. Pólitísk áherslumál hagsmunaaflanna voru ólík en sem um þurfti að semja  þegar að því kom að móta heildarstefnuna. Málamiðlun varð niðurstaðan. Utanríkismálin voru þar engin undantekning.Bændur hafa ætíð kosið  frekar lokað samfélag. Útgerðarmenn kröfðust opinna erlendra markaða en engrar samkeppni innanlands,hvorki í veiðum,vinnslu né eignarhaldi útgerðarfyrirtækja. Kaupmannastéttin lagði áherslu á frjálsa opna markaði erlendis sem heima.

Kaupmannastéttin hvarf

Kaupmenn voru öflugustu stofnaðilar að Sjálfstæðisflokknum og Morgunblaðinu.Íhaldsflokkurinn var þeim of þröngur.Meðan kaupmenn voru fjölmennir og sterkir innan flokksins var utanríkisstefna Sjálfstæðisflokksins í þokkalegu jafnvægi.Þegar verslunarfyrirkomulag stórmarkaða ruddi sér til rúms, lét  hefðbundin kaupmammastétt í minnipokann og áhrif hennar innan flokksins hurfu. Eftir stóðu sterk ítök bænda,sem földu einangrunarhyggju sína undir bláhvítri skikkju þjóðernisstefnu og útgerðarmenn, sem ýmis voru andstæðir eða tortryggnir í garð opins frjálslynds samfélags, því þeir vildu sitja einir að auðlindum sjávar.Við hvarf kaupmannastéttarinnar, sem mótandi afls innan flokksins,myndaðist tómarúm innan hans, sem átti eftir að hafa afgerandi áhrif á stefnumörkun hans.Þetta tómarúm var síðan fyllt af háskólafólki, sem búið var að innræta róttæka og fremur þröngsýna markaðshyggju sem varð sífellt áhrifmeiri innan gamla stétt með stétt- flokksins. Frjálshyggja leysti frjálslyndi af hólmi.Einstrengingsháttur og óbilgirni einkenna oft áhangendur einfaldra kennisetninga.Stefna flokksins færðist frá frjálslyndum málamiðlunum til einsýni, þar sem þjóðernisfull og sjálfbirgingsleg einangrunarhyggja varð meginstef í utanríkismálum.Sá hugsunarháttur féll vel að viðhorfum hagsmunasamtaka auðlinda atvinnuveganna ekki hvað síst í afstöðunni til ESB. Nú virkar flokkurinn eins og stjórnlaust skipsflak í öruggu togi Heimssýnar.Þetta voru flokknum dýr umskipti. Þriðjungur fylgisins flúði.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 13. maí s.l.. Hér birtist hún með mjög smávægilegum breytingum.

 

Flokkar: Óflokkað · Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 16.4.2014 - 21:28 - FB ummæli ()

Fullveldisgildran

 

Mörg menningarsamfélög hafa farið forgörðum við það að lífsaðstæður þeirra breyttust og þau megnuðu ekki að bregðast við, aðlaga lifnaðarhætti sína og samfélagssýn þeim breytingum. Þær voru  fjötraðar í gamla atvinnuhætti og lífssýn,sem áður höfðu dugað þeim. Getum hefur verið leitt að því, að ástæða þess að byggðir Íslendinga á Grænlandi eyddust, hafi verið sú, að þeir héldu fast við sömu búskaparhætti og þeir höfðu vanist á Íslandi, þótt versnandi veðrátta hafi valdið því, að búfé þeirra var orðið svo aðframkomið á vorin, að þeir þurftu að bera það útí haga. Þeir höfðu ekki dug í sér til að breyta til og fara að veiða meiri fisk og sel sér til lífsframfæris, því þeir trúðu því, að ekki væri hægt að lifa án búfjár.Þetta segir okkur að tíminn refsar þeim grimmilega, sem vilja ekki skilja að breyttar aðstæður krefjast nýrrar hugsunar. Þótt tímarnir nú séu aðrir og afkoma okkar hvíli á mörgum stoðum, þá erum við nútíma Íslendingar í keimlíkum sporum. Við spriklum föst í bóndabeygju auðlindahyggju, úreltra búskaparhátta og samfélagslegrar fortíðarhyggju. Sú samfélagssýn sem mótaðist af einhæfum atvinnuvegum, skorti og stjórnmálaforystu þröngsýnna efnabænda, leiðir okkur í ógöngur við gjörbreyttar aðstæður.

Róttæk hnattvæðing

Heimurinn gengur nú í gegnum breytingaskeið sem kallað er  hnattvæðing. Þjóðir heims hafa brugðist við, stærstu þjóðirnar bíða rólegar eins og hákarlar en litlu þjóðirnar leita sér skjóls mynda bandalög, til að standast samkeppni og ofurvald þeirra stærstu m.a. við að móta regluverk heimsviðskiptanna. Smáþjóðir Evrópu,því á heimsvísu eru þær allar smáar,vita að þær verða að standa saman. ESB er evrópska svarið við róttækri hnattvæðingu, sem breytir skiptahlutföllum milli þjóða og landsvæða. Flóttamannastraumar til Evrópu eru afsprengi þessara breytinga, einnig hérlendis. En  ESB er meira. Það er eins konar verkstæði eða smiðja framtíðarinnar til að koma á nýrri heimsskipan,þar sem samvinna og samningar koma í stað yfirráða og valdbeitinga. Það er byggt upp af þeirri frumreglu  að ef eitt eða fleiri ríki lenda í miklum erfiðleikum koma hin ríkin og stofnanir bandalagsins til aðstoðar. Þjóðirnar afhenda hlut af eigin fullveldi gegn hlutdeild í fullveldi hinna.Þannig auka minnstu  þjóðirnar áhrif sín en draga að sama skapi úr áhrifum stærri þjóða um leið og þær fá vörn gegn utanaðkomandi hættum.

Af jaðri til miðju

Til að yfirvinna fortíðarhyggju og úrelta heimssýn þurfum við að halda áfram. Við tókum mikilvæg skref við inngöngu í EFTA og síðan EES. Þessir áfangar víkkuðu sjóndeildarhringinn og fjölguðu tækifærum.Við færðumst af ysta jaðri nær miðju.Við aðlöguðum viðeigandi lög að frjálslyndari lagasetningu sem byggði meir á almannaheill en löggjöf okkar, sem þunguð er af auðlindahagsmunum. Andstaðan við bæði skrefin var mikil, einkum frá framsóknarfólki og Alþýðubandalagi,síðar Vinstri grænum, sem héldu fast í fjötra fortiðar.Þessir hlekkir hafa einkum tengst skilningi á fullveldi og sjálfstæði. Hugmynd okkar um fullveldi grópaðist djúpt inní vitund þjóðarinnar. Frá baransaldri var okkur innrætt þjóðernishyggja,afbökuð söguskoðun og fullveldisdýrkun,hvort heldur í lestrarbókum,skólaljóðum eða öðru efni. Þá var fullveldi markmið til sjálfstjórnar.

Fullveldi orðið skurðgoð

Nú skilgreina margir fullveldi sem skilyrðislaust boðorð, sem óumflýjanlega skyldu en um leið bann. Gagnkvæmar skuldbindingar t.d. í formi samstarfs við ASG er ótæk, þar sem það jaðrar við fullveldisafsal. Sá  staðnaði skilningur sem lagður er í hugtakið  er orðinn frekari þróun samfélagsins fjötur um fót.Fullveldið er ekki lengur lifandi,frjó áminning. Það hefur breyst í storkinn átrúnað. Í þessari gildru erum við föst. Við hættum ekki skaðlegum hvalveiðum, af því það er réttur okkar,jafnvel skylda, að veiða hval. Samningar um makrílinn er á svipaðri bylgjulengd, svo ekki sé minnst á aðild að ESB. Bjartur í Sumarhúsum fórnaði fjölskyldu sinni og aleigu á altari ímyndaðs sjálfstæðis. Af sama meiði er andstaða Bændaskólans á Hvanneyri við að sameinast Háskóla Íslands; það skerðir sjálfstæði hans.Skólar, sjúkrastofnanir og sveitarfélög víða um land eru í sömu kreppu, of lítil til að takast á við breyttar aðstæður; svelta frekar en sameinast. Þegar svo er komið þá er skilningur okkar á fullveldi og sjálfstæði staðnaður,orðinn að bábilju sem skaðar meir en hann skaffar.

Greinin birtist í Fréttablaðinu  16.apríl 2014

 

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 24.3.2014 - 14:00 - FB ummæli ()

Ósátt, klofin og síðbúin þjóð

 

Ósátt, klofin og síðbúin þjóð

Samkvæmt evrópskum hagtölum lækkuðu tekjur íslenskra launþega frá 2007 -2010 um 8% eða 12% eftir því hvaða tekjustærð er miðað við. Þetta var mesta tekjuhrap nokkurrar þjóðar í Evrópu á tímabilinu.Til samanburðar lækkuðu tekjur grískra launþega um 4% eða 8%  og írskra aðeins um 4% og 5%. Ísland er orðið láglaunaland. Kaupmáttur launa er á svipuðu róli eða lélegri og í löndum við austanvert Miðjarðarhaf.Rekstur bæði  mennta-, heilbrigðis- og velferðarkerfa samfélagsins er á brauðfótum,þar sem framlög eru skorin við trog. Menntunarstigi þjóðarinnar hefur hrakað og mörg önnur grunnþjónusta s.s. löggæsla og vegamál  sitja á hakanum.Það samfélagskerfi sem við bjuggum til á s.l. öld og  er í aðalatriðum enn við lýði, ræður ekki við það megin hlutverk sitt að skapa þjóðinni mannsæmandi lífskjör.Þvert á móti. Eftir því sem reynt verður að njörva kerfið fastar niður,þeim mun þungbærara verður það almenningi.

Að koma of seint

Það var Gorbatsjoff sem sagði  forystu austur-þýska kommúnistaflokksins að tíminn refsaði þeim sem kæmu of seint. Þetta voru viðbrögð hans við því dogmatíska stagli sem hann fékk að heyra, þegar hann hvatti forystu flokksins til að hefja umbætur á stöðnuðu kerfi.Þeir töldu það af og frá. Til þess væri engin brýn þörf. Nokkrum mánuðum seinna hrökklaðist stjórn þeirra frá völdum. Við vitum hvað síðan gerðist.Íslendingar hafa, eins og tölur sýna, einnig misst af lestinni. Þeir búa við staðnað kerfi, sem þeir reynist ófærir um að bæta. Íslenska hagkerfið samanstendur af tveimur innri kerfum sem byggja á ólíkum forsendum. Annars vegar markaðskerfi hins almenna viðskiptalífs.Hins vegar auðlindabúskapur,sem er nánast óháð innlendum markaði.Til þess fyrrnefnda teljast, almenn iðnaðarframleiðsla,þjónusta hvers konar, verslun og fjármálaviðskipti.Til síðarnefnda flokksins heyra í stórum dráttum sjávarútvegur og landbúnaður og stóriðja.Sjávarútvegurinn selur afurðir sínar mestmegnis utanlands. Innanlands markaður landbúnaðarvara er lokaður í bak og fyrir. Þar gilda engin markaðslögmál. Stóriðjan selur nánast alla sína framleiðslu erlendis. En það sem mestu máli skiptir, framleiðsluverðmæti  auðlindaatvinnurekstrar er ekki nema að litlu leyti tilkominn vegna vinnutengdrar atvinnuþróunnar, heldur náttúruauðæfa, fengna af sjó eða landi.Það er auðlindin ekki úrvinnslan sem skapar verðmætin. Það gefur handhöfum hennar afar sterka pólitíska valdastöðu Auðlindajörfarnir í Ruhrhéraðinu höfðu ógn mikil völd og kusu Hitler sem leiðtoga sinn. Handhafar auðlindanna íslensku hafa margfalt meiri pólitísk völd en samanlagt allir eigendur markaðsfyrirtækjanna. Ný ríkisstjórn leggur nú allt kapp á að auka hlut auðlindabúskapar í landinu með því að greiða niður orku og aðstöðu til erlendrar stóriðju.Úrvinnsluferli iðnvæðingarinnar var forsenda lýðræðisþróunar í Evrópu, ekki auðlindabúskaður. Hann hefur öfug áhrif.Það virðist fylgja því einhver pólitískur vanþroski að vera auðlindanýtingarþjóð.

Tvískipting atvinnuvega

Í jafn litlu hagkerfi sem hér er, hefur þessi tvískipting veruleg áhrif á gangvirki efnahagslífsins, löggjafarstarfsemina og þjóðlífið allt. Stundum er því haldið fram að þróun markaðskerfis eins lands sé jafnframt mælikvarði á stöðu lýðræðisins. Þar sem stórir hlutar íslenska efnahagslífsins standa utan við markaðskerfið, er markaðshugsun ekki sterk í þjóðarvitundinni.Markaðsstarfsemi er ekki talin mikilvægur skipulagshlekkur í gangvirki  hagkerfisins.Hluti þjóðarinnar lítur á samkeppni  sem hjaðningavíg fremur en aflvaka verðlækkana. Sama er hægt að segja um þroska lýðræðisins og markaðsins. Lýðræðið á sífellt í vök að verjast bæði vegna ágengi stjórnmálaflokka en einnig er meðvitund þjóðarinnar um mikilvægi þess ekki sterk. Nægir þar að minnast á, að hér er naumast um að ræða þrískiptingu valds, þar sem framkvæmdavaldið og löggjafarvaldið er nánast samvaxið. Gegnsæi opinberra ákvarðana er iðulega torveldað svo dæmi sé tekið.Þá býr stórhluti þjóðarinar enn (2014) við skertan kosningarétt. Auðlindatengdir atvinnuvegir hafa líka allt aðra afstöðu til gjaldmiðilsins en markaðstengdir.Það er hagsmunamál fyrir auðlindabúskap að gengið sé lágt og sveigjanlegt í þeirra þágu. Sjónarmið auðlindabúskapar í gjaldeyrismálum og hagsmunir almennings eru andstæð.Þessu er öfugt farið með markaðsatvinnuvegina.Þar þarf stöðugleika,enda skekkjast öll innri hlutföll á markaði ef gjaldmiðillinn er óstöðugur og sé einnig ónothæfur erlendis.Samkeppni þrífst illa ef mælikvarðinn er á sífelldri breytingu.Hagsmunir almennings með sín húsnæðislán og dagleg innkaup fara saman við hagsmuni markaðsatvinnuveganna.

Klofin þjóð

Innan Alþýðubandalagsins sáluga var af skarpsýni greint á milli þjóðlegra og óþjóðlegra atrvinnuvega. Þeir síðarnefndu einatt kallaðir milliliðir.Landbúnaður og sjávarútvegur voru þjóðlegir. Hjarta flokksins sló með þeim þjóðlegu. Þessi tvískipting atvinnugrunnsins hefur leitt til heiftúglegra átaka meðal þjóðarinnar.Á grundvelli efnahagslegra mótsagna milli markaðs- og auðlindaatvinnuvega, milli þéttbýlis og dreifbýlis, milli opins og lokaðs hagkerfis, um inngöngu í eða fjarveru frá ESB, hefur grundvallar jafnræðisreglum lýðræðisins verið fórnað  og atkvæðavægið í alþingiskosningum skert í þéttbýli. Klofin þjóð  getur ekki komist að niðurstöðu um skynsamlega umgjörð efnahagslífsins og þar með samfélagsins. Annar hlutinn rígheldur í aldagamalt fyrirkomulag,sem vill óheftan aðgang að útflutningsmörkuðum,en höft eða lokun á innflutningi. Markaðstengdu atvinnuvegirnir,sem eru þátttakendur í hnattrænu viðskiptalífi, verða hins vegar að starfa við svipuð starfsskilyrði og umhverfið erlendis. Þeir þurfa á að halda annars konar viðskiptaumhverfi en hér ríkir. Þeir þurfa opið víðsýnt og framsækið samfélag. Alþingi virðist ófært um að ráða fram úr þessum vanda. Annað vald er ekkert hér á landi sem getur miðlað málum eða höggvið á hnútinn. Því verðum við enn um stund niðurnjörvuð í illleysanleg hagsmunabönd sem leiða til þess að Ísland dragist enn frekar afturúr nágrannaþjóðum og verði á ný fátæktarbæli Evrópu. Þar húktum við í fimm aldir, þökk sé auðlindabúskap þess tíma. Auðlindir hafa sjaldan gert þjóðir ríkar. Það er ekkert séríslenskt fyrirbæri.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 13.3.2014 - 21:48 - FB ummæli ()

Verður Seðlabankinn aftur pólitíkinni að bráð ?

 

Einhversstaðar las ég að megin hlutverk seðlabanka væri  það að vernda gjaldmiðilinn fyrir gráðugum stjórnmálamönnum. Við höfum af því bitra reynslu að þetta hefur  íslenska seðlabankanum ekki tekist. Allt fram á þessa öld var það eitt skyldum hans að styðja við efnahagsstefnu ríkisstjórna á hverjum tíma. Mikið pólitískari getur ein stofnun varla verið. Til að tryggja þetta voru  settir þrír bankastjórar yfir bankann. Oft var bróðurlega skipt.Einn frá Framsókn annar úr Sjálfstæðisflokki og sá þriðji úr öðrum flokkum.Þetta átti að tryggja aðkomu allra flokka að stjórn bankans. Niðurstaðan hvað varðaði gjaldmiðilinn var ætíð sú sama. Verðgildi krónunnar rýrnaði stöðugt. Engu breytti þótt markmiði bankans hafi verið breytt í því skyni að  styrkja krónuna. Að lokum hrundi  bankinn í höndum þriggja bankastjóra, en það teymi var undir strangri stjórn annars öflugasta stjórnmálamanns landsins. Bankanum var bjargað frá gjaldþroti með hundruð milljarða aðstoð ríkissjóðs. Þetta „gjaldþrot“ er endurreisn fjármálalífsins enn mikill fjötur um fót. Þótt þríeykið hafa vissulega einnig verið skipað fagmönnum, var pólitískum tökum stjórnmálamanna aldrei sleppt. Þegar hrunið kom var bankinn svo rúinn öllu trausti, að hann sótti í örvæntingu sinni um lán frá  Moskvu ! Erlend matsfyrirtæki settu landið í eins konar ruslflokk. Ekki var traustið meira innanlands.

Spilin stokkuð upp

Í eftirleikum hrunsins voru spilin stokkuð upp.Bankinn tekinn úr daglegri umsjón stjórnmálamanna og hann efldur til sjálfstæðis. Fagráð sett til að ákveða  peningastefnuna og bankastjórum fækkað í einn með annan til vara. Settar voru strangar hæfiskröfur til umsækjenda m.a.um  alþjóðlega reynslu á sviði peningamála. Á síðustu misserin hefur tekist að róa krónuna og smá styrkja. Til þess hefur þurft að einangra landið á sviði gjaldeyris- og peningamála. Sett voru bæði belti og axlarbönd á krónuna. Engum sem vill horfa glýulaust á framtíðina dylst, að meðan við notum krónuna sem gjaldmiðil, munum við til frambúðar þurfa að styðjast við all umfangsmikil höft, hvað varðar gjaldeyrismál og fjármagnsflutninga.Það verður nægt viðfangsefni að glíma við afleiðingar haftanna, þegar kemur að ákvæðum í EES samningnum eða gagnvart starfsemi íslenskra fyrirtækja erlendis, svo ekki sé talað um erlenda fjárfesta.Með ákvörðun ríkisstjórnarinnar um afturköllun aðildarumsóknarinnar,verða þessi mál enn snúnari og erfiðari úrlausnar, því  hún lokar á valkosti í gjaldmiðilsmálum,sem okkur eru lífsnauðsynlegir.

Færa til fyrra horfs ?

Í þessu samhengi er vart hægt að hugsa sér óheppilegri tímasetningu til að  fikta við seðlabankalögin. Næg verður athygli umheimsins á landinu eftir daginn stóra, svo ekki verði farið að færa stjórnskipan bankans til fyrra horfs, svo auðveldara verði að handstýra honum. Það fer ekki saman að fjölga bankastjórum og segjast ætla að styrkja sjálfstæði bankans.Það eitt að skipta bankastjóranum út fyrir einhvern annan í því andrúmslofti vantrausts og tortryggni sem ríkir, gæti kostað þjóðina tugi milljarða í verri lánskjörum. Klaufaleg viðbrögð formanna stjórnarflokkanna við spurningum fréttamanna um væntanlega lagabreytingu,bættu ekki úr skák.Engin stofnun lýðveldisins er jafn viðkvæm gagnvart hnattrænum fjármálaheimi og seðlabankinn.Því minna sem við honum er rjátlað þeim mun betra. Annað væri feigðarflan.Þau frændsystkinin heift og hatur eru ekki góðir ráðgjafar. Ég sé að lausmálgir orðhákar eru strax byrjaðir að brýna. Látið þar við sitja.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 4.2.2014 - 18:38 - FB ummæli ()

Þjóðremban einangrar og veikir

Greinin birtist í Morgunblaðinu 1. febr. s.l.

Þjóðremban einangrar og veikir

Hjá flestum þjóðum verður til pólitísk meginkenning eða leiðarvísir sem myndar umgjörð  utan um hugmyndir hennar og athafnir. Hún framkvæmir og hugsar innan þessa ramma. Þjóð sem ekki veit hvað hún vill eða hvert hún stefnir er á flæðiskeri.Hún rekur fyrir innlendri og erlendri ágengni.Skortur á framtíðarsýn er kjörástæða fyrir  snöggsoðnar skyndilausnir eða að uppvakin þjóðernishyggja fylli tómarúmið.Þjóðir þurfa skýra hugsun og skynsemi.Þetta hvorttveggja á erfitt uppdráttar,nema helst hjá þroskuðum þjóðum.Þroski er uppsöfnuð reynsla,bæði jákvæð og neikvæð,sem þjóð hefur unnið úr og ræktað svo úr varð pólitísk menning.Í þeirri úrvinnslu er hvorki þjóðernishyggja né pólitískar kreddur hollir ráðgjafar.Þjóð þarf að þekkja takmörk sín.Hún þarf að kunna að búa sig í góðu veðri.

Kreddur og þjóðernishyggja

Þjóðir sem ná ekki tökum á skynsemishyggju grípa oft til hrásoðinnar en fyrirheitaríkra kenninga eða ganga í tilfinningabanka þjóðhyggjunnar.Nítjánda öldin var öld pólitískra öfga. Gangsettar voru allar hugsanlegar kenningar s.s. kommúnismi,fasismi, nazismi svo og margar útgáfur af sósíalisma og kapítalisma. Þjóðernishyggjan tók á sig margar sérkennilegar myndir,sem risu hæst í þýska nazismanum.Engin pólitísk sérhyggja hefur leitt til meiri úlfúðar né átaka þjóða í millum en þjóðernishyggjan.Aðeins pólitísk vanþroska þjóðir féllu í þá banvænu gryfju að taka upp og útfæra öfgafyllstu hugmyndakreddurnar.Þær guldu þess dýru verði.Við Íslendingar heyrðum bergmál þessa tíma, þegar Sovét-Ísland var sett hér á dagskrá, og fengum að kenna á því, þegar hrá nýfrjálshyggjan fékk að leika hér lausum hala. Hún varð okkur dýrkeypt.

Þjóðrembingur smáþjóðar

Með þeim umskiptum sem urðu í landstjórninni eftir síðustu kosningar var þjóðernisstefna sett á blótstallinn að nýju. Hún hafði að vísu verið notuð ótæpilega sem eldsneyti til að kynda undir fjárglæfraútrás íslenskra bankamanna fyrsta áratug aldarinnar.Þá höfðum við,að eigin sögn, yfirburði yfir aðrar þjóðir,einkum á sviði hnattvæddra fjármálaviðskipta.Forsvarsmenn þjóðarinnar voru ötulir við að kynda eldana.Nú er þjóðbusastefna notuð til að fjarlægja landið Evrópu,einangra landið frá nágrönnum okkar.Hún er beitt pólitískt vopn. Hún er ekki eðlislæg þjóðum. Þjóðrækni er það hins vegar, sem er væntumþykja og ræktarsemi við arf og endurminningar.Þjóðbusastefna er lúðalegt stærilæti og lítillækkun annarra þjóða.Hún verður að þjóðrembu,þegar við teljum okkur yfir aðra hafna. Stundum er haft á orði, að það skaði engan, því við séum bæði fá og smá. Skyldi þeim erlendu sparifjáreigendum og fjárfestum sem treystu íslensku bönkunum fyrir peningum sínum hafa fundist íslensku bankarnir vera smáir í sniðum og lítillátir? Eins og eingisprettur fóru þeir ránshendi um peningahirslur Evrópu og hirtu allt sem á vegi þeirra varð, með íslenskan þjóðrembing í veganesti. Engir voru stórtækari í erlendu fjárnámi en forkólfar íslensku bankanna á jafn skömmum tíma. Þeir fengu með sér bæði forseta og ríkisstjórnir til að undirstrika tigin þjóðargen, og þar með gæði viðskiptanna.Svo segja menn að þjóðrembingur smáþjóða sé saklaus.

Deilum með öðrum.

Smáþjóðir þurfa á heilbrigðu sjálftrausti að halda til að verða ekki áhrifalausar.Einar og sér eru þær ætíð veikari en í samstarfi við aðrar.Við urðum áþreifanlega vör við þetta í samningunum um EES. Þegar að því kemur að þjóð eigi náið samstarf við aðrar, þá er sjálfsmyndin viðkvæmust. Sé hún slök, þá er gripið til þjóðernishyggjunnar.Sé hún traust þá gengur flest upp.Það er ekki hættulegt lítilli þjóð að semja af styrkleika, en háskalegt að þora það ekki vegna kjarkleysis.Við Íslendingar erum bernskir hvað samstarf við aðrar þjóðir áhrærir.Við höfum aldrei lært að lifa við og þroskast í nánu samstarfi og samlífi við aðrar þjóðir. Þjóðin þarf að læra að deila með öðrum og gefa – ekki bara heimta og þiggja. Við lærum það  ekki með því að loka okkur af. Það þekkjum við nægilega sem eyjarskeggar langt úti á rúmsjó,með hafið eitt sem nágranna. Við höfum aldrei viljað gefa hafinu neitt eða deila með því nokkru. Við höfum bara tekið. Þau einkenni eru því miður afar rík í framkomu gagnvart og mati okkar á erlendum þjóðum. Engin Evrópuþjóð ein og sér, ekki einu sinni Þjóðverjar, er nægilega öflug til að standast ógnanir hnattvæðingarinnar, hvað þá smáþjóð eins og við. Náið samstarf við evrópskar vinaþjóðir er okkur lífsnauðsynlegt; þjóðir sem deila með okkur gildum, lýðræðis, valddreifingar, mannréttinda og frjálsra viðskipta. Þar eigum við heima.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Þröstur Ólafsson
Hagfræðingur. Á eftirlaunum. Margvísleg störf, bæði opinber sem og hjá öðrum.
RSS straumur: RSS straumur