Fimmtudagur 26.11.2015 - 17:17 - Lokað fyrir ummæli

Er ég rasisti?

Um þessar mundir poppa upp pistlar og greinar um hverjir flokkist sem rasistar og fordómafullir einstaklingar á Íslandi. Í forsvari fyrir þessum pistlum eða fésbókarfærslum eru í einhverjum tilvikum stjórnmálafræðingar eða sjálfskipaðir sérfræðingar um framangreind málefni, tilurð fjölmenningar og öryggismál íslensku þjóðarinnar.

Fjölmenningin

Sjálfur hef ég dvalist erlendis og ferðast ansi víða, er ræðismaður ríkis í suðurhluta Afríku, giftur konu af erlendum uppruna og tel mig víðsýnan mann en ég þarf ekki að hafa rétt fyrir mér í einu og öllu, síður en svo.

En vegna þess að ég vil að farið sé hægt í sakirnar, bæði hvað varðar viðkæma náttúru okkar lands og hvað varðar viðkvæma menningu þjóðarinnar, er ég líklega flokkaður sem annað hvort rasisti eða fordómafullur einstaklingur með þröngsýnar skoðanir hvað þessi mál varðar.

Ef ég styð málflutning þjóðkjörins forseta Íslands hvað varðar öfga í trú og uppáþrengjandi stefnu afmarkaðs hóps af erlendum uppruna er ég á rangri braut og hinn þjóðkjörni forseti er talinn ala á fordómum. Allt er þetta sprottið úr ranni þeirra sem telja sig betur til þess fallna, m.a. vegna menntunar sinnar, að fella dóma yfir fólki sem aðhyllist hógværð í stað öfga sem hugsanlega eru sprottnir úr e.k. frelsisbaráttu eða byltingarhugsjón á þessu sviði.

Áhyggjur vegna öfga

Vinir mínir, sérstaklega þeir sem eru múslímar, eru margir mjög áhyggjufullir varðandi þessa þróun og eru þeir flestir afar hófsamir en sumir telja að ég og aðrir eigi að hætta að borða svínakjöt, ekki endilega heilsunnar vegna eða sökum salmónellusýkingarhættu heldur vegna trúmála. Þeir hafa samt sumir smakkað afganga hjá mér að mér óafvitandi eftir Jólin og þótt afar bragðgott og ekkert brugðið sérstaklega þegar þeir áttuðu sig að um svínakjöt var að ræða. Þetta er víst í lagi ef þeir hafa neytt þess sjálfir óafvitandi.

Hið sama átti við um sannkristinn lagaprófessor af íslenskum uppruna sem kom í kvöldverð hjá okkur hjónum en við vissum ekki að hann borðar ekki kjúklingakjöt en eldaður hafði verið dýrindis karrýréttur að hætti Kambódíubúa. Þá var bara pöntuð pizza, málið ,,dautt“ og allir ánægðir yfir yndislegum kvöldverði með góðum vinum.

Þetta kallast umburðarlyndi á báða bóga.

Vinir mínir í Afríku þekkja til minna skoðana og eru með sín rök fyrir sinni tilvist og trú sem er afar margvísleg, opin og frjó af menningu. Hið sama á við um Ísland og Íslendinga. Engir öfgar þar heldur sameiginlegur skilningur og hvati til opinnar umræðu og skoðanaskipta af fullri virðingu.

Þröngsýni og framtíðarsýn

Landar mínir eru margir þröngsýnir og eiga oft erfitt með að ráða til sín fólk af erlendum uppruna. Þrátt fyrir það hef ég trú á því að þetta þroskist af þeim og yngra fólkið verði víðsýnna í þessu efni sem og varðandi annað jafnrétti, t.a.m. gagnvart konum og fólki með margvíslegar þarfir. Þar mega fjölmiðlamenn á Íslandi bæta úr varðandi viðmælendur sína.

Við erum öll af erlendum uppruna þrátt fyrir skilgreiningar Þjóðskrár Íslands og höfum lært mest um veiðar og landbúnað af fólki erlendis frá. Fólk af erlendu bergi brotið er auðlind rétt eins og við hin sem erum fædd hér en til að virkja þetta góða fólk þarf að vanda aðlögun þess að íslensku samfélagi við komuna og tryggja gagnkvæma virðingu fyrir menningu hvors annars án allra öfga. Þar eru talsverðar brotalamir enda telja margir að við sem hér búum eigum að aðlagast þeim sem koma í stað þess að þeir sem koma eigi að aðlagast umhverfinu og menningunni sem við höfum hér mótað um aldir alda í góðri sátt. Allt tekur þetta tíma.

Fjölmenning er komin til að vera og hefur okkur Íslendingum farnast vel í þeirri þróun þó betur megi gera á mörgum sviðum.

Mennskan í myrkrinu

Vil ég benda löndum mínum á að lesa ljóð afríkuskáldanna í þýðingu Þórs Stefánssonar stórskálds. Ljóðasafnið í þýðingu Þórs, sem kom út á síðasta ári, ber heitið Mennskan í myrkrinu. Snilldarverk þetta varð til þess að ég sökkti mér í efnið enda frjótt og yfirgripsmikið.

Snemma á þessu ári gafst mér færi á að leggja blóm á leiði fyrsta forseta Senegal, Léopold Sédar Senghor, sem jarðsunginn var og jarðaður að kristnum sið í grafreit kristinna í Dakar, höfuðborg Senegal. Léopold var ljóðskáld og orti um væntingar og vonbrigði almennings í sínum heimshluta.

Hann var persónulegur vinur náins fjölskyldumeðlims eiginkonu minnar sem starfaði í Dakar sem sendiherra Kambódíu um árabil og helsti stuðningsmaður Norodom Sihanouks, konungs Kambódíu.

Lépold Sédar Senghor átti kristinn föður en móðir hans var múslími. Sjálfur var hann afar hógvær og iðkaði bæði kristni og íslam, hann brúaði bilið og var afar farsæll forseti, virtur og dáður í sínu heimalandi. Grafreitur hans er merktur krossi og ljóðin hafa að geyma trú móður hans, viljan til samstöðu þjóðar á erfiðum tímum.

Mikið þykir mér nú vænt um allt þetta fólk, ættingja mína alla og vini hér heima og erlendis, ættingja þeirra og menningu hvaðan sem þetta ágæta fólk kann að hafa alið manninn. En ég tel mig hafa rétt á að hafa bæði rangt fyrir mér og rétt, bregði því við, í hvaða máli sem er en það veltur einnig á því hver hlustandinn eða lesandinn er hverju sinni.

Mennska okkar í myrkrinu hér heima spratt m.a. upp með menningu sem þjóðin átt oft erfitt með að meðtaka frá snillingum á borð við tónskáldin Ísólf Pálsson og Jón Leifs að öðrum ólöstuðum. Er nú verið að leita leiða til að kasta þeirri menningu og annarri á glæ sem hefur náð að dafna hér þrátt fyrir válynt pólitískt veðurfar? Ber ekki að standa vörð um okkar eigin menningu rétt eins og viðkæma náttúru landsins?

Rasisti er ég ekki. Ég styð forseta Íslands og tel að flestir íslenskir skríbentar komi að litlu gagni gegn vígbúnum hryðjuverkamönnum eða öðrum glæpalýð í ham nema þó einna helst þeir teiknarar sem kenna sig við tímaritið Charlie Hebdo.

Flokkar: Heimspeki · Menning og listir · Stjórnmál og samfélag · Trúmál

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sveinn Óskar Sigurðsson
MSc í fjármálum frá Háskóla Íslands og MBA í viðskiptum frá sama skóla auk BA í heimspeki og hagfræði. Áhugamaður um að efla skólastarf, hagræða í opinberri stjórnsýslu og að þar sé ávallt sýnt aðhald, ráðdeild og sparnaður. Helstu áhugamál mín eru ferðalög með fjölskyldunni, stangveiðar, skíðaiðkun og opinber umræða.
RSS straumur: RSS straumur