Föstudagur 01.05.2015 - 21:33 - FB ummæli ()

Misskipting launa – auðvald heimsins

Tekjuskipting á Íslandi hefur breyst til aukinnar misskiptingar undanfarin ár. Samkvæmt þjóðhagsreikningum Hagstofu Ísland hefur hlutfall launa annars vegar og fjármagnstekna hins vegar breyst verulega. Hlutfall launa árin fyrir 2006 var um 63% en er nú um 60%. Þetta þýðir, að laun eru nú þrjú til fjórum prósentum lægri en þau voru fyrir 10 árum. Með öðrum orðum eru 50 til 70 milljarðar króna minna til skiptanna til þeirra sem byggja framfæri sitt á launatekjum – en verið hefði að óbreyttu hlutfalli.

Fjármagnstekjur, sem orðnar eru stærri hluti tekna í þjóðfélaginu, renna til stöðugt minni hluta þjóðarinnar, auk þess sem misskipting launa hefur aukist. Að auki hafa stjórnvöld stóraukið áhrif þessarar launaþróunar með stefnu sinni í skattamálum.

Breytingar á lögum um skatta undanfarinna ára hafa – allar – verið til hagsbóta hóps, sem – fyrir einhverjar sakir hefur sífellt öðlast stærri hluta þjóðartekna. Nema þessar skattalækkanir tugum milljarða króna. Þá eru veiðigjöld 20 til 30 milljörðum króna lægri en þau hefðu verið að óbreyttum lögum – þessarar ríkisstjórnar – og afnám auðlegðarskatts lækkaði skattgreiðslur forréttandahópsins um 10 til 15 milljarða króna, auk lækkunar tekjuskatts á sjálfstætt starfandi aðila. Öllu þessu til viðbótar hafa skattar á orkusölu til stóriðju verið felldir niður og stjórnvöld hafa horft aðgerðarlaus á að hagnaður af raforkuvinnslu er fluttur úr landi. Þetta er óskiljanlegt venjulegu fólki eins og mér – sveitadreng austan af landi.

Ástæður þessara óskapa eru margar, bæði hagfræðilegar, stjórnmálalegar – og hugmyndafræðilegar, en hugmyndir um lífið, tilveruna og réttlæti – vega án nokkurs vafa þyngst. Í fyrsta lagi má nefna, að íslensk stjórnvöld vinna ekki í þágu almennings, heldur í þágu þeirra sem meira mega sín – hinna ríku og þeirra sem hafa völd. Í öðru lagi hefur hið alþjóðlega auðvald um árabil gert kröfu um 15 til 25% arð af fjármagni sínu, sem ógerningur er að ná – nema því aðeins að skerða hlut almennings – launþega, enda hefur auðvaldið haslað sér völl meðal fátækra þjóða heims sem berjast fyrir lífi sínu og hafa framleitt þar vöru sína og náð á þann hátt auknum arði af fjármagni. Á þetta að nokkru við um álframleiðslu á Íslandi.

Í þriðja lagi eru málsvarar launþegasamtaka á Íslandi veikir og sjálfum sér sundurþykkir. Ráðið gegn þessari sundurþykkju launþegasamtaka er hugsanlega að launþegahópar semji hver á sínum vinnustað, eins og nú hillir undir.

Í fjórða lagi eru stjórnmálaflokkar á Íslandi, sem áður börðust fyrir samvinnu og jafnrétti, annaðhvort gegnir á máli hjá auðvaldinu eða forystulausir, sundraðir og veikir. Í fimmta lagi eru sjálfstæðir, hlutlægir fjölmiðlar, sem gætu haft bolmagn til þess að greina á hlutlægan hátt stöðu mála fáir og fátækir – auk þess sem Fréttastofa Ríkisútvarpsins, sem lengi hefur verið öflugasta fréttastofnun landsins, í spennutreyju auðvaldsins.

Er þá eina leiðin virkilega bylting öreiganna á Íslandi, hugmynd sem er hundrað ára gömlu, en við Íslendingar erum að vísu hundrað árum á eftir nágrannaþjóðunum í umræðum um lýðræði og réttlæti.

Að kvöldi 1. maí 2015

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Tryggvi Gíslason
Akureyringur, fæddur á Norðfirði 1938, stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri 1958, magister í íslensku frá Háskóla Íslands 1968 með málfræði sem sérgrein, fréttamaður við Ríkisútvarpið, lektor við Universitetet i Bergen 1968-1972, deildarstjóri í skóla- og menningarmáladeild Norrænu ráðherranefndarinnar í Kaupmannahöfn 1986-1990, skólameistari Menntaskólans á Akureyri 1972-1986/1990-2003. Starfa sem fræðimaður og þýðandi.
RSS straumur: RSS straumur

Tenglar