Mánudagur 19.03.2018 - 10:25 - FB ummæli ()

Hugarafl – opið samtal

Undanfarin fimmtán ár hefur fagfólk innan Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins: sálfræðingur, iðjuþjálfi, félagsráðgjafi og jógakennari starfað í teymi í samvinnu við Hugarafl, sem eru frjáls samtök þeirra sem þurfa á hjálp að halda vegna geðheilsu.  Starf teymisins er nefnt „geðheilsa-eftirfylgd” og er hornsteinn þjónustustarfs sem byggir á nýrri leið innan íslenska geðheilbrigðiskerfisins í samræmi við áherslur í aðgerðaráætlun Alþingis í geðheilbrigðismálum, ályktun Sameinuðu þjóðanna og Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar WHO, þar sem megináhersla er lögð á opin úrræði og samstarf við þá sem á hjálp þurfa að halda – og fjölskyldur þeirra – sem geta leitað eftir þjónustu á eigin forsendum og án tilvísunar frá lækni.  Orðið valdefling felur í sér að hafa vald til þess að taka ákvarðanir sjálfur, hafa aðgang að upplýsingum og úrræðum og læra að hugsa á gagnrýninn hátt og hafa áhrif á eigin líf og efla jákvæða sjálfsmynd sína og vinna bug á fordómum.

Nú hefur yfirstjórn Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins ákveðið að leggja niður fjögur stöðugildi, sem tengst hafa þessu hjálparstarfi – án rökstuðnings – og heilbrigðisráðherra hefur enn ekki lagt til lausn á málinu sem henni ber skylda til.  Fella á þetta hjálparstarf undir tilvísanakerfi og þeir, sem á hjálp þurfa að halda, geta ekki lengur leitað beint til þjónustu á eigin forsendum og án tilvísunar frá lækni.

Fimmtán ára starfi kastað fyrir róða

Árið 2016 fengu á sjötta hundrað einstaklingar reglubundna þjónustu „geðheilsu-eftirfylgdar”. Það ár leituðu nær 900 einstaklingar beint til Hugarafls.  Voru komur þessa fólks yfir 12 þúsund.  Veitt voru yfir 2000 viðtöl (símaviðtöl ekki meðtalin), auk vitjana, þjálfunar á vettvangi og útkalla vegna bráðatilfella.

Nú á að kasta fyrir róða fimmtán ára starfi þar sem brotið var blað í hjálp við þá sem þurfa á hjálp að halda vegna geðheilsu sinnar.  Guðný Björk Eydal, prófessor við Fálagsráðgjafadeild Háskóla Íslands, og Steinunn Hrafnsdóttir, dósent við Fálagsráðgjafadeild Háskóla Íslands, telja starfið sé einstök þjónusta sem ekkert annað úrræði veitir með sama hætti. „Aðferðir sem byggja á hugmyndafræði valdeflingar og aðferðum batalíkans hafa á undanförnum árum verið grunnstef í alþjóðlegri stefnumótun í geðheilbrigðismálum,” eins og segir í greinargerð Guðnýjar Bjarkar og Steinunnar Hrafnsdóttur.

Áskorun til Alþingis og ríkisstjórnar

Sem kennari hálfa öld, þar sem ég horfði upp á vanmátt nemenda sem máttu sín minna og áttu fáa úrkosti, og sem aðstandandi einstaklinga sem hafa þurft á hjálp að halda vegna geðheilsu, skora ég á forsætisráðherra, heilbrigðisráðherra, Alþingi og Verferðarsvið Reykjavíkurborgar að reka af sér slyðruorðið og gefa Hugarafli kost á að vinna áfram að „geðheilsueftirfylgd”, sem er hornsteinn þjónustustarfs við þá sem glíma við geðheilsu og byggir á nýrri leið, bæði innan hins  íslenska og hins alþjóðlega geðheilbrigðiskerfis.

Tryggvi Gíslason, fyrrverandi skólameistari Menntaskólans á Akureyri

 

 

Flokkar: Stjónmál · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Tryggvi Gíslason
Akureyringur, fæddur á Norðfirði 1938, stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri 1958, magister í íslensku frá Háskóla Íslands 1968 með málfræði sem sérgrein, fréttamaður við Ríkisútvarpið, lektor við Universitetet i Bergen 1968-1972, deildarstjóri í skóla- og menningarmáladeild Norrænu ráðherranefndarinnar í Kaupmannahöfn 1986-1990, skólameistari Menntaskólans á Akureyri 1972-1986/1990-2003. Starfa sem fræðimaður og þýðandi.
RSS straumur: RSS straumur

Tenglar