Þriðjudagur 24.04.2018 - 18:20 - FB ummæli ()

Framtíð íslenskrar tungu – íslensk málstefna

Enn er rætt um framtíð íslenskrar tungu – svo og um framtíð fjölmargra af um 6000 tungumálum heimsins.  Margir óttast að íslenskan deyi út á næstu áratugum ásamt þriðjungi annarra tungumála heimsins.  Hins vegar er á það bent, að þau tungumál standi sterkar sem eiga sér bókmenntahefð og þar sem áhugi er á málinu – enda þótt þau samfélög séu ekki fjölmenn.

Árið 1994 gaf bandaríski félagsfræðingurinn John Naisbitt [f 1929] út bók sem hann nefndi Global Paradox.  Þar segir hann, að aukin samskipti þjóða í verslun og viðskiptum muni styrkja þjóðernisvitund og tungumál einstakra þjóða svo og þjóðríkin sjálf.  Þá hélt hann því fram, að því víðtækari sem samvinna á sviði viðskipta yrði, þeim mun mikilsverðari yrði hver einstaklingur.  Einnig taldi hann að ný upplýsingatækni leysti alþjóðlega gjaldmiðla af hólmi, sem nú er komið fram, og að þýðingarvélar myndu styrkja einstakar þjóðtungur, af því að alþjóðleg samskiptamál yrðu óþörf með öflugum þýðingarvélum, sem einnig er komið fram.  Auk þessa taldi John Naisbitt, að því alþjóðlegra sem starfsumhverfi manna yrði, þeim mun þjóðlegri yrðu menn í hugsun.  Lítil málsamfélög í Evrópu fengju aukinn styrk vegna þess að fólk legði meiri rækt við menningarlega arfleifð til mótvægis við alþjóðavæðinguna.  Þetta hefur þegar gerst, þótt sums staðar hafi þessi aukna vitund um þjóðerni birst í neikvæðum myndum, m.a. vegna aukinnar andúðar á innflytjendum og á flóttafólki.

 

„Purity of the Icelandic language”

John Naisbitt minnist í bók sinni Global Paradox sérstaklega á Íslendinga og íslenska tungu og bendir á, að margir Íslendingar tali ensku og jafnvel önnur tungumál.  Engu að síður varðveiti Íslendingar hreinleika íslenskunnar – „purity of the Icelandic language” eins og hann orðar þetta – og byggi þar á gamalli bókmenntahefð.

Í mínum huga er engin vafi á, að íslenska mun lifa enn um ókomna tíð og muni vega þyngst í því að varðveita stjórnarfarsleg fullveldi Íslands.  Íslenskt þjóðfélag hefur breyst mikið á fáum áratugum – eins og eðlilegt er – og alþjóðahyggja hefur sett svip sinn á viðhorf Íslendinga – ekki síst viðhorf ungs fólks sem eru meiri „heimsborgarar” en fyrrum og ef til vill óbundnari heimahögum en fyrri kynslóðir, enda var á tímabili talað um „hinn nýja Íslending” sem léti sér í léttu rúmi liggja hvar hann væri búsettur og hvaða mál hann talaði, aðeins ef hann hefði starf og laun við hæfi og gæti lifað því lífi sem hann kýs.  Þetta virðist hins vegar vera að breytast.

 

Íslensk málstefna

Enginn vafi leikur á, að margvísleg hætta steðjar að íslenskri tungu.  Því þarf að móta málstefnu sem víðtækt samkomulag yrði um.  Til þess verður að efna til umræðu um íslenskt mál og íslenska málstefnu.  Þurfa sem flestir að taka þátt í þeirri umræðu.  Auk stjórnvalda þurfa rithöfundar, skáld, kennarar, skólayfirvöld, málvísindamenn, bókmenntafræðingar, sagnfræðingar, félagsfræðingar, læknar, lögfræðingar og prestar svo og fulltrúar atvinnulífs og viðskipta.  Og til þess minnast á máltækni í þessum fáu orðum mun hún ekki skera úr um líf nokkurrar þjóðtungu.  Þar verða fundnar leiðir til að geta átt samskipti við tæki og tól á hverri þjóðtungu fyrir sig.

En að lokum lítið dæmi um ferskleika íslenskrar tungu: rappið sem í margra eyrum er óskiljanlegt, framburður afkáralegur og reglur um málfræði og hljóðfræði virtar að vettugi.  Raunin er hins vegar sú, að rappið er eitt dæmi af mörgum um áhuga á íslenskri tungu og ferskleika hennar.

Flokkar: Menning og listir · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Tryggvi Gíslason
Akureyringur, fæddur á Norðfirði 1938, stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri 1958, magister í íslensku frá Háskóla Íslands 1968 með málfræði sem sérgrein, fréttamaður við Ríkisútvarpið, lektor við Universitetet i Bergen 1968-1972, deildarstjóri í skóla- og menningarmáladeild Norrænu ráðherranefndarinnar í Kaupmannahöfn 1986-1990, skólameistari Menntaskólans á Akureyri 1972-1986/1990-2003. Starfa sem fræðimaður og þýðandi.
RSS straumur: RSS straumur

Tenglar