Laugardagur 20.10.2018 - 19:39 - FB ummæli ()

Sálumessa – ljóðabók með djúpar rætur

Gerður Kristný hefur gefið út sjöundu ljóðabók sína sem hún nefnir Sálumessu.  Bókin „flytur bæn þeirra sem lifa um að sál þess látna megi bjargast” og „sungin messa yfir konu sem féll fyrir eign hendi svo að þjáning hennar og líf fái ekki að gleymast,” eins og segir í kynningu á kápusíðu.

Gerður Kristný hefur áður fjallað um ofbeldi gegn konum.  Í ljóðabókinni Drápa er fjallað um morð á konu í Reykjavík árið 1988 og í ljóðabókinni Blóðhófni, sem út kom 2010, segir frá jötnameynni Gerði Gymisdóttur sem Skírnir, skósveinn Freys, sótti í Jötunheima handa húsbónda sínum.  Er frásögn hinna fornu Skírnismála endursögð Blóðhófni og lýst átökum, harmi og trega Gerðar Gymisdóttur sem beitt var valdi og hún neydd burt frá heimkynnum sínum til að þýðast guðinn Frey í lundinum Barra.

Mannlíf

Sem ritstjóri tímaritsins Mannlífs birti Gerður Kristný árið 2002 grein eftir unga konu frá Akureyri sem misnotuð hafði verið barn að aldri af eldri bróður sínum.  Vakti greinin athygli, en Gerður Kristný fékk hins vegar þungan dóm frá siðanefnd Blaðamannafélags Ísland fyrir að birta greinina.

Árið 2005 kom síðan út bókin „Myndin af pabba – saga Thelmu” en Thelma Ásdísardóttir og fjórar systur hennar sem ólust upp í Hafnarfirði á sjöunda og áttunda áratug aldarinnar sem leið urðu um árabil fyrir grimmilegu kynferðislegu ofbeldi frá hendi föður síns og annarra barnaníðinga.  Fyrir þessa bók fékk Gerður Kristný bókmenntaverðlaun Blaðamannafélags Íslands.  Mikið breyttist því á þessum þremur árum. Og enn eru viðhorf til ofbeldis sem betur fer að breytast.

#MeToo hreyfingin

Enn lætur Gerður Kristný til sína heyra um ofbeldi karla gegna konum, því að segja má að ljóðin í Sálumessu séu skrifuð inn í nýjasta þátt frelsisbaráttu kvenna víða um heim – #MeToo hreyfingarinnar.  Ljóðabálkurinn lýsir ofbeldi karla gegn konum – í þessu tilviki karlmanns gegn ungri stúlku – stúlkubarni, systur sinni.  Ljóst er að kveikjan að ljóðabálknum er saga ungu konunnar frá Akureyri og er bærinn að hluta umgjörð kvæðabálksins:

Pollurinn

lagður svelli

 

Það hvein

í ísnum undan

skautum barnanna

 

eins og

hníf væri

brugðið á brýni

 

Og það eru að koma jól – en:

 

Hann leitaði

á þig þegar

hann kenndi

þér að lesa

 

Ása sá sól

Ani rólar

 

Þú óttaðist að

það sama biði barna hans

 

Naumast er unnt að lýsa tilfinningum barns á myndrænni hátt:

 

Bernska þín

botnfrosin tjörn

 

Myndhverfingar 

Eins og í fyrri ljóðabókum Gerðar Kristnýjar einkenna sterkar myndhverfingar ljóðin:

 

Grýlukerti uxu

fyrir glugga

 

Þú horfðir út um

vígtenntan skolt

vetrarins

Gerður Kristný leitar til annarra tungumála til þess að finna orð og vitnar í tungumálið farsi, persneskt mál, þar sem orðið tiám er notað um „ljómann í augum okkar þegar við eignumst vin” en „það vantar orð yfir skelfinguna sem hríslast eins og snjóbráð niður eftir hryggnum” – segir Gerður Kristný.

Lýsingar á sorgarfargi konunnar eru áhrifamiklar og Gerður Kristný bregður fyrir sig samlíkingum eins og:

 

Helvíti, hér er sigur þinn

Dauði, hér er broddur þinn

 

Þöggunin

Og svo er það skömmin og fólkið í þorpinu vill þagga niður söguna:

 

Fólkið vildi ekki

að sagan bærist út

 

Hún vatt sér

undir augnalok þeirra

sleit þau af

sem blöð af blómi

 

Enginn unni

sér hvíldar

 

Þau þyrluðu þögn

yfir orð þín

örfínu lagi af lygum

svo enginn þyrði

að hafa þau eftir

 

Seinna skilaði

fólkið þitt

laununum

– klinki í plastpoka

 

30 silfurpeningar!

sagði það

 

Mannssonurinn – mannsdóttirin

Og tilvísanir í sögu svika og ofbeldis halda áfram, söguna um mannssoninn sem svikinn var. Nú er það mannsdóttirin sem var svikin:

 

Vissulega varstu

mannsdóttirin

sem var fórnað

 

Sagan þín

birtist svo hver

sem á hana trúir

glatist ekki

 

Máttur skáldskaparins

En ofbeldismaðurinn fær makleg málagjöld:

 

Bátskjafturinn

hvolfist yfir hann

 

keiparnir

ganga inn í

bringu og hrygg

 

Rökkurnökkvinn

sekkur

 

Gerður Kristný er þarna að vísa til skáldskaparins, nökkvans eða dvergaskipsins, sem rætt er um í Skáldskaparmálum, en skáldskapur – ljóðið – á eftir að refsa ofbeldismönnum allra tíma og því er von:

 

Tennurnar

hafa verið

dregnar úr

vetrinum

 

Hjarnið

hrúður á særðri jörð

hún ber sitt barr

 

Viðlag kvæðabálksins er, að það vantar orð: „Það vantar orð yfir snjóinn sem sest á örgranna grein bjarkar í stingandi stillu,” eins og skáldið segir.  Og lokaorð kvæðabálsins eru:

Það vantar orð

Það vantar orð

Ekki er unnt að gera þessum áhrifamikla kvæðabálki Gerðar Kristnýjar viðhlítandi skil í orðum – það vantar orð.  Það verður að lesa ljóðabálkinn. Allir hugsandi menn, konur og ekki síst við karlar þurfum að lesa bálkinn – lesa Sálumessu Gerðar Kristnýjar – ekki einu sinni heldur sjö sinnum sjö.

 

Tryggvi Gíslason 20.10.2018

 

Flokkar: Menning og listir

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Tryggvi Gíslason
Akureyringur, fæddur á Norðfirði 1938, stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri 1958, magister í íslensku frá Háskóla Íslands 1968 með málfræði sem sérgrein, fréttamaður við Ríkisútvarpið, lektor við Universitetet i Bergen 1968-1972, deildarstjóri í skóla- og menningarmáladeild Norrænu ráðherranefndarinnar í Kaupmannahöfn 1986-1990, skólameistari Menntaskólans á Akureyri 1972-1986/1990-2003. Starfa sem fræðimaður og þýðandi.
RSS straumur: RSS straumur

Tenglar