Þriðjudagur 25.6.2013 - 20:46 - FB ummæli ()

Jómfrúrræðan á Alþingi

Birti hér jómfrúarræðu mína á Alþingi, sem mér þykir vænt um.

Virðulegi forseti. Hv. þm. Björt Ólafsdóttir, 6. þm. Reykv. n., hóf jómfrúrræðu sína á Alþingi í gær með orðunum, með leyfi forseta: „Með djúpri auðmýkt.“

Þetta þótti mér vel mælt hjá þingmanninum því að í þessu orði, „auðmýkt“, felst mikill styrkleiki sem er m.a. sá að setja velferð annarra framar eigin völdum og vegsauka. Auðmýkt er einhver besta leiðin til að öðlast virðingu.

Virðulegi forseti. Mig langar í fyrstu ræðu minni á hinu háa Alþingi að fjalla um málþing sem ég sótti í fyrradag, sem var haldið af grasrótarsamtökunum Göngum saman, Krafti og Samhjálp kvenna í samvinnu við læknadeild Háskóla Íslands.

Í síðustu viku hefur verið mikið rætt um erfðir og brjóstakrabbamein í kjölfar frétta af leikkonunni Angelinu Jolie. Í sumum fjölskyldum liggur mikil áhætta á þessum erfiða sjúkdómi vegna stökkbreytinga í svokölluðum BRCA genum. Á Íslandi er einstök staða uppi hvað varðar erfðaupplýsingar um þessi meingen sem tengjast rannsóknum Íslenskrar erfðagreiningar og fleiri vísindamanna. Ég er þeirrar skoðunar að okkur beri skylda til að nýta þær upplýsingar og láta einstaklinga sem bera slík meingen vita af því — þ.e. ef þeir vilja það — til að gera megi ráðstafanir til að lengja líf þeirra og auka lífsgæði. Ég mun beita mér fyrir þessu á þingi.

Þessi mál þarf að skoða vel og undirbúa og leiða til lykta ýmsar siðferðilegar spurningar sem vakna og hvernig best verður að þessu staðið að öllu leyti. Líklegt er að nýting erfðaupplýsinga í heilbrigðisþjónustu muni aukast mjög á næstu missirum og að mál af þessum toga komi inn á borð okkar alþingismanna áður en langt um líður.

Flutt á Alþingi 13. júní 2013.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 18.5.2013 - 11:43 - FB ummæli ()

Fáránleg leynd

Leikkonan heimsþekkta Angelina Jolie hefur stigið fram og greint frá því að hún hafi látið fjarlægja bæði brjóst sín vegna þess að hún er með arfgengt meingeng.  Um 80 prósent líkur eru á því að hún fái brjóstakrabbamein, sem geti leitt hana til dauða langt fyrir aldur fram.

Þetta hefur að sjálfsögðu vakið heimsathygli.  Jolie segir að hún upplifi sig engu minni konu þrátt fyrir að bæði brjóstin hafi verið fjarlægð.  Mikilvægast af öllu sé að geta verið með börnum sínum og fjölskyldu sem lengst og koma í veg fyrir að deyja um aldur fram.  Mæli Angelina manna heilust.

Nú er staðan sú að hér á Íslandi eru til einstakar upplýsingar um nær allar konur sem bera þetta meingen. Það er að sjálfsögðu skylda íslenskra yfirvalda að koma þeim upplýsingum til umræddra kvenna tafarlaust.  Ég spyr mig hins vegar; ef Angelina Jolie hefði ekki stigið fram hefði þetta mál etv. aldrei komið til umræðu í fjölmiðlum á Íslandi og skýrslur eða dulkóðar upplýsingar ,,rykfallið“ án þess að koma í veg fyrir yfirvofandi hættu. Þar ráði einhver ríkisforsjá um hvað fólk megi og megi ekki vita um sitt eigið líf.

Kári Stefánsson forstjóri íslenskrar erfðagreiningar segist hafa rætt við þrjá heilbirgðisráðherra um þetta mál og hvatt þá til aðgerða en án árangur og að opinber nefnd sem sérstaklega var skipuð vegna þess máls hafi lagst gegn því að upplýsa viðkomandi konur um hættuna.  Ég er ekki í nokkrum vafa um að við viljum öll vera vöruð við aðsteðjandi hættu við líf okkar eða barna okkar.  Ég spyr að gefnu tilefni;  veit ríkið eitthvað fleira sem snertir öryggi fólks í landinu sem haldið er leyndu?

Óhugarnarlegur veruleiki á Íslandi í dag.

(Greinin birtist einnig í Morgunblaðinu 17. maí 2013, undir heitinu Óhugnarlegur veruleiki)

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 17.3.2013 - 19:36 - FB ummæli ()

Hvar eru kjósendur Sjálfstæðisflokksins?

Kæru landsmenn.
Ég er staðráðin að komast á Alþingi næsta kjörtímabil. Sex vikur eru nú til stefnu og vegna þess hve við Sjálfstæðismenn fáum lítið fylgi skv skoðanakönnunum er fjöldi frambjóðenda flokksins, sem ég veit að munu geta gert þjóðinni mikið gagn næstu 4 árin úti í kuldanum. Þetta skil ég ekki. Ég er til dæmis í 5. sæti í SV kjördæmi og er ekki inni, skv. skoðanakönnunum. (Ég leyfi mér að telja mig með í hópi þeirra sem geta gert gagn á vettvangi stjórnmálanna).
Hvar eru kjósendur Sjálfstæðisflokksins sem ég deili mínum skoðunum með? Okkar helsta kosningamál er að laga skuldastöðu heimilanna með skatta afslætti sem greiðist beint til lækkunar á höfuðstóli viðkomandi íbúðaláns. Mjög flott og effektív leið til að lækka risalánin sem fjöldinn allur stendur uppi með og draga úr greiðslubyrði smá saman.  Leið sem verður kynnt mjög vel á næstu dögum.  Lækkun skatta, td virðisaukaskatts á matvæli og fleiri, lækkun tryggingargjalds á fyrirtækin og fjölmargar aðrar breytingar til lækkunar og eins og á bensíngjaldi er annað stefnumál sem tryggir að fólk hafi úr meiru að spila og ríkið sogi ekki allt til sín eins og nú er.  Með því að ræsa atvinnulífið á ný í stóru sem smáu og auka þannig hagvöxt aukast skattagreiðslur til ríkissjóðs þegar upp er staðið, sem er nauðsynlegt til að borga niður erlendar skuldir sem hafa hlaðist upp sem þýðir himinháar vaxtagreiðslur fyrir ríkissjóðs á meðan grunnelement í samfélaginu, LSH og lögreglan geta ekki lengur tryggt öryggi borgaranna vegna fjárþurrðar. Nýjar fjárfestingar með skynsamlegri nýtingu okkar frábæru auðlinda sem skapa ný störf sem leiðir til þess að við getum boðið fólkinu okkar sem hefur flúið land að koma aftur.
Breytum aðferðafræðinni við að stjórna landinu 27. apríl. Hjálpum fólkinu okkar að verða bjargálna á ný því það er fátækt á Ísland og hjálpum okkur sjálfum úr þeim efnahagsfjötrum sem við erum í, sem eru að gera Ísland að miðlungslandi til frambúðar með lágar ráðstöfunartekjur, atvinnuleysi og fólksflótta (sannkallað brain drain)í stað þess að við getum verið meðal þeirra bestu. Kæru landsmenn stöðvum þessa þróun.
kv. Elín
(með fyrirvara um innsláttarvillur; skrifað á iPad. )

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 7.3.2013 - 16:58 - FB ummæli ()

Lítil saga úr bakaríi

Við Íslendingar stöndum öll sem einn maður þegar eitthvað á móti blæs, eins og í óveðrinu í gær. Lögreglan, björgunarsveitir, Strætó býður upp á fiskibollur svo fátt eitt sé talið. Allir reiðubúnir að hjálpa náunganum og hugsa um velferð hans.

Ég kom inn í Bakarameistann í Suðurveri í gærmogun á leið til vinnu. Þar fékk ég hlýjar móttökur að venju hjá afgreiðslustúlkunum en það sem var nýtt fyrir mér var að allir viðskiptavinir vildu hjálpa og leiðbeina. Dæmi: ,,Farðu varlega í dag,“; ,,Ekki fara upp í Árbæ. Ég var að koma þaðan og ég mæli alls ekki með því að þú farir þangað“; ,,Komum öll heil heim í dag“; kallaði viðskiptavinur yfir bakaríið í kveðjuskyni til allar. Já allt í einu fann maður þessa dásamlegu tilfinningu þegar við stöndum öll saman og erum ein þjóð. Ég sneri við heim, eins og mér hafði verið ráðlagt, en með yl í hjarta eftir þennan litla þjóðfund í bakaríinu.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 4.3.2013 - 15:37 - FB ummæli ()

Sjálfstæðiskonur og næsta ríkisstjórn

Á nýafstöðnum landsfundi Sjálfstæðisflokksins urðu þau tíðindi að konur voru kosnar formenn í sjö af átta föstum málefnanefndum flokksins sem starfa á milli landsfunda.  Eins og flestir vita er landsfundur æðsta valdastofnun Sjálfstæðisflokksins þar sem stefna flokksins er mótuð hverju sinni.  Landsfundir í aðdraganda kosninga eru auðvitað sérlega mikilvægir.   Á fundinum var Áslaug Friðriksdóttir var kjörin, formaður Allsherjar- og menntanefndar, Bryndís Haraldsdóttir, formaður Atvinnuveganefndar, Karen Elísabet Halldórsdóttir, formaður Efnahags- og viðskiptanefndar, Erla Ósk Ásgeirsdóttir formaður Fjárlaganefndar, Katrín Helga Hallgrímsdóttir formaður Stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, Margrét Björnsdóttir formaður Umhverfis- og samgöngunefndar og  Kristín Heimisdóttir formaður Velferðarnefndar.

Glæsileg fundarherferð Landssambands Sjálfstæðisflokksins um allt land undir forystu Jarþrúðar Ásmundsdóttur formanns Landssambandsins í haust hefur vafalaust verið mikil hvatning fyrir konur til að láta til sín taka í stjórnmálum á vegum Sjálfstæðisflokksins, sem nú er að skila sér.

Þetta er frábær árangur sem sýnir að konur í Sjálfstæðisflokknum ætla sér stóra hluti innan flokksins og á vettvangi stjórnmálanna á næstu misserum.

Formaður gefur tóninn

Sókn kvenna innan flokksins að undanförnu endurspeglaðist líka í setningarræðu Bjarna Benediktssonar formanns flokksins á landsfundinum.  Hann sagði: ,,Kannanir benda til þess að fleiri konur verði kjörnar á þing fyrir Sjálfstæðisflokkinn í vor en nokkru sinni fyrr. Auk þess hefur Sjálfstæðisflokkurinn undanfarið mælst með jafnmikið fylgi meðal karla og kvenna. Þetta er mikið gleðiefni. Við höfum á að skipa öflugri framvarðasveit í Sjálfstæðisflokknum og sterkum listum. Það er valinn maður í hverju rúmi og að sjálfsögðu munum við gæta þess að hlutur karla og kvenna úr okkar röðum verði jafn þegar kemur að ríkisstjórnarmyndun.“

Góður árangur í prófkjörum

Árangur kvenna í nýlegum prófkjörum flokksins er einnig mjög glæsilegur.  Hanna Birna Kristjánsdóttir fyrrverandi borgarstjóri vann stórsigur í Reykjavík .  Þær Ragnheiður Elín Árnadóttir og Unnur Brá Konráðsdóttur fengu afgerðandi kosningu í 1. og 2. sæti á lista flokksins í Suðurkjördæmi. Ragnheiður Ríkharðsdóttur náði glæsilegum árangri  í prófkjörinu í Suðvesturkjördæmi eða Kraganum og lenti í 2. sæti. Þar fara sterkir forystumenn Sjálfstæðisflokksins, sem geta gert kröfu um ráðherrasæti í næstu ríkisstjórn sem Sjálfstæðisflokkurinn á aðild að.

Þá má nefna tvær nýjar og öflugar konur  í Norðausturkjördæmi í 2. og 3. sæti listans, þær Valgerði Gunnarsdóttur og Ástu Kristínu Sigurjónsdóttur.  Einnig þær Sigríði Andersen og Áslaugu Friðriksdóttur sem skipa 4. og 5. sæti listans í Reykjavík suður.  Ingibjörgu Óðinsdóttur og Elínbjörgu Magnúsdóttur sem skipa 4. og 5. sæti á lista flokksins í Reykjavík norður.  Karen Elísabet Halldórsdóttur og Bryndís Loftsdóttir skipa 7. og 8. sæti  í Suðvesturkjördæmi eða Kraganum og  Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir er í 3. sæti  í Norðvesturkjördæmi, en Norðvesturkjördæmi var eina kjördæmið þar sem ekki var haldið prófkjör á vegum flokksins.

Konur munu því svo  sannarlega setja sitt mark á kosningabaráttu Sjálfstæðisflokksins fyrir Alþingskosningarnar 27. apríl næstkomandi.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 2.3.2013 - 19:23 - FB ummæli ()

Flottar konur

Snillingarnir Guðný Pálsdóttir, Gróa Ásgeirsdóttir og Elísabet Sveinsdóttir hlutu Lúðurinn, íslensku auglýsingaverðlaunin í dag. Þessar fræknu konur eru heilarnir á bak við átakið ,,Á allra vörum“ sem hefur staðið fyrir söfnunum til góðgerðarmála með glæsilegum hætti undanfarin ár.  Haustið 2012 gerði þetta átak það kleift að opna stuðningsmiðstöð fyrir börn með sjaldgæfa, alvarlega, ólæknandi sjúkdóma, með landssöfnun á RÚV. Tæpar 100 milljónir söfnuðust.  Stuðningsmiðstöðin er rekin nú af styrktarfélaginu Nótt og Degi og gengur undir nafninu Leiðarljós.   Miðstöðin fer frábærlega af stað en hún er staðsett á Austurströnd á Seltjarnarnesi, og kjörorðið er að bjóða fram topp þjónustu til allra barna og fjölskyldna, sem flokkast undir ofangreindra skilgreiningar, en ekki sitja og bíða eftir að foreldrarnir hafi samband.

Ég sendi inn bréf til orðunefndar hinnar íslensku Fálkaorðu í haust með rökstuðningi um hvers vegna ætti að sæma stöllur, Guðný Gróu og Elísabetu orðunni um áramótin. Umsóknin hlaut ekki náð fyrir augum orðunenfndar.  Ef til vill er löng biðröð.  Ég mun endurnýja umsóknina regluleg; alls ekki gefast upp, enda tel ég að samfélagið eigi að sýna þakklæti sitt með einhverju móti þegar svona frábærir einstaklingar eiga í hlut sem eru okkur öllum fyrirmyndir.  Frábærlega flottar konur!

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 2.2.2013 - 13:37 - FB ummæli ()

Gullverðlaun í skattheimtu

Við Íslendingar eigum mikið af afreksfólki og þegar met eru sleginn verðum við stolt og glöð og stöndum þétt saman. Ganga Vilborgar Örnu Gissurardóttur á Suðurpólinn er dæmi um slíkt afrek sem sameinar þjóðina. En svo er önnur met sem sundra fremur en að sameina. Það nýjasta er að ríkisstjórn Samfylkingar og VG virðist hafi slegið Evrópumet í skattpíningu á þjóð sína.

Í gömlu Austur Evrópu voru þeir stjórnmálamenn reyndar heiðraðir sem stóðu sig best í útþenslu ríkisins og að slíta fé af hinum vinnandi manni og setja í hin ýmsu gæluverkefni á vegum hins opinbera með meiri skattahækkunum.  Í tíð ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og VG hefur einmitt þetta gerst, allt er skattlagt sem hreyfist.  Hreyfist það ekki þá er það hrist til þar til skattstofn fæst.

Það var svo sem viðbúið að með því að kjósa yfir sig skattaglaða vinstri stjórn þá fengum við skattaveislu, á kostað einstaklinga og fyrirtækja.  Og verra er að stjórnvöld skattpíningar eru algerlega stikkfrí hvað sneri aðrar efnahagslausnir, annað verður ekki ráðið.

Af hverju var skattaveislan ekki notuð til að slá skjaldborg um heimilin og ráðast á skulda vanda fólksins í landinu eins og lofað var? Í staðinn hefur stórfé verið notað í rándýr gæluverkefni eins og ESB aðildarviðræður sem stór meirihluti vill ekki, nýja stjórnarskrá sem engin þörf er á og rándýrar breytingar innan stjórnarráðsins með tilheyrandi samþjöppun valds.  Og við skulum ekki gleyma Icesave. Við gleymum hvorki þeim sem björguðu okkur, fólkinu í landinu,  né hinum sem vildu koma íslensku þjóðinni í ævarandi skuldafangelsi.  Ríkisstjórnin mun lafa út kjörtímabilið enda stutt í land.  Eðlilegast er úr þessu að þjóðin afgreiða hana eins og í stefnir í kosningunum í apríl.

Eftir situr að Evrópumetið í skattpíningu er ekki hættu í bili og gott að það vinnst ekki tími til að bæta það frekar. Máltækið „dýr mundi Hafliði allur“ kemur hér ósjálfrátt upp hugann.  Það er til komið vegna Hafliða Másssonar goðorðsmanns á tólftu öld sem átti í deilum við Þorgils Oddason sem hjó af honum einn fingur.  Hafliði fékk sjálfdæmi í ákvörðun á greiðslu bóta og notfærði sér það óspart svo Þorgils á að hafa sagt: „dýr mundi Hafliði allur, ef svo skyldi hver limur“.

(með fyrirvara um innsláttarvillur)

 

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 22.11.2012 - 21:31 - FB ummæli ()

Til skammar

Hvað er eiginlega í gangi inni á þessari mikilvægustu og merkustu stofnun okkar samfélags.  Ég skammast mín fyrir samborgara mína, þ.e. þá Alþingismenn í þessu tilfelli, sem haga sér svona.  Þeir eru fyrirmyndir, en standa engan veginn undir því.
Skrílslæti á aftasta bekk í þingsal: Þingmaður Framsóknar tekinn sérstaklega fyrir
eyjan.pressan.is

„Það hefur vakið vægast sagt furðu mína hér í dag að sitja á næstaftasta bekk og hlusta á, ég ætla að leyfa mér að segja, vægast sagt skrílslæti á aftasta bekk,“ segir Birna Lárusdóttir, varaþingmaður Sjálfstæðisflokks, sem er gáttuð á framferði kollega sinna í þingsal.

Í viðtali við bb.is hneykslast Birna á framferði þingmanna í tenglsum við umræður um nýja stjórnarskrá á þriðjudag. Hún hafi sem nýr þingmaður verið að reyna að átta sig á venjum og hefðum þingstarfa á sama tíma og aðrir þingmenn hafi verið með skrílslæti.

Ég hef fylgst með, einkanlega þeim sem sitja hér á aftasta bekk í dag, taka sérstaklega fyrir einn þingmann úr röðum Framsóknarflokksins. Mér hefur þótt það sem ég hef heyrt og ég hef séð ljótt,

segir Birna. Fleirum þótti greinilega nóg um, því Sigurður Ingi Jóhannsson, Framsóknarflokki, sá sérstaka ástæðu til að ræða hegðun þingmanna undir liðnum störf forseta.

Ég hef orðið vitni að því ítrekað í dag að hér er verið að hæðast að þingmönnum sem koma hér upp og ræða málefnalega um stjórnarskrá Íslands. Jafnvel er gengið svo langt að menn sitja í þingsal og senda inn ógeðfelld skilaboð á Facebook um hvað menn eru að segja hér í ræðustól. Mér er nóg boðið. Fólk sýnir sínu eigin starfi lítilsvirðingu og stjórnskránni. Það er lítilmótlegt. Þetta gengur ekki lengur. Menn þurfa að fara að taka sjálfa sig taki og virða þá málefnalegu umræðu sem hér verður að fara fram um stjórnarskrána.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 22.11.2012 - 21:23 - FB ummæli ()

Landsbyggðarmál eru mér hugleikin og því er N4 sjónvarpsstöðin í uppáhaldi eins og áður hefur komið fram. Einhver hélt því fram að ég væri að hrósa N4 af því ég að ætlaði í framboð úti á landi. Má manni ekki þykja vænt um landið sitt án þess að maður sé í einhverjum framboðshugleiðingum? Nú er ég að horfa á þátt þar sem Gísli Sigurgeirsson gamli RÚV dagskrárgerðarsnillingurinn heimsækir Hússtjórnarskólann á Hallormsstað. Flottur þáttur og góður til að ítreka fjölgreindarkenningur Gardners, sem ég er mjög hlynnt. Greind er afar margþætt og við eigum að nýta okkur það til að hvetja hvern einstakling til þess að nota styrk sinn til góðra verka, hver sem hann er. Ekki steypa alla í sama mót.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 21.10.2012 - 20:20 - FB ummæli ()

Ég er Kragabúi

Það er gaman að vera frambjóðandi á ferð í Suðvesturkjördæmi. Mosfellsbær, Seltjarnarnes, Kópavogur, Garðabær, Álftanes og Hafnarfjörður eru mínar kjörlendur. Eins og fram hefur komið hef ég hef lýst því yfir sækist ég eftir 3. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu. Prófkjörið fer fram laugardaginn 10. nóvember næstkomandi.

Kjördæmið mitt er oft kallað Kraginn, því eins og einhver glöggur sá þegar hin nýja kjördæmaskipan varð að lögum árið 1999 mynda sveitarfélögin sem tilheyra kjördæminu einskonar kraga eða trefil utan um höfuðborgina. Ég er svo heppin að stór hluti landsmanna býr í mínu kjördæmi auk þess sem ég get ekið í gegnum það þvert og endilangt á um það bil klukkustund.

Það ber náttúrulega dálítið á því að hvert bæjarfélag haldi með sínum frambjóðanda. Kópavogsbúar vilja sinn mann ofarlega á lista og Mosfellingar, Hafnfirðingar og Garðbæingar líka. En ég segi að þingmaður Suðvesturkjördæmis verði að vera þingmaður allra bæjarfélaganna jafnt. Maður gerir ekki upp á milli barnanna sinna eins og stundum er sagt.

Ég velti reyndar þessari hreppapólitík talsvert fyrir mér áður en ég gaf kost á mér. Hvort frambjóðandi frá Seltjarnarnesi, sem er mjög fámennt bæjarfélag, ætti nokkra möguleika á að fá náð fyrir augum kjósenda í hinum sveitarfélögunum. Seltjarnarnes er yndislegur bær þar sem mætast ósnortin náttúra og borg og glæsilegur golfvöllur innan seilingar. Þar hef ég búið í bráðum 30 ára og uni hag mínum vel og vil hvergi annarsstaðar vera. En svo létti mér stórum þegar ég fann það út að ég hef tengst nánast öllum sveitarfélögunum í Kraganum nánum böndum.

Þegar ég var lítil telpa var ég svo heppin að stúlka ættuð úr Hafnarfirði passaði mig oft. Hún var mér einstaklega góð í miklu uppáhaldi hjá mér. Þegar hún varð kennari við Öldutúnsskóla í Hafnarfirði leyfði hún mér stundum að koma og heimsækja bekkinn sinn þrátt fyrir að ég væri ekki enn komin á skólaaldur. Það fannst mér mikil upphefð. Hafnafjörður átti sér sérstakan stað í hjarta mínu. Svo fékk ég líka oft að gista á heimili hennar og foreldra hennar við Suðurgötu í Hafnarfirði. Þau voru mér líka afar góð og ekki spillti fyrir að þar á bæ var alltaf til lakkrís því pabbi hennar var sölumaður hjá sælgætisgerð. Hafnafjörður var því bær allsnægtanna í mínum augum.

Ég bjó í Garðabæ, sem þá hét Garðahreppur, frá 8 til 11 ára aldurs og gekk í Barnaskóla Garðahrepps. Þaðan á ég afar góðar endurminningar og festi þar djúpar rætur. Daglega ókum við út á Álftanes í skólarútunni en börnin á Áltanesi gengu líka í Barnaskóla Garðahrepps. Ég afar ósátt við að flytja úr Garðahreppi árið 1972 en sem betur fer fluttum við aftur í sveitarfélagið sem þá hét Garðabæ en þar bjó ég frá 15 til 19 aldurs. Ég segi yfirleitt að ég sé Garðbæingur þegar ég er spurð hvaðan ég sé ættuð.

Ég var Kópavogsbúi á námsárum mínum í HÍ. Kópvogur stóð á tímamótum og var að breytast í flottan nýtísku þjónustbæ í alfaraleið. Ég bjó í miðbæ Kópavogs sem þá var nýrisinn. Þar var alla þjónustu fá; matsölustaður í hæsta gæðaflokki, tískuvöruverslun, Línan vinsælasta húsgagnaverslun landsins, og fín skóbúð og blómabúð, og svo framvegs. Að búa þarna í miðbænum fyrir mig var eiginlega eins og að búa í útlöndum. Mér þykri því ávallt vænt um Kópavog.

Og síðast en ekki síst er það Mosfellsbær. Að minnsta kosti einu sinni í viku geng ég á eitthvert fellið í bænum, Helgafell, Reykjafell, Mosfell, Hádegisfell, Æsustaðafjall og Grímmannsfell g nýt fagrar nátturnnar þar. Úlfarsfell er í miklu uppáhaldi hjá mér og Erró hundinum mínum og þangað förum við oftast. Langafi minn Stefán B. Jónsson var bóndi á Suður-Reykjum í Mosfellssveit í upphafi síðustu aldar og var mikill frumkvöðull og brautryðjandi og leiddi fyrstur manna heitt vatn til húshiturnnar á Suður-Reykjum. Mér þykri líka gott að koma þangað til að heiðra minningu hans. Ég er stolt af framtaki hans á Reykjum sem komst í sögubækurnar.

Ég tengist því öllum sveitarfélögunum í Suðvesturkjördæmi sterkum persónulegum böndum og er í raun Kragabúi, og mun framvegis kalla mig það.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Elín Hirst
Alþingismaður

Elín er fædd í Reykjavík 4. 9. 1960.
RSS straumur: RSS straumur