Fimmtudagur 16.5.2013 - 11:51 - FB ummæli ()

Spurning Jónasar Kristjánssonar

Jónas Kristjánsson spyr hvort Sigmundur Davíð sé bófi eða bjáni.  Samkvæmt hugmynd Carlo M. Cipolla um bjánaskapinn fer þetta tvennt gjarnan saman. Ritgerð Cipolla heitir í enskri þýðingu „The Basic Law of Human Stupidity„. Með orðinu „stupidity“ á hann ekki við heimsku í merkingunni lág greindarvísitala heldur það sem ég kalla bjánaskap; tilhneigingu til að taka ákvarðanir sem eru bæði órökréttar og hafa fyrirsjáanlega í för með sér meiri skaða en ávinning.

 

Manngerðir Ciopolla

Cipolla telur upp fjórar megin manngerðir:

Cat-And-Mouse1Sá aumkunarverði (í ensku þýðingunni sem ég vísa til hér að ofan er notað orðið „helpless“ en á ítölsku er það „disgraziati“) gagnast samfélaginu en hann fær ekki það sem hann verðskuldar í staðinn. Cipolla á ekki við að greiðvikið og örlátt fólk sé aumkunarvert né heldur á hann við að raunveruleg fórnarlömb, í þessu samhengi, séu ekki til. Hann er að tala um þá sem láta aðra komast upp með að misnota sig þótt þeir gætu komist hjá því. Þann sem stendur ekki á rétti sínum, þann sem leggur meira af mörkum en hann raunverulega er fús til og verður ítrekað fyrir vonbrigðum þótt væntingar hans séu mjög sanngjarnar.

Cats_Helping_Eachother_to_get_the_FishSnillingurinn tekur ákvarðanir sem bæði hann sjálfur og samferðarmenn hans hagnast á. Á endanum græðir samfélagið allt.

 

kitten-with-yarnBófinn eða skúrkurinn hagnast á því að skaða aðra. Snjall bófi, sem er sjaldgæft fyrirbæri, veldur minni skaða en hans eigin ávinningur er. Flestir bófar eru hinsvegar líklegir til að hagnast lítið en valda öðrum miklum skaða. Þannig myndi Cipolla telja það bæði bjánaskap og bófahegðun að brjóta rúðu til þess að stela 2000 kalli því skaðinn fyrir þolandann væri meiri en hagnaður bófans.  Snjall bófi nýtur góðs af öðrum án þess að valda aukatjóni. Ég myndi t.d. samkvæmt þessu kerfi flokka þann snjallan bófa sem sækir sér tónlist af netinu án þess að borga fyrir hana.

cat-washing-machine-600Bjáninn er að mati Cipolla hættulegasta manngerðin því bjáninn afrekar í senn að skaða aðra, jafnvel samfélagið allt, og sjálfan sig í leiðinni. Bjáninn getur sýnt af sér bófahegðun en hann veldur ekki bara fórnarlambi sínu tjóni heldur kemur hann líka upp um sig og getur t.d. lent í fangelsi.  Bjáninn getur líka verið aumkunarverður. Bjáni með fórnarlund gæti t.d. gegn vilja sínum tekið að sér verkefni sem hann ræður ekki við, eyðilagt vinnuvél og slasað sig á henni í leiðinni.

 

Aftur að spurningu Jónasar

Ef við reynum að svara spurningu Jónasar um Sigmund Davíð út frá hugmyndum Cipolla, kemur þrennt til greina, snillingurinn, bófinn eða bjáninn. Sigmundur Davíð og hans flokkur kom vel út úr kosningum og það er mjög ótrúlegt að samfélagið muni hagnast á þingsetu hans án þess að það komi honum sjálfum til góða. Það þarf því eitthvað mjög óvænt að koma fram til þess að hann falli í flokk þeirra aumkunarverðu.

563367_469005436497943_1577077657_nEf Framsóknarflokknum tekst að standa við mikilvægustu kosningaloforð sín er Sigmundur Davíð snillingur samkvæmt greiningu Cipolla. Ef stóru kosningaloforðin verða svikin og afleiðingarnar verða þær að Framsóknarflokkurinn missi stóran hluta fylgis síns og Sigmundur glati vinsældum sínum, þá er hann (skv Cipolla) bjáni. Ef honum tekst bæði að halda vinsældum og svíkja kosningaloforð út á þá hugmynd að hann hafi ekki vitað hvað var að gera þegar hann kynnti loforðalistann er hann bófi. M.a.s. mjög snjall bófi.

Komi á daginn að Sigmundur Davíð sé ekki hreinræktaður snillingur er hinsvegar ljóst að samkvæmt greiningu Cipolla eru kjósendur Framsóknarflokksins bjánar. Margir þeirra aumkunarverðir bjánar. Því ef Sigmundur Davíð er ekki snillingur þá mun samfélagið allt bera skaða af ríkisstjórn Silfurskeiðabandalagsins.

Við skulum vona að Sigmundur Davíð sé snillingur. Þá gætum við með nokkurri sanngirni dregið í efa hið fyrsta lögmál Cipolla um bjánaskapinn; fjöldi bjána í umferð verður aldrei ofmetinn.

____________________________________________________________________________________

Flokkar: Allt efni · Stjórnmál, trúmál og þjóðarsálin
Efnisorð:

Miðvikudagur 15.5.2013 - 12:43 - FB ummæli ()

Silfurskeiðabandalaginu er sama um þig

________________________________________________________________________________________

Góðæri framundan, hæhó jibbýjei, nú er víst óhætt að hefja partýið aftur.

merida-makeover-disney-petition-w724En veistu hvað; markaðsráðgjöfum Disney er sama um ímynd Meridu. Markmið þeirra er ekki að virða listaverk, hvað þá að vinna gegn staðalmyndum, heldur að græða eins mikla peninga og mögulegt er. Eigendur Disney myndu setja skegg á Pétur Pan og gera Öskubusku að feminista ef þeir héldu að það skilaði meiri gróða.

Disney er sama um Meridu. Sjálfsagt finnst einhverjum það ómerkilegt mál að listaverk sé eyðilagt og boðskapurinn fari forgörðum  en kannski ekki eins léttvæg staðreynd að eigendum Walmart er sama um starfsfólkið í fataverksmiðjunum í Bangladesh.  Og af hverju ætti þeim ekki að vera sama? Þetta fólk er með sem svarar 5000 kalli í mánaðarlaun (og sumir minna) og er það mikil hækkun frá því fyrir hrunið. Það er ekkert vit í því að fjárfesta í öryggi fyrir fólk sem er svona lítils virði enda nóg framboð af fólki sem getur unnið í fataverksmiðjum ef fleiri deyja.

obama-closes-guantanamo-allows-detention-of-americansWalmart er sama um verksmiðjuþræla og hugsanlega hafa einhverjir þeirra val. En fangar hafa ekki val og Obama er sama um fangana í Guantánamo. Hann komst til valda út á loforð um að draga úr hernaði og uppræta mannréttindabrot en raunverulegt markmið hans var að þjóna undir kapítalið. Og það gerði hann.

Og veistu hvað; rétt eins og Obama, eru bæði Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn handbendi kapítalismans. Stórfyrirtækja sem hafa engin prinsipp, hvort sem við skoðum menningu og listir, velferð og öryggi, mannréttindi eða neitt annað sem skiptir almenning máli. Silfurskeiðabandalaginu er sama um þig.

 

Hvað er kapítalismi?

Grunnhugmynd kapítalismans, sú hugmynd að hagnaður sé grundvöllur velferðar, er rétt og góð. Fátækt er á allan hátt ógeðsleg og því er skiljanlegt að fólk vilji stjórnvöld sem leggja áherslu á gróða. Það virðist líka frekar réttlátt að þeir hæfustu, duglegustu og þeir sem taka frumkvæði og áhættu sem gagnast samfélaginu, njóti góðs af því. Jafnvel svokölluðum „vinstri flokkum“ finnst það réttlátt, enda langt frá því að stefna fráfarandi ríkisstjórnar eigi neitt skylt við kommúnisma þótt hún hafi ekki svifið skýjum ofar eins og Silfurskeiðabandalagið. En málið er að kapítalismi í framkvæmd er jafn langt frá því að vera réttlátur og kommúnismi er langt frá því að vera laus við persónudýrkun. Sá kapítalismi sem við þekkjum gengur ekkert út á það að „snúa hjólum atvinnulífins“ svo fleiri brauðmolar hrynji af borðum auðvaldsins heldur gengur hann út á frelsi fárra útvalinna til þess að blóðmjólka fjöldann.

Kapítalismi er réttlættur með hugmyndinni um náttúruval, að sumir njóti forréttinda vegna verðleika sem gagnast öllum, rétt eins og í náttúrunni. En það er blekking. Kapítalismi í framkvæmd er ekki það fyrirkomulag að silfurbakurinn í hópnum fái bestu bitana heldur það sem þú sérð í þessu myndbandi.

 

Þetta er sá kapítalismi sem rekinn er á Vesturlöndum í dag. Svona hegða engir apar sér. Þetta er ástandið sem „öfgasinnað“ umhverfisverndarfólk og sósíalistar eru að reyna að sporna gegn. Kapítalismi snýst ekkert um að útvega aumingjunum fleiri brauðmola. Ef það gerist er það fínt en það er ekki markmið. Kapítalismi snýst um að gera þá ríku ríkari og það eru engin takmörk fyrir því hvað það má kosta. Kapítalismi merkir að Disney er sama um boðskapinn, Walmart er sama um líf verkamanna,  Obama er sama um mannréttindi og Silfurskeiðabandalaginu er sama um þig.

 

Já en þetta er Ameríka, ekki Ísland

Ég held að jöfnuður sé meiri á Íslandi en í Bandaríkjunum. En Bandaríkjamenn halda reyndar líka að jöfnuður í þeirra samfélagi sé meiri en hann er. Ég veit ekki hvort nokkur hefur skoðað tekju- og eignadreifingu á Íslandi ofan í kjölinn en Þórður Björn Sigurðsson hefur tekið saman upplýsingar sem gefa vísbendingu um að Íslendingar þurfi ekki að hafa verulegar áhyggjur af uppgangi kommúnisma alveg á næstunni. Útlistun Þórðar má sjá með því að smella á myndirnar.

 

is1_1L_jpg_640x800_sharpen_q95

 

2011

Sætabrauðsdrengirnir voru ekki kosnir út á þessa mynd. Þeir voru ekki kosnir út á þann kapítalisma sem þeir hafa þjónað og ætla að þjóna. Þeir voru kosnir út á loforð um bættan hag almennings, ekki aðeins þeirra 5, 10 eða 15 prósenta sem eiga megnið af eignum og innistæðum og hafa hæstu tekjurnar.

Nú vill svo til að Íslendingar hafa rekið eina ríkisstjórn frá völdum, einmitt vegna þess að hún leyfði auðvaldinu að ræna almenning. Það hefur gerst og það getur gerst aftur. Kannski ætti Silfurskeiðabandalagið að velta þeim möguleika fyrir sér áður en veiðigjöld verða afnumin.

________________________________________________________________________________________

 

Flokkar: Allt efni · Stjórnmál, trúmál og þjóðarsálin
Efnisorð:

Þriðjudagur 14.5.2013 - 11:52 - FB ummæli ()

Því þeir vita hvað þeir gjöra

____________________________________________________________________________________

Þótt ríkisstjórn Silfurskeiðabandalagsins hafi enn ekki verið mynduð er Framsóknarflokkurinn samt strax búinn að afreka það að svíkja eitt mikilvægasta kosningaloforð sitt, loforð sem vafalítið skýrir drjúgan hluta af skyndilegri fylgisaukningu flokksins. Þetta kosningaloforð má sjá í stefnuskrá Framsóknarflokksins en þar er eitt markmiðanna að:

– ná sem víðtækastri sá um stjórn fiskveiða.

Blönduð leið verði farin, annars vegar á grunni aflahlutdeildar á skip og hins vegar við úthlutun veiðileyfa sem taki mið af sértækum byggðaaðgerðum.  Greitt  verði fyrir nýtingarréttinn með árlegu, sanngjörnu veiðigjaldi sem tengt verði afkomu greinarinnar.

 

Skyndileg stefnubreyting Framsóknarflokksins virðist reyndar ekki koma neinum á óvart, andstæðingar flokksins spáðu þessum svikum og kjósendur þegja þunnu hljóði, kannski sjálfum sér sárreiðastir fyrir að hafa bitið á agnið. „Hornsteinn samfélagsins“ sem samkvæmt fyrri yfirlýsingum Framsóknarflokksins eru heimilin, virðist lítið eða ekkert hafa komið til umræðu á hveitibrauðsdögunum austur í Biskupstungum en ekki heyrist heldur múkk frá kjósendum flokksins vegna þess. Og Sigmundur Davíð velur ekki frumlega leið til þess að réttlæta svikin; skýrining er auðvitað sú að útlitið sé verra en „haldið var fram.“

Bíddu nú við Sigmundur Davíð; hver hélt hverju fram? Ríkisbókhaldið var ekkert leyndarmál. Enginn hélt neinu fram sem ekki var hægt að fletta upp og skoða með eigin augum. Ekkert nýtt hefur komið fram sem bendir til þess að gögnum hafi verið leynt eða að staðan sé neitt verri en „haldið var fram“ og ég hef ekki séð eitt einasta dæmi um að fráfarandi ríkisstjórn hafi gefið upplýsingar sem ekki standast skoðun. Þú getur kannski bent á eitthvert dæmi? Já, stattu bara fyrir máli þínu drengur og segðu svo „fyrirgefðu“ og segðu það fallega.

Eins og ég benti á í færslu gærdagsins hefðu sætabrauðsdrengirnir kannski átt að kynna sér hvað þeir voru að fara út í áður en Bjarni lofaði skattalækkunum og Sigmundur skuldalækkunum. Það eru léleg vinnubrögð og reyndar hrein og klár svik við kjósendur að lofa gulli og grænum skógum og segja svo eftir kosningar „já en þið verðið að fyrirgefa okkur því við vissum ekki hvað við vorum að gera.“

Sorrý Sigmundur Davíð en þeir sem vita ekki hvað þeir eru að gera ættu kannski að stefna á ábyrgðarminna starf en embætti forsætisráðherra. Og þó, ég veit satt að segja ekki um neitt starf þar sem er í lagi að lofa einhverju án þess að vita hvort nokkrar forsendur eru til að efna það. Hvað þá ef viljinn er ekki fyrir hendi.

Og sorrý kjósendur Framsóknarflokksins en fáir ykkar hafa sér það til afsökunar að hafa ekki vitað hvað þið voruð að gera. Þótt stefnuskráin lofi því að útgerðarmenn skuli borga sanngjarnt verð fyrir aflaheimildir og verðtryggingin afnumin, á Framsóknarflokkurinn sér langa sögu óraunhæfra loforða sem óðar eru svikin, auk þess að hafa einatt gengið erinda auðvaldsins.

____________________________________________________________________________________

 

 

 

Flokkar: Allt efni · Stjórnmál, trúmál og þjóðarsálin

Mánudagur 13.5.2013 - 16:06 - FB ummæli ()

Hveitibrauðsdagar Silfurskeiðabandalagsins á enda

Nú fer hveitibrauðsdögum Silfurskeiðabandalagsins senn að ljúka og alvaran að taka við. Brúðkaupið mun hafa farið fram á laun löngu fyrir kosningar. Og enn halda leynifundir áfram á leynistöðum. Lítið hefur frést af því hvað sætabrauðsdrengirnir hafa rætt á fundum sínum en því nákvæmari fréttir verið fluttar af bakkelsisáti þeirra félaga. Eftir því sem næst verður komist hafa hjónaleysin  lítið rætt stefnuna en þess í stað einbeitt sér að gagnasöfnun. Sumir hefðu kannski talið þörf á að ljúka þeirri vinnu áður en kosningaloforð eru gefin en „Wild Boys“ gera hlutina á sinn sérstaka hátt.

Auk þess að eta vöfflur og grilla hafa þeir bakkelsisbræður farið í gönguferðir. Samkvæmt síðustu fregnum voru þeir að vísu ekki búnir að fara saman í bað en til þess að hjónabandið haldi þarf annar þeirra eða báðir að skola af sér stærstu kosningaloforðin svo það styttist væntanlega í að Jóhannes þurfi að fýra upp í heita pottinum.

Svo er bara að sjá hvaða heiti mun festast við þessa ríkisstjórn. Sætabrauðsstjórnin, Hveitibrauðsstjórnin, Sveitastjórnin, Krónustjórnin, Silfurskeiðastjórnin eða Villingastjórnin. Um það ríkir mun meiri óvissa en um það hvaða kosningaloforð verða svikin fyrst.

Ég get ekki sagt að mér lítist vel á Silfurskeiðabandalagið en ég má til að hrósa þeim pr-manni fyrir óvenjulega kímnigáfu sem ráðlagði þeim að velja „Wild Boys“ sem óskalag. Annar í hópi snillinga síðustu viku er Gunnar Karlsson sem teiknaði þessa frábæru skopmynd.

Hér er textinn við „The Wild Boys“ Það væri gaman ef einhver vildi þýða hann. Mig langar ekki til þess í augnablikinu en ég skrifaði annan sem má syngja við sama lag.

 

Hveitibrauðsdagar

249136_10201048983936913_1205951425_nBjarni býður Sigmundi
í bústað uppí sveit.
Á einnar viku ástarfund
og upplýsingaleit.
Grufla á daginn, grilla á kvöldin.
Í Krónunni þeir kaupa
kjöt og rjóma og vöfflumix
og pönnukökupúlver,
nú skal plana ótal trix.
Þeir eru að stofna
silfurskeiðabandalag.

Wild boys
súpa af silfurskeið.
Wild boys
lækka skatta um leið.
Wild boys
ætla auðvaldinu
ennþá stærri sneið.

Með gras í skónum ganga
um gróin heiðalönd
ósammála um áttirnar
þó alltaf hönd í hönd.
Svanhildur með svuntuna
og sætabrauðið bíður.
Og brátt skal drukkin skál
en hvað var rætt á röltinu
er ríkisleyndarmál.
Þeir eru að stofna
silfurskeiðabandalag.

Wild boys
virkja fossafjöld.
Wild boys
grilla sérhvert kvöld.
Wild boys
ætla auðkýfingum
ennþá meiri völd.

 

 

Flokkar: Allt efni · Stjórnmál, trúmál og þjóðarsálin · Ýmislegt
Efnisorð: ,

Föstudagur 10.5.2013 - 11:28 - FB ummæli ()

Humar með hvítvíninu

______________________________________________________________________________________

 

glasses-white-wineÉg er hjartanlega sammála því að áfengi ætti að fást í matvörubúðum.  Það er hinsvegar lúxusvandamál að þurfa að skipuleggja innkaupin sín og það segir kannski dálítið um veruleikatengingu elítunnar í Sjálfstæðisflokknum að áfengissala í matvöruverslunum skuli vera það afrek sem formaður Heimdallar óskar sér að sjá flokkinn vinna á komandi kjörtímabili.  Maður hefði kannski búist við því að forsvarsmenn stjórnmálahreyfinga ættu sér háleitari drauma. Já og þyngri áhyggjuefni að minnsta kosti rétt á meðan stjórnarmyndunarviðræður standa yfir.  Sjálfstæðisflokkurinn er ekki tekinn við hlutverki stjórnarráðs-maddömunnar ennþá þótt Bjarni sé að hamast við að brydda brúðarskóna.

Verðandi ráðherrar sem og upprennandi stjórnmálamenn mættu alveg hafa í huga að til er fullt af fólki sem hefur ekki efni á því að kaupa vínflösku fyrir helgina og ekki heldur humar eða steik.  Það er líka til fólk, sem þrátt fyrir að vera í fullri vinnu, hefur ekki efni á því að kaupa annað grænmeti en kartöflur og hvítkál.  Kirsuberjatómatar kosta á bilinu 800-2800 kr/kg.  Þegar ég heimsótti Ísland síðasta sumar hætti ég við að kaupa spínat þegar ég sá að það kostaði 5000 kr/kg.

Ég vona sannarlega að sú ríkisstjórn sem brátt tekur við völdum sjái til þess að fólk með lágmarkstekjur geti keypt humar af og til, og jafnvel salatblað með honum, áður en hún léttir þeirri áþján af hinum fordekruðu krakkaormum sínum að þurfa að geyma eina flösku af helgarinnkaupunum fram á sunnudag.

Já og mér er alveg sama þótt formaður Heimdellinga hafi verið spurður hreint út um einmitt þetta mál. Ég hef ekki séð hana tjá sig um neinar aðrar væntingar til Sjálfstæðisflokksins.

 

humar

Sjálfstæðismenn eru byrjaðir að hita góðærisgrillin

 

______________________________________________________________________________________

 

Flokkar: Allt efni · Stjórnmál, trúmál og þjóðarsálin
Efnisorð: ,

Fimmtudagur 9.5.2013 - 09:24 - FB ummæli ()

Reynslan af fækkun ráðuneyta

_________________________________________________________________________________

Munið þið eftir því þegar ráðuneytin voru tólf? Munið þið þegar þeim var fækkað? Urðuð þið vör við að almenningur bæri skaða af þeirri fækkun? Tók yfirhöfuð einhver eftir því að ráðuneytum hefði fækkað? Jú, Jón Bjarnason fór í fýlu. Voru það kannski alvarlegustu afleiðingarnar?

Nú eru ráðherraefnin fleiri en ráðherrastólarnir en hafa Íslendingar yfirhöfuð eitthvað með ráðherra að gera? Af hverju ekki að stefna að því að afleggja ráðherraembætti með öllu og breyta ráðuneytunum úr valdastofnunum í þjónustuver?

Ég veit að mörgum finnst fráleit hugmynd að hægt sé að reka samfélag án ráðherra en halló! við höfum reynslu af því að fækka ráðherrum um þriðjung á mjög skömmum tíma. Og hvað sýnir sú reynsla? Bendir hún til einhvers annars en að minnst fjórir ráðherrar af tólf hafi unnið gjörsamlega óþörf störf?

_________________________________________________________________________________

Flokkar: Allt efni · Stjórnmál, trúmál og þjóðarsálin

Miðvikudagur 8.5.2013 - 15:35 - FB ummæli ()

Þroskaheftir síamstvíburar eða tvíhöfða asni?

_____________________________________________________________________________________

20010303Andri Snær Magnason hefur beðist afsökunar á því að nota orðin þroskaheftur síamtvíburi um væntanlega ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks.  Afsökunarbeiðninni beinir hann ekki til stjórnar og félagsmanna umræddra flokka heldur til fatlaðra.  Móðgunin felst þó ekki í því að líkja fötluðum við þessi ógeðfelldu stjórnmálaöfl heldur í því að tala um fötlun sem eitthvað neikvætt.

Umræðan um þetta orðalag Andra Snæs rifjaði upp fyrir mér gömul ummæli Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur sem eitt sinn notaði orðin þríhöfða þurs um þá Davíð Oddsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Hannes Hólmstein Gissurarson.  Þá sem nú áttu þursar sér fáa málsvara og ég man ekki til þess að neinn hafi gert athugasemd við þá tröllafordóma sem endurspegluðust í þessum orðum ISG.

Hvaða orð má nota?

Andri Snær hefði auðveldlega komist hjá því að móðga fleiri en hann ætlaði sér bara með því að nota annað orðalag.  Það er óhætt að nota orð eins bjáni, fáviti, heimskingi og vitleysingur til að móðga þá sem maður telur líklega til þess að taka óskynsamlegar ákvarðanir.  Vangefinn, þroskaheftur eða greindarskertur eru hinsvegar líka móðgun við fatlaða og því varasöm.  Ástæðan er sú að merking gömlu orðanna hefur breyst, þau eru notuð um þá sem taka skaðlegar ákvarðanir þrátt fyrr að þeir ættu að vita betur.

Líklega hefði Andri Snær einnig sloppið við gagnrýni á sínum tíma ef hann hefði haldið sig við klikkaða karla, og sleppt því að tala um það sem geðveiki að tífalda bankakerfið á skömmum tíma, í ágætri grein um umhverfismál. Við tölum ekki lengur um geðsjúka sem klikkaða í opinberri umræðu og þessvegna er það tækt í þessu samhengi, geðveikur kemur hinsvegar ekki til greina sem móðgun því það er árás á geðveika að benda á að geðveiki og órökrétt hegðun fari saman.

Það þykir allt í lagi að nota í móðgunarskyni þau orð sem áður voru viðhöfð um fötlun en ekki þau sem eru notuð í dag. Við getum ekki leyft okkur að móðga einhvern með því að kalla hann spastískan mongólíta en kjagandi bjánakeppur er hinsvegar umborið. Einnig má nota heiti dýra, jurta, fæðu og ævintýravera til að lítillækka andstæðinga. Það er móðgun við fatlaða að tala um vonda stjórnmálamenn sem síamstvíbura vegna þess að við notum orðið síamstvíburi ennþá þótt þyki smekklegra að tala um samvaxna tvíbura. Þríhöfða þurs er í lagi enda tölum við ekki lengur um tvíhöfða eða þríhöfða ef dýr eða börn fæðast samvaxin og aðstandendur þursa móðgast síður en aðstandendur þroskaheftra.

En hvað með blinda?

Undarlegt er, í allri þessari rétthugsun gagnvart fötluðum, að enginn fetti fingur út í það þegar talað er um blindu í neikvæðu samhengi. Menn eru sagðir blindir af fordómum, blindir á sjálfa sig, blindir á þá hreyfingu sem þeir styðja, blindaðir af græðgi, hrifningu o.s.frv, jafnvel siðblindir. Hversu lengi ætli við komumst upp með þá líkingu án þess að talsmenn blindra rísi upp á afturlappirnar?

Hversu mikinn þátt ætli tungumálið eigi annars í því að viðhalda fordómum og misrétti gagnvart minnihlutahópum? Nú er í lagi að tala um blindu í neikvæðu samhengi en það er eins gott að vera búinn undir örvahríð ef maður vill líkja einhverjum við þroskahamlaða eða geðveika. Sæta blindir þá meiri fordómum en greindarskertir og geðsjúkir?

 

Orðalag ofar merkingu

Það er ekki  merking orða Andra Snæs sem flestir gagnrýnendur eru ósáttir við heldur meintir fordómar gagnvart fötluðum. Þó vita allir að í daglegu tali er orðið þroskaheftur oft notað í sömu merkingu og hálfviti, sem þykir þó í lagi. Allir vita að það þykir ekki lengur viðeigandi að nota orðið vangefinn um þroskahefta enda þótt það hafi á sínum tíma verið pólitískt réttur arftaki orðsins fáviti og að allar líkur séu á að orðið þroskaheftur fari fyrr eða síðar sömu leið. Svo sterk er kurteisiskrafan í samfélagi sem telur þó allt í lagi að taka ákvarðanir um málefni fatlaðra án þess að skeyta neitt um mat þeirra sjálfra og aðstandenda þeirra.

Jafnframt vita allir hvað Andri Snær átti við. Hann átti ekki við fólk með Downs heilkenni. Hann hefði getað talað um tilvonandi ríkisstjórn sem tvíhöfða asna, ólseiga steikartvennu af risaeðlu og strúti, morkið kremkex, stökkbreyttan kálbanana eða tvíklofinn einfrumung. Merkingin hefði verið sú sama; náin tengsl tveggja stórgallaðra fyrirbæra sem augljóslega skortir heilbrigða skynsemi til þess að taka ákvarðanir fyrir hönd almennings.

Umræðan um færslu Andra Snæs hefur lítið snúist um það mat hans að tilvonandi ríkisstjórn sé vitsmunalega vanhæf, og flokkarnir tengdir of nánum böndum til þess að annar þeirra geti haft vit fyrir hinum, heldur aðallega um það hvernig hann orðaði þessa skoðun sína.  Og kannski er þessi tilhneiging kjósenda til að hlusta meira á framsetningu en merkingu einmitt ástæðan fyrir því að Engeyjarfíflið og Kögunarkjáninn makka í þessum orðum skrifuðum um það hvernig tryggja megi auðmönnum og stórfyrirtækjum betri kjör, á kostnað náttúrunnar, fátækra og kannski ekki síst fatlaðra. En það er víst öruggast að nota tæpitungu ef við ætlum á annað borð að ræða það.

siamsasni

 

Tvíhöfða asni skipuleggur grillveislu í félagi við hægri asnakjálkann á sér

Myndin er tekin í sveitasælunni í nágrenni Ölfusvatns í morgun. Hafa menn fyrir satt að tvíhöfðinn hafi fengið vöfflur með kaffinu en smáfuglarnir geti reiknað með að þurfa að gera sér að góðu að kroppa lýs og flær af baki hans næstu fjögur árin. Mun það vera útfærsla asnans á svokallaðri brauðmolakenningu.

 

 

__________________________________________________________________________________

Flokkar: Allt efni · Stjórnmál, trúmál og þjóðarsálin
Efnisorð: ,

Mánudagur 6.5.2013 - 15:05 - FB ummæli ()

Barnsfórnir í Úganda

_________________________________________________________________________

Þar sem fátækt, fáfræði og spilling koma saman er mannslíf lítils metið. Í Úganda eins og víðast í Afríku þykir sjálfsagt að börn vinni erfiðisvinnu og andlát eða hvarf barns er ekki litið alvarlegum augum miðað við það sem við eigum að venjast. Flestir hafa heyrt um hreyfingu Konys og félaga, LRA, og glæpi hennar gagnvart börnum en þeir eru kannski færri sem vita að samkvæmt opinberri stefnu ríkisstjórnarinnar má taka unglinga niður í 13 ára í herinn svo fremi sem samþykki liggur fyrir. Ég veit ekki hvers samþykki er átt við, barsnins eða föður þess (í Úganda hafa mæður engan rétt til barna sinna) . Í samanburði við glæpi Konys þykir það kannski ekki mikið mál að árið 2006 voru 5000 barnahermenn í úgandíska ríkishernum. (Nánari upplýsingar t.d. hér og hér.) Og svo hefur samþykki reyndar ekki alltaf verið neitt stórmál í huga Musevenis og félaga.

 

thumb.aspx

Museveni ræðir við barnahermenn 

 

En það eru ekki bara yfirvöld og andspyrnuhreyfingar sem meiða börn og drepa. Í Úganda eru trúarlegar mannfórnir enn stundaðar og einkum eru það börn sem þykja hentug til fórnargjafa. Þegar búfénaður dugar ekki til að tryggja velþóknun andanna. er börnum rænt og blóð þeirra og innyfli færð gvuðunum að gjöf. Því yngri því betra því sakleysi fórnarlambsins skiptir höfuðmáli. Það ku t.d. vera ávísun á góð viðskipti að grafa lifandi ungbarn í grunn eða vegg fyrirtækis. Samkvæmt þessari grein segist fyrrum töfralæknir hafa tekið við blóðfórnum að jafnaði þrisvar í viku. Vonandi eru það ýkjur en það er ekki umdeilt að slíkur viðbjóður á sér stað.

Helstu ráð foreldra til að verjast barnsránum er að umskera sveinbörn, gata eyru telpna eða merkja þau á annan hátt því fórnarbarn þarf að vera óskaddað til þess að andarnir hafi áhuga. Það dugar þó ekki alltaf til. Einnig kemur fyrir að hvítvoðungar hverfi af sjúkrahúsum. Hér er saga móður sem  fékk þær upplýsingar á fæðingadeildinni að nýfætt barn hennar hefði látist og að búið væri að grafa það. Samkvæmt skjali sem hún fékk því til staðfetingar var barnið þó á lífi. Ekki hefur fengist neinn botn í það hvað varð um barnið og ekki að undra að sögur af þessu tagi veki grunsemdir um að börnum hafi verið rænt af sjúkrahúsum eða jafnvel að þau hafi verið seld. Lögreglan segist ætla að gera allt sem hægt er til að upplýsa málið og stundum nást ungbarnaræningjar en flest barnshvörf eru aldrei upplýst og fátæklingar eiga mjög erfitt með að sækja rétt sinn.

Barnsfórnum mun hafa fjölgað í Úganda á síðustu árum. Eldri börnum er einnig fórnað og í þessu myndbandi kemur fram að lítill vilji virðist vera hjá gerspilltum yfirvöldum til að taka á þessum málum. Hér má m.a. sjá viðtal við móður sem missti barnið sitt á þennan hátt, börn sem hafa lifað af fórnarathafnir og mann sem barn staðhæfir að hafi ráðist á sig en kemst upp með að kaupa sig undan ákæru.

_________________________________________________________________________

Flokkar: Allt efni · Stjórnmál, trúmál og þjóðarsálin
Efnisorð: , , , ,

Föstudagur 3.5.2013 - 15:57 - FB ummæli ()

Ætlar Brynjar Níelsson að fá sér alvöru vinnu?

_____________________________________________________________________________________

Nýverið sagði Brynjar Níelsson í útvarpsviðtali á Harmageddon að hinar skapandi greinar dældu peningum úr ríkissjóði. Það er ekki alveg rétt. Eins og spyrillinn benti honum á er hægt að reikna það út og niðurstaðan er sú að skapandi greinar velta jafn miklu og álframleiðsla. Nokkrum dögum síðar bárust svo fréttir af því að gestir Eve Fanfest hefðu skilið 400 milljónir eftir í landinu. Einn atburður sannar auðvitað ekkert en þessi skýrsla gefur vísbendingu um að Brynjar ætti að endurskoða þá hugmynd sína að skapandi greinar séu afæta á ríkissjóði.

Brynjar hefur líklega bara átt við óarðbæra menningu

Ég reikna með að þetta hafi verið dálítið vanhugsað hjá Brynjari. Að hann hafi ekki haft allar skapandi greinar í huga heldur það sem í daglegu tali er flokkað sem menning og listir. Ég er ekkert hissa á að fólk rugli þessu tvennu saman því sjálf er ég ekkert viss um það hvaða greinar nákvæmlega eru flokkaðar sem „skapandi“. Listir, auðvitað, en handverk getur átt meira skylt við iðnað en sköpun. Það er heldur engin sérstök sköpun fólgin í því að spila tónlist eftir nótum. Það útheimtir samhæfingu hugar og líkama en það gildir einnig um íþróttir og þegar maður ber saman t.d. dans og fimleika þá sér maður glöggt hvað mörkin milli greina geta verið óskýr.

Mörkin eru víðar óljós. Er matreiðsla skapandi grein? Eða hárgreiðsla? Það er ekki tæmandi listi yfir skapandi greinar í skýrslunni og margt sem telja má „skapandi“ er fremur kallað hugvit og hönnun í daglegu tali. Brynjar hefur líklega ekki verið að hugsa um auglýsingagerð eða stoðtækjahönnun. Kannski ekki heldur um menningartengda ferðaþjónustu eða tölvuleikjagerð. Líklega var hann að hugsa um klassíska tónlist, bókmenntir og sviðslistir og sorrý en Harpan er rekin með tapi, Þjóðleikhúsið líka og ég skil það sjónarmið að ríkið eigi ekki borga fyrir slíka starfsemi. Ég er þó ekki sammála þeirri skoðun.

Fáið ykkur alvöru vinnu

uncle_sam_get_a_jobArðsemiskrafan er helsta röksemd þeirra sem vilja afleggja ríkisstyrki til menningar og lista. Listamaður sem getur ekki selt verk sín á almennum markaði er í þeirra huga afæta. Þeir sömu krefjast þó sjaldan arðsemi af öðrum stéttum. „Fáið ykkur alvöru vinnu“ er eitthvað sem má hreyta í listamenn en ekki opinbera starfsmenn sem skila þó engum hagnaði. Réttlætingin er sú að heilbrigðisþjónusta og vegagerð skili nógu miklum lífsgæðum til þess að rétt sé að samfélagið borgi fyrir þau en fáir hafi slíka unun af klessuverkum á striga eða sprikli á leiksviði að það réttlæti skattpíningu fjöldans.

Vísindamenn eru líka taldir vinna „alvöru vinnu“ en fáar vísindarannsóknir skila þó hagnaði. Af hverju rekum við ekki alla vísindamenn sem ekki skila arðvænlegum uppgötvunum? Kannski vegna þess að enginn hefur ennþá fundið lækningu við krabbameini og ef enginn sinnir þeim rannsóknum mun sú lækning ekki finnast. Kannski vegna þess að tækniframfarir verða þegar einhver uppgötvar eitthvað sem hann hefði aldrei fundið ef fyrirrennarar hans og kollegar hefðu ekki lagt grunn að lausninni með rannsóknum sem dældu peningum úr sameiginlegum sjóðum.

Listin byggir líka á gömlum grunni

Ímyndum okkur að frá árinu 1900 hefðu allir listamenn, menningaráhugafólk og fræðimenn sem ekki gátu lifað af viðfangsefnum sínum hætt að sinna þeim og fengið sér „alvöru vinnu“.  Hvernig væri heimurinn í dag? Hvernig hefðu fjölmiðlar þróast? Hvaða fornminjar hefðu glatast og hvaða áhrif hefði það haft á tækniþróun ef enginn hefði séð um að halda þekkingu til haga? Hvaða áhrif hefði krafan um „alvöru vinnu“ haft á iðngreinar? Sem betur fer vitum við það ekki því alltaf hafa verið til listamenn sem vildu frekar búa við sára fátækt en að gefast upp. Kafka átti t.d. sannarlega kost á „alvöru vinnu“ en hann vildi frekar skrifa.

List og menning skilar ekki alltaf beinum hagnaði og vel má vera að sumar skapandi greinar fái meiri framlög úr ríkissjóði en þær skila í hann. En það er ekki endilega frumlegasti listamaðurinn sem vinnur söluvænlegustu verkin og velgengni þeirra er oft ófyrirséð.  Ég vona að þingmenn og annað áhrifafólk sem vill svelta menningar- og listageirann velti því fyrir sér hvernig ímynd Íslands yrði án umburðarlyndis gagnvart óarðbærri menningu. Sú listsköpun sem samfélagið hagnast á er kannski ekki sú sem nýtur mestra styrkja en Björk Guðmundsdóttir væri ekki sá tónlistamaður sem hún er ef aldrei hefði verið gefin út tónlist sem enginn vildi borga fyrir, Latibær hefði ekki orðið til ef heimurinn þekkti ekkert óarðbært leikhús og Eve Online hefði ekki orðið til ef enginn hefði skrifað bækur og teiknað myndir sem þóttu nauðaómerkilegt drasl.

Van Gogh neglurÞar að auki eru þess dæmi að list sem þykir ómerkileg í dag þyki frábær á morgun. Sagt er að Van Gogh hafi aðeins selt eina mynd á meðan hann lifði og hefði bróðir hans ekki framfleytt honum er óvíst að nokkurntíma hefðu orðið til þau listaverk sem í dag draga ferðamenn til Hollands til þess að skoða eitt af vinsælustu listasöfnum veraldar. Safnið sjálft er ekki rekið með arðsemiskröfu í huga en hversu miklum peningum ætli ferðamenn verji í Hollandi?  Hversu miklu máli skiptir Van Gogh fyrir ímynd Hollands og hversu margir listamenn hafa orðið fyrir áhrifum af verkum hans?

 

Ætlar Brynjar kannski að fá sér alvöru vinnu?

Rekstur Alþingis kostar 2.633,9 m.kr  þ.e. tæplega tvo milljarða, sexhundruð þrjátíu og fjórar milljónir á ári. Ekki hefur verið sýnt fram á hagkvæmni eða nauðsyn þess að reka Alþingi. Mun meira framboð er af þingmönnum en eftirspurn en aldrei hefur verið látið reyna á markaðslögmálin með því að lækka laun þingmanna og skoða hvaða áhrif það hefur á framboðið.

kisiBrynjar Níelsson tekur brátt við starfi hjá Alþingi; stofnun sem dælir meiri peningum úr ríkissjóði en nokkur listastofnun. Laun Brynjars munu kosta skattgreiðendur töluvert meira en framlög til nokkurs listamanns. Ef Brynjari finnst í alvöru að ríkið eigi ekki að dæla peningum í óarðbæra starfsemi þá hlýtur hann að hefja þingmannsferil sinn á því að leggja fram lagafrumvarp um að Alþingismenn sem ekki skila hagnaði skuli sviptir launum og Alþingi lagt niður ef ekki tekst að sýna fram á arðsemi þess.  En nú þegar Brynjar áttar sig á því hversu miklum peningum ríkissjóður dælir í þessa afætustofnun, þá er auðvitað líklegast að hann hætti við að taka sæti á Alþingi og fái sér alvöru vinnu.

_____________________________________________________________________________________

Flokkar: Allt efni · Menning og listir
Efnisorð: , ,

Fimmtudagur 2.5.2013 - 10:32 - FB ummæli ()

Að stela deginum

________________________________________________________________________________________

Fyrsti maí er ekki baráttudagur verkalýðsins. Frídagur kannski en ekki baráttudagur. Eins og bent hefur verið á er það ekki verkalýðurinn heldur hernaðarandstæðingar, umhverfissinnar, vinir Palestínu og feministar sem ganga 1. maí. Það er ekki hátt hlutfall verkalýðsins sjálfs sem mætir á hátíðasamkomur. Festir kjósa fremur að nota daginn til að vinna á yfirvinnukaupi eða skemmta sér með einhverjum sem þeir eiga meira sameiginlegt með en verkalýðsforystunni sem býr svo sannarlega ekki við nein verkamannakjör. Verkalýðsforkólfar ættu að hafa meiri áhyggjur af því hversu margt verkafólk gefur skít í 1. maí en því að aðrir hópar eigni sér daginn.

Ég dreg í efa gildi sérstakra baráttudaga. Þegar þeir sem ættu að taka til sín mótmæli og kröfur vita að einn tiltekinn dag á ári mun fólk fylkja sér um málstaðinn, verða þær aðgerðir bara eitthvað sem menn reikna með fyrifram og kippa sér ekki upp við. Slíkar aðgerðir eru líka yfirleitt allt of smekklegar og friðsamlegar til þess að bera árangur. Ef mótmæli og kröfur eiga að hafa áhrif þurfa aðgerðirnar að vera truflandi, vekja þá sem þær beinast gegn til umhugsunar og vekja ótta um að það kunni að hafa slæmar afleiðingar að taka ekki tillit til þeirra.  Ég mætti aldrei í göngu eða á hátíðasamkomu á þessum degi á meðan ég var verkakona. Hversvegna hefði ég átt að gera það? Hafa göngur og ræðuhöld 1. maí einhverntíma haft áhrif á kjör verkamanna? Ekki í minni tíð að minnsta kosti.

Í gær lýsti Gylfi Arnbjörnsson því yfir að „verkalýðshreyfining“ væri jákvæð gagnvart nýrri þjóðarsátt. Hann var væntanlega að vísa til samkomulagsins milli atvinnurekenda og verkalýðsfoystunnar 1990, samnings sem þjóðin var aldrei spurð álits á. Hvaða verkalýðshreyfing skyldi það nú vera sem er svona áfjáð í sáttasex með atvinnurekendum í þetta sinn? Gylfi sjálfur eða einhverjir sem búa raunverulega við kjör verkamanna?  Hvenær voru aðrir meðlimir verkalýðshreyfingarinnar en Gylfi sjálfur spurðir álits á nýrri „þjóðarsátt“ og hvenær voru þeir spurðir um reynslu sína af síðustu „þjóðarsátt“ eða það hversu sáttir þeir voru við útkomuna? Nei ég er ekki að segja að „þjóðarsáttin“ hafi ekki haft einhver jákvæð áhrif heldur að benda á þjóðin átti engan hlut að henni. Ég er ekkert hissa á því að fólk nenni ekki að taka þátt í „baráttu“ einhverra skrifstofukalla sem telja sig hafa umboð til að gefa yfirlýsingar um sátt heillar þjóðar við aðgerðir sem hún hefur ekkert um að segja.

 

thjodarsatt

Þjóðin tekur í höndina á sér, svona líka sátt

Fyrsta maí göngur hafa engin áhrif á atvinnurekendur eða stjórnvöld. Þær eru bara skrúðgögnur. Fyrsti maí er nefnilega enginn baráttudagur heldur hátíðisdagur verkalýðsforystunnar, dagur sem verkalýðsforkólfar nota til að reyna að gera sig gildandi. Og þessvegna og aðeins þessvegna finnst mér bara fínt að umhverfissinnar og aðrir baráttuhópar hafi stolið deginum. Þeir stálu honum nefnilega ekki frá uppvaskaranum á veitingahúsinu eða þeim sem skúra sjúkrahúsin og viðhalda götum og gangstéttum, heldur frá Gylfa Arnbjörnssyni og félögum. Satt að segja finnst mér það pínulítið gottáðá.

________________________________________________________________________________________

Flokkar: Allt efni · Andóf og yfirvald · Kynjapólitík · Stjórnmál, trúmál og þjóðarsálin
Efnisorð:

Höfundur

Eva Hauksdóttir
er skáld, norn, aðgerðasinni og álitshafi.

Eva hefur áhuga á samfélagsmálum, einkum þeim sem varða hverskyns yfirvaldstilburði hvort heldur er af hálfu stjórnvalda eða annarra. Æskilegt er að þeir sem rata inn á síðuna lesi pistlana áður en þeir tjá sig um efnistök höfundar.

Þessi síða hefur ekki verið uppfærð reglulega mjög lengi en efni frá síðustu árum er birt á norn.is
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

web analytics