Sunnudagur 30.12.2012 - 13:08 - FB ummæli ()

Klámmyndir ársins 2012

 

Þessi dræsulega háskólastúdína var klárlega klámmyndafyrirsæta ársins 2011. Myndin var notuð á auglýsingu fyrir sloppasölu lyfjafræðinema. Ég skrifaði stutta hugleiðingu um þessa mynd á sínum tíma. Þessi klámmynd kom í óvæntar þarfir feminista, því þegar mannréttindanefnd Reykjavíkurborgar gekkst fyrir ritun sérstaks klámbæklings til þess að sporna gegn kláminu á vinnustöðum borgarinnar, kom í ljós að þar var eiginlega ekkert klám að finna. Til þess að bæklingurinn yrði ekki bara auðar blaðsíður var því brugðið á það ráð að gera þessa klámvæðingu lyfjafræðinnar að vinnustaðavandamáli í Reykjavíkurborg þannig að hneykslunin á henni entist vel fram á árið 2012.

Ég varð ekki vör við klámvæðingu í tengslum við sloppasölu lyfjafræðinema þetta árið svo líklega hafa þeir látið sér segjast. Ekki var þó neinn skortur á safaríku klámi í menningu okkar og verður ekki betur séð en að siðnum í landinu hnigni ár frá ári. Nú þegar árið er á enda vil ég benda á nokkur dæmi um þá klámvæðingu sem gegnsýrir menningu okkar.

 

Klámvædd leikföng

Í tilefni af umræðunni um klámvæddu Legókubbana vil ég benda á þessa leikfangaklámmynd af lególeikföngum sem eru sérhönnuð fyrir telpur, í þeim illa tilgangi feðraveldisins að hindra þær því í að leika sér að stríðsleikföngum og geimstöðvum. Krafa feðraveldisins er sú að aðgengi að alvöru leikföngum skuli áfram vera forréttindi drengja.

Í myndinni endurspeglast allur sá sjúkleiki sem kynjakerfið hefur í för með sér; hlutgerving kvenverunnar, bleikar slaufur, stutt pils, sítt hár og telpan er auk þess sýnd í umönnunarhlutverki þar sem hún er að fóðra hund. Samtímis er umönnunarhlutverkið klámvætt þar sem beinið er augljóslega fallosartákn.

 

Klámvædd barnaföt 

Þessi grímubúningamynd er ein þeirra mynda sem teknar voru sem dæmi um þá klámvæðingu sem birtist í öskudagsbúningum barna. Hún var m.a. birt á Smugunni við umfjöllun sem bar fyrirsögnina; Hvað er að að því að vera vændiskona á öskudag? Spurningin er óþörf því vændiskonur eru augljóslega miklu ógeðslegri skepnur en sjóræningjar, þungvopnaðir skæruliðar, vampýrur og aðrar fígúrur sem þykja drengjum samboðnar.

Myndin sýnir annarsvegar það sem feministar telja hefðbundinn klæðnað gleðikonu og hinsvegar eftirlíkingu í barnastærð. Ég skrifaði nokkra pistla í tilefni af umræðunni um öskudagsbúninga, hér er einn stuttur.

 

 

Klámvædd menntun

Kvikmyndaskóli Íslands vakti athygli fyrir hamslaust kvenhatur stjórnenda með klámfenginni auglýsingu. Svo langt gekk einn af kennurum skólans í kvenfyrirlitningu sinni að kalla kvartanir nemenda óþarfa viðkvæmni.

Málinu var gæfusamlega vísað til klámvarnamiðstöðvar internetsins og Hildur Lilliendahl, brást við og fékk klámið bannfært. Hefur sú framganga eflt til muna kvenfrelsi í landinu.

 

Klámvæddar unglingaskemmtanir

Stærsta klámvæðingarhneyksli ársins var uppátæki framhaldsskólanema sem auglýstu salsaball á vegum nemendafélagsins með þessari mynd. Myndin var sögð lýsa kvenfyrirlitningu enda fáheyrt að ungir menn telji sig hafa dottið í lukkupottinn ef þeim bjóðast þær trakteringar sem myndin gefur til kynna, nema þeir hati konur. Einhverjum tókst að lesa það út úr myndinni að graðar stelpur séu ekki samþykktar nema í þeim tilgangi að svala greddu strákanna. Einnig tókst hneykslendum að tengja myndina við Gillzenegger, nauðganir og mansal svo nokkuð sé nefnt.

Auglýsingin var nefnd sem sönnun þess að samfélagið þurfi á feminisma að halda enda mun ungæðisháttur og vanhugsuð sniðugheit alls ekki þrífast í því dýrðarríki kvenhyggjunnar sem sér klámdjöfulinn í hverju horni.


Klámvædd jól

Á netmiðli kvenhyggjusinna, knuz.is, hafa pistlahöfundar birt fjölda klámmynda á árinu. Því miður er ekki hægt að birta mynd af klámvæðingunni sem felst í g-strengjanærbuxum á fjögurra ára börn.  Sú klámvæðing er nefnilega ímyndun. Það er þó ekki þar með sagt að hún hafi ekki skemmandi áhrif og nauðsynlegt er að sporna gegn slíkum viðbjóði og öðru ímynduðu klámi með öllum ráðum.

Á knúzinu má annars sjá mikið og fjölbreytt úrval klámmynda sem eru altsvo ekki ímyndun og mæli ég með þeim vef fyrir hvern þann sem vill kynna sér þau brengluð viðhorf til kvenna og kynlífs sem vaða uppi í samfélagi voru. Ég læt nægja að benda á þessa mynd sem birtist með grein núna á aðventunni undir fyrirsögninni; Klámvæðing jólanna. Myndin sýnir dýrakynlíf í hátíðasamhengi en ekki hefur fengist staðfest hvort hundurinn er gerandi eða þolandi.

 

Hvar endar þetta?

Klámvæðingin er allsstaðar og alltumlykjandi. Hún hvíslar í brjóstum mannanna og teygir sig inn í innstu afkima samfélagsins. Dæmi eru um að konur komnar yfir fimmtugt reyni að vera kynþokkafullar og með sama áframhaldi má reikna með að klámvæðingin yfirtaki elliheimilin með tilheyrandi saurlifnaði.

Eini kimi samfélagsins sem ennþá er ósnortinn af þessum ógnvaldi er feministahreyfingin en ef ekkert verður að gert hlýtur hún að fara sömu leið. Erlendis eru dæmi þess að sjálf druslugangan sé klámvædd og að meintar druslur sprangi þar léttklæddar um götur í netsokkum og stuttum pilsum. Slík ósköp hafa enn ekki gerst á Íslandi en komi skjaldborgin ekki til varnar gæti farið svo að á næstu árum þurfum við að horfa upp á klámvædda druslugöngu.

 

     

 

Flokkar: Allt efni · Kynjapólitík
Efnisorð:

Laugardagur 29.12.2012 - 16:16 - FB ummæli ()

Pistlar ársins

Árið er óðum að renna í aldanna skaut. Eins og lesendur hafa eflaust tekið eftir ákvað ég að taka mér langt og vel heppnað jólafrí frá skrifum um dólgafeminisma og mun það frí standa allt til 4. janúar. Til yfirbótar hef ég svo ákveðið að strengja það áramótaheit að herða mig til muna í skrifum um þetta uppáhaldsviðfangsefni mitt enda ekki vanþörf á.

Ég þakka þeim sem hafa fylgst með skrifum mínum fyrir að lestur og ummæli og fyrir að vekja athygli annarra á þeim. Ég hef valið einn pistil frá hverjum mánuði ársins sem ég vil benda nýjum og áhugasömum lesendum á.  Þetta eru ekki mest lesnu pistlar ársins og ekki þeir sem ég lagði mesta vinnu í, heldur endurspegla þeir áhuga minn á mörgum málaflokkum.

Sýnishorn af pistlum ársins:

Janúar Saga strokuþræls
Febrúar Kristín Vala og örbylgjugrýlan
Mars Kvað hún brotaþola hafa uppfyllt öll skilyrði…
Apríl Hvaða hæfileika þarf forseti að hafa?
Maí Líkamsvirðing stendur fyrir…?
Júní Einkalíf í rusli
Júlí Til hvers að aðlagast menningunni?
Ágúst Ráðherrann á ruslahaugunum
September Af hugvitssamlegum reikningsaðferðum Fangelsismálastofnunar
Október Framtak Össurar og súru berin hans Bússa
Nóvember Opið bréf til forseta Íslands
Desember Rónaþversögnin

Mest hef ég skrifað um feminisma og málefni flóttamanna og um dólgafeminisma. Þá pistla má finna með leitarorðum á þessari slóð og svo hér á Eyjunni frá því í október. Fyrir þá sem ekki þekkja mín viðhorf í þessum efnum er fljótlegast að setja sig inn í þau með því að hlusta á umfjöllun í Silfrinu frá því í apríl.

Hér er Flóttamannahlutinn:

Og hér er feministahlutinn

Flokkar: Allt efni · Ýmislegt
Efnisorð:

Fimmtudagur 27.12.2012 - 18:44 - FB ummæli ()

Afnemum mannanafnalög

Mannanafnanefnd hefur samþykkt nokkur nöfn til viðbótar en foreldrar Christu litlu verða enn um sinn að sætta sig við að nafn hennar sé ólöglegt. Sú ákvörðun stenst enga rökvísi enda eru fjölmörg nöfn með samstöfunni ch á mannanafnaskrá og nafnið fellur prýðilega að beygingakerfinu.

Þegar úrskurðir mannanafnanefndar eru skoðaðir nokkur ár aftur í tímann kemur í ljós að eina reglan sem raunverulega er virt er hefðarreglan. Tvöfaldur sérhljóði er stundum leyfður og stundum ekki. Nöfn má stundum rita án broddstafa og stundum ekki, sum nöfn sem enda á óframbornu e má gefa íslenskum börnum en önnur ekki. Samstafan th er stundum leyfð og stundum ekki og það er álíka tilviljanakennt hvort ph er leyft. Útlensku stafirnir c og z eru stundum leyfðir en q hlýtur ekki náð fyrir augum nefndarinnar og fleiri dæmi má nefna þar sem engin rök er hægt að finna önnur en þau að nauðsynlegt sé að koma í veg fyrir nýsköpun.

Það er ekki bara tregða gegn nýsköpun sem nafnalögin byggja á heldur er er svo langt gengið í íhaldsseminni að undantekningar eru háðar því að ættingjar barnsins beri eða hafi borið það nafn sem ágreiningur er um. Þannig er ákveðin ættbálkahugsun lögfest, rétt eins og fólki sé ekki treystandi til þess að ákveða sjálft hverjir það eru sem standa því næst.

Mannanafnalög eru öðrum lögum fávitalegri. Hvaða rök sem menn kunna að færa fyrir þeim í orði, þjóna lögin í raun þeim eina tilgangi að geðjast ákveðinni íhaldssemi. Í fjölmenningarsamfélagi þar sem fólk getur gefið börnum nöfn í samræmi við hefðir fjarlægra menningarsamfélaga er einfaldlega útilokað að viðhalda beygingarvenjum og framburði með valdboði. Eðlilegast væri að afnema lög um mannanöfn en fá mannanafnanefnd ráðgjafarhlutverk fyrir þá foreldra sem óska ráðgjafar t.d. um stafsetningu eða beygingu.

Það er heldur engin ástæða til að setja mannanafnalög í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að fólk velji börnum sínum ónefni. Þegar gilda í landinu barnaverndarlög og ef einhverjir foreldrar velja barni sínu nafn sem þykir niðurlægjandi eða til þess fallið að verða barninu til ama, þá er það bara mál barnaverndaryfirvalda rétt eins og önnur vanvirða gagnvart börnum. Ef út í það er farið bjóða núgildandi lög upp á svo fíflalegar samsetningar að þeir sem endilega vilja gera brandara úr nöfnum barna sinna ættu ekki að vera í neinum vandræðum með að gera það samkvæmt núgildandi lögum.

Flokkar: Allt efni · Lög og réttur · Menning og listir
Efnisorð:

Þriðjudagur 25.12.2012 - 13:11 - FB ummæli ()

Að runka refsigleðinni

Fangi strýkur af Litla Hrauni. Gefur sig að lokum fram enda afber enginn venjulegur maður útlegð á Íslandi um miðjan vetur. Honum er skutlað beint í einangrun, ekki af því nein hætta sé á að hann spilli rannsókn sakamáls eða af því að hætta stafi af honum eða steðji að honum innan um aðra fanga, heldur er það hrein og klár grimmd sem ræður ferðinni.

Nú er ég viss um að einhverjum þykja þetta stór orð. Einhverjir telja að nauðsynlegt sé að refsa föngum fyrir strok því annars sé svo mikil hætta á að heilu flokkarnir flýi fangelsin. En fangelsisyfirvöld vita betur. Þau vita vel að ekkert bendir til þess að einangrun komi í veg fyrir strok. Þau vita líka að einangrun er grimmdarleg aðgerð sem stofnar geðheilsu fangans í voða. Reyndar svo grimmileg meðferð að það er óskiljanlegt að einangrun hafi enn ekki verið skilgreind sem pyntingar í mannréttindasáttmálum. Mörg ríki viðurkenna þó að nokkru leyti að einangrun sé eitt form pyntinga því þótt það sé ekki orðað þannig í lögum hafa þessi ríki lagt takmarkanir við því hversu lengi má beita fólk einangrun og á hvaða forsendum. Eitt þessara ríkja er Ísland.

Samkvæmt lögum liggur sú refsing við stroki úr fangelsi að fanginn fær ekki dagsleyfi næstu tvö árin. Að auki er heimilt að einangra strokufanga en það er þó engin skylda að beita þeirri grimmilegu meðferð. Það er ömurlegt til þess að vita að fangelsisyfirvöld skuli nýta heimildir til ómannúðlegrar meðferðar þegar það þjónar engum tilgangi öðrum en þeim að runka refsigleði fangavarða á páerflippi og óskandi væri að íslenskir fjölmiðlar krefðu Margréti Frímannsdóttur svara um það hversvegna hún taki þá ákvörðun að einangra menn á nokkrum öðrum forsendum en þeim að rannsóknarhagsmunir krefjist þess.

Flokkar: Allt efni · Andóf og yfirvald · Lög og réttur · Mannréttinda- og friðarmál
Efnisorð:

Mánudagur 24.12.2012 - 05:22 - FB ummæli ()

Fyrstaheimsvandamál

Þú veist að þú átt við fyrstaheimsvandamál að etja:

Þegar þú  „þarft“ að kaupa 32 jólagjafir fyrir utan það sem þú ætlar að gefa börnum og maka og sérð ekkert sem þér finnst koma til greina undir 2000 kr.

Þegar þú kaupir 32 gjafir sem þér finnst ólíklegt að verði nokkurntíma notaðar, átt ekki pening fyrir því sem þú ætlaðir að gefa þínum eigin börnum og finnst rökrétta lausnin vera sú að hækka yfirdráttarheimildina.

Þegar þú ferð með gjafir handa frændfólkinu í útlöndum í póst og sendingarkostnaðurinn er rúmar 3000 kr en í stað þess að tilkynna að aðeins börnin og makinn fái jólagjöf frá þér, kaupirðu sælgæti á pósthúsinu til að fylla upp í allan kassann.

Þegar þú pakkar inn 15. gjöfinni og það rennur upp fyrir þér að nýi maðurinn hennar systur þinnar á börn frá fyrra sambandi sem verða með þeim um jólin. Þú hefur aldrei séð þessi börn en það er ekki hægt að gera upp á milli systkina svo þú brunar í Kringluna og kaupir tvær gjafir í viðbót.

Þegar þú nefnir jólablankheitin á kaffistofunni og vinnufélagarnir kannast allir við vandamálið, sem er klárlega það að desemberuppbótin er ekki nógu há. Eftir stendur vandamálið; ég veit ekki hvernig ég á að fara að þessu, en í stað þess að einhver stingi upp á því að hætta þessu rugli, koma hugmyndir á borð við:

– Maður á bara að gefa eitthvað ódýrt (einmitt, þú hafðir bara ekki gert þér grein fyrir því, frábært að einhver skuli hafa fengið þessa glimrandi hugmynd.)
– Það er best að kaupa jólagjafirnar á janúarútsölunum (akkúrat sá tími ársins sem þú veður í peningum.)
– Flestum finnst skemmtilegast að fá heimatilbúnar gjafir (já og láglaunamanneskja hefur ekkert þarfara að gera en að verja 50 -100 klst í að búa til jólagjafir, auk þess sem er ódýrara að kaupa fjöldaframleitt drasl en efni í góðar gjafir. Eða áttu kannski að föndra eitthvað úr klósettrúllum?)

Þegar þú semur við vinkonu þína um að þið hættið að skiptast á jólagjöfum en kl 5 á aðfangadag birtist hún skælbrosandi með gjöf og heldur því fram að þetta sé ekki jólagjöf heldur „bara smáræði svona til gamans.“ Þegar þú nefnir þetta við kunningjana og spyrð hvernig eigi að bregðast við svona svindli færðu góð ráð á borð við:

– Það er sniðugt að kaupa nokkra konfektkassa og pakka þeim inn. Svo ef mann vantar gjöf í hvelli er pakkinn tilbúinn og maður þarf bara að smella merkispjaldi á hann. (Frábær hugmynd,  láglaunafólk sem er að reyna að klippa á þessa hefð, af því að hún veldur því meiri kvíða en ánægju, bætir bara tuttuguþúsundkalli við jólaútgjöldin til þess að vera því viðbúið að aðrir virði ekki samkomulag.)

Þegar þú ert að taka til í geymslunni og finnur 5 bækur og 3 geisladiska sem þið fenguð í jólagjöf í hittifyrra en gleymdist að skipta og þú áttar þig á því að þú hefur heldur aldrei notað bláa bolinn og spaghettýskammtamælinn sem þú fékkst í fyrra.

Þegar krakkarnir þínir fara á tombólu og koma heim með kertastjakann sem þú bjóst til á glerlistanámskeiðinu og gafst mágkonu þinni í jólagjöf.

Þegar fjölskyldan sammælist um að gefa bara smágjafir þetta árið og þú gefur systkinum þínum salt og piparstauka úr Tiger en færð 8000 króna bók frá bróður þínum og mágkonu. Þegar þú ásakar þau um að hafa svindlað, finnst þeim vandamálið vera það, að þú haldir að þau hafi ekki efni á að vera grand.

Þegar vinkonurnar eru sammála um að skiptast á smágjöfum en finnst mjög fyndið þegar þú segir heim að þig vanti heklunál, dósahníf og ryksugupoka. Þú færð ísskápasegul frá þeirri einu sem virðir regluna um smágjafir og skrautmuni sem passa engan veginn við heimili þitt frá hinum. Þann 27. desember eyðir þú svo  andvirði leikhússmiða í ryksugupoka og dósahníf.

Þegar þú segir fólki að ef það vilji endilega gefa þér eitthvað, komi sér best að fá neysluvöru, t.d. kaffi eða sápu. Þeir sem taka þig á orðinu geta ekki hugsað sér að gefa þér einn kaffipakka heldur kemur mörgþúsundkróna ostakarfa eða baðsápa í fokdýrum gjafapakkningum.

Það er samt ekki fyrr en þú vinnur í happdrætti og getur loksins leyft þér að kaupa jólagjafirnar í dýrari búðum en Tiger sem fyrstaheimsvandamálin verða verulega erfið. Þú áttar þig nefnilega á því að peningar leysa ekki fyrstaheimsvandamál. Þú veist ennþá ekkert hvað þú átt að gefa fólkinu þínu, því allir sem þú þekkir eiga allt nema einkaþotur. Nema náttúrulega Birna vinkona þín. Hún á eiginlega ekkert en staðhæfir samt að sig vanti ekkert nema ryksugupoka og heklunál. Þú getur ekki hugsað þér að gefa henni ryksugupoka svo þú kaupir handa henni bók. Að vísu voruð þið búnar að tala um að fara ekki yfir 2000 kallinn en þegar allt kemur til alls er hún Birna svo yndisleg vinkona og á það svo innilega skilið að fá almennilega jólagjöf. Þú færir henni almennilega gjöf og verður alveg steinhissa þegar hún kemur svo til þín nokkrum mánuðum síðar með þrefalt dýrari afmælisgjöf en hún hefur efni á.

 

 

 

Flokkar: Allt efni · Ýmislegt
Efnisorð:

Fimmtudagur 20.12.2012 - 14:52 - FB ummæli ()

Af virðingu stofnana

Alþingi er virðuleg stofnun. Það er því sorglegt til þess að hugsa að þingmenn geri sig seka um að vanvirða þessa háborg lýðræðisins með því að klæðast að hætti óbreyttrar alþýðunnar. Þessháttar hegðun hefur t.d. Árni Johnsen gerst sekur um. Hugsið ykkur bara hvernig það væri með virðingu þingsins ef allir þingmenn hegðuðu sér eins og Árni. Klæddust eins og einhverjir Vestmannaeyingar í þingsal.

Það er nú kannsi við því að búast að Árni geri sig sekan um dreifbýlislegan klæðaburð enda maðurinn löngum verið viðriðinn lágmenningu en þegar sjálfur menntamálaráðherra landsins mætir til vinnu í íslenskri lopapeysu, þá er nú nóg komið og rúmlega það. Já, ekki bara lopapeysu heldur íslenskri í þokkabót, hugsið ykkur lágkúruna.

Taka þarf á agabrotum af þessu tagi af fullum þunga því ef siðareglur eru ekki virtar getur það endað með því að þingmenn gangi enn lengra í afdalahættinum. Þeir gætu jafnvel hætt að hreyta ávörpum á borð við „hæstvirtur ráðherra“ hver í annan og notað þess í stað nöfn samstarfsfólks síns. Og hvernig haldið að það færi með virðingu þingsins?

Mikilvægt er að valdastofnanir samfélagsins haldi virðingu sinni. Hér er einn tuðarinn að röfla yfir því að dómstólar brjóti gegn stjórnarskránni. Hann minnist þó ekki á það einu orði að í öðru þeirra mála sem hann tekur sem dæmi var a.m.k. einn málflutningsmaður sem ítrekað hefur mætt til þinghalds í borgarlegum klæðum í stað þess að nota skikkju þá sem sérhönnuð er til þess að tryggja virðingu dómsins. Nauðsynlegt er að taka fyrir slíka skrípaleiki, ella mun almenningur að endingu missa traust sitt á réttarkerfinu og virðing dómstóla mun bíða óbætanlegt tjón.

Mikilvægi klæðaburðar verður seint ofmetið. Virðuleiki manna veltur ekki síst á höfuðbúnaði og þótt stofnanir lýðveldisins hafi sett sér reglur um klæðaburð hafa þær að mestu vanrækt kröfur um höfuðfatnað og höfuðdjásn. Vonir standa til þess að dómsstólar geti brátt farið að brjóta nýja og betri stjórnarskrá. Ég legg til að um leið og ný stjórnarskrá verður tekin í notkun, verði tekinn upp sérstakur þingmannahattur sem þingmönnum verði gert skylt að skrýðast í þingsölum og að dómstólar taki upp hárkollur að sið breska heimsveldisins. Hygg ég að þau heillaráð myndu stórbæta lög og réttarfar í landinu.

 

 

Flokkar: Allt efni · Ýmislegt
Efnisorð:

Miðvikudagur 19.12.2012 - 13:41 - FB ummæli ()

Að falla fyrir kapítalískri lygi

Í kjarabaráttu verður hver stétt sú mikilvægasta í veraldarsögunni og jafnframt sú vanmetnasta og sú göfugasta. Munið eftir auglýsingunni sem sýndi eymingja lömdu lögguna með búsó í bakgrunni? Jesús minn hvað löggi litli átti bágt. Mig langaði mest að hugga hann og gefa honum kjötsúpu.

Hjúkrunarfræðingar hafa ekki farið í samskonar fórnarlambsgír og löggan en þó hefur aðeins borið á umræðu um hjúkrunarfræðinga sem englum líkar verur sem eyða aðfangadagskvöldi á dánarbeði krabbameinssjúkra ættingja okkar sem við nennum ekki að heimsækja á jólunum, eða eitthvað svoleiðis. Ríkið ætti eiginlega að láta græða á þær vængi.

Mér geðjast ekki píslarhetjutaktík.  Mér finnst heldur ekkert trúverðugt að 354 uppsagnir séu ekki strategía heldur fúlasta alvara. Mér finnst ekki trúverðugt að fólk sem er yfir meðallaunum hafi ekki efni á að vinna það starf sem það hefur menntað sig til; segist neyðast til að giftast til fjár eða að það geti allt eins unnið sjálfboðavinnu. Það er nefnilega fullt af fólki sem vinnur sjálfboðavinnu og myndi sannarlega muna um hálfa milljón á mánuði og í mörgum löndum neyðast konur raunverulega til að giftast til þess að hafa ofan í sig. Ef fólk sem er yfir meðallaunum hefur ekki efni á vinnunni sinni, væri þá ekki eðlilegt að helmingur þjóðarinnar segði starfi sínu lausu á sömu forsendum?

Þótt ég gæti ælt yfir umræðum um það hvað hjúkrunarfræðingar (eða löggur eða hvaða stétt önnur) eigi bágt, finnst mér að hjúkrunarfræðingar eigi að vera á góðum launum. Mér finnst það en ég get ekki fært nein skárri rök fyrir því en biblíuna; verður er verkamaður launa sinna og allt það. Það er bara mitt persónulega gildismat að umönnunarstörf séu mikilvægustu störf samfélagsins, bændur og sjómenn álíta sennilega að matvælaframleiðsla sé mikilvægust. Það er sömuleiðis mín persónulega skoðun að ríkið eigi að meta mikilvægi hvers starfs til launa. Ég býst við að þeir sem vinna algerlega ónauðsynleg störf séu mér ósammála.

Við getum bent á ábyrgðina sem felst í umönnunarstörfum, langa vinnuviku, álagið sem fylgir vaktavinnu, menntun, andlegt álag og örugglega eitthvað fleira. En getum við haldið því fram að laun bæti fyrir ábyrgðina eða tryggi að fólk standi betur undir ábyrgð sinni? Hvaða stéttir hafa það of náðugt í vinnunni? Er óumdeilanlegt að menntafólk eigi að hafa hærri ævitekjur en ófaglærðir? Er andlegt álag hærra að verðgildi en líkamlegt álag? Við getum bent á að ýmis karlastörf séu betur launuð en hjúkrun eða kennsla en það er ekkert gefið að kvennastéttirnar skori fleiri fórnarlambsstig ef við metum slysahættu og aðra hættu á heilsutjóni. Það þarf allavega bágari píslarhetju en hjúkku til að toppa lömdu búsáhaldalögguna.

Fyrir utan ábyrgðina og vinnuálagið, vaktaböggið, streituna, göfuglyndið og jú neim itt, eru fjöldauppsagnir og landflótti nefnd sem rök fyrir nauðsyn þess að hækka laun hjúkrunarfræðinga. Markaðslögmálin, ríííílí? Sorrý en þeir sem nota eftirspurnarrökin í góði trú eru að daðra við viðbjóð sem heitir kapítalismi. Ef við ætlum að láta framboð og eftirspurn ráða, þá væri rökrétt að lækka laun heilbrigðisstarfsfólks. Ef reynist meiri innistæða fyrir landflóttapælingum hjúkrunarfræðinga en Björns Zoega er hægt og bjóða læknum og hjúkrunarfræðingum frá Austur Evrópu störf á Íslandi. Það er nefnilega þannig sem markaðsfrelsi virkar. Þeir sem nota eftirspurnarrökin hafa einfaldlega fallið fyrir þeirri kapítalísku lygi að þjónkun við markaðslögmálin gagnist einhverjum öðrum en valdastéttunum.

Einnig má spyrja hvaða réttlæti væri í því gagnvart þeim sem ekki eiga kost á landflótta að láta framboð og eftirspurn ráða ferð. Í gær birtist í Fréttablaðinu grein eftir táknmálstúlk sem bendir á að hvergi annarsstaðar en á Íslandi sé eftirspurn eftir íslenskum táknmálstúlkum. Væri sanngjarnt að hækka þær starfsstéttir sem geta fengið vinnu erlendis en halda þeim niðri sem hafa sérhæft sig í einhverju sem gagnast ekki annarsstaðar? Myndi það ekki leiða til þess að fáir tækju áhættu á að sérhæfa sig í hinu séríslenska?

Við getum tínt til ótal sanngirnisrök fyrir því að sú stétt sem við styðjum ætti að fá launahækkun en það er viðbúið að sú næsta sé bara ennþá göfugri, vinnusamari og verri píslum hrjáð. Á eftir hjúkrunarfræðingum koma sjúkraliðar sem verðskulda líka kjarabætur, svo þurfa kennnarar að gæta þess að dragast ekki aftur úr og þá eru allar þessar hækkanir orðar voðalega ósanngjarnar gagnvart hálaunafólki sem verður fyrir stórkostlegu áfalli ef það heldur að pöpullinn sé að narta í hælana á lúxuslífi þess. Verkföll fólks í umönnunarstörfum eru samfélaginu öllu kvíðavaldur. Þau bitna miklu verr á skjólstæðingum þess en atvinnurekandanum og sá ömurlegi píslarhetjuáróður sem dynur yfir þegar stórar stéttir eru að reyna að knýja fram samninga er niðurlægjandi fyrir þá sem reka hann og þeim til ama sem á hann hlýða.

Hversvegna ekki að rjúfa þennan vítahring með því að  afnema verkfallsrétt opinberra starfsmanna og binda öll laun þeirra við laun þingmanna? Leggja niður greiðslur fyrir „óunna yfirvinnu“ og aðrar dulbúnar launahækkanir og viðurkenna frekar að fólk verðskuldi almennileg laun fyrir þá vinnu sem það sinnir raunverulega. Hvert starf yrði metið til x% af launum þingmanns svo ef ein stétt fær launahækkun þarf að hækka allar án nokkurs samingaþvargs. Það yrði þokkalegur þrýstingur á ríkisstjórnina að tryggja stöðugleika.

Reyndar er ég ekki frá því að mætti gefa markaðslögmálinu séns en þá með því skilyrði að við byrjum í efri lögum samfélagsins. Síðasta sumar kusu Íslendingar forseta. Framboðið var sjö sinnum meira en eftirspurnin. Eftirspurn eftir Alþingismönnum er takmörkuð en framboðið gífurlegt. Ólíkt þessum störfum þarf maður að uppfylla hæfniskröfur til að eiga kost á að verða hæstaréttardómari en þar er framboðið líka meira en eftirspurnin. Hvernig væri nú að prófa að lækka laun í öllum þessum stöðum um svona helming og sjá til hvaða áhrif það hefði á framboðið? Af hverju í fjáranum halda markaðshyggjumenn ekki þeirri hugmynd á lofti? Eru markaðslögmálin kannski ekkert sniðug nema þegar valdaklíkurnar geta notfært sér þau til að græða á vesalingum? Það skyldi þó aldrei vera?

 

 

Flokkar: Allt efni
Efnisorð:

Mánudagur 17.12.2012 - 15:59 - FB ummæli ()

Skyggnulýsing 3a

Undanfarið hef ég skyggnst inn í kynjaveröld Háskóla Íslands þar sem kvenhyggjusöfnuður starfrækir biblíuskóla á kostnað ríkisins. Tildrög þessara skrifa er nýnemakennsla þar sem gagnrýni mín á trúarbrögðin er til umfjöllunar. Hér má sjá fyrri pistla mína þessu tengda:

Skyggnulýsing 2
Skyggnulýsing 1
Fánaberar fávísinnar
Vill einhver leka í mig leyniskjölum úr kynjafræðinni?

Ég hef ekki aðgang að fyrirlestrinum, aðeins glærum sem notaðar voru til skýringar. Ég hef þegar fjallað um kynningarglæruna og fyrstu glæruna. Þær er báðar nokkuð góðar en nú fara gæðin að koma í ljós.

 

Andstæðurnar Eva og Okkars

Næstu glæru er ætlað að skýra forsendunar fyrir gagnrýni minni og bera saman við ólíkar forsendur „fræðanna“ fyrir kynjaumræðunni.
Settir eru upp tveir dálkar. Vinstri dálkurinn ber yfirskriftina  Eva Hauks og sá hægri ber yfirskriftina Við.

Eva Hauks                                                        Við

Við?

„Við“, nemendur og kennarar í kynjaveröld feminismans eða hvað? Eitt af slagorðum kvenhyggjunnar er; „hið persónulega er pólitískt“. Hér hefur því verið snúið við; hið pólitíska er orðið persónulegt. Eva á móti „okkars“.

Tíðkast það í stjórnmálafræðikennslu í háskólum að kennarar stilli sjálfum sér og nemendum upp sem pólitískum samherjum, flokki sig sem lið á móti einstaklingi? Hvernig er þetta hjá Stefaníu Óskarsdóttur? Fá hennar nýnemar sambærilega kynningu á bloggurum sem gagnrýna Sjálfstæðisflokkinn? Stillir hún, eða hennar aðstoðarkennarar, upp andstæðum á borð við Lára Hanna Einarsdóttir og Við? Eða er Stefanía kannski fagmaður sem kennir fræði?

Uppsetningin á glærunni er í anda „kynjafræðinnar“ sem er ekki fræðigrein heldur með orðum Þorgerðar Einarsdóttur „akademiskur feminismi“

 

Forsendurnar

Forsendurnar sem mér eru eignaðar eru ekki síður athyglisverðar. Þær eru nógu vitlausar til að vera mér efni í a.m.k. tvo pistla en hér mun ég ræða þær fyrstu: Frjálshyggju og anarkisma.

Frjálshyggja og anarkismi. Ég er ekki að djóka, þetta stendur á glærunni. Og nei, þetta á ekki við umræðuna almennt, þetta eru tveir dálkar yfir mismunandi forsendur og undir nafninu mínu Eva Hauks, stendur Frjálshyggja og anarkismi.

 

Anarkismi

Það er rétt að kynjapólitísk afstaða mín er anarkísk. Anarkismi einkennist af andstöðu við yfirvald; þeirri skoðun að hver maður megi stjórna lífi sínu sjálfur, svo fremi sem hann skaðar ekki aðra. Anarkismi hafnar forræðishyggju. Önnur anarkísk áhersla sem ég hef haldið á lofti er sú að kúgun minnihlutahópa eigi sér rót í ríkjandi valdakerfi. Það þjóni því ekki jafnréttismarkmiðum að færa konum völd innan sama kerfis, heldur þurfi að bylta kerfinu sjálfu.

Sem dæmi um það hversu illa það þjónar jafnréttinu að færa völd frá fáum körlum til fárra kvenna, getum við tekið íslenska fjölmiðla en feministar tala mikið um að fjölmiðlar geri körlum hærra undir höfði en konum. Ég leyfi mér að vísa til ummæla sem einn lesenda lét falla í framhaldi af þessum pistli:

Yfirstjórnandi RÚV, Katrín Jakobsdóttir, er kona.
Aðaleigandi 365, Ingibjörg Pálmadóttir, er kona.
Aðaleigandi Moggans, Guðbjörg Matthíasdóttir, er kona.
Aðaleigendur DV og Smugunnar eru líka konur.
Eru konur eins valdalausar í fjölmiðlum og af er látið?

Af sömu ástæðum telja margir anarkistar að bann við kynlífsiðnaði sé ekki lausn á vanda þeirra kvenna sem kynlífsiðnaðurinn misnotar. Rót þess vanda liggur í þeirri afstöðu að atvinnurekendur séu yfirvald eða jafnvel eigendur starfsfólksins. Misnotkun þrífst í öllum geirum atvinnulífins og hugmyndin um atvinnurekanda sem yfirvald hverfur ekki þótt einhver starfsgrein verði aflögð. Hinsvegar hefur baráttan gegn kynlífsþjónustu skuggahliðar sem bitna verst á þeim sem ætlunin er að verja. (Þessi grein skýrir anarkíska afstöðu fólks sem er síður en svo hrifið af kynlífsiðnaði og hér er frábær umfjöllun á íslensku.)

Já anarkíska afstöðu kannast ég vissulega við, en frjálshyggju…….?

 

Af meintri frjálshyggju minni

Ég mun vera fyrsti frjálshyggjumaður veraldar sem hefur ekki aðeins skrifað fjölda pistla um umhverfisaktívisma, heldur líka tekið virkan þátt í baráttu gegn stóriðju. Það hef ég gert bæði vegna umhverfissjónarmiða en þó aðallega á þeirri forsendu að ofurvald stóriðjufyrirtækja grafi undan möguleikum fátæklinga víða um heim til að framfleyta sér og viðhalda menningu sinni.

Hversu oft tala fulltrúar frjálshyggjunnar um hnattvæðingu sem andstæðu markaðsfrelsis og um kapítalisma sem öfgastefnu?

Ég hlýt að vera eini frjálshyggjumaður Íslandssögunnar sem hefur beinlínis talað gegn eignarrétti og stutt pólitískar hústökur bæði í orði og verki.

Hversu margir íslenskir frjálshyggjumenn hafa talað gegn einkavæðingu bankakerfisins?

Hversu algengt er að frjálshyggufólk tali gegn erfðabreyttum matvælum, ekki út frá heilbrigðissjónarmiðum (því um þann þátt veit ég ekkert) heldur út frá óbeit sinni á því að einhver geti átt einkarétt á lífverum?

 

Veit þetta fólk ekkert um hvað það er að tala?

Kynjafræðin er hluti af stjórnmálafræðinni. MA nemar í kynjafræðum vita væntanlega hvað frjálshyggja er. Frjálshyggja á það sameiginlegt með anarkisma að hafa lítið álit á ríkisvaldi og vilja sem minnst eftirlit með borgurunum. En þar með er það upp talið. Forsendur anarkista og frjálshyggjumanna fyrir andstöðu gegn kynjakvótum og sænsku leiðinni eru gerólíkar.

Frjálshyggja einkennist af áherslu á viðskiptafrelsi. Óheftan kapítalísma og einkavæðingu bæði stofnana og auðlinda. Anarkismi dregur eignarrétt (fram yfir rétt til þeirra hluta sem maður hefur bein not fyrir) hinsvegar í efa, með þeim rökum að misskipting auðs stuðli að myndun yfirvalds. Þetta er grundvallarmunur og jafnvel þótt menn vilji nota skrípahugtakið „hægri anarkismi“, þá skín í gegnum skrif mín og pólitískar aðgerðir, andúð á flestu því  sem er með nokkurri skynsemi hægt að flokka sem hægri anarkisma.

Hversvegna í ósköpunum viðgengst það, að í nýnemakennslu í stjórnmálafræði við æðstu menntastofnun landsins, sé pistlahöfundur, sem ítrekað hefur lýst yfir andstöðu sinni við helstu áherslur frjálshyggjunnar, flokkaður sem frjálshyggjuboðberi? Hefur þeim kynjaverum sem kenna þessi „vísindi“ láðst að uppfræða meistaranema sína um muninn á frjálshyggju og anarkisma? Hleypa þessir kennarar MA nemum sínum í nýnemakennslu án þess að ganga úr skugga um hvort þeir hafi kynnt sér málflutning þeirra sem verið er að fjalla um?

Gyða Margrét Pétursdóttir og Þorgerður Einarsdóttir vita alveg hvað frjálshyggja er. En við skulum athuga að þær eru engir venjulegir fræðimenn. Þær eru kynjafræðingar og samkvæmt kynjafræðum er hið vísindalega pólitískt. Ekki verður annað séð en að kynjafræðikennurum Háskólans þyki í lagi að bera þvælu í nýmema, í nafni vísindanna. Þar með hefur slagorðinu „hið vísindalega er pólitískt“ verið snúið við; hið pólitíska er orðið vísindalegt.

 

 

 

Flokkar: Allt efni · Kynjapólitík
Efnisorð: , , , ,

Sunnudagur 16.12.2012 - 17:46 - FB ummæli ()

Að opna landamæri

Í hvert sinn sem ég nefni möguleikann á því að leggja niður landamæri, kýs einhver að túlka það á þann veg að þar með vilji ég drífa í því, án þess að setja niður áætlun um það hvernig eigi að taka á móti innflytjendum, án samráðs við aðrar þjóðir og fyrir klukkan tíu í fyrramálið.

Auðvitað gætum við opnað landamæri án þess að standa að því eins og fávitar og með Schengen samkomulaginu var stigið stórt skref í þá átt. Ekki sé ég að það samstarf hafi haft neinar hörmungar í för með sér.

Það hefur marga kosti að fá til landsins vinnufært fólk sem getur fljótlega lagt sitt af mörkum til samfélagsins. Kostnaður íslenska ríkisins við að framleiða einn skattgreiðanda er varla undir 20 milljónum og það tekur á bilinu 16-26 ár. Ég veit ekki við hvaða meðalaldur fólk er farið að greiða tekjuskatt en það þykir orðið nauðsynlegt að ungt fólk ljúki stúdentsprófi og sjálfsagt að það fari í framhaldsnám svo sennilega hefur meðalaldur skattgreiðenda hækkað umtalsvert á síðustu 50 árum.

Sænski miðjuflokkurinn íhugar nú alvarlega möguleikana á að opna fyrir frjálsan innflutning fólks til Svíþjóðar. Ástæðurnar eru annarsvegar þörf á vinnuafli í greinum sem Svíar sýna almennt lítinn áhuga og hinsvegar hættan á því að byggð leggist af á stórum svæðum. Þeir Íslendingar sem hafa áhyggjur af landsbyggðarflótta ættu kannski að skoða þennan möguleika líka.

 

 

Flokkar: Allt efni · Flóttamenn og innflytjendur
Efnisorð: , ,

Laugardagur 15.12.2012 - 15:44 - FB ummæli ()

Skyggnulýsing 2

Ég taldi víst að fáir hefðu áhuga á úttekt minni á kennsluefni kynjafræðinnar um svokallaðan „and-feminisma“ en það er öðru nær. Þessi pistill er búinn að fá þúsundir flettinga. Mér hefði þótt skemmtilegt að krefjast lykilorðs fyrir allar skyggnulýsingarnar en þar sem áhuginn er meiri en ég átti von á, ákvað ég að birta þá næstu hér.

Fyrsta glæra á eftir forsíðunni skýrir markmið kennaranna með umfjöllun sinni um skrif „and-feminista“, aðallega mín, en ég er þar nefnd „kyndilberi“. Einnig segir þar að and-feminísk viðhorf séu áberandi: að nauðsynlegt sé að greina þau og einnig að nauðsynlegt sé að svara gagnrýni á feminsma. Þetta lýsir meiri skarpskyggni en ég átti von á, prik fyrir það.

 

Kyndilberi andfeminisma

Ég gengst við titlinum „kyndilberi andfeminisma“ og ég ætla að segja ykkur hvers vegna ég er fullkomlega sátt við hann.

Á síðustu 10 árum hefur borið á þeirri undarlegu hugmynd að það sé eitthvað fínt að vera feministi. Skynsamt og jafnréttissinnað áhugafólk um kynjapólitík hefur unnvörpum lýst því yfir að það sé feministar. Jafnvel þeir sem sjá í gegnum forréttindastefnuna, forræðishyggjuna og aðra yfirvaldstilburði feminista, hika við að neita, þegar þeir eru spurðir hvort þeir séu feministar. Fáir svara afdráttarlaust nei og þeir sem ekki vilja bera þennan merkimiða, sjá sig knúna til að taka sérstaklega fram að þeir séu samt ekki á móti jafnrétti. Aðalástæðan fyrir þessum tepruskap er sú að feministum hefur, með blekkingum, lygum og með því að útmála konur sem fórnarlömb og karla sem þrjóta, tekist að koma á pólitískum rétttrúnaði. Sá sem lýsir yfir andstöðu við feminista getur reiknað með því að vera afgreiddur sem kvenhatari. Það er því öruggast að beygja sig undir kennivaldið og lýsa sig feminista.

Ég ber enga virðingu fyrir kennivaldi fasystranna. Mér finnst nákvæmlega jafn fínt að vera kvenhyggjusinni og að vera karlremba eða rasisti. Ég er jafn mikill andfeministi eins og ég er and-maskúlínisti, and-rasisti, and-fasisti og and-púrítani. Ég skal því með ánægju bera titilinn kyndilberi andfeminisma á Íslandi.

 

Að svara gagnrýni

Um nauðsyn þess að greina orðræðu and-feminista skal ég ekki segja en það er vissulega áhugavert eins og ég mun koma að í síðari pistlum. Um nauðsyn þess að svara gagnrýni á feminisma er ég hinsvegar sammála glærugerðarfólkinu og eftir slíkum svörum hef ég kallað stöðugt í tvö ár, án minnsta árangurs. Gagnrýni mín er of viðamikil til að hægt sé að greina í einum pistli frá öllu sem þarf að svara en ég skal einfalda þetta og gefa ykkur örfáar spurningar til að spreyta ykkur á.

 

1)  Gengisfelling hugtaka

Ég hef gagnrýnt feminisma fyrir gengisfellingu hugtaka. Og nú megið þið, akademisku feministar, svara fyrir hugtakanotkun ykkar, t.d. fyrir misnotkun ykkar á orðinu feðraveldi.

Þið haldið því fram að íslenskar konur búi við feðraveldi. Hvergi í heiminum er staða kvenna jafn góð og á Íslandi. Á íslandi getur kona kært ákvörðun til kærunefndar jafnréttismála ef hún telur sig hafa fengið ósanngjarna afgreiðslu við stöðuveitingu. Það er frábært, en vond er sú hliðarverkun að þar sem dólgafeministar skipa langflestar áhrifastöður í jafnréttiskerfinu fær hæfileikasnauð kona allan stuðning jafnréttisyfirvalda ef framúrskarandi karl er tekinn fram yfir hana. Undirmálskonum er jafnvel troðið í valdastöður út á það eitt að vera með píku.

Til eru samfélög þar sem alvöru feðraveldi ríkir enn í dag. Þar sem kynfæri stúlkubarna eru skorin af þeim með skítugu glerbroti og þær gefnar í hjónabönd áður en þær ná kynþroska. Þar sem konur eru dæmdar í fangelsi fyrir skírlífisbrot eða jafnvel drepnar af sinni eigin fjölskyldu án afskipta stjórnvalda. Þar sem nauðganafórnarlömb eru grýtt til bana.

Skárstu svörin sem ég hef fengið við því hvernig megi flokka Ísland sem feðraveldi eru þau að þar ríki klámvæðing og ungar konur raki píkuna á sér. Ég setti þennan samanburð upp á glæru:

 

Með hvaða rökum réttlætið þið það að leggja þetta tvennt að jöfnu?

2) Kynjakvótar

Mín gagnrýni á kynjakvóta grundvallast á þeirri hugmynd að það eina sem þeir hafi upp á sig sé að færa til auð og völd innan sama kerfis.

Hvaða jafnrétti sjáið þið í því fyrir hinn valdalausa meirihluta að helmingur þess fámenna hóps sem arðrænir hann og kúgar sé með píku?

3) Tengsl kláms og ofbeldis

Þið haldið því fram að klámneysla leiði til ofbeldis.

Hvernig skýrið þið það þá að þrátt fyrir stöðugt betra aðgengi að ofbeldisefni og klámi hefur ofbeldisglæpum fækkað stöðugt á síðustu 30 árum, bæði í Evrópu og Bandaríkjunum?

4) Eftirlitssamfélagið

Þið viljið koma á ritskoðun og eftirliti með kynhegðun almennra borgara. Í nafni mannréttinda á að uppræta klám og ofsækja viðskiptavini kynlífsþjóna; fólks sem kærir sig ekkert um vernd og hefur gert „Save us from our saviors“ að slagorði sínu.

Hvernig samræmist þessi forræðishyggja þeirri sannfæringu að konur séu hugsandi verur og færar um að taka eigin ákvarðanir? Hvernig samræmist hún rétti kvenna til að taka ákvarðanir sem varða þeirra eigin líf og líkama?

5) Öfug sönnunarbyrði

Ég hef vakið athygli á kröfu feminista um að mannréttindabrot verði lögfest. Mikið hefur verið slakað á sönnunarkröfum í kynferðisbrotamálum á síðustu árum og dæmi eru um dóma þar sem sönnunarbyrðinni hefur beinlínis verið snúið við. Þetta er sama þróun og í nágrannalöndunum þar sem hvert meinsærismálið á fætur öðru hefur komist upp eftir að menn hafa setið saklausir í fangelsi mánuðum og jafnvel árum saman.

Öllu fólki sem lætur sig mannréttindi einhverju varða býður við þessari þróun en þar sem flestum finnst óþægilegt að fá á sig stimpilinn „nauðgaravinur“ eða vera sakaðir um samúðarleysi með fórnarlömbum kynferðisofbeldis, þora fáir að segja það hreint út.

Gagnrýni minni á þessa stefnu hefur verið svarað með því að enginn sé að biðja um að sönnunarbyrði verði snúið við og nú skuluð þið svara því; hvernig er það ekki öfug sönnunarbyrði að taka því sem fullgildri sönnun ef kærandi virðist trúverðugur?

 

Svörin hingað til

Ég er sammála „kynjafræðingum“ um nauðsyn þess að þeir svari gagnrýni. Hingað til hafa svörin sem ég hef fengið verið útúrsnúningar og rökvillur. Getið þið gefið skýr svör við ofangreindum spurningum?

Eða finnst ykkur „búhúúúhúúú Eva er svo dónaleg að kalla okkur nærbuxnafeminista!“ vera góð rök?

 

 

Flokkar: Allt efni · Andóf og yfirvald · Kynjapólitík · Mannréttinda- og friðarmál · Stjórnmál, trúmál og þjóðarsálin
Efnisorð: , , , , , , , , ,

Höfundur

Eva Hauksdóttir
er skáld, norn, aðgerðasinni og álitshafi.

Eva hefur áhuga á samfélagsmálum, einkum þeim sem varða hverskyns yfirvaldstilburði hvort heldur er af hálfu stjórnvalda eða annarra. Æskilegt er að þeir sem rata inn á síðuna lesi pistlana áður en þeir tjá sig um efnistök höfundar.

Þessi síða hefur ekki verið uppfærð reglulega mjög lengi en efni frá síðustu árum er birt á norn.is
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

web analytics