Mánudagur 18.11.2013 - 14:17 - FB ummæli ()

Ögurstund Hönnu Birnu

Á ögurstundum í lífi þjóðar getur varla verið forgangsmál að forða börnum frá boðskap um rökhyggju og réttlæti. Þessvegna ættum við að fá einhvern valinkunnan trúleysingja  til að fara í barnaskóla og segja börnunum frá hugmyndum Richards Dawkins  um Gvuð. Er það ekki Hanna Birna?

Hvernig þætti þeim sem telja trúarinnrætingu í barnaskólum boðlega ef trúleysingjar færu í skólana og boðuðu þar hugmyndir sínar um þarfleysu og jafnvel skaðsemi trúar eins og þær séu óumdeilanlegur sannleikur? Eða ef börnin yrðu send í heimsókn til Siðmenntar á skólatíma? Vilduð þið kannski hafa alveg á hreinu að markmiðið væri einungis fræðsla en ekki innræting?

Væruð þið til í að fá Matta í Vantrú til að segja börnunum hvað honum finnst um Jesús? Væruð þið til í að börnin fengju að sjá brúðuleikhús þar sem ein brúðan útskýrir fyrir annarri að biblíusögurnar séu bara þjóðsögur Gyðinga og þótt megi hafa gaman af þeim sé jafn vitlaust að hafa áhyggjur af áliti Gvuðs og að óttast drauga og útlilegumenn?

Nú efast ég stórlega um að Siðmennt eða Vantrúarmenn fengjust til þess að fara í skólana og ræða við börnin en það eru fleiri trúleysingjar en þeir sem tilheyra sérstökum lífsskoðunarfélögum sem vilja ekki sjá trúarlega innrætingu í skólum. Þið haldið kannski að Vantrúarmenn séu leiðinlegir, well, ye ain’t seen nothing yet! Það er til fullt af fólki sem myndi með ánægju standa fyrir mótvægisaðgerðum. Ef Hanna Birna kemur bænahaldi inn í skólana aftur, þá verður það ögurstund í lífi Hönnu Birnu. Á því augnabliki skal ég prívat og persónulega taka að mér að vera bæði andskotinn og amma hans.

 

Starving-Child

Flokkar: Allt efni · Stjórnmál, trúmál og þjóðarsálin
Efnisorð: ,

Sunnudagur 17.11.2013 - 15:35 - FB ummæli ()

Eignarhaldið á píkunni

Íslenskan á mikinn fjölda gegnsærra orða. Þar á meðal orðin „lýtaaðgerð“ og „fegrunaraðgerð“. Yfirleitt hafa lýtaaðgerðir þann tilgang sem orðið lýsir; að laga það sem talið er lýti.

Tilgangur þeirra aðgerða sem lýtalæknar fremja getur verið læknisfræðilegur, t.d. ef slöpp húð myndar fellingar sem eykur hættu á sveppasýkingum og húðsjúkdómum, en oftast er markmiðið að breyta útliti andlits eða líkama samkvæmt óskum viðskiptavinar.  Þær óskir eru venjulega í samræmi við útlitsstaðla sem eru áberandi í samfélaginu. Hugmyndir okkar um það hvernig fólk eigi að vera kallast „staðalmyndir“. Lýtalækningar miða að því mæta þessum hugmyndum, það er því beinlínis hlálegt að sjá formann félags lýtalækna afneita því að viðskipi lýtalækna velti á staðalmyndum.

Hvaða staðalmyndir falla í náðina?

Hitt er svo annað mál að þótt staðalmyndir geti verið þrúgandi þá komumst við aldrei undan þeim. Okkur ofbýður kannski þegar ákaflega fallegt fólk telur sig þurfa á áhættusömum fegrunaraðgerðum að halda, skurðaðgerðum þar sem skrapað er af beinum,  aðskotahlutum er komið fyrir eða efnum sprautað inn í líkamann, oft aðgerðum sem útheimta svæfingu með tilheyrandi áhættu. Okkur finnst þetta óhófleg þjónkun við  hégóma. Það er svo allt annað ef kona fær brjóstakrabba og þarf að gangast undir brjóstnám. Þá þykir alveg sjálfsagt að endurbyggja brjóstin því ástæðan er „raunveruleg“. Einhver allt önnur en helvítis klámvæðingarhégóminn. Það eru ekki aðgerðirnar sjálfar sem eru litnar hornauga heldur það hverra staðalmyndum er verið að þjóna.

20040728Þeir sem gagnrýna fegrunaraðgerðir eru alveg jafn blindir á sína eigin þjónkun við staðalmyndir og formaður félags lýtalækna. Mörkin eru bara önnur. Engin manneskja með hjarta hnussar yfir því þótt kona sem er afskræmd eftir bruna eða sýru fari í umfangsmikla lýtaaðgerð. Samt sem áður hefur hún gengist inn á hugmyndir um það hvernig fólk eigi að líta út. Nú mun einhver svara því að það sé allt annað þegar slys eða ofbeldi eyðileggi það útlit sem náttúran sjálf ætlaði okkur en fæstir þeirra sem freta á fegrunariðnaðinn hafa svo einfalt viðmið. Flestum finnst t.d. alveg sjálfsagt að fjarlægja valbrá, líka þótt hún valdi engum vanda öðrum en vanlíðan yfir því að vera ekki eins og hinir. Ég hef aldrei séð ádeilu á aðgerðir sem felast í því að laga útstæð eyru eða fjarlægja meinlausa húðsepa. Einhver mun benda á að þessar aðgerðir séu lítið áhættumeiri en húðflúr og líkamsgötun en ég hef heldur ekki séð vanþóknun á algengustu aðgerðunum; skurðaðgerðum á augnlokum. Áhyggjur af áhættunni kannski, en ekki vanþóknun. Sumir þeirra sem hneykslast á brjóstastækkunum telja það líka allt annað ef brjóstin líta út eins og tómir sokkar með baun í tánni, þá er komin alvöru ástæða. Það er hinsvegar klámdjöfullinn sem er að verki ef kona sem vill fara í brjóstastækkun er, að mati gagnrýnandans, ekki nógu ljót til að leyfa sér slíkan hégóma.

Þegar upp er staðið snýst þetta ekki um það að staðalmyndir séu slæmar í sjálfu sér (sem þær kunna þó alveg að vera) heldur vilja þeir sem gagnrýna fegrunariðnaðinn fá að ákveða hvernig staðalmyndirnar eigi að vera.

Baráttan um kynferði kvenna

Aðgerðum á brjóstum og kynfærum fjölgar. Það segir okkur kannski að hugmyndir um æskilegt útlit hafi breyst en ég efast um að það sé svo einfalt. Kannski segir það okkur líka að þessi þjónusta sé aðgengilegri, áhættuminni og ódýrari en áður og að opnari umræða hafi orðið til þess að konur fari í aðgerðir sem mín kynslóð lét sér nægja að dreyma um.

Mér finnst áhugavert hversvegna fegrunaraðgerðir á brjóstum og kynfærum vekja hvað mesta hneysklun. Vandlætingin er slík að formaður lýtalæknafélagsins finnur sig knúinn til að réttlæta skapabarmaaðgerðir með því að ástæðurnar fyrir þeim hafi minnst með útlit að gera, heldur séu eiginlega læknisfræðilegar. Amk í aðra röndina. Engu líkara en að það sé verulega vafasamt af lýtalæknum að samþykkja hugmyndir kapítalsins um fallega píku þótt engum dyljist að starf þeirra felst beinlínis í því að mæta hugmyndum markaðarins um æskilegt útlit. Lýtalæknar eyða ekki púðri í að réttlæta miklu hættulegri aðgerðir sem miða að því að laga lýti sem teljast „raunveruleg“ en einhvernveginn virðist djöfullinn laus þegar píkan er annars vegar.

Hvernig á píka að líta út? Klámiðnaðurinn hefur einhverjar hugmyndir um það. Tískuheimurinn líka, það heitir víst „kameltá“ ef sést móta fyrir kynfærum kvenna í gegnum þröngar buxur og þykir ekki fínt. Feministar andæfa þeim sem halda þessum staðalmyndum á lofti og ég er sammála feministum um að það ætti að vera óþarfi að kveljast yfir útliti heilbrigðar píku sem sjaldnast er til sýnis á opinberum vettvangi. En það ætti líka að vera óþarfi að lita á sér hárið og nota varalit og það er nú samt norm.

Stúlkur mega vera hégómlegar svo fremi sem hégóminn nær ekki niður í nærbuxurnar. Þær sem gangast inn á hugmyndir um æskilegt útlit píkunnar eru ekki beinlínis fordæmdar heldur teljast þær fórnarlömb  feðraveldisins. Alls ófærar um að meta sínar eigin píkur og brjóst sjálfar og helst þarf að reka úr þeim klámvæðingardjöfulinn með postullegu knúsi. Sætta þær við hugmyndir feminista um það hvaða staðalmyndir teljist gjaldgengar og hverjar ekki.

Kapítalið og klámpostularnir togast á um það hvaða útlit teljist æskilegt og að hve miklu leyti konur beri sjálfar skynbragð á það hvaða staðalmyndir séu „heilbrigðar“ og hvenær sé of langt gengið. Þessi tvö öfl eru kannski fullkomnar andstæður á yfirborðinu en eitt eru þau þó hjartanlega sammála um; að konur, einkum ungar konur, þurfi leiðsögn um það hvað þær eigi að gera, eða gera ekki, við píkuna á sér. Það sem þau greinir á um er einungis hver eigi að veita þá leiðsögn.

Flokkar: Allt efni · Kynjapólitík
Efnisorð: , , ,

Miðvikudagur 13.11.2013 - 16:28 - FB ummæli ()

Vantrúin, heilsufrelsið og umræðan

Ég er trúleysingi en trúi á galdur. Þetta virðist vera þversögn. Það sem ég á við er þetta; ég trúi ekki á „yfirnáttúru“ en ég held að mannshugurinn geti haft áhrif á veruleikann. Við tölum um það sem við skiljum ekki sem eitthvað „dularfullt“ en hvað eftir annað varpa vísindin dulúðinni af því sem vekur undrun okkar og það reynist fullkomlega náttúrulegt.

Ég tel að galdraþulur og rúnaristur eigi töluvert skylt við það sem dag kallast sálfræði. Vísindin hafa skýrt fáein fyrirbæri sem áður voru kölluð „kraftaverk“ (t.d. þegar manneskjur sem sjá ástvini í lífshættu öðlast skyndilega ofurkrafta) og ég trúi því að margt fleira undursamlegt eigi eftir að koma á daginn um mátt mannsins. En vísindi eru ekki „forn viska“ eða „aldagamlar aðferðir“. Vísindi eru ekki reynslusögur. Vísindi eru áreiðanleg þekking sem hægt er að sannprófa og útskýra. Og að hafna því að nota orðið „vísindi“ um kukl  merkir ekki að maður fyrirlíti hvern þann sem hefur gaman af stjörnuspám eða telur sýklalyf neyðarúrræði, heldur að maður fer fram á að orðið „vísindi“ sé notað í réttri merkingu. Því annað er lygi.

Kerlingabækur og vísindi

Vísindin eiga sér rót í hugmyndum og fikti sem upphaflega tengjast dulúð og galdri. Nútíma lyfjafræði er að hluta sprottin úr hugmyndum sem stundum eru kallaðar „kerlingabækur“. Kerlingar töldu sig sjá samband milli lækningar og notkunar jurta. Þegar þessar hugmyndir voru prófaðar með vísindalegum aðferðum staðfestist að sumar jurtir hafa raunveruleg áhrif á sjúkdóma.  Áhrifin standa þó ekki í sambandi við lögun rótarinnar, lit krónunnar eða blessun jómfrúr Maríu, heldur eru í þeim efni sem hafa áhrif á líkamsstarfsemina.

Stundum notuðu kerlingar jurtir mjög blessunarlega, þrátt fyrir þekkingarleysi sitt, en nóg eru dæmin um lækningatilraunir sem höfðu skelfilegar afleiðingar. Hugmyndin um að sjúkdómar séu „í blóðinu“ er ekki alvitlaus, en blóðtökulækningar fyrri alda eiga lítið skylt við blóðmeinafræði nútímans, þær gerðu ekkert gagn en ollu stundum tjóni. (Áhugavert er að þótt „læknar“ sem notuðu þá aðferð hafi flestir verið karlar hef ég aldrei heyrt talað um það rugl sem „karlabækur.“)

Í þessu liggur munurinn á visku kuklarans og vísindamannsins; kuklarinn byggir á vafasamri reynslu og hugmyndum sem hafa ekki verið sannprófaðar. Þær reynast oft rangar og stundum skaðlegar. Það er hættulegt að kynna kukl sem vísindi og gagnrýni Svans Sigurbjörnssonar á hugmyndir um að ríkið eigi að greiða veg hjávísinda er réttmæt og þörf.

Gangrýni Hörpu Hreinsdóttur

Í grein sinni Dr. Svanur og hinir Vantrúarfélagarnir gagnrýnir Harpa Hreinsdóttir það sem hún kallar augljósar gloppur í málflutningi Svans. Harpa er ekki að öllu leyti sanngjörn. Hún gagnrýnir t.d. Svan fyrir að taka öfgafull dæmi en tekur nú samt öfgafull dæmi sjálf. Ábendingar Hörpu eru samt áhugaverðar og ég held að ef engin fyrirlitning ríkti á milli Hörpu og Vantrúar og framsetningin væri aðeins öðruvísi, þá væri margt efahyggjufólk tilbúið til að skoða þær með opnum huga. En Harpa er ekki að tala við harðkjarna efahyggjufólk. Augljóst er af skrifum Hörpu að henni þykja Vantrúarmenn hrútleiðinlegir hrokagikkir. Framsetning hennar bendir til þess að þrátt fyrir að ávarpa Svan og Vantrú sé markmiðið ekki að halda uppi samræðu við þá sem andæfa hugmyndum um „lækningafrelsi“  (það eru ekkert bara Vantrúarmenn sem leggjast gegn því) heldur einhverja aðra.

Mér finnst ágætt að fólk sem engar líkur eru á að geti orðið sammála reyni að koma sjónarmiðum sínum í almenna umræðu með því að talast á fremur en að tala saman. Þeir sem ekki eru í einhverju liði geta haft gagn af röksemdum bæði Svans og Hörpu. Gagnrýni Hörpu snýst um eftirfarandi:

– Að almennir borgarar eigi rétt á því að meta upplýsingar og taka ákvarðanir um eigin meðferð.
– Að sumt af því sem flokkast sem viðurkenndar lækningar skorti vísindalega undirstöðu.
– Að vísindin sjálf hafi margsinnis afsannað það sem áður var álitin vísindaleg þekking.
– Að málflutningur Svans sé ekki laus við öfgar.

Nú er rétt að halda því til haga að hvorki Vantrú né Svanur sjálfur hafa lagt til að fólk verði svipt sjálfsákvörðunarrétti sínum.  Það er þó sjálfsagt að benda á að læknisfræðin hefur oft verið notuð til þess að réttlæta yfirgang og vísindin eru ekki hafin yfir gagnrýni almennings. Efahyggjumenn eru ekki undanþegnir mannlegri tilhneigingu að verða kreddufullir í sannfæringu sinni og eins og það er vitlaust að tala um efahyggju sem „trúarbrögð“, þá er  samt ekki við öðru að búast en að þeir sem kjósa lífræna ræktun og vilja ekki nota lyf að óþörfu, dæsi eitthvað um „ofsatrúarmenn“ þegar Heilsuhúsið er talið varhugavert og dregið í efa að apótek eigi að selja vörur frá framleiðanda sem merkir vörur sínar svo heiðarlega sem „galdur“ en ekki vísindi. Lyfjabúðir selja líka naglalakk og brjóstsykur og er það ekki fullmikil vantrú á ályktunarhæfni sauðmúgans að vilja að sótthreinsa apótek af öllu sem ekki telst óumdeilanlega til lyfja?

Getum við rætt þetta?

Samantekt Svans um kukliðnaðinn er sjokkerandi og þótt gagnrýna megi einstaka atriði er hún í heildina skynsamleg og þörf. Ég vona að allir þingmenn skoði hana og ég vona að sem flestir almennir borgarar geri það líka. En ég vona líka að sjúklingar sem treysta ekki heilbrigðiskerfinu fái áheyrn. Það er of algengt að ákvarðanir séu teknar án þess að þeim sem mestra hagsmuna eiga að gæta sé boðið til umræðunnar.  Réttmæt gagnrýni Svans á „lækningafrelsi“ annarsvegar og hinsvegar ágætar ábendingar Hörpu um að kukl og kennivaldsdýrkun hafi alltaf þrifist innan viðurkenndra lækninga, geta, ef áhugi er fyrir því, orðið grunnur að gagnlegri umræðu.

  • Er hægt að tryggja neytendum réttar upplýsingar um áreiðanleika greiningar og áhrif lyfja, tækja og meðferðar án þess að setja upplýsingafrelsi óþarfa skorður?
  • Er hægt að útrýma skæðum sjúkdómum án valdníðslu gagnvart þeim sem óttast bólusetningar?
  • Hversu langt eigum við að ganga í því að virða sjálfsákvörðunarrétt sjúklings og hvenær erum við sem samfélag farin að vanrækja verndarskyldu okkar gagnvart þeim sem ekki hafa forsendur til að taka upplýsta ákvörðun?

Þessar spurningar og margar fleiri eru langt frá því að vera einkamál heilbrigðiskerfis og stjórnvalda. Ég vona því að umræðan um heilsufrelsi og markaðssetningu hjálækninga verði víðtækari, dýpri og áhugaverðari en svo að hægt sé að afgreiða hana sem pissukeppni milli Vantrúar og kuklara.

Flokkar: Allt efni · Heilbrigðis- neytenda og velferðarmál · Kynjapólitík
Efnisorð: ,

Föstudagur 8.11.2013 - 17:19 - FB ummæli ()

Kæra Anna Marsý

Fyrir tveimur árum hugsaði ég nákvæmlega það sama og þú, að það væri þörf fyrir karlréttindahreyfingu á Íslandi. Og karlréttindahreyfingar eru reyndar til amk í Bandaríkjunum og Kanada.

Þessar hreyfingar eru að því leyti góðar að þær hafa vakið athygli á karlhatri og mismunun gagnvart körlum. Þær ábendingar eiga fullan rétt á sér. Það er sjálfsagt að berjast fyrir foreldrajafnrétti og það er óþolandi hversu oft ofbeldi gagnvart körlum er afgreitt sem brandari. Mér þætti fengur í sterkri jafnréttishreyfingu sem liti brottfall pilta úr framhaldsnámi alvarlegum augum og þrýsti á um að tekið verði á aðstæðum sem ala af sér óreglu, félagslega örokru, heimilisleysi og afbrotaferil, sem er margfalt umfangsmeira vandamál meðal karla en kvenna.

En þegar ég fór að skoða málflutning maskúlínista sannfærðist ég um að karlréttindahreyfing sé ekki heppileg leið til að taka á misrétti gagnvart körlum. Karlréttindasamtök á borð við MRM (Men’s Rights Movement) eru nefnilega ekkert annað en negatíva af feministahreyfingunni. Rétt eins og feministahreyfingin, gefur karlréttindahreyfingin sig út fyrir að vera ósköp falleg hreyfing hugsjónafólks sem vill bara jöfnuð og réttlæti fyrir alla.  En þegar maður skyggnist dýpra sér maður að málflutningur margra þeirra sem kenna sig við karlréttindi einkennist af þeirri hugmynd að karlar séu hæfari og þar með merkilegri en konur.  Sumir þessara manna eru helteknir af reiði og biturð í garð kvenna og útmála okkur sem frekjur, væluskjóður og lygara en fórnarlambsvælið í þeim er þó ekkert skárra en í svæsnustu dólgafeministum. Í einum af fyrirlestrum sínum talaði hin eldklára karlréttindakona Karen Straughan um að konur sem vildu vinna með MRM rækjust oft á „þann fjandskap og tortyggni gagnvart öllu með píku“ sem einkenni marga meðlimi hreyfingarinnar og ég spyr nú ekkert að því hversu velkomnar konur eru ef jafnvel hörkutóli á borð við hana ofbýður.

Þótt opinber stefna flestra karlréttindahópa sé á yfirborðinu afskaplega málefnaleg, er mikil hætta á því að sérstök karlréttindahreyfing geri það sama og kvenhyggjuhreyfingin; að stilla kynjunum upp sem óvinum sem þurfi að berjast um völd og gæði. Ég hef séð maskúlínistamyndband þar sem því er haldið fram að menntun stúlkna komi engum til góða nema þeim sjálfum en drengir séu hinsvegar líklegir til hverskyns dáða mannkyninu til heilla, því sé best að leggja alla áherslu á menntun drengja. Ég hef séð myndband þar sem konur eru gagnrýndar fyrir að vera körlum ekki nógu þakklátar fyrir þá framþróun sem þeir hafa staðið fyrir því konur hefðu aldrei afrekað slíkt sjálfar. Margar vefsíður þar sem því er haldið fram að 90% nauðganakæra séu falskar. Vefsíður þar sem því er haldið fram fullum fetum að líkamlegt og kynferðislegt ofbeldi kvenna gegn körlum sé umfangsmikið vandamál og að karlmenn eigi almennt óskaplega bágt.

Það gladdi mig að sjá unga konu benda á að á sumum sviðum hallar á karla. En ég vona samt að frekar en að stofna karlréttindahreyfingu beri þín kynslóð gæfu til þess að láta af allri kynhyggju og skapa þess í stað samfélag þar sem kynferði hefur sem allra minnst áhrif á möguleika fólks á að gera það sem því sýnist. Samfélag þar sem konur og karlar eru samherjar en ekki fjandmenn. Það er nefnilega svo merkilegt að þegar hugsjónafólk tekur sig saman um eitthvert baráttumál eru það venjulega þeir öfgafyllstu og reiðustu sem leiða hópinn og móta stefnuna. Í stað þess að átta sig á því misrétti sem raunverulegir eða ímyndaðir andstæðingar þeirra eru beittir verða þeir helteknir af sínum eigin baráttumálum. Við sjáum út í hverskonar vitleysu kvenhyggjan er komin og ég held að sem samfélag verðum við ekkert betur sett með því að þurfa að slást við öfgarnar í hina áttina líka.

 

 

Flokkar: Allt efni · Kynjapólitík
Efnisorð: ,

Fimmtudagur 7.11.2013 - 12:24 - FB ummæli ()

Ljósvakamiðlar tala bara við karla

Enn einu sinni er það staðfest að konur fá töluvert minna vægi í fjölmiðlum en karlar. Þetta ætti ekki að koma neinum á óvart. Svona hefur þetta alltaf verið. Við njótum jafnréttis að lögum en jafnræði ríkir ekki með kynjunum og ef maður álítur að það efli lýðræði, upplýsingu og velferð að sem flestar ólíkar raddir heyrist, þá er þessi mikli kynjahalli vandamál. (Það er þá einnig vandamál hversu lítið heyrist frá ýmsum minnihlutahópum.)

Það er samt afskaplega ódýrt að afgreiða kynjahallann í fjölmiðlum sem merki um að blaðamenn sniðgangi konur. Blaðamenn eru annarsvegar að reyna að framleiða efni sem almenningi finnst áhugavert og hinsvegar að sinna því hlutverki að koma til skila upplýsingum um atburði og umræðu sem hefur að líkindum afleiðingar fyrir samfélagið, til góðs eða ills. Ástæðan fyrir því að konur fá minna vægi í fjölmiðlum er miklu frekar sú að þær eru sjaldan í lykilstöðum en sú að blaðamenn séu kvenfjandsamlegir.

Önnur augljós ástæða er áhugaleysi kvenna á því að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Ég hef margoft bent á að þegar maður skoðar fjölda greina og pistla sem fólk birtir af eigin frumkvæði koma fram svipuð kynjahlutföll, ef eitthvað er eru konur færri í þeim flokki. Nærtækasta skýringin á þessu er sú að konur sækist síður eftir því en karlar að tjá sig opinberlega.

Árum saman hafa feministar velt sér upp úr kynjahallanum í fjölmiðlum og bent á sökudólga, sem eru aldrei konurnar sjálfar.  Sumir hafa viðrað tillögur um að fjölmiðlar taki upp eitthvert form kynjakvóta eða leggi meiri áherslu á það sem konur eru að fást við enda þótt þau viðfangsefni hafi sáralítil áhrif, nema á örfáa einstaklinga. Staðreyndin er samt sú að á okkar tímum hafa konur ekkert minni möguleika en karlar á því að seilast til áhrifa og valda og það er nákvæmlega ekkert sem hindrar konur í því að tjá sig opinberlega.

Ég sé ekkert gagn í því að leita að sökudólgum. Ég vildi hinsvegar gjarnan sjá umræðu um það hvernig stendur á því að konur sækjast síður eftir því að hafa áhrif og hvað sé hægt að gera til að það breytist. Því jafnvel þótt næðist almenn sátt um þá aðferð að setja kynjakvóta á fjölmiðla þá handstýrum við því ekki hvað fólk birtir á internetinu, svo þar verður hallinn í það minnsta ekki réttur með neinni ritstjórnarstefnu.

Flokkar: Allt efni · Fjölmiðlar · Kynjapólitík
Efnisorð: ,

Miðvikudagur 6.11.2013 - 11:58 - FB ummæli ()

Valdboð og lýðræði

Ég held því fram að við séum hægt en örugglega að þokast í átt til lýðræðis. Æðsta stig lýðræðis er anarkí. Það merkir ekki allsherjarupplausn þar sem engar reglur gilda og menn vaða bara um í einhverju stjórnleysi, heldur merkir það samfélag án yfirvalds. Það merkir að ríkisvald verður afnumið. Ekki að samfélagið verði afnumið heldur að valdakerfið verður stokkað upp. Ekki að engin stjórn verði á nokkrum hlut heldur að hlutverk stjórnenda verður eingöngu að leiðbeina og halda utan um verkefni en ekki að ráðskast með aðra.

Þetta er að gerast á mörgum sviðum. Staða stjórnenda á vinnustöðum er að breytast og óttablandin virðing fyrir yfirmanninum þykir bara frekar hallærisleg nú orðið. Í dag þykja það góðir stjórnhættir að hafa samráð við starfsfólk og einnig skjólstæðinga eða viðskiptavini þegar það á við. Góðir stjórnendur sjá sér hag í því að koma fram við starfsfólk sem jafningja, bæði vegna þess að reynsla þess og sýn getur verið dýrmæt en einnig vegna þess að þátttaka í ákvörðunum eykur starfsánægju og samheldni starfsfólks og stuðlar að hollustu þess við vinnustaðinn. Margt bendir til þess að frjálsræði starfsfólks komi atvinnurekandanum betur en strangar reglur og mikið eftirlit eins og komið er inn á í þessum skemmtilega fyrirlestri.

[ted id=618]

Vinnustaðalýðræði er að nokkru leyti sjálfsprottið og að nokkru leyti afurð rannsókna. Allir græða á því og þessvegna eru góðar líkur á að æ fleiri atvinnurekendur taki það upp á arma sína.

Nú hef ég meira áliti á Svandísi Svavarsdóttur en flestum þingmönnum og efast ekki um að hún vilji vel með tillögu sinni um að lögbinda vinnustaðalýðræði. En er það ekki dálítið þversagnakennt að ríkisvaldið taki að sér að troða lýðræðinu ofan í kok stjórnenda og starfsfólks?

Ef Alþingi hefur í alvöru áhuga á því að auka lýðræði þá ætti það að ganga fram með góðu fordæmi og leita álits almennings í meiri mæli en það gerir í dag. Eða í það minnsta að ganga ekki þvert gegn vilja almennings þegar hann liggur fyrir, eins og raunin varð t.d. í umræðunni um stjórnarskrárfrumvarpið þar sem þingmenn VG og Samfylkingar sáu sjálfir um að slátra málinu á meðan Sjálfstæðismenn og Framsókn sátu glottandi hjá. Það er satt að segja dálítið kaldhæðnislegt í ljósi þess hvernig fór um það mál að einmitt þjóðfundurinn og stjórnarskrárfrumvarpið skuli vera talið til í greinargerð með þessari tillögu um vinnustaðalýðræði.

Kannski ættu þingmenn VG og Alþingismenn aðrir bara að laga dálítið til heima hjá sér áður en þeir fara að segja atvinnurekendum hvernig þeir eigi að stjórna sínum fyrirtækjum. Ríkisvald sem boðar lýðræði á öðrum vettvangi en sínum eigin er nefnilega jafn ótrúverðugt og einvaldur sem reynir að banna persónudýrkun gagnvart öllum öðrum en sjálfum sér.

Flokkar: Allt efni · Andóf og yfirvald
Efnisorð: , ,

Föstudagur 1.11.2013 - 08:56 - FB ummæli ()

Feminasnar og kynjamismunun Siðmenntar

 

Þetta með kynjakvóta verðlaunahafa Siðmenntar er að verða undalegasta umræða sem ég hef lengi séð. Sem stofnfélagi Siðmenntar, stjórnarmaöur í sjö ár og eini núlifandi heiðursfélagi félagsins, er ég furðu lostinn. Félagið hefur veitt 16 viðurkenningar, þar af sex til félagasamtaka og konur hafa yfirleitt veitt þeim viðurkenningum viðtöku. Af rúmum 23 starfsárum félagisns hafa konur verið formenn í rúm 20 ár. Meirihluti ræðumanna við borgaralegar fermingar hafa verið konur og ég tel það vera meiri heiður en viðurkenningarnar. Ég tek fram að ég hef aldrei komið að vali við heiðursviðurkenningar en hitt veit ég að jafnrétti kynjanna er svo nátengt allri hugmyndafræði félagsins að kynjakvóti er félaginu mjög framandi.

Þessi orð lét Gísli Gunnarsson falla á facebook eftir miklar umræður um meinta kynjamismunun Siðmenntar. Í sama streng tekur Valgarður Guðjónsson í umræðum um þennan pistil. Kristinn Theodórsson, varamaður í stjórn Siðmenntar hefur bent á að ástæðan fyrir því að 9 karlar komu að vali verðlaunahafa en aðeins 3 konur sé einfaldlega sú að færri konur hafi gefið kost á sér til stjórnarsetu.

Gömul umræða um karlrembu Kiljunnar

Í mars 2011 loguðu netheimar af heilagri reiði feminista vegna kynjahalla Kiljunnar. Egill Helgason var ekki aðeins sakaður um karlrembu heldur einnig um brot gegn jafnréttislögum. Ég spurði ítrekað hvaða konur hefðu verið sniðgengnar. Spurði á mörgum þráðum á facebook og „taggaði“ marga sem höfðu lýst hneykslun sinni. Einu svörin sem ég fékk voru „barnabókahöfundar“ og „Guðrún frá Lundi“.

Ég skrifaði pistil og benti á að þessi svör bæru nú ekki beinlínis vott um að Egill væri blóðsekur. Í umræðum í kjölfarið nefndi einhver kvenrithöfund sem ætti erindi í þáttinn en sú kona hafði þá ekki gefið út bók í 5 ár. Annar taldi að Þórdís Gísladóttir, sem var reyndar boðin í þáttinn, hefði verðskuldað meiri athygli. Ingunn Snædal var eina konan sem ég sá nefnda í þessari umræðu sem með nokkurri sanngirni er hægt að segja að hafi verið sniðgengin. Sennilega mætti nefna einn karl eða tvo sem hefðu getað þegið meiri athygli fyrir ritverk sín.

Engar uppástungur frá femninistum

Nú er meint kynjamismunun Siðmenntar gagnrýnd. Ég get nefnt konur sem hafa unnið gott starf í þágu mannréttinda og mannúðar en man enga sem ég tel augljóslega verðugri en Jón Gnarr. Hún kann auðvitað að vera til þótt ég viti ekki af henni og í gær margspurði ég um það á facebook hvaða konur væru verðugri þessarar viðurkenningar en Jón Gnarr. Fátt varð um svör. Hildur Lilliendahl gat t.d. ekki nefnt eina einustu. Að lokum nefndi kona samtök kvenna af erlendum uppruna, sem samtök sem vert væri að skoða (ekki sem aðila sem greinilega bæri af Jóni Gnarr) og karlmaður benti á að Helga Sif Friðjónsdóttir (faglegur verkefnastjóri frúr Ragnheiðar, sem er skaðaminnkunarverkefni á vegum Rauða Krossins) ætti skilinn heiður fyrir störf sín í þágu útigangsfólks.

Ef fáar tillögur koma fram og jafnvel yfirlýstir feministar eiga í mestu vandræðum með að nefna eina einustu konu sem þeir telja verðuga húmanistaverðlauna, getur þá kannski verið að það sé eitthvað annað en þjónkun við feðraveldið sem skýrir kynjahallann í verðlaunaveitingum Siðmenntar? Getur t.d. verið að karlar séu almennt meira áberandi í mannréttindabaráttu eins og á svo mörgum öðrum sviðum og menn séu lítt meðvitaðir um afrek kvenna á þeim vettvangi?

 

Jón Gnarr og Birgitta Jónsdóttir

Mér finnst Siðmennt vel sæmd af því að hafa veitt Jóni Gnarr húmanistaverðlaun. Af öllum hans uppátækjum finnst mér vega þyngst sá gjörningur hans að mótmæla meðferðinni á Liu Xiaobo þegar sendinefnd á vegum kínverskra stjórnvalda kom til Íslands. Ég man ekki til þess að íslenskur stjórnmálamaður hafi áður tekið fulltrúa erlends ríkis til bæna augliti til auglitis og þótt ekki væri annað ætti hann skilið að fá viðurkenningu fyrir það. Það er erfitt að velja á milli tveggja hæfra en ólíkra og ég veit ekki um neina konu sem er augljóslega verðugri þessarar viðurkenningar en Jón Gnarr, en annar stjórnmálamaður sem á sannarlega skilið að fá húmanistaverðlaun er Birgitta Jónsdóttir.

Birgitta er að mínu mati áhugaverðasti stjórnmálamaður sinnar kynslóðar. Hún á það sameiginlegt með Jóni Gnarr að hafa nýtt pólitíska stöðu sína í þágu mannréttinda þótt hún hafi beitt öðrum aðferðum. Jón Gnarr er meira áberandi en nokkur annar mannréttindafrömuður og hann nýtur vinsælda meðal gífurlega stórra og ólíkra hópa. Kannski hafði það áhrif á val Siðmenntar. Ég er þó ekki viss um að langtímaáhrif Birgittu séu neitt minni en áhrif Jóns. Birgitta hóf auk þess sína mannréttindabaráttu löngu áður en hún komst til pólitískra áhrifa. Enginn getur sakað Birgittu um að nota mannréttindamál til þess að koma sjálfri sér á framfæri eða til þess að sýna af sér einhver sniðugheit (en Jón hefur oft orðið fyrir því og finnst mér það ómakleg umræða.) Hún hefur sýnt ótrúlega þrautseigju í sínum aktivisma, oft staðið ein og unnið heilmikið starf sem hvergi er sýnilegt á opinberum vettvangi.

Fleiri tillögur

Ef einhvern langar að verðlauna konur fyrir framlag til mannréttinda og mannúðarmála eru hér nokkrar tillögur til viðbótar:

Erla Bolladóttir fyrir starf sitt í þágu innflytjenda og flóttamanna.
Freyja Haraldsdóttir fyrir baráttu sína fyrir réttindum fatlaðra.
Helga Björk Magnúsar- og Grétudóttir fyrir aktivisma í þágu örykja og atvinnulausra.
Helga Sif Friðjónsdóttir fyrir mannúðarstörf í þágu fíkla og útigangsfólks.
Katrín Oddsdóttir fyrir að tala máli flóttamanna og aðstoða þá langt umfram það sem henni ber sem lögmanni.
Sigríður Víðis Jónsdóttir fyrir alþjóðleg mannúðarstörf og ekki síst fyrir bók sína „Ríkisfang ekkert“.

Ég er viss um að margar konur til viðbótar koma til greina þótt þær hafi ekki verið mikið í sviðsljósinu og eflaust gleymi ég einhverri. Gaman væri ef lesendur vildu bæta við listann.

Reyndar hafa mun fleiri konur en karlar fengið mannréttindaviðurkenningar…

Feministar gagnrýna val Siðmenntar á húmanista ársins. Auðvitað væri feministasamtökum í lófa lagið að bæta úr og veita konum viðurkenningar. En æjá, alveg rétt, það er einmitt það sem þau gera. Stígamót hafa t.d. veitt mörgum konum viðurkenningar.  Aðallega feministum og ekki veit ég til þess að feministasamtök hafi verðlaunað karla. Það kann þó að vera, ábendingar um það eru vel þegnar.

En það er ekki nóg að konur fái viðurkenningar frá einhverjum feministasamtökum, isspiss og abbababb. Þeir sem aðhyllast jafnrétti vita nefnilega vel að það er ekkert sérstaklega varið í verðlaun sem veitt eru á grundvelli kynferðis.  En það munu feminasnar aldrei viðurkenna.

Flokkar: Allt efni · Kynjapólitík
Efnisorð: , ,

Fimmtudagur 31.10.2013 - 16:19 - FB ummæli ()

Bókmenntafræði, rassvísindi og trompetrannsóknir

„Ég held að sum skáld og aðrir listamenn séu bara að djóka. Framleiða eitthvert bull sem lítur út fyrir að vera merkilegt, aðallega til að hafa fræðimenn að fíflum“ sagði ég. Kennarinn hafði enga trú á því að aðrir en augljósir asnar gætu sýnt listinni hvílíkt virðingarleysi. Mér fannst það ekkert ótrúlegt. Til er fólk sem ber ekki einu sinni virðingu fyrir mannslífum og hversvegna skyldi listin vera heilagri en hvað annað? En auk þess sá ég þessháttar gjörning ekki sem virðingarleysi gagnvart listinni heldur afhjúpun á froðusnakki eða uppreisn gegn tilraunum til að flokka listina og meta.

Hvar liggja mörk skáldskapar og fræða?

Ég naut hvers einasta dags í HÍ. Mér fannst námið áhugavert og flestir kennarar lögðu sig fram um að veita nemendum góða þjónustu. Voru líka sérlega opnir og víðsýnir. En satt að segja kom fyrir að mér fannst víðsýnin á mörkum þess að vera kjánaleg.

Kennari (sem ég hafði mikið álit á og hef enn) talaði um að engin skýr mörk lægju milli skáldskapar og fræða. Mér þótti þetta mjög áhugavert. List, listtúlkun, fræði. Kannski eru engin skörp skil. Ég efaðist og dauðlangaði í debat en hafði ekki þekkingu til þess að rökræða þetta. Ég ákvað að prófa hans eigin mörk og vann verkefni sem átti miklu meira skylt við smásögu en fræðilega ritgerð. Ég var ekki að gefa skít í kenninguna heldur að reyna að koma þessu heim og saman. Ég vandaði mig virkilega; lagði út af þeim bókmenntakenningum sem við vorum að vinna með og notaði neðanmálsgreinar til að skýra tengsl þeirra við skáldskapinn. Mér fannst líklegt að mér yrði sagt að þetta væri ekki ritgerð en ég komst ekki bara upp með að skila þessum undarlega sambræðingi af ritgerð og sögu, heldur fékk ég fína umsögn.

Ég prófaði það sama á öðrum kennara en þar gekk ég miklu lengra og skrifaði stutta sögu sem var svosem hægt að tengja við bókmenntakenningar en var augljóslega smásaga og laus við beinar vísanir í fræðin. Ég komst upp með það líka. Þetta hentaði mér vel enda lágu listræn skrif betur við mér en fræði. Ég var þó farin að efast um að háskólinn væri það gullvæga þekkingarsetur sem ég hafði talið.

Hvar liggja mörk kjaftæðis og fræða?

Ég sannfærðist um að bókmenntafræði væri skyldari listum en vísindum þegar ég fékk 9 fyrir ritgerð þar sem ég túlkaði söguna af Láka jarðálfi sem uppgjör módernismans við bókmenntahefðina.  Ef nemandi gat komist upp með að skrifa augljósan þvætting og kalla það bókmenntatúlkun, gátu þá virtir fræðimenn líka leyft sér að bulla?  Þurfti kannski enga skáld-trickstera? Voru fræðimenn bara einfærir um að gera sjálfa sig og kollega sína að fíflum? Þremur árum síðar svaraði vísindamaður að nafni Alan Sokal þeirri spurningu. Svarið var já; vísindamenn geta leyft sér að bulla.

Alan Sokal skrifaði grein með því markmiði að ljá fullkominni steypu fræðilegt yfirbragð. Hann sendi hroðann virtu tímariti á sviði póstmódernískra menningarfræða. Ritsmíðin var birt.

Á þessum tíma lét þetta tímarit ekki utanaðkomandi fræðimenn ritrýna greinar sem það birti. Hugmyndin var sú að með því að sleppa tökunum á hefðbundinni ritrýni og hafa víðsýni í fyrirrúmi, mætti að örva nýsköpun og frumleika á sviði fræðanna. Ritstjórn tímaritsins leit á afhjúpunina sem lúabragð af hálfu Sokals. Kannski þótti einhverjum ótrúlegt að nokkur gæti sýnt vísindunum aðra eins óvirðingu. En það var nú samt greinilega til í dæminu og eftir þetta tók tímaritið upp ritrýni.

Alan Sokal var að djóka. Hann afhjúpaði sig sjálfur til þess að afhjúpa andvaraleysi vísindasamfélagsins gagnvart gervivísindum. Við vitum hinsvegar ekkert hversu margir hafa framleitt tóma þvælu, í þeirri  einlægu trú að þeir væru að gera eitthvað af viti, og fengið þvæluna viðurkennda sem vísindi.

Rassvísindi og trompetrannsóknir

Síðustu tvo daga hafa nokkrir netverjar staðið á öndinni af hneykslun yfir því að ég skuli leyfa mér að ráðast á sjálf vísindin. Að halda því fram að ef eitthvað sem gert er í nafni fræða og vísinda líti út fyrir að vera þvæla þá sé ástæða til að tortryggja það er nógu slæmt en auk þess eiga efasemdir um rannsóknir ekkert upp á dekk, þegar efasemdamaðurinn hefur ekki einu sinni menntun á því sviði sem hann beinir spjótum sínum að.

Sama fólk sér þó reglulega fréttir af niðurstöðum vísindarannsókna sem það tekur ekkert mark á. Í dag fara t.d.  „fréttir“ af vísindalegum sönnunum fyrir tengslum rassstærðar við heilsu og gáfnafar kvenna sem eldur í sinu um fésbókina. Flestir sem ég hef séð deila þessu efast um tengsl milli gáfnafars og rassstærðar, því ef eitthvað lítur út eins og þvæla þá eru góðar líkur á að það sé þvæla. Ég hef ekki skoðað þessa rassarannsókn sjálf, aðeins séð fréttir af henni. Vera má að þetta sé vel unnin vísindarannsókn sem fjölmiðlar skrumskæla. Fjölmiðlar kynna oft bull undir merkjum vísinda, segja frá „niðurstöðum“ sem reynast svo alls ekki vera þær niðurstöður sem vísindamennirnir sjálfir kynna.

En stundum er ekki fjölmiðlum um að kenna. Nóg eru dæmin um rannsóknir sem eiga meira skylt við kjaftæði en vísindi. Hér er sagt frá rannsókn sem sænska vísindaráðið taldi tilvalið að styrkja. „Trompetinn sem tákn um kyn/kynferði.“  Ein af rannsóknarspurningunum er þessi:

Vilken klang i trumpetens breda klangspektrum blir till norm och vilken klang uppfattas som avvikande och kallas för kvinnlig respektive manlig? Vad händer med klangen, när trumpetaren spelar med en ’kvinnlig klang’?

Í lauslegri þýðingu (þetta er reyndar svo djúpt að ég efast um að í íslensku séu til orð sem koma þessari snilld til skila):

Hvaða hljómur í hinu breiða hljómrófi trompetsins verður að normi og hvaða hljómur upplifist sem frávik og kallast karllægur eða kvenlægur?  Hvað gerist með hljóminn þegar trompetleikarinn spilar með „kvenlegum hljómi“?

Þetta flokkar vísindaráð Svíþjóðar sem áhugaverða rannsóknarspurningu. Fávís almúginn á auðvitað ekkert með að efast enda hefur hann hvorki vit á hinum kynjaða hljómi trompetsins, né skilning á hinni brýnu nauðsyn á að rannsaka hann.

Flokkar: Allt efni · Kynjapólitík
Efnisorð: ,

Miðvikudagur 30.10.2013 - 14:36 - FB ummæli ()

Svör Sundstofu og fleiri orð í belg

Í gær undraðist ég stofnun sérstakrar „Sundstofu“ og fyrirhugaðar rannsóknir á hennar vegum, sem áætlað er að verði gerðar í kjölfar könnunar á vef Þjóðminjasafns.  Valdimar Tr. Hafstein, talsmaður Sundstofu er í vinnuferð (ekki þó við sundrannsóknir) en hefur þrátt fyrir annir gefið sér tíma til að svara hluta þeirra spurninga sem ég beindi til hans. Kann ég honum bestu þakkir fyrir skjót viðbrögð þótt enn sé mikilvægum spurningum ósvarað.

Sundstofa er „rannsóknarvettvangur um félagslega nýtingu heita vatnsins“

Samkvæmt upplýsingum Valdimars er Sundstofa ekki sérstök ríkisstofnun heldur formlegur vettvangur fyrir rannsóknarsamstarf þriggja háskólakennara og nemenda þeirra. Hún hefur ekki sérstakan forstöðumann heldur skipa fræðimennirnir þrír stjórn hennar. Tilgangur Sundstofu er:

að rannsaka meðal margs annars félagslega notkun heits vatns, líkamsmenningu og daglegt líf í opinberu rými, t.a.m. sundlaugum.

„Félagsleg notkun heits vatns“ mun vera það sem sauðheimskur almúginn kallar sundlaugar og almenningsböð.

Enginn kostnaður hlýst af rekstri Sundstofu. Ég hef áður fengið þau svör við spurningum mínum um kostnað við vísindarannsóknir að þær kosti ekkert. Það finnst mér áhugavert og tel ég fulla ástæðu til að Íslendingar kynni á alþjóðavettvangi þann einstaka hæfileika sinn að geta stundað umfangsmiklar rannsóknir án nokkurra fjármuna.

Valdimar var svo vinsamlegur að senda mér kynningarblöðung þar sem m.a. kemur fram að heiti potturinn sé vinsælasti samkomustaður landsins og „félagslegt mæliker“ og því sé ástæða til að rannsaka sundmenningu Íslendinga.  Ekki kemur fram hvernig höfundar bæklingsins viti að heiti potturinn sé vinsælli en t.d. kaffihús.

Svör við spurningum mínum um Sundstofu má lesa hér.

Hversvegna er hópverkefni skreytt með stofnanatitli?

Nú er mér hulin ráðgáta hversvegna samvinnuverkefni er kallað „stofa“ eins og um rannsóknarstofnun sé að ræða en það virðist nokkuð algengt á Íslandi að ef tveir eða fleiri fræðimenn vinna saman að þeim rannsóknarstörfum sem þeir fá greitt fyrir, þá þurfi að koma á fót sérstakri „stofnun“ í kringum það starf. Á vegum HÍ eru reknar 85 rannsóknastofnanir og eru þá ótalin ýmis rannsóknasetur víða um land. Þarf skóli sem ekki er stærri en HÍ virkilega 85 rannsóknastofnanir? Hversvegna þarf t.d. sérstaka Tannlæknastofnun? Er  Tannlæknastofnun að fást við eitthvað allt annað en vísindamenn Tannlæknadeildar? Eru það einhverjir aðrir vísindamenn en starfsmenn Tannlæknadeildar sem skipa Tannlæknastofnun? Eða hefur Tannlæknadeild búið til rannsóknastofnun í kringum sjálfa sig eins og helst má ráða af lýsingunni á verkefnum hennar? Ef svo er; hversvegna var þörf á því?

Og hversvegna er hópverkefni kallað „Sundstofa“?  Eru vísindamennirnir sem að Sundstofu standa að reyna að ljá ómerkilegri spurningakönnun vísindalegt yfirbragð? Eða er þetta bara eitthvert flipp? Kannski svona „Hey strákar, eigum við að vera ógissla fyndnir og kalla okkur Sundstofu?“

Spádómur minn um niðurstöður

Ég spái því að helstu niðurstöður úr títtnefndri spurningakönnun á vef Þjóðminjasafns verði eftirfarandi:

-Að sundlaugar gegni veigamiklu hlutverki í félagslífi Íslendinga.
-Að í heita pottinum fari fram umræður um aðskiljanlegustu mál, þ.m.t. pólitík.
-Að hluti þátttakenda hafi orðið vitni að skorti á snyrtimennsku meðal sundgesta.
-Að samskipti í sundlaugum fari fram á meiri jafnréttisgrundvelli en á þurru landi, þar sem fólk „varpi af sér ytri merkjum samfélagsstöðu sinnar“ (á mannamáli er það kallað að afklæðast) áður en gengið er til laugar.
-Að nokkuð hátt hlutfall sundlaugagesta telji félagslegan hluta heimsóknarinnar amk jafn mikilvægan og líkamsræktina sem sundið býður upp á.

Allt þetta vita Sundstofustjórarnir þrír nú þegar en það verður væntanlega mikill fengur fyrir vísindasamfélagið að fá þetta staðfest og vafalaust mun almenningi þykja tíma háskólamanna vel varið. Spurningalistinn á vef Þjóðminjasafns er þó aðeins byrjunin, því ætlunin er, þegar fram líða stundir, að bjóða fleiri fræðimönnum til samstarfs.

Er spurningakönnunin góður vísindagrunnur?

Vonandi finnur Sundstofa sér verðug rannsóknarverkefni og vonandi verða vísindalegar aðferðir viðhafðar. Mér finnst þó sérkennilegt að ákveða fyrirfram að svörin við spurningalistanum á vef Þjóðminjasafns muni gefa tilefni til þverfaglegra rannsókna og allmargra meistararitgerða. Einkum finnst mér sérkennilegt að ganga út frá því að þeir sem af eigin frumkvæði skila inn svörum við umfangsmiklum ritgerðaspurningum gefi áreiðanlega mynd af þeim stóra og sundurleita hópi sem í meira eða minna mæli stundar sundlaugarnar.

Svo virðist sem Sundstofa leggi upp með fyrirframgefnar hugmyndir um að sundlaugar séu lykilvettvangur fyrir félagsleg samskipti og að umræður í heita pottinum séu merkilegri þjóðarspegill en þær sem fara fram á öðrum vettvangi. Kannski hefði verið heppilegt að fá það staðfest áður en mynduð var einhverskonar stofnun í kringum þá sannfæringu.

Flokkar: Allt efni · Ýmislegt
Efnisorð: , , ,

Þriðjudagur 29.10.2013 - 12:45 - FB ummæli ()

Sundstofa?

Vísindin efla alla dáð, segja þeir. Það gladdi mig því ósegjanlega að sjá þessa frétt (Fréttablaðið, 25. okt. 2013, bls. 6) af nýrri vísindastofnun; Sundstofu.

Vilja skilja sund í samfélaginu

Þjóðminjasafn Íslands í samvinnu við Háskóla Íslands sendir þessa dagana út spurningaskrá um sundlaugamenningu, sem er hluti af stærri rannsókn sem meistaranemar og kennarar úr þremur deildum Háskólans taka þátt í.
Rannsóknin er á vegum Sundstofu og er áætlað er allmargar meistararitgerðir verði unnar í tengslum við hana.
Tilgangurinn er að safna almennum upplýsingum um sundlaugaferðir, sundkennslu, samskipti og hegðun á sundstöðum og líðan fólks í sundlauginni og heita pottinum.

 

Hvert er hlutverk Sundstofu?

Stofnun Sundstofu og auglýsing um forstöðumann hennar fóru fram hjá mér. Reyndar hafði ég aldrei heyrt um „Sundstofu“ fyrr en ég sá þessa frétt.

Ég veit ekki hvaða vandamál hafa skapað þörfina á Sundstofu, eða hvert hlutverk hennar er, fyrir utan það að sinna rannsóknum, en mig langar að vita það.  Mig langar að vita hvort Sundstofustjóri sé hugsaður sem nokkurskonar „umboðsmaður syndara“ eins og einhver orðaði það á fésinu í gær, eða hvort honum er ætlað að vera talsmaður  borgaryfirvalda, Félagsvísindastofnunar eða hvað.   Mig langar að ná tali af Sundstofustjóra en ég finn Sundstofu ekki með leitarvélinni á vefsíðu Félagsvísindastofnunar og Gúggull vinur minn kannast ekki við hana heldur. Sundstofa mun þó vera staðreynd því einnig er sagt frá henni og þessari rannsókn á vef Þjóðminjasafnsins.

 

Hvað er verið að rannsaka?

Spurningalistinn á vef Þjóðminjasafnsins mun vera hluti af þverfaglegri rannsókn þriggja háskóladeilda en ekki kemur fram hvaða deildir það eru. Tilgangurinn með henni er sá að safna ýmsum upplýsingum um sundferðir þar sem þörf sé á því að „skilja sund í samfélaginu“.  Ég hlakka til að sjá hverjar rannsóknarspurningarnar eru og komast að því hvort uppi eru einhverjar tilgátur um hegðun og viðhorf sundlaugagesta.

Niðurstöðurnar heilla mig síður enda finnst mér sú aðferð sem lýst er á vef Þjóðminjasafnsins ekki gefa tilefni til að ætla að hún muni leiða neitt í ljós um almenn viðhorf eða hegðun sundgesta. Nú er auðvitað hugsanlegt að ætlunin sé að velja úrtak samkvæmt vísindalegum aðferðum en af textanum á vef Þjóðminjasafnsins má helst skilja að úrtakið sé einfaldlega þeir sem hafa nógu mikinn áhuga á málinu til að fara að eigin frumkvæði inn á vef Þjóðminjasafnsins og svara mörgum og löngum ritgerðarspurningum. Svo virðist vera sem búist sé við mikilli þátttöku þar sem „vönduð svör“ fara í sérstakan lukkupott og glæsileg verðlaun eru í boði.

Spurt er um ýmislegt varðandi hegðun og viðhorf sundlaugagesta. Þetta eru um 30 verkefni, flest frekar opin og bjóða upp á persónuleg svör. Hér eru dæmi:

Segðu frá dæmigerðri heimsókn á sundstað og lýstu því hvað þú gerir á hverju svæði fyrir sig (anddyrinu, klefanum, sturtunni, sundlauginni, djúpu lauginni, barnalauginni, heitu pottunum, gufunni o.s.frv.).

Hvaða áhrif hefur það á líðan þína eða samskipti við aðra sundgesti hvað allir eru lítið klæddir? Hagar þú þér öðruvísi en þú myndir gera fullklædd(ur) úti á meðal fólks? Hvernig? Hvaða dæmi þekkir þú um að þetta hafi áhrif á líðan og hegðun annarra sundgesta?

Tala sundgestir um mismunandi hluti á ólíkum svæðum í lauginni? Um hvað?

Getur sundbúnaður eða aðrir þættir í fari sundgestsins gefið vísbendingar um stöðu eða persónuleika viðkomandi? Með hvaða hætti?

Hefur þú skoðanir á líkamsumhirðu annarra sundgesta? Getur þú nefnt dæmi?

 

Hvað á svo að gera við upplýsingarnar?

Fyrirfram er vitað að svörin við þessum spurningum verða efni í allmargar meistararitgerðir enda bjóða spurningarnar upp á óvænt og áhugaverð svör. Fólk er jú svo misjafnt. Sjálf skipti ég t.d. um föt í búningsklefanum og þvæ mér í sturtunni en væntanlega hafa margir sundlaugagestir annan hátt á, afklæðast t.d. í anddyrinu og þvo hárið í gufunni. Þetta þarf að rannsaka.

Þá má búast við að svör sundlaugagesta um áhrif nektar leiði í ljós mikinn og áhugaverðan mun eftir samfélagsstöðu. Ég er nú þannig gerð að ef ég hitti nána aðstandendur af tilviljun í sundi, þá hika ég við að fljúga upp um hálsinn á þeim og knúsa þá eins og geri á förnum vegi en ætla má að sú fjarlægð sem ég held jafnan við nakið fólk sé bundin stétt minni og stöðu. Það mun eflaust verða samfélaginu til hagsbóta að greina þær félagslegu hömlur sem hindra suma í því að hegða sér eins í sundlaugum og á götum úti.

Tengsl persónuleika og sundbúnaðar er ekki síður rannsóknarefni. Ég tel sýnt að fjólublá sundhetta vísi á slægð og undirferli og að rautt bikini gefi til kynna að sú sem því skrýðist sé hin mesta léttúðardrós. Áhugavert rannsóknarefni fyrir meistaranema.

Einnig dettur mér í hug að ef þátttakendur telja að konur tali oft um hársnyrtivörur í búningsklefanum en sjaldan í barnalauginni, þá gefi það meistaranemum tilefni til þess að rannsaka hvað það sé í aðbúnaði sundgesta sem gerir barnapottinn svo hárvörufjandsamlegan.

Mér finnst erfiðara að giska á hvernig Sundstofa hyggist nýta upplýsingarnar. Ef kemur í ljós að sundgestir hafi skoðanir á líkamsumhirðu annarra sundgesta, finnist t.d. langar táneglur ógeðslegar, mun þá Sundstofa gangast fyrir sjálfstyrkingarnámskeiðum fyrir þá sem finnst tánaglahirða annarra koma sér við en kunna ekki við að gera athugasemdir? Mér finnst það ótrúlegt en hvað veit ég?

Ég hyggst leita svara við þessum spurningum og ýmsum öðrum sem hafa vaknað við lestur þessa frábæra vísindaverkefnis. Ég er búin að senda inn fyrirspurnir um netfang Sundstofu, bæði til Félagsvísindastofnunar og á netfangið sem gefið er upp á vef Þjóðminjasafnsins en hef ekki enn fengið svar. Það er kannski ekki við því að búast þar sem er minna en sólarhringur síðan ég sendi póstinn en vonandi fæ ég svar fljótlega og mun upplýsa lesendur um leið og svör berast.
——
Uppfært:  Ég hef nú fengið svar frá starfsmanni Þjóðminjasafns sem gat gefið mér netfang forsvarsmanns Sundstofu. Ég hef nú sent honum nokkrar spurningar. Ég fékk sjálvirkt svar um hæl, hann er í vinnuferð og mun því hafa takmarkað aðgengi að tölvupósti næstu tvær vikurnar. Sem er auðvitað skiljanlegt ef verkefni hans felst í því að kanna hegðun og búnað sundlaugargesta því ekki getur hann tekið tölvuna með sér í heita pottinn. Ég vonast þó eftir svörum þegar hann snýr til baka.

Flokkar: Allt efni · Ýmislegt
Efnisorð: , , ,

Höfundur

Eva Hauksdóttir
er skáld, norn, aðgerðasinni og álitshafi.

Eva hefur áhuga á samfélagsmálum, einkum þeim sem varða hverskyns yfirvaldstilburði hvort heldur er af hálfu stjórnvalda eða annarra. Æskilegt er að þeir sem rata inn á síðuna lesi pistlana áður en þeir tjá sig um efnistök höfundar.

Þessi síða hefur ekki verið uppfærð reglulega mjög lengi en efni frá síðustu árum er birt á norn.is
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

web analytics