Fimmtudagur 9.6.2011 - 07:00 - FB ummæli ()

Hlutverk, staða og ábyrgð forseta

Þessa dagana brjótum við í stjórnlagaráði heilann um hlutverk forseta Íslands í nýrri stjórnarskrá; við erum ekki svo mikið að spá í hvort embættið skuli lifa – heldur hvers vegna og hvaða hlutverk það skuli hafa.

Völd…

Sjálfur nefndi ég, áréttaði og tók undir eftirfarandi rök á sameiginlegum nefndarfundi um málið í gær því til stuðnings að embætti forseta skyldi ekki „degraderað“ til veislustjóra eins og ég orðaði það svo óvirðulega og óvarlega:

  1. Efnisrök um að forsetaembættið hafi hlutverki að gegna og að tilvist forseta og sterkt  hlutverk stangist ekki á við þingræði.
  2. Tilfinningu mína fyrir því að frekar eigi að styrkja forseta en veikja eins og ég kynnti fyrir kosningar til stjórnlagaþings í lok síðasta árs.
  3. Sterk krafa frá þjóðfundi, stjórnlagaþingi unga fólksins og almennt í samfélaginu um að forseti verði áfram til sem sameiningartákn – ef ekki varnagli og hemill gagnvart beitingu ríkisvalds.
  4. Meginatriði í mínum málflutningi og margra annarra stjórnlagaráðsfulltrúa um aukna valddreifingu eða temprun ríkisvalds sem fela má forseta samkvæmt fram komnum tillögum í ráðinu.
  5. Sjálfsagt er að tryggja að ábyrgð verði gerð gildandi gagnvart slíkum forseta með sama hætti og gert er í 11. gr. stjórnarskrárínnar og væntanlegum tillögum þannig að okkar þjóðhöfðingja megi víkja frá sem öðrum í sérstökum tilvikum.

Þessi markmið eða rök eiga síðan að leiðbeina okkur til tiltekinna hlutverka sem rétt sé að fela forseta Íslands í breyttri stjórnskipan.

… og áhrif

Í umræðum kom það mikilvæga sjónarmið fram að hvað sem liði formlegu valdi forseta Íslands samkvæmt stjórnarskrá mætti ekki gleyma töluverðu áhrifavaldi forseta Íslands þar sem hann hefði ekki einungis menningarlegri forystu að gegna heldur hefði hann að óbreyttu einnig gildispólitískt dagskrárvald.

Fimmta valdið – eftirlitsvald

Loks er ég enn skotinn í hugmyndum Erlings Sigurðarsonar, félaga míns, um að forseta verði falin einhvers konar vernd eða yfirumsjón eftirlitsstofnana gagnvart handhöfum framkvæmdarvalds.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , ,

Miðvikudagur 8.6.2011 - 07:00 - FB ummæli ()

Millimetraréttlæti?

Danir hafa hugtakið „millimeterretfærdighed“ sem ég þýði svona; það merkir – í heldur neikvæðri merkingu – réttlæti sem er svo nákvæmt og jafnaðarlegt að niðurstaðan kemur niður á rökréttu skipulagi og fyrirbyggir oft skynsamlega málamiðlun.

Til þessa vitna ég stundum þessa dagana þegar við í stjórnlagaráði – að vísu í annarri nefnd (C) en þeirri, sem ég sit í – ræðum (ekki hvort heldur) hvernig við jöfnum atkvæðavægi og þar með kosningarétt. Hvort sem það telst mannréttindamál eða ekki er ég hlynntur jöfnun atkvæðavægis – einkum ef það markmið næst án þess að koma á einu kjördæmi, sem ég er andvígur.

Mér sýnist raunar að í ásættanlega málamiðlun stefni í þessu efni; um málið verður fjallað á sameiginlegum nefndarfundi á morgun – og á fimmtudag fjallar stjórnlagaráð um tillögur nefndarinnar á opnum fundi.

Jafnt er ekki sama og jöfnun

Hitt er annað að jafnt atkvæðavægi er ekki endilega skynsamlegt markmið – þó að ég telji að flestir ef ekki allir stjórnlagaráðsliðar og meginþorri þjóðarinnar aðhyllist jöfnun atkvæðavægis; a.m.k. er nákvæmlega jafnt atkvæðavægi ekki raunhæft eða rétt markmið.

M.ö.o. tel ég að ekki megi draga úr möguleikum á að ná markmiðum (mínum a.m.k.) um bundin lágmarksáhrif landshluta með einhvers konar  kjördæmum (og tryggingu fyrir að nokkurt jafnræði sé með kynjunum á fulltrúasamkundum þjóðarinnar) með því að ríghalda í að atkvæðavægi skuli alltaf og alls staðar vera nákvæmlega jafnt – 1:1; ég tel markmiðið mikilvægara en millimetraréttlæti. Í dæmaskyni kasta ég því fram til tölfróðra og rökfastra lesenda að atkvæðamisvægi eftir jöfnun atkvæðavægis mætti vera allt að 1:1,2 ef það er nauðsynlegt í því skyni að ná framangreindum markmiðum um áhrif landshluta (og hlutdeild kynja).

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , ,

Þriðjudagur 7.6.2011 - 07:00 - FB ummæli ()

Er þjóð til?

Í stjórnlagaráði ræðum við þessa dagana hvort til skuli vera þjóðkirkja – eða öllu heldur hvort ríkið eigi – samkvæmt stjórnarskránni – að vernda hana, styðja o.s.frv. Ég hef mínar íhaldssömu skoðanir á því.

Víða álitamál

Um þetta er fjallað í nefnd (A) stjórnlagaráðs sem einkum fjallar um mannréttindi. Í annarri nefnd (C) er m.a. fjallað um „þjóðaratkvæðagreiðslur“ – hvort, hvenær, hvers vegna og hvernig þær eigi að fara fram. Í þeirri nefnd (B), sem ég sit í, er rætt um hver eigi að stjórna ríkinu (eða þjóðinni) og hvernig valdskipting og samskipti eigi að vera á milli þeirra.

Er hún til?

Hins vegar efast sumir um hvort þjóð sé til – og einn félagi minn í ráðinu hefur rökstutt afstöðu sína í því efni ágætlega hér.

Mig langar af þessu tilefni að spyrja ykkur – kæru lesendur – hvort íslenska þjóðin sé til – eða öllu heldur (þar sem ég held að svarið sé jákvætt) á hverju þið grundvallið það:

Hvað skilgreinir þjóðina?

Ég hef mína rökstuddu hugmynd um það og mun birta hana hér innan tíðar.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , ,

Mánudagur 6.6.2011 - 07:00 - FB ummæli ()

Frelsi vísinda og menntunar

Áhugaverð tillaga kom fram til kynningar í stjórnlagaráði í fyrri viku og verður væntanlega afgreitt í vikunni:

Tryggja skal með lögum frelsi vísinda, lista og æðri menntunar.

Í ræðu minni á fundi stjórnlagaráðs lýsti ég sérstakri ánægju með þetta ákvæði, auk fleiri athugasemda, og lét þess getið að ég teldi að í því fælist skylda löggjafans til þess að tryggja að ef leyfð yrði áfram kostun á rannsóknarstörfum eða kennslustöðum í háskóla þá yrði að tryggja með virkum hætti að akademísku frelsi væri ekki ógnað.

Ég tel að á þessu hafi verið misbrestur í mörg ár og ýmsum tilvikum – og get nefnt dæmi ef óskað er; því tel ég þetta góða tillögu um brýnt mál.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , ,

Föstudagur 3.6.2011 - 07:00 - FB ummæli ()

Rétti fylgi skyldur

Af mörgum gagnmerkum tillögum mannréttindanefndar (A), þar sem ég sit ekki sjálfur, er kynntar voru sl. föstudag í stjórnlagaráði, er ég hvað ánægðastur með þær, sem ég hef ljáð stuðning í orði og verki, og lúta að því að árétta að rétti fylgja skyldur – líka samkvæmt stjórnarskrá.

Almannaréttur

Sem dæmi má nefna er þetta ákvæði:

Almenningi er frjálst að fara um landið eins og lög leyfa.

Þarna segir að vísu ekki að almenningr eigi þá að ganga vel um landið – en það felst samkvæmt ákvæðinu í löggjöf og í öðru væntanlegu stjórnarskrárákvæði um að náttúra landsins sé friðhelg. Í þessum rétti almennings felst hins vegar skylda á eigendum lands – bæði opinberum sem einkaaðilum. Það er mikilvæg árétting og að mínu mati nýtur hún auk þess víðtæks stuðnings.

Þetta gildir vitaskuld ekki aðeins um hálendið okkar eða ósnortin víðerni – heldur einnig þéttbýli þar sem við á, sbr. athyglisverða grein á bls. 18 í Fréttablaðinu miðvikudaginn 25. maí sl.; í þéttbýli og á markverðum stöðum nærri samgöngum þarf almannavaldið að tryggja þeim, sem eiga erfitt um gang, raunverulegt aðgengi en það er önnur saga.

Eignarrétti fylgi skyldur

Annað merkilegt ákvæði er tillaga um að áréttað sé í stjórnarskrá, líkt og gert er í Þýskalandi, að rétti til eignar – sem hér hefur sögulega, pólitískt og lagalega verið afar sterkur – fylgi, eðli málsins samkvæmt, einnig skyldur. Í fyrstu tillögum nefndarinnar hljóðar þetta svo:

Eignarrétti fylgja lögbundnar takmarkanir og skyldur.

Sjálfur hef ég lagt til við formann nefndarinnar að þetta ákvæði verði umorðað svo – í samræmi við umræður í nefndinni og á fundi í stjórnlagaráði:

Eignarrétti fylgja skyldur, svo og takmarkanir í samræmi við lög.

Í þessu felst að eignarrétti – a.m.k. verulegum eða mikilvægum eignum – fylgi alltaf skyldu; þar sem þær séu eðli málsins samkvæmt þurfi ekki sérstaka löggjöf til að koma þeim á (en kannski útfæra). Nefndi ég dæmi úr veruleika okkar Íslendinga þessu til stuðnings í stjórnlagaráði. Sem almennt og óumdeilt dæmi um þetta má einnig nefna svonefndan nábýlisrétt – sem að miklu leyti er ólögfestur, hér sem víða erlendis.

Því til viðbótar má samkvæmt niðurlagsákvæðinu, á eftir kommu – hér eftir sem hingað til – ákveða takmörk eignarréttar með almennum lögum, svo sem um umhverfismál, skattamál, upptöku eigna eða annað.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , ,

Miðvikudagur 1.6.2011 - 07:00 - FB ummæli ()

Status quo í sambandi ríkis og kirkju

Í þessari viku er fjallað í nefnd (A) stjórnlagaráðs um mannréttindi o.fl. um tengsl ríkis og kirkju.

Sjálfur er ég ekki í þeirri nefnd og er auk þess fjarverandi nú en árétta mína afstöðu sem ég lýsti hér í ítarlegu máli og með rökstuddum hætti – en þess má geta að engin bloggfærsla mín fékk eins margar (og sterkar) athugasemdir að ég hygg í aðdraganda kosninga til stjórnlagaþings í nóvember í fyrra; ég var þó heiðarlegur í að gefa upp mína skýru afstöðu fyrirfram – þó að hún hafi kostað mig atkvæði eins og fram kemur í athugasemdum.

Þjóðin ráði – en úrlausn bíði kannski um stund

M.ö.o. tel ég rétt að þjóðin ákveði framtíðarskipan þessara mála í þjóðaratkvæðagreiðslu – án þess að stjórnlagaráð, Alþingi, ríkisstjórn eða aðrir handhafar ríkisvalds móti tillögur í því efni.

Ég tel hins vegar ekki brýnt að taka þetta heita ágreiningsmál á dagskrá alveg strax meðan við deilum um svo margt annað og leysum úr svo mörgum brýnum álitaefnum.

Varatillaga

Til vara má ræða að bráðabirgðaákvæði mætti setja í stjórnarskrá um að aðilum málsins – til þess bærum handhöfum ríkisvalds, fulltrúum þjóðkirkjunnar og eftir atvikum öðrum hagsmunaðilum – yrði gert að semja innan tiltekins árafjölda um

  • hvernig hugsanlegur frekari aðskilnaður ríkis og kirkju gæti átt sér stað,
  • hvenær,
  • með hvaða réttaráhrifum og semja um
  • viðbrögð við þeim samfélagslegu áhrifum sem slík breyting gæti haft.

Slíkt bráðabirgðaákvæði má þó ekki svipta þjóðina þeim rétti sem hún hefur til þess að velja – af eða á – hvort hér verði tengslum ríkis og kirkju breytt. Um þetta sagði ég:

Það er svo til marks um fremur lélega “lagatækni” að á allt öðrum stað í stjórnarskránni, þ.e. í lok hennar, kemur fram að ef Alþingi samþykki “breytingu á kirkjuskipun ríkisins” skuli þjóðin taka afstöðu til þeirrar breytingar í sérstakri þjóðaratkvæðagreiðslu um það mál – en stjórnarskrárbreyting er, sem sagt, óþörf.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , ,

Þriðjudagur 31.5.2011 - 07:00 - FB ummæli ()

Fjármál stjórnmálaflokka í stjórnarskrá

Eitt eigum við eftir að ræða í stjórnlagaráði; það er hvort og hvernig tekið verði á fjármálum stjórnmálaflokka í stjórnarskrá.

Þrjár ástæður – hið minnsta

Um það gildir hið sama og um kosningakerfi fyrir alþingiskosningar og þvíumlíkt að þingmenn og stjórnmálaflokkar eru ófærir til þess að sinna því brýna verkefni. Það má sjá af þrennu hið minnsta:

  • Eðli málsins; málið varðar þessa aðila of miklu, sbr. vanhæfissjónarmið.
  • Brýn tilefni; þ.m.t. þau sem komu fram um svipað leyti og hrunið varð og upplýstust betur eftir hrunið.
  • Slælegan árangur; aðeins síðustu fimm ár hafa gilt væg lög um efnið – og það eftir áratugatilefni og áralanga baráttu umbótaafla.

Mér rennur blóðið til skyldunnar – einkum hvað hið síðarnefnda varðar – eins og ég mun væntanlega árétta betur síðar.

Þrjár leiðir – eða fleiri?

Því hef ég nefnt það óformlega við félaga mína í stjórnlagaráði að fjármál stjórnmálaflokka verðum við í ráðinu að ræða fyrr en síðar og meta hvort og hvernig unnt er að taka á þessu máli í stjórnarskránni sem svo megi útfæra nánar í lögum eftir atvikum.

Í fljótu bragði virðist mér að með þrennum hætti sé unnt að stjórnarskrárbinda takmörk um fjárframlög til stjórnmálaflokka – ef slíkt á að gera í stjórnarskrá eins og ég hallast, sem sagt, eindregið að:

  1. Aðeins hið opinbera (fyrst og fremst löggjafinn og e.t.v. sveitarstjórnir) megi – og eigi væntanlega að – styrkja stjórnmálahreyfingar.
  2. Sama og í 1. tl. – að viðbættum einstaklingum – sem nemur hóflegum (jafnvel tilteknum) fjárhæðum; lögaðilum verði því óheimilt að styrkja stjórnmálahreyfingar.
  3. Allt verði heimilt – svo fremi sem algert gagnsæi sé tryggt, t.d. að allir styrkir verði gefnir upp opinberlega nær samtímis – og örugglega nokkru fyrir kosningar – svo að kjósendur viti um styrkina áður en þeir ákveða (hvort og) hvernig þeir verja atkvæði sínu. Slíka leið hefur Jónas Kristjánsson talið hina réttu í nýlegri bloggfærslu.

Einnig um nýja flokka og hreyfingar um þjóðaratkvæðagreiðslur

Tel ég rétt að skoða hvort slíkar reglur eigi einnig að setja um stjórnmálahreyfingar sem eru nýjar – og því ekki enn með styrkja“kvóta“ vegna sitjandi þingmanna og sveitarstjórnarfulltrúa. Þá mætti velta fyrir sér hvort sambærilegar styrkjareglur eigi að setja í stjórnarskrá um málefnahreyfingar, t.d. já- og nei-hreyfingar í þjóðaratkvæðagreiðslum – sem væntanlega verða raunhæfari ef hugmyndir, sem til umræðu eru í stjórnlagaráði, ná fram að ganga.

Hvað finnst ykkur?

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , ,

Mánudagur 30.5.2011 - 07:00 - FB ummæli ()

Sanngjörn laun verði stjórnarskrárvarin

Gaman var að ganga smá í mannréttindagöngu sl. laugardag – daginn eftir að mannréttindanefnd (A) stjórnlagaráðs kynnti síðari hluta megintillagna sinna í stjórnlagaráði um umbætur á mannréttindakafla stjórnarskrárinnar – að viðbættum ákvæðum um auðlindir og náttúruvernd o.fl.

Skýrt hugtak um þjóðareign mikilvægt nýmæli

Ég skrifaði fyrir helgi um það mikilvægasta í þessu efni að mínu mati – að þjóðareign auðlinda sé fest í stjórnarskrá með skýru lagalegu hugtaki. Einnig má um það fræðast hér í ræðu Þorvaldar Gylfasonar á sama fundi.

Nú langar mig að vekja athygli á nýmæli í tillögum nefndarinnar sem er nær mínu áhuga- og sérsviði – en ég tek fram að ég sit ekki í nefndinni og á ekki heiður af þessari góðu tillögu til stjórnlagaumbóta, ef af verður.

Samningsréttur stjórnarskrárvarinn nú þegar

Í atvinnufrelsisákvæði stjórnarskrárinnar er ákvæði – síðan 1995 – um að í lögum skuli kveða á um rétt til þess að semja um starfskjör og önnur réttindi tengd vinnu.

Því hef ég stundum reynt að beita í hagsmunagæslu og lögmannsstörfum fyrir launafólk – en sakna þess að aðrir lögmenn geri ekki slíkt hið sama og að í úrlausnum dómara og annarra sé ekki næg meðvitund um þetta nýmæli í stjórnarskrá.

Sanngjörn laun verði stjórnarskrárvarin

Þess þá heldur fagna ég að við þetta ákvæði er í tillögum mannréttindanefndar (A) í stjórnlagaráði er lagt til að bætist að löggjafanum beri einnig að tryggja rétt til

mannsæmandi vinnuskilyrða

og

sanngjarnra launa

auk þess sem áður var nefnt, samningsréttar um réttindi og kjör.

Þá myndi ákvæðið hljóða svo – samkvæmt fyrstu tillögum nefndarinnar, til kynningar:

Í lögum skal kveða á um rétt til mannsæmandi vinnuskilyrða, sanngjarnra launa og til að semja um starfskjör og önnur réttindi tengd vinnu.

Aðilar vinnumarkaðarins útfæri

Svo breytt ákvæði virðist feta vel meðalveg þess að tryggja grundvallarréttindi í stjórnarskrá en leyfa viðsemjendum á vinnumarkaði að útfæra eftir sinni sérþekkingu, tengslum sínum við viðfangsefnið og áherslum hverju sinni meginatriði á vinnumarkaði.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , ,

Föstudagur 27.5.2011 - 20:16 - FB ummæli ()

Víst er „þjóðareign“ til

Í tillögum mannréttindanefndar (A) í stjórnlagaráði, sem kynntar voru á fundi stjórnlagaráðs í dag – við góðar undirtektir – felast mörg afar merk nýmæli; hér vil ég aðeins gera eitt hið stærsta að umtalsefni, þ.e. þetta:

Náttúruauðlindir

Náttúruauðlindir Íslands eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar. Þær ber að nýta á sjálfbæran hátt til hagsbóta öllum landsmönnum. Enginn getur fengið þær til varanlegrar eignar eða afnota og því má aldrei selja þær eða veðsetja.

Handhafar löggjafar- og framkvæmdarvalds vernda auðlindirnar og geta veitt leyfi til afnota eða hagnýtingar þeirra gegn fullu gjaldi og til hóflegs tíma í senn. Slík leyfi leiða aldrei til eignarréttar eða óafturkallanlegs forræðis yfir auðlindunum.

Auðlindir hafs og hafsbotns innan íslenskrar lögsögu eru þjóðareign. Til auðlinda í þjóðareign teljast jafnframt náttúrugæði, sem ekki eru í einkaeigu, svo sem nytjastofnar, landsvæði, vatns- og virkjunarréttindi og jarðhita- og námaréttindi.

Hvað þýðir þetta?

Fyrir utan ýmsar smávægilegar athugasemdir frá mér og fleirum og efnislegar ábendingar og spurningar var stærsta atriðið, sem til umræðu var í dag – og oft áður sem víða – þetta:

Er eitthvað til sem heitir „þjóðareign“?

Stutta svarið

Stutta svarið er:

Já.

Þorvaldur Gylfason rakti það mjög vel í sinni ræðu, sem fyrr, að fyrir þjóðareignarhugtakinu væru góð og gild fordæmi – m.a. úr löggjöf um Þingvelli – þar sem er svohljóðandi ákvæði:

Hið friðlýsta land skal vera undir vernd Alþingis og ævinleg eign íslensku þjóðarinnar. Það má aldrei selja eða veðsetja.

Um sama leyti rakti Egill Helgason fleiri fordæmi fyrir hugtakinu úr löggjöf okkar.

Rétta svarið

Rétta svarið er hins vegar að auðvitað er það stjórnarskrárgjafinn – þ.m.t. sá aðili sem Alþingi hefur falið frumkvæði í því efni, þ.e. stjórnlagaráð – sem ákveður eða leggur til við þjóðina hvaða hugtök skuli til og nýtt í þágu þjóðar í þessu sambandi sem öðru, svo fremi sem þau séu rökleg og gangi upp. Þorvaldur rakti það einmitt í sinni ræðu að munurinn á ríkiseign, sem einstaka fulltrúar í stjórnlagaráði o.fl. hafa gert að umtalsefni, og þjóðareign – væri sá að þjóðareign mætti samkvæmt tilvitnuðu ákvæði ekki selja. Ríkiseignir má hins vegar selja – t.d. fasteign að uppfylltum skilyrðum – eins og ég benti á; skilyrðið samkvæmt stjórnarskránni er: lagaheimild.

Pólitíska svarið

Eins og ég hef bent á – og fleiri – er auk þess ljóst að dr. Gunnar Thoroddsen – sem var ekki aðeins varaformaður Sjálfstæðisflokksins um árabil, forsætisráðherra 1980-1983 heldur einnig prófessor í stjórnskipunarrétti árum saman og hæstaréttardómari um skamma hríð, svo og sá þingmaður sem á áratugaþingferli sínum sinnti helst og mest endurskoðun stjórnarskrárinnar – lagði til orðalag sem þetta; á bls. 545 í nýrri bók dr. Guðna Th. Jóhannessonar um Gunnar Thoroddsen er þetta haft eftir þingmálum hans og stjórnarskrárvinnu sem stóð áratugum saman og lauk ekki fyrr en rétt fyrir lok forsætisráðherratíðar hans og andlát:

„Þá skuli bundið í stjórnarskrá að „náttúruauðlindir landsins“ séu „ævarandi eign Íslendinga“ og „auðlindir hafs og hafsbotns innan íslenskrar lögsögu“ að eilífu „þjóðareign“.

Kvikindislega svarið?

Vandamálið er, sem sagt og samkvæmt framangreindu, ekki að hugtakið gangi ekki upp – þ.e. hvorki skortur á

  • sögulegri skírskotun,
  • röklegu samhengi,
  • pólitískri þýðingu eða
  • lagalegri merkingu

– heldur rötuðust mér þau orð á munn, sem vöktu nokkra ánægju félaga minna í stjórnlagaráði, er ég tók undir með félaga mínum, Þorvaldi Gylfasyni, að þótt hugtakið „þjóðareign“ hefði ekki verið kennt í lagadeild háskólans í lögfræðinámskeiðinu eignarrétti þá gæti stjórnlagaráð lagt til slíkt merkingarbært hugtak; kennslu í lagadeildum yrði í kjölfarið að breyta í samræmi við slíka stjórnarskrárbreytingu.

Þar sagði ég orðrétt:

Þarna er komin skýring á þessu umdeilda hugtaki; þjóðareign er, sem sagt, sú tegund af almannaeign sem má aldrei selja. […] það er einmitt frábrugðið þeim ríkiseignum sem [ýmsir bentu á] að mætti einmitt selja. […]

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , ,

Fimmtudagur 26.5.2011 - 23:57 - FB ummæli ()

Takmörk við þrásetu ráðherra

Eitt af mörgum stórum – og smærri – umbótamálum sem við í stjórnlagaráði ræddum í dag var að takmarka bæri í stjórnarskrá hve lengi ráðherra mætti sitja í embætti.

Tillaga okkar til kynningar hljóðaði svo:

Enginn getur setið í embætti forsætisráðherra lengur en 10 ár samtals.

Sú tillaga er í samræmi við ein skýrustu skilaboðin frá þjóðfundi sl. haust – og almennt skynja ég mikinn stuðning við þá tillögu meðal þjóðarinnar.

Á að sleppa þessu…

Ágreiningurinn meðal stjórnlagaráðsfulltrúa – eða öllu heldur álitamálið, því að í ráðinu og á nefndarfundum lýsum við oftast skoðunum okkar sem málefnalegum áherslumun en ekki í átakastíl – lýtur að útfærslunni.

Ekki virðast nefnilega margir mótfallnir slíkri takmörkun þó að einstaka ráðsfulltrúi vilji ganga skemmra og treysta á að

  • aukinn hlutur Alþingis í eigin löggjafarvaldi,
  • styrking eftirlitshlutverks Alþingis og
  • fjölmargar tillögur okkar að valddreifingu

dragi bæði úr vilja og möguleikum ráðherra til þess að sitja lengur en æskilegt er – og þar með úr líkindum á því.

Ég skil þá afstöðu og tek undir rökin – en vil til öryggis og að gefnu tilefni, m.a. frá þjóðfundi, sem áður segir, tryggja þetta í stjórnarskrá.

… eða ganga lengra?

Þá heyrast einnig þær raddir að rétt sé að ganga lengra og takmarka formlega í stjórnarskrá setutíma alþingismanna; sú skoðun virðist í miklum minnihluta – af tveimur ástæðum:

  1. Margir telja að aukinn möguleiki á persónukjöri, sem víðtæk samstaða virðist um í ráðinu þó að tillögur hafi enn ekki litið dagsins ljós, muni sjá fyrir þessu þannig að slæmum þingmönnum verði skipt út – og góðum haldið.
  2. Þá telja margir að ekki sé vanþörf á að á Alþingi sitji ekki aðeins nýgræðingar og byrjendur heldur fólk sem hefur þingreynslu – sem auðveldar þeim að eiga í fullu tré við reynda ráðherra og embættismenn – og ekki síst hagsmunagæsluaðila – sem oft hafa gríðarlega reynslu að baki og margs konar úrræði.

Ég tek undir þessi gagnrök og tel ástæðulaust að stjórnarskrárbinda takmörk við setu fólks á þingi, með framangreindum röksemdum. Því til viðbótar má nefna að ég þekki ekki til fordæma um að takmörkun við setutíma þingmanna sé stjórnarskrárbundin.

Hvað með aðra ráðherra?

Meðal þess sem rætt var í dag var hvort takmörk á setutíma ættu að vera bundin við forsætisráðherra og hvort setutími ráðherra ætti að vera tiltekinn samtals eða samfleytt; tillaga okkar í valdþáttanefndinni (B) var, sem sagt, að hann skyldi vera „samtals“ – en í meðförum málsins í gær kom fram góð málamiðlunartillaga frá Þórhildi Þorleifsdóttur sem hljóðar svo:

Enginn getur gegnt sama ráðherraembætti lengur en 8 ár samfleytt. Enginn getur gegnt ráðherraembætti lengur en í 12 ár samtals.

Slíkt ákvæði uppfyllir að mínu mati eftirfarandi mikilvæg markmið:

  1. Markmiðið um takmörkun á embættistíma ráðherra næst fram.
  2. Ekki er gengið of langt í að hafna starfskröftum reyndra ráðherra.
  3. Mismunur er gerður á samfelldri ráðherrasetu og ráðherradómi samtals.
  4. Tryggt er að enginn sé í sama ráðherraembætti lengur en 8 ár (tvö kjörtímabil).
  5. Auðvelt er að starfsreynsla í einu ráðherraembætti nýtist í öðru – þ.m.t. í hinu mikilvæga embætti forsætisráðherra; ég hef nefnt því til stuðnings að í formannsembætti í samtökum, sem ég starfaði fyrir um tíma, teljist stjórnarstörf ekki með við talningu á hámarksárafjölda sem formaður.
  6. Engu að síður er ekki gerður formlegur munur á fagráðherra og forsætisráðherra – og þannig komið til móts við sjónarmið í stjórnlagaráði í dag um að ekki sé t.d. heldur gott að utanríkisráðherra sé lengi sá sami.

Reynslan

Hvað 5. tl. varðar hef ég nefnt að af síðustu fimm forsætisráðherrum var aðeins einn – DO – 1991, sem hlaut það embætti beint án fyrri ráðherrareynslu – og raunar án þess að hafa áður setið á Alþingi. Hinir fjórir

  • SH – 1988
  • HÁ – 2004
  • GHH – 2006
  • JS – 2009

urðu forsætisráðherrar eftir langa þingreynslu og margháttaða reynslu af öðrum ráðherraembættum.

Samræming við setutíma forseta Íslands

Loks hafa sumir imprað á því að sjálfsagt sé að meta í kjölfarið og til samræmis hvort takmarka eigi setutíma forseta Íslands – en það fer svolítið eftir hlutverki hans í nýrri stjórnarskrá; miðað við tillögur okkar í valdþáttanefnd (B) stjórnlagaráðs og nefnd (C) sem fjallar m.a. um beint lýðræði virðist stefna í að forsetaembættið verði fremur valdalítið ef tillögur stjórnlagaráðs verða samþykktar af þjóðinni.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , ,

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur